Hoppa yfir valmynd
11. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 11. október 2019

Heil og sæl og gleðilegan föstudag!

Hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í norðanverðu Sýrlandi eru stærsta frétt þessarar viku. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda hafa ekki látið á sér standa. Strax og hernaðurinn hófst sendi utanríkisráðherra frá sér yfirlýsingu á Twitter þar sem hann lýsti yfir þungum áhyggjum og morguninn eftir var formlegum mótmælum komið á framfæri við stjórnvöld í Tyrklandi. Þar eru aðgerðirnar harðlega gagnrýndar og árásir á almenna borgara fordæmdar. 

Utanríkisráðherra fór ásamt fríðu föruneyti í vinnuheimsókn til Síerra Leóne í vikunni. Þar kynnti hann sér þróunarsamvinnuverkefni Íslands í landinu á sviði sjávarútvegs- og jafnréttismála og hitti ráðamenn til að ræða þróunarsamvinnu landanna.

Á miðvikudag var haldinn í Iðnó fundur Norðurskautsráðsins og Efnahagsráðs norðurslóða en þetta er í fyrsta sinn sem ráðin koma saman. Fundurinn er liður í þeirri stefnu að auka samstarf milli ráðanna tveggja en hann var sóttur af fulltrúum aðildarríkja Norðurskautsráðsins, vinnuhópa ráðsins, fastafulltrúum frumbyggjasamtaka á norðurslóðum og fulltrúum viðskiptalífs.

Nú stendur yfir hin árlega ráðstefna Arctic Circle og að vanda er mikið um dýrðir. Utanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnuna í dag en hefur auk þess átt fjölmarga tvíhliða fundi. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna og John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eru á meðal þeirra sem hann fundar með.

Í gær fór svo fram í Veröld – húsi Vigdísar alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Höfða friðarseturs, í samstarfi við utanríkisráðuneytið og jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna. Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri flutti þar ávarp.

Af vettvangi sendiskrifstofanna segjum við meðal annars frá því að fransk-íslenska viðskiptaráðið, í samstarfi við sendiráð Íslands í París, efndi til málþings í sendiherrabústaðnum sl. mánudag um þær áskoranir sem Frakkland stendur frammi fyrir í málefnum er varða Brexit. 

Nú er nýyfirstaðin vikulöng ferð íslenskrar viðskiptasendinefndar til Fjarausturhéraða Rússlands. Ferðin þótti vel heppnuð og vonir um að hún skili enn fleiri viðskiptasamningum fyrir íslensku fyrirtækin við rússneska aðila. Sendiráð Íslands í Moskvu og Íslandsstofa skipulögðu förina.

Handan dagalínunnar, í Washington DC nánar tiltekið, stóðu sendiráð Íslands í borginni, aðalræðisskrifstofan í New York, Íslensk-ameríska viðskiparáðið og fleiri fyrir viðskiptastefnu.

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, ávarpaði 2. nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í vikunni þar sem hann ræddi loftslagsmál og sjálfbærni svo fátt eitt sé nefnt.

Á fundi Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) greindi Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í Genf, frá framlagi Íslands við móttöku flóttamanna og kallaði eftir því að stofnunin einbeitti sér enn frekar að vernd viðkvæmra hópa, sérstaklega hinsegin flóttamanna.

Gunnar Pálsson sendiherra og Lilja Borg Viðarsdóttir sendiráðunautur sóttu í fjarveru dómsmálaráðherra fund ráðherraráðs ESB með Schengen-samstarfsríkjunum í Lúxemborg í vikunni. Þar var meðal annars skipst á skoðunum um stöðuna í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamannamálum álfunnar um þessar mundir.

Í gær hitti Unnur Orradóttir, sendiherra Íslands í Kampala, aðstoðarrektor Makerere-háskóla og ræddu þau meðal annars samstarfs háskólans við Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Pétur Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Ottawa, tók þátt í fundi um efnahagsmál í Bresku Kólumbíu  sem haldinn var fyrir erlenda sendiherra í Kanada.

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Helsinki, opnaði formlega The Visitors, sýningu Ragnar Kjartanssonar myndlistarmanns, í Kiasma-nýlistasafninu í Helsinki í gærkvöld.

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzó-sópran og Edda Erlendsdóttir píanóleikari héldu fallega og fjölbreytta tónleika í sendiherrabústaðnum í París í gær. 29. September kom Bryndís Guðjónsdóttir sópransöngkona fram á húskonsert í bústað Guðna Bragasonar fastafulltrúa í Vínarborg.

Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra í Ósló, vakti stormandi lukku þegar hún heimsótti 60+ hópinn hjá íslenska söfnuðinum í borginni í vikunni.

Sendiráðið í Brussel fékk góða gesti í vikunni þegar stjórn Samtaka iðnaðarins leit þar inn. Hún fékk kynningu á starfsemi sendiráðsins og fastanefndarinnar og því hvernig hagsmunagæsla vegna framkvæmdar EES samningsins fer fram.

Sendiherra Ástralíu, Mary Ellen Miller, ásamt sendiherrum ríkja sem fara með fyrirsvar gagnvart Íslandi, buðu Helgu Hauksdóttur, sendiherra Íslands, velkomna til starfa í síðustu viku.

Trúnaðarbréf nýrra forstöðumanna sendiskrifstofanna eru nú öll komin í hús en afhendingarnar voru teknar saman í frétt sem birtist á Stjórnarráðsvefnum í vikunni.

Í dag hefur svo starfsfólk utanríkisráðuneytisins, með ráðherra í fylkingarbrjósti, klæðst bleiku til að láta í ljós stuðning og samstöðu með öllum konum sem greinst hafa með krabbamein. Bleikur ís og bleik kaka var á boðstólum mötuneytisins í dag.

Fyrir okkur í upplýsingadeildinni er svo sérstaklega gaman að segja frá því að í vikunni litu nýir kunningjar loks dagsins ljós, þau Brynjar og Guðný. Þessi skemmtilegu myndbönd eru liður í kynningu á EES-samningnum í tilefni þess að í ár er aldarfjórðungur liðinn frá gildistöku hans. Stýrihópur frá upplýsingadeild, viðskiptaskrifstofu og fastanefndinni í Brussel er á bak við þetta. Við hvetjum ykkur öll til að skoða myndböndin og deila þeim helst áfram! Fleiri slíkir kunningjar eiga eftir að skjóta upp kolllinum á næstunni.

Dagskrá utanríkisráðherra í næstu viku er venju samkvæmt þétt. Á mánudag fer hann á fund utanríkismálanefndar til að ræða um stöðu mála í Sýrlandi. 

Á þriðjudaginn fundar ráðherra með Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og segir frá nýlegri ferð til Grænlands. Síðdegis flytur hann árlega skýrslu um EES mál á Alþingi og kynnir um leið nýútkomna EES skýrslu.

Á miðvikudag heldur utanríkisráðherra á norrænan ráðherrafund sem haldinn er í Berlín í tilefni af tuttugu ára afmæli sambýlis norrænu sendiráðanna í borginni. Þá funda norrænu ráðherrarnir einnig með Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. 

Í lok vikunnar sækir ráðherra svo ársfundur þróunarnefndar Alþjóðabankans í Washington DC.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum