Hoppa yfir valmynd
28. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 28. maí 2021

Heil og sæl.

Vikan sem er að líða var töluvert rólegri en sú síðasta sem gerð var upp hér fyrir þau sem misstu af síðasta föstudagspósti. Það er reyndar alveg þess virði að rifja ráðherrafund Norðurskautsráðsins upp stuttlega með þessu ágæta myndskeiði þar utanríkisráðherrar Norðurskautsráðsins þakka formennskuteymi Íslands sl. tvö ár fyrir vel unnin störf:

Efst á baugi í þessari viku var fundur EES-ráðsins sem fór fram í dag þar sem samvinna ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu í baráttu við kórónuveirufaraldurinn og afleiðingar hans voru í brennidepli. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra stýrði fundinum af hálfu EFTA-ríkjanna í EES. Í almennum umræðum um alþjóðamál var einnig rætt um áhrif faraldursins á heimsvísu, auk umræðna um Rússland sem og um tengsl loftslagsmála og öryggimála.

Á miðvikudag tók ráðherra þátt í samráðsfundi UNESCO á milli norrænu þróunarmálaráðherranna og framkvæmdastjóra UNESCO, Audrey Azouley.

„UNESCO hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri uppbyggingu sem nú fer í hönd í kjölfar heimsfaraldursins,“ sagði Guðlaugur Þór. „Víða er vegið að mannréttindum, tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna og störf UNESCO munu skipta miklu máli þegar kemur að því  að sporna við þessari þróun.“

Í gær opnaði Guðlaugur Þór rafrænan viðskiptafund Eistlands og Íslands sem haldinn var að frumkvæði sendiráðs Íslands í Helsinki og utanríkisráðuneytis Eistlands. Fjártæknigeirinn var efstur á baugi.

Í gær tók ráðherra sömuleiðis þátt í vefráðstefnu um loftslagsmál sem haldin var á vegum norrænu sendiráðanna í London, Norrænu ráðherranefndarinnar og Chatham House í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26.

Guðlaugur Þór var jafnframt í fjölmiðlum í vikunni í tengslum við fréttir um hvítrússneska stjórnaraandstæðinginn Roman Protasevich sem var um borð í farþegaflugvél sem þvinguð var til lendingar í Minsk en átti að lenda í Litháen.

Þessi atburðarás er náttúrulega með slíkum ólíkindum að það er ótrúlegt að fylgjast með þessu og þessar skýringar sem stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi gefa standast enga skoðun, það er augljóst að það er verið að senda illa dulbúin skilaboð til aðila að ef þeir gagnrýni Lukashenko hafi þeir verra af,“ var m.a. haft eftir Guðlaugi Þór á Vísi en hann tísti einnig um málið sl. sunnudag.

Alarmed by reports of #Ryanair being forced to land in #Minsk#Pratasevich must be released immediately and passengers allowed to continue to their destination.

 

Sendiherrar erlendra ríkja í Reykjavík lögðu leið sína á Rauðarárstíginn í vikunni og sóttu kynningu um nýafstaðinn ráðherrafund Norðurskautsráðsins. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri bauð gestina velkomna en svo kynntu þau Einar Gunnarsson sendiherra og Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir deildarstjóri norðurslóðamála formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, ráðherrafundinn í Hörpu og nýsamþykkta norðurslóðastefnu Íslands.

Þá að starfsemi sendiskrifstofa okkar.

Okkar fólk í París ásamt alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu var með tvíhliða og norrænt þróunarsamráð með UNESCO í vikunni . Í París fundaði einnig vinahópur UNESCO um jafnréttismál sem Unnur Orradóttir-Ramette sendiherra Íslands í París gegnir formennsku í.

Þá fundaði sendiherra með fulltrúum íslenska lækningavörufyrirtækisins Kerecis. Fyrirtækið vinnur nú að spennandi rannsóknarverkefnum í Frakklandi en það framleiðir svokallað sáraroð sem unnið úr þorskroði og hefur sannað sig sem öflug leið til að græða sár.

Í Danmörku sóttu sendiherrahjón Árósa heim, ásamt menningar- og viðskiptafulltrúa sendiráðsins:


Sendiráðið birti einnig kveðju frá utanríkisþjónustunni vegna andláts Kristínar Oddsdóttur Bonde sem hóf störf í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn árið 1990 og starfaði þar í rúma tvo áratugi.

Í Genf hefur arkitektinn og myndlistarmaðurinn Guðjón Bjarnason opnað sýningu í sendiráðsbústað Íslands þar í borg sem kallast IslAND. Þar tekst Guðjón á við málefni sjálfbærni og samband manns og náttúru.

Í sendiráðinu í Berlín er okkar fólk afar spennt fyrir úrslitaþætti Let's dance þar sem íslenski knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason er á meðal keppenda.

Í Noregi heldur söngvarinn Natar Dagur svo kyndli okkar Íslendinga á lofti í The Voice Norway og flaggar okkar fólk í sendiráðinu að sjálfsögðu þessum góða árangri. Þar á bæ var því einnig fagnað að geta hist í eigin persónu. Eftir fjölmarga fjarfundi undanfarin misseri áttu sendiherrar Norðurlanda í Osló morgunverðarfund með Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra Noregs í embættisbústað finnska sendiherrans í Noregi. Til umræðu voru m.a. ýmis alþjóða- og öryggismál.

Við segjum þetta gott í bili!

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum