Hoppa yfir valmynd

Forsjá barns

Barn á lögum samkvæmt rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja. Mörg ár eru síðan hætt var að segja í lögum að foreldrar hefðu forræði yfir börnum sínum. Með orðinu forsjá er lögð áhersla á umönnunar- og verndarþátt foreldraskyldna.

Forsjá barns felur bæði í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barnsins og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns t.d. í dómsmáli.

Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og þeim ber að vernda barnið gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Foreldrar eiga ávallt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum eins og best hentar hag og þörfum barns síns og þeim ber að hafa samráð við barnið áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Afstaða barns á að hafa aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Almennt um inntak sameiginlegrar forsjár

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns eiga þeir að taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barnið.

Foreldrar, sem fara saman með forsjá barns en búa ekki saman, eiga alltaf að leitast við að hafa samráð áður en teknar eru afgerandi ákvarðanir um málefni barns er varða daglegt líf þess, til dæmis um hvar það skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, um venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf.

Það er á hinn bóginn foreldrið, sem barnið á lögheimili hjá (lögheimilisforeldrið), sem hefur heimild til ákvarðanatöku um framangreind málefni. Á þá heimild getur reynt ef ágreiningur rís.

Ef annað forsjárforeldra barns getur ekki sinnt forsjárskyldum sínum einhverra hluta vegna, til dæmis vegna tímabundinna veikinda, eru ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar, enda teljist þær nauðsynlegar.

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns síns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Það á við hvort sem um lengri eða skemmri dvöl er að ræða. Ef annað foreldra fer með barn úr landi án samþykkis hins getur það talist ólögmætt brottnám barns. Þá getur foreldrið sem ekki gaf samþykki sitt leitað til dómsmálaráðuneytisins og fengið leiðbeiningar um hvernig eigi að snúa sér í því að fá barninu skilað til Íslands. Um brottnámsmál er fjallað hér á vefnum.

Ef foreldrar fara saman með forsjá barns og annað þeirra vill fara með barnið í ferðalag til útlanda, til dæmis í sumarfrí, en hitt samþykkir það ekki, er hægt að leita til sýslumanns í umdæmi þar sem barn býr og hann úrskurðar í málinu.

Hverjir fara með forsjá barns?

Forsjá barns getur ýmist verið lögbundin, ákveðin með samningi eða með dómi.

Lögum samkvæmt fara foreldrar í hjúskap sameiginlega með forsjá barns síns.

Sama á við um foreldra sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá, þeir fara sameiginlega með forsjá barns.

Móðir fer á hinn bóginn ein með forsjá barns síns ef hún er hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barnsins – nema annað sé ákveðið með samningi eða dómi.

Stjúpforeldri getur farið með forsjá stjúpbarns síns undir sérstökum kringumstæðum. Nánar er vikið að forsjá stjúpforeldra síðar.

Í sumum tilvikum fara aðrir en foreldrar með forsjá barns til dæmis ef foreldrar fela einhverjum öðrum að fara með forsjána.

Forsjá við skilnað eða slit skráðrar sambúðar

Eins og fram kemur hér að framan er forsjá sameiginleg ef foreldrar barns eru í hjúskap eða skráðri sambúð. Forsjáin heldur áfram að vera sameiginleg eftir skilnað foreldranna eða slit skráðrar sambúðar - nema annað sé sérstaklega ákveðið. Foreldrar verða á hinn bóginn við samvistarslit að skýra sýslumanni frá því hjá hvoru þeirra barnið á að eiga lögheimili eftir samvistarslit. Barnið telst hafa fasta búsetu þar sem það á lögheimili.

Lögum samkvæmt ber sýslumanni að leiðbeina foreldrum um inntak sameiginlegrar forsjár og um þau réttaráhrif sem skráning lögheimilis barns hefur í för með sér – enda er réttarstaða lögheimilisforeldris önnur en réttarstaða umgengnisforeldris. Lögheimilisforeldri hefur ríkari heimildir til ákvarðanatöku um málefni barns en umgengnisforeldri svo sem að framan greinir.

Ef foreldrar af einhverjum ástæðum vilja ekki að forsjá barns þeirra verði áfram sameiginleg eftir samvistarslit geta þeir samið um að annað þeirra fari með forsjána. Sýslumaður verður að staðfesta slíkan samning - eins og aðra samninga um forsjá.  

Ef ágreiningur rís um forsjá eða lögheimili barns í tengslum við samvistarslit geta foreldrar borið ágreininginn undir dómara, sbr. nánar hér síðar.

Forsjá við andlát forsjárforeldris

Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns við andlát annars þeirra fer eftirlifandi foreldri áfram með forsjá barnsins eftir andlát hins. Þetta á við hvort sem foreldrar eru í hjúskap, skráðri sambúð eða fara saman forsjá barns án þess að búa saman.

Ef foreldri deyr, sem farið hefur eitt með forsjá barns síns, færist forsjá barnsins sjálfkrafa til eftirlifandi foreldris við andlát forsjárforeldrisins.

Ef þannig háttar til að kynforeldri, sem farið hefur eitt með forsjá barns síns, hefur samið við stjúpforeldri barnsins um sameiginlega forsjá, og kynforeldrið deyr, þá helst forsjá barnsins sjálfkrafa hjá stjúpforeldrinu eftir andlát kynforeldrisins.

Framangreindar reglur eru meginreglur. Það er hægt, með samningi eða dómi að fela öðrum forsjá barns ef það er talið barni fyrir bestu. Þannig getur til dæmis forsjárlaust foreldri óskað eftir að fá forsjá barns síns í þeim tilvikum þegar forsjá verður sjálfkrafa í höndum stjúpforeldris eftir andlát foreldris. Um þetta er því hægt að semja eða, ef ekki vill betur, fá úrlausn dómara.

Þá ber að geta þess að forsjárforeldri eða  forsjárforeldrar geta, með skriflegri og staðfestri yfirlýsingu, ákveðið hverjir skuli fara með forsjá barns þeirra eftir andlát þeirra Ef foreldrarnir undirrita slíka yfirlýsingu skal fara eftir því sem þeir ákveða – nema annað þyki barni fyrir bestu. Breyting á forsjá barns, við fráfall forsjárforeldris í samræmi við óskir foreldris samkvæmt framansögðu, verður annað hvort gerð með samningi, milli þess aðila sem fær forsjá barns sjálfkrafa og hins sem forsjárforeldri hefur ákveðið að forsjá skuli falla til, eða með dómi. 

Ef barn verður forsjárlaust vegna andláts forsjárforeldris eða foreldra færist forsjá þess sjálfkrafa til barnaverndarnefndar.

Samningar um forsjá og lögheimili

Foreldrar geta ávallt samið um forsjá barna sinna. Til þess að samningur foreldra um forsjá öðlist gildi þarf sýslumaður að staðfesta hann.

Sameiginleg forsjá

Foreldrar geta samið um að fara sameiginlega með forsjá barns þegar lögum samkvæmt forsjáin yrði aðeins í höndum annars foreldris. Þetta á til dæmis við þegar móðir er hvorki í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns. Hún og faðir barnsins geta samið um að fara saman með forsjána. Barnið á alltaf lögheimili hjá öðru foreldranna og eins og áður sagði er réttarstaða lögheimilisforeldris önnur en réttarstaða umgengnisforeldris.

Forsjá hjá öðru foreldra

Foreldrar geta samið um að forsjá sem hefur verið sameiginleg verði framvegis í höndum annars foreldris. Þetta getur átt við þegar foreldrar skilja eða slíta skráðri sambúð og eins þegar foreldrar vilja breyta samningi um sameiginlega forsjá. Foreldrar geta einnig samið um breytingu á forsjá barns þannig að forsjá flytjist frá öðru foreldri til hins.

Tímabundin forsjá

Foreldrum er heimilt að gera tímabundna samninga um forsjá barns.

Þar sem almennt er talið barni fyrir bestu að festa ríki um forsjá þess er ekki heimilt að gera samning um tímabundna forsjá í styttri tíma en sex mánuði.

Ýmsar ástæður geta legið til þess að foreldrar kjósi að gera samning um tímabundna forsjá. Barn vill ef til vill sjálft prófa að búa hjá því foreldri sem ekki fer með forsjá og foreldrar vilja láta reyna á það tímabundið. Þá geta tímabundnar breytingar hjá forsjárforeldri leitt til þess að rétt þyki að breyta forsjá meðan að á þeim stendur. Þessar breytingar geta t.d. verið vegna veikinda forsjárforeldris eða dvalar erlendis við nám eða störf.

Almenna reglan er sú að þegar samningur um tímabundna forsjá rennur út fari forsjá barnsins aftur í fyrra horf.

Lögheimili

Barn getur aðeins átt eitt lögheimili og það telst eiga fasta búsetu þar sem það á lögheimili.

Eins og fram hefur komið er réttarstaða lögheimilisforeldris, þegar foreldrar fara saman með forsjá barns, önnur en réttarstaða umgengnisforeldrisins. Foreldrar, sem búa ekki saman en fara sameiginlega með forsjá barns, eiga alltaf að leitast við að hafa samráð áður en teknar eru afgerandi ákvarðanir um málefni barns er varða daglegt líf þess, til dæmis um hvar barnið skuli eiga lögheimili og um val á leik- og grunnskóla, sbr. hér að framan.

Lögheimilisforeldrið hefur á hinn bóginn heimild til þess að taka þessar ákvarðanir, ef samráðið skilar ekki árangri. Lögheimilisforeldri hefur því heimild til þess að flytja með barn innanlands og ákveða í hvaða skóla barn skuli ganga. Þá nýtur lögheimilisforeldrið í ýmsu tilliti sömu stöðu og einstætt forsjárforeldri. Þannig falla til dæmis barnabætur til lögheimilisforeldrisins. Lögheimili barns getur einnig haft áhrif í ýmsu öðru tilliti, svo sem á húsaleigubætur, námslán, greiðslur vegna örorku, umönnunarbætur og fleira sem þarf að skoða í hverju tilviki. Það er því mjög þýðingarmikið atriði að ákveða hjá hvoru foreldri barn skuli eiga lögheimili. Þess vegna eru samningar foreldra, sem fara sameiginlega með forsjá barn, um lögheimili barnsins aðeins gildir að sýslumaður staðfesti þá og sýslumanni ber að leiðbeina foreldrum um réttaráhrif slíkra samninga.

Það er heimilt að gera tímabundna samninga um lögheimili barns en ekki til skemmri tíma en 6 mánaða enda almennt talið að festa eigi að ríkja um fasta búsetu barns. Ef gerður er tímabundinn samningur um lögheimili barns þá á lögheimilið að færast til fyrra horfs að tímabilinu loknu. Foreldrar verða þó að hafa í huga að þeir verða sjálfir að grípa til viðeigandi ráðstafana hjá Þjóðskrá Íslands til þess að lögheimilið verði fært til fyrra horfs að tímabilinu loknu.

Ef aðeins annað foreldri barns fer með forsjá þess verður almennt að ætla að barnið eigi lögheimili hjá forsjárforeldrinu. Sú staða getur á hinn bóginn komið upp að búseta barns breytist án breytinga á forsjá. Barnið flytji t.d. til ömmu og afa, eða annars nákomins aðila, og að lögheimili sé flutt til samræmis við það. Lögheimilisbreyting, þegar svona stendur á (án forsjárbreytingar) veitir þeim sem barnið býr hjá, ekki rétt til töku ákvarðana sem fylgja forsjá og forsjárforeldrið getur þess vegna einhliða og hvenær sem er fært lögheimili og búsetu barnsins aftur til sín án aðkomu sýslumanns.

Rétt er að benda á í þessu sambandi að forsjárforeldri eða forsjárforeldrar geta með samningi ákveðið að fela öðrum forsjá barns. Slíkan samning þarf að staðfesta hjá sýslumanni svo hann öðlist gildi.

Forsjá stjúpforeldra

Foreldri, sem fer eitt með forsjá barns síns, og stjúpforeldri barns geta samið um að fara sameiginlega með forjá barnsins. Með stjúpforeldri er í umfjöllun þessari bæði átt við þann sem er í hjúskap með forsjárforeldrinu og þann sem er í skráðri sambúð með foreldrinu. Þegar um sambúð er að ræða verður hún þó að hafa verið skráð í þjóðskrá í eitt ár.

Samningur um forsjá stjúpforeldris hefur mikla lagalega þýðingu og sýslumaður verður að staðfesta slíkan samning til þess að hann öðlist gildi. Sýslumaður verður að leita eftir afstöðu forsjárlausa foreldrisins til málsins áður en hann tekur ákvörðun um staðfestingu samnings.

Réttarstaða stjúpforeldris sem fer með forsjá barns er ekki alfarið sambærileg við réttarstöðu foreldris enda um afleidda forsjá að ræða. Rétt er að vekja athygli á að við andlát forsjárforeldris helst forsjá barns hjá stjúpforeldrinu hafi forsjá verið sameiginleg, sbr. hér að framan. Við skilnað eða sambúðarslit forsjár- og stjúpforeldris, sem farið hefur með forsjá, gildir almenna reglan um að forsjáin haldi áfram að vera sameiginleg nema annað sé ákveðið. Reglur um umgengni barns við fyrrum stjúpforeldri eru á hinn bóginn ekki þær sömu því stjúpforeldri á ekki sama rétt til umgengni við barn og kynforeldri. Unnt er þó í vissum tilvikum að ákveða umgengni stjúpforeldris og barns enda þjóni slík umgengni hagsmunum barns. Þá er að lokum rétt að geta þess að stjúpforeldri ber að framfæra stjúpbarn sitt meðan á hjúskap eða sambúð við kynforeldri varir. Komi til samvistarslita fellur framfærsluskyldan niður nema því aðeins að forsjáin haldist hjá stjúpforeldrinu og annað kynforeldra er látið.

Rétt er að undirstrika að fyrir 1. janúar 2013 gilti sú regla að stjúpforeldrar fengu sjálfkrafa forsjá stjúpbarns síns þegar stofnað var til hjúskapar við forsjárforeldri og þegar skráð sambúð forsjár- og stjúpforeldris hafði varað í eitt ár. Stjúpforeldrar sem fengu forsjá stjúpbarna sinna á þann hátt í gildistíð eldri laga halda áfram að fara með forsjána þrátt fyrir breyttar reglur.

Dómsmál um forsjá eða lögheimili barns

Ef ágreiningur rís milli foreldra um forsjá eða lögheimili barns geta þeir höfðað mál fyrir dómi til að fá úr honum skorið. Ekki skiptir máli hvort ágreiningurinn rís strax í kjölfar samvistarslita foreldra eða seinna.

Sá sem hyggst höfða mál vegna forsjár eða lögheimlis fyrir dómi, verður almennt að fá aðstoð lögmanns við að reka málið. Við tilteknar aðstæður getur fólk átt rétt á gjafsókn vegna slíks málareksturs. 

Í dómsmáli ákveður dómari hvernig forsjá barns eigi að vera, eða hvar barn eigi að hafa lögheimili, eftir því sem hann telur barninu vera fyrir bestu.

Dómari getur ákveðið að annað foreldri eigi að fara með forsjá en hann getur líka ákveðið að forsjá barns eigi að vera í höndum beggja foreldra. Ef sameiginleg forsjá er dæmd er líka ákveðið hjá hvoru foreldranna barnið eigi að hafa lögheimili.

Það samrýmist ekki hagsmunum barns í öllum tilvikum að foreldrar, sem ekki búa saman, fari sameiginleg með forsjá þess. Dómari skoðar því aðstæður vandlega áður en hann ákveður hvort komi til greina að dæma sameiginlega forsjá. Aðeins má dæma sameiginlega forsjá ef þær aðstæður eru fyrir hendi að sameiginleg forsjá geti þjónað hagsmunum barnsins.

Í öllum málum sem varða forsjá eða lögheimili barns lítur dómari til hæfis foreldranna, stöðugleika í lífi barnsins, tengsla þess við báða foreldra, skyldu foreldranna til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.

Þegar krafa er gerð um sameiginlega forsjá tekur dómari líka mið af aldri og þroska barns og því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg. Hafa þarf í huga að þegar forsjá er sameiginleg þurfa foreldrar eðli málsins samkvæmt að hafa ákveðið samráð og samstarf sín á milli. Dómari verður því að meta hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Aðeins ef það er talið barni fyrir bestu að ákveða sameiginlega forsjá með dómi má gera það.

Ákvörðun um umgengni og meðlag í forsjár- eða lögheimilismáli

Annað foreldra eða báðir geta gert kröfu um það í forsjár- eða lögheimilismáli að dómari kveði á um meðlag og/eða umgengni. Um umgengni og meðlag er að öðru leyti fjallað hjá sýslumanni, sjá nánar kafla um þau efni.

Úrskurður til bráðabirgða um forsjá eða lögheimili barns

Í forsjár- eða lögheimilismáli getur dómari ákveðið hvernig forsjá barns eigi að vera til bráðabirgða, þ.e. meðan á forsjármálinu stendur. Einnig getur dómari ákveðið meðlag og umgengni til bráðabirgða. Forsjár- og lögheimilismál geta tekið langan tíma og ef ágreiningur er mikill milli foreldra getur verið nauðsynlegt að ákveða að hvernig málum skuli skipað meðan málið er til meðferðar.

Farbann

Á meðan forsjár- eða lögheimilismál er til meðferðar hjá héraðsdómi eða Landsrétti er hægt að úrskurða að óheimilt sé að fara með barn úr landi, þ.e. á meðan máli er ekki lokið.

Gagnaöflun – sönnunargögn

Í forsjármáli fylgist dómari með öflun sönnunargagna og sér um að gögn séu fullnægjandi þannig að unnt sé að ákveða hvernig forsjá eða lögheimili barns skuli skipað. Dómari hefur því nokkuð annað hlutverk í forsjár- og lögheimilismálum en öðrum einkamálum. Þessar sérreglur eru tilkomnar vegna þess að fyrst og fremst er verið að fjalla um hagsmuni barns í forsjármáli.

Í mörgum forsjármálum er álitsgerð sérfræðinga, t.d. sálfræðinga, það gagn sem mesta þýðingu hefur  við úrlausn málsins. Í álitsgerð koma venjulega fram atriði sem nauðsynlegt er að fá fram til þess að unnt sé að komast að niðurstöðu í þágu hagsmuna barns. Þetta eru atriði sem varða hagi foreldra og hæfi, aðstæður og hagi barns, tengsl þess við foreldra og margt fleira. Sérfræðingarnir athuga aðstæður foreldra, taka við þá viðtöl og leggja þegar þörf er á fyrir þá sálfræðileg próf. Þeir ræða eftir atvikum við barnið sem í hlut á og kanna afstöðu þess ef barnið hefur til þess nægilegan þroska og leggja e.t.v. fyrir yngra barn tengslapróf. Þá ræða sérfræðingarnir oft við aðra sem þekkja vel til foreldra og barns.

Dómari er ekki bundinn af álitsgerð sérfræðings heldur ber honum að taka ákvörðun í málinu eftir því sem hann telur viðkomandi barni fyrir bestu.

Réttur barns til þess að tjá sig

Ef barn hefur náð nægilegum þroska á að gefa því kost á að tjá sig um mál. Þetta er þó ekki gert ef það er talið geta haft skaðleg áhrif á barnið eða hefur enga þýðingu fyrir úrslit málsins.

Réttur barns til að tjá sig miðast ekki við tiltekin aldursmörk en meta þarf aldurinn bæði í tengslum við þekkingu á almennum þroska barna á tilteknum aldursskeiðum en einnig að taka tillit til þroska barnsins sem í hlut á hverju sinni. Afstaða barns hefur almennt meira vægi eftir því sem það er eldra.

Dómari getur sjálfur rætt við barn eða falið sérfræðingi að gera það.

Sáttameðferð

Áður en foreldri getur höfðað forsjár- eða lögheimilismál er foreldrum skylt að leita sátta. Sýslumaður býður foreldrum sáttameðferð en þeir geta einnig leitað til annarra sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna.

Markmiðið með sáttameðferðinni er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barninu fyrir bestu. Foreldrar verða sjálfir að mæta á sáttafundi sem sáttamaður boðar til og geta því til dæmis ekki sent lögmann á sáttafund í sinn stað.

Ef ekki tekst að gera samning um forsjá og/eða lögheimili í sáttameðferðinni eða ef foreldrar mæta ekki á sáttafund gefur sáttamaðurinn út svokallað sáttavottorð sem er gilt í 6 mánuði. Nánar er fjallað um sáttameðferð í sérstökum kafla.

Sjá einnig:

Lög

Þjónusta sýslumanna

Sjá upplýsingar og ýmis eyðublöð sem varða forsjá á vef sýslumanna

Síðast uppfært: 31.1.2018
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum