Hoppa yfir valmynd

Utanlandsferð barns

Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns er öðru foreldrinu óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Til að tryggja formlega staðfestingu á samþykki foreldris, sem ekki fylgir barni úr landi, má ganga frá sérstakri yfirlýsingu um samþykki þess, sjá eyðublað á vef sýslumanna. Ef annar fulltíða einstaklingur fer með barnið úr landi þarf staðfestingu beggja foreldra ef þau fara bæði með forsjá barns. 

Ef ágreiningur er um utanlandsferð barns má leita úrskurðar sýslumanns.

Staðfesting á heimild til að ferðast með barn eða börn milli landa

Þegar ferðast er með barn á milli landa, eða ef barn ferðast eitt, kunna landamærayfirvöld að krefjast sönnunar þess að barnið hafi heimild til ferðarinnar frá foreldrum eða forsjármönnum. Sé ekki sýnt fram á það getur viðkomandi átt á hættu að tefjast eða vera synjað um komu eða brottför.

Því er ráðlagt að útbúin sé sérstök samþykkisyfirlýsing fyrir ferð barnsins. Ekki er lagaskylda að hafa meðferðis slíka yfirlýsingu en mælt er með því að slík sérstök heimild sé útbúin og höfð meðferðis og til hægðarauka hefur verið útbúið eyðublað fyrir slíka yfirlýsingu. Ekki er þó áskilið að nota þetta tiltekna form. 

Samþykkisyfirlýsingin lýtur að því að foreldrar/forsjármenn samþykki að barn fari til tiltekins/tiltekinna landa erlendis, á tilteknum tíma eða tímabili, eitt síns liðs, eða í fylgd annars einstaklings.

Ef foreldrar/forsjármenn eru tveir og hvorugur ferðast með barninu, er rétt að báðir gefi samþykkisyfirlýsinguna. Ef um er að ræða fleiri en eitt barn, er gerð sérstök yfirlýsing fyrir hvert þeirra.

Mælt er með því að undirskrift á samþykkisyfirlýsingu sé vottuð af lögbókanda (notarius publicus), og er leitað til sýslumanna til að fá slíka vottun. Einnig er gert ráð fyrir því í eyðublaðinu að undirskriftin geti verið vottuð af tveimur vottum, það á aðeins við ef skjalið er ekki vottað af lögbókanda.

Hægt er að leita eftir staðfestingu utanríkisráðuneytis á undirskrift lögbókanda á skjalið og er með því leitast við að tryggja enn frekar að skjalið verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi. Sjá nánar gátlista sem borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur tekið saman um atriði sem rétt er að huga að áður en haldið er af stað í ferðalag, þ.á m. þegar annað forsjárforeldra barns eða aðrir en forsjárforeldrar ferðast með börn.

Barn er einstaklingur undir 18 ára aldri samkvæmt íslenskum lögum. Ef lög áfangalands eru um hærri aldur þá er ráðlagt að hafa meðferðis samþykkisyfirlýsingu ef sá sem ferðast hefur ekki náð þeim aldri.

Fæðingarvottorð barns, sem sýnir hverjir eru foreldrar þess, er hægt að fá útgefið hjá Þjóðskrá Íslands. Þar er einnig hægt að fá vottorð um það hverjir fara með forsjá barns. Þessi gögn kann að vera gagnlegt að hafa meðferðis. Sjá nánar á vef Þjóðskrár Íslands.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 19.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum