Hoppa yfir valmynd

Framfærsla barns og meðlag

Foreldrum er skylt að framfæra barn sitt og skal framfærslunni hagað með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns.

Foreldrar geta ekki gert samkomulag um að annað hvort þeirra sinni ekki framfærsluskyldu
sinni með barni.

Framfærsla barns sem er ekki í skiptri búsetu:

Ef barn á fasta búsetu (lögheimili) hjá öðru foreldra sinna ber hinu foreldrinu (umgengnisforeldri) skylda til að taka þátt í framfærslu barnsins. Foreldrar sem ekki hafa samið um skipta búsetu barns geta samið um að umgengnisforeldri sinni framfærslu barns með tvenns konar hætti:

  • Með greiðslu kostnaðar við framfærsluna - t.d. greiðslu einstakra reikninga vegna barns
  • Með greiðslu meðlags


Foreldrum barns sem er ekki í skiptri búsetu er ekki skylt að óska staðfestingar sýslumanns á samkomulagi sínu um framfærslu barns. Foreldrar geta óskað staðfestingar sýslumanns á samkomulagi sínu um meðlagsgreiðslur en þeir geta ekki óskað staðfestingar sýslumanns á samkomulagi sínu um skiptingu kostnaðar vegna framfærslu barns.

Ef umgengnisforeldri sinnir ekki framfærsluskyldu sinni getur lögheimilisforeldri farið fram á meðlag frá umgengnisforeldri og, eftir atvikum, krafist úrskurðar sýslumanns um meðlag umgengnisforeldris.

 

Framfærsla barns sem er í skiptri búsetu:

Ef foreldrar hafa samið um skipta búsetu barns getur hvorugt foreldrið farið fram á meðlag frá hinu foreldrinu. Við samning um skipta búsetu barns þarf að vera samkomulag á milli foreldra um framfærslu barnsins. Slíkt samkomulag getur t.d. falist í:

  • Skiptingu kostnaðar við framfærsluna
  • Greiðslu reglubundinnar fastrar fjárhæðar

Foreldrar, sem samið hafa um skipta búsetu barns, geta ekki óskað staðfestingar sýslumanns á samkomulagi sínu um framfærslu barns né geta þeir krafist úrskurðar sýslumanns um meðlag

Einfalt meðlag

Einfalt meðlag er oft kallað lágmarksmeðlag. Einfalt meðlag er jafnhátt barnalífeyri og er upphæð þess endurskoðuð árlega.

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið sinni framfærsluskyldu sinni með greiðslu meðlags.

Foreldrum er ekki skylt að óska staðfestingar sýslumanns á samningi þeirra um meðlag.

Staðfesting sýslumanns á samningi foreldra um meðlag hefur þau áhrif að:

  • Lögheimilisforeldri getur krafist aðfarar hjá umgengnisforeldri vegna ógreidds meðlags.
  • Lögheimilisforeldri getur óskað eftir milligöngu TR á greiðslu einfalds meðlags samkvæmt samningi foreldra. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra innheimtir meðlagsgreiðslur.

Foreldrar geta ekki samið um lægra meðlag á mánuði en einfalt meðlag. Samningur foreldra um meðlag má vera tímabundinn en samkomulag þarf að vera á milli foreldra um framfærslu barnsins að öðru leyti fram til 18 ára aldurs. Ekki má takmarka framfærsluskyldu foreldris við lægri aldur barns en 18 ár.

Aukið meðlag

Aukið meðlag er það meðlag kallað sem er hærra en lágmarksmeðlag.

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið greiði aukið meðlag vegna framfærslu barns. Hægt er að óska staðfestingar sýslumanns á samningi foreldra um aukið meðlag.

Ekki er hægt að óska eftir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu aukins meðlags.

Dómsmálaráðuneytið lætur sýslumönnum árlega í té viðmiðunarfjárhæðir sem hafðar eru til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í málum vegna krafna um aukið meðlag. Meginmarkmiðið með því að veita slíkar leiðbeiningar er að tryggja að samræmis og jafnræðis sé gætt við ákvarðanatöku í meðlagsmálum, en ekki er fortakslaus skylda að fara eftir þeim.

Samkvæmt bréfi ráðuneytisins frá 5. janúar 2024 eru fjárhæðirnar nú sem hér segir, en þær eru uppfærðar árlega miðað við vísitölu neysluverðs:

Tekjur á mánuði1 barn2 börn3 börn
U.þ.b. kr. 657.000Lágmarksmeðlag+50%Lágmarksmeðlag + 25%
U.þ.b. kr. 737.000Lágmarksmeðlag+75%

U.þ.b. kr. 792.000Lágmarksmeðlag+100%Lágmarksmeðlag + 50%Lágmarksmeðlag +25%
U.þ.b. kr. 873.000
Lágmarksmeðlag + 75%
U.þ.b. kr. 960.000
Lágmarksmeðlag+100%Lágmarksmeðlag + 50%
U.þ.b. kr. 1.056.000

Lágmarksmeðlag +75%
U.þ.b. kr. 1.161.000

Lágmarksmeðlag +100%

Við útreikning tekna aðila eru venjulega lagðar til grundvallar meðaltekjur þeirra tvö til þrjú næstliðin ár, m.a. í því skyni að jafna út þær sveiflur sem kunna að vera í tekjuöflun milli ára, án þess að um varanlegar breytingar á tekjum sé að ræða.
Sækja má um aukið meðlag á eyðublaði sem nálgast má á vef sýslumanna á Ísland.is.

Nánari upplýsingar um framfærslu, meðlag o.fl. má finna á vef sýslumanna:

Framfærsla barns | Ísland.is (island.is)

Meðlag | Ísland.is (island.is)

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 15.8.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum