Hoppa yfir valmynd

Þróunarsamvinna Íslands og Malaví

Ísland og Malaví hafa starfað saman á sviði þróunarsamvinnu frá árinu 1989 og fagna því 35 ára samstarfsafmæli árið 2024. Sendiráð Íslands í Lilongwe, höfuðborg Malaví, var opnað árið 2004 en áður hafði Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfrækt þar umdæmisskrifstofu.

Upphafleg áhersla þróunarsamvinnu í Malaví var þróun fiskveiða- og vinnslu við Malavívatn en í dag er áhersla lögð á heilbrigðisþjónustu, menntun og vatns- og hreinlætismál. Einnig eru mannréttindi, jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál lögð til grundvallar allra verkefna og samþætt í allt starf.

Starfað er eftir stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2024-2028 sem hefur það að yfirmarkmiði að útrýma fátækt, virðingu fyrir mannréttindum og bæta lífsskilyrði. Einnig er starfað eftir stefnumiðum í tvíhliða þróunarsamvinnu og landsáætlun fyrir Malaví.

Þróunarsamvinna Íslands í Malaví byggir á nánu samstarfi við héraðsyfirvöld í samstarfshéruðum Íslands; Mangochi og Nkhotakota, en að auki er starfað með ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankanum og félagasamtökum, bæði innlendum og alþjóðlegum.

Fleiri en eitt hundrað sérfræðingar frá Malaví hafa stundað nám við skóla GRÓ á Íslandi og styður utanríkisráðuneytið einnig við verkefni Rauða krossins á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar, SOS Barnaþorpanna og Landsambands Þroskahjálpar í landinu.

Malaví fær öllu jafna hæsta hlutfall tvíhliða þróunarsamvinnu á ári hverju og nema framlög rúmlega 1 milljarði króna á ári. Finna má allar upplýsingar um framlög til Malaví inn á www.openaid.is  

Héraðsþróunarverkefni í  Malaví

Í Malaví er valddreift stjórnkerfi og er það hlutverk héraðsstjórnvalda að veita íbúum grunnþjónustu, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu, aðgang að hreinu vatni og grunnskólamenntun. Frá árinu 2012 hefur Ísland unnið eftir héraðsnálgun í samvinnu við héraðsyfirvöld í Mangochi en þá undirritaði Ísland samstarfssamning við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og héraðsstjórnvöld í Mangochi-héraði um eflingu grunnþjónustu í héraðinu.

Verkefni Íslands byggja á áherslum, stefnum og áætlunum malavískra yfirvalda og framkvæmd verkefna er í höndum héraðsyfirvalda en sendiráð Íslands í landinu hefur reglubundið eftirlit með fjármálum og veitir tæknilegan stuðning. Héraðsþróunarverkefni eru hugsuð til lengri tíma (a.m.k til tíu ára) en með þessari nálgun fylgir Ísland meginreglum um árangursríka þróunarsamvinnu, hámarkar nýtingu þróunarsamvinnufés til að ná langtíma árangri sem byggist á forgangsröðun heimamanna, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi. Þessi nálgun styrkir kunnáttu og getu héraðsyfirvalda og niðurstöður óháðrar úttektar sýna jákvæð heildræn áhrif og eignarhald héraðsyfirvalda og heimamanna stuðlar að sjálfbærni verkefnanna og fjárfestinga Íslands í héraðinu.

Í kjölfar góðs árangurs héraðsþróunarverkefna í Mangochi síðastliðin áratug sem og jákvæðra úttekta á þeim og héraðsnálgun Íslands var ákveðið í samráði við stjórnvöld í Malaví að fjölga samstarfshéruðum Íslands í landinu og hefja samstarf við Nkhotakota hérað árið 2022.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um héraðsþróunarverkefnin í Malaví.

Héraðsþróunarverkefni Mangochi Basic Services Programme (MBSP) hófst árið 2012 þegar fyrsti áfangi þess var samþykktur fram til 2016. Annar áfangi  Mangochi Basic Services Programme II hófst árið 2017 og náði til loka júní 2021. Ísland hefur síðan framlengt stuðning sinn fram til loka mars 2025. Helsti samstarfs- og framkvæmdaaðili verkefna er héraðsstjórn Mangochi-héraðs.

Mangochi er á meðal stærstu og fjölmennustu héraða Malaví en í því búa um 1.2 milljónir íbúa á 6.273 km² landsvæði.

Helstu áherslur byggðarþróunarverkefnis Íslands í Mangochi eru:

  • uppbygging heilbrigðisinnviða og lýðheilsu með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu í sveitum;
  • uppbygging grunnskóla með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið;
  • bætt aðgengi að hreinu vatni; 
  • bætt þekking á hreinlætismálum og salernisaðstöðu;
  • stuðningur við atvinnutækifæri og efnahagslega valdeflingu kvenna og ungmenna;
  • stuðningur við héraðsskrifstofu með áherslu á deildir fjármála, framkvæmda, útboðs- og innkaupsmála og árangurs og eftirlits.

Jafnrétti kynjanna og valdefling ungmenna eru samþætt í öll verkefnin en er einnig sérstök áhersla og var því stutt við tilraunaverkefni til að styðja efnahagslega valdeflingu kvenna- og ungmennahópa. Lögð var áhersla á mæðra- og ungbarnaheilsu í heilsuþætti verkefnisins og í menntaþættinum er markvisst unnið að því að koma í veg fyrir brottfall nemenda, sérstaklega unglingsstúlkna, úr skóla. Þá hafa umbætur í vatns- og hreinlætisaðstöðu veruleg áhrif bætta á heilsu, aðbúnað og vinnuálag kvenna og stúlkna, enda eru það einkum þær sem annast vatnsöflun. 

Heilbrigðisþjónusta

Mæðradauði er mjög hár í Malaví og er því sérstök áhersla lögð á mæðra- og ungbarnaheilsu við uppbyggingu heilbrigðismála í Mangochi. Opnun nýrrar fæðingardeildar við héraðssjúkrahúsið í Mangochi-bæ árið 2019 markaði tímamót í starfsemi héraðssjúkrahússins. Á lóð fæðingardeildarinnar er einnig miðstöð ungbarna- og mæðraverndar. Verið er að byggja umfangsmikla og fullbúna fæðingardeild á afskekktu svæði í héraðinu sem mun þjónusta um 120 þúsund íbúa en vegna lélegra vega hafa íbúar ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu í Mangochi-bæ yfir nokkurra mánaða skeið á ári hverju. Mun þjónustan draga úr háu hlutfalli mæðra sem látast við barnsburð á svæðinu. Síðastliðin áratug hafa níu fæðingardeildir verið byggðar í afskekktum sveitum með biðskýlum fyrir verðandi mæður og aðstandendur þeirra, tólf starfsmannahús hafa risið ásamt því að heilsugæslustöðvar hafa fengið vatns- og rafmagnskerfi. Einnig er lögð áhersla á lýðheilsumál og heilsuvernd þar sem heilbrigðisfulltrúar gegna mikilvægu hlutverki í því að tryggja íbúum í dreifbýli aðgang að heilbrigðisþjónustu í héraðinu. Yfir eitt þúsund reiðhjólum hefur verið dreift til heilbrigðisfulltrúa til að spara tíma sem það tekur að fara á milli þjónustusvæða en sjúkrahús í héraðinu hafa nú einnig tólf sjúkrabíla til umráða. 

Heilbrigðisyfirvöld í Mangochi hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur árið 2021, en valið byggist á mælanlegum stöðlum yfirvalda um framfarir í stjórnun, umsýslu og þjónustu. Árangurinn var að miklu leyti þakkaður góðu samstarfi við Ísland.

Árangur í heilbrigðismálum gegnum verkefnastoðina Mangochi frá 2012:

 

Menntun

Meira en þrjátíu þúsund börn og unglingar hafa notið góðs af heildstæðum stuðningi Íslands við tólf skóla í Mangochi þar sem unnið er að því að bæta gæði menntunar og draga úr brottfalli nemenda. Til að ná því markmiði hefur aðbúnaður í skólunum verið bættur, nýjar skólastofur byggðar og bókakostur og aðgangur að námsgögnum bættur. Einnig er lögð áhersla á bættan aðgang að salernum og fullnægjandi hreinlætisaðstöðu fyrir stúlkur á blæðingum sem og aðgang að hreinu vatni. Einnig er nemendum tryggð skólamáltíð. Enn fremur er áhersla á að viðhalda góðu starfsumhverfi fyrir kennara, bjóða upp á þjálfun og endurmenntun ásamt því að veita kennurum húsnæði nálægt vinnustað. 
Stuðningur foreldra og samfélaga hvað varðar menntun skipta máli, því er lögð áhersla á upplýsingaflæði um réttindi barna til menntunar og gott samstarf við foreldra í gegnum sérstakar nefndir t.d. foreldrafélög. Er þetta gert til þess að stuðla að því að fleiri börn geti sótt skóla. Stuðningur Íslands beinist einnig að yngsta aldursstiginu og hafa m.a. verið byggðir tveir leikskólar á lóðum tveggja grunnskóla. Við tíu af tólf skólum er starfrækt samstarf við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna um heimaræktaðar skólamáltíðir. 
Árangurinn af þessu verkefni er mælanlegur en hlutfall barna sem sækir skóla í Mangochi hefur hækkað og er minna brottfall stúlkna sérstakt ánægjuefni.

Árangur í menntamálum í gegnum verkefnastoðina í Mangochi frá 2012:

 

Vatn og hreinlæti

Áhersla er lögð á valdeflingu, uppbyggingu þekkingar og stuðning við héraðsstjórnvöld og samfélög í Mangochi á sviði vatns- og hreinlætismála með það að markmiði að leiða til bættrar vitundar fólks um hreinlæti og mikilvægi notkunar salerna og handþvottar. 

Bættur aðgangur að drykkjarhæfu vatni er tryggður með uppsetningu yfir 1100 vatnspósta víðsvegar í sveitum Mangochi. Sett hafa verið upp níu sólarknúin vatnskerfi við skóla og heilsugæslur í héraðinu. Í kjölfar verkefna Íslands hafa yfir 400 þúsund manns nú aðgang að hreinu vatni og stórlega hefur dregið úr hvers kyns pestum, færri börn þjást af niðurgangspestum og ekkert tilfelli kóleru greindist á árunum 2012-2022. 

Nú hafa fjögur sveitarfélög í héraðinu fengið sérstaka vottun stjórnvalda fyrir að sjá öllum heimilum fyrir drykkjarhæfu vatni og viðunandi salernis- og hreinlætisaðstöðu. 
 
2023 kom mikið bakslag í hreinlætismál á landvísu þegar er mannskæður kólerufaraldur herjaði á landið gjörvalt. Íslensk stjórnvöld veittu Rauða Krossinum  viðbótarframlag til að fjármagna verkefni í Mangochi til að bregðast við faraldrinum.

 

Árangur í vatns- og hreinlætismálum í gegnum verkefnastoðina í Mangochi frá árinu 2012:

 

Valdefling kvenna og ungmenna

Stutt er við skrifstofur héraðsins sem fara með málefni kvenna og ungmenna í Mangochi. Meðal afurða þessa stuðnings eru t.d. samþykkt stefnumið fyrir efnahagslega valdeflingu kvenna og málefni ungmenna sem eru fyrstu sinnar tegundar í héraðinu. Einnig var sett af stað sérstakt tilraunaverkefni þar sem unnið er með 13 samvinnufélögum - sex kvennahópum og sjö ungmennahópum - sem hafa hlotið efnislega aðstoð í formi tækja og tóla sem og þjálfun til að efla framleiðslu sína, setja upp viðskiptaáætlanir, þróa virðiskeðjur sína til að bæta markaðssetningu, þjálfun í viðeigandi frumkvöðlafræðum, auka fjármálalæsi og aðgang að fjármálaþjónustu með þjálfun og getu í að sækja auka fjármagn. Hóparnir vinna við  ýmis konar landbúnaðar- og fiskvinnslu t.a.m. geitabúskap, tómatarækt, útgerð, maísmjölsframleiðslu, chilialdin-framleiðslu. 

Þá hafa 120 nemendur frá Mangochi útskrifast úr verknámi með stuðningi frá Íslandi. Nemendurnir stunda ýmist nám í húsasmíði, bifvélavirkjun, klæðskurði, múraraiðn eða rafvirkjun. Í útskriftargjöf hafa nemendurnir fengið ýmis tæki og tól eins og borvélar, verkfæri, saumavélar og hlífðarfatnað til að gera þeim auðveldara að stíga fyrstu skrefin í atvinnulífinu en oft er hár kostnaður á slíkum búnaði þröskuldur sem reynist ungmennum erfitt er að yfirstíga.
 

Árangur í valdeflingu kvenna og ungmenna í gegnum verkefnastoðina í Mangochi:

 

Bætt stjórnsýsla í Mangochi

Lögð er áhersla á eignarhald samstarfsaðila og er verkefnastoðin í Mangochi framkvæmd af héraðsstjórninni. Því er lögð áhersla á stuðning við bætta stjórnsýslu og getuuppbyggingu í héraðinu.

Árið 2016 sat héraðsstjórn Mangochi í sæti 27 af 28 í árlegu gæðamati sem sveitarstjórnarráðuneyti Malaví stendur fyrir og tekur til góðra stjórnunarhátta. Árið 2022 mældist Mangochi hins vegar í 8. sæti á sama lista. Frá árinu 2017 hefur Ísland m.a. stutt við aukna getu innan fjármála-, eftirlits-, innkaupa- og framkvæmdasviða héraðsins ásamt því að leggja áherslu á þekkingu við áætlanagerð.

Utanríkisráðherra Íslands opnaði formlega nýtt héraðsþróunarverkefni í heimsókn til Malaví í desember árið 2022 og hófst framkvæmd héraðsþróunarverkefnisins Nkhotakota Basic Services Programme (KKBSP) um mitt ár 2023.

Nkhotakota hérað er staðsett miðsvæðis í Malaví og liggur við strendur Malavívatns. Héraðið er dreifbýlt og tiltölulega fámennt á malavískan mælikvarða en íbúar þess eru um 400.000 á 4.338 km² landsvæði.

Að fyrirmynd samstarfsins við Mangochi er einblínt á byggðaþróun og eflingu grunnþjónustu en mikil þörf er á að styrkja félagslega innviði héraðsins.

Helstu áherslur byggðarþróunarverkefnis Íslands í Nkhotakota eru:

  • uppbygging heilbrigðisinnviða og lýðheilsu með áherslu á mæðra- og ungbarnaheilsu og bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu í sveitum;
  • uppbygging fimmtán grunnskóla með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið;
  • bætt aðgengi að hreinu vatni
  • bætt þekking á hreinlætismálum og salernisaðstöðu;
  • stuðningur við héraðsskrifstofu með áherslu á deildir fjármála, framkvæmda, útboðs- og innkaupsmála og árangurs og eftirlits;
  • áhersla á samþættingu eftirfarandi þátta í alla grunnþjónustu, sem jafnframt verða stut sérstaklega: jafnrétti kynjanna, efnahagsleg valdefling ungmenna, bætt viðnám samfélaga gegn loftslagsbreytingum og málefni fatlaðra barna.

Heilbrigðisþjónusta

Stutt verður við heilbrigðiskerfið í héraðinu með því að byggja nýja fæðingardeild og þrjár heilsugæslur í afskekktum byggðum héraðsins til að styðja við mæðra- og ungabarnaheilsu. Til viðbótar verða tólf fæðingarstofur og heilsugæslur endurbættar eftir þörfum, tveir sjúkrabílar keyptir til að bæta aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu ásamt því að tækjabúnaður verður keyptur og starfsfólk ráðið til að sinna þessari mikilvægu þjónustu. Í samstarfi við UNFPA mun héraðssjúkrahúsið fá fullbúna aðstöðu til að sinna konum sem þjást af fæðingarfistli.

Menntun

Veigamesti þáttur verkefna í Nkhotakota er uppbygging 15 grunnskóla með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið. Stuðningurinn mun m.a. fela í sér byggingu á kennslustofum, salernisaðstöðu og kennarahúsum; endurnýjun námsgagna, uppbyggingu skólaeldhúsa og bættan aðgang að skólamáltíðum. Að auki mun aðgangur að hreinu og öruggu vatni og sólarorku vera bættur til muna við skólana. Einnig verða þrír leikskólar byggðir og héraðsyfirvöld styrkt til að bæta getu sína varðandi aðstoð við nemendur með sérþarfir þ.m.t. fötluð börn.

Vatn og hreinlæti

Unnið verður að bættu aðgengi að hreinu og öruggu vatni í héraðinu. Skortur á viðunandi salernis- og hreinlætisaðstöðu eykur líkur á dreifingu vatnsborinna smitsjúkdóma. Mun Ísland styðja fjögur sveitarfélög sem liggja að vatninu til að bæta salernis- og hreinlætisaðstöðu fólks. Bæði í nærumhverfi sem og við félagslega innviði t.d. skóla, heilsugæslustöðvar, fiskvinnslur og markaði.

Bætt stjórnsýsla í Nkhotakota

Til að stuðla að getuuppbyggingu innan héraðsyfirvalda verður héraðsskrifstofan styrkt til að bæta fjármálaumsýslu og gagnaöflun, vinnslu útboðsferla og eftirfylgni með byggingarframkvæmdum. Sérstakur stuðningur verður við stefnumótun á sviði jafnréttismála, umhverfismála og í tengslum við málefni ungmenna og barna með sérþarfir.

 

 

Mannréttindi og jafnrétti kynjanna

Sendiráð Íslands í Malaví hefur undanfarin ár markvisst aukið stuðning við sértæk mannréttinda- og jafnréttisverkefni í landinu. Liður í þeirri vinnu er stuðningur við heildstæð verkefni sem styrkja pólitíska og efnahagslega valdeflingu kvenna og stúlkna, fyrirbyggja og uppræta kynbundið- og kynferðislegt ofbeldi og áreiti. Staða kvenna í landinu er bág, samkvæmt jafnréttismælingum Alþjóðaefnahagsráðsins situr Malaví ítrekað í einu af neðstu fimmtán sætum listans, þar sem Ísland hefur verið í fararbroddi síðastliðin þrettán ár. Ísland vinnur að málaflokknum m.a. í samstarfi við stjórnvöld, héraðsyfirvöld, með stofnunum Sameinuðu þjóðanna, með malavískum frjálsum félagasamtökum og styður beint við Mannréttindastofnun Malaví.

Jafnréttisráðuneyti Malaví fékk fjárhagslegan og tæknilegan stuðning frá Íslandi til þess að ljúka vinnu við fyrstu forvarnar- og viðbragðsstefnu malavíska stjórnarráðsins vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Stjórnvöld samþykktu stefnuna í janúar 2023 og gildir hún fyrir opinbera geirann og nær þ.á.m til héraðsyfirvalda. Með stuðningi frá Íslandi fengu félagasamtökin Gender and Justice Unit styrk til þess að þróa staðbundna forvarna- og viðbragðsáætlun með samstarfshéraði Íslands, Nkhotakota, sem samþykkt var af héraðsstjórn Nkotakota í mars 2023. Einnig stóðu samtökin fyrir umfangsmikilli vitundarvakningu um kynferðisáreitni- og ofbeldi meðal almennings í héraðinu enda mikilvægt að auka þekkingu á borgaralegum réttindum og þeim leiðum sem hægt er að nýta sér til að leita réttar síns.

Mannréttindastofnun Malaví fær fjárhagslegan stuðning frá Íslandi (2022-2025) til þess að efla jafnréttisskrifstofu stofnunarinnar og efla rannsóknardeild sína en stofnunin hefur það lögbundna hlutverk að rannsaka tilkynningar og ábendingar um kynferðisofbeldi eða kynferðislega áreitni. Eitt af því fyrsta sem stofnunin fékk var bifreið en vegna skorts á bifreiðum og fjármagni til eftirlits gat stofnunin ekki sinnt hlutverki sínu fyrir utan höfuðborgarinnar. Mannréttindaskrifstofan vinnur með öllum 28 héraðsskrifstofum landsins til þess að kynna nýja stefnu stjórnvalda um forvarnar- og viðbragðsstefnu stjórnarráðsins og hvernig best sé að útfæra hana. Mannréttindastofnunin hefur einnig hafið þriggja ára vitundarvakningarherferð á landsvísu um hvað kynferðisofbeldi og áreitni er.

Félagasamtökin Go Fund a Girl Child eru feminísk grasrótarsamtök sem starfa að valdeflingu ungra mæðra sem hafa hætt í skóla í sveitum Mangochi-héraðs vegna ótímabærrar óléttu eða barnahjónabands. Samstökin eru rekin af ungum konum sem veita stúlkum efnahagsleg tækifæri í gegnum jafningjastuðning og sjálfshjálparhópa sem veita þessum ungu mæðrum annað tækifæri til þess að snúa aftur til náms.

IPAS, alþjóðleg félagasamtök sem styðja við kyn- og frjósemisréttindi, hafa með stuðningi frá Íslandi þjálfað heilbrigðisstarfsfólk í Mangochi til að veita viðeigandi þjónustu fyrir konur og stúlkur sem þjást eftir ólögmæt þungunarrof, veitt viðeigandi tækjabúnað á heilsugæslur og aukið vitund í nærsamfélögum um að hægt sé að nálgast þessa lífsnauðsynlegu og öruggu heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og á héraðssjúkrahúsinu. Lagarammi Malaví heimilar þungunarrof aðeins ef meðganga ógnar lífi verðandi móður. Þetta leiðir til þess að fjöldi þungunarrofa er gerður við óheilsusamlegar aðstæður þar sem frumstæðum aðferðum er beitt og oft af ófaglærðu fólki. Þessar aðgerðir eru lífshættulegar og talið er að um 18% tilfella af mæðradauða í Malaví megi rekja til slíkra aðgerða og afleiðinga þess. Meira en helmingur þeirra kvenna sem deyja af þessum orsökum eru ungar stúlkur og konur á aldrinum 14-23 ára. Með stuðningi frá Íslandi gerðu IPAS samtökin rannsókn og tóku saman heildarfjölda kvenna og stúlkna í Malaví sem þurfti á bráðaaðgerð að halda árið 2022 vegna vandkvæða eftir ólögmætt þungunarrof.  Niðurstaðan leiddi í ljós að 28.371 konur og stúlkur sóttu slíka þjónustu það ár, eða að meðaltali 77 stúlkur og konur á dag. Áætlað er að 2/3 af sjúkraplássum á kvensjúkdómadeildum hverju sinni séu tekin upp af konum sem glíma við afleiðingar ólögmætra þungunarrofa. Hvíla þessi tilfelli því þungt á heilbrigðiskerfinu.


Umhverfis- og loftslagsmál

Í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda er vaxandi áhersla lögð á loftslagsmál í þróunarsamvinnu. Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun sem Malaví stendur frammi fyrir þegar kemur að því að ná þróunarmarkmiðum. Þar vega þungt afleiðingar öfga í veðurfari t.d. eyðilegging uppskeru, híbýla, innviða og kostnaðarsamra viðgerða sem fylgja enduruppbyggingu. Sendiráð Íslands í Malaví vinnur því í auknum mæli að stuðningi við verkefni sem snúa að aðlögun samfélaga og auknu viðnámi þeirra gegn loftslagsbreytingum.

Mannúðaraðstoð

Þegar óvænt neyð skapast kallar það á skjót viðbrögð. Ísland hefur brugðist hratt og örugglega við beiðnum malavískra stjórnvalda um neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara með því að veita sérstök framlög til mannúðaraðstoðar.
Í krafti smæðar sinnar náðu t.d. íslensk stjórnvöld að bregðast markvisst og skjótt við með fjárframlögum þegar röð áfalla reið yfir Malaví í byrjun árs 2023. Í febrúar var lýst yfir neyðarástandi vegna mannskæðs kólerufaraldurs og í mars fór hitabeltisstormurinn Freddy yfir Malaví og olli gífurlegu mann- og eignartjóni. Í báðum tilfellum brugðust íslensk stjórnvöld við, annarsvegar með sérstöku inngripi frá Rauða krossinum til að bregðast við kólerufaraldrinum og síðar með Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) sem veitti lífsbjargandi flutning á neyðargögnum og matvæla til þúsunda í neyð.

Starf með áherslustofnunum Íslands í Malaví

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna 
(World Food Programme - WFP)

Ísland hóf samstarf við World Food Programme (WFP) um skólamáltíðir í Malaví árið 2012, og var þar meðal fyrstu gjafríkja til þess að fjármagna verkefni WFP um heimaræktaðar skólamáltíðir í heiminum. Samstarfsáætlun Íslands og WFP um heimaræktaðar skólamáltíðir fyrir tímabilið 2022-2024 nær til 12.742 nemenda í 10 grunnskólum og 1500 bænda í Mangochi héraði.

Með heimaræktuðum skólamáltíðum fá börn næringarríka máltíð sem unnin er úr árstíðabundinni uppskeru og bændur hafa aðgang að öruggum markaði fyrir vörur sínar sem meðal annars eykur fjölbreytni í ræktun og skapar atvinnuöryggi. WFP veitir bændum einnig þjálfun og styður við nýsköpun í framleiðsluaðferðum. Skólamáltíðirnar sjálfar hafa umbreytandi áhrif á líf barna í fátækum samfélögum og eru áhrifarík leið í þróunarsamvinnu. Heimaræktaðar skólamáltíðir auka sjálfbærni og hafa ekki einungis jákvæð áhrif á skólagöngu, nám og næringu barna heldur margföldunaráhrif á þróun í samfélaginu öllu.

 

 

 

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna
(United Nations Population Fund– UNFPA)

Undir lok 2023 hófst nýtt samstarfsverkefni til þriggja ára við UNFPA og héraðsyfirvöld í Nkhotakota. Verkefnið snýr að því að auka vitund og þekkingu íbúa héraðsins á fæðingarfistli, efla færni heilbrigðisstarfsfólks til að framkvæma aðgerðir og útbúa aðstöðu með sérhæfðri skurðstofu á héraðssjúkrahúsinu til að framkvæma aðgerðir vegna fæðingarfistils. Eftir aðgerð fá konur sálfræðilegan stuðning ásamt efnahagslegum stuðningi til að koma undir sig fótunum að nýju en konur með fæðingarfistil verða oft fyrir samfélagslegri útskúfun vegna afleiðinga af fæðingarfistlinum. Verkefnið er metnaðarfullt og er markmiðið að útrýma fæðingarfistli á næstu þremur árum í héraðinu. Verkefnið byggir á lærdómi og reynslu af fyrra samstarfsverkefni í Mangochi héraði sem skilaði góðum árangri. Verkefnið mun ná til tæplega 500 kvenna og stúlkna í Nkhotakota, þar af munu 65 konur sem áður voru með fæðingarfistil fá þjálfun og styrk til þess að veita öðrum konum jafningjafræðslu og draga þar með úr samfélagsfordómum gegn konum með fæðingarfistil.


 

Alþjóðabankinn
(The World Bank Group)

Ísland varð í janúar 2023 stofnaðili að nýjum sjóð Alþjóðabankans í Malaví sem hefur það markmið að bæta félagslega vernd þeirra allra fátækustu í Malaví. Sjóðurinn styður m.a. við tvö stærstu öryggisnet malavískra stjórnvalda sem stuðla að bættum lífsskilyrðum þeirra sem búa við sárafátækt með mánaðarlegum stuðningsgreiðslum og sköpun grænna starfa sem miða að því að auka viðnámsþrótt samfélaga gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Með launaðri vinnu eykst fæðuöryggi þátttakenda, stuðlað er að samfélagslegum stöðugleika og eftir standa sterkir innviðir t.d. stíflur og varnargarðar.

Stofnun sjóðsins markaði vatnaskil í þróunarsamvinnu í Malaví og hann skapar mikilvægan vettvang til stefnumótunar og samhæfingar milli framlagsríkja og stjórnvalda í landinu. Í lok árs 2023 tilkynnti Ísland um viðbótarframlag í sjóðinn eyrnamerkt grænum störfum.

 

Mynd frá Malaví

Þróunaráætlun Sameinuðu Þjóðanna
(United Nations Development Program - UNDP)

Í ágúst 2023 lauk samstarfsverkefni Íslands, Írlands og Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna en verkefnið stuðlaði að friðsamlegum samskiptum samfélaga á landamærum Malaví og Mósambík með getuuppbyggingu héraðsfriðarnefnda og þjálfun landamæravarða og lögreglu. Einnig fengu samfélög þjálfun í sáttamiðlun og sem og ýmis tól til að leysa úr ágreiningum áður en til átaka kæmi. Alls fengu 4.898 einstaklingar þjálfun á vegum verkefnisins og var endurgjöfin frá samfélögunum mjög góð. Tilkynntu þátttakendur um aukinn skilning til greininga á átökum og bættri getu til að leysa ágreining farsællega. Góður árangur verkefnisins varð til þess að fleiri framlagsríki hafa lagt lóð sín á vogarskálarnar og nær verkefnið nú til allra héraða sem liggja að landamærum Malaví og annarra ríkja.

 

 

Nýr fæðingarspítali rís í Mangochi

Efnahagsleg valdefling ungmenna

Árangur stuðnings við menntun í Mangochi

Bætt aðgengi að vatni og hreinlæti

Monkey Bay Community Hospital

Um Malaví

Malaví er land í suðausturhluta Afríku og á landamæri að Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Höfuðborg landsins er Lilongwe og er áætlaður íbúafjöldi Malaví um 20 milljónir, sem gerir Malaví að einu þéttbýlasta ríki í Afríku. Malavíska þjóðin er mjög ung, meira en helmingur af íbúafjölda Malaví er yngri en 18 ára Malaví-vatn sem nær yfir fimmtung landsins en samtals er flatarmál Malaví aðeins stærra en Ísland eða um 120 þúsund ferkílómetrar. Malaví er meðal fátækustu ríkja í heimi en það er í 169. sæti af 191 ríki á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (Human Development Index). Fjölbreytt náttúra einkennir landið, með hásléttum og gróðursælu láglendi. Malaví er frjósamt og mikill meirihluti landsmanna lifir af landbúnaði. Tóbaks, te- og bómullarrækt til útflutnings, en maís, kassavarót og hrísgrjón eru helstu matvælategundirnar sem ræktaðar eru til neyslu innanlands.

 

Ítarefni

Tvíhliða þróunarsamvinna

Síðast uppfært: 28.11.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta