Hoppa yfir valmynd
29. september 2023 Brussel-vaktin

Evrópuþingið og komandi þingkosningar

Að þessu sinni er fjallað um:

  • Evrópuþingið og komandi þingkosningar
  • stefnumörkun framkvæmdastjórnar ESB í átt að auknu viðnámsþoli, samkeppnishæfni og sjálfbærni
  • gjaldskrá Lyfjastofnunar Evrópu
  • grænþvott og aukna neytendavernd
  • áætlun ESB um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti
  • óformlegan fund samgönguráðherra
  • framtíð vinnumarkaða og samráð aðila vinnumarkaðarins
  • fjármálalæsi barna og ungmenna

Evrópuþingið og komandi þingkosningar

Dagana 6. – 9. júní 2024 fara fram kosningar til Evrópuþingsins. Kosningarnar marka jafnframt lok skipunartímabils núverandi framkvæmdastjórnar Ursulu von der Leyen.

Evrópuþingið (e. European Parliament) er ein af sjö meginstofnunum ESB, sbr. 13. gr. sáttmálana um Evrópusambandið (The Treaty on European Union – TEU) , hinar stofnanir eru:

  • Leiðtogaráð ESB (e. European Council)
  • Ráðherraráð ESB (e. Council of the European Union)
  • Framkvæmdastjórn ESB (e. European Commisson)
  • Dómstóll ESB (e. Court of Justice of the European Union)
  • Seðlabanki Evrópu (e. European Central Bank)
  • Endurskoðunarréttur ESB (e. European Court of Auditors)

Staða Evrópuþingsins í stjórnskipan ESB hefur þróast og styrkst á umliðnum áratugum frá því að vera einungis ráðgefandi þing yfir í að vera ein helsta valdastofnun ESB. Var núverandi staða þingsins innsigluð með Lissabon-sáttmálanum árið 2007.

Evrópuþingið fer með löggjafarvald innan ESB og gegnir auk þess áþekkum hlutverkum gagnvart framkvæmdarvaldsarmi ESB og þjóðþing aðildarríkjanna gegna almennt gagnvart handhöfum framkvæmdarvalds í hverju ríki.

Evrópuþingið deilir löggjafarvaldinu með ráðherraráði ESB samkvæmt sérstökum málsmeðferðarreglum en auk þess fer framkvæmdastjórn ESB með veigamikinn þátt í löggjafarferlinu þar sem hún ein hefur rétt til að eiga frumkvæði að lagabreytingum með framlagningu formlegra lagafrumvarpa, sbr. 225. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandins (The Treaty on the Functioning of the European Union - TFEU). Framangreint rýrir vissulega stöðu Evrópuþingsins sem handhafa löggjafarvalds því enda þótt þingið geti vissulega kallað eftir því við framkvæmdastjórnina að lagafrumvarp sé undirbúið og lagt fram er það komið undir endanlegu mati framkvæmdastjórnarinnar sjálfrar hvort af því verði. Hefur þingið kallað eftir því, nú síðast með sérstakri þingsályktun sem samþykkt var í júní í fyrra, að sáttmálum ESB verði breytt til að rétta hlut þingsins að þessu leyti.

Þingið á sömuleiðis hlutdeild í fjárstjórnarvaldi ESB en deilir því valdi einnig með ráðherraráði ESB og þurfa fjárveitingatillögur framkvæmdastjórnarinnar samþykki þingsins til að ná fram að ganga, sbr. 314. gr. TFEU.

Evrópuþinginu er í orði kveðnu ætlað stórt hlutverk við skipan framkvæmdastjórnar ESB. Kjör forseta framkvæmdastjórnarinnar fer þannig fram, sbr. 7. mgr. 17. gr. TEU, að leiðtogaráð ESB tilnefnir einstakling til að gegna embættinu, með hliðsjón af niðurstöðum kosninga til Evrópuþingsins. Tilnefning ráðsins er síðan borin undir atkvæði í Evrópuþinginu, að undangenginni athugun af hálfu þingsins, og ræður einfaldur meiri hluti úrslitum. Náist meiri hluti telst forsetinn réttkjörinn en ella gengur málið aftur til leiðtogaráðsins sem þarf þá að koma sér saman um nýja tilnefningu í embættið.

Þingið hefur jafnframt ítök er kemur að skipun framkvæmdastjóra einstakra málefnasviða (ráðherra) innan framkvæmdastjórnarinnar en þar er tilnefningarvaldið hjá aðildarríkjunum á vettvangi ráðherraráðs ESB, að höfðu samráði við kjörinn forseta. Listi tilnefndra framkvæmdastjóra er síðan borinn undir Evrópuþingið til samþykktar. Að fengnu samþykki þingsins gengur listinn síðan til leiðtogaráðs ESB sem fer með hið endanlegt skipunarvald en aukinn meiri hluta í ráðinu þarf til þess að listinn teljist samþykktur, sbr. aftur framangreinda 7. mgr. 17. gr. TEU. 

Framangreind aðkoma Evrópuþingsins að skipan framkvæmdastjórnarinnar  endurspeglar vitaskuld þá hugsun að framkvæmdarvaldsarmur ESB sitji í skjóli Evrópuþingsins og getur þingið jafnframt lýst vantrausti á framkvæmdastjórnina og skal hún þá víkja, sbr. 8. mgr. 17. gr. TEU. Til að vantrauststillaga nái fram að ganga þarf þó tvo þriðju hluta greiddra atkvæða í þinginu og er þröskuldurinn því all hár, sbr. 234. gr. TFEU.

Á framangreindum grundvelli er þinginu og þingmönnum síðan ætlað að veita framkvæmdastjórn ESB lýðræðislegt aðhald í störfum sínum, svo sem með þingfyrirspurnum, sbr. 230. gr. TFEU, athugunum af hálfu þingnefnda auk þess sem þingið getur sett á fót tímabundnar sérnefndir eða rannsóknarnefndir til að skoða einstök mál, sbr. 226. gr. TFEU. Þá getur þingið jafnframt m.a. höfðað mál gegn öðrum stofnunum ESB fyrir dómstóli ESB, ef það telur að viðkomandi stofnun hafi brotið gegn sáttmálum ESB.

Þá kýst Evrópuþingið evrópska umboðsmanninn (European Ombudsman), sbr. 228. gr. TFEU. Þingið hefur jafnframt forustuhlutverk þegar kemur að úrvinnslu formlegra undirskriftasafnana og frumkvæðismála sem stafa frá borgurum ESB, sbr. 227. gr. TFEU.

Eins og áður segir þá munu kosningar fara fram til Evrópuþingsins á næsta ári og leiðir það af framangreindri stöðu Evrópuþingsins í stjórnskipan ESB að úrslit kosninganna geta haft mikil áhrif á þróun sambandsins á komandi árum og stefnumótun innan þess og þar með einnig á þróun EES-samningsins og þeirrar Evrópulöggjafar sem Íslandi ber að taka upp og innleiða á grundvelli samningsins. Þannig er auðvelt, svo dæmi sé tekið, að leiða líkur að því að úrslit kosninganna til Evrópuþingsins árið 2019 hafi haft veruleg áhrif á það að svo metnaðarfullur Grænn sáttmáli (e. The European Green Deal) með þeirri fjölbreyttu lagasetningu á sviði umhverfis- og loftlagsmála, sem raun ber vitni, leit dagsins ljós.

Framkvæmd kosninga til Evrópuþingsins er ekki stjórnað miðlægt heldur fara kosningarnar fram í aðildarríkjunum í samræmi við kosningalöggjöf í hverju ríki. Hlutbundin listakosning (D'Hondt) er algengasta kosningaformið en það er sama aðferð og notuð er við kosningar á Íslandi.

Hámarksfjöldi þingmanna á Evrópuþinginu er ákvarðaður í 2. mgr. 14. gr. TEU og er hámarksfjöldi þingmanna 750 að viðbættum forseta þingsins, eða 751. Sáttmáli ESB ákvarðar einnig hámarks- og lágmarkstölu þingmanna sem koma í hlut einstakra aðildarríkja og deilast þingmenn á milli ríkja innan þeirra marka í hlutfalli við íbúafjölda þeirra (e. principle of degressive proportionality). Lágmarksfjöldi sem hvert ríki fær eru sex þingmenn og hámarksfjöldi er 96 þingmenn. Þrjú ríki, þ.e. Malta, Lúxemborg og Kýpur njóta lágmarksreglunnar og hafa sex þingmenn. Þýskaland er eina ríkið sem hefur hámarksfjölda þingmanna eða 96. Þýskaland myndi þó eiga rétt á fleiri þingmönnum ef hlutfallsreglan ein réði ríkjum. Önnur aðildarríki hafa þingmannafjölda í réttu hlutfalli við íbúafjölda að teknu tilliti til framangreinds.

Ákvörðun um mengið, þ.e. fjölda þingsæta sem verður í boði í næstu kosningum, hefur verið tekin en ákvörðun þar að lútandi er á valdsviði leiðtogaráðs ESB, að fengnu samþykkti Evrópuþingsins sjálfs. Samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðun, dags. 22. september sl., þá verða þingsæti á Evrópuþinginu á næsta kjörtímabili 720. Er það fjölgun um 15 sæti frá því sem nú er, en þess ber þó að geta að í síðustu Evrópuþingskosningum var reglan um hámarksfjölda þingsæta nýtt að fullu og voru þingsætin 751. Þingsætum fækkaði hins vegar við útgöngu Breta úr ESB árið 2020. Sjá nánar hér um skiptingu þingsæta á milli aðildarríkja og hverjar breytingar verða á innbyrðis skiptingu þeirra á milli aðildarríkja, en ákvarðanir um slíkar breytingar taka mið af lýðfræðilegum breytingum sem verða á milli kosninga.

Að loknum kosningum þá skipa kjörnir fulltrúar sér í þingflokka innan Evrópuþingsins. Núverandi þingflokkar á Evrópuþinginu eru 7 talsins og endurspegla þeir pólitíska litrófið í Evrópu. Sjá nánar um kosningarnar og framkvæmd þeirra á kosningasíðu sem sett hefur verið upp á vef Evrópuþingsins.

Brussel-vaktin mun fjalla nánar um væntanlegar kosningar, þingflokkana og málefnin og svonefnda oddvitaaðferð (Spitzenkandidaten process) við val á forseta framkvæmdastjórnar ESB á næstu misserum.

Stefnumörkun framkvæmdastjórnar ESB í átt að auknu viðnámsþoli, samkeppnishæfni og sjálfbærni

Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni orðsendingu til Evrópuþingsins, leiðtogaráðs ESB, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um aukið viðnámsþol ESB, samkeppnishæfni og sjálfbærni (e. Communication towards a more resilient, competitive and sustainable Europe).

Birting orðsendingar nú í aðdraganda að óformlegum fundi leiðtogaráðs ESB sem haldinn verður í Granada á Spáni 6. október nk. er af hálfu framkvæmdastjórnarinnar m.a. hugsuð sem framlag og innlegg í væntanlegar samræður leiðtoganna um það hvernig efnahagslegt öryggi og sjálfstæði Evrópu verði tryggt til framtíðar (e. EU‘s Open Strategic Autonomy). Open Strategic Autonomy er meðal helstu stefnumála Spánverja á formennskutímabili þeirra í ráðherraráðinu og mun skýrslan „Resilient EU2030“ sem Spánn hefur tekið saman um þessi efni einnig liggja til grundvallar umræðu á fundinum.

Gert er ráð fyrir að framangreind málefni verði jafnframt til umræðu á fundi European Political Community (EPC) sem haldinn verður daginn áður, 5. október, þar sem forsætisráðherra Íslands tekur þátt ásamt öðrum þjóðarleiðtogum Evrópu, flestum. Sjá nánar um þann fund hér.

Orðsending framkvæmdastjórnarinnar er m.a. byggð á Versalayfirlýsingunni sem leiðtogaráðið samþykkti á fundi sínum 10. og 11. mars 2022

Gjaldskrá Lyfjastofnunar Evrópu

Í vikunni náðu ráðherraráð ESB, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB samkomulagi í þríhliða viðræðum um breytingar á reglugerð um gjaldskrá Lyfjastofnunar Evrópu (European Medicines Agency – EMA). Haft er eftir starfandi heilbrigðisráðherra Spánar, en Spánverjar fara nú með formennsku í ráðherraráðinu, að með reglugerðinni taki við sjálfbært, einfaldara og sveigjanlegra gjaldskrárkerfi sem tryggi örugg hágæða lyf á innri markaði sambandsins. Þá sé það grundvallaratriði að með breyttum reglum sé Lyfjastofnun Evrópu og lyfjastofnunum í ríkjunum tryggð fullnægjandi fjármögnun til framtíðar. Sjá einnig nánar um samkomulagið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB.

Með nýju gjaldskrárkerfi er horfið frá kerfi fastra gjalda og tekið upp kerfi sem tryggir betur að gjöldin endurspegli raunkostnað við þá vinnu sem innt er af hendi hverju sinni. Þá á kerfið að vera gagnsærra um þær fjárhæðir sem greiddar eru til stjórnvalda í ríkjunum. Reglurnar mæla einnig fyrir um virkt kostnaðareftirlit og aukinn sveigjanleika við að aðlaga gjöldin ef breytingar verða á undirliggjandi kostnaði. Þannig standa vonir til að nýtt greiðslukerfi verði sjálfbært og sveigjanlegt og að það tryggi fjármögnun EMA og annarra lyfjastofnana á EES-svæðinu til framtíðar.

Fjallað var um málið í Vaktinni 10.mars sl. Þar kemur fram að hagsmunir Íslands í málinu eru töluverðir. Framlag Íslands við veitingu markaðsleyfa fyrir ný lyf innan EES-svæðisins hefur aðallega verið á sviði vísindaráðgjafar en síðastliðið ár hefur hlutdeild Lyfjastofnunar Íslands í þeirri vinnu verið um 8%. Hlutdeildin er há í samanburði við stærð stofnunarinnar. Eins og rakið var í framangreindri umfjöllun í  Vaktinni þá hafa verið uppi áhyggjur af því að breytingatillögurnar gætu haft í för með sér tekjutap fyrir Lyfjastofnun með þeim afleiðingum að erfitt kynni að verða að viðhalda þeirri sérfræðiþekkingu sem byggst hefur upp á þessu sviði innan stofnunarinnar og var þeim áhyggjum komið á framfæri við ESB.

Í fréttatilkynningu ráðherraráðsins kemur fram að samkomulagið feli í sér þrjár megin breytingar á tillögum framkvæmdastjórnarinnar sem allar miða að því leiðrétta gjaldaliði til hækkunar, þ.e.:

  1. fyrir almennri verðbólgu
  2. fyrir vísindaráðgjöf og vinnu við samheitalyf
  3. fyrir liði sem ráðstafað er til lyfjastofnana viðkomandi landa (landsyfirvalda) sem vinna fyrir EMA til að tryggja hæft starfsfólk

Eftir því sem best verður séð, en útgáfa reglugerðarinnar með framangreindum breytingum hefur ekki enn verið birt, koma þessar breytingar ágætlega til móts við sjónarmið og hagsmuni Íslands. Lyfjastofnun getur þokkalega vel við unað og er í góðum færum til áframhaldandi samstarfs við EMA og systurstofnanir á EES-svæðinu.

Samkomulagið bíður nú formlegrar afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB og verður reglugerðin í framhaldinu birt í Stjórnartíðindum ESB og tekur hún gildi í framhaldi af því.

Tekið á grænþvotti og neytendur efldir

Samkomulag náðist í síðustu viku í þríhliða viðræðum ráðherraráðs ESB, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu að tilskipun sem ætlað er að efla neytendur til þátttöku í grænu umskiptunum svonefndu.

Tillagan var lögð fram af framkvæmdastjórn ESB í mars á síðasta ári og er hluti nýrrar aðgerðaáætlunar um neytendavernd (e. New Consumer Agenda) og áætlunar um hringrásarhagkerfi (e. Circular Economy Action Plan), sbr. umfjöllun í Vaktinni 1. apríl 2022. Tillögunni er jafnframt ætlað að fylgja eftir stefnumörkun Græna sáttmálans (e. The European Green Deal). Tillagan er ein fjögurra tillagna í pakka sem einnig tekur til visthönnunar, grænna fullyrðinga og réttar neytenda til viðgerða á vörum, sbr. umfjallanir um þau mál í Vaktinni 1. apríl 2022 og 24. mars 2023.

Í meðförum tveggja fastanefnda Evrópuþingsins var tillagan styrkt nokkuð að því er varðar kröfur til umhverfismerkja og samanburðartóla til að meta sjálfbærni vara og eru þær breytingartillögur hluti af samkomulaginu nú. Ákvæði tillögunnar um grænþvott hafa vakið hvað mesta athygli en með þeim er lagt til að tekið verði fyrir notkun fyrirtækja á almennum og óljósum umhverfisfullyrðingum á borð við „kolefnishlutlaust“ eða „umhverfisvænt“ ef þær styðjast ekki við viðurkennd viðmið og viðeigandi sönnunargögn. Þannig mun fyrirtækjum reynast erfiðara að styðjast við hin ýmsu kolefnisjöfnunarverkefni sem standa til boða gegn endurgjaldi ef þau hafa ekki verið viðurkennd.

Tillagan miðar almennt að því að efla neytendur og auka tækifæri þeirra til sparnaðar og til að ná markmiðum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu á vörum. Með tillögunni er þannig m.a. stefnt að aukinni þátttöku neytenda í hringrásarhagkerfinu.

Lögð er áhersla á bætta upplýsingagjöf til neytenda um endingu og viðgerðir á vörum og að komið sé í veg fyrir grænþvott, skipulagða úreldingu vara og notkun óáreiðanlegra og ógagnsærra umhverfismerkja.

Ný tilskipun mun fela í sér talsverðar breytingar á tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum og tilskipun um réttindi neytenda og lúta breytingarnar meðal annars af eftirtöldum þáttum:

  • Gerðar verða auknar gagnsæiskröfur og eftirlit aukið með fullyrðingum um framtíðarframmistöðu í umhverfismálum.
  • Skylt verður að upplýsa neytendur um það hvort hægt sé að gera við vörur og hve lengi þær endast. Jafnframt verður óréttmætt að veita villandi upplýsingar um viðgerðir og endingu sem og um umhverfis- og samfélagsleg áhrif vara.
  • Gerðar verða auknar kröfur til gagnsæis við samanburð seljenda á sjálfbærum vörum og gert óréttmætt að villa um fyrir neytendum.
  • Tíu tegundir óréttmætra viðskiptahátta bætast við svonefndan svarta lista tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum. Þetta eru m.a. viðskiptahættir sem tengjast notkun umhverfisfullyrðinga, umhverfismerkja, endingu vara, viðgerða á vörum, o.s.frv. 
  • Tekin verður upp samræmd merking með upplýsingum um ábyrgðir auk þess að upplýsingaskyldur seljenda um lögbundnar ábyrgðir verða hertar. Við kaup verður skylt að upplýsa neytendur sérstaklega ef samningsbundin ábyrgð er í boði fyrir vöruna sem gengur lengra en lögbundin ábyrgð. Þá verður í ákveðnum tilfellum skylt að veita upplýsingar um hagkvæmni viðgerða eða upplýsingar um framboð varahluta og notenda- og viðgerðahandbækur ef við á.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráð ESB. Gert er ráð fyrir atkvæðagreiðslu í Evrópuþinginu í nóvember 2023. Gert er ráð fyrir að ný tilskipun taki gildi gildi í aðildarríkjum ESB árið 2026.

Áætlun ESB um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti

Þann 17. mars 2023 var reglugerð ESB um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti (e. Infrastructure for Resilience, Interconnectivity and Security by Satellite - IRIS²) birt í stjórnartíðindum ESB. Fjallað hefur verið reglulega um málið í Vaktinni á fyrri stigum, sbr. umfjallanir 4. mars 2022, 24. júní 2022, 16. desember sl. og nú síðast 10. mars sl. þar sem greint var frá því að EES/EFTA ríkin hafi sameiginlega óskað eftir þátttöku í verkefninu á grundvelli EES-samningsins.

Á grundvelli reglugerðarinnar hefur framkvæmdastjórnin nú auglýst útboð á fyrsta áfanga kerfisins, sem metinn er á 2,4 milljarða evra en áætlað er að kerfið verði tilbúið til notkunar 2027.

Samkvæmt reglugerðinni er markmiðið með uppbyggingu fjarskiptanets um gervihnetti að styrkja viðnámsþol þátttökuríkja við áföllum og tryggja stjórnvöldum áreiðanlegt fjarskiptakerfi sem m.a. styður við eftirlitskerfi stjórnvalda, vernd mikilvægra innviða, stjórnun á neyðarstund og við landvarnir.

Unnið er að áætluninni í samvinnu við Geimvísindastofnun Evrópu (The European Space Agency) og fyrirtækja á sviði geimvísinda. Kerfið nýtir núverandi Govsat gervihnattakerfið sem grunn fyrir frekari uppbyggingu og verða einstakir hlutar nýja kerfisins boðnir út sem samvinnuverkefni opinberra aðila og einkaaðila.  

Á fundum vinnunefndar EFTA um samgöngumál hefur gerðin reglulega verið til umræðu og að frumkvæði Norðmanna skiluðu EFTA-ríkin þrjú, Ísland, Liechtenstein og Noregur þann 17. júní 2022 sameiginlegri EES EFTA-umsögn til ráðsins og Evrópuþingsins þegar hún var þar til umfjöllunar.

Noregur hefur lagt mikla áherslu á þátttöku í áætluninni annars vegar til þess að vera í aðstöðu til að hafa áhrif á mótun kerfisins og til að tryggja stjórnvöldum aðgang að þjónustu þess þegar þar að kemur. Sömuleiðis muni kerfið tryggja netsambönd fyrir fjarlægar byggðir og svæði sem hafa ekki aðgang að fjarskiptainnviðum á landi. Þá vilja norsk yfirvöld tryggja norskum rannsóknastofnunum og fyrirtækjum á geimvísindasviði aðgang að verkefnum við þróun og uppbyggingu kerfisins. Aðild Noregs að Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, styður auk þess við þetta markmið þeirra.

Reglugerðin hefur eins og áður segir verið til umfjöllunar í vinnunefnd EFTA um samgöngumál en sú nefnd fær almennt tillögur er varða geiminn til umfjöllunar. Þessi tiltekna áætlunin snýr hins vegar að fjarskiptum, þ.e. öryggisfjarskiptum, neyðarfjarskiptum, fjarskiptum vegna varnarmála og netsambandi við dreifbýl svæði. Áætlunin varðar þannig þjóðaröryggi, neyðarfjarskipti, fjarskipti viðbragðsaðila, löggæsluaðila og varnarmál og kemur þannig inn á málefnasvið ýmissa ráðuneyta.

Á ríkisstjórnarfundi 8. september sl. kynnti háskóla,- iðnaðar og nýsköpunarráðherra sem jafnframt fer með fjarskiptamál í Stjórnarráði Íslands minnisblað um áætlunina og mögulega aðkomu Íslands að henni og var ákveðið í framhaldinu að hefja samtal við framkvæmdastjórn ESB um mögulega þátttöku Íslands í áætluninni.

Áætlað er að heildarkostnaður við áætlunina muni nema um 6 milljörðum evra og er gert ráð fyrir að hluti kerfisins verði samvinnuverkefni við einkaaðila sem koma þá til með að fjármagna hluta þess. Þá verða sjóðakerfi ESB nýtt til fjármögnunar svo sem Horizon áætlunin og Galileo áætlunin.

Ísland tekur þátt í Horizon, Digital Europe og hluta af Galileo-áætlunum. Samkvæmt grófu mati EFTA skrifstofunnar er áætlað að mögulegur kostnaður Íslands af þátttöku í verkefninu geti orðið um 3-400 millj. kr. á tímabilinu 2023-2027.

Óformlegur fundur samgönguráðherra ESB

Óformlegur fundur samgönguráðherra ESB var haldinn í Barselóna 21. – 22. september sl. Megin umræðuefni fundarins var þáttur samgangna í því að tryggja félagslegt jafnrétti (e. social cohesion) og til að stuðla að samheldni innan landsvæða (e. cohesion of territories). Samgönguráðherrum EFTA ríkjanna var boðið á fundinn. Í forföllum Sigurðar Inga Jóhannsson innviðaráðherra sótti fundinn Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í Brussel.

Á fundinum lagði hann áherslu á mikilvægi þess að stuðla að samheldni EES-svæðisins í heild sinni er kemur að samgöngum. Í því samhengi þyrfti að hafa hugfast að flug væri eini raunhæfi samgöngumátinn fyrir farþega til og frá Íslandi. Frá Íslandi væru um 1.500 km til næsta flugvallar innan EES-svæðisins og að meðaltali væru 2.200 km til flugvalla í Evrópu sem þjónað er frá Íslandi. Flug til og frá Íslandi væri í dag að fullu sjálfbært, þ.e. án opinberra styrkja, en áhyggjur færu þó vaxandi af auknum kostnaði í flugi m.a. vegna aðgerða á sviði loftlagsmála. Var í því sambandi sérstaklega vísað til viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir fyrir flug, sem ítarlega hefur verið fjallað um í Vaktinni umliðnum misserum síðast 26. maí sl. Slíkar hækkanir gætu komið sérstaklega illa niður á efnaminni fjölskyldum og þar með leitt af sér aukið félagslegt ójafnrétti. Þá þyrfti sérstaklega að gæta að því viðskiptakerfið leiddi ekki til kolefnisleka og skertrar samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga sem nota tengiflugvelli innan Evrópu.   

Ávarp samgönguráðherra Portúgals á fundinum vakti sérstaka athygli en þar tók ráðherrann sterkt til orða er hann fjallaði um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir siglingar. Sagði hann að kerfið setti umskipunarhafnir innan ESB við Miðjarðarhafið í lakari samkeppnisstöðu gagnvart höfnum í Norður-Afríku og að útgerðarfélög gámaflutningaskipa sem sigldu með varning frá austurlöndum til og frá ESB væru nú í óða önn að endurskoða viðskiptamódel sín vegna þessa með það fyrir augum að færa umskipunarviðskipti sín til hafna í Norður-Afríku. Sagði ráðherrann að þróunin í þessa átt væri hröð og að brýnt væri að framkvæmdastjórn ESB brygðist við. Margir ráðherrar tóku undir þessar áhyggjur, sér í lagi ráðherrar ríkja er liggja að Miðjarðahafinu. Er áhugavert að sjá að þessi málflutningur og þessar áhyggjur eru af sama toga og áhyggjur og málflutningur Íslands er kemur að samkeppnisstöðu tengiflugvallarins í Keflavík í flugi yfir Norður-Atlantshafið en um 40% farþega Keflavíkurflugvallar eru farþegar í tengiflugi yfir hafið. Þær áhyggjur má einnig yfirfæra á aðra tengiflugvelli innan EES-svæðisins enda þótt áhrifin þar séu hlutfallslega minni.

Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsingu „Barcelona Declaration“ sem staðfesti vilja þeirra til að vinna að jafnræði (e. equitable) og aðgengilegum samgöngum sem stuðluðu að félagslegri samheldni og samheldni svæða almennt. Markmiðið er að ríkin sameinist um þá stefnu sem mörkuð hefur verið með Græna sáttmálanum og um virkar samgöngutengingar yfir allt evrópska efnahagssvæðið, þéttbýlissvæði, dreifbýl svæði og landfræðilega erfið svæði.

Um framtíð vinnumarkaða og samráð aðila vinnumarkaðarins

Þann 22. september sótti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fund ráðherra og háttsettra embættismanna  á vegum spænsku formennskunnar í ráðherraráði Evrópusambandsins í Santiago de Compostela í Galisíu á Spáni.

Aukið samráð við aðila vinnumarkaðarins er eitt af áherslumálum spænsku formennskunnar á sviði vinnumarkaðsmála. Talið er að samvinna og samtal aðila markaðarins sé til þess fallin að stuðla að félagslegu réttlæti og auka hagsæld og viðnámsþrótt Evrópu. Markmið fundarins í Santiego de Compostela var að varpa ljósi á það með hvaða hætti stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins geti sameiginlega greitt fyrir framgangi loftslagsmarkmiða og tekist á við stafrænar breytingar á vinnumarkaði, með samtali stjórnvalda og aðila markaðarins. Talið er að fjölmörg tækifæri í því efni geti meðal annars falist í því að styðja við vinnustaðalýðræði og  nýta kjarasamninga til þess að ná markmiðum í loftslagsmálum.

Fundinn sátu auk Guðmundar nokkrir ráðherrar Evrópuríkja, háttsettir embættismenn og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins á Spáni og víðar úr Evrópu.

Sjá nánar um fundinn og þátttöku ráðherra í fréttatilkynningu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um málið.

Fjármálalæsi barna og ungmenna

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni sameiginlegan ramma ESB og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um bætt fjármálalæsi barna og ungmenna er geti nýst þeim nú og til framtíðar.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að fjármálalæsi er í heildina litið bágborið í aðildarríkjum ESB. Ramminn er kynntur á grundvelli aðgerðaáætlunar frá 2020 (Capital Markets Union Action Plan) sem hefur auk þess leitt af sér ramma um fjármálalæsi og -færni fullorðinna.

Markmiðið með rammanum er að skapa sameiginlegan skilning meðal aðildarríkjanna um mikilvægi þess að börn og ungmenni séu læs á fjármál. Á þeim grunni muni ramminn styðja við þróun stefnu og áætlana sem ýti undir fjármálalæsi og að unnið verði kennsluefni hjá opinberum aðilum, einkaaðilum og hagsmunaaðilum.

Framkvæmdastjórn ESB og OECD munu nú vinna að því að hvetja yfirvöld í aðildarríkjunum, sérfræðinga og hagsmunaaðila til að ráðast í aðgerðir á grundvelli rammans.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum