Hoppa yfir valmynd
13. október 2023 Brussel-vaktin

Leiðtogaráð ESB gefur tóninn um stefnumörkun til næstu fimm ára

Að þessu sinni er fjallað um:

  • leiðtogafundi EPC og ESB
  • gerð sérstaks áhættumats á fjórum mikilvægum tæknisviðum
  • rannsókn á meintri niðurgreiðslu rafbílaframleiðslu í Kína
  • flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og ósoneyðandi efni
  • samkomulag innan ráðherraráðs ESB um nýjan heildarpakka í málefnum farand- og flóttafólks
  • stefnutæki til að bregðast við lýðfræðilegri þróun
  • leiðir til að auka þátt hjólreiða í samgöngum
  • forvarnir gegn húðkrabbameini og aðgerðir til að draga úr notkun ljósabekkja – bleikur október

 

Leiðtogafundir EPC og ESB

Leiðtogar Evrópu komu saman í Granada á Spáni dagana 5. og 6. október sl.

Annars vegar var um að ræða leiðtogafund hins nýja pólitíska vettvangs sem nefndur hefur verið European Political Community (EPC) þar sem leiðtogar 44 Evrópuríkja, þar á meðal leiðtogar allra 27 ESB-ríkjanna, komu saman þann 5. október. Meðal leiðtoga á fundinum var forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir. Þá sóttu fundinn forseti leiðtogaráðs ESB, Charles Michel, og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Urslua von der Leyen, og utanríkismálastjóri ESB, Josep Borrell.

Er þetta í þriðja skiptið sem evrópskir leiðtogar hittast á þessum vettvangi, en fyrsti fundurinn fór fram í Prag í október í fyrra, sbr. umfjöllun um þann fund í Vaktinni 7. október 2022. Yfirlýst markmið hins nýja vettvangs er að skapa leiðtogum Evrópuríkja innan og utan ESB vettvang til skoðanaskipta og stuðla að samvinnu um viðbrögð við þeim margbrotnu áskorunum sem við er að etja á þeim viðsjáverðu tímum sem nú eru. Er ljóst að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu með þeim alvarlegu ógnum og áskorunum sem það hefur haft í för með sér var megin aflvaki að stofnun vettvangsins enda þótt aðrar veigamiklar áskoranir eins og stækkun ESB, loftslagsbreytingar og flóttamannamál hafi einnig knúið þar á um.

Eins og á fyrri fundum þá var staða mála vegna árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu megin umfjöllunarefni fundarins og var full samstaða með Úkraínu ítrekuð.

Deila Armeníu og Aserbaídsjan, og mögulegar friðarumleitanir, voru einnig til umræðu á fundinum. Í aðdraganda fundarins stóðu vonir til þess að leiðtogar ríkjanna tveggja myndu hittast á sérstökum fundi. Til þess kom þó ekki þar sem Ilham Aliyev, forsætisráðherra Aserbaídsjan, hætti við þátttöku á leiðtogafundinum á síðustu stundu og sama gerði forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, raunar líka. Á hinn bóginn áttu Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, fund með Nikol Pashinyan forsætisráðherra Armeníu og var sameiginleg yfirlýsing þessara aðila birt að loknum þeim fundi þar sem m.a. var lýst áhuga á nánara sambandi á milli ESB og Armeníu, en undirliggjandi skilyrði þess af hálfu ESB er þó væntanlega að landið hverfi frá samstarfi sínu við Rússland. Enda þótt ekki hafi orðið að fundi leiðtoga Armeníu og Aserbaídsjan nú standa vondir til þess að slíkur fundur geti átt sér stað síðar á þessu ári.

Hinn nýi pólitíski vettvangur EPC hefur sætt vaxandi gagnrýni að undanförnu m.a. á þeim grunni að umgjörð hans sé óskýr og tilgangurinn sömuleiðis. Þessi gagnrýni fékk byr undir báða vængi þegar fréttamannafundi sem boðað hafði verið til í lok leiðtogafundarins var aflýst með stuttum fyrirvara en á þeim fundi hafði staðið til að gestgjafi fundarins Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, myndi skýra frá niðurstöðum fundarins auk þess sem gert var ráð fyrir að Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, myndi bjóða til og greina frá áherslum fyrir næsta EPC fund sem gert er ráð fyrir að fram fari á Bretlandi.

Hvað sem gagnrýni líður og skorti á beinhörðum niðurstöðum þá verður því væntanlega ekki á móti mælt að samtal leiðtoganna er jákvætt og mikils virði í sjálfu sér við núverandi aðstæður.

Eins og áður segir tók Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. Tók ráðherra m.a. þátt í hringborðsumræðum um orku-, umhverfis- og loftslagsmál. Lagði Katrín þar áherslu á mikilvægi þess að Evrópuríki hraði grænum orkuskiptum og tryggi réttlát umskipti í því ferli og einnig á mikilvægi þess að þrátt fyrir margar áskoranir á alþjóðavettvangi megi ríki heims ekki missa sjónar af markmiðum Parísarsáttmálans til að mæta loftslagsvánni sem sé stærsta viðfangsefni samtímans, sjá nánar um þátttöku ráðherra í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins

Lesa má nánar um meginniðurstöður EPC fundarins á vefsíðu leiðtogaráðs ESB, sbr. einnig m.a. reifun hugveitu Evrópuþingsins á efni fundarins

Hins vegar var um að ræða óformlegan fund leiðtogaráðs ESB sem fram fór daginn eftir, 6. október.

Óformlegir leiðtogaráðsfundir fara jafnan fram í því ríki ESB sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB á hverju sex mánaða tímabili. Slíkir fundir eru þó einungis óformlegir í þeim skilningi að ráðið er ekki bært til að beita valdheimildum sínum á slíkum fundum. Tilvist og staða leiðtogaráðs ESB byggir hins vegar ekki á beinum valdheimildum nema að litlu leyti, heldur áhrifavaldi fyrst og fremst sem endurspeglast síðan vettvangi ráðherraráðs ESB við ákvarðanatöku í einstökum málum og er því alla jafnan fátt sem greinir á milli formlegra og óformlegra funda ráðsins, nema fundarstaðurinn og ef til vill sérstök áherslumál eða hugarefni formennskuríkisins.

Að loknum fundinum sendu leiðtogarnir frá sér sameiginlega yfirlýsingu (e. The Granada declaration) og markar yfirlýsingin upphaf umræðu og undirbúning að nýrri fimm ára stefnuáætlun ráðsins (e. The Strategic Agenda) sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt að afloknum kosningum til Evrópuþingsins í júní á næsta ári, sbr. til hliðsjónar núverandi stefnuáætlun ráðsins fyrir árin 2019 – 2024 sem samþykkt var 20. júní 2019. Við samningu þeirrar áætlunar óraði vitaskuld engan við því sem framundan var með heimsfaraldri kórónuveiru, stríðsátökum, orkukreppu og kreppu í alþjóðasamskiptum í þeim mæli sem raun ber vitni o.s.frv. og ber áætlunin þess merki. Að sama skapi liggur fyrir að ný stefnuáætlun leiðtogaráðsins muni litast mjög af framangreindum atburðum og þeirri stöðu sem uppi er, og kemur sú sýn skýrt fram í framangreindri Granada-yfirlýsingu þar sem m.a. er lögð er áhersla á:

  • Að styrkja viðnámsþol ESB í víðum skilningi
  • Að vernda og styðja við efnahagslegt öryggi og sjálfstæði ESB
  • Að efla getu og sjálfstæði ESB á sviði öryggis- og varnarmála
  • Stuðning við Úkraínu
  • Að tryggja orkusjálfstæði ESB
  • Að ná markmiðum í loftslagsmálum
  • Að grípa til aðgerða sem nauðsynlegar eru til að aðlagast loftslagsbreytingum
  • Að auka viðnámsgetu við náttúrhamförum
  • Að vernda og efla innri markað ESB og auka samkeppnishæfni hans inn á við og út á við
  • Að tryggja aðgengi að mikilvægum hráefnum og lyfjum og auka fjölbreytni aðfangakeðja
  • Að efla samstarf og viðskipti við samstarfsríki
  • Að styðja við og efla forustuhlutverk ESB á sviði iðnaðar
  • Að efla rannsóknir og vísindi
  • Að vinna að stafrænum umskiptum
  • Að takast á við lýðfræðilegar breytingar, m.a. vegna öldrunar, sbr. umfjöllun um það málefni hér að neðan í Vaktinni.
  • Að efla neyðarviðbúnað og viðbragðskerfi við heilbrigðisvá
  • Að vinna að stækkunarmálum með grundvallargildi ESB um lýðræði og réttarríkið að leiðarljósi, enda sé stækkun ESB til þess falinn að stuðla að friði, öryggi, stöðugleika og aukinni velmegun íbúa aðildarríkjanna.

Eins og að framan greinir hefur leiðtogaráðið með yfirlýsingunni nú gefið tóninn um efni væntanlegrar stefnuáætlunar leiðtogaráðsins fyrir næsta fimm ára tímabil, 2024 – 2029, en umræðan um áherslur væntanlegrar áætlunar á þó vitaskuld eftir að mótast, þroskast á komandi misserum og við endanlega gerð hennar verður vitaskuld einnig tekið mið af niðurstöðum Evrópuþingskosninganna. Framangreind málefni voru mörg til umræðu á fundinum en þó einkum þau er lúta að auknu viðnámsþoli ESB, meðal annars á sviði öryggis- og varnarmála og hvernig tryggja megi efnahagslegt öryggi og sjálfstæði ESB til aðgerða. Til grundvallar umræðu um þessi málefni á fundinum lá m.a. fyrir orðsending framkvæmdastjórnar ESB um aukið viðnámsþol ESB, samkeppnishæfni og sjálfbærni (e. Communication towards a more resilient, competitive and sustainable Europe) en fjallað var stuttlega um þá orðsendingu í Vaktinni 29. september sl. Þá lá jafnframt fyrir skýrsla sem spænska formennskan hefur tekið saman og birt um þessi efni „Resilient EU2030“, sbr. einnig umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um tilmæli sem framkvæmdastjórn ESB þar sem hún mælir með því að aðildarríkin ráðist í gerð sérstaks áhættumats á mikilvægum tæknisviðum.

Auk framangreindra málefna komu málefni flótta- og farandfólks til umræðu á fundinum. Athygli hefur vakið að ekki er vikið að þessum málaflokki í Granada-yfirlýsingunni og hefur það verið rakið til andstöðu Póllands og Ungverjalands til þess samkomulags sem nú hefur náðst í ráðherraráði ESB í málaflokknum, sbr. sérstaka umfjöllun um það efni hér að neðan í Vaktinni. Birti forseti leiðtogaráðsins, þess í stað yfirlýsingu í eigin nafni, um mikilvægi málaflokksins.

Mælt með gerð sérstaks áhættumats á fjórum mikilvægum tæknisviðum

Þann 3. október sl. birti framkvæmdastjórn ESB tilmæli til aðildarríkjanna þar sem mælt er með því að þau ráðist í gerð sérstaks áhættumats á fjórum mikilvægum tæknisviðum. Eru tilmælin gefin út á grundvelli stefnuskjals sem framkvæmdastjórn ESB og utanríkismálaþjónusta ESB birtu sameiginlega þann 20. júní sl. um efnahagsöryggisáætlun ESB (e. European economic security strategy), sbr. nánari umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 23. júní sl.

Í orðsendingunni eru raunar skilgreind 10 mikilvæg tæknisvið en af þeim eru fjögur svið, þar sem áhættur er tengjast tækniöryggi og tækni- og þekkingarleka eru taldar mestar, dregin fram sérstaklega. Þessi tæknisvið eru eftirfarandi:

  • Háþróuð hálfleiðaratækni (e. Semiconductor), sbr. umfjöllun í Vaktinni um Chips Act 21. apríl sl.
  • Gervigreindartækni (e. Artificial Intelligence), sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl. um löggjafartillögur þar að lútandi.
  • Skammtatækni (e. Quantum technologies).
  • Líftækni (e. Biotechnologies)

Mælir framkvæmdastjórnin með því að aðildarríkin, í samstarfi við framkvæmdastjórnina, geri til að byrja með sameiginlegt áhættumat á þessu fjórum sviðum sem verði klárað fyrir lok þessa árs og fela tilmælin í sér tillögur um hvernig staðið verður að framkvæmd matsins. Í framhaldinu verði síðan metið hvort fleiri svið verði tekin til skoðunar og jafnframt til hvaða ráðstafana verði gripið með hliðsjón af þeim áhættuþáttum og áhættustigi sem greind verða.

Rannsókn á meintri niðurgreiðslu rafbílaframleiðslu í Kína

Eins og greint var frá í Vaktinni 15. september sl. boðaði forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, í stefnuræðu sinni í Evrópuþinginu 13. september sl. að framkvæmdastjórnin hygðist hefja rannsókn á því hvort Kína sé að niðurgreiða rafbílaframleiðslu með ósanngjörnum hætti í því skyni að öðlast markaðshlutdeild.

Framkvæmdastjórn ESB hefur heimildir til að hefja rannsóknir af því tagi sem hér um ræðir þegar erlent ríki er grunað um að niðurgreiða vörur með þeim hætti að skaðað geti evrópskan iðnað. Takist að leiða í ljós að svo sé getur framkvæmdastjórnin í framhaldinu lagt á innflutningstolla eða jöfnunartolla eins og þeir eru kallaðir, þ.e. aukatolla til að jafna samkeppnisstöðu á innri markaði ESB.

Þann 4. október sl. tilkynnti framkvæmdastjórnin síðan að formleg ákvörðun um að hefja framangreinda rannsókn hafi verið tekin.

Gert er ráð fyrir að rannsókninni verði lokið innan 13 mánaða og kemur þá væntanlega í ljós hvort forsendur séu til að leggja jöfnunartolla á kínverska rafbíla.

Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir og ósoneyðandi efni

Evrópuþingið, ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB, komust hinn 5. október sl.samkomulagi í þríhliða viðræðum um efni reglugerðartillagna um hertar reglur sem miða að því að að draga umtalsvert úr losun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda, F-gasi, (e. Fluorinated greenhouse gases) og ósoneyðandi efna. Núgildandi löggjöf ESB á þessu sviði er ströng en með breytingartillögunum nú er lagt til að reglurnar verði hertar enn frekar enda er það talið nauðsynlegt til að ná markmiðum Parísarsáttmálans um loftlagsmál. Eru breytingarnar þannig mikilvægar í því skyni að berjast gegn loftslagsbreytingum, uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og til að unnt verði að ná loftslagsmarkmiðum ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 og um kolefnishlutleysi árið 2050.

Samkvæmt samkomulaginu verður notkun vetnisflúorkolefna (HFC) að fullu hætt árið 2050 og framleiðsla á HFC minnkuð í áföngum frá og með árinu 2036.

Notkun ósoneyðandi efna í nýjum vörum og búnaði er þegar bönnuð í ESB. Með því að innleiða nýjar ráðstafanir, sem snerta vörur þar sem þessi efni voru áður löglega notuð, áætlar ESB að unnt verði að koma í veg fyrir um 200 milljóna tonna losun af CO2 ígildum og 32.000 tonna losun ósoneyðandi efna fyrir árið 2050. Er áætlað að mestum árangri verði náð með því að krefjast þess að ósoneyðandi efni séu endurheimt eða eytt úr einangrunarfroðu við niðurrif og endurgerð bygginga.

Með breytingunum er áætlað að framkvæmd og framfylgd reglnanna verði bætt. Toll- og eftirlitsstjórnvöld verður gert auðveldara að viðhafa eftirlit með inn- og útflutningi og taka á ólöglegum viðskiptum með umrædd efni og tengdum búnaði. Eftirlitið verður yfirgripsmeira og mun ná til fleiri efna og tegunda af starfsemi.

Málið gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við samkomulagið og er gert ráð fyrir að breyttar reglur komi þegar til framkvæmda eftir birtingu í Stjórnartíðindum ESB.

Samkomulag innan ráðherraráðs ESB um nýjan heildarpakka í útlendingamálum

Síðan framkvæmdastjórn ESB lagði fram endurskoðaða útgáfu af áætlun ESB í útlendingamálum í september 2020 hafa aðildarríkin unnið hörðum höndum að því að ná saman um lykilþætti hennar. Ljóst er að málið hefur reynst pólitískt erfitt en ríkin hafa náð að þoka málinu áfram með því að fjalla um áætlunina og þær reglugerðartillögur sem hún innifelur í skrefum. Líkt og fjallað var um í Vaktinni þann 2. desember 2022 hefur það hins vegar hamlað framgangi áætlunarinnar að aðildarríkin samþykktu á sínum tíma, árið 2016, þegar áætlunin var fyrst lögð fram að svokölluð heildarnálgun yrði viðhöfð í málaflokknum (e. package approach), sem felur í sér að einstakar tillögur innan pakkans geta ekki tekið gildi fyrr en samkomulag hefur náðst um þær allar.

Mikilvægum áfanga var náð á fundi ráðherrarráðs ESB í Lúxemborg þann 8. júní sl. þar sem samkomulag náðist, eftir langar samningaviðræður, um lykilþætti áætlunarinnar, þ.e.a.s. um tvær stærstu reglugerðirnar, annars vegar reglugerð um málsmeðferð á ytri landamærum (e. Asylum Procedure Regulation (APR)) og reglugerð um stjórn hælis- og útlendingamála (e. Asylum and Migration Management Regulation (AMMR)) sem varða m.a. samábyrgðarreglur, einfaldari málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og skyldubundna flýtimeðferð á ytri landamærum. Fjallað var um þann tímamótaáfanga í Vaktinni 9. júní sl. 

Þrátt fyrir framangreint átti ráðið enn eftir að ná saman um innihald svokallaðrar krísu-reglugerðar (e. Regulation addressing situations of crisis and force mejure in the field of migration and asylum (Crisis Regulation)) en sú reglugerð fjallar sérstaklega um aðgerðir og málsmeðferð þegar krísuaðstæður koma upp í flóttamannamálum. Ísland, sem samstarfsríki Schengen, er bundið af tveimur ákvæðum reglugerðarinnar, þ.e. greinum 4x og 4xa, sem kveða á um breytta framkvæmd svonefndrar Dyflinnarreglugerðar í óvenjulegum aðstæðum, þ.e. framkvæmd reglna um það hvaða ríki innan Schengen beri ábyrgð á afgreiðslu umsóknar um vernd.

Á fundi sendiherra (COREPER II) þann 4. október sl. náðist samkomulag milli meiri hluta ríkjanna um umboð til spænsku formennskunnar um að hefja þríhliða viðræður við Evrópuþingið um endanlega útgáfu og afgreiðslu fyrrnefndrar reglugerðar. Samkomulag um framangreint innan ráðherraráðs ESB, er einkar mikilvægt svo hægt verði að ná settu markmiði um að ljúka vinnu við heildarpakka ESB í útlendingamálum á skipunartímabili núverandi framkvæmdastjórnar og á kjörtímabili sitjandi Evrópuþings sem rennur út í júní á næsta ári. 

Stefnutæki til að bregðast við lýðfræðilegri þróun

Framkvæmdastjórn ESB sendi í vikunni frá sér orðsendingu um viðbrögð og úrræði vegna lýðfræðilegra breytinga. Um er að ræða eins konar stefnutæki (e. policy tools) sem aðildarríki sambandsins geta nýtt sér til að bregðast við breytingum á lýðfræðilegu mynstri í álfunni, m.a. vegna öldrunar, sem útlit er fyrir að muni breyta samfélögum ríkja og hagkerfum þeirra svo um munar.

Stefnutækin sem um ræðir byggja á reynslu hvarvetna úr Evrópu og er þar lögð áhersla á fjóra meginþætti. Í fyrsta lagi stuðning við foreldra með því að tryggja gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs og gott aðgengi að dagvistun barna. Í öðru lagi með stuðningi við yngri kynslóðir með því að búa þeim tækifæri til að þróa færni sína, tryggja aðgang þeirra að öflugum vinnumarkaði og húsnæði á viðráðanlegu verði. Í þriðja lagi með stuðningi við eldri kynslóðir; að velferð þeirra sé tryggð og að öflugt vinnumarkaðs- og vinnustaðastefna taki tilliti til sérþarfa þessa hóps. Í fjórða og síðasta lagi að takast á við skort á vinnuafli með því að stuðla að fólksflutningum sem tryggi að færni og þekking skili sér þangað sem þörf er fyrir hana.

könnun Eurobarometer um viðhorf gagnvart lýðfræðilegri þróun leiðir í ljós að sjö af hverjum tíu Evrópubúum telja hana stofna efnahagslegri velmegun og samkeppnishæfni ESB í hættu til lengri tíma litið. Í orðsendingunni kemur fram að á næstu árum muni íbúum ESB fækka og meðalaldur hækka, komi ekki til samstilltra og afgerandi aðgerða, sem muni til lengri tíma litið hafa áhrif á efnahag aðildarríkjanna, samfélag og samkeppnishæfni. Slík þróun muni leiða til skorts á vinnuafli með samfarandi auknu álagi á efnahagslega afkomu aðildaríkjanna

Vonir standa til að stefnutækin sem framkvæmdastjórnin hefur nú kynnt muni nýtast aðildarríkjunum á praktískan hátt og geti fallið vel að gildandi stefnum á mismunandi stjórnstigum innan ríkjanna.

Sambærileg vinna, sem tekur tillit til lýðfræðilegra breytinga á sér stað hér á landi um þessar mundir, t.a.m. í framtíðarnefnd Alþingis sem skipuð var í fyrra.

Leiðir til að auka þátt hjólreiða í samgöngum

Þann 4. október sl. birti framkvæmdastjórnin orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar sem inniheldur tillögur um leiðir til að auka þátt hjólreiða í samgöngum.

Í kynningu framkvæmdastjórnarinnar segir að með orðsendingunni sé tekið undir þau sjónarmið að hjólreiðar séu sjálfbær, aðgengilegur, hagkvæmur og heilsusamlegur ferðmáti fyrir alla þjóðfélagshópa. Hjólreiðar séu að auki mikilvægar fyrir efnahagslíf sambandsins. Nauðsynlegt sé fyrir aðildarríki að skuldbinda sig til að styðja við uppbyggingu innviða fyrir hjólreiðar s.s. með öruggum og greiðum hjólaleiðum í borgum, betri tengingu við almenningssamgöngur, með öruggum hjólastæðum og að settar verði upp hleðslustöðvar fyrir rafmagnshjól. Að auki eru hjólaleiðir sem tengja borgir við dreifbýl svæði taldar mikilvægar.

Er orðsendingin jafnframt þáttur í viðleitni ESB til að stuðla að því að markmið græna sáttmálans um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda náist. Orðsendingin gengur nú til umfjöllunar í þeim stofnunum ESB sem henni er beint til.

Forvarnir gegn húðkrabbameini og aðgerðir til að draga úr notkun ljósabekkja – bleikur október

Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að gerð tilmæla (e. recommendation) um forvarnir gegn húðkrabbameini sem miðar m.a. að því að draga úr áhættu vegna útfjólublárra geislunar, m.a. af völdum ljósabekkja, en útfjólublá geislun eykur líkurnar á sortuæxli sem er alvarlegasta tegund húðkrabbameina. 

Hefur framkvæmdastjórnin nú auglýst eftir sjónarmiðum, hugmyndum og gögnum (e. call for evidence) sem nýst geta við gerð tilmælanna í samráðsgátt ESB (e. Have your say). 

Gerð tilmælanna er liður í framfylgd Evrópuáætlunar framkvæmdastjórnar ESB um baráttuna við krabbamein (Europe´s Beating Cancer Plan), sem samþykkt var í febrúar 2021. Áætlunin spannar feril sjúkdómsins, allt frá forvörnum og meðhöndlun sjúkdómsins til þess að bæta lífsgæði krabbameinssjúklinga og eftirlifenda. 

Krabbameinsáætlunin er forgangsverkefni framkvæmdastjórnarinnar á sviði heilbrigðismála og einn lykilþátturinn í sífellt öflugra heilbrigðissamstarfi innan ESB (European Health Union). Á grundvelli hennar hefur og mun framkvæmdastjórnin grípa til ýmissa ráðstafana í baráttunni við krabbamein. Í því skyni eru tilgreind tíu flaggskipsverkefni og aðgerðir þeim til stuðnings sem hrinda á í framkvæmd á árunum 2021 til 2025 og áætlar framkvæmdastjórnin að 4 milljörðum evra verði varið til þeirra verkefna.

Árið 2020 greindust 2,7 milljónir Evrópubúa með krabbamein, auk þess létu 1,3 milljónir lífið af völdum meinsins, en þar af voru fleiri en 2000 ungmenni. Að óbreyttu var gert ráð fyrir að krabbameinstilfellum myndi fjölga um 25% til ársins 2035 og yrði þá aðaldánarorsök Evrópubúa.

Umræðan um krabbamein og þá sérstaklega forvarnir gegn krabbameini fær aukna athygli alþjóðlega í októbermánuði ár hvert – þökk sé bleikum októberRÚV greindi nýlega frá því að notkun ljósabekkja væri aftur komin í tísku á Íslandi og merki væru um að íslensk ungmenni stundi notkun þeirra í auknum mæli. Gengur það þvert á kannanir sem hafa gefið til kynna að dregið hafi úr almennri notkun ljósabekkja síðustu ár en þær kannanir hafa á hinn bóginn ekki náð til ungmenna, þar sem aldurstakmark fyrir notkun ljósabekkja á Íslandi hefur verið 18 ár allt frá 1. janúar 2011. Það hefur þó ekki, ef marka má fréttina, komið í veg fyrir að ungmenni noti bekkina.

Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þekkt og í skýrslu Alþjóða-heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem kom út 2017 er talið að notkun ljósabekkja valdi meira en 10 þúsund tilfellum sortuæxla árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum. Skýr heilbrigðisrök liggja því til grundvallar aðgerðum til að takmarka notkun ljósabekkja.

Hagaðilar á Íslandi geta tekið þátt í því opna samráðsferli sem nú stendur yfir og vísað er til að framan, en frestur til að senda inn sjónarmið, hugmyndir og gögn er til 6. nóvember nk.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum