Hoppa yfir valmynd
27. október 2023 Brussel-vaktin

Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2024

Að þessu sinni er fjallað um:

  • starfsáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) fyrir árið 2024
  • fund leiðtogaráðs ESB
  • aðgerðaáætlun um vindorku
  • orkutækniáætlun ESB
  • aðgerðir til að sporna gegn lyfjaskorti og auka afhendingaröryggi
  • endurskoðun reglna um fiskveiðieftirlit
  • vernd vöruheita
  • ráðstafanir til að sporna við misnotkun og ólöglegri notkun dróna
  • áform um lagasetningu á sviði geimréttar
  • einföldun regluverks á sviði samgagna
  • umbætur í opinberri stjórnsýslu aðildarríkja ESB

 

Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2024

Framkvæmdastjórn ESB birti þann 17. október sl. starfsáætlun fyrir árið 2024.

Með áætluninni eru línur lagðar fyrir síðasta starfsár sitjandi framkvæmdastjórnar en eins og kunnugt er munu kosningar til Evrópuþingsins fara fram í byrjun júní á næsta ári og rennur þá jafnframt út skipunartímabil framkvæmdastjórnarinnar, sbr. umfjöllun um komandi Evrópuþingskosningar í Vaktinni 29. september sl.

Ný ársáætlun endurspeglar, eins og jafnan, þær áherslur og málefni sem forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur áður boðað í stefnuræðu sinni (e. State of the Union Address) á Evrópuþinginu að vori, sbr. umfjöllun um síðustu stefnuræðu Ursulu von der Leyen í Vaktinni 15. september sl., sbr. einnig viljayfirlýsingu (e. Letter of intent) framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB sem gefin er út samhliða. Eins og fram kom í stefnuræðunni, og áréttað er í viljayfirlýsingunni, er það mat framkvæmdastjórnarinnar að 90% af þeim pólitísku stefnumálum sem stjórn von der Leyen lagði upp með í stefnuáætlun sinni í upphafi skipunartímabilsins árið 2019 hafi þegar náð fram að ganga. Ný frumkvæðismál eru því fremur fá í áætluninni. Er þess í stað lögð megináhersla á framgang aðgerða sem ætlað er að draga úr reglubyrði og einfalda regluverk, ekki síst fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Sumar hagræðingartillögur í þá veru eru þegar komnar fram svo sem löggjafartillögur um heildarendurskoðun á tollkerfi ESB, sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 9. júní sl. en aðrar eru í farvatninu. Eru í starfsáætluninni boðaðar samtals 26 nýjar tillögur sem ætlað er að stuðla að einföldun á ýmsum málefnasviðum og miða þær m.a. að því að færa upplýsingagjöf og skýrslugerð á rafrænt form, draga úr endurtekinni upplýsingagjöf fyrirtækja um sama efni með því að samnýta upplýsingar og draga úr tíðni upplýsingagjafar af hálfu atvinnurekenda. Sjá lista yfir framangreindar hagræðingartillögur í viðauka II með starfsáætluninni.

Þá er í áætluninni lögð áhersla á framgang þeirra tillagna sem þegar hafa verið lagðar fram en í viðauka III er að finna lista yfir framkomnar löggjafartillögur sem bíða afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB en þar er samtals um að ræða 154 tillögur sem snerta öll sex meginstefnumið framkvæmdastjórnarinnar.

Í viðauka I er síðan að finna lista yfir ný frumkvæðismál sem boðuð eru en þau snerta sömuleiðis öll sex meginstefnumið framkvæmdastjórnarinnar og flokkast sem hér segir:

Græni sáttmáli ESB (e. The European Green Deal)

  • Nýr vindorkupakki. Boðaðar eru aðgerðir sem ætlað er að einfalda og flýta leyfisveitingum á sviði vindorku, bæta fjármögnunarmöguleika og bæta samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar á þessu sviði. Er orðsending um þetta þegar komin fram, sbr. umfjöllun hér að neðan í Vaktinni.
  • Setning markmiða í loftlagsmálum fyrir árið 2040. Boðað er að sett verði af stað ferli fyrir töku ákvarðana um markmiðssetningu í loftlagsmálum fyrir árið 2040, með hliðsjón af meginmarkmiðinu um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Í því samhengi verður meðal annars sett fram áætlun um hvernig ná megi árangri með kolefnisförgun (e. Carbon Removal).
  • Stefna á sviði vatnamála (e. Water resilience). Kynnt verður stefna á sviði vatnamála, þ.e. hvernig hægt er að tryggja aðgang að vatni, fyrir almenning, atvinnulíf og náttúru um leið og leitað er leiða til að takast á við afleiðingar flóða annars vegar og vatnsskorts hins vegar.

Stafræn geta og færni (e. Europe fit for digital age)

  • Stefnumótun á sviði geimréttar. Kynnt verður stefnumótun á sviði geimréttar til að styðja við stafræn og græn umskipti. Er annars vegar stefnt að framlagningu löggjafartillagna á sviði geimréttar (e. European space law) og hins vegar að sett verði fram stefna um notkun gagna sem aflað er í geimnum í þágu atvinnulífs og til eflingar á geimhagkerfinu (e. Strategy on the space data economy). Sjá nánar umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um samráðferli sem hafið er vegna þessara áforma um lagasetningu á sviði geimréttar.
  • Stefnumörkun um ábyrga notkun gervigreindartækni.

Hagkerfi sem virkar (e. An economy that works for people)

  • Stefna um líftækni og líftækniframleiðslu. Kynnt verður stefna um hvernig fullnýta megi möguleika líftækni og líftækniframleiðslu til að auka samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar.
  • Samtal um félags- og vinnumarkaðsmálefni. Efnt verður til fundar með forustumönnum aðila vinnumarkaðarins innan ESB til að ræða margvíslegar áskoranir sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir m.a. vegna skorts á færu vinnuafli o.fl.
  • Stefnumótun á sviði grænna og stafrænna umskipta. Boðuð er frekari stefnumótun á sviði grænna og stafrænna umskipta með hliðsjón af efnahagsöryggistefnu ESB og sjónarmiða um efnahagslegt öryggi og sjálfstæði ESB (e. Open strategic autonomy). Sjá hér m.a. umfjöllun um nýja efnahagsöryggisáætlun ESB í Vaktinni 23. júní sl.
  • Endurskoðun á tilskipun um Evrópska samstarfsráðið (e. European Work Council). Með endurskoðuninni er brugðist við ákalli frá Evrópuþinginu um endurskoðun tilskipunarinnar.

Efling ESB á vettvangi heimsmála (e. A stronger Europe in the world)

  • Efling samskipta við ríki Afríku. Boðuð er útgáfa orðsendingar um eflingu samskipta við ríki Afríku.
  • Áætlun um eflingu evrópsks iðnaðar á sviði vopna- og varnartengdrar framleiðslu. Boðuð er útgáfa áætlunar um eflingu iðnaðar á þessu sviði til að bregðast við veikleikum sem þykja hafa komið í ljós í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu.

Efling samevrópskra lífshátta (e. Promoting our European way of life)

  • Endurskoðun lagaramma til að takast á við smygl á flóttafólki. Boðuð er framlagning löggjafartillagna um endurskoðun á lagaramma til að takast á við smygl á flóttafólki til ESB og jafnframt að samráð á milli aðildarríkjanna til að takast á við vandamálið verði aukið.
  • Samræmd umgjörð evrópskra prófgráða (e. Joint European degree). Kynnt verður tillaga um hvernig samræma megi umgjörð evrópskra prófgráða sem og tilmæli um samræmda viðurkenningu menntunar innan ESB o.fl.

Efling og vernd lýðræðis (e. A new push for European democracy)

  • Útgáfa orðsendingar um undirbúning og umbætur vegna mögulegrar stækkunar ESB.
  • Útgáfa tilmæla um samþættingu barnaverndarkerfa í aðildarríkjunum.

Starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar var kynnt í Evrópuþinginu sama dag og hún kom út, 17. október sl., og er ráðgert að hún komi til formlegrar kynningar vettvangi ráðherraráðs ESB, á fundi Evrópumálaráðherra ESB, sem áætlaður er 18. nóvember nk.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogaráð ESB kom saman til fundar í Brussel í gær, 26. október, og lauk fundinum síðdegis í dag.

Átökin sem nú geisa fyrir botni Miðjarðahafs, í kjölfar hrottalegrar hryðjuverkaárásar Hamas-samtakanna á Ísrael 15. október sl., var megin umfjöllunarefni fundarins í gær og sendu leiðtogarnir frá sér ályktun í lok fundarins þar sem árásin er fordæmd og réttur Ísraels til að verja sig er áréttaður.

Á hinn bóginn lýsir leiðtogaráðið þungum áhyggjum af versnandi mannúðarástandi á Gasaströndinni í kjölfar gagnaðgerða Ísraelshers og kallar eftir því að nauðsynleg aðstoð verði veitt almenningi án tafar og heita leiðtogarnir stuðningi ESB í því sambandi.

Í ályktuninni lýsa leiðtogarnir jafnframt yfir vilja til að leggja sitt að mörkum svo hægt verði að endurvekja samningaviðræður og friðarferli á milli Ísraels og Palestínu með tveggja ríkja lausn að leiðarljósi. Þá lýsa leiðtogarnir yfir stuðningi við hugmyndir um að alþjóðleg friðarráðstefna verði haldin fljótlega.

Eins og áður segir var fundi leiðtogaráðsins framhaldið í dag og var árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu til umræðu, þar sem ófrávíkjanlegan stuðningur ESB við Úkraínu var áréttaður. Markverðast er að leiðtogarnir sammæltust um að nýta bæri ávöxtun af frystum rússneskum fjármunum innan ESB til enduruppbyggingar í Úkraínu og er í niðurstöðu fundarins kallað eftir því að framkvæmdastjórnin komi fram með tillögur þar að lútandi. Talið er að eignir að verðmæti yfir 200 milljarðar evra í rússneskri eigu séu innan aðildarríkja ESB og því um talsverðar fjárhæðir að ræða.

Að auki voru efnahagsmál og samkeppnishæfni innri markaðar ESB rædd og kölluðu leiðtogarnir meðal annars eftir því að afgreiðsla mikilvægra mála eins og löggjafartillagna um kolefnislausan iðnað (e. Net Zero Industry Act), um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) og um endurskoðun reglna um raforkumarkað ESB (e. Electricity Market Reform) verði hraðað eins og kostur er, sbr. umfjöllun um þessi málefni í Vaktinni 24. mars sl.

Einnig kölluðu ráðherrarnir eftir því að nýrri orðsendingu um aðgerðir til að sporna gegn lyfjaskorti og auka afhendingaöryggi lyfja verði fylgt eftir með skjótum hætti, sbr. nánari umfjöllum um þessa orðsendingu hér að neðan í Vaktinni.

Málefni flótta- og farandfólks og fjölmörg önnur mikilvægi málefni voru til umræðu á fundinum. Sjá nánar um niðurstöður fundarins hér.

Í framhaldi af leiðtogafundinum fór fram leiðtogafundur evruríkjanna (Euro summit). Sjá nánar um niðurstöður þess fundar hér.

Aðgerðaáætlun um vindorku

Uppbygging innviða til framleiðslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku er grunnforsenda þess að markmið ESB um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 samkvæmt Græna sáttmálanum og REPowerEU áætluninni geti náðst. Þannig hefur ESB nýlega sett sér metnaðarfyllri markmið um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku fyrir árið 2030, sbr. umfjöllun í Vaktinni 21. apríl 2023, sbr. einnig svonefnda TEN-E reglugerð sem miðar að því að bæta afhendingaröryggi, markaðssamþættingu, samkeppni og sjálfbærni í orkugeiranum.

Áframhaldandi virkjun vindorku gegnir mikilvægu hlutverki ef takast á að ná þessum markmiðum en áætlað er að nýting vindorku þurfi að vaxa úr 204 GW árið 2022 í yfir 500 GW árið 2030.

Þrátt fyrir að virkjun vindorku og iðnaður á sviði vindmylluframleiðslu innan ESB hafi gengið vel á umliðnum árum eru blikur á lofti og áskoranir er kemur að frekari uppbyggingu og iðnaðarframleiðslu á þessu sviði innan ESB, svo sem óviss eftirspurn, seinvirkt og flókið leyfisveitingakerfi, skortur og hátt verð á nauðsynlegu hráefni, há verðbólga og aukin alþjóðleg samkeppni á vindmyllumarkaði og skortur á hæfu vinnuafli til framleiðslunnar.

Í stefnuræðu sinni á Evrópuþinginu 13. september sl., sbr. umfjöllun um ræðuna í Vaktinni 15. september sl., brást Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, við þeim vaxandi vanda sem vindorkugeirinn hefur staðið frammi fyrir að undanförnu og boðaði aðgerðapakka um vindorku þar sem lögð yrði áhersla á að finna leiðir til að flýta fyrir leyfisveitingum, einfalda þær og liðka fyrir fjármögnun á þessu sviði. Þessi áform voru síðan áréttuð í starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2024, sbr. umfjöllun um þá áætlun hér að framan í Vaktinni.

Þann 24. október sl. sendi framkvæmdastjórn ESB síðan frá sér orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar þar sem boðaðar eru tafarlausar aðgerðir til að styðja við evrópskan vindorkuiðnað.

Markmið með aðgerðaáætluninni er að stuðla að og viðhalda samkeppnishæfni vindorkuiðnaðar í ESB, einfalda ferla við leyfisveitingar og auðvelda aðgang að nauðsynlegri fjármögnun.

Framkvæmdastjórnin hefur einnig, samhliða, gefið út orðsendingu um stöðu mála varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á hafi úti (e. offshore). Snýr sú orðsending bæði að virkjun vindorku á hafi úti og að orkuframleiðslu með virkjun sjávarfalla, sbr. áætlun ESB um nýtingu endurnýtanlega orku á hafi úti sem samþykkt var fyrir þremur árum.

Á Íslandi hefur einnig átt sér stað mikil umræða um vindorku undanfarið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur fram að stefnt skuli að setningu sérlaga um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Til að vinna að þessu skipaði umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra starfshóp um nýtingu vindorku og skilaði hópurinn skýrslu til ráðherra í apríl síðastliðnum undir heitingu Vindorka - valkostir og greining. Meðal niðurstaðna starfshópsins er að skýr og greinargóð heildarstefnumörkun stjórnvalda um virkjun vindorku sé mikilvæg og að best væri að slík stefna yrði samþykkt á Alþingi. Ráðherra skipaði jafnframt starfshóp til að fjalla um nýtingu vinds á hafi í lögsögu Íslands og skilaði sá hópur skýrslu til ráðherra í sumar þar sem lagt er til að á næstunni verði unnið að rannsóknum og undirbúningi sem lið í mótun stefnu um nýtingu vinorku á hafi úti. Vænta má að umræða og aðgerðir á vettvangi ESB nýtist í þeirri vinnu sem framundan er á Íslandi.

Endurskoðun á orkutækniáætlun ESB

Framkvæmdastjórn ESB birti þann 26. október sl. uppfærslu á orkutækniáætlun ESB (e. Strategic Energy Technology (SET) Plan) í formi orðsendingar til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar.

Með uppfærslunni eru upprunaleg markmið SET-áætlunarinnar, sem sett var á laggirnar árið 2007, samræmd markmiðum Græna sáttmálans, RRPowerEU-áætlunarinnar sem og þeim markmiðum sem sett voru í framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans, sbr. einkum löggjafartillögur um stuðning við uppbyggingu tækniiðnaðar sem stutt getur við markmið um kolefnishlutleysi (e. Net-Zero Industry Act), sbr. umfjöllun um framkvæmdaáætlunina í Vaktinni 24. mars sl.

Árlega eru gefnar út skýrslur um framgang SET-áætlunarinnar en Ísland er aðili að áætluninni.

Sjá einnig til hliðsjónar umfjöllun hér að ofan í Vaktinni um nýja aðgerðaáætlun ESB á sviði vindorku.

Sjá hér einnig til hliðsjónar nýja skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um stöðu orkumála í ESB á árinu 2023, en í viðaukum með skýrslunni má finna yfirlit yfir stöðuna í hverju aðildarríki ESB fyrir sig.

Aukinn kraftur settur í aðgerðir til að sporna gegn lyfjaskorti og auka afhendingaröryggi

Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um aðgerðir til að bregðast frekar við og draga úr mögulegum skorti á lyfjum í aðildarríkjunum fyrir komandi vetur og ár. Lyfjaskortur er vaxandi áhyggjuefni meðal ríkja ESB. Undanfarin misseri, sérstaklega síðasta vetur, hafa sum aðildarríki ESB staðið frammi fyrir alvarlegum skorti á lyfjum, m.a. lífsnauðsynlegum sýklalyfjum. Þörfin fyrir samræmdar aðgerðir þykir brýn og hefur verið eftir þeim kallað af hálfu aðildarríkja ESB. Aðgerðirnar miða að því að tryggja afhendingaröryggi lyfja og styrkja aðfangakeðjur með aukna sjálfbærni að leiðarljósi.

Nú þegar hefur verið gripið til aðgerða til undirbúnings vegna mögulegs lyfjaskorts á komandi vetri. Nefna má að á liðnu sumri gaf framkvæmdastjórnin í samstarfi við samtök forstjóra lyfjastofnana Evrópu (HMA) og Evrópsku Lyfjastofnunina (EMA), út tilmæli um hvernig sporna megi við skorti á lífsnauðsynlegum sýklalyfjum sem notuð eru gegn öndunarfærasýkingum, en Neyðar- og viðbragðsskrifstofa ESB (HERA) ásamt EMA hafa unnið að því að skilgreina mikilvægustu sýklalyfin í þessu sambandi. Fjallað var um tilmælin í Vaktinni 21. júlí sl. 

Þá verður baráttan við sýklalyfjaónæmi sífellt fyrirferðarmeiri. Um það og fleira þessu tengt má m.a. lesa í Vaktinni 26. maí sl. þar sem fjallað er um endurskoðun lyfjalöggjafar ESB, ný tilmæli um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og um óformlegan fund heilbrigðisráðherra í Stokkhólmi þar sem lyfjamál og aðgengi að lyfjum voru til umfjöllunar.

Með orðsendingunni nú eru boðaðar frekari aðgerðir til að koma í veg fyrir lyfjaskort. Í því sambandi er sérstaklega horft til þess hvernig tryggja megi öruggt framboð lífsnauðsynlegra lyfja. Orðsendingin byggir einkum á endurskoðuðu hlutverki evrópsku Lyfjastofnunarinnar (EMA) og nýlegum tillögum framkvæmdastjórnarinnar að endurskoðaðari lyfjalöggjöf sem vísað er til að framan, en hvorutveggja er hluti af sífellt viðameira samstarfi ESB á sviði heilbrigðismála (European Health Union).

Aðgerðirnar sem nú eru kynntar eru eftirfarandi:

  • Komið verði upp samevrópsku lyfjaupplýsingakerfi (e. European Voluntary Solidarity Mechanism for medicines) þar sem aðildarríki geta komið á framfæri upplýsingum um stöðu birgðahalds á einstökum mikilvægum lyfjum, þ.e. hvort útlit sé fyrir skort og um leið kannað hvort önnur ríki séu aflögufær um þau lyf.
  • Gefinn verði út listi yfir þau lyf sem mikilvægust eru talin, og er gert ráð fyrir að slíkur listi verði tilbúinn í árslok. Er listinn hugsaður sem fyrsta skrefið í áttina að því að greina aðfangakeðju mikilvægustu lyfjanna, og á þeirri greiningu að vera lokið í apríl 2024. Er greiningunni ætlað að leiða í ljós hvar frekari aðgerða er þörf.
  • Innbyggður sveigjanleiki núverandi regluverks verði nýttur með markvissari hætti, þegar mikið liggur við, með hagmuni sjúklinga að leiðarljósi, s.s. með því að lengja geymsluþol lyfja og veita markaðsleyfi fyrir lyf með hraðari hætti en almennar reglur mæla fyrir um.
  • Sérstakar leiðbeiningar ESB um innkaup á lyfjum verði gefnar út til að tryggja afhendingaröryggi og er boðað að þær liggi fyrir í byrjun árs 2024.
  • Að innkaup sýklalyfja gegn öndunarfærasýkingum verði boðin út sameiginlega næsta vetur.

Ráðstafanir sem miða að því að styrkja afhendingaröryggi til lengri tíma eru eftirfarandi:

  • Að efnt verði til nánara samstarfs vegna mikilvægra lyfja (e. Critical Medicines Alliance). Talað er um nýja stoð í heilbrigðissamstarfi ESB í þessu sambandi - einskonar iðnaðarstoð. Stefnt er að því að leiða saman hagaðila eins og stjórnvöld í aðildaríkjunum, lyfjaiðnaðinn, almenning og stofnanir ESB til að samræma aðgerðir gegn lyfjaskorti og vakta veikburða aðfangakeðjur.Framkvæmdastjórnin sér fyrir sér að framangreint geti varðað leiðina að mögulegri löggjöf um þetta efni (e. Critical Medicines Act) og boðar sérstaka undirbúningsvinnu í þeim efnum sem hefjast á fyrir lok þessa árs og rutt getur brautina fyrir gerð áhrifamats vegna slíkrar lagasetningar.
  • Að komið verði á fót alþjóðlegu tengslaneti til að styrkja aðfangakeðjur.
  • Að sett verði á laggirnar samstarf við þriðju ríki um framleiðslu mikilvægra lyfja bæði til að svara þörfum viðkomandi ríkja og þörfum ESB sem og eftirspurn á heimsvísu.

Með þessum aðgerðum er framkvæmdastjórnin að flýta framkvæmd hluta þeirra aðgerða sem gert er ráð fyrir að verði lögfestar, sbr. tillögu að nýjum lyfjalögum sem nú eru til umfjöllunar í ráðherraráði ESB og á Evrópuþinginu.

Endurskoðun reglna um fiskveiðieftirlit

Í maí 2018 lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu um endurskoðun reglugerða um fiskveiðieftirlitskerfi sambandsins og miðar tillagan að því að nútímavæða og einfalda reglur um eftirlit með fiskveiðum í samræmi við markmið sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB (e. Common fisheries policy - CFP). Endurskoðunin lítur aðallega að breytingum á reglugerð nr. 1224/2009 um fiskveiðieftirlitskerfi ESB en jafnframt eru lagðar til breytingar á öðrum tengdum reglugerðum, s.s. reglugerð um Fiskveiðieftirlitsstofnun ESB (European Fisheries Control Agency - EFCA).

Helstu breytingar samkvæmt tillögunni lúta að:

  • Rafrænni vöktun allra fiskiskipa í gegnum gervihnattatengingar og farsímakerfi.
  • Skyldu fiskiskipa til að halda rafræna dagbók og færa þar inn upplýsingar um allan afla.
  • Einföldun á kerfi til að sannprófa vélarafl skipa og innleiðingu á kerfi til að sannprófa stærð (tonnafjölda) skipa.
  • Uppsetningu kerfis til að hafa stjórn á frístundaveiðum með skráningu eða leyfisveitingum og til að safna gögnum um afla þeirra sem stunda frístundaveiðar.
  • Auknum rekjanleika fiskafurða með tengingum við upplýsingakerfi um löndun afla og verður rekstraraðilum gert skylt að tryggja að upplýsingar um hverja framleiðslueiningu séu skráðar og sendar rafrænt.
  • Nánari skilgreiningu á tegundum brota og samræmingu á beitingu viðurlaga á milli aðildaríkjanna.
  • Komið verði á myndavélaeftirlitskerfi (CCTV) í skipum til að fylgjast með veiðum og löndun afla.

Samkomulag um efni málsins í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar náðist í lok maí sl.

Meðal breytinga sem samkomulagið felur í sér er að:

  • Stutt verði við fullan stafrænan rekjanleika fisks- og fiskeldisafurða (bæði ferskar og frystar) í aðfangakeðjunni.
  • Slegið verði af kröfum um eftirlit með smábátum, undir 9 metrum að lengd (sem nota eingöngu einföld veiðarfæri, halda sig innan sex sjómílna frá ströndinni og eyða aldrei meira en 24 klukkustundum í senn á sjó). Upprunaleg tillaga fól í sér slíka undanþágu, en þó aðeins tímabundna, þ.e. til 31. desember 2029.
  • Skylda til notkunar á eftirlitsmyndavélum verði bundin við stærri skip,18 metra og lengri.
  • Tilteknar undanþágur frá reglunni um 10% vikmörk við skilgreiningu á ofveiði verði heimilaðar.
  • Við ákvörðun á upphæð sekta vegna brota skuli tekið mið af væntum hagnaði vegna þeirra og að ítrekuð brot leiði til hærri sekta.
  • Aðildarríkjunum verði falið eftirlit með frístundaveiðum og að þau setji upp gagnasöfnunarkrefi í því skyni.
  • Stærri skip verði útbúin með varanlegum tækjabúnaði sem geri eftirlitsyfirvöldum kleift að fylgjast stöðugt með vélarafli þeirra.

Tillagan, með þeim breytingum sem samkomulagið kveður á um, bíður nú formlegrar afgreiðslu í ráðherraráði ESB en samkomulagið var formlega staðfest í Evrópuþinginu fyrr í þessum mánuði.

Þess má geta starfsmenn sjávarútvegsskrifstofu Evrópuþingsins óskuðu eftir fundi með fulltrúa matvælaráðuneytisins hjá sendinefnd Íslands gagnvart ESB í Brussel í apríl sl. í þeim tilgangi að fá upplýsingar um fyrirkomulag fiskveiðieftirlits á Íslandi. Fundurinn var haldinn í byrjun maí og var þar farið var yfir helstu þætti hins íslenska fiskveiðieftirlitskerfis. Virðist óhætt að segja að hið íslenska fiskveiðieftirlitskerfi hafi staðið ESB-kerfinu framar í flestum atriðum hingað til. Þar sem margir þættir eftirlitsins á Íslandi hafa verið rafrænir um alllangt skeið og brot vel skilgreind og viðurlögum við þeim beitt með virkum hætti.

Endurskoðun á reglum um vernd vöruheita

Samkomulag náðist í vikunni í þríhliðaviðræðum milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um endurskoðun á reglum um landfræðilegar merkingar (e. geographical indications) sem lýtur að vernd vöruheita fyrir vín, brennda drykki og landbúnaðarafurðir í aðildarríkjunum, sbr. umfjöllun um málið í Vaktinni 1. apríl 2022 þegar tillögur framkvæmdastjórnarinnar komu fram. Markmiðið með endurskoðun reglanna er að opna fyrir nýjungar og veita framleiðendum aukna vernd, sérstaklega vegna markaðssetningar á netinu. Markmiðið er jafnframt að styðja við þróun á hágæða matvælum innan sambandsins og tryggja að staðbundin menningar- og matararfleifð verði varðveitt og vottuð innan ESB og um allan heim.

Helstu atriði í nýjum reglum eru:

  • Að innleiða einn lagaramma fyrir alla þrjá flokkana og stytta og einfalda skráningarferli nýrra vara.
  • Að auka vernd innihaldsefna í vörum og vara sem seldar eru á netinu.
  • Að sjálfbærir framleiðsluhættir verði viðurkenndir og að framleiðendur geti sett merkingar á vörur sínar þess efnis.
  • Að efla samstarf á meðal framleiðendahópa á einstökum svæðum og að slíkir hópar geti fengið hlutverk við stjórnun og þróun landfræðilegra merkinga til að styrkja virðiskeðjuna.

Framfylgd reglna um landfræðilegar merkingar verður áfram á ábyrgð aðildarríkja. Framkvæmdastjórn ESB ber hins vegar áfram ábyrgð á skráningu vöruheita.

Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Eins og fjallað var um í Vaktinni 24. mars sl. þá hlaut íslenskt lambakjöt nýverið vernd sem skráð afurðarheiti hjá ESB á grundvelli núgildandi reglna um þetta efni með vísun til landfræðilegs uppruna og sérstöðu íslenska lambakjötsins. Áður hafði íslenskt lambakjöt fengið vernd sem afurðarheiti á Íslandi árið 2018.

Ráðstafanir til að sporna við misnotkun og ólöglegri notkun dróna

Framkvæmdastjórnin birti þann 18. október sl. orðsendingu til ráðherraráðs ESB og til Evrópuþingsins um mögulegar hættur sem steðjað geta af notkun dróna sem ætlaðir eru fyrir borgaraleg not. Í orðsendingunni kemur fram að drónar séu í auknum mæli notaðir í ólögmætum tilgangi svo sem til að smygla varningi eins og eiturlyfjum, til að afla upplýsinga með ólögmætum hætti og til njósna, auk þess sem notkun dróna í þéttbýli getur almennt raskað friðhelgi einkalífs fólks. Þá er talin vaxandi hætta á að drónar verði notaðir til hryðjuverka.

Með orðsendingunni er stefnumörkun um notkun dróna, sbr. umfjöllun í Vaktinni 21. apríl sl., útfærð nánar um leið og kynnar eru aðgerðir sem miða m.a. að aukinni miðlun upplýsinga meðal aðildaríkjanna í þessum efnum. Eru tilgreindar sex aðgerðir í þessu skyni:

  • Aukin miðlun upplýsinga á meðal aðildaríkjanna um framkvæmd stefnunnar, m.a. með stofnun sérfræðinganefndar á þessu sviði.
  • Metin verði þörf á aukinni reglusetningu um dróna auk þess sem núverandi reglur verði samræmdar.
  • Aðildarríkjum verði boðin aðstoð við val á tæknibúnaði til að vinna gegn hættulegri og ólöglegri notkun dróna (e. counter drone technologies).
  • Aðildarríkjum verði boðin leiðsögn og stuðningur við þjálfun starfsfólk sem sinnir löggæslu eða öryggisgæslu til að bregðast við hættulegri og ólöglegri notkun dróna.
  • Rannsóknir og nýsköpun á viðbúnaði við hættulegri og ólögmætri notkun dróna verði styrktar, m.a. í gegnum Horizon áætlunina.
  • Auknu fjármagni verði varið til að til að styrkja verkefni er varða viðbúnað við ólöglegri notkun dróna.

Stefnt er að því framvindumat á þeim aðgerðum sem tilgreindar eru í orðsendingunni verði unnið árið 2027 og að aðgerðaplanið verði endurskoðað í heild sinni árið 2030, í síðasta lagi.

Áform um lagasetningu á sviði geimréttar

Í starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2024, sbr. umfjöllun um áætlunina hér að framan, kemur fram að áætlað er að kynna stefnumótun um málefni geimsins á fyrsta ársfjórðungi 2024 og jafnframt að stefnt sé að því að leggja fram löggjafartillögur á sviði geimréttar. Markmið löggjafarinnar verður að samræma löggjöf ríkja sambandsins um öryggi, seiglu og sjálfbærni verkefna og starfsemi er lýtur að starfsemi í geimnum. Ætlunin er að koma í veg fyrir eða eyða hindrunum á sameiginlega markaðnum sem stafa af ósamstæðum reglum eða skorti á reglum og stuðla þannig að aukinni samkeppnishæfni ESB á þessu sviði á alþjóðavísu. Gert er ráð fyrir að löggjafartillögunar byggi á þremur eftirfarandi stoðum:

  • Öruggir sporbaugar: Tryggðar verði öruggar ferðir gervihnatta m.t.t. vaxandi hættu á árekstrum og tjóni vegna geimrusls.
  • Seigla í þjónustu gervihnatta: Samræmdar verði verndarráðstafanir aðildarríkja gagnvart ógnunum sem stafa af netárásum.
  • Sjálfbærni: Tryggð verði sjálfbærni geimverkefna með því að styrkja möguleika ESB á að nýta geiminn sem vettvang til að veita efnahagslega þjónustu og auka hagvöxt.

Framkvæmdastjórnin hefur nú birt samráðsskjal á vefsíðu sinni vegna framangreindra mála og er umsagnafrestur til 2. nóvember nk.

Einföldun regluverks á sviði samgagna

Eins og rakið er að framan í umfjöllun um starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2024 hyggst framkvæmdastjórnin gera átak í því að draga úr reglubyrði og einfalda regluverk á komandi misserum.

Nýlega voru birtar í samráðsgátt tvær tillögur um einföldun regluverks er snúa að flugstarfsemi og flutningum á vegum, sbr. hér og hér, og er frestur til að senda inn umsagnir um málin til 19. desember nk. Á sama tíma birti framkvæmdastjórnin tillögu að breytingu á tilskipun um að draga úr tíðni upplýsingagjafar um staðbundna (e. spatial) innviði í samráðsgátt, en þar er einnig gefinn umsagnafrestur til 19. desember nk.

Umbætur í opinberri stjórnsýslu aðildarríkja ESB

Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um aðgerðir til að efla starfshæfni og skilvirkni opinberrar stjórnsýslu í aðildarríkjum sambandsins (Communication on Enhancing the European Administrative Space – ComPAct).

Er aðgerðunum ætlað að styrkja opinbera aðila þannig að þeir geti mætt þörfum fólks og fyrirtækja í álfunni þannig og brugðist við áskorunum sem uppi eru nú og í framtíðinni. Tuttugu og fimm aðgerðir eru boðaðar og eiga þær að stuðla að auknu samstarfi opinberra aðila og stafrænum og grænum umskiptum.

Auknir umbótastyrkir til eflingar á starfsemi opinberra aðila eru boðaðir og munu þeir að stærstum hluta koma í gegnum samstarfsáætlunina Technical Support Instrument (TSI), en einnig eftir öðrum leiðum, s.s. í gegnum Digital Europe Programme  sem er samstarfsáætlun sem Ísland tekur m.a. þátt á tímabilinu 2021-2027.

Fram kemur í orðsendingunni að aðildarríkin geti með stigvaxandi hætti tekið þátt í ComPAct eins og þeim hentar og í samræmi við þarfir þeirra og stofnanauppbyggingu. Markmiðið er að styðja við og læra hvert af öðru, móta nýtt verklag og bæta skilvirkni opinberrar stjórnsýslu.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum