Hoppa yfir valmynd
08. desember 2023 Brussel-vaktin

Sameiginlega EES-nefndin afgreiðir flugmálið, samkomulag um framlög í Uppbyggingarsjóð EES, auknir tollkvótar fyrir sjávarafurðir o.fl.

Að þessu sinni er fjallað um:

 • samkomulag um framlög í Uppbyggingarsjóð EES og aukna tollkvóta fyrir sjávarafurðir
 • aðgerðir gegn hatursorðræðu og hatursglæpum
 • markaðsmisnotkun á orkumarkaði
 • orkunýtni bygginga
 • losun frá iðnaði
 • vistvæna hönnun framleiðsluvara
 • flokkun, merkingar og pökkun hættulegra efna
 • réttarvernd ferðamanna
 • velferð dýra
 • EES/EFTA álit um breytingu á tilskipun um ökuskírteini
 • endurmat á hlutverki nýrrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála
 • fundi innviðaráðherra í Brussel
 • uppfærslu forgangslista fyrir hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB
 • fund sameiginlegu EES-nefndarinnar í dag

Vaktin heilsar ykkur næst á nýju ári, 30 ára afmælisári EES-samningsins.

 

Samkomulag um framlög í Uppbyggingarsjóð EES og aukna tollkvóta fyrir sjávarafurðir

Í síðustu viku náðist samkomulag í viðræðum EES/EFTA ríkjanna og ESB um fjárframlög í Uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið 2021-2028 og um tollkvóta fyrir tilteknar sjávarafurðir frá Íslandi inn á markað ESB fyrir sama tímabil.

Allt frá gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994 hafa EES/EFTA-ríkin, nú Ísland, Noregur og Liechtenstein, skuldbundið sig til að inna af hendi tiltekin framlög til að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði milli svæða innan EES með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila eins og kveðið er á um í 1. mgr. 115. gr. EES-samningsins.

Hefur þetta falist í fjárframlögum EES/EFTA-ríkjanna til tiltekinna ríkja innan ESB í gegnum Uppbyggingarsjóð EES, sbr. nánar um Uppbyggingarsjóðinn og ráðstöfun framlaga úr honum hér á vefsíðu Stjórnarráðsins og í Vaktinni 24. febrúar sl.

Hefur þessi þáttur í EES-samstarfinu ávallt verið tímabundinn og er metið í lok hvers tímabils hvort ástæða sé til að halda áfram að inna slík framlög af hendi. Hefur þá verið miðað við að þau ríki geti notið aðstoðar úr sjóðnum þar sem þjóðartekjur eru undir 90% af meðaltali þjóðartekna í Evrópu. Er það sama viðmið og notað er við mat á því hvaða ríki geti notið aðstoðar úr samheldnissjóðum ESB og má til sanns vegar færa að Uppbyggingarsjóðurinn sé nokkurs konar framlenging af þeim.

Í kjölfar stækkunar EES árið 2002, vegna fjölgunar aðildarríkja ESB, gerði ESB ríkari kröfur en áður til EES/EFTA-ríkjanna um fjárhagsleg framlög á grundvelli framangreindra ákvæða EES-samningsins. Niðurstaða samningaviðræðna varð sú að fjármagnskerfi EES eða Uppbyggingarsjóðs EES var endurskoðað og hækkuðu fjárframlög þá frá því sem verið hafði. Framlögin hækkuðu ennfremur árið 2007 þegar Búlgaría og Rúmenía gengu í EES og bættust í hóp þeirra ríkja sem nutu framlaga úr sjóðnum og enn á ný þegar Króatía gekk í EES árið 2014. Frumvörp vegna inngöngu þessara þjóða voru samþykkt á Alþingi árin 2004 og 2007 og síðan 2014.

Samkvæmt nýjum samningi verða heildarframlög EES/EFTA-ríkjanna til Uppbyggingarsjóðs EES rúmlega 1,7 milljarður evra á samningstímabilinu. Því til viðbótar verður 100 milljónum evra ráðstafað til verkefna í viðtökuríkjum sjóðsins sem tengjast afleiðingum innrásarinnar í Úkraínu. Hækkun framlaga frá fyrra tímabili nemur að öllu samanlögðu 16,6%. Hækkunin er í takt við verðlagsbreytingar sem orðið hafa á evrusvæðinu frá því síðast var samið. Hlutur Íslands hefur upp á síðkastið numið um 4,5% af heildarframlögum, en hlutfallið er breytilegt á milli ára og tekur mið af þróun landsframleiðslu. Ef gert er ráð fyrir óbreyttu greiðsluhlutfalli Íslands út samningstímabilið þá gæti framlag Íslands að jafnaði numið um 1,7 milljörðum íslenskra króna á ári miðað við núverandi gengi og miðað við fulla nýtingu sjóðsins.

Eins og áður segir er samningsgrundvöllur fjárframlaga til Uppbyggingarsjóðs EES að finna í VIII. hluta EES samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, en þar er einnig kveðið á um að efla skuli viðskipta- og efnahagstengsl samningsaðila og er í því sambandi sérstaklega vísað til sjávarútvegs og landbúnaðar. Í kjölfar framangreindra stækkana ESB missti Ísland marga tvíhliða viðskiptasamninga með fisk og sjávarafurðir við ríki í Mið- og Austur-Evrópu. Af þeim sökum hefur allt frá árinu 2004 tíðkast að semja samhliða um betri markaðsaðgang fyrir fisk og sjávarafurðir.

Að þessu sinni tókust samningar um umtalsvert aukið magn tollfrjálsra tollkvóta fyrir sjávarafurðir frá Íslandi miðað við fyrra tímabil, eða 15.000 tonn á ári í stað 6.450 tonna eins og fyrri samningur kvað á um en auk þess felur samningurinn í sér mun breiðari samsetningu afurða í tollkvótum. Nánar tiltekið felur samningurinn í sér átta mismunandi tollkvóta sem ná til 52 afurðategunda en til samanburðar náði síðasti samningur til fjögurra tollkvóta og jafnmargra afurðategunda. Standa vonir til að nýir tollkvótar og breytt útfærsla þeirra muni gera útflytjendum íslenskra sjávarafurða betur kleift að nýta umsamda kvóta til fulls.

Eins og á fyrri sjóðstímabilum var samið um að ónýttir tollkvótar fyrir þau tvö ár sem þegar eru liðin af núverandi sjóðstímabili deilist á þau ár sem eftir eru af tímabilinu. Einnig náðist fram það nýmæli að kvóta sem ekki næst að nýta á samningstímabilinu verði hægt að nýta í tvö ár eftir að samningstímanum lýkur. Gildistími tollkvótanna er frá 1. maí 2024 til 30. apríl 2028, en unnt að nýta þá til 30. apríl 2030, ef á reynir.

Loks náðist hliðarsamkomulag á milli ESB og Íslands um að ráðist verði í heildstæða endurskoðun á markaðsaðgangi í vöruviðskiptum Íslands og ESB með það að markmiði að endurskoðun klárist fyrir lok samningstímabilsins 2028. Með því samkomulagi hefur verið skapaður vettvangur til viðræðna við ESB um heildstæða endurskoðun á núverandi viðskiptakjörum og þá einkum fyrir bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir til ESB. Við mótun samningsmarkmiða fyrir þessar viðræður er vert að hafa í huga að fyrir utan ofangreint samkomulag um tollkvóta fyrir sjávarafurðir þá er í gildi víðtækur fríverslunarsamningur milli Íslands og ESB um sjávarafurðir, sbr. fríverslunarsamning milli Íslands og EBE frá árinu 1972, sbr. og (bókun 6) og bókun 9 við EES samninginn. Samningarnir kveða á um fríverslun með okkar helstu sjávarafurðir eins og þorsk, ýsu, ufsa o.fl. og skiluðu um það bil 95% fríverslun með sjávarafurðir frá Íslandi til ESB árið 1995. Þau viðskiptakjör hafa á hinn bóginn heilt yfir versnað á umliðnum árum einkum vegna breyttrar samsetningar útflutnings sjávarfangs frá Íslandi til ESB en nú er meira flutt af afurðum til ESB sem ekki falla undir umræddan fríverslunarsamning svo sem uppsjávartegundir og eldisfiskur, einkum eldislax. Hefur þetta leitt til þess að hlutfall tollfrjáls útflutnings sjávarafurða til ESB var komið niður í um það bil 70% árið 2021.

Sendiherra Íslands í Brussel var aðalsamningamaður Íslands í viðræðunum. Jafnframt tóku þátt í viðræðunum fulltrúar utanríkisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og matvælaráðuneytis. Haft var samráð við fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi á meðan á samningaferlinu um niðurfellingu tolla á sjávarafurðum stóð.

Framangreint samkomulag um Uppbyggingarsjóð EES og um tollkvóta fyrir sjávarafurðir gengur nú til fullgildingar í EES/EFTA-ríkjunum og hjá aðildaríkjum ESB á vettvangi ráðherraráðs ESB. Nýr samningur kallar á breytingu á EES-samningnum, og á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem ný bókun, bókun 38d, bætist við saminginn. Mun samkomulagið í því formi koma til umræðu og afgreiðslu á Alþingi, sbr. til hliðsjónar lög nr. 81/2016, um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem samkomulag um sjóðinn fyrir tímabilið 2014-2021 var staðfest.

Aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu og hatursglæpum

Framkvæmdastjórn ESB og utanríkismálastjóri ESB sendu í vikunni frá sér sameiginlega orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um varnir gegn hatursorðræðu og hatursglæpum undir yfirskriftinni „No place for hate: a Europe united against hatred“. Felur orðsendingin í sér ákall til allra Evrópubúa um að standa gegn hatri og tala fyrir umburðarlyndi og virðingu fyrir öllu fólki. Með orðsendingunni er framkvæmdavaldsarmur ESB jafnframt að skerpa á viðleitni sinni og annarra stofnanna ESB til að berjast gegn hatri í öllum sínum birtingarmyndum og þvert á stefnumótun og framkvæmd á ólíkum málefnasviðum, hvort sem það er á sviði öryggismála, stafrænna mála, mennta- og menningarmála eða íþróttamála með grunngildi ESB og fjölmenningarsamfélagsins að leiðarljósi.

Tilefni orðsendingarinnar nú er sú mikla aukning á hatursorðræðu sem orðið hefur vart við að undanförnu sem og aukningu í hatursglæpum en gögn sýna að samfélög gyðinga annars vegar og íslamstrúarfólks hins vegar hafi sérstaklega orðið útsett fyrir slíkri orðræðu og glæpum í auknum mæli. Hefur þróunin vakið ugg í brjóstum manna enda þykir þróunin um margt minna á þær hörmungar sem riðu yfir Evrópu á tuttugustu öldinni einkum á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og rekja má beint til skelfilegrar hatursorðræðu.

Samkvæmt orðsendingunni er vernd fólks í almannarýminu forgangsverkefni og er kallað eftir því að fjárveitingar til sameiginlegs öryggissjóðs ESB (The Internal Security Fund – ISF) verði auknar og fjármunir m.a. nýttir í auknum mæli til að vernda tilbeiðslustaði ólíkra trúarbragðahópa. Þá er boðað að gripið verði til sérstakra ráðstafana til að vinna gegn hatursorðræðu á netinu, m.a. með endurbættum siðareglum sem verða m.a. grundvallaðar á nýrri reglugerð ESA á sviði rafrænnar þjónustu (e. Digital Services Act – DSA) sem tók gildi í aðildarríkjum ESB hinn 16. nóvember 2022, sbr. umfjöllun um þá löggjöf í Vaktinni 18. nóvember 2022, og er gert ráð fyrir að nýjar siðareglur verði birtar fljótlega í upphafi næsta árs.

Í orðsendingunni er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að virkja samfélagið í heild sinni gegn hatursorðræðu og er lagt til að starf samræmingarstjóra ESB gegn kynþátta- og trúarbragðafordómum verði eflt í þessu skyni. Þekking og aukin vitund um þessi málefni meðal fólks almennt er lykillinn að árangri og þar gegna fjölmiðlar og mennta- og menningarkerfið lykilhlutverki og er boðað að gripið verði til aðgerða til vitundarvakningar.

Þá er lögð áhersla á alþjóðlega samvinnu til að sporna gegn hatursorðræðu og hatursglæpum.

Hyggst framkvæmdastjórnin, snemma á næsta ári, efna til ráðstefnu þar sem þeim sem helst standa í stafni í baráttunni gegn hatri og mismunun verður boðin þátttaka. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að ráðstefnunni verði fylgt eftir með víðtækum umræðum með þátttöku almennings með það að markmiði að unnt verði að sameinast um efni tilmæla eða ráðlegginga um hvernig byggja megi brýr á milli ólíkra hópa samfélagsins.

Orðsendingin nú byggir á gildandi stefnum ESB á skyldum sviðum svo sem á stefnu og aðgerðarplani ESB um varnir gegn kynþáttafordómum ( EU Anti-racism Action Plan 2020-2025), um varnir gegn gyðingahatri (the Strategy on combating antisemitism and fostering Jewish life in the EU), um jafnrétti kynjanna (Gender Equality Strategy 2020-2025, um réttindi hinsegin fólks (LGBTIQ Equality Stratgy 2020-2025), um réttindi fólks með fötlun (Strategy for the rights of persons with disabilities 2021 – 2030) um réttindi Rómafólks (EU Roma strategic framework for equality, inclusion and participation 2020-2030) og um réttindi þeirra sem á er brotið (EU Strategy on victims' rights (2020-2025)), sbr. einnig m.a. löggjöf sambandsins frá 2008, um baráttuna gegn kynþátta- og útlendingahatri og um refsiviðurlög á því sviði (e. Framework Decision on combating certain forms and expressions of racism and xenophobia by means of criminal law). Þá hafa varnir gegn hatursorðræðu og hatursglæpum einnig verið til umræðu á Evrópuþinginu á umliðnum árum, sjá samantekt rannsóknarþjónustu Evrópuþingsins um þau störf hér.

Eins og kunnug er hafa aðgerðir gegn hatursorðræðu verið til umræðu á Alþingi á þessu ári en í lok febrúar sl. var af hálfu forsætisráðherra lögð fram stjórnartillaga til þingsályktunar um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026. Í tillögunni eru lagðar til alls 22 aðgerðir sem ætlað er að skilgreina stefnu stjórnvalda á þessu sviði og lýsa tilteknum verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu eða fela í sér beinar aðgerðir til að fræða og upplýsa og greina mögulega annmarka m.a. í löggjöf. Tillagan gekk til fyrstu umræðu og til allsherjar- og menntamálanefndar en ekki náðist að afgreiða tillöguna úr nefndinni fyrir þinglok síðastliðið vor.

Framangreind þingsályktunartillaga var meðal annars byggð á nýlegum tilmælum Evrópuráðsins CM/Rec (2022)16 um baráttu gegn hatursorðræðu (Recommendation of the Committee of Ministers to member States on combating hate speech) en tilmælin hafa verið þýdd á íslensku og eru birt á vefsvæði forsætisráðuneytisins.

Má ætla að orðsending ESB, sem gerð er grein fyrir að framan, geti orðið innlegg í þá umræðu sem á sér stað á Íslandi um þessi mikilvægu málefni.

Aukin vernd gegn markaðsmisnotkun á orkumarkaði

Til að bregðast við þeirri orkukreppu sem hrjáð hefur Evrópu í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu hefur framkvæmdastjórn ESB gripið til margvíslegra ráðstafana til að sporna við háu orkuverði m.a. með tillögum um endurskipulagningu orkumarkaðar ESB með það að markmiði að verja neytendur fyrir óhóflegum verðhækkunum og markaðsmisnotkun og tryggja samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs og flýta um leið orkuskiptum, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 7. október 2022, þar sem fjallað var um neyðarráðstafanir til að sporna gegn háu orkuverði, í Vaktinni 7. janúar 2023, þar sem fjallað var um opin samráð um endurskoðun reglna um evrópskan raforkumarkað, og í Vaktinni 24. mars 2023 þar sem fjallað var um framfylgd framkvæmaáætlunar græna sáttmálans.

Hinn 16. nóvember sl. komust Evrópuþingið, ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB, að samkomulagi í þríhliða viðræðum um breytingar á svonefndri REMIT reglugerð (Regulation on Wholesale Energy Market Integrity and Transparency) sem ætlað er tryggja aukna vernd neytenda og fyrirtækja gegn markaðsmisnotkun á heildsöluorkumarkaði. Breytingarnar á REMIT reglugerðinni nú eru hluti af framangreindum umbótum á skipulagi orkumarkaða innan ESB sem unnið hefur verið að. Miða umbæturnar að því að gera raforkuverð óháðara verðsveiflum á jarðefnaeldsneytismarkaði, verja neytendur fyrir verðhækkunum og flýta fyrir uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu.

Samkomulagið nú felur m.a. í sér:

 • Skráningu markaðsaðila, sem felur í sér að markaðsaðilar frá þriðju ríkjum sem eru virkir á heildsölumarkaði innan ESB verða að tilnefna umboðsaðila, með aðsetur í aðildaríki ESB, sem hefur heimild til að koma fram fyrir hönd hans gagnvart orkumálayfirvöldum í ESB.
 • Að Orkumálastofnun ESB (The European Union Agency for the Cooperation of Energy Regulators - ACER) fái ákvörðunarvald og heimildir til að beita viðurlögum.
 • Auknar heimildir til handa ACER til að rannsaka mál sem ná yfir landamæri þar sem háttsemin hefur áhrif á a.m.k. tvö aðildarríki.
 • Að eftirlitsstjórnvöld einstakra ríkja muni áfram geta andmælt beitingu rannsóknarheimilda af hálfu ACER hafi stjórnvaldið sjálf formlega hafið eða framkvæmt rannsókn á sama máli og ACER hyggst taka fyrir.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Orkunýtni bygginga

Undanfarið hefur ESB unnið að endurskoðun hreinorkugerða og er endurskoðunin hluti af framfylgd stefnuáætlunarinnar „Fær í 55“ og er tillaga um heildarendurskoðun tilskipunar um orkunýtni bygginga (Energy Performance of Buildings Directive (EPBD)) hluti af þeirri endurskoðun.

Tillaga að endurgerð tilskipunarinnar var lögð fram þann 15. desember 2021 og er þar sett fram sú framtíðarsýn að byggingar verði kolefnishlutlausar árið 2050. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem byggingar standa fyrir 40% af orkunotkun og 36% af orkutengdri losun gróðurhúsalofttegunda í ESB.

Í núgildandi tilskipun, þ.e. tilskipun nr. 2010/31/ESB sbr. tilskipun um breytingar á þeirri tilskipun nr. 2018/844/ESB, er mælt fyrir um lágmarkskröfur um orkunýtni nýrra bygginga og núverandi bygginga sem verið er að gera upp. Þar er mælt fyrir um aðferðafræði til að reikna út samþætta orkunýtni bygginga og kveðið á um orkunýtnivottun bygginga. Ísland fékk undanþágu, með sérstakri efnilegri aðlögun, frá tilskipuninni árið 2010 með hliðsjón af þeirri sérstöðu sem Ísland hefur með háu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa. Eftir breytingarnar árið 2018 er undanþágan þó skilyrt því að Ísland þarf að taka til greina nýmæli sem kveðið var á um í nýrri tilskipun 2018/844/ESB, sem til að mynda lýtur að snjallvæðingu bygginga og hleðslumöguleikum fyrir rafbíla.

Hinn 7. desember sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB, um efni framangreindar tillögu að heildarendurskoðun tilskipunar um orkunýtni bygginga. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 4. nóvember 2022 þar sem fjallað var um orkukreppuna og sagt frá fundi orkumálaráðherra ESB í október 2022 og afstöðu ráðherraráðs ESB til tillögunnar sem þá var samþykkt.

Fyrirliggjandi tillaga felur í sér nýjar og metnaðarfyllri kröfur um orkunýtni fyrir nýjar og endurnýjaðar byggingar innan ESB. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er að árið 2030 verði allar nýjar byggingar kolefnishlutlausar og að árið 2050 nái það til allra bygginga. Metið verður, m.a. með hliðsjón af forsögu málsins, hvort aðlagana sé þörf fyrir Ísland er kemur að upptöku gerðarinnar í EES-samninginn en tillagan er til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA um orkumál.

Tillagan gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Losun frá iðnaði

Eins og fjallað var um í Vaktinni 24. mars 2023 þá samþykkti ráðherraráð ESB afstöðu sína til efnis tillögu um breytingar á tilskipun um losun frá iðnaði (IED) á fundi sínum 16. mars sl. Í framhaldi af því hófust þríhliða viðræður Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um endanlegt efni tillögunar. Hinn 29. nóvember sl. náðist samkomulag um endanlegt efni tilskipunarinnar og jafnframt um efni tillögu að nýrri reglugerð um stofnun upplýsingagáttar fyrir losun frá iðnaði (IEP).

Markmið með breyttum reglum er að draga enn frekar úr hvers kyns skaðlegri losun úrgangs frá iðnaði, þar með talið kolefnislosun, og bæta þar með heilsu fólks og umhverfið. Markmiðið er einnig að hvetja til nýsköpunar og jafna samkeppnisskilyrði iðnaðar á innri markaðinum. Þá miða reglurnar að því að einfalda og bæta upplýsingagjöf iðnrekenda til stjórnvalda og almennings á þessu sviði m.a. með því að uppfæra núverandi samevrópska skrá yfir losun og flutning mengunarefna og koma á fót ítarlegri og samþættri upplýsingagátt fyrir losun frá iðnaði. Loks er það markmið reglnanna að bæta orkunýtingu í iðnaði og að efla hringrásarhagkerfið.

Tilskipunin um losun frá iðnaði er helsta tæki ESB til að hafa stjórn á mengun frá iðnaðarmannvirkjum, þ. m. t. frá svonefndu þauleldi (e. intensive livestock farms), svo sem mengun vegna köfnunarefnis, ammoníaks, kvikasilfurs, metans og koldíoxíðs.

Samkomulagið nú felur m.a. í sér að sett eru tiltekin viðmiðunarmörk fyrir þauleldi; þ.e. eldi svína, alifulga og blandað eldi. Hefðbundin bú og búfjárrækt til heimilisnota eru þó undanskilin gildissviði tilskipunarinnar. Samkomulagið færir einnig tiltekna námustarfsemi undir gildissvið tilskipunarinnar. Kveðið er á um losunarmörk og m.a. sett fram hugtakið umhverfisviðmiðunarmörk (e. environmental performance limit values - EPLV) sem nýtt verður við framkvæmd tilskipunarinnar.

Eins og áður segir tekur samkomulagið einnig til efnis nýrrar reglugerðar um stofnun upplýsingagáttar fyrir losun frá iðnaði (IEP). Gáttin á m.a. að auka aðgengi almennings að upplýsingum um losun frá iðnaði og auðvelda þátttöku almennings í ákvarðanatöku í umhverfismálum. Í gáttinni verða gögn um notkun á vatni, orku og lykilhráefnum frá einstökum starfsstöðvum iðnaðar.

Tillögurnar ganga nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Vistvæn hönnun framleiðsluvara

Hinn 4. desember sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB, um efni tillögu að nýrri reglugerð er setur ramma utan um kröfur til visthönnunar fyrir sjálfbærar vörur (e. Regulation establishing a framework for setting ecodesign requirements for sustainable products).

Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 1. apríl 2022 þar sem fjallað er um tillögupakka framkvæmdastjórnar ESB um hringrásarhagkerfið.

Tillaga að nýrri reglugerð byggir á gildandi tilskipun um visthönnun sem hefur með góðum árangri knúið áfram bætta orkunýtni framleiðsluvara í tæpa tvo áratugi. Með nýrri reglugerð og því samkomulagi sem náðst hefur er gert ráð fyrir að gildissvið núverandi löggjafar verði víkkað út. Til að tryggja fyrirsjáanleika og gagnsæi um hvaða vörur verði felldar undir gerðina og hvenær, mun framkvæmdastjórn ESB samþykkja og uppfæra reglulega lista yfir vörur sem auðkenndar verða á grundvelli ítarlegrar greiningar og viðmiðana er tengjast einkum loftslags-, umhverfis- og orkunýtnimarkmiðum ESB. Tilteknar vörur sem hafa mikil umhverfisáhrif verða settar í forgang þ.e. textílvörur, húsgögn o.fl. en gert er ráð fyrir að hin nýja reglugerð taki að lokum til nánast allra vöruflokka.

Nýjar kröfur um visthönnun ganga þannig mun lengra en núgildandi tilskipun þar sem stefnt er að því að nánast allar vörur verði felldar undir hringráshagkerfið.

Tillagan gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag. Í framhaldinu verður fyrsta vinnuáætlunin samkvæmt nýju reglugerðinni samþykkt þar sem koma mun fram hvaða vörur verði felldar undir regluverk gerðinnar í fyrstu umferð.

Flokkun, merkingar og pökkun hættulegra efna

Samkomulag náðist í vikunni í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögu um endurskoðun reglugerðar um flokkun, merkingar og pökkun hættulegra efna.

Markmið reglugerðarinnar er að vernda fólk og umhverfið fyrir skaðlegum áhrifum slíkra efna og tryggja öruggt og frjálst flæði vara sem innihalda slík efni á innri markaðinum.

Tillagan gengur nú til formlegrar samþykktar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Bætt réttarvernd ferðamanna

Þann 29. nóvember síðastliðinn lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögur til að styrkja réttarvernd ferðamanna. Tillögurnar taka mið af reynslu síðustu ára vegna Covid-19 faraldursins og gjaldþrota í  ferðabransanum sem fylgdu í kjölfarið.

Breytingartillögunum er ætlað að skýra reglur um endurgreiðslu vegna niðurfellingar á flugi og bæta upplýsingaflæði til neytenda. Einnig er lagt til að bæta réttarvernd fatlaðra og hreyfihamlaðra ferðamanna með því að tryggja þeim rétt til viðeigandi aðstoðar og þjónustu.

Nánar tiltekið er lagt að eftirlit með framkvæmd reglugerðar um réttindi flugfarþega verði hert en einnig að farþegum sem bókuðu í gegnum millilið verði gert kleift að fá endurgreitt. Þá eru lagðar til breytingar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um fjölþátta ferðaupplýsingaþjónustu sem miða að því að gera ferðamönnum auðveldara að nálgast upplýsingar í rauntíma um þjónustu, aðgengi, ferðamöguleika, seinkanir og niðurfelld flug. Lagt er til að fatlaðir og hreyfihamlaðir farþegar njóti viðeigandi þjónustu ef þeir þurfa að breyta um ferðamáta. Einnig er lagt til að aðstoðarmenn fatlaðra eða hreyfihamlaðra flugfarþega fljúgi endurgjaldslaust og eigi rétt á að sitja við hlið ferðamannsins ef það er raunhæft. 

Þá er kveðið á um að ferðaskrifstofur skuli eiga rétt til endurgreiðslu frá þjónustuveitendum innan viku frest, þegar endurgreiðslukröfur stofnast. Þetta gerir ferðaskrifstofum aftur betur kleift að endurgreiða ferðamönnum innan áskilins tveggja vikna frests þegar þeir eiga rétt á endurgreiðslu. Tillögurnar fela einnig í sér að innágreiðslur ferðamanna inn á pakkaferðir megi ekki nema meira en 25% af heildarverði pakkaferðarinnar nema í undantekningartilfellum og að ferðaskipuleggjendur megi ekki krefjast heildargreiðslu fyrr en 28 dögum fyrir upphaf pakkaferðarinnar.

Sé ferðamönnum boðin inneignarnóta vegna niðurfellingar ferðar er lagt til að þeim verði gert skylt að greina þeim frá skilmálum inneignarnótunnar og upplýsa ferðamann hvort hann eigi rétt á endurgreiðslu í stað inneignarnótu. Þá er þess krafist að inneignarnótur sem ekki eru nýttar séu sjálfkrafa endurgreiddar í lok gildistíma þeirra. Enn fremur er lagt til að bæði inneignarnótur og endurgreiðslur verði tryggðar reynist ferðaþjónustuaðili ógjaldfær. Jafnframt er lagt til að ferðamönnum verði veittar skýrar upplýsingar um réttindi sín, hvaða ferðasamsetningar teljist til pakkaferða og hver sé ábyrgur vegna vanefnda.

Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþingsins og í ráðherraráði ESB.

Velferð dýra

Í vikunni lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögur að endurskoðun reglna um velferð dýra. Um er að ræða tvær tillögur annars vegar  tillögu um umbætur er kemur að velferð dýra þegar þau eru flutt á milli staða og hins vegar tillögu að nýrri reglugerð um velferð og rekjanleika hunda og katta sem ræktuð eru í viðskiptalegum tilgangi.

Fyrri tillagan felur í sér endurskoðun á gildandi reglum ESB um aðbúnað dýra þegar þau eru flutt á milli staða og taka tillögurnar mið af vísindalegum rannsóknum og tækninýjungum á þessu sviði.

Með seinni tillögunni er í fyrsta sinn stefnt að því að koma á samræmdum reglum um meðhöndlun hunda og katta í ræktunarstöðvum og gæludýraverslunum sem og í athvörfum sem rekin eru fyrir slík dýr. Jafnframt er kveðið á um skyldubundna auðkenningu og skráningu hunda og katta í innlenda gagnagrunna til að berjast gegn ólöglegum viðskiptum með slík dýr og til að bæta eftirlit með aðstæðum dýranna og rekjanleika.

Að lokum leggur framkvæmdastjórnin til frekari skref til að bregðast við frumkvæðismáli evrópskra borgara (e. European Citizen Iniciative) „Fur Free Europe“, þar sem kallað er eftir því að bann verði lagt við loðdýrarækt og sölu á vörum sem innihalda loðfeldi af dýrum á innri markaðnum. Í viðbrögðum framkvæmdastjórnarinnar nú er frumkvæðinu fagnað og viðurkennt að velferð dýra sé enn mikið áhyggjuefni fyrir evrópska borgara. Hefur framkvæmdastjórnin falið Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) að veita vísindalegt álit á velferð loðdýra á loðdýrabúum. Í framhaldi af þeirri álitsgjöf verði tekin afstaða til næstu skrefa í málinu.

Hér má finna skýrslu (e. briefing) frá rannsóknarþjónustu Evrópuþingsins (e. EPRS) um dýravelferð í aðildarríkjum ESB sem birt var í vikunni.

Framangreindar tillögur ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

EES/EFTA álit um löggjafartillögu um ökuskírteini

Þann 1. mars sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram þrjár löggjafartillögur á sviði umferðaröryggis og var fjallað um tillögurnar í Vaktinni 10. mars sl. Löggjafartillögurnar hafa frá þeim tíma verið til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB og samþykkti ráðið afstöðu sína til málsins fyrir komandi þríhliða viðræður á fundi samgönguráðherra ESB 4. desember sl. en enn er beðið eftir að Evrópuþingið samþykki afstöðu sína fyrir viðræðurnar.

Samhliða umfjöllun í stofnunum ESB hafa EES/EFTA-ríkin unnið að greiningu og mati á tillögunum með hliðsjón af skuldbindingum og hagsmunum ríkjanna samkvæmt EES-samningnum. Fjallað hefur verið um tillögurnar á vettvangi vinnuhóps EFTA um samgöngumál og var ákveðið í kjölfar umræðu þar að senda inn sérstakt álit (EEA EFTA Comment) um eina af framangreindum þremur tillögum, þ.e. um breytingartillögu við tilskipun um ökuskírteini og hefur álitið verið sent stofnunum ESB sem hafa tillögurnar til umfjöllunar, þ.e. til Evrópuþingsins, ráðherraherraráðs ESB, framkvæmdastjórnar ESB og fleiri aðila. 

Í áliti EES/EFTA-ríkjanna er goldið varhug við að færa aldurstakmörk fyrir aukin ökuréttindi niður í 17 ár jafnvel þótt krafa sé gerð um að svonefndur fylgdarökumaður sé viðstaddur akstur. Þá vara ríkin ennfremur við því að þrepaskipt skilyrði fyrir því að öðlast ökuskírteini í C og D flokki verði afnumin. Er það mat EES/EFTA-ríkjanna að þessi atriði tillögunnar gætu haft neikvæð áhrif á umferðaröryggi.

Þrátt fyrir framangreint er í álitinu lýst yfir fullum stuðningi við megin markmið tillögunnar er miða að auknu umferðaröryggi. EES/EFTA ríkin lýsa yfir fullum stuðningi við ákvæði um upptöku rafrænna samevrópskra ökuskírteina enda muni það hafa margvísleg jákvæð áhrif á innri markaðinum. Þá lýsa EES/EFTA ríkin yfir stuðningi við ákvæði um að hækka þyngdartakmörk bifreiða sem ökumönnum bifreiða með almenn ökuskírteini er heimilt að aka, en með hækkun þeirra marka er leitast við að taka tillit til rafbíla sem eru jafnan þyngri en jarðefnaeldsneytisbifreiðar vegna þyngdar rafhlöðunnar. Þá styðja EES/EFTA ríkin tillögu um að ökumaður sem staðinn hefur verið að akstri undir áhrifum geti átt val um að settur verði svonefndur áfengislás í bifreið viðkomandi í stað þess að undirgangast ökubann. Áfengislás virkar með þeim hætti að ökumaður þarf að blása í þar til gert tæki sem tengt er við bílinn áður en hann er gangsettur og mælir tækið hvort viðkomandi sé undir áhrifum. Mælist ökumaðurinn yfir mörkum er ekki unnt að ræsa bíllinn. Hafa rannsóknir leitt í ljós að áfengislás er áhrifaríkari leið en ökubann til að koma í veg fyrir akstur undir áhrifum.

Mat á hlutverki og stöðu nýrrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála

Framkvæmdastjórn ESB hefur birt til umsagnar í samráðsgátt ESB skjal um mat á hlutverki og stöðu nýrrar Neyðar- og viðbragðsskrifstofu ESB á sviði heilbrigðismála (e. Health Emergency Preparedness and Response Authority - HERA).

HERA hefur nú verið starfrækt um tveggja ára skeið. Var skrifstofan sett á fót til að bregðast við veikleikum sem Covid-19 heimsfaraldurinn þótti hafa leitt í ljós. Var HERA þannig sett á fót til að styrkja neyðarviðbúnað og viðbrögð ESB þegar lýðheilsu er ógnað. Er það m.a. hlutverk HERU að undirbúa, stjórna og samþætta viðbrögð aðildarríkjanna þegar alvarleg heilsuvá steðjar að. Þá gegnir HERA einnig því hlutverki að tryggja aðgengi að bóluefnum, lyfjum og öðrum nauðsynlegum vörum og viðbúnaði á heilbrigðissviði (e. medical countermeasures).

Í ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um stofnun HERU kemur fram að fyrir árið 2025 skuli framkvæmt ítarlegt mat á starfsemi skrifstofunnar, þar með talið á skipulagi og stjórnarháttum. Þar segir einnig að framkvæmdastjórnin muni upplýsa Evrópuþingið, ráðherraráð ESB, stjórn HERU sem og almenning um niðurstöður matsins.

Það samráðsferli sem nú er hafið er þáttur í því að leggja mat á það hvort núverandi umgjörð skrifstofunnar sé fullnægjandi til að henni sé kleift að sinna þeim verkefnum sem henni hafa verið falin á skilvirkan hátt og jafnframt að leggja mat á þann ávinning sem störf HERU hafa fyrir við vinnu stofnana ESB á skyldum sviðum og hvort breytinga sé þörf.

Þess má geta að Ísland og Noregur hafa nú um tveggja ára skeið, unnið að því að tryggja þátttöku í heilbrigðissamstarfi ESB á breiðum grundvelli bæði hvað varðar undirbúning vegna heilsuvár en einnig er kemur að viðbrögðum þegar krísuástand skellur á. Þátttaka í HERU er hluti af því, en fyrr á árinu fékk Ísland áheyrnaraðild að stjórn skrifstofunnar.

Ísland á einnig aðkomu að stjórnarnefndum um helstu samstarfsáætlanir sem nýttar eru til að fjármagna samstarfið en frekari viðræður þurfa að eiga sér stað við ESB um þátttöku á þegar áföll ríða yfir, m.a. með tilliti til fjárframlaga við slíkar aðstæður og aðkomu að ákvörðunartöku. Markmiðið er að fyrir liggi samstarfsrammi sem grípa megi til þegar bregðast þarf við aðsteðjandi hættu, t.d. um sameiginleg innkaup.

Árið 2022 áttu fulltrúar Íslands og Noregs könnunarviðræður við fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB þar sem m.a. var rætt um hvernig útfæra mætti samstarfið og helstu álitaefni. Framkvæmdastjórn ESB hefur verið jákvæð fyrir þátttöku ríkjanna og vinnur nú að nánari útfærslu og öflun umboðs frá aðildarríkjum ESB til frekari viðræðna.

Umsagnarfrestur um samráðsskjalið sem birt hefur verið í samráðsgátt ESB er til 19. febrúar nk.

Fundir innviðaráðherra í Brussel

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sótti Brussel heim í vikunni til ýmissa fundarhalda.

Átti ráðherra fund með norrænum samráðherrum sínum þeim Andreas Carlson, innviðaráðherra Svíþjóðar, Jon-Ivar Nygård, samgönguráðherra Noregs, Lulu Ranne, samgöngu- og fjarskiptaráðherra Finnlands og Thomas Danielsen, samgönguráðherra Danmerkur.

Á fundinum var rætt um ýmsar tillögur sem nú eru til umfjöllunar á vettvangi ESB og lúta að samgöngum og umferðaröryggi, og teljast EES-tækar.

Ráðherrarnir ræddu m.a. tillögur framkvæmdastjórnar ESB um bætt umferðaröryggi, sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 10. mars sl., sbr. einnig umfjöllun hér að ofan í Vaktinni um EES/EFTA-álit um breytingar á tilskipun um ökuskírteini.

Einnig var tillaga um hámarksstærð og þyngd flutningabifreiða á vegum rædd sem og tillaga um verklag við að meta kolefnislosun frá vöruflutningum en markmið þeirra er hvetja til minni losunar kolefnis við vöruflutninga og samræma útreikninga á losun kolefnis. Tillögurnar eru hluti af áætlun ESB um græna vöruflutninga, sbr. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 21. júlí sl.

Loks voru tillögur framkvæmdastjórnar ESB að endurbættu regluverki um siglingaöryggi og hvernig stuðla megi að umhverfisvænum og nútímalegum siglingum til umræðu, sbr. nánar um tillögurnar í Vaktinni 9. júní sl.

Framangreindar tillögur voru síðan jafnframt til umræðu á fundi ráðherraráðs ESB mánudaginn 4. desember sl., þar sem afstaða ráðsins til þriggja af fjórum tillögum pakkans voru samþykktar. Sjá nánar um fund ráðherraráðsins og niðurstöður hans hér.

Innviðaráðherra átti einnig fund með háttsettum fulltrúum hjá DG-Defis, skrifstofu málefna varnariðnaðar og geimáætlunar ESB í framkvæmdastjórn ESB. Þar var m.a. rætt um málefni EGNOS kerfisins sem styður við GPS leiðsögukerfið, og eykur nákvæmni þess og veitir notendum upplýsingar um áreiðanleika þess við krefjandi aðstæður t.d. við að leiðbeina flugvélum við lendingu á flugvöllum. Þá var áætlun ESB um öruggt samskiptakerfi um gervihnetti til umræðu en Ísland hefur ákveðið að óska eftir viðræðum við ESB um þátttöku í því verkefni, sbr. umfjöllun um málið í Vaktinni 29. september sl. Sjá nánar um fundinn í fréttatilkynningu innviðaráðuneytisins.

Loks skrifaði ráðherra undir stofnsáttmála Eurocontrol en unnið hefur verið að þátttöku Íslands að alþjóðasamningi um Eurocontrol stofnunina um nokkurt skeið og var m.a. gerður aðlögunarsamningur um væntanlega þátttöku Íslands á síðastliðnu ári. Mun Ísland fá fulla aðild að stofnuninni, að undangengnu fullgildingarferli íslenskra stjórnvalda, frá og með áramótum 2024-5. Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu innviðaráðuneytisins.

Uppfærsla á lista yfir forgangsmál í hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB birt í samráðsgátt

Uppfærður listi yfir forgangsmál í hagsmunagæslu Íslands gagnvar ESB var birtur í samráðsgátt stjórnvalda 29. nóvember sl.

Núgildandi forgangslisti var samþykktur í ríkisstjórn í júní 2022 með gildistíma fyrir árin 2022-2023. Með hliðsjón af því að kosningar til Evrópuþingsins fara fram næsta sumar og því að þá rennur jafnframt út skipunartími núverandi framkvæmdastjórnar ESB hefur verið ákveðið að framlengja gildistíma listans, með uppfærslum fram á mitt ár 2024 eða til loka skipunartímabils núverandi framkvæmdastjórnar ESB.

Í samræmi við framangreint er fyrirhugað að næsta heildarendurskoðun, í formi nýs forgangslista, fari fram við upphaf skipunartímabils nýrrar framkvæmdastjórnar en vænta má að hún verði fullskipuð um mitt næsta ár eða næsta haust og að meginstefna hennar liggi þá fyrir. Þá er gert ráð fyrir að næsta heildarendurskoðun forgangslistans þar á eftir eigi sér stað þegar fimm ára skipunartímabil næstu framkvæmdastjórnar er hálfnað.

Uppfærsla forgangslistans hefur verið unnin í samvinnu allra ráðuneyta Stjórnarráðsins, sem hvert um sig ber ábyrgð á því, í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, að vakta málefni er varðað geta EES-samninginn á vettvangi ESB. Við gerð listans og uppfærslu hans nú var meðal annars lögð til grundvallar áætlun framkvæmdastjórnar ESB fyrir árin 2019-2024 og árlegar starfsáætlanir hennar, nú síðast starfsáætlun fyrir árið 2024, sbr. m.a. umfjöllun um þá áætlun í Vaktinni 27. október sl. Ný mál hafa verið sett á listann og önnur felld út í samræmi við stöðu þeirra í lagasetningarferli ESB.

Tilgangur forgangslistans er að auka skilvirkni í þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og ákveða og skilgreina hvernig hagsmunagæslu af Íslands hálfu verði best háttað hverju sinni. Listinn er í grunninn einskorðaður við mál sem eru á undirbúnings- eða forstigi hjá framkvæmdastjórn ESB og mál sem lögð hafa verið fram til umfjöllunar í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Í einstaka tilfellum eru mál á listanum þar sem búið er að taka ákvörðun hjá ESB en huga þarf sérstaklega að upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn, t.d. með því fara fram á efnislegar aðlaganir.

Umsagnarfrestur um uppfærðan forgangslista er til 13. desember nk.

Sameiginlega EES-nefndin afgreiðir flugmálið

Sameiginlega EES-nefndin (e. EEA Joint Committee) kom saman til fundar í Brussel í dag.

Eins og kunnugt er er nefndin helsti samstarfsvettvangur aðila samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Hlutverk nefndarinnar er að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins og tekur nefndin ákvarðanir um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og hafa ákvarðanir nefndarinnar þjóðréttarlega stöðu sem milliríkjasamningar.

Á fundinum í dag, sem var síðasti fundur nefndarinnar á þessu ári, var 81 ný gerð tekin upp í EES-samninginn en þá hefur samtals 621 gerð verið tekin upp í samninginn á árinu. Meðal gerða sem teknar voru upp í samninginn í dag var svonefnd ETS-gerð um breytingar á núgildandi löggjöf ESB um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir flug. Var gerðin tekin upp í samninginn með efnislegri aðlögun fyrir Ísland sem samkomulag tókst um við ESB síðastliðið vor, sbr. umfjöllun um það samkomulag í Vaktinni 26. maí sl., en ítarlega hefur verið fjallað um málið í Vaktinni við fjölmörg tilefni á umliðnum misserum.

Ísland mun taka við formennsku í fastanefnd EFTA um áramótin og gegna henni fram á mitt ár 2024. Í tilefni af því gerði sendiherra Íslands í Brussel, Kristján Andri Stefánsson, nefndinni munnlega grein fyrir helstu áherslumálum Íslands á komandi formennskutíð en ráðgert er að gefa formennskuáætlun Íslands út fljótlega í byrjun næsta árs. Næsta ár markar 30 ára afmæli EES-samningsins og mun Ísland sem formennskuríki verða í fararbroddi EES/EFTA-ríkjanna við framkvæmd viðburða sem til stendur að efna til af því tilefni.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum