Hoppa yfir valmynd
15. mars 2024 Brussel-vaktin

ESB haslar sér völl á sviði varnarmála

Að þessu sinni er fjallað um:

  • nýja stefnumótun Evrópusambandsins (ESB) á sviði varnarmála
  • framgang umsókna Bosníu og Hersegóvínu, Úkraínu og Moldóvu um aðild að ESB
  • samkomulag um nýjar reglur um söfnun og miðlun upplýsinga um flugfarþega í landamæra- og löggæslutilgangi
  • tillögu um breytingar á reglum um niðurfellingu á áritunarfrelsi þriðja ríkis
  • uppbyggingu sameiginlegs fjármagnsmarkaðar í ESB
  • samkomulag um bann á vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu
  • þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB á sviði heilbrigðismála
  • aðgerðir til að sporna gegn skorti á lækningatækjum
  • samkomulag um breytingar á reglum um stjórnun loftrýmisins
  • samkomulag um tvær gerðir siglingaöryggispakkans
  • samkomulag um sjálfbærari umbúðir og minni umbúðaúrgang
  • samkomulag um breytingar á tilskipun um umferðalagabrot
  • ·viðbragðsstjórnun vegna loftslagsbreytinga og áhættuþátta sem fylgja
  • Hvítbók um stafræna innviði

Vegna páskaleyfa er næsti útgáfudagur Vaktarinnar áætlaður um miðjan apríl.

Ný stefnumótun ESB á sviði varnarmála

Þann 5. mars sl. sendi framkvæmdastjórn og utanríkismálastjóri ESB frá sér orðsendingu um stefnumörkun á sviði varnarmála. Er þetta í fyrsta sinn sem stefnumörkun af þessu tagi lítur dagsins ljós á vettvangi ESB. Með nýrri stefnumörkun eru lagðar til metnaðarfullar aðgerðir til að styðja við samkeppnishæfni og framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins innan ESB (e. defence industrial strategy) - auk þess sem vikið er að auknu varnarmálasamstarfi almennt.

Stefnumörkunin er hluti af viðbrögðum ESB við breyttri stöðu varnar- og öryggismála í Evrópu í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og þeirri gríðarlegu öryggisógn sem stríðið hefur skapað í álfunni. Hefur stríðið leitt í ljós brotalamir í getu aðildarríkjanna, m.a. til að framleiða hergögn og skotfæri. Þannig hefur t.d. komið í ljós að ESB hefur ekki tekist, á grundvelli eigin framleiðslu, að standa fyllilega við skuldbindingar og loforð um skotfærasendingar til Úkraínu. Þá hafa ýmis ummæli fv. forseta Bandaríkjanna (BNA) og núverandi forsetaframbjóðanda Donald Trump aukið mjög á óróa innan ESB og aðildarríkjanna er kemur að varnarmálum. Þannig hefur vitund ráðamanna innan ESB um nauðsyn þess að standa á eigin fótum er kemur að vörnum og öryggismálum vaxið hröðum skrefum á undanförnum misserum.

Enda þótt ESB hafi gripið til margvíslegra sameiginlegra ráðstafana til stuðnings Úkraínu, m.a. á sviði hermála, sbr. t.d. með neðangreindri ASAP-reglugerð sem lýtur að stuðningi við skotfæraframleiðslu innan ESB og EDIRPA-reglugerð er lýtur að sameiginlegum opinberum útboðum við innkaup á hergögnum, þá er ljóst að með orðsendingunni og þeirri reglugerðartillögu sem henni fylgir er sleginn nýr tónn, með langtímastefnumörkun til 10 ára á sviði varnartengdra mála.

Í stefnunni eru skilgreindar áskoranir sem hergagnaiðnaðurinn í Evrópu stendur frammi fyrir um leið og leitað er leiða til að mæta þeim m.a. með því að fullnýta möguleika iðnaðarstarfseminnar í ESB með aukum fjárfestingum aðildarríkjanna, fjölgun sameiginlegra útboða og auknum innkaupum á hergögnum sem framleidd eru í ESB ásamt öðrum samþættum aðgerðum á sviði varnarmála. Orðsendingunni fylgir eins og áður segir tillaga til ráðsins og Evrópuþingsins að nýrri reglugerð sem ætlað er að hraða framleiðslu og tryggja nægjanlegt framboð hergagna til lengri tíma. Með því móti verði brúað ákveðið bil við þær skammtímaráðstafanir sem áður hefur verið gripið til, sbr. áðurnefnda ASAP-reglugerð og EDIRPA-reglugerð, sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrr í dag, undir bókun 31 við EES-samninginn að beiðni Noregs (með undanþágu fyrir Ísland).

Athuga ber að nýja reglugerðartillagan sem fylgir orðsendingunni er merkt EES-tæk af hálfu framkvæmdastjórnar ESB en endanleg afstaða þar um mun ráðast af sameiginlegu mati ESB og EES/EFTA ríkjanna þegar þar að kemur.

Til að samþætta og styðja við hergagnaframleiðslu enn frekar er í stefnumörkunarskjalinu kallað eftir því að vogarafli Evrópska fjárfestingarbankans verði beitt með endurskoðun á lánastefnu bankans en bankinn er framlengdur fjárfestingaarmur ESB og á meðal stærstu opinberu fjármálastofnana á sviði fjárfestinga í heiminum í dag, ef ekki sá stærsti.

Auk áherslu á aukna hergagnaframleiðslu þá er í stefnunni lögð áhersla á að samþætta stefnumótun og varnarviðbrögð aðildaríkjanna um leið og boðuð er aukin samvinna við NATO og aðra vinveitta samstarfsaðila. Í því sambandi er sérstaklega og eðli málsins samkvæmt fjallað um samstarf við Úkraínu. Er Úkraína nánast meðhöndluð með sama hætti og um aðildarríki ESB væri að ræða. Þannig er lagt upp með að Úkraínu verði gert kleift að taka þátt í sameiginlegum hergagnainnkaupum og að úkraínskum fyrirtækjum verði heimilaður aðgangur að neðangreindum 1,5 milljarða evra sjóði til jafns við fyrirtæki innan ESB. Framangreint áréttar enn og aftur eindreginn stuðning ESB við Úkraínu og endurspeglar jafnframt ríkan pólitískan vilja til að Úkraína verði með tíð og tíma fullgilt aðildarríki ESB, sbr. umfjöllun hér að neðan í Vaktinni um framgang umsóknar Úkraínu um aðild að ESB. Sjá einnig í þessu samhengi nýja ákvörðun ESB í vikunni um fjárstuðning við Úkraínu.

Boðað aukið samstarf og samvinna ESB við NATO er áhugavert enda þótt samvinna á milli NATO og ESB sé vitaskuld ekki ný af nálinni, sbr. t.d. sameiginlegu ESB-NATO samstarfsyfirlýsinguna frá 10. janúar sl. en fyrsta yfirlýsingin af því tagi var gefin út árið 2016. Ný stefnumörkun ESB á sviði varnarmála leggur skýrari línur en áður um sameiginlega stefnu aðildarríkja ESB á þessu sviði, a.m.k. að því er varðar hergagnaframleiðslu, en NATO hefur einnig nýverið, eða í desember sl., samþykkt aðgerðarplan um aukna hergagnaframleiðslu, þar sem m.a. var sett á fór nýtt hergagnaiðnaðarráð, sjá nánar hér.

Fókusinn í framangreindri hergagnaiðnaðarstefna ESB er mjög mikið inn á við, þ.e. er á aukna framleiðslu og innkaup hergagna sem framleidd eru í ESB og í Úkraínu eftir atvikum. Stefnan getur þannig vart talist góðar fréttir fyrir hergagnaframleiðendur í öðrum löndum, svo sem í Bandaríkjunum. Boðuð endurskoðun á lánareglum Evrópska fjárfestingabankans sem vikið er að hér að framan er einnig athygliverð í þessu tilliti.

Í fyrirliggjandi tillögum er gert er ráð fyrir 1,5 milljarði evra fjárveitingu af hálfu ESB til að auka samkeppnishæfni hergagnaiðnaðarins í ESB á árunum 2025 til 2027, en ekki er ólíklegt að þetta sé aðeins blábyrjunin. Hefur Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðsmála og „varnarmála“ í framkvæmdastjórn ESB látið hafa eftir sér að hann vilji sjá 100 milljarða evra í sameiginlega varnarmálasjóðnum.

Í síðustu viku fór fram umræða í Evrópuþinginu um öryggis- og varnarmál. Þar flutti Ursula von der Leyen (VDL) ræðu þar sem hún lagði þunga áherslu á aukið vægi varnarmála í ESB. Þar vísaði hún m.a. til Versalayfirlýsingarinnar, sem leiðtogaráð ESB sendi frá sér eftir fund ráðsins 10. og 11. mars 2022, sbr. einnig Granadayfirlýsinguna sem gefin var út í framhaldi af fundi ráðsins 6. október 2023, sbr. nánari umfjöllun í Vaktinni 13. október 2023.  Varnar- og öryggismál hafa allar götur síðan verið á dagskrá funda leiðtogaráðs ESB. Á því verður engin undantekning þegar leiðtogaráð ESB kemur saman í næstu viku.

Í ræðu VDL sagðist hún vilja að stofnað verði til sérstaks embættis framkvæmdastjóra varnarmála í framkvæmdastjórn ESB á næsta skipunartímabili framkvæmdastjórnarinnar. Endurspeglar þetta ef til vill betur en margt annað þá þungu áherslu sem nú er lögð á málaflokkinn innan ESB.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin fylgi stefnumörkuninni eftir með því að mæla framfylgd og framfarir innan aðildarríkjanna á sviði hergagnaframleiðslu á grundvelli sérstakra mælikvarða.

Framgangur umsókna Bosníu og Hersegóvínu, Úkraínu og Moldóvu um aðild að ESB

Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni orðsendingu til ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins um framgang umsóknar Bosníu og Hersegóvínu um aðild að ESB, en í orðsendingunni er mælt með því að aðildarviðræður við ríkið verði hafnar. Samhliða framangreindu tilkynnti framkvæmdastjórn ESB einnig að hún hefði lokið við tillögugerð til ráðherraráðs ESB um viðræðuáætlun fyrir Úkraínu annars vegar og við Moldóvu hins vegar og mun framkvæmdastjórnin flytja ráðherraráði ESB munnlega skýrslu um þá tillögugerð, væntanlega á fundi almenna ráðsins (General Affairs Council) næstkomandi þriðjudag. Þá er jafnframt ráðgert að þessi málefni komi til umræðu á fundi leiðtogaráðs ESB á fimmtudag og föstudag í næstu viku.

Framangreindar framgangstillögur ríkjanna eru í samræmi við nýjustu ársskýrslu framkvæmdastjórnarinnar um stækkunarstefnu ESB, en ítarlega var fjallað um þá skýrslu og stöðu einstakra umsóknarríkja í Vaktinni 10. nóvember sl. Í þeirri umfjöllun er einnig gerð grein fyrir mismunandi skrefum í umsóknarferlinu en krafist er einróma samþykkis allra aðildarríkja ESB í ráðherraráðinu í hvert sinn sem umsókn fær formlegan framgang í ferlinu og á það við um þau skref sem nú er lagt til að tekin verði. Tillögur um framgang umsókna Úkraínu og Moldóvu eru einnig í samræmi við áherslur sem fram komu á fundi leiðtogaráðs ESB 14. og 15. desember sl.

Áhugi á stækkunarmálum hefur aukist mjög innan ESB í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og í kjölfar þeirrar þróunar sem orðið hefur í alþjóðamálum í kjölfarið, þar sem virkt lýðræði og réttarríkið eiga í auknum mæli undir högg að sækja. Að sama skapi hefur áhugi og þrýstingur af hálfu umsóknarríkja, sumra a.m.k., um hraðari framgang umsókna þeirra aukist mjög. Hraður framgangur umsókna Úkraínu og Moldóvu, en bæði ríkin sóttu um aðild fljótlega í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu eða í byrjun mars 2022, er til marks um þetta.

Í framvinduskýrslu framkvæmdastjórnar ESB til ráðherraráðsins nú, sbr. framangreinda orðsendingu, fær Bosnía og Hersegóvína jákvæða umsögn og er þar m.a. vísað til nýlegra lagasetninga á sviði réttarríkismála o.fl. Þá þykir landið auk þess hafa aðlagað sig vel að utanríkis- og öryggismálastefnu ESB.

Samkomulag um nýjar reglur um söfnun og miðlun upplýsinga um flugfarþega í landamæra- og löggæslutilgangi

Hinn 1. mars sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um tillögur að tveimur reglugerðum sem varða söfnun og miðlun upplýsinga um flugfarþega, annars vegar í landamæratilgangi og hins vegar í löggæslutilgangi, þ.e. einkum í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Fjallað var um tillögurnar í Vaktinni 16. desember 2022.

Nýjum reglum er ætlað að bæta meðhöndlun fyrirframgefinna upplýsinga um flugfarþega (e. Avance Passanger Information) (API). Reglunum er annars vegar ætlað að tryggja að upplýsingarnar liggi fyrir áður en farþeginn kemur inn fyrir ytri landamæri Schengen-svæðisins og hins vegar er kemur að flugi innan svæðisins. 

Til frekari útskýringa þá eru API gögn samansafn upplýsinga sem fengnar eru úr ferðaskilríkjum einstaklinga auk staðlaðra flugupplýsinga sem miðlað er til stjórnvalda þess ríkis sem farþegi hyggst ferðast til bæði fyrir og eftir flugtak. Um er að ræða nákvæman nafnalista, fæðingardag, ríkisfang, tegund og númer ferðaskilríkis, sætisupplýsingar og upplýsingar um farangur. Til viðbótar verður flugrekendum gert skylt að safna ákveðnum upplýsingum, s.s. flugnúmeri, flugvallarnúmeri og tímasetningum komu og brottfarar.

Reglurnar eru til fyllingar tilskipun ESB frá árinu 2016 um farþegabókunargögn (e. Passanger Name Record) (PNR). PNR gögn eru samansafn af bókunargögnum fyrir flugfarþega og innihalda upplýsingar um ferðaáætlun farþega og upplýsingar um bókunarferlið. Þegar API gögnin og PNR gögnin eru lesin saman geta þau verið áhrifarík til að bera kennsl á ferðamenn sem talist geta ógn við almannaöryggi og eins til að staðfesta ákveðið ferðamynstur einstaklinga sem liggja undir grun um ólögmætt athæfi.

Ísland er á grundvelli Schengen-samstarfsins skuldbundið til að innleiða aðra API reglugerðina, þ.e. þá sem varðar söfnun og miðlun API ganga í landamæratilgangi. Við mótun beggja reglnanna var hagsmunamál fyrir Ísland að sett yrði inn heimild í reglugerðina um söfnun API gagna í löggæslutilgangi jafnframt sem gæti heimilað ESB að vinna tvíhliða samning við Ísland um söfnun og miðlun þeirra gagna einnig. Eins var það áherslumál að aðildarríki ESB virtu norræna vegabréfasamstarfið við vinnslu reglnanna en samstarfið kveður á um að ríkisborgarar Norðurlandanna geti ferðast óhindrað milli landanna án þess að framvísa vegabréfi.

Framangreind áherslumál Íslands gengu eftir og er ráðgert að Ísland ásamt öðrum samstarfsríkjum Schengen, Noregi, Sviss og Liechtenstein (SAC) hefji samningaviðræður við framkvæmdastjórn ESB í næstu viku um tvíhliða samning sem hefur það að markmiði að veita flugrekendum og aðildarríkjum ESB heimild til að miðla PNR gögnum og API gögnum í löggæslutilgangi til SAC ríkjanna.

Tillaga um breytingar á reglum um niðurfellingu á áritunarfrelsi þriðja ríkis

Í október sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu um breytingar á reglugerð um um heimildir til að víkja til hliðar áður fenginni undanþágu þriðja ríkis frá áritunarskyldu inn á Schengen-svæðið (e. Visa Suspension Mechanisma), sbr. m.a. til hliðsjónar umfjöllun um málefnið í Vaktinni 10. mars 2023 þar sem fjallað er um fund Schengen-ráðsins. Tillagan hefur verið til umfjöllunar á vettvangi Evrópuþingsins og í ráðherraráði ESB en þar náðist í vikunni samkomulag um efnislega afstöðu ráðsins til málsins fyrir komandi þríhliða viðræður við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB um endanlegar lyktir málsins. Þá liggja nú jafnframt fyrir drög að nefndaráliti dóms- og innanríkismálanefndar Evrópuþingsins um málið

Það að ríkisborgarar tiltekins þriðja ríkis geti ferðast án vegabréfsáritunar inn á Schengen-svæðið getur haft mikil og góð áhrif á hagkerfi aðildarríkja Schengen -samstarfsins og þá einkum á ferðamannaiðnað auk þess sem slíkt áritunarfrelsi getur skipt sköpum er kemur að félags- og menningarsamskiptum milli ríkja. Aðildarríki ESB hafa áritunarsamninga við 61 ríki en ríkisborgarar þessara ríkja hafa heimild til að dvelja innan Schengen-svæðisins í allt að 90 daga á hverju 180 daga tímabili. Með þátttöku í Schengen-samstarfinu hefur Ísland skuldbundið sig til að fylgja stefnu ESB í áritunarmálum.

Misnotkun á áritunarfrelsi þriðja ríkis getur hins vegar haft neikvæðar og alvarlegar afleiðingar í för með sér, t.d. þegar einstaklingar dvelja fram yfir heimilaða dvöl inn á Schengen-svæðinu eða leggja fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd auk annarra áskorana sem varða öryggi innan svæðisins.

Heimildin til að fella tímabundið niður áritunarfrelsi þriðja ríkis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum tók fyrst gildi árið 2013. Regluverkið hefur þó ekki þótt virka nægilega vel í framkvæmd og er framangreindri tillögu ætlað að bæta þar úr, en fyrir liggur þó að sum aðildarríki hafi viljað ganga enn lengra í breytingum en tillagan gerir ráð fyrir.

Í tillögunni er kveðið á um ný og uppfærð skilyrði þess að til greina geti komið að fella niður þegar fengið áritunarfrelsi þriðja ríkis, svo sem þegar upp koma fjölþáttaógnir eða annmarkar á skilríkjaútgáfu og við veitingu ríkisborgararéttar í viðkomandi þriðja ríki. Þá felur tillagan einnig í sér að heimilt verður að fella niður áritunarfrelsi ef utanríkissamskipti milli viðkomandi ríkis og ESB versna snögglega. Áfram verður heimilt að afnema áritunarfrelsi ef mikil aukning verður á fjölda ríkisborgara tiltekins þriðja ríkis sem meinuð er koma inn á Schengen-svæðið og eins ef aukning verður á tilhæfulausum umsóknum um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum þriðja ríkis sem nýtur áritunarfrelsis inn á Schengen-svæðið. Eins ef ríkið sýnir ekki samvinnu er kemur að endurviðtöku á eigin ríkisborgurum.    

Almennt er gert ráð fyrir að niðurfelling á áritunarfrelsi sé til að byrja með tímabundin til 12 mánaða sem heimilt er að framlengja um aðra 24 mánuði. Á því tímabili er framkvæmdastjórn ESB ætlað að vinna með viðkomandi ríki að lausn vandans. Finnist ekki lausn geta aðildarríki ESB ákveðið að fella niður áritunarfrelsi þriðja ríkis varanlega.

Þess er að vænta að þríhliða viðræður um málið hefjist þegar Evrópuþingið hefur samþykkt framangreind drög að nefndaráliti um málið.

Uppbygging sameiginlegs fjármagnsmarkaðar í ESB

Fjármögnun fyrirtækja í Evrópu hvílir í meira mæli á lántökum í viðskiptabankakerfinu en t.d. í Bandaríkjunum þar sem fjármögnunarmöguleikar á fjármagnsmarkaði þykja fjölbreyttari. Þetta getur staðið nýsköpunarfyrirtækjum og smærri fyrirtækjum fyrir þrifum, þar sem mikil þörf er á fjárfestingum í rannsóknum og þróun, en slíkar fjárfestingar er oft á tíðum áhættusamar og fyrirtækin oft ekki í færum til að veita nægjanlegar tryggingar sem jafnan er krafist við lántöku í bönkum. ESB hefur um nokkurt skeið stefnt að því að koma á virkum og samþættum innri markaði með fjármagn, þ.e. skráðum markaði fyrir skuldabréf og hlutabréf, til þess einmitt m.a. að styðja við fyrirtæki í þessari stöðu, auka fjölbreytni fjármögnunarmöguleika og ýta undir nýsköpun og framleiðni.

Sterkur fjármagnsmarkaður í Evrópu hefur öðlast umtalsvert meiri þýðingu í breyttu umhverfi alþjóðamála frá því að fyrsta aðgerðaáætlun um sameiginlegan fjármagnsmarkað leit dagsins ljós (e. Capital Markets Union, CMU) árið 2015. Þrátt fyrir að núverandi framkvæmdastjórn ESB hafi sett fram nýja aðgerðaáætlun fyrir sameiginlegan fjármagnsmarkað árið 2020 hefur stóru markmiðunum ekki enn verið náð. Vissulega hafa umbætur átt sér stað á lagaumgjörðinni, sbr. m.a. nýlegar umfjallanir í Vaktinni 1. mars sl. um aukið gagnsæi á fjármálamörkuðum og um nýjar reglur um sjóði og jafnframt í Vaktinni 16. febrúar sl. þar sem fjallað er um breytingar á reglum um stöðustofnun og reglum sem ætlað er að auðvelda litum og meðalstórum fyrirtækjum aðgengi að fjármagni í ESB. Þótt áhrif þessara lagabreytinga hafi ekki að fullu komið fram ennþá er það álit margra að enn vanti nokkuð upp á til að ná markmiðum um virkan og djúpan fjármagnsmarkað sem miðlar fjármagni milli fjárfesta og fyrirtækja í Evrópu með skilvirkum hætti.

Þannig er það ekki endilega magn sparnaðar sem stendur fjármagnsmarkaði í ESB fyrir þrifum heldur það að ekki hefur tekist að skapa umhverfi þar sem sparnaði er miðlað á markaði til þeirra sem geta nýtt hann til verðmætasköpunar. Mörg dæmi eru um nýsköpunarfyrirtæki innan sambandsins sem hafa flutt starfsemi sína annað, til að mynda til Bandaríkjanna, þar sem auðveldara er að fjármagna starfsemina. Þannig flyst verðmætasköpun og þau störf sem fyrirtækjunum fylgja frá sambandinu. Þá liggur vandamálið einnig í því að þrátt fyrir ýmsar umbætur þá flyst fjármagn ekki auðveldlega á milli aðildarríkja ESB.

Nú eru ráðamenn í ESB farnir að ókyrrast um að skortur á öflugum fjármagnsmarkaði í sambandinu standi öðrum markmiðum þess fyrir þrifum, svo sem strategísku sjálfræði og grænum og stafrænum umskiptum. Breytingar eru enn meira áríðandi í ljósi nýrrar heimsmyndar alþjóðaviðskipta og -samskipta. Samþættur fjármagnsmarkaður er talinn vera ein af megin forsendum þess að það takist að efla samkeppnishæfni ESB um þessar mundir.

Í liðinni viku birti evruhópurinn í sinni breiðu mynd, þ.e. þegar hann samanstendur af fjármálaráðherrum allra ESB landa, ekki einungis evruríkjanna, yfirlýsingu um framtíð fjármagnsmarkaðar í ESB. Yfirlýsingin er nokkurs konar brýning fyrir næstu framkvæmdastjórn ESB og í henni eru tilgreindar 13 aðgerðir sem eiga að styðja við myndun og starfrækslu hins samþætta og sameiginlega fjármagnsmarkaðar. Ekki er þó unnt að segja að á listanum séu margar nýjar hugmyndir, heldur er þar fremur að finna gamalkunnug stef eins og um einföldun regluverks og umbætur á eftirlitsumgjörð.

Það sem er kannski helst markvert í yfirlýsingunni er hvernig tekið er á stærstu raunverulegu hindrunum sem standa í vegi þess að markmið náist, en telja má að þau liggi í mismunandi skattareglum í aðildarríkjum ESB, vöntun á öflugra bankasambandi og skorti á útgáfu og framboði öruggra verðbréfa í evrum, svipuðum bandarískum ríkisvíxlum og -skuldabréfum. Í yfirlýsingunni er látið nægja að hvetja aðildarríkin til þess að skoða, hvert um sig, hvað þau geti gert í skattkerfinu heima fyrir til að stuðla að öflugri fjármagnsmörkuðum, en ekki verður talið líklegt að slík hvatning ein og sér skili miklum árangri. Öflugt bankasamband (e. Banking Union) hefur verið talið grundvöllur fyrir sterkum fjármagnsmarkaði því að bankar gegna gjarnan stóru hlutverki í verðbréfaviðskiptum og skráningu bréfa á markað. Það er lítillega minnst á þetta atriði í lok yfirlýsingarinnar þ.e. að evruhópurinn styðji framgang bankasambandsins. Loks er ekkert minnst á skort á útgáfu á öruggum verðbréfum í evrum, sem ýmsir telja lykilinn samþættingu fjármagnsmarkaða innan ESB, en þögnin um þetta atriði verður væntanlega rakin til þess að aðildarríki ESB eru mjög ósammála er kemur að beinni útgáfu sambandsins á skuldabréfum og þá á hvaða tekjustofnum sú útgáfa ætti að hvíla.

Samkomulag um bann á vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu

Þann 5. mars sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu framkvæmdastjórnar ESB að nýrri reglugerð um  bann við vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu á innri markaði ESB. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni þann 23. september 2022.

Talið er að tæplega 28 milljónir manna á heimsvísu séu í nauðungarvinnu, en við mat á þeim fjölda hefur verið byggt á skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á því hvað teljist til nauðungarvinnu. Reglugerðinni er ætlað að styðja við aðrar aðgerðir og stefnur ESB á þessu sviði m.a. stefnu um réttindi barna.

Samkomulag það sem nú liggur fyrir um efni málsins styður við öll meginmarkmið tillögunnar, þ.m.t. að banna vörur sem framleiddar eru með nauðungarvinnu en bannið tekur allt í senn til framleiðslu, markaðssetningar og útflutnings. Fyrirtækjum sem eru skráð eða hafa starfsemi innan ESB eða stunda viðskipti innan ESB er gert að tryggja að vörur þeirra og aðföng til framleiðslu þeirra séu ekki framleiddar með nauðungarvinnu.

Í samkomulaginu felst þó að tilteknar breytingar verði gerðar, einkum til að skýra nánar verkaskiptingu milli framkvæmdastjórnar ESB og lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna við eftirlit með framfylgd reglnanna. Framkvæmdastjórninni verður falið að leiða eftirlitsaðgerðir utan landamæra ESB en lögbær yfirvöld einstakra aðildarríkja munu sinna eftirliti þegar áhætta af nauðungarvinnu er talin tengjast viðkomandi aðildarríki. Þá er kveðið um gagnkvæma tilkynningarskyldu lögbærra yfirvalda ef þau verða vör við meinta nauðungarvinnu hvort heldur er í öðrum aðildarríkjum eða utan landamæra ESB. Ákvarðanir um bann, afturköllun eða förgun vöru verða teknar af því stjórnvaldi sem rannsakaði málið og munu gilda með gagnkvæmum hætti yfir landamæri aðildarríkja.

Þá felur samkomulagið í sér að framkvæmdastjórn ESB verði gert að setja upp gagnagrunn um áhættu sem tengist nauðungarvinnu sem mun gagnast bæði framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum aðildarríkjanna við að meta möguleg brot gegn reglugerðinni auk þess sem gefnar verða út leiðbeiningar til atvinnurekenda og lögbærra yfirvalda til að tryggja eftirfylgni með framkvæmd reglugerðarinnar, þ.m.t. með verklagsreglum til að stemma stigu við mismunandi tegundum nauðungarvinnu.

Í samkomulaginu eru jafnframt skilgreind viðmið fyrir líkindamat á því hvort að um brot á ákvæðum reglugerðarinnar sé ræða fyrir framkvæmdastjórnina og lögbær yfirvöld aðildarríkjanna til að miða við.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Þess má geta að efni tillögunnar tengist að nokkru leyti tillögu að tilskipun um áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja, sem fjallað var um í Vaktinni 1. mars sl. Gildissviðið er þó talsvert víðtækara þar sem reglugerðinni er ætlað að ná til allra fyrirtækja sem starfa á innri markaði ESB eða í tengslum við ESB, en reglugerðin um áreiðanleikakannanir á sjálfbærni fyrirtækja nær eingöngu til stórra fyrirtækja.

Þátttaka Íslands í samstarfsáætlun ESB á sviði heilbrigðismála (EU4Health)

Þann 13. febrúar sl. birti framkvæmdastjórn ESB frétt um styrkveitingu að fjárhæð 126 miljón evra til tveggja stórra nýrra verkefna á grundvelli samstarfsáætlunar ESB á sviði heilbrigðismála, EU4Health, en í september 2021 var tekin ákvörðun um formlega þátttöku Íslands í „EU4Health“ og var það í fyrsta skiptið sem Ísland tekur formlega þátt í heilbrigðissamstarfi af þessu tagi á vettvangi ESB. 

Verkefnin sem um ræðir styðja annars vegar við aðgerðir til að sporna gegn sýklalyfjaónæmi (e. Antimicrobial resistance - AMR), en vinnuheiti þess verkefnis er „JAMRAI 2“, og hins vegar við forvarnir gegn krabbameini og öðrum ósmitbærum sjúkdómum þar með talið geðsjúkdómum (e. Non-Communicable Diseases - NCDs) og er vinnuheiti þess verkefnis „JA PreventNCD“. Verkefnunum er ætlað að skjóta styrkari stoðum undir samstarf og samvinnu Evrópuríkja á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union). Báðum verkefnunum var formlega ýtt úr vör 1. janúar sl. og er ætlað að vara í fjögur ár. Ísland er þátttakandi í báðum verkefnunum.

JAMRAI 2

Baráttan við sýklalyfjaónæmi verður sífellt fyrirferðarmeiri og er nú talin ein helsta heilbrigðisógn samtímans. Á hverju ári eru 35.000 dauðsföll rakin til sýklalyfjaónæmis innan evrópska efnahagssvæðisins. Talað er um þögla faraldurinn (e. silent pandemic), sbr. umfjöllun í Vaktinni 26. maí sl. þar sem fjallað var um tilmæli ESB um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og í Vaktinni 21.júlí sl. þar sem greint var frá aðgerðum ESB til að sporna við mögulegum skorti á sýklalyfjum.

Verkefnastyrkurinn er 50 milljónir evra, en öll aðildarríki ESB auk Íslands, Noregs og Úkraínu taka þátt í verkefninu. Markmið „JAMRAI 2“ er að styrka aðgerðaráætlanir á landsvísu í þátttökuríkjunum og innleiða skilvirkar aðgerðir til vöktunar og forvarna í anda „One Health“ stefnu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar sem miðar að sjálfbæru jafnvægi í vistkerfi manna, dýra og platna. Verkefnin snúa einkum að sýklalyfjagæslu, sýkingarvörnum, vöktun, aðgengi að sýklalyfjum og vitundarvakningu um sýklalyfjaónæmi.

Í nýlegri fréttatilkynningu frá Embætti landlæknis má lesa um þátttöku Íslands í þessu verkefni, en þar kemur fram að styrkfjárhæðin sem kemur í hlut Íslands nemi um 113 millj.kr. Þar er einnig að finna tengil á frétt um nýja aðgerðaráætlun heilbrigðisráðherra til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi, en hún er unnin af þverfaglegum starfshópi sem skipaður var af heilbrigðisráðherra í samvinnu við matvæla- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra.

JA PreventNCD

Framkvæmdastjórn ESB hefur haft á stefnuskrá sinni á þessu kjörtímabili að auka forvarnir gegn krabbameini og öðrum ósmitbærum sjúkdómum. Árið 2020 voru 2,7 milljónir manna greind með krabbamein, sama ár létust 1,3 milljónir manna af völdum sjúkdómsins, þar af 2.000 ungmenni. Ef ekkert er að gert er því spáð að krabbameinstilfellum muni fjölga um 24% fram til ársins 2035 sem gæti leitt til þess að krabbamein yrði helsta dánarorsök Evrópubúa. Í febrúar 2021 var áætlun ESB gegn krabbameini (e. Europe‘s Beating Cancer plan) birt en í henni eru kynntar aðgerðir til að styðja við baráttu ríkja gegn krabbameinssjúkdómum. Verkefnið sem hér um ræðir er hluti þeirra aðgerða sem þar eru nefndar, en fjárhæð styrksins nemur 76 milljónum evra og er hæsti einstaki styrkur sem ESB hefur veitt til lýðheilsumála. Í verkefninu taka þátt 22 aðildarríki ESB auk Íslands, Noregs og Úkraínu.  Verkefnið snýr einnig að forvörnum gegn geðsjúkdómum, en fjallað var um stefnumörkun ESB á sviði geðheilbrigðismála í Vaktinni 9. júní sl.

Meginmarkmið verkefnisins er að innleiða aðgerðir til að koma í veg fyrir ósmitbæra sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma. Vitað er að helstu áhættuþættir ósmitbærra sjúkdóma er óhollt mataræði, hreyfingarleysi, reykingar, áfengisneysla og geðheilbrigðisvandamál.

Þátttaka Íslands í verkefninu er leidd af lýðheilsusviði Embættis landlæknis, sbr. nánar um verkefnið og þátttöku Íslands í frétt embættisins frá 21. febrúar sl.

Aðgerðir til að sporna gegn skorti á lækningatækjum

Þann 23. janúar sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að breytingum á reglugerðum um lækningatæki sem ætlað er að vinna gegn skorti lækningatækja á markaði og liðka fyrir auknu gagnsæi og aðgengi að upplýsingum.

Með tillögunni eru lagðar til breytingar á tveimur gerðum; (ESB) 2017/745 um lækningatæki og (ESB) 2017/246 um lækningatæki til sjúkdómsgreiningar í glasi (In Vitro Diagnostic Medical Devices (IVDR)).

Tillagan hefur fengið hraða málsmeðferð innan Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB, en eftir óformlegt samráð milli stofnanna er nú stefnt að því að tillaga verði tekin til formlegra afgreiðslu án breytinga. Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu ráðherraráðs ESB frá 21. febrúar sl. og í reifun Evrópuþingsins á málinu.

Framkvæmdastjórn ESB hefur jafnframt nýverið tilkynnt að frekara mat og greining á virkri framangreindra ESB-reglugerða um lækningatæki sé fyrirhuguð. Hefur framkvæmdastjórnin í því skyni hug á því að efna til opins samráðs á þriðja ársfjórðungi þessa árs um skilvirkni reglugerðanna og hvort þær mæti núverandi þörfum og þörfum til framtíðar.

Samkomulag um breytingar á reglum um stjórnun loftrýmisins (SES2+)

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 6. mars sl. efnislegu samkomulagi um  tillögu að breytingum á reglugerð um stjórnun loftrýmisins og breytingu á reglugerð um hlutverk Flugöryggisstofnunar Evrópu. Tillagan miðar að því að bæta frammistöðu, getu, aðlögunarhæfni, skilvirkni við stjórnun lofrýmisins yfir ESB og eftirlit með þeirri stjórnun um leið og stefnt er að því að draga úr kostnaði og áhrifum loftferða á umhverfið og loftslag.

Reglur um stjórnun lofrýmisins hafa ekki verið endurskoðaðar síðan árið 2009 en tillögur þar að lútandi sem lagðar voru fram árið 2013 náðu ekki fram að ganga. Endurskoðaðar tillögur á grunni tillagnanna frá 2013 voru svo lagðar fram í september árið 2020 og samþykkti ráðherraráð ESB almenna afstöðu til þeirra 4. júní 2021 og þann 7. júlí sama ár samþykkti þingið afstöðu til málsins.  Enda þótt mikið hafi borið á milli þingsins og ráðsins samkvæmt framangreindu hefur nú, nokkuð óvænt, náðst pólitískt samkomulag á milli þeirra um endanlegt efni gerðarinnar.

Reglur ESB um stjórnun loftrýmisins hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Aðrar reglur gilda þó um stjórnun flugumferðar yfir N-Atlantshafi og hafa ESB-reglurnar því verið aðlagaðar að þeim veruleika við upptöku í samninginn og við innleiðingu þeirra á Íslandi.

Helstu atriði samkomulagsins

Það samkomulag sem nú liggur fyrir lítur m.a. að fyrirkomulagi eftirlits og heimildum til að fela einkaaðilum framkvæmd tiltekinna þjónustuþátta. Þá verður sérstökum eftirlitsaðilum aðildarríkjanna í samstarfi við framkvæmdastjórnina og svonefnt skilvirkniráð (e. Performance review board) falið að meta skilvirkni flugumferðarþjónustu í samræmi við reglur um meðalhóf og skiptingu ábyrgðar milli ESB og aðildarríkjanna.

Í samkomulaginu felst einnig að tekin verða upp ákvæði um samsetningu leiðsögugjalda að undangenginni nytja- og kostnaðargreiningu. Ætlunin er að hvetja þá sem njóta þjónustunnar til að nota umhverfisvæna tækni og velja umhverfisvænar flugleiðir. 

Loks felst í samkomulaginu að aukin verkefni verði færð til Eurocontrol er varða leiðarstjórnun sem ætlað er að stuðla að sjálfbærni og skilvirkni við notkun loftrýmisins.

Tillagan, að lokinni textavinnslu, gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um tvær gerðir siglingaöryggispakkans

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 27. febrúar sl. samkomulagi um efni tillögu að breytingum á tilskipun um hafnaríkiseftirlit og tilskipun um fánaríkiseftirlit. Tillögurnar eru hluti af tillögupakka framkvæmdastjórnarinnar um aukið siglingaöryggi sem fjallað var um í Vaktinni 9. júní sl., sbr. einnig umfjöllun um samkomulag um tilskipun um mengun frá skipum í Vaktinni 1. mars sl.

Tilskipun um fánaríkiseftirlit

Tilgangur tilskipunarinnar er að tryggja að skip skráð í ríkjum ESB uppfylli reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar en sú ábyrgð liggur hjá viðkomandi aðildarríki, þ.e.a.s. hjá fánaríkinu.

Ákvæði regluverksins miða að því að aðildarríki hafi getu til að standa undir ábyrgð sinni sem fánaríki á samkvæman, skilvirkan og fullnægjandi hátt. Nánar tiltekið er markmið endurskoðaðra reglna að:

  • Uppfæra gildandi reglur til samræmis við breytingar á alþjóðasáttmálum á vegum IMO og viðeigandi stöðlum.
  • Tryggja fullnægjandi skipaeftirlit og eftirlit með skoðunaraðilum.
  • Stuðla að hraðari innleiðingu stafrænna lausna.
  • Tryggja samræmda framkvæmd er varðar túlkun, skýrslugerð og mælikvarða á skilvirkni flota fánaríkis og skyldur þess.

Samkomulagið felur í sér að tilteknar breytingar verði gerðar á tillögunni en meginefni hennar stendur þó óbreytt.

Tilskipun um hafnaríkiseftirlit

Tilgangur tilskipunar um hafnaríkiseftirlit er að hafa eftirlit með skipum þriðju ríkja sem koma til hafnar innan EES svæðisins og kanna hvort skipið, áhafnir og búnaður uppfylli kröfur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Eftirlitið er mikilvægur þáttur í að tryggja öryggi skipa og vernd umhverfisins. Tilgangur endurskoðaðra reglna er að:

  • Uppfæra gildandi reglur til samræmis við breytingar á alþjóðasáttmálum á vegum IMO og viðeigandi stöðlum.
  • Auka öryggi fiskisskipa, áhafna þeirra og umhverfisins með því að kveða á um, valkvætt eftirlit, með fiskiskipum yfir 24 metrum að lengd.
  • Tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd hafnaríkiseftirlits.

Samkomulagið felur í sér að tilteknar breytingar verði gerðar á tillögunni en meginefni hennar stendur þó óbreytt.

Tillagan, að lokinni textavinnslu, gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um breytingar á tilskipun um umferðalagabrot

Evrópuþingið og ráðherraráð ESB náðu þann 12. mars sl. efnislegu samkomulagi um  tillögu að breytingum á tilskipun um miðlun upplýsinga um umferðalagabrot milli ríkja ESB. Tillagan er hluti af svokölluðum umferðaröryggispakka sem framkvæmdastjórnin birti 1. mars sl. og fjallað var um í Vaktinni 10. mars sl.

Tilgangurinn er að bæta framfylgd viðurlagaákvarðana óháð því hvar brot er framið. Breytingunum er einnig ætlað að stuðla að auknu umferðaröryggi í samræmi við markmið sambandsins um fækkun dauðsfalla og alvarlegra slysa í umferðinni um 50% fyrir árið 2030.

Samkomulagið felur í sér að tilteknar breytingar verði gerðar á tillögunni en meginefni hennar stendur þó óbreytt. Meðal breytinga sem samkomulagið felur í sér er að:

  • hlutverk landstengiliða (e. contact point) og viðurkenndra stjórnvalda (e. competent authorities) er skýrt nánar,
  • gildissvið gerðarinnar er víkkað út þannig að hún taki til fleiri tegunda umferðalagabrota,
  • ·verkferlar sem snúa að aðgengi að skráningarupplýsingum ökutækis eru skýrðir,
  • ·og betur er gætt að öllum nauðsynlegum varnöglum er lúta að réttindum og persónuvernd ökumanns eða annarra viðkomandi aðila.

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Samkomulag um sjálfbærari umbúðir og minni umbúðaúrgang

Þann 4. mars sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um efni tillögu að reglugerð um umbúðir og umbúðarúrgang sem miðar að því að gera umbúðir sjálfbærari og draga úr magni umbúðaúrgangs í ESB. Markmiðið er að takast á við aukningu á umbúðaúrgangi sem myndast í ESB, samræma innri markaðinn fyrir umbúðir og efla hringrásarhagkerfið þannig að umbúðageirinn verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2050.

Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 2. desember 2022.

Endurskoðun á gerðinni um umbúðir og umbúðaúrgang er hluti aðgerðaráætlun ESB um hringrásarhagkerfið sem framkvæmdastjórn ESB samþykkti í mars 2020. Aðgerðaráætlunin um hringrásarhagkerfið er ein af grunnstoðum Græna sáttmála Evrópu, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 1. apríl 2022,

Með tillögunni eru lagðar til breytingar sem eiga að tryggja að umbúðir séu öruggar og sjálfbærar, með því að krefjast þess að allar umbúðir séu endurvinnanlegar og að tilvist skaðlegra efna sé haldið í lágmarki. Til að bæta upplýsingagjöf til neytenda er kveðið á um samræmingu merkinga. Í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs (e. waste hierarchy) miðar tillagan að því að draga verulega úr myndun umbúðaúrgangs með því að setja bindandi endurnýtingarmarkmið, takmarka ákveðnar tegundir einnota umbúða og krefjast þess að rekstraraðilar lágmarki umfang þeirra umbúða sem notaðar eru.

Helstu atriði samkomulagsins

Kröfur um sjálfbærni umbúða og endurunnið efni

Í tillögunni er kveðið á um sjálfbærnikröfur fyrir allar umbúðir sem settar eru á markað. Með samkomulaginu eru kröfur til efna í umbúðum hertar með því að setja ákvæði um takmörkun á markaðssetningu umbúða sem komast í snertingu við matvæli og innihalda PFAS (e. per- and polyfluorinated alkyl substances) yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum.

Samkomulagið viðheldur meginmarkmiðum sem sett voru fram í tillögunni fyrir árin 2030 og 2040 um lágmarks endurunnið efni í plastumbúðum. Lífbrjótanlegar plastumbúðir (e. compostable plastic packaging) og umbúðir þar sem hlutfall plasts er undir 5% af heildarþyngd umbúðanna eru þó undanþegnar markmiðunum. Kveðið er á um að framkvæmdastjórn ESB taki markmiðin til endurskoðunar þegar á líður. Jafnframt er skorað á framkvæmdastjórn ESB að hún meti stöðu tækniþróunar á plastumbúðum framleiddum úr lífmassa (e. bio-based plastic packaging) og á grundvelli þess mats, verði settar sjálfbærnikröfur fyrir innihald lífplasts (e. bio-based) í plastumbúðum.

Kröfur um endurnotkun umbúða og áfyllingu

Samkomulagið kveður á um ný bindandi markmið um endurnotkun umbúða fyrir árið 2030 og leiðbeinandi markmið fyrir árið 2040. Markmiðin eru mismunandi eftir því hvers konar umbúðir rekstraraðilar nota og eru pappaumbúðir almennt undanþegnar kröfunum. Örfyrirtæki eru undanþegin framangreindum markmiðum.

Til að stuðla að endurnotkun umbúða, eða áfyllingu, verður fyrirtækjum sem bjóða fólki að taka með sér tilbúnar máltíðir gert að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að koma með eigin ílát fyrir slíkar máltíð og að auki að fyrir árið 2030 verði slíkir þjónustuaðilar (e. take-away businesses) að bjóða fram 10% af vörum sínum í umbúðum sem henta til endurnotkunar.

Kröfur um upptöku á skilagjaldskerfi

Aðildarríki þurfa fyrir árið 2029 að tryggja að a.m.k. 90% af einnota plastflöskum og drykkjarvöruumbúðum úr málmi sé safnað til endurvinnslu. Til að ná því markmiði þurfa aðildaríki að setja upp skilagjaldkerfi (e. deposit return systems - DRS) fyrir umræddar umbúðir. Lágmarkskröfur fyrir skilakerfi gilda ekki um kerfi sem þegar eru til staðar fyrir gildistöku reglugerðarinnar, nái viðkomandi kerfi 90% markmiðinu fyrir árið 2029.

Takmarkanir á tilteknum umbúðum

Kveðið er á um tilteknar takmarkanir á tegundum umbúða, þ. á m. á notkun einnota plastumbúða fyrir ávexti og grænmeti, fyrir mat og drykki, krydd, litlar snyrtivörur og snyrtivörur sem notaðar eru á hótelum og gististöðum og fyrir mjög létta plastpoka.

Næstu skref

Tillagan gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Viðbragðsstjórnun vegna loftslagsbreytinga og áhættuþátta

Þann 12. mars sl. sendi framkvæmdastjórn ESB frá sér orðsendingu um viðbragðsstjórnun vegna loftslagsbreytinga og áhættuþátta sem þeim breytingum fylgja, svo sem þurrkum, flóðum, skógareldum, sjúkdómum, uppskerubresti og hitabylgjum. Markmið orðsendingarinnar er að greina hvernig ESB og aðildarríki þess geti séð betur fyrir, skilið og tekist á við þá vaxandi vá sem stafar af loftslagsbreytingum.

Orðsendingin felur í sér viðbragð við fyrstu vísindaskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EUCRA) um áhættumat vegna loftslagsbreytinga sem birt var 11. mars sl.

Síðasta ár, árið 2023, var heitasta árið sem mælst hefur á jörðinni en samkvæmt skýrslu Copernicus Climate Change Service fór meðalhiti á jörðinni síðustu 12 mánuði yfir 1,5 gráðu þröskuldinn. Evrópa þarf því að byggja upp viðnám gegn áhrifum loftslagsbreytinga, með því að greina áhættu, bæta viðbúnað og móta heildarstefnu um það hvernig vernda til megi líf og lífsviðurværi íbúa og vistkerfa. Samkvæmt könnun á vegum ESB, Eurobarometer survey, líta 77% Evrópubúa á loftslagsbreytingar sem mjög alvarlegt vandamál og meira en einn af hverjum þremur Evrópubúum (37%) telja að þeir séu persónulega útsettir fyrir loftslagsvá.

Orðsendingin og vísindaskýrslan fela í sér ákall um aðgerðir á öllum stigum stjórnsýslunnar, sem og hjá atvinnulífi og almenningi.

Í orðsendingunni er leitað leiða um það hvernig ESB og aðildarríki þess geti á áhrifaríkan hátt tekist á við loftslagsvána og byggt upp aukið viðnám gegn loftslagsbreytingum en í því skyni leggur framkvæmdastjórn ESB til aðgerðir sem skipt er upp í fjóra meginflokka sem lúta að:

  • bættum stjórnarháttum í aðildarríkjunum á þessu sviði og skýrri ábyrgðarskiptingu á milli mismunandi stjórnsýslustiga og stofnana,
  • betri aðgangi stefnumótandi aðila, fyrirtækja og fjárfesta að upplýsingum og úrlausnarleiðum til að takast á við og auka skilning á tengslunum á milli loftslagsvár, fjárfestinga og fjármögnunaráætlana til lengri tíma,
  • mótun skipulagsstefnu í aðildarríkjunum sem styður við varnir gegn loftslagsvá,
  • og loks að bættri fjármögnun til aðgerða til að auka viðnámsþol gegn loftslagsvá.

Orðsendingin gengur nú til umfjöllunar í stofnunum ESB.

Hvítbók um stafræna innviði

Framkvæmdastjórn ESB birti hinn 21. febrúar sl. hvítbók um mögulegar leiðir til að byggja upp örugga stafræna innviði til framtíðar og leiðbeiningar um það hvernig tryggja megi öryggi og viðnám neðansjávarkapla.

Í tilkynningu um bókina segir að mikilvægt sé að vel takist til við uppbygginguna, annars vegar ef tekið er tillit til öryggissjónarmiða og hins vegar ef litið er til samkeppnishæfni og nýsköpunar í Evrópu til lengri tíma. Í hvítbókinni eru skilgreindar þrjár megin stoðir við uppbyggingu og rekstur stafrænna innviða til framtíðar.

Fyrsta stoðin felur í sér að komið verði á fót svokölluðu 3C kerfi (Connected Collaborative Computing – 3C Network), en því er lýst sem stafrænu umhverfi með framúrskarandi innviði innan Evrópu sem tryggt getur grósku og nýsköpun á hinum ýmsu sviðum staf- og tæknivæðingar, svo sem á sviði gervigreindar, skýjalausna, útvarpstækni, gagnastjórnun, hálfleiðaraframleiðslu o.fl. 

Önnur stoðin snýr að því að samræma nálgun innan ESB er kemur að hinum stafræna innri markaði og tryggja jafna stöðu allra sem að honum koma. Í því sambandi þurfi m.a. að taka inn í myndina þarfir rekstraraðila sem hafa aðkomu að fjárfestingum í stafrænum innviðum og samræma betur og skýra regluverk og ferla sem varða rekstur  fjarskiptafyrirtækja.

Þriðja stoðin snýr að því hvernig tryggja megi öryggi og viðnám neðansjávarkapla en þar er m.a. komið inn á mikilvægi samstarfs og samhæfingar á milli aðildarríkjanna, einföldun ferla við veitingu leyfa og að úrræðum, sem beita megi til að tryggja að framangreint markmið náðist, verði fjölgað.

Hvítbókin hefur jafnframt verið birt í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 30. júní nk.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra. Leiðréttingar, ábendingar og athugasemdir sendist til ritstjóra Vaktarinnar, Ágústs Geirs Ágústssonar, á netfangið [email protected].

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum