Hoppa yfir valmynd

Samstarfssjóður við atvinnulíf um Heimsmarkmið SÞ

Athugið umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til miðnættis 4. janúar 2019.

Hefur þitt fyrirtæki áhuga á að leggja sitt af mörkum til að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna  um sjálfbæra þróun og á sama tíma sækjast eftir nýjum viðskiptatækifærum og aukinni samkeppnishæfni? Samstarfssjóðurinn skapar ný tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf.

Utanríkisráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki sem veittir eru úr Samstarfssjóði við atvinnulíf um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna vegna samstarfsverkefna í þróunarlöndum.

Um framlögin

Hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífs til  þróunarsamvinnu. Markmiðið er að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum heims í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Veitt verða framlög til samstarfsverkefna er koma til framkvæmdar í lágtekju- og lágmillitekjurríkjum, skv. lista Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) um viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar. Listi yfir gjaldgeng lönd er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.  

Styrkt verkefni skulu vera til hagsbóta í viðkomandi landi og stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum vexti í fátækum ríkjum heims.

Við mat á umsóknum verður stuðst við viðeigandi matsform sem eru að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Styrkhæfir aðilar

Styrkveitingar úr sjóðnum eru takmarkaðar við atvinnulíf og umsækjendur geta einvörðungu verið opinberlega skráð fyrirtæki sem ekki teljast ríkisaðilar, til að mynda einstaklingsfyrirtæki, félög og sjálfseignarstofnanir.

Verkefni þurfa að vera framkvæmd í samvinnu við samstarfsaðila í tilteknu þróunarlandi. Einnig geta fleiri samstarfsaðilar, s.s. háskólar og félagasamtök, komið að verkefninu.

Helstu skilyrði sem umsækjandi þarf að uppfylla til að teljast styrkhæfur:

  • Fyrirtæki skulu hafa starfað í a.m.k. eitt ár;
  • staðfesting fyrirtækjaskrár um löglega skráningu fyrirtækis;
  • ársreikningur staðfestur af löggildum endurskoðanda;
  • staðfest gögn um að fyrirtæki sé í skilum með opinber gjöld og lífeyrisgreiðslur;
  • stefna varðandi samfélagslega ábyrgð og/eða siðareglur;
  • reynsla og kunnátta við framkvæmd sambærilegra verkefna, einkum í þróunarlöndum.

Umsækjendur þurfa uppfylla þær kröfur um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu sem Ríkisendurskoðun gerir.

Styrkfjárhæðir í boði

Til úthlutunar að þessu sinni eru allt að 100 m.kr. Hámarksfjárhæð til einstakra verkefna er allt að 200.000 evrur yfir þriggja ára tímabil. Heimilt er að veita styrk til sama verkefnis til allt að þriggja ára, með fyrirvara um fjárheimildir fjárlaga hvers árs. Styrkfjárhæð getur numið allt að 50% af heildarkostnaði verkefnis. Tryggja þarf fylgni við ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins eftir því sem við á og hafi styrkþegi hlotið ríkisstyrk á sama tímabili, annars staðar frá, þá lækkar veittur styrkur sem því nemur.

Atriði sem þurfa að koma fram í umsókn

Vísað er í reglur utanríkisráðuneytisins um úthlutun á styrkjum úr Samstarfssjóði við atvinnulíf um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Í umsókn skal umsækjandi meðal annars lýsa með greinargóðum hætti markmiðum verkefnis sem liggur til grundvallar umsókn, áætlun um framkvæmd þess og tíma- og kostnaðaráætlun. Þá skal koma fram mat á áhrifum verkefnisins.

Umsækjendum er bent á að umsóknareyðublöð, reglur utanríkisráðuneytisins um styrkveitingar úr samstarfssjóðnum, matsviðmið og aðrar leiðbeiningar er að finna undir liðnum gögn hér að neðan.

Úthlutun styrkja fer eftir þeim skilmálum sem fram koma í reglum ráðuneytisins og leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar, sem finna má á ofangreindri heimasíðu.

Einungis umsóknir sem uppfylla skilyrði auglýsingar og úthlutunarskilmála verða teknar til greina.

Um styrkveitingar til samstarfsverkefna atvinnulífs gilda lög um opinber fjármál nr. 123/2015 og reglugerð nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra.

Matshópur, tímafrestur og áætlaður afgreiðslutími

Umsóknir þurfa að berast fyrir miðnætti 4. janúar 2019 í netfangið [email protected] (athugið umsóknarfrestur var áður 21. desember 2018).

Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti þriggja manna matshóps sem er skipaður tveimur óháðum sérfræðingum á sviði þróunarsamvinnu og fulltrúa utanríkisráðuneytisins.

Áætlað er að niðurstöður ráðherra liggi fyrir í lok janúar 2019.

Fyrirspurnir um sjóðinn skal senda á netfangið [email protected]. Frestur til að senda inn fyrirspurnir er til og með 28. desember. Öllum spurningum verður svarað á þessum vef.

Gögn

Reglur og umsóknareyðublað:

Fylgiskjöl:

Spurt og svarað

Þessi krafa um staðfestan ársreikning af löggildum endurskoðanda tekur mið af kröfum Ríkisendurskoðunar um eftirlit með styrkjum. Spurningin var tekin til umfjöllunar, hins vegar gafst ekki tími til að gera efnislegar breytingar á reglunum fyrir þessa úthlutun en þetta verður tekið til skoðunar.
B-hluta stofnanir, óháð því hvort þær eru á fjárlögum, geta ekki sótt um styrki úr sjóðnum. Þetta byggist á ákvæði 13. töluliðar 3. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál sem skilgreinir hugtakið "ríkisaðilar" með svohljóðandi hætti: "Aðilar sem fara með ríkisvald og þær stofnanir, sjóðir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins, sbr. 50. gr. Ríkisaðilar skiptast í A-, B- og C- hluta." Reglugerð nr. 642/2018, sem styrkjareglurnar sækja stoð sína í, er sett á grundvelli laga um opinber fjármál og því verður að líta til framangreindrar skilgreiningar við afmörkun á hugtakinu "ríkisaðili".

Gjaldgeng samstarfslönd eru lág- og lágmillitekjuríki samkvæmt lista OECD-DAC yfir viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar. Af þessum lista voru átján lönd í Afríku og Asíu valin út frá eftirfarandi forsendum:

- Ísland væri með sendiráð/sendiskrifstofu í viðkomandi landi

- Lönd sem falla undir umdæmi sendiráða Íslands

- Lönd sem heimasendiherrar eru í fyrirsvari fyrir

Þetta byggir á reynslu og ráðleggingum Dana og Norðmanna af framkvæmd sambærilegra verkefna, en samkvæmt þeim er það lykilatriði að hafa einhverskonar fyrirsvar í landinu þar sem verkefnið fer fram til að geta veitt viðeigandi stuðning og aðstoð. Rétt er að taka fram að ráðuneytið er að fara af stað með þennan sjóð í fyrsta skipti og leitast við að læra af þessu ferli og mögulega bregðast við eftirspurn atvinnulífsins, t.d. hvað varðar samstarfslönd, í nánri útfærslum á verklagi í náinni framtíð.

Mælanleg þróunaráhrif geta verið margvísleg. Aðalmálið er að þau séu skýrt skilgreind og hvernig verði sýnt fram á að þau hafi náðst í lok verkefnis.
Samkvæmt 4. gr. reglnanna geta eingöngu skráð fyrirtæki sem ekki teljast ríkisaðilar, t.a.m. einstaklingsfyrirtæki, félög og sjálfseignarstofnanir, sótt um styrk í sjóðinn. Þessar takmarkanir eiga hins vegar ekki við samstarfsaðila sem geta t.d. verið félagasamtök, háskólar, o.s.frv.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira