Þverlægar áherslur
Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru skilgreind sem sértæk og þverlæg áhersluatriði í stefnu íslenskra stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Þau verða höfð að leiðarljósi í öllu starfi. Þess verði jafnframt gætt að í vöktun og úttektum á verkefnum fái mannréttindi, jafnréttis- og umhverfismál vandaða umfjöllun.
Nálgun íslenskra stjórnvalda í allri þróunarsamvinnu byggist á mannréttindum með vísun í alþjóðleg viðmið í mannréttindamálum og aðferðafræði mannréttindamiðaðrar þróunarsamvinnu er beitt í öllu starfi. Greiningar miða að því að skýra þá mismunun sem liggur til grundvallar vandamálum þróunarríkja og inngrip miðist við að leiðrétta mismunun og valdaójafnvægi sem hamlar þróun.
Jafnrétti kynjanna, sem grundvallast á mannréttindum, eru áfram forgangsmál í þróunarsamvinnu á vegum Íslands og sérstakt markmið sem byggist jafnframt á því að jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna sé forsenda fyrir framförum og þróun, þar með talinni efnahagsþróun. Mikilvægt er að vel sé gætt að kynjasjónarmiðum og hugað er að stöðu og réttindum kvenna með áherslu á landsáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Sérstaklega er hugað að slíku á átakasvæðum þar sem unnið er að friðaruppbyggingu eða þar sem neyðarástand hefur skapast, til dæmis í kjölfar náttúruhamfara.
Ísland leggur aukna áherslu á að vernda jörðina og koma í veg fyrir hnignun hennar. Með hliðsjón af því er ætlunin að setja slagkraft í loftslags- og umhverfismál í þróunarsamstarfi Íslands, svo sem með aðgerðum gegn mengun hafsins, og markvisst unnið að því að tengja mótvægis- og aðlögunaraðgerðir við annað þróunarsamstarf.
Þverlæg málefni
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.