Hoppa yfir valmynd
07. nóvember 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Aðalfundur Félags hrossabænda 7. nóvember 2008

Ávarp Einars Kristins Guðfinnssonar,

 sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

flutt á aðalfundi Félags hrossabænda í Bændahöllinni

7. nóvember 2008

 

 

 

Ágætu aðalfundarfulltrúar og aðrir góðir gestir.

Mikið vatn hefur til sjávar runnið frá því að ég ávarpaði ykkur hér af sama tilefni fyrir ári síðan. Atburðir hafa hent sem koma til með að hafa ómæld áhrif á líf okkar allra, vitaskuld misjöfn eftir efnum og ástæðum en láta engan ósnortinn.

 

Hvað hrossabúskapinn varðar hef ég minni áhyggjur af honum en mörgu öðru í þjóðfélaginu. Ég er sannfærður um að greinin er vel í stakk búin til að spjara sig en okkar allra bíða erfiðir tímar um sinn, það væri hreint ábyrgðarleysi af mér að halda öðru fram. Hrossabúskapurinn hefur búið við mikinn uppgang um árabil; hrossakynbætur standa á traustum grunni og taka sífelldum framförum, jafnframt sem tamningu, reiðmennsku og meðferð allri á hestinum fleygir fram. Þetta hefur gerst vegna þess að hið opinbera hefur frá upphafi sett greininni leikreglur, bæði með beinni laga- og reglugerðarsetningu og eins með verkefnum sem það hefur falið Búnaðarfélagi Íslands, nú Bændasamtökin, ábyrgð á. Samtímis hefur greinin alla tíð notið mikils sjálfræðis og frelsis, hún hefur því byggst upp á eigin forsendum þar sem aflavakinn hefur verið framtak einstaklinganna sjálfra sem í greininni starfa.

 

Þau atriði sem ég gat um hér á undan mynda tvö af þremur kjarnaatriðum sem mig langar til að geta hér um og skapa bjartsýni þá er ég ber í brjósti fyrir ykkar hönd og raunar tel ég að hér séu til umræðu þættir er margir gætu af lært. Fyrsta atriðið er sem sagt virðing fyrir og þekking á faglegum vinnubrögðum, annað er virðing fyrir og viðurkenning á frelsi til orða og athafna innan greinarinnar, þriðja atriðið tengist hinum tveimur og er þekking á og tilfinning fyrir markaðsmálum. Ekki ætla ég að fara öllu lengra út í þessa sálma en læt í ljós ánægju mína með það hvernig greinin hefur brugðist við breyttum aðstæðum í markaðsmálunum en haft um leið á sér andvara gagnvart enn frekari breytingum. Á liðnum áratugum hefur verið byggður upp umtalsverður útflutningur á lífhrossum en á veltuárunum hér innanlands jókst innanlandsmarkaðurinn mjög bæði að umfangi og í verðmætum en útflutningurinn hélst jafnframt nokkuð stöðugur, þó að hann hafi eflaust dregist hlutfallslega saman. Núna þegar harðnað hefur á dalnum svo um munar og krónan fallið hefur útflutningurinn stóreflst. Þessi staðreynd segir meira en mörg orð um hvernig ber að hegða sér og bregðast við á opnum markaði. Grípa gæsina þegar hún gefst en vera alltaf á tánum og fást við hluti sem fólk hefur vit á. Það á svo sannarlega við um ykkur.

 

Ekki eru útflutningsmálin þó tómur dans á rósum en í kjölfar hruns bankakerfisins hafa komið upp mikil vandamál við yfirfærslu gjaldeyris til landsins. Vandamál þessi eiga sér ýmsar rætur en eru að stofni til þríþætt, í fyrsta lagi eru þau að einhverju leyti tæknilegs  eðlis, þ.e. nýjar kennitölur og slíkt og í öðru lagi snúast þau um traust eða öllu heldur skort á trausti en það veit ég að þið hestamenn skiljið manna best sem vanir eruð að höndla á opnum mörkuðum að ef traustið er horfið eru viðskiptin strand. Endurreistu íslensku bankarnir eru fyllsta trausts verðir en þessi snurða hljóp eigi að síður á þráðinn. Síðast en ekki síst tilgreini ég þriðja atriðið og ekki það sísta en það eru afleiðingar þeirrar ótrúlegu óskammfeilni breskra stjórnvalda að beita gegn okkur, fámennri vinaþjóð, hryðjuverkalögum vegna deilna um bankaábyrgð, lögum sem sett voru til að ná höndum yfir helstu ómenni heimsbyggðarinnar!

 

Hrossaútflytjendur fóru ekki varhluta af vandamálum þeim sem tregðan í gjaldeyrisyfirfærslunni orsakaði frekar en aðrar útflutningsgreinar. Úrlausn þessara mála hefur vitaskuld verið í algerum forgangi og hef ég sjálfur og ráðuneyti mitt unnið að lausn þessa og horfa málin nú mun betur við en það er hreint lífsspursmál á erfiðum tímum eins og við upplifum nú að leysa úr þessu vandamáli.

 

Hrossabændur góðir að slepptum vandamálunum við gjaldeyrisyfirfærsluna hef ég leyft mér að vera nokkuð bjartsýnn fyrir ykkar hönd en ekki megið þið leggja þann skilning í orð mín að ég ofmeti stöðu ykkar eða hafi ekki skilning á að þið þurfið að horfast í augu við erfiðari tíma eins og aðrir. Ég ber hins vegar traust til ykkar og nú sem fyrr mun ráðuneytið leitast við að bæta stöðu greinarinnar. Fyrst og fremst með almennum aðgerðum en einnig með beinum stuðningi þar sem hann nýtist til að lyfta viðfangsefninu sem heild.

 

Ágætu fundargestir.

Eins og ykkur er öllum kunnugt um hefur orðið mikil breyting í hrossahaldinu. Almenn eign á það stórum hrossahópum að kalla má stóð hefur stóraukist. Þetta tengist náttúrulega að hluta til hinni vaxandi sölu hrossa á innanlandsmarkaði sem ég gat um hér fyrr og eins stóraukinni almennri eign á jörðum, jaðarpörtum og landspildum. Nú þrengir hins vegar að eins og margoft hefur komið fram og þá verðum við að gæta þess að það komi ekki niður á þeim sem síst skyldi; það er að segja hrossunum sjálfum. Það liggur fyrir að hey eru mun dýrari núna en áður auk þess sem telja má líklegt að þau séu minni en oft áður. Þessa ályktun má draga af því að fyrir liggur að minna var keypt af áburði í vor en í eðlilegu ástandi. Þessar staðreyndir orsaka að meiri ástæða er nú en nokkru sinni að gæta að ásetningi. Ekki ætla ég mér þó hér að fara að kenna ykkur reyndu fólki grundvallaratriðin í hrossabúskap en einhvers staðar segir að góð vísa verði seint of oft kveðin. Hitt liggur mér þyngra á brjósti að fyrir liggur að æðimargir þeir sem fjárfest hafa í hrossum og löndum hafa misjafnlega mikið innsæi í hrossabúskap og búa að auki við gerbreyttar forsendur vegna alls þess sem hent hefur í þjóðfélaginu. Þegar svona er komið verður að hafa vara á sér, ég vil því biðja ykkur sem reynsluna hafið að leiðbeina og vanda um þar sem ástæða er til og því verður við komið, núna í vetur, en láta þar til bær yfirvöld vita þegar ástæða er til.

 

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að við verðum að standa saman um það að ekkert verði til að skuggi falli á hrossaræktina og hrossabúskapinn í landinu. Ekki ætla ég að hafa þessi ávarpsorð öllu fleiri en óska ykkur góðs gengis í fundarstörfunum hér í dag sem og í öllum störfum ykkar.

 

Takk fyrir. 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum