Hoppa yfir valmynd
01. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 1. nóvember 2019

Heil og sæl.

Upplýsingadeildin heilsar ykkur á allraheilagramessu, 1. nóvember, og færir ykkur ekki grikk heldur gott í formi föstudagspóstsins góðkunna.

Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi setti mikinn svip á þessa fjörugu viku sem nú er senn að baki. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í umræðum um utanríkis- og öryggismál og sat auk þess fundi utanríkisráðherra og þróunarmálaráðherra sem fram fóru samhliða þinginu. Á utanríkisráðherrafundinum náðist samstaða um að fela Birni Bjarnasyni að skrifa nýja skýrslu um norrænt utanríkis- og öryggismálasamstarf. Þá átti hann fundi með utanríkisráðherra Færeyja og skrifaði undir samkomulag Íslands, Noregs, Danmerkur og Færeyja um skiptingu landgrunns á Ægisdjúpi.

Daginn áður stýrði Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fimmta og síðasta fundi samstarfsráðherra á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og á lokadegi þingsins flutti hann skýrslur um norrænt samstarf. Í þeim er greint frá því helsta sem hefur áunnist á árinu í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni sem nú er senn á enda.

Í dag lauk ráðstefnunni Jafnrétti til útflutnings sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir í samvinnu við Uppbyggingarsjóð EES, Portúgal og Noreg. Þar var meðal annars kynnt hvað íslensk samtök og stofnanir hafa upp á að bjóða, þ.e. hvaða leiðir hafa verið farnar og hvaða aðferðir þróaðar sem skilað hafa árangri í jafnréttisbaráttunni hér á landi og gætu nýst í samstarfsríkjum Uppbyggingarsjóðs EES. Hægt var að fylgjast með ráðstefnunni í beinu netstreymi og utanríkisráðherra ritaði blaðagrein af þessu tilefni.

Utanríkisráðherra tók einnig þátt í stofnfundi Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins í dag en hann fer til Moskvu til fundar við rússneska ráðamenn í lok mánaðarins og verður viðskiptasendinefnd með í för.

Nóg er að frétta af vettvangi sendiskrifstofanna. Okkar fólk í sendiráðinu í Peking tók vel á móti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem heimsótti Kína í vikunni.

Á dögunum heimsóttu Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri og Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Lundúnum, Írland en það er eitt sex umdæmisríkja sendiráðsins. Þeir tóku m.a. þátt í ráðstefnunni Ireland & the Nordic-Baltic 8: Working together for a Secure, Sustainable & Digital Europe. Og talandi um Stefán Hauk þá ræddi hann landsmenn um Brexit í fréttum RÚV í vikunni, daginn sem Bretar áttu að ganga úr ESB en frestuðu enn um sinn.

Á miðvikudag hitti Gunnar Pálsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Evrópusambandinu, sameiginlegu EES-þingmannanefndina fyrir hönd EES-EFTA ríkjanna. Þar kynnti hann nefndinni m.a. stöðuna á EES-samstarfinu og skýrði frá sameiginlegu áliti ríkjanna um framtíð innri markaðarins eftir 2019.

Viðskipti EFTA-ríkjanna og Kólumbíu voru til umræðu á fundi fríverslunarnefndarinnar í Bógóta, höfuðborg Kólumbíu, dagana 29.-30. október. Katrín Einarsdóttir var fulltrúi Íslands.

Í Genf fór í vikunni fram ráðstefna um framgang Peking-framkvæmdaáætlunarinnar um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og tók Ísland að sjálfsögðu virkan þátt!

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra í Helsinki, ávarpaði gesti við opnun sýningarinnar NORDISKULPTUR í Galleria Sculptor í Helsinki. Sýningin er samsýning listamannanna Páls Hauks og Pia Männikkö

Málefni norðurslóða hafa verið á dagskrá sendiráðsins í Washington síðustu daga en í vikunni tóku Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og Hreinn Pálsson sendifulltrúi þátt í norðurslóðarviðburðum í borginni. Bergdís Ellertsdóttir flutti erindi á ráðstefnu fræðimanna um málefni norðurslóða sem kostað er af Fulbright stofnuninni auk þess að bjóða stjórn Fulbright og þátttakendum í ráðstefnunni til móttöku í sendiherrabústaðnum.

Hannes Heimisson sendiherra heimsótti Jakarta í Indónesíu í vikunni þar sem fyrirtækin Mannvit og Verkís hafa opnað skrifstofu. Mikil uppbygging á sér stað í nýtingu jarðhita í Indónesíu og hitti Hannes meðal annars hóp indónesískra útskriftarnema úr jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.

Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra í Ósló, hélt sína fyrstu ræðu á norsku þegar hún bauð gesti velkomna á sýningu myndarinnar Hvítur, hvítur dagur á norrænni kvikmyndahelgi um síðustu helgi. Sendiráðið kom að skipulagningu þessa viðburðar.

Íslenskur ungmennafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála verður valinn í næstu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland skipar ungmennafulltrúa í málaflokknum Ungmennafulltrúi.

Þá heldur utanríkisráðherra til San Francisco í næstu viku þar sem hann verður í forsvari fyrir viðskiptasendinefnd Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins.

Góða helgi öll sömul!

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum