Jarða- og lögbýlaskrá

Jarðaskrá

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skal 31. desember ár hvert gefa út jarðaskrá á grundvelli upplýsinga úr jarðahluta fasteignaskrár. Í jarðaskrá er að finna upplýsingar um:

 • Allar jarðir
 • Jarðahluta
 • Landspildur
 • Lóðir og annað land samkvæmt jarðalögum

Í jarðahluta fasteignaskrár sem Þjóðskrá Íslands heldur skv. 1. gr. laga um skráningu og mat fasteigna skulu einnig koma fram upplýsingar um:

 • Nöfn jarða og annars lands
 • Sveitarfélög
 • Eigendur
 • Fyrirsvarsmenn ef fleiri eigendur eru að jörð
 • Ábúendur
 • Leigutaka
 • Ræktun
 • Mannvirki
 • Nýtingu
 • Hvort á jörð sé félagsbú

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur falið Þjóðskrá Íslands að halda utan um skráningu í jarðaskrá og útgáfu hennar.

Lögbýlaskrá

Lögbýlaskrá er gefin út samkvæmt jarðalögum á grundvelli upplýsinga úr jarðaskrá. Í lögbýlaskrá er að finna upplýsingar um öll lögbýli á landinu. Frá árinu 2010 hefur Þjóðskrá Íslands haft það hlutverk að annast gerð lögbýlaskrár og er haldið utan um skrána í réttindahluta fasteignaskrár. Í fasteignaskrá er að finna ítarlegar upplýsingar um fasteignir og eru þar á meðal allar þær upplýsingar sem birta skal í lögbýlaskrá.

Samkvæmt 22. gr. jarðalaga skal þinglýsa lögbýlisleyfi og öðlast það þá fyrst gildi. Þinglýsingarbækur sýslumanna er að finna í réttindahluta fasteignaskrár og er nú beintenging milli þinglýsingar lögbýlisleyfis og merkingar viðkomandi eignar sem lögbýlis í fasteignaskrá. Upplýsingar varðandi eigendur og ábúendur eru sóttar í þinglýsingabækur og þjóðskrá.

Skránni er skipt eftir sveitarfélaganúmerum. Í fremsta dálki er að finna upplýsingar um heiti eignarinnar og þar fyrir aftan landnúmer hennar. Þar næst birtast upplýsingar um hvort eignin sé merkt í eyði og er sú merking sótt í fasteignaskrána. Aftasti dálkurinn inniheldur upplýsingar um eigendur og ábúendur og eru eigendur merktir með bókstafnum E og ábúendur með bókstafnum Á.

Sjá einnig:

Lög og reglugerðir

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn