Landskipti og sameining lands

Þegar landi er skipt eða það sameinað gilda um það ákvæði jarðalaga.

Landskipti

Jarðalög gilda um skipti á landi sem tilheyrir einni jörð, svo og um skipti á landi milli tveggja eða fleiri jarða. Samningar um leigu á landi, eins og lóðarleigu fela ekki í sér landskipti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir landskipti. Beiðni um landskipti skal vera skrifleg og henni skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:

 • Nöfn, kennitölur og heimilisföng eigenda landsins
 • Aðilar að landskiptum
 • Lýsing á landskiptum
 • Samningur um landskipti eða landskiptagerð
 • Uppdráttur staðfestur af skipulagsyfirvöldum
 • Þinglýsingarvottorð
 • Umsögn sveitastjórnar
 • Önnur gögn sem kunna að liggja til grundvallar og ráðherra óskar eftir

Í skiptasamningi eða landskiptagerð um skipti á landi sem tilheyrir einu lögbýli skal tekið fram hvaða jarðarhluta lögbýlisréttur skal fylgja, þ.m.t. upphaflegt heiti lögbýlisins.

Þegar ráðherra hefur staðfest landskipti skal staðfestingin og uppdráttur staðfestur af skipulagsyfirvöldum þinglýst og öðlast landskiptin þá fyrst gildi. Hafi jarðarhlutar eða landspildur verið leystar úr landbúnaðarnotum eða landnotkun þeirra breytt úr landbúnaðarnotum og skipt út úr jörð staðfestir ráðherra aðeins skipti á ytri mörkum jarðahlutans eða landspildunar þar sem önnur skipti á landinu falla utan gildissviðs jarðalaga.

Sameining lands

Ákvæði jarðalaga gilda um sameiningu á landi tveggja eða fleiri jarða eða jarðahluta. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir sameiningu lands. Beiðni um sameiningu lands  skal vera skrifleg og henni skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:

 • Nöfn, kennitölur og heimilisföng eigenda jarða eða lands sem óskað er að sameina eða leggja til afrétta
 • Lýsing á legu jarða og landamerkjum þeirra
 • Uppdráttur staðfestur af skipulagsyfirvöldum
 • Þinglýsingarvottorð
 • Umsögn sveitarstjórnar
 • Önnur gögn sem kunna að liggja til grundvallar og ráðherra óskar eftir

Óheimilt er að sameina land jarða eða jarðhluta sem tilheyra ekki sama sveitarfélagi eða lögsagnarumdæmi. 

Þegar ráðherra hefur staðfest sameiningu lands skal leyfi ráðherra ásamt uppdrætti staðfestum af skipulagsyfirvöldum þinglýst og öðlast sameining landsins þá fyrst gildi.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn