Lögbýli

Stofnun lögbýlis

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitir leyfi til að stofna ný lögbýli til starfsemi á sviði landbúnaðar eða annarra atvinnugreina sé um að ræða jörð sem uppfyllir skilyrði þess að vera lögbýli en það er:

 • Jörð hafi þann húsakost og það landrými eða aðstöðu að unnt sé að stunda þar landbúnað eða aðra atvinnustarfsemi.
 • Var skráð í jarðaskrá 1. desember 2003.
 • Hefur síðar hlotið viðurkenningu sem lögbýli skv. 16.-22. gr. jarðalaga.

Umsókn um stofnun nýs lögbýlis skal beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Umsóknin skal vera skrifleg og þar skulu koma fram upplýsingar um:

 • Nöfn, kennitölur og heimilisföng aðila sem óska eftir að stofna lögbýli.
 • Nafn jarðar eða fasteignar.
 • Nafn sveitarfélags.
 • Stærð.
 • Ræktun.
 • Mannvirki.
 • Hverskonar búrekstur eða atvinnustarfsemi sé fyrirhuguð á lögbýlinu.

Með umsókn skulu fylgja gögn sem sýni að umsækjandi um stofnun lögbýlis hafi með þinglýstum kaupsamningi, afsali eða samningi um ábúð/leigu til að minnsta kosti 20 ára hafi tryggt sé umráðarétt yfir landi og annarri búrekstraraðstöðu. Slík gögn geta verið:

 • Þinglýsingarvottorð.
 • Umsögn sveitastjórnar.
 • Umsögn ráðunautar um búrekstrarskilyrði á lögbýlinu.

Þegar stofnað er nýtt lögbýli skal þess gætt að það sé í samræmi við staðfest skipulag sé það fyrir hendi og að stofnun þess raski ekki búrekstraraðstöðu nálægra jarða. Við mat á umsókn um stofnun nýs lögbýlis er lagt mat á stærð ræktanlegs lands, mannvirki og búrekstraraðstöðu og hvort unnt sé að stunda þá atvinnustarfsemi sem umsóknin byggir á. Leyfi til stofnunar lögbýlis skal þinglýst á viðkomandi jörð eða fasteign og öðlast stofnun lögbýlisins þá fyrst gildi.

Sé lögbýli sem er á eyðijörð tekið aftur til ábúðar og landbúnaðarstarfsemi skal senda tilkynningu þess efnis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og til Bændasamtaka Íslands.

Niðurfelling lögbýlisréttar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að fella niður lögbýlisrétt ef lögbýli fullnægir ekki lengur skilyrðum þess að vera lögbýli. Umsókn um niðurfellingu lögbýlis skal beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Umsóknin skal vera skrifleg og þar skulu koma fram upplýsingar um:

 • Nöfn, kennitölur og heimilisföng aðila sem óska niðurfellingu lögbýlisréttar.
 • Nafn jarðar eða fasteignar.
 • Nafn sveitarfélags.
 • Stærð.
 • Ræktun.
 • Mannvirki.

Ráðherra er skylt að óska eftir umsögn viðkomandi sveitarstjórnar um niðurfellingu lögbýlisréttar áður en tekin er ákvörðun um niðurfellingu hans. Ákvörðun um niðurfellingu lögbýlisréttar skal svo þinglýst á viðkomandi jörð eða fasteign og öðlast niðurfelling lögbýlisréttar þá fyrst gildi.

Sjá einnig:

Lög og reglugerðir

Lögbýlaskrá

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn