Hoppa yfir valmynd

Vátryggingamarkaður

Á vátryggingamarkaði starfa vátryggingafélög sem veita neytendum og fyrirtækjum með beinum hætti tryggingar eða gera það í gegnum sérstaka vátryggingarmiðlara. Helsta löggjöf á þessu sviði eru lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, og lög um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005.

Ný lög um vátryggingastarfsemi tóku gildi 1. október 2016. Lögin eru í samræmi við gjaldþolstilskipun II 2009/138/EB (Solvency II) og er meginmarkmið þeirra að vernda hagsmuni vátryggingataka og vátryggðra ásamt því að stuðla að stöðugleika á fjármálamarkaði.  Lögin styrkja þannig grundvöll fyrir starfsemi vátryggingafélaga meðal annars með auknum kröfum til fjárhags þeirra og stjórnarhátta. Meginbreytingin felst í því að gerðar eru auknar kröfur til gjaldþols vátryggingafélaga. Gjaldþol er það fjármagn sem vátryggingafélag þarf að hafa til að mæta óvæntum áföllum sem ekki er gert ráð fyrir í vátryggingaskuld. Fjárhagskröfur eru nú áhættumiðaðar sem þýðir að vátryggingafélög sem taka mikla áhættu eða eru með slaka áhættustýringu verða að hafa hærri gjaldþolskröfur en félög sem taka minni áhættu eða eru með góða áhættustýringu.

Fjármálaeftirlitið fylgist með að starfsemi eftirlitskyldra aðila á vátryggingamarkaði hér á landi sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi eða skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Neytendur geta skotið einkaréttarlegum ágreiningi sínum til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, sem vistuð er hjá Fjármálaeftirlitinu. 

Úrskurðarnefnd um viðskipti við vátryggingafyrirtæki

Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags. Fjármálaeftirlitið tekur við málskotum neytenda, sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu og annast almennt skrifstofuhald fyrir hana.

Úrskurðarnefndin starfar samkvæmt samkomulagi fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsvæði nefndarinnar.

Náttúruhamfaratrygging Íslands

Skylt er að vátryggja allar húseignir og lausafé sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi gegn tjóni af völdum náttúruhamfara, þ.e. vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Einnig er skylt að vátryggja tiltekin opinber mannvirki gegn tjóni af völdum náttúruhamfara.

Náttúruhamfaratrygging Íslands vátryggir ofangreindar eignir og starfar skv. lögum nr. 55/1992, um viðlagatryggingu íslands.  

Nánari upplýsingar er að finna á vefsvæði Náttúruhamfaratryggingar.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira