Hoppa yfir valmynd

Kynjuð fjárlagagerð

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð snýst um að sameina þekkingu á gerð fjárlaga og þekkingu á kynjamisrétti með það að leiðarljósi að stuðla að hagkvæmri og réttlátri dreifingu opinberra fjármuna.

Fjárlög landa endurspegla gildismat þeirra og forgangsröðun. Vegna mismunandi stöðu kvenna og karla í samfélaginu geta fjárlögin haft mismunandi áhrif á kynin. Fjárlögin sýna þó að öllu jöfnu ekki þennan mun heldur hafa þau yfirbragð hlutleysis. Kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð er ætlað að gera kynjamuninn sýnilegan þar sem hann er til staðar.

Í kjölfarið er hægt að leita leiða til að endurskipuleggja fjárlögin þannig að þau stuðli að jafnrétti ásamt því að kynjasjónarmið eru fléttuð inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er tæki sem stuðlar að betri efnahagsstjórnun og upplýstum ákvörðunum með hagsæld og velferð samfélagsins að leiðarljósi.

Skilgreining

Samkvæmt skilgreiningu Evrópuráðsins er kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð:

Það ferli að beita samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á fjárlagaferlið. Það þýðir að:

 • Kynjað mat er lagt á fjárlög
 • Kynjasjónarmið eru samofin í öll stig fjárhagsáætlunar- og fjárlagaferlisins
 • Tekju- og útgjaldaliðir endurskipulagðir með það að markmiði að stuðla að kynjajafnrétti

Hvað er kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð?

 • Það er aðferð til að tengja saman stefnu í jafnréttismálum og stefnu í efnahagsmálum.
 • Aðferðin byggir á þeirri forsendu að ákvarðanir í fjármálum hins opinbera séu ekki hlutlausar gagnvart kynjunum, hvort heldur er um að ræða ákvarðanir um tekjur eða gjöld.
 • Aðferðin byggir á greiningu á því hvaða áhrif einstakir tekju- og útgjaldaliðir fjárlaga hafa á kynin og hvernig unnt sé að samþætta jafnréttissjónarmið almennri fjárlagagerð.
 • Þessi aðferð kallar ekki á sérstaka fjárlagagerð fyrir konur og aðra fyrir karla.
 • Aðferðin felur í sér fjárlagagerð sem byggir á mannlegum þáttum.
 • Aðferðin kallar á nánari athugun á áhrifum fjárlagagerðar.
 • Aðferðin kallar á frekari greiningu á því hverjir eru notendur þeirra fjármuna sem ríkið útdeilir.
 • Þessi aðferð gerir markmiðssetningu hnitmiðaðri og ýtir þar með undir skilvirkari nýtingu á almannafé.
 • Aðferðin krefst þátttöku fleiri hagsmunaaðila og eykur því lýðræðisleg áhrif í ferli ákvarðanatökunnar.
 • Beita má þessari aðferð jafnt á einstaka tekju- eða útgjaldaliði fjárlaga eða tilteknar aðgerðir stjórnvalda í heild.

Mótun fjármálaáætlunar og fjárlaga felur í sér ákvörðun um félagslega og efnahagslega forgangsröðun stjórnvalda. Með kynjaðri fjárlagagerð er hugað að því hvaða áhrif ákvarðanir hafa áður en þær eru teknar. Það er gert með því að greina stöðu fólks og máta við þær ákvarðanir sem á að taka. Ein forsenda slíkrar greiningar eru kyngreind tölfræðigögn og gögn um stöðu fólks.

Kynjuð fjárlagagerð:

 • Stuðlar að efnahagslegri velferð enda hefur misrétti slæm efnahagsleg áhrif á samfélög.
 • Ýtir undir upplýstari ákvarðanatöku.
 • Tengir saman stefnu í jafnréttismálum og stefnu í efnahagsmálum.
 • Er hvorki sérstök fjárlagagerð fyrir konur né heldur karla.
 • Er fjárlagagerð sem tekur mið af stöðu fólks og á að stuðla að jafnrétti.
 • Kallar á samþættingu félagslegra sjónarmiða við fjármálaáætlunar- og fjárlagagerð.
 • Kallar á frekari greiningu á því hverjir eru notendur þeirra fjármuna og gæða sem ríkið útdeilir.
 • Gerir markmiðssetningu hnitmiðaðri.
 • Krefst þátttöku fleiri hagsmunaaðila og ætti því að auka lýðræðisleg áhrif.
 • Má beita á tekju- eða útgjaldaliði fjárlaga eða tilteknar aðgerðir stjórnvalda.
 • Kynjuð fjárlagagerð er tæki sem á að stuðla að betri efnahagsstjórnun og upplýstari ákvörðunartöku með hagsæld og velferð samfélagsins að leiðarljósi.

Af hverju?

Vegna mismunandi stöðu fólks hefur tekjuöflun og ráðstöfun opinbers fjár ólík áhrif á fólk. Það getur til dæmis átt við varðandi skipulag samgangna, búsetusvæða, atvinnuþátttöku, fæðingartíðni og svo má áfram telja. Á öllu landinu utan höfuðborgarsvæðisins búa til að mynda fleiri karlar en konur og er það mest áberandi í aldurshópnum 20-39 ára. Það er að öllum líkindum vegna ólíkrar stöðu kynjanna sem ekki hefur verið tekið mið af þegar ákvarðanir hafa verið teknar. Það getur átt við varðandi mótun atvinnutækifæra, samgöngumála, heilbrigðisþjónustu og þjónustu við barnafjölskyldur. Þessi staða hefur eins og gefur að skilja neikvæð áhrif á fólksfjölgun utan höfuðborgarsvæðisins.

Hvernig?

Innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar snýst að mörgu leyti um að breyta hugarfari þeirra sem alla jafna starfa við gerð fjárlaga og fjármálaáætlana. Þekking á jafnréttismálum og skilningur á félagslegri stöðu fólks er forsenda frekari vinnu. Samhliða því þarf að bæta aðgengi að kyngreindum tölfræðigögnum. Gera þarf ferli og vinnulag á þann veg að kynjuð fjárlagagerð verði samþætt hefðbundnum verkferlum fjárlagagerðar á öllum stigum.

Áhugavert efni: 

 

Sjá einnig:

Yfirlit um lög

Yfirlit um lög er varða mannréttindi og jafnrétti er að finna á vef Alþingis

Yfirlit um reglugerðir

Yfirlit um reglugerðir er varða jafnrétti er er að finna á reglugerd.is

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira