Hoppa yfir valmynd

Fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð

Unnið er samkvæmt fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023 sem var samþykkt í ríkisstjórn 26. október 2018.

Meginmarkmiðið með áætluninni er að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við mótun fjármálaáætlunar og frumvarps til fjárlaga. Lögð er áhersla á að vinna með þau kynjaáhrif sem þegar hefur verið varpað ljósi á og dýpka samhliða greiningar til þess að ná fram gleggri mynd af stöðu mála innan málefnasviða og málaflokka ríkisins. Til að vinna að meginmarkmiði áætlunarinnar er m.a. lögð áhersla á kyngreind tölfræðigögn, greiningu á málefnasviðum og málaflokkum, samstarf, kynningu og fræðslu. Verkefnisstjórn um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð fylgir áætluninni eftir undir forystu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

 
     Í júní 2020 var skipaður starfshópur um söfnun, notkun og birtingu kyngreindra tölfræðigagna. Fyrstu niðurstöður eru væntanlegar um mitt ár 2021.  
     
    Handbók um kyngreind tölfræðigögn hefur ekki verið gefin út en útgáfa fræðsluefnis er meðal verkefna ofangreinds starfshóps og væntanleg á árinu 2022. 
    

Jafnréttismat hefur verið unnið á langflestum málefnasviðum til að draga fram þau kynja- og jafnréttissjónarmið sem taka þarf tillit til innan hvers málaflokks og málefnasviðs. Niðurstöðurnar birtust fyrst í Grunnskýrslu kynjaðrar fjárlagagerðar 2019 og voru uppfærðar og dýpkaðar í Kortlagningu kynjasjónarmiða – Stöðuskýrslu 2021. Byggt er á greiningunum í umfjöllun um áskoranir á sviði jafnréttismála í einstaka málaflokkum í fjármálaáætlun.

     
    Horfið hefur verið frá flokkun áhrifa kynja- og jafnréttissjónarmiða innan hvers málefnasviðs og málaflokks eftir vægi: mikil, meðal eða litil áhrif.
     
    Unnið er að bættu verklagi sem miðar að því að í auknum mæli sé tekið mið af niðurstöðum jafnréttismats við ákvarðanatöku. Þetta er gert innan hvers ráðuneytis auk þess sem aukin eftirfylgni er með því að mat á jafnréttisáhrifum mála liggi fyrir við umfjöllun ríkisstjórnar.
     
    Unnið er að frekari þróun nálgunar við endurmat útgjalda (e. spending review) og er þar tekið mið af samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
     
    Við vinnslu frumvarpa til fjáraukalaga á árinu 2020 og frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2021 var lagt mat á áhrif helstu ráðstafana á jafnrétti og gerð grein fyrir niðurstöðum í greinargerðum með frumvörpunum.
     Undirritaður hefur verið samstarfssamningur við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um samstarf um verkefni á sviði kynjaðrar fjárlagagerðar.
     
    Kortlagning á hagsmunaaðilum hefur ekki farið fram og því hefur ekki verið fundað árlega með hagsmunaaðilum.
     
    Fundað er reglulega með félagasamtökunum Femínísk fjármál
     Verkfærakista fyrir kynjasamþættingu var gefin út í desember 2019. Unnið er að frekari þróun fræðsluefnis fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins.
     
    Ekki hefur verið gert yfirlit yfir ríkisstofnanir sem eiga að fá fræðslu á komandi árum.
     
    Fræðsluáætlun fyrir ríkisstofnanir liggur ekki fyrir en unnið er að mótun fræðsluáætlunar fyrir Stjórnarráðið.
     
    Upplýsingar um kynjaða fjárlagagerð eru aðgengilegar á vef Stjórnarráðsins á íslensku og ensku. Vefsvæði kynjaðrar fjárlagagerðar á íslensku var uppfært sumarið 2021.
     
    Árið 2018 var gert myndband í samstarfi við Reykjavíkurborg um kynjaða fjárlagagerð en ekki hefur orðið framhald á því samstarfi.

Eldri áætlanir

Árið 2015 var samþykkt innleiðingaráætlun kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar 2015-2019. Í áætluninni var lögð áhersla á að auka þekkingu á kynjaáhrifum fjárlaga og skapa grundvöll til að endurmeta stefnumið við öflun og ráðstöfun opinbers fjár með verkefnavinnu ráðuneyta og auknu framboði og miðlun kyngreindra gagna. Jafnframt að gera jafnréttismat að hluta af ákvörðunartökuferlinu með áherslu á jafnréttismat frumvarpa og fjárlagatillagna.

Í apríl árið 2011 samþykkti ríkisstjórnin þriggja ára áætlun verkefnisstjórnar um áframhaldandi innleiðingu. Í áætluninni var kveðið á um fjölmargar leiðir til að festa kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð í sessi. Í kjölfarið unnu öll ráðuneyti með einn meginmálaflokk samkvæmt aðferðum kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar og tók sú vinna þrjú ár. Árlega voru birtar skýrslur um framvindu verkefnanna og niðurstöður þeirra voru kynntar í fjárlagafrumvarpinu 2015. Sjá áfangaskýrslur og lokaskýrslur verkefnanna

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum