Hoppa yfir valmynd

Ísland og Sameinuðu þjóðirnar

Undirbúningsráðstefna um stofnun Sameinuðu þjóðanna var haldin í San Francisco í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk með undirskrift sáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 26. júní 1945. Sáttmálinn öðlaðist gildi 24. október sama ár.

Eitt af meginmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna kemur fram í inngangsorðum sáttmálans en það er: ,,að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið".

Íslendingar fengu aðild að Sameinuðu þjóðunum þann 19. nóvember 1946. Áður hafði Ísland gerst aðili að fimm alþjóðastofnunum, sem síðar urðu sérstofnanir samtakanna: Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóðabankanum (IBRD), Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Löngu áður hafði Ísland gerst aðili að Alþjóðapóstmálasambandinu (UPU). Árið 1943 varð Ísland stofnaðili að Hjálpar- og endurreisnarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNRRA), en sú stofnun var lögð niður árið 1947.

Allsherjarþingið samþykkti aðildarumsókn Íslands 9. nóvember 1946. Hinn 19. nóvember sama ár undirritaði Thor Thors, sendiherra, yfirlýsingu, fyrir hönd ríkisstjórnar Ísland, um að Ísland samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Árið 1947 var Thor Thors, skipaður fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Efst á baugi

Búist var við að umfjöllun um lok og eftirköst heimsfaraldursins yrði mál málanna í starfsemi Sameinuðu þjóðanna í New York. Sú varð ekki raunin því innrás Rússlands í Úkraínu varpaði skugga á allt annað. Umhverfis- og loftslagsmál og fæðuöryggi guldu fyrir ótíðindin frá Úkraínu þó að öllum sé ljóst að þörfin fyrir úrbætur og sameiginlegar ákvarðanir verður meira knýjandi dag frá degi.

Ráðherravika 77. allsherjarþingsins endurspeglaði þetta. Innrásin í Úkraínu var efst á baugi en fast á hælana fylgdu loftslags- og mannúðarmál. Aðalframkvæmdastjóri gaf tóninn í opnunarávarpi þingsins. Hann dró upp frekar dapurlega mynd af alþjóðasamvinnu sem væri sködduð af ófriði og ógnað af aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Ranglæti færi vaxandi víða um heim, fátækt væri útbreidd og viðvarandi sultur á stórum svæðum.

Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sátu ráðherraviku allsherjarþingsins. Í almennri umræðu undirstrikaði utanríkisráðherra sameiginlega ábyrgð þjóða á sjálfum grunnstoðum alþjóðakerfisins. Ráðherra átaldi Rússa harðlega fyrir innrásina í Úkraínu og hvatti þjóðir heims til dáða í loftslags- og auðlindamálum og jafnframt í mannréttindamálum þar sem þeim væri ábótavant.

Ráðherra sótti marga fundi og samkomur utan formlegrar dagskrár þingsins. Staðan í Úkraínu, séð frá mörgum mismunandi sjónarhornum, vóg þungt í umræðum í hliðarsölum. Stuðningur við Alþjóðasakamáladómstóllinn í Haag og viðurlög meintra brotamanna sem draga þyrfti til ábyrgðar var efni eins fundar, Pakistan stóð fyrir fundi ungra utanríkisráðherra um Úkraínu og svokallaður Grænhópur, óformlegt samráð Singapúr, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Slóveníu, Kosta Ríka, Grænhöfðaeyja og Íslands, beindi sjónum að auðlinda- og loftslagsmálum, svo stiklað sé á stóru.

Forsætisráðherra ávarpaði leiðtogafund um menntamál, sat fund kvenleiðtoga og flutti, ásamt utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðalræðu á samkomu kjarnahóps um réttindi hinsegin fólks.

Innrás Rússa í Úkraínu var meginefni 46 formlegra funda öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Vitaskuld flækti málin að árásarríkið sjálft, sem þverbrotið hefur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, hefur stöðu fastaríkis í ráðinu. Það rak fleyg í samstöðuna og olli tregðu við afgreiðslu fjölda óskyldra mála. Í fyrsta skipti í fjóra áratugi þurfti ráðið að vísa máli til allsherjarþingsins. Þingið samþykkti fjórar ályktanir sem snúa að Úkraínu og að auki ályktun um að víkja Rússum úr mannréttindaráðinu. Ofmælt er að segja að öryggisráðið hafi verið lamað en stórar ákvarðanir sitja á hakanum, sem er auðvitað bagalegt meðan brýn verkefni í Afganistan, Suður-Súdan, Haítí og víðar bíða afgreiðslu.

Áætlun hefur verið gerð um að Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir samtakanna fjalli um tillögur í skýrslu aðalframkvæmdastjóra um það hvernig Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamfélagið geti mætt áskorunum samtímans og viðfangsefnum framtíðar (Our Common Agenda). Leiðtogafundur um framtíðaráherslur í starfi Sameinuðu þjóðanna verður haldinn árið 2024 og undirbúningsfundur í haust. Aðgerðir í þágu friðar og gegn misrétti munu vega þungt ásamt hugmyndum um framtíð fjölþjóðahyggju.

Fastanefnd Íslands lætur að sér kveða í störfum allsherjarþingsins og undirnefndum þess. Meðal viðfangsefna eru mannréttinda- og jafnréttismál, þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð, málefni hafsins, sjálfbær orkunýting, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, alþjóðalög, afvopnun og friðsamleg lausn deilumála. Ísland leiddi ályktun um að styrkja mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna og ásamt Eritreu um landgræðslu gegn eyðimerkurmyndun. Báðar ályktanirnar voru samþykktar samhljóma.

Ísland sinnir varaformennsku í laganefnd allsherjarþingsins. Reynt hefur á stjórnendur nefndarinnar, meðal annars vegna harðra átaka við undirbúning að tillögu um nýjan alþjóðasamning um glæpi gegn mannkyni. Ísland leiddi einnig vinnu um álitaefni varðandi kjaradómstóla starfsfólks Sameinðu þjóðanna.

Störf afvopnunarnefndar stofnunarinnar lituðust af stríðinu í Úkraínu og árangur var því rýr. Væntingar voru svo sem ekki miklar enda hafði endurskoðunarráðstefnu um samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) lokið án árangurs. Rússlandi einu og sér tókst að bregða fæti fyrir samhljóma niðurstöðu 150 þátttökuríkja.

Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum á reglulegt samráð við helstu undirstofnanir og sjóði stofnunarinnar í samræmi við vaxandi hlut Íslands í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu og heimsmarkmiðin. Einkum er litið til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) í anda þróunarsamvinnustefnu Íslands.

Ísland gegndi í fyrsta skipti varaformennsku í framkvæmdastjórn UN Women árið 2022 fyrir hönd hóps Vestur-Evrópuríkja og fleiri ríkja. Fulltrúar Íslands stjórnuðu samningaviðræðum um einstakar ákvarðanir, stýrðu fundum og fluttu ræður fyrir hönd ríkjahópsins.

Í apríl 2022 fundaði utanríkisráðherra með framkvæmdastýrum UN Women, UNFPA og UNICEF og greindi frá auknum stuðningi við stofnanirnar þrjár, auk þess að undirrita samning við UNFPA um að uppræta limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna. Ráðherra tók við gullvottun frá Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) fyrir vinnu á sviði jafnréttismála og þróunarsamvinnu á fundi með framkvæmdastjóra stofnunarinnar.

Árlegur fundur um framvindu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fór fram venju samkvæmt í júlí í New York. Ungmennafulltrúi Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar ásamt fulltrúum forsætisráðuneytis og fastanefndar sátu fundinn. Á næsta ári fer fram önnur fyrirtaka Íslands á innleiðingu heimsmarkmiðanna heima fyrir. Fjöldi hliðarviðburða fór fram samhliða formlega fundinum. Ísland stóð fyrir dagskrá um konur og fiskveiðar sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarpaði.

Fastafulltrúum Íslands og Grenada var falið að leiða samningaviðræður vegna yfirlýsingar ráðherrafundar um fjármögnun þróunar sem haldinn var vorið 2022. Var þetta langt og strangt ferli þar sem skuldastaða þróunarríkja og viðbrögð við henni voru í forgrunni. Með niðurstöðuskjalinu er ítrekað að fjárskortur sé enn stærsti farartálminn á leiðinni að heimsmarkmiðunum og ástæða þess að framfaraskrefin hafa verið styttri og færri. Lagt er til að auka fjárfestingar í félagsvernd og að opinber þróunaraðstoð (ODA) taki til greina aðra þætti en landsframleiðslu. Utanríkisráðherra hélt ræðu Íslands á ráðherrafundi um fjármögnun þróunar í apríl. Niðurstöðuskjalið var samþykkt.

Rödd Íslands um málefni hafsins er sterk hjá Sameinuðu þjóðunum. Á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon í júní hélt forsætisráðherra aðalræðu Íslands og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra stýrði málstofu um hafréttarmál ásamt utanríkisráðherra Singapúr. Fjörtíu ára afmæli hafréttarsamnings stofnunarinnar var fagnað og hélt fulltrúi Íslands af því tilefni ræðu í allsherjarþinginu fyrir hönd Vesturlanda. Sendinefnd Íslands tók virkan þátt í tveimur viðræðulotum um nýjan alþjóðasamning um líffræðilega fjölbreytni á úthafinu.

Fjölmargar kosningar og kynning á framboðum þeim tengdum fara fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York. Nú bar hæst endurkjör Braga Guðbrandssonar í nefnd um réttindi barnsins, sem situr í Genf. Var Bragi kjörinn til fjögurra ára með 140 atkvæðum af 186. Áfram er unnið að framboði Tómasar H. Heiðar til endurkjörs í dómarasæti við alþjóðahafréttardómstólinn í Hamborg (ITLOS), sem kosið verður um næsta sumar, og að framboði Íslands til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna tímabilið 2025-2027 en þær kosningar fara fram í október 2024.

Ísland á samráð við Vesturlönd utan ESB, svokallaðan JUSCANZ-hóp, og leiðir ásamt Namibíu starf vinahóps um eyðimerkurmyndun og landgræðslu. Þá er Ísland í kjarnahópi um réttindi hinsegin fólks og um ábyrgðarskyldu vegna stríðsins í Úkraínu.

Ísland í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna

Ísland lætur meira að sér kveða en áður sem áheyrnarríki í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í framhaldi af tveggja ára setu í ráðinu 2018 og 2019. Ísland býður sig fram til setu í ráðinu á nýjan leik fyrir tímabilið 2025-2027 með stuðningi Norðurlandanna.

Ísland tók þátt í öllum fundalotum mannnréttindaráðsins um jafningjarýni (Universal Periodic Review, UPR) á vegum aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Rýnin felst í því að ráðið fer yfir stöðu mannréttinda í hverju aðildarríki fyrir sig á fimm ára fresti og kemur með tilmæli um úrbætur. Tilgangurinn er að hvetja ríki til að uppfylla skuldbindingar sínar og þar með bæta ástandið í heiminum sameiginlega. Ísland leggur sérstaka áherslu á afnám dauðarefsinga, kynjajafnrétti og réttarstöðu hinsegin fólks.

Ísland fór í gegnum sína þriðju jafningarýni í janúar. Forsætisráðherra leiddi íslensku sendinefndina sem sat fyrir svörum. Stjórnvöld skiluðu skýrslu um úrvinnslu tilmæla frá síðustu rýni. Ísland fékk 230 tilmæli frá 89 ríkjum og samþykkti 218. Þau eru í vinnslu hjá stýrihópi Stjórnarráðsins um mannréttindi og í hlutaðeigandi ráðuneytum.

Ísland tók þátt í sinni fyrstu fyrirtöku um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (The Committee against Torture) annast eftirlit með samningnum. Fastafulltrúi Íslands í Genf leiddi sendinefnd Íslands við fyrirtökuna en nefndin var skipuð fulltrúa forsætisráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins.

Að auki fór fram fyrirtaka fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands um framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Nefndin (Committee on the Rights of the Child) annast eftirlit með samningnum. Aðildarríkin eru skuldbundin til að upplýsa nefndina reglulega um hvernig á málum er haldið. Þetta var í fyrsta skipti frá 2011 sem Íslandi gafst tækifæri til að svara fyrir framkvæmd sáttmálans. Íslenska sendinefndin var skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og fastanefnd Íslands í Genf.

Utanríkisráðherra sótti ráðherraviku mannréttindaráðsins í Genf í febrúar eftir hartnær tveggja ára tímabil fjarfunda. Ráðherra nýtti ferðina til að heimsækja framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.  

Ísland studdi ákall um sérstaka umræðu í mannréttindaráðinu um stöðuna í Úkraínu í mars og var meðflytjandi ályktunar fundarins um fordæmingu innrásar Rússlands í Úkraínu. Þess var krafist að Rússar hyrfu tafarlaust á braut með herlið sitt. Með ályktuninni var sett á laggirnar rannsóknarnefnd sem safnar og greinir gögn um mannréttindabrot og stríðsglæpi Rússlands í Úkraínu. Ráðherra ávarpaði fundinn um fjarfundabúnað.

Í marslotu mannréttindaráðsins var samþykkt ályktun um bága stöðu mannréttinda í Íran sem ríkjahópur undir forystu Íslands lagði fram. Ályktunin framlengir umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna stöðuskýrslu. Ísland tók við forystu í ríkjahópnum vorið 2021, ári eftir að hafa gengið til liðs við Bretland, Norður-Makedóníu og Moldóvu sem fyrir voru í hópnum.

Í júnílotu ráðsins var aukafundur um mannréttindi kvenna og stúlkna í Afganistan. Utanríkisráðherra ávarpaði fundinn að heiman í nafni NB8. Ísland stóð einnig fyrir dagskrá um rétt hinsegin fólks til heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra. Dagskráin var í samstarfi við Kosta Ríka, Suður-Afríku og ILGA (The International Lesbian, Gay, Bisexual, Trans and Intersex Association) með þátttöku óháðs sérfræðings mannréttindaráðsins um réttindi hinsegin fólks, sérstaks skýrslugjafa mannréttindaráðsins um heilbrigðismál og fleiri.

Í haustlotu ráðsins var rætt um skýrslu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um samstarf Filippseyja við skrifstofu mannréttindafulltrúa sem hófst í framhaldi af ályktun Íslands um mannréttindi þar í landi. Umræðan fór fram á grundvelli sameiginlegrar ályktunar Íslands og Filippseyja í ráðinu frá 2020 sem samþykkt var samhljóða. Sögulegt þykir að Ísland hafi fengið Filippseyjar til samstarfs um að framfylgja ályktun Íslands um mannréttindi þar í landi árið 2019.

Í haustlotu ráðsins var Ísland í kjarnahópi tíu ríkja (Norðurlönd, Bandaríkin, Bretland, Kanada, Ástralía og Litháen) sem lögðu fram drög að ákvörðun um að kalla til sérstakrar umræðu í ráðinu um mannréttindi í Xinjiang-héraði í Kína. Það var gert í ljósi niðurstöðu skýrslu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) um mannréttindi í Kína frá haustdögum. Upplýst var um alvarleg mannréttindabrot gegn Úígúrum og öðrum minnihlutahópum í Xinjiang. Ákvörðunin náði ekki fram að ganga í ráðinu en staðan í Kína var í brennidepli í haustlotunni. Ísland tók undir yfirlýsingu 47 ríkja um ástandið í Kína sem Holland flutti í júnílotu ráðsins. Að auki átti Ísland aðild að yfirlýsingu hóps ríkja í þriðju nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um sömu mál, fjórða árið í röð. Fjölgaði þjóðum sem stóðu að yfirlýsingunni úr 43 haustið 2021 í 50 árið 2022.

Brot á reglum um slæðuburð var ástæða handtöku Mahsa Amini, sem síðar var myrt í varðhaldi lögreglu í Teheran í haust. Í framhaldinu þyrptust konur á öllum aldri saman til að mótmæla framgöngu yfirvalda. Í skugga yfirgangs og ítrekaðra brota á konum, sem handteknar voru í stórum hópum og varpað í fangelsi fyrir sjálfsögð mótmæli, var orðið við ósk Íslands og Þýskalands um aukafund í ráðinu. Fundurinn samþykkti ályktun Íslands og Þýskalands um að stofna óháða rannsóknarnefnd sem safni sönnunargögnum til að varpa ljósi á óhæfuverk gegn mótmælendum sem nýtist síðar til að draga sökudólga til ábyrgðar. Ályktunin var samþykkt með 25 atkvæðum, sex mótatkvæðum og 16 hjásetum. Þetta teljast góðar undirtektir í ljósi sögunnar. Utanríkisráðherrar Íslands og Þýskalands mættu báðir til fundarins og tóku þátt í umræðunni.

Gott samstarf ríkir á meðal Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í mannréttindaráðinu. Í fundalotum ráðsins árið 2022 voru flutt í heild sinni 130 ávörp, annaðhvort í nafni allra átta ríkjanna (NB8) eða Norðurlandanna fimm. Fulltrúar Íslands fluttu nokkur ávörp einir og sér en öll ávörp eru aðgengileg á vefsíðu fastanefndar Íslands í Genf.

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York

Ríkisstjórn og utanríkisráðherra móta íslenska utanríkisstefnu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það hlutverk fastanefndar Íslands að framkvæma hana, samkvæmt fyrirmælum utanríkisráðuneytisins.

Áherslur í starfi fastanefndar fara eftir þeim markmiðum, þeirri stefnu og þeim hagsmunamálum sem stjórnvöld hafa og vinna að á hverjum tíma innan Sameinuðu þjóðanna. Fastanefndin tekur þátt í umræðum í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum stofnunarinnar í New York með það að markmiði að hafa áhrif á stefnu, verkefni og stjórnun stofnunarinnar í samræmi við stefnu Íslands í málefnum Sameinuðu þjóðanna.

Hlutverk fastanefndarinnar er að vera tengiliður í samskiptum, upplýsa ráðuneytið og veita ráðgjöf um framvindu mála með reglulegum hætti. Fastanefndin sendir utanríkisráðuneytinu upplýsingar um eðli mála og afstöðu annarra ríkja og greiðir atkvæði í nafni Íslands samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins.

Flestar samþykktir allsherjarþingsins eru í formi ályktana. Undir hverjum dagskrárlið geta komið fram fleiri en ein ályktunartillaga. Einnig geta komið fram breytingartillögur sem valda því að oft skýrist ekki hvernig endanlegur texti ályktunartillögu verður fyrr en rétt áður en atkvæði eru greidd. Enn fremur eru stundum greidd atkvæði um einstaka liði ályktunartillögu.

Kemur þá til kasta fastanefndar að meta hvort efnisbreytingar gefi ástæðu til þess að atkvæði verði greitt með öðrum hætti en ákveðið hafði verið í samráði við utanríkisráðuneytið.

Margar ályktunartillögur eru afgreiddar án atkvæðagreiðslu og er að jafnaði stefnt að sem víðtækastri samstöðu. Nokkuð er um hjásetu sem túlka má á mismunandi vegu. Þegar tvær tillögur liggja fyrir um sama dagskrárlið og viðkomandi land er meðflytjandi að þeirri tillögunni sem það telur betri kostinn er t.a.m. algengt að setið sé hjá við afgreiðslu hinnar tillögunnar, án þess að viðkomandi land sé mótfallið efni hennar. Einnig hefur tíðkast í viðkvæmum málum að lönd sitji hjá við afgreiðslu ályktana og gefi síðan atkvæðaskýringu þar sem fram kemur hvers vegna ályktuninni var ekki greitt atkvæði. Einkum hefur slíkt tíðkast þegar þróunarlönd eða minnihlutahópar, sem telja sig órétti beitta, eiga í hlut. Enn fremur getur verið erfitt að taka afstöðu í sumum deilumálum ríkja þar sem báðir aðilar virðast bera ábyrgð á vandanum og því setið hjá.

Ályktanir allsherjarþingsins eru ekki lagalega bindandi og hafa mörg lönd tekið upp þá stefnu að reyna að forðast samþykkt ályktana sem vitað er að ekki mun nást samkomulag um og ekki verður framfylgt enda getur samþykkt slíkra ályktana rýrt virðingu fyrir störfum allsherjarþingsins.

Norræn samvinna og Sameinuðu þjóðirnar

Norrænt samráð um málefni Sameinuðu þjóðanna er umfangsmikið. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlandanna halda reglulega fundi þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru meðal annars til umræðu. Þar að auki fjalla löndin um málefni Sameinuðu þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs, í beinum samskiptum milli ráðuneyta og einnig milli frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Enn fremur eru starfandi þingmannasamtök Norðurlanda þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru rædd.

Reglubundið norrænt samráð fer fram milli fastanefnda hjá höfuðstöðvunum í New York, skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í Genf og Vín og hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París. Hin Norðurlöndin eiga reglubundið samstarf milli fastanefnda sinna hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm, þ.e. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðalandbúnaðarþróunarsjóðnum (IFAD) og hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) í Naíróbí.

Haldnir eru reglulegir fundir þeirra embættismanna í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna sem fara með málefni Sameinuðu þjóðanna. Aðrir sérfræðingar í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna eiga einnig reglubundna samráðsfundi um málefni innan Sameinuðu þjóðanna, m.a. þjóðréttarfræðingar um þjóðréttarleg mál og sérfræðingar um mannúðar- og mannréttindamál.

Samstarf Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum hefur tekið nokkrum breytingum, einkanlega hvað varðar sameiginlegan málflutning sem dregist hefur saman. Ástæðan fyrir því er sú að aukin áhersla Evrópusambandsins á sameiginlega utanríkisstefnu hefur leitt til þess að ríki Evrópusambandsins, þar á meðal Danmörk, Finnland og Svíþjóð, reyna til hins ítrasta að móta sameiginlega afstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir að hinn ytri rammi norræna samstarfsins hafi tekið breytingum heldur norrænt samráð eftir sem áður áfram og hefur verið brugðist við þessum breytingum með ýmsum hætti. Norrænu utanríkisráðherrarnir samþykktu til dæmis tillögur um að viðhalda og styrkja norræna samvinnu á alþjóðavettvangi þegar aðstæður leyfðu, norrænt samráð og framlag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, svo og að viðhalda sameiginlegum framboðum. Ljóst er að vilji er til að viðhalda hinni sterku ímynd sem Norðurlöndin hafa skapað sér sem samheldinn ríkjahópur innan Sameinuðu þjóðanna sem vinnur meðal annars að bættum mannréttindum og jafnrétti.

Tenglar

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum