Hoppa yfir valmynd

Ísland og Sameinuðu þjóðirnar

Undirbúningsráðstefna um stofnun Sameinuðu þjóðanna var haldin í San Francisco í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk með undirskrift sáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 26. júní 1945. Sáttmálinn öðlaðist gildi 24. október sama ár.

Eitt af meginmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna kemur fram í inngangsorðum sáttmálans en það er: ,,að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið".

Íslendingar fengu aðild að Sameinuðu þjóðunum þann 19. nóvember 1946. Áður hafði Ísland gerst aðili að fimm alþjóðastofnunum, sem síðar urðu sérstofnanir samtakanna: Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóðabankanum (IBRD), Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Löngu áður hafði Ísland gerst aðili að Alþjóðapóstmálasambandinu (UPU). Árið 1943 varð Ísland stofnaðili að Hjálpar- og endurreisnarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNRRA), en sú stofnun var lögð niður árið 1947.

Allsherjarþingið samþykkti aðildarumsókn Íslands 9. nóvember 1946. Hinn 19. nóvember sama ár undirritaði Thor Thors, sendiherra, yfirlýsingu, fyrir hönd ríkisstjórnar Ísland, um að Ísland samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Árið 1947 var Thor Thors, skipaður fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Efst á baugi

Stóru málin í starfi Sameinuðu þjóðanna snúa að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, umbótum á starfsemi stofnunarinnar og auknu alþjóðasamstarfi um farendur og flóttamenn. Þá hafa málefni Jemens, Sýrlands, Norður-Kóreu, og Palestínu og Ísraels verið reglulega á dagskrá öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Heimsmarkmiðin, sem eru vegvísir að sjálfbærri þróun til ársins 2030, eru samofin allri umræðu og stefnumótun hjá Sameinuðu þjóðunum. Í tengslum við innleiðingu heimsmarkmiðanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland lagt sérstaka áherslu á að halda á lofti mannréttindum og jafnréttismálum, málefnum hafsins, landgræðslu og orkumálum.

Efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) ber meginábyrgð á að samræma og hvetja til innleiðingar heimsmarkmiðanna. Í júlí á hverju ári stendur nefndin fyrir pólitískum umræðuvettvangi þar sem fjallað er um einstök markmið, auk þess sem aðildarríkin geta gengist undir valkvæða landarýni.

Sumarið 2019 kynnti Ísland fyrir ECOSOC, ásamt 51 öðru ríki, hvernig staðið er að innleiðingu heimsmarkmiðanna innan lands og í alþjóðasamstarfi. Forsætisráðherra leiddi fyrirtökuna. Þetta var í fyrsta skipti sem Ísland tók þátt í slíkri landsrýni sem gefur tækifæri til að miðla og læra af reynslu annarra ríkja. 

Í tengslum við heimsmarkmiðin og aukið vægi þróunarsamvinnustefnu Íslands í þróunarstarfi og mannúðarmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur ein staða hjá fastanefnd Íslands verið skilgreind sem staða þróunarsamvinnufulltrúa. Markmiðið er að fylgja betur eftir áherslum Íslands innan stofnana Sameinuðu þjóðanna, sem sinna þeim málaflokkum.

Loftslagsmálin hafa vaxandi vægi í starfi Sameinuðu þjóðanna enda hafa þau beina tengingu við nær öll málefni á dagskrá Sameinuðu þjóðanna, meðal annars þróunarmál, mannréttindi og öryggismál. António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur þar af leiðandi gert þau að forgangsmáli. Hann boðaði til leiðtogafundar í aðdraganda allsherjarþingsins 2019 þar sem brýna á ríkin til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins og leita leiða til að virkja atvinnulífið betur í að styðja markmið þess.

Annað áherslumál aðalframkvæmdastjórans eru umbætur og aukin skilvirkni í starfi Sameinuðu þjóðanna. Umbæturnar snúa meðal annars að því að styrkja stofnanir sem sinna þróunarmálum og sjálfbærri þróun til að tryggja markvissa innleiðingu heimsmarkmiðanna innan kerfisins og styðja ríki sem þurfa þess við. Í öðru lagi er unnið að umbótum á störfum Sameinuðu þjóðanna á sviði friðar- og öryggismála, friðargæslu, forvarna og friðaruppbyggingu. Samhliða er verið að auka skilvirkni og samhæfingu í stjórnkerfi og verkefnum Sameinuðu þjóðanna. Sú vinna er komin vel á veg og meðal annars er búið að jafna kynjahlutföll í efstu stjórnunarlögum og samræma svæðastjórnun stofnana Sameinuðu þjóðanna á vettvangi. Ísland hefur stutt umbæturnar, sérstaklega aðgerðir á sviði jafnréttismála. Ísland hefur einnig beitt sér gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni innan kerfis Sameinuðu þjóðanna, þar sem pottur er víða brotinn.

Fastanefnd Íslands hefur einnig tekið virkan þátt í endurskoðun á starfi efnahags- og félagsmálanefndar Sameinuðu þjóðanna, meðal annars með því að leiða samningaviðræður á síðasta ári og sinna stjórnarsetu í nefndum sem vinna að endurbótum.

Ísland tekur að venju virkan þátt í undirnefndum allsherjarþingsins með sérstaka áherslu á mannréttindi og jafnréttismál, alþjóðalög og samninga, þróunarmál og afvopnun. Í þriðju nefnd allsherjarþingsins, sem fjallar um mannréttindamál, leiddi Ísland samningaviðræður um ályktun um eflingu mannréttindanefnda Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Norðurlandanna, auk Belgíu og Slóveníu. Ísland tók einnig að sér að leiða samningaviðræður um ályktun um eyðimerkurmyndun og landgræðslu í annarri nefnd sem fjallar um sjálfbæra þróun. Báðar ályktanirnar hlutu einróma stuðning í nefndunum. Í tengslum við allsherjarþingið sótti forseti Íslands, sem er sérstakur fulltrúi HeForShe-átaksins svonefnda, fundi um jafnlaunastefnu og kynnti áherslur Íslands.

Í störfum allsherjarþingsins og nefndastarfi Sameinuðu þjóðanna eru vísbendingar um vaxandi áskoranir í alþjóðasamstarfi og minnkandi samstöðu sem birtist meðal annars í umræðum um öryggismál, loftslagsmál, fjármögnun starfsemi Sameinuðu þjóðanna og í mannréttindamálum, sérstaklega þeim sem snúa að kyn- og frjósemisheilbrigði kvenna. Þar af leiðandi hefur reynst erfiðara að ná samkomulagi um ályktanir sem áður ríkti almenn samstaða um. Ísland hefur talað fyrir því að standa vörð um alþjóðasamstarf og alþjóðalög og sú áhersla var rauði þráðurinn í ræðu utanríkisráðherra við upphaf allsherjarþingsins haustið 2018.

Utanríkisráðherra fór í ræðunni yfir mikilvægi kynjajafnréttis sem hann sagði lykilinn að sjálfbærri þróun. Hann sagði Íslendinga reiðubúna að deila reynslu sinni á því sviði með öðrum þjóðum. Þá sagði hann mikilvægt að grípa strax til loftslagsaðgerða líkt og Ísland hygðist gera með nýkynntri loftslagsáætlun stjórnvalda. Íslendingar yrðu vitni að örum breytingum á norðurslóðum og annars staðar ógnaði eyðimerkurmyndun lífsgæðum fólks. Utanríkisráðherra kom inn á átökin í Sýrlandi og Jemen, stöðu mála í Venesúela og Mjanmar og vakti máls á flóttamannavandanum og stöðu barna í því samhengi. Að endingu gerði hann grundvallargildi Sameinuðu þjóðanna að umtalsefni og stöðu alþjóðakerfisins, og mikilvægi þess að standa vörð um það.

Málefni hafsins eru kjarnamál í starfi Íslands innan Sameinuðu þjóðanna, ekki síst vinna tengd hafréttarsamningnum og fyrirhuguðum samningi um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja.

Ísland tekur virkan þátt í árlegum fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna og forsætisráðherra fór fyrir sendinefnd Íslands á fundi kvennanefndarinnar í mars 2019 en fjölmargar stofnanir og félagasamtök sem sinna jafnréttismálum á Íslandi sækja fundinn. Í tengslum við fundinn tók Ísland að sér, í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir, að skipuleggja hliðarviðburði þar sem meðal annars var rætt um #metoohreyfinguna og samspil almannatrygginga og jafnréttismála.

Fastanefnd Íslands fylgist með umræðum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og tekur þátt í opnum umræðum og sameiginlegum innleggjum Norðurlandanna og annarra líkt þenkjandi ríkja. Setu Svíþjóðar (2017–2018) í ráðinu lauk um áramótin 2018-2019 og Noregur er í framboði til setu í ráðinu (2021–2022), en þátttaka Norðurlandanna gefur betri innsýn í starfsemi og málefni ráðsins, auk þess sem haldið er á lofti norrænum áherslum. Stóru málin á dagskrá öryggisráðsins hafa verið tengd málefnum Miðausturlanda, Sýrlandi, Jemen, Ísrael og Palestínu, ásamt Norður-Kóreu og Mjanmar. Þó að mörg deilumál séu óleyst eru ýmis jákvæð teikn á lofti, svo sem vopnahlé í Jemen, friðarsamningar Eritreu og Eþíópíu, aukin samskipti við stjórnvöld í Norður-Kóreu, samkomulag Makedóníu og Grikklands og friðarsamningar í Suður-Súdan.

Fastanefndin hefur tekið virkan þátt í framboðsmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en flestar kosningar um lykilembætti og setu í stofnunum og nefndum fara fram í höfuðstöðvunum í New York. Þar ber hæst kynning og kosningar vegna setu Íslands í mannréttindaráðinu í Genf í júlí 2018, kjör Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins í júní 2018 fyrir tímabilið 2019–2023 og undirbúningur fyrir framboð Íslands í framkvæmdastjórn Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) fyrir tímabilið 2021–2025.

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York

Ríkisstjórn og utanríkisráðherra móta íslenska utanríkisstefnu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það hlutverk fastanefndar Íslands að framkvæma hana, samkvæmt fyrirmælum utanríkisráðuneytisins.

Áherslur í starfi fastanefndar fara eftir þeim markmiðum, þeirri stefnu og þeim hagsmunamálum sem stjórnvöld hafa og vinna að á hverjum tíma innan Sameinuðu þjóðanna. Fastanefndin tekur þátt í umræðum í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum stofnunarinnar í New York með það að markmiði að hafa áhrif á stefnu, verkefni og stjórnun stofnunarinnar í samræmi við stefnu Íslands í málefnum Sameinuðu þjóðanna.

Hlutverk fastanefndarinnar er að vera tengiliður í samskiptum, upplýsa ráðuneytið og veita ráðgjöf um framvindu mála með reglulegum hætti. Fastanefndin sendir utanríkisráðuneytinu upplýsingar um eðli mála og afstöðu annarra ríkja og greiðir atkvæði í nafni Íslands samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins.

Flestar samþykktir allsherjarþingsins eru í formi ályktana. Undir hverjum dagskrárlið geta komið fram fleiri en ein ályktunartillaga. Einnig geta komið fram breytingartillögur sem valda því að oft skýrist ekki hvernig endanlegur texti ályktunartillögu verður fyrr en rétt áður en atkvæði eru greidd. Enn fremur eru stundum greidd atkvæði um einstaka liði ályktunartillögu.

Kemur þá til kasta fastanefndar að meta hvort efnisbreytingar gefi ástæðu til þess að atkvæði verði greitt með öðrum hætti en ákveðið hafði verið í samráði við utanríkisráðuneytið.

Margar ályktunartillögur eru afgreiddar án atkvæðagreiðslu og er að jafnaði stefnt að sem víðtækastri samstöðu. Nokkuð er um hjásetu sem túlka má á mismunandi vegu. Þegar tvær tillögur liggja fyrir um sama dagskrárlið og viðkomandi land er meðflytjandi að þeirri tillögunni sem það telur betri kostinn er t.a.m. algengt að setið sé hjá við afgreiðslu hinnar tillögunnar, án þess að viðkomandi land sé mótfallið efni hennar. Einnig hefur tíðkast í viðkvæmum málum að lönd sitji hjá við afgreiðslu ályktana og gefi síðan atkvæðaskýringu þar sem fram kemur hvers vegna ályktuninni var ekki greitt atkvæði. Einkum hefur slíkt tíðkast þegar þróunarlönd eða minnihlutahópar, sem telja sig órétti beitta, eiga í hlut. Enn fremur getur verið erfitt að taka afstöðu í sumum deilumálum ríkja þar sem báðir aðilar virðast bera ábyrgð á vandanum og því setið hjá.

Ályktanir allsherjarþingsins eru ekki lagalega bindandi og hafa mörg lönd tekið upp þá stefnu að reyna að forðast samþykkt ályktana sem vitað er að ekki mun nást samkomulag um og ekki verður framfylgt enda getur samþykkt slíkra ályktana rýrt virðingu fyrir störfum allsherjarþingsins.

Norræn samvinna og Sameinuðu þjóðirnar

Norrænt samráð um málefni Sameinuðu þjóðanna er umfangsmikið. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlandanna halda reglulega fundi þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru meðal annars til umræðu. Þar að auki fjalla löndin um málefni Sameinuðu þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs, í beinum samskiptum milli ráðuneyta og einnig milli frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Enn fremur eru starfandi þingmannasamtök Norðurlanda þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru rædd.

Reglubundið norrænt samráð fer fram milli fastanefnda hjá höfuðstöðvunum í New York, skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í Genf og Vín og hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París. Hin Norðurlöndin eiga reglubundið samstarf milli fastanefnda sinna hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm, þ.e. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðalandbúnaðarþróunarsjóðnum (IFAD) og hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) í Naíróbí.

Haldnir eru reglulegir fundir þeirra embættismanna í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna sem fara með málefni Sameinuðu þjóðanna. Aðrir sérfræðingar í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna eiga einnig reglubundna samráðsfundi um málefni innan Sameinuðu þjóðanna, m.a. þjóðréttarfræðingar um þjóðréttarleg mál og sérfræðingar um mannúðar- og mannréttindamál.

Samstarf Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum hefur tekið nokkrum breytingum, einkanlega hvað varðar sameiginlegan málflutning sem dregist hefur saman. Ástæðan fyrir því er sú að aukin áhersla Evrópusambandsins á sameiginlega utanríkisstefnu hefur leitt til þess að ríki Evrópusambandsins, þar á meðal Danmörk, Finnland og Svíþjóð, reyna til hins ítrasta að móta sameiginlega afstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir að hinn ytri rammi norræna samstarfsins hafi tekið breytingum heldur norrænt samráð eftir sem áður áfram og hefur verið brugðist við þessum breytingum með ýmsum hætti. Norrænu utanríkisráðherrarnir samþykktu til dæmis tillögur um að viðhalda og styrkja norræna samvinnu á alþjóðavettvangi þegar aðstæður leyfðu, norrænt samráð og framlag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, svo og að viðhalda sameiginlegum framboðum. Ljóst er að vilji er til að viðhalda hinni sterku ímynd sem Norðurlöndin hafa skapað sér sem samheldinn ríkjahópur innan Sameinuðu þjóðanna sem vinnur meðal annars að bættum mannréttindum og jafnrétti.

Tenglar

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira