Hoppa yfir valmynd

Ísland og Sameinuðu þjóðirnar

Undirbúningsráðstefna um stofnun Sameinuðu þjóðanna var haldin í San Francisco í Bandaríkjunum árið 1945 og lauk með undirskrift sáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 26. júní 1945. Sáttmálinn öðlaðist gildi 24. október sama ár.

Eitt af meginmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna kemur fram í inngangsorðum sáttmálans en það er: ,,að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið".

Íslendingar fengu aðild að Sameinuðu þjóðunum þann 19. nóvember 1946. Áður hafði Ísland gerst aðili að fimm alþjóðastofnunum, sem síðar urðu sérstofnanir samtakanna: Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóðabankanum (IBRD), Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Löngu áður hafði Ísland gerst aðili að Alþjóðapóstmálasambandinu (UPU). Árið 1943 varð Ísland stofnaðili að Hjálpar- og endurreisnarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNRRA), en sú stofnun var lögð niður árið 1947.

Allsherjarþingið samþykkti aðildarumsókn Íslands 9. nóvember 1946. Hinn 19. nóvember sama ár undirritaði Thor Thors, sendiherra, yfirlýsingu, fyrir hönd ríkisstjórnar Ísland, um að Ísland samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Árið 1947 var Thor Thors, skipaður fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

 

Efst á baugi

 Nýr aðalframkvæmdastjóri, António Guterres hefur sett í forgang að vinna að umbótum á starfsháttum SÞ. Í fyrsta lagi hefur hann sett í gang sérstakt ferli til að endurskipuleggja starfshætti á sviði þróunarmála þar sem sérstaklega er horft til þess hvernig betur sé hægt að sinna innleiðingu heimsmarkmiðanna og auka samhæfingu og samræmingu starfa hinna ýmsu stofnana og starfseininga SÞ á vettvangi. Í öðru lagi er unnið að umbótum á störfum SÞ á sviði friðar- og öryggismála, friðargæslu, forvörnum og friðaruppbyggingu. Síðast en ekki síst hefur Guterres sett af stað sérstakt umbótaferli á innri starfsháttum og stjórnun SÞ, þar sem hann hefur m.a. lagt mjög ríka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum innan SÞ kerfisins. Útlit er fyrir að jöfnun kynjahlutfalla í fjórum efstu stjórnunarlögum náist á fyrri hluta þessa árs.

Þegar kemur að einstökum áherslumálum framkvæmdastjórans má auk heimsmarkmiðanna og Parísarsamkomulagsins nefna friðarumleitanir í einstökum deilum á Kóreuskaga, í Mið-Austurlöndum, Austur-Evrópu og Afríku. Þá hefur hann lagt áherslu á mikilvægi þess að ná góðri niðurstöðu í samningaferli um fólksflutninga sem fram fer á árinu og lýkur með leiðtogafundi í Marokkó í desember 2018. Utanríkisráðherra átti fund með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í febrúar sl. og lýsti þar yfir stuðningi við umbótaáætlanir og áherslur aðalframkvæmdastjórans, auk þess að ræða mannréttinda- og jafnréttismál.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru nú leiðarljós í íslenskri utanríkisstefnu. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau ná til allra þjóða sem ber að vinna skipulega að þeim bæði innanlands sem og í alþjóðasamstarfi og þróunarsamvinnu fram til ársins 2030. Skipuð var verkefnastjórn á fyrri hluta árs 2017 sem gegnir því hlutverki að halda utan um greiningu, innleiðingu og kynningu heimsmarkmiðanna. Í verkefnastjórn voru skipaðir fulltrúar forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Hagstofu Íslands. Verkefnastjórnin, sem starfar undir forystu forsætisráðuneytis og varaformennsku utanríkisráðuneytis, hefur lokið við gerð stöðuskýrslu og forgangsröðun heimsmarkmiðanna ásamt því að koma á fót ungmennaráði og kynningarherferð.

Heimsmarkmiðin eru veigamikill þáttur í allri umræðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og vegvísir undirstofnana í öllu þeirra starfi. Í allsherjarþinginu beitir Ísland sér sérstaklega fyrir mannréttindum, jafnrétti og sjálfbærri nýtingu auðlinda með áherslu á orku, haf og landgræðslu. Þar bar hæst formennsku Íslands í mannréttindanefnd allsherjarþingsins en Ísland tók einnig að sér formennsku í nefnd um félagslega þróun og viðræðustjórn í samningaviðræðum um endurskoðun á efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). Ísland var áfram öflugur málsvari kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna á vettvangi SÞ, m. a. skrifaði utanríkisráðherra undir rammasamning við Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), og forseti Íslands tók í desember við hlutverki eins talsmanna HeForShe-átaksins svonefnda.


Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna


ECOSOC ber meginábyrgð á að hvetja til og samræma innleiðingu heimsmarkmiðanna, bæði gagnvart aðildarríkjum og innan SÞ kerfisins. Í júlí á hverju ári efnir ECOSOC til pólitísks umræðuvettvangs (High Level Political Forum, HLPF) þar sem staða innleiðingar heimsmarkmiðanna er tekin fyrir með áherslu á afmarkaðan hluta þeirra, auk þess sem hluti aðildarríkjanna undirgengst valkvæða jafningjarýni. Á HLPF í júlí 2018 verður m.a. um 7. heimsmarkmiðið um sjálfbæra orku og hyggst Ísland standa fyrir hliðarviðburði um jarðhitaorku. Árið 2019 er síðan stefnt að því að forsætisráðherra leiði fyrirtöku Íslands í jafningjarýninni og geri grein fyrir heildarinnleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum öllum. Á vettvangi allsherjarþingsins má síðan geta þess að líkt og undanfarin ár leiddi Ísland samningaviðræður um ályktun um eyðimerkurmyndun og landgræðslu í annarri nefnd sem fjallar um sjálfbæra þróun.

Ísland tók virkan þátt í ráðstefnu SÞ um innleiðingu 14. heimsmarkmiðsins um heilbrigði sjávar, sem haldin var í júní 2017 með þátttöku umhverfis- og auðlindaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar lagði Ísland áherslu á ábyrga fiskveiðistjórnun byggða á vísindalegri nálgun og mikilvægi þess að miðla af þekkingu þar að lútandi, líkt og gert er í gegnum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ísland lagði fram áheit um aðgerðir til að stuðla að bættu ástandi sjávar sem lúta að því að draga úr plastmengun í sjó, auka þekkingu á afleiðingum súrnunar sjávar og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ljúka kortlagningu hafsbotnsins innan íslenskrar efnahagslögsögu og koma á nýtingaráætlunum fyrir mikilvægustu fiskistofnana. Ísland styður einnig átak Umhverfisstofnunar SÞ (e. UN Environment, UNEP) gegn plasti í sjó. Þá tók Ísland virkan þátt í störfum allsherjarþingsins tengdum málefnum hafsins líkt og hefð er fyrir.

Fastanefnd Íslands fylgist með störfum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, m.a. í gegnum norrænt samstarf þar sem Svíþjóð á nú sæti í ráðinu. Þá tekur Ísland reglulega þátt í opnum umræðum á vettvangi ráðsins, stundum í samstarfi við líkt þenkjandi ríki eins og Norðurlönd og leggur m.a. áherslu á málefni Mið-Austurlanda og stöðu kvenna í átökum. Ísland ber sig einnig eftir beinni þátttöku í nefndum og stjórnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sem stendur sækist Ísland eftir sæti í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2019-2023, en kosningar fara fram í júní 2018. Þá hafa stjórnvöld ákveðið að Ísland bjóði sig fram til setu í framkvæmdastjórn Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) fyrir tímabilið 2021-2025. Framboð Íslands fer fram undir samnorrænum hatti, en Norðurlöndin hafa skipst á að taka sæti í stjórn UNESCO. Ísland átti síðast sæti í stjórn UNESCO fyrir tímabilið 2001-2005.

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York

Ríkisstjórn og utanríkisráðherra móta íslenska utanríkisstefnu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það hlutverk fastanefndar Íslands að framkvæma hana, samkvæmt fyrirmælum utanríkisráðuneytisins.

Áherslur í starfi fastanefndar fara eftir þeim markmiðum, þeirri stefnu og þeim hagsmunamálum sem stjórnvöld hafa og vinna að á hverjum tíma innan Sameinuðu þjóðanna. Fastanefndin tekur þátt í umræðum í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum stofnunarinnar í New York með það að markmiði að hafa áhrif á stefnu, verkefni og stjórnun stofnunarinnar í samræmi við stefnu Íslands í málefnum Sameinuðu þjóðanna.

Hlutverk fastanefndarinnar er að vera tengiliður í samskiptum, upplýsa ráðuneytið og veita ráðgjöf um framvindu mála með reglulegum hætti. Fastanefndin sendir utanríkisráðuneytinu upplýsingar um eðli mála og afstöðu annarra ríkja og greiðir atkvæði í nafni Íslands samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins.

Flestar samþykktir allsherjarþingsins eru í formi ályktana. Undir hverjum dagskrárlið geta komið fram fleiri en ein ályktunartillaga. Einnig geta komið fram breytingartillögur sem valda því að oft skýrist ekki hvernig endanlegur texti ályktunartillögu verður fyrr en rétt áður en atkvæði eru greidd. Enn fremur eru stundum greidd atkvæði um einstaka liði ályktunartillögu.

Kemur þá til kasta fastanefndar að meta hvort efnisbreytingar gefi ástæðu til þess að atkvæði verði greitt með öðrum hætti en ákveðið hafði verið í samráði við utanríkisráðuneytið.

Margar ályktunartillögur eru afgreiddar án atkvæðagreiðslu og er að jafnaði stefnt að sem víðtækastri samstöðu. Nokkuð er um hjásetu sem túlka má á mismunandi vegu. Þegar tvær tillögur liggja fyrir um sama dagskrárlið og viðkomandi land er meðflytjandi að þeirri tillögunni sem það telur betri kostinn er t.a.m. algengt að setið sé hjá við afgreiðslu hinnar tillögunnar, án þess að viðkomandi land sé mótfallið efni hennar. Einnig hefur tíðkast í viðkvæmum málum að lönd sitji hjá við afgreiðslu ályktana og gefi síðan atkvæðaskýringu þar sem fram kemur hvers vegna ályktuninni var ekki greitt atkvæði. Einkum hefur slíkt tíðkast þegar þróunarlönd eða minnihlutahópar, sem telja sig órétti beitta, eiga í hlut. Enn fremur getur verið erfitt að taka afstöðu í sumum deilumálum ríkja þar sem báðir aðilar virðast bera ábyrgð á vandanum og því setið hjá.

Ályktanir allsherjarþingsins eru ekki lagalega bindandi og hafa mörg lönd tekið upp þá stefnu að reyna að forðast samþykkt ályktana sem vitað er að ekki mun nást samkomulag um og ekki verður framfylgt enda getur samþykkt slíkra ályktana rýrt virðingu fyrir störfum allsherjarþingsins.

Norræn samvinna og Sameinuðu þjóðirnar

Norrænt samráð um málefni Sameinuðu þjóðanna er umfangsmikið. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlandanna halda reglulega fundi þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru meðal annars til umræðu. Þar að auki fjalla löndin um málefni Sameinuðu þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs, í beinum samskiptum milli ráðuneyta og einnig milli frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum. Enn fremur eru starfandi þingmannasamtök Norðurlanda þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru rædd.

Reglubundið norrænt samráð fer fram milli fastanefnda hjá höfuðstöðvunum í New York, skrifstofum Sameinuðu þjóðanna í Genf og Vín og hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París Hin Norðurlöndin eiga reglubundið samstarf milli fastanefnda sinna hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Róm, þ.e. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðalandbúnaðarþróunarsjóðnum (IFAD) og hjá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) í Naíróbí.

Haldnir eru reglulegir fundir þeirra embættismanna í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna sem fara með málefni Sameinuðu þjóðanna. Aðrir sérfræðingar í utanríkisráðuneytum Norðurlandanna eiga einnig reglubundna samráðsfundi um málefni innan Sameinuðu þjóðanna, m.a. þjóðréttarfræðingar um þjóðréttarleg mál og sérfræðingar um mannúðar- og mannréttindamál.

Samstarf Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum hefur tekið nokkrum breytingum, einkanlega hvað varðar sameiginlegan málflutning sem dregist hefur saman. Ástæðan fyrir því er sú að aukin áhersla Evrópusambandsins á sameiginlega utanríkisstefnu hefur leitt til þess að ríki Evrópusambandsins, þ.á m. Danmörk, Finnland og Svíþjóð, reyna til hins ítrasta að móta sameiginlega afstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir að hinn ytri rammi norræna samstarfsins hafi tekið breytingum heldur norrænt samráð eftir sem áður áfram og hefur verið brugðist við þessum breytingum með ýmsum hætti. Norrænu utanríkisráðherrarnir samþykktu til dæmis tillögur um að viðhalda og styrkja norræna samvinnu á alþjóðavettvangi þegar aðstæður leyfðu, norrænt samráð og framlag á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, svo og að viðhalda sameiginlegum framboðum. Ljóst er að vilji er til að viðhalda hinni sterku ímynd sem Norðurlöndin hafa skapað sér sem samheldinn ríkjahópur innan Sameinuðu þjóðanna sem vinnur m.a. að bættum mannréttindum og jafnrétti.

Tenglar

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira