Hoppa yfir valmynd

Sáttmáli hinna Sameinuðu þjóða og Samþykktir milliríkjadómsins

INNGANGSORÐ

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður 26. júní 1945 í San Fransisco, í lok ráðstefnu sem þar var haldin til þess að koma á fót alþjóðlegum samtökum. Gekk sáttmálinn í gildi 24. október 1945. Samþykktir Milliríkjadómstólsins eru óaðskiljanlegur hluti sáttmálans.

Breytingar á 23., 27. og 61. gr. sáttmálans voru samþykktar á allsherjarþinginu 17. desember 1963 og gengu í gildi 31. ágúst 1965. Nýjar breytingar á 61. gr. voru samþykktar á allsherjarþinginu 20. desember 1971 og gengu í gildi 24. september 1973. Breytingin á 109. gr., sem samþykkt var á allsherjarþinginu 20. desember 1965, gekk í gildi 12. júní 1968.

Með breytingunni á 23. gr. er meðlimum öryggisráðsins fjölgað úr ellefu í fimmtán. Í 27. gr. breyttri kveður svo á, að ákvarðanir öryggisráðs er varða fundarsköp þurfi stuðning níu meðlima (áður sjö), og öll önnur mál verði níu meðlimir (áður sjö), þ.á m. ríkin fimm sem eiga fasta aðild að ráðinu, að styðja til þess að þau nái fram að ganga.

Með breytingunni á 61. gr., sem gekk í gildi 31. ágúst 1965, er fjölgað í efnahags- og félagsmálaráði úr átján í tuttugu og sjö meðlimi. Með síðari breytingum á greininni, sem tóku gildi 24. september 1973, er enn fjölgað í ráðinu úr tuttugu og sjö í fimmtíu og fjóra meðlimi.

Með breytingunni á 109. gr., sem nær til fyrsta töluliðs greinarinnar, er svo á kveðið, að aðildarríkin geti haldið allsherjarráðstefnu í því skyni að endurskoða sáttmálann á stað og stundu sem ákveðið er með jákvæðum tveggja þriðju hluta á allsherjarþingi og stuðningi níu (áður sjö) meðlima öryggisráðs. Sáttmálinn er hér birtur eins og hann hljóðar að áorðnum framangreindum breytingum.

SÁTTMÁLI hinna SAMEINUÐU ÞJÓÐA

VÉR, HINAR SAMEINUÐU ÞJÓÐIR, STAÐRÁÐNAR Í

að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið,

að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar,

að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningum leiðir og öðrum heimildum þjóðaréttar,

að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum án frelsisskerðingar,

OG ÆTLUM Í ÞESSU SKYNI

að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði, svo sem góðum nágrönnum sæmir,

að sameina mátt vorn til að varðveita heimsfrið og öryggi,

að tryggja það með samþykkt grundvallarreglna og skipulagsstofnun, að vopnavaldi skuli eigi beita, nema í þágu sameiginlegra hagsmuna, og

að starfrækja alþjóðaskipulag til eflingar efnahagslegum og félagslegum framförum allra þjóða,

HÖFUM VIÐ ORÐIÐ ÁSÁTTAR UM AÐ SAMEINA KRAFTA VORA TIL AÐ NÁ ÞESSU MARKMIÐI.

Því hafa ríkisstjórnir vorar, hver um sig, fyrir milligöngu fulltrúa, er saman eru komnir í borginni San Francisco og lagt hafa fram umboðsskjöl sín, er reynst hafa í góðu og réttu lagi, komið sér saman um þennan sáttmála hinna sameinuðu þjóða og stofna hér með alþjóðabandalag, sem bera skal heitið hinar sameinuðu þjóðir.

 

I. kafli

MARKMIÐ OG GRUNDVALLARREGLUR

1. gr.

Markmið hinna sameinuðu þjóða er:
1) að varðveita heimsfrið og öryggi og gera í því skyni virkar, sameiginlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir og eyða hættu á friðrofi og til að bæla niður árásaraðgerðir eða friðrof og til á friðsamlegan hátt og í samræmi við grundvallarreglur réttvísi og þjóðaréttar að koma á sættum eða lausn milliríkja deilumála eða ástands, sem leiða kann til friðrofs,
2) að efla vinsamlega sambúð þjóða á milli, er byggð sé á virðingu fyrir grundvallaratriði jafnréttis og sjálfsákvörðunarréttar, og gera aðrar hæfilegar ráðstafanir til að styrkja alheimsfrið,
3) að koma á alþjóðasamvinnu um lausn alþjóðavandamála, efnahagslegs, félagslegs, menningarlegs og mannúðarlegs eðlis, og að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsisréttindum allra án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða, og
4) að vera miðstöð til samræmingar á aðgerðum þjóða til að ná þessu sameiginlega markmiði.

2. gr.

Bandalagið og meðlimir þess skulu í viðleitni sinni til að ná því markmiði, er um getur í 1. grein, fara eftir þessum grundvallarreglum:
1) Bandalagið byggist á grundvallarreglunni um fullvalda jafnræði allra meðlima þess.
2) Í því skyni að tryggja öllum meðlimum þau réttindi og hlunnindi, er af þátttöku leiðir, skulu allir meðlimir trúlega standa við skuldbindingar þær, sem þeir hafa á sig tekið með sáttmála þessum.
3) Allir meðlimir skulu leysa milliríkjadeilur sínar á friðsamlegan hátt, þannig að heimsfriði, öryggi og réttvísi sé ekki í hættu stofnað.
4) Allir meðlimir skulu í milliríkjaskiptum varast hótanir um valdbeitingu eða beitingu valds gegn landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði nokkurs ríkis eða á neinn annan hátt, sem kemur í bága við markmið hinn sameinuðu þjóða.
5) Meðlimir skulu veita hinum sameinuðu þjóðum alla aðstoð í sérhverju starfi, sem þær framkvæma samkvæmt þessum sáttmála, og skulu ekki aðstoða nokkurt ríki, sem hinar sameinuðu þjóðir beita hindrunar- eða þvingunarráðstöfunum.
6) Bandalagið skal tryggja, að ríki, sem ekki eru meðlimir hinna sameinuðu þjóða, starfi í samræmi við þessar grundvallarreglur, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt til varðveislu heimsfriði og öryggi.
7) Ekkert ákvæði þessa sáttmála heimilar hinum sameinuðu þjóðum að skipta sér af málum, sem koma í aðalatriðum undir eigin lögsögu ríkis, eða skyldar meðlimi til að leggja slík mál fyrir til lausnar samkvæmt þessum sáttmála; þessi grundvallarregla skal samt ekki hindra framkvæmd þvingunaraðgerða samkvæmt VII. kafla.

 

II. kafli

ÞÁTTTAKA

3. gr.

Stofnmeðlimir hinna sameinuðu þjóða eru þau ríki, sem tóku þátt í ráðstefnu hinna sameinuðu þjóða um alþjóðabandalag í San Francisco eða hafa áður undirritað yfirlýsingu hinna sameinuðu þjóða frá 1. janúar 1942, og undirrita þennan sáttmála og staðfesta í samræmi við 110. gr.

4. gr.

1) Þátttaka í hinum sameinuðu þjóðum er heimil öllum friðsömum ríkjum, sem takast á hendur skuldbindingarnar í þessum sáttmála og að áliti bandalagsins eru hæf og fús til að fullnægja þessum skuldbindingum.
2) Allsherjarþingið tekur ákvörðun um inngöngu hvers slíks ríkis eftir tillögu frá öryggisráðinu.

5. gr.

Nú hefur öryggisráðið beitt meðlim hindrunar- og þvingunarráðstöfunum, og getur allsherjarþingið þá eftir tillögu öryggisráðsins tekið af honum heimild til að nota réttindi og sérréttindi meðlima. Öryggisráðið getur veitt á ný heimild til að nota þessi réttindi og sérréttindi.

6. gr.

Allsherjarþingið getur eftir tillögu öryggisráðsins rekið úr bandalaginu meðlim, sem hefur hvað eftir annað brotið grundvallarreglur þessa sáttmála.

 

III. kafli

STOFNANIR

7. gr.

1) Þessar eru aðalstofnanir hinna sameinuðu þjóða: Allsherjarþing, öryggisráð, efnahags- og félagsmálaráð, gæsluverndarráð, alþjóðadómstóll og skrifstofa.
2) Þær undirstofnanir, sem kunna að verða nauðsynlegar, má setja á fót samkvæmt þessum sáttmála.

8. gr.

Hinar sameinuðu þjóðir skulu ekki setja neinar takmarkanir á val karla og kvenna til þátttöku í hvaða störfum sem er, við jöfn skilyrði, hjá aðal- og undirstofnunum þeirra.

 

IV. kafli

ALLSHERJARÞINGIÐ

Skipan

9.gr.

1) Allsherjarþingið er skipað meðlimum hinna sameinuðu þjóða.
2) Hver meðlimur skal ekki hafa fleiri en fimm fulltrúa á allsherjarþinginu.

 

Störf og völd

10. gr.

Allsherjarþingið má fjalla um öll mál og málefni, sem koma undir þennan sáttmála eða snerta vald og störf allra stofnana, sem um ræðir í þessum sáttmála, og að undanskildu því, sem segir í 12. grein, er heimilt að gera tillögur til meðlima hinna sameinuðu þjóða eða öryggisráðsins eða hvort tveggja varðandi öll slík mál og málefni.

11. gr.

1) Allsherjarþinginu er heimilt að fjalla um hinar almennu grundvallarreglur fyrir samstarfi til varðveislu heimsfriðar og öryggis, þar með taldar þær grundvallarreglur, sem gilda um afvopnun og skipan herbúnaðar, og er heimilt að gera tillögur varðandi þessar grundvallarreglur til meðlimanna eða öryggisráðsins eða hvort tveggja.
2) Allsherjarþinginu er heimilt að ræða öll mál varðandi varðveislu heimsfriðar og öryggis, sem eru lögð fyrir það af sérhverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða eða öryggisráðinu eða ríki, sem er ekki meðlimur hinna sameinuðu þjóða sbr. 35. gr., 3. lið, og er heimilt, að undanskildu því, sem getið er í 12. gr., að gera tillögur um öll mál til viðkomandi ríkis eða ríkja eða til öryggisráðsins eða hvort tveggja. Sérhverju máli, sem þarf framkvæmdar við, skal allsherjarþingið vísa til öryggisráðsins annaðhvort fyrir eða eftir að umræður hafa farið fram.
3) Allsherjarþingið má vekja athygli öryggisráðsins á ástandi, sem getur stofnað heimsfriði og öryggi í hættu.
4) Þau völd allsherjarþingsins, sem um ræðir í þessari grein, takmarka ekki ákvæði 10. greinar.

12. gr.

1) Á meðan öryggisráðið fer með það vald, sem því er falið í þessum sáttmála, út af deilumáli eða ástandi, skal allsherjarþingið ekki gera neina tillögu viðvíkjandi sömu deilumálum og ástandi, nema öryggisráðið fari þess á leit.
2) Aðalframkvæmdastjórinn skal með samþykki öryggisráðsins skýra allsherjarþinginu við hvert þinghald frá öllum málum varðandi varðveislu heimsfriðar og öryggis, sem öryggisráðið hefur til afgreiðslu, og skal einnig tilkynna allsherjarþinginu eða meðlimum hinna sameinuðu þjóða, ef allsherjarþingið stendur ekki yfir, strax og öryggisráðið hættir að fjalla um slík mál.

13. gr.

1) Allsherjarþingið skal koma á stað rannsóknum og gera tillögur með það fyrir augum að:
a. efla alþjóðasamvinnu á sviði stjórnmála og stuðla að þróun þjóðaréttar og flokkun hans,
b. efla alþjóðasamvinnu á sviði efnahags- og félagsmála, menningar- mennta-, og heilbrigðismála, og stuðla að framkvæmd mannréttinda og grundvallarfrelsis fyrir alla án tillits til kynþáttar, kyns, tungu og trúarbragða.
2) Frekari ábyrgðar, starfa og valda allsherjarþingsins, að því er snertir mál umrædd í 1. lið hér að ofan, er getið í IX. og X. kafla.

14. gr.

Með þeim takmörkunum, sem felast í ákvæðum 12. greinar, er allsherjarþinginu heimilt að mæla með aðgerðum, er miða að friðsamlegri lausn á vandamáli, án tillits til uppruna þess, sem það álítur að geti líklega spillt almennri hagsæld og vinsamlegri sambúð þjóða á milli, þar með talin brot á ákvæðum þessa sáttmála um markmið og grundvallarreglur hinna sameinuðu þjóða.

15. gr.

1) Allsherjarþingið tekur á móti og athugar árlegar og sérstakar skýrslur frá öryggisráðinu. Í skýrslum þessum skal gerð grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem öryggisráðið hefur samþykkt til varðveislu heimsfriði og öryggi.
2) Allsherjarþingið tekur á móti og athugar skýrslur frá öðrum stofnunum hinna sameinuðu þjóða.

16. gr.

Allsherjarþingið framkvæmir þau störf í sambandi við alþjóða gæsluverndarkerfið, sem því eru falin samkvæmt XII. og XIII. kafla, þar með samþykki gæsluverndarsamninganna fyrir landsvæði, sem ekki teljast hafa hernaðarlega þýðingu.

17. gr.

1) Allsherjarþingið athugar og samþykkir efnahagsáætlun bandalagsins.
2) Meðlimirnir bera kostnað við bandalagið samkvæmt skiptingu allsherjarþingsins.
3) Allsherjarþingið athugar og samþykkir ráðstafanir varðandi fjármál og fjárhagsáætlanir, sem gerðar eru við sérstofnanir þær, sem um getur í 57. grein, og fer yfir rekstraráætlun þessara sérstofnana með það fyrir augum að gera tillögur til hlutaðeigandi stofnana.

 

ATKVÆÐAGREIÐSLA

 18. gr.

1) Hver meðlimur allsherjarþingsins hefur eitt atkvæði.
2) Ákvarðanir allsherjarþingsins í þýðingarmiklum málum skulu samþykktar með atkvæðum tveggja þriðju hluta þeirra meðlima, sem viðstaddir eru og greiða atkvæði. Til þeirra mála teljast: tillögur varðandi varðveislu heimsfriðar og öryggis, kosning þeirra meðlima öryggisráðsins, sem ekki eiga þar fast sæti, kosning meðlima í efnahags- og félagsmálaráðið, kosning meðlima í gæsluverndarráðið, sbr. lið 1 c 86. greinar, inntaka nýrra meðlima í hinar sameinuðu þjóðir, afnám til bráðabirgða á réttindum og sérréttindum, sem fylgja þátttöku, brottrekstur meðlima, mál varðandi framkvæmd gæsluverndarkerfisins og mál varðandi fjárhagsáætlanir.
3) Ákvarðanir um önnur mál, þar með talin ákvörðunin um aðra málaflokka til viðbótar, sem taka skal ákvörðun um með tveimur þriðju hlutum atkvæða, skulu hafa atkvæði meiri hluta þeirra meðlima, sem viðstaddir eru og atkvæði greiða.

19. gr.

Nú skuldar meðlimur hinna sameinuðu þjóða framlag til bandalagsins, og skal hann þá ekki hafa atkvæðisrétt á allsherjarþingi, ef skuldin er jöfn eða meiri en framlög þau, sem honum ber að greiða fyrir tvö undanfarin ár. Samt sem áður getur allsherjarþingið heimilað slíkum meðlimi að greiða atkvæði, ef það er fullvissað um, að vanskilin orsakast af ástandi, sem meðlimurinn ræður ekki við.

 

ÞINGSKÖP

20. gr.

Allsherjarþingið kemur saman árlega til reglulegs þings, en til aukaþings eins og ástæður krefjast. Aðalframkvæmdastjórinn kveður saman aukaþing eftir tilmælum öryggisráðsins eða meiri hluta hinna sameinuðu þjóða.

21. gr.

Allsherjarþingið setur sér sjálft þingsköp. Það kýs forseta fyrir hvert þing.

22. gr.

Allsherjarþinginu er heimilt að setja á fót þær undirstofnanir, sem það telur nauðsynlegar til að framkvæma störf sín.

 

V. kafli

ÖRYGGISRÁÐIÐ

Skipan

23. gr.

1) Öryggisráðið skipa fimmtán meðlimir hinna sameinuðu þjóða. Lýðveldið Kína, Frakkland, Sovétríkin, Sameinaða konungsríki Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og Bandaríki Ameríku eiga fast sæti í öryggisráðinu. Allsherjarþingið kýs í öryggisráðið tíu aðra meðlimi hinna sameinuðu þjóða og eiga þeir þar eigi fast sæti, og skal í fyrsta lagi tekið tillit til þess, hversu meðlimir hinna sameinuðu þjóða hafa stuðlað að varðveislu heimsfriðar og öryggis og unnið að markmiði bandalagsins að öðru leyti, og enn fremur til jafnrar dreifingar eftir hnattstöðu.
2) Meðlimir öryggisráðsins, sem ekki eiga þar fast sæti, eru kosnir til tveggja ára. Við fyrstu kosningar þessara meðlima eftir að þeim hefur verið fjölgað úr ellefu í fimmtán, skulu þó tveir þeirra fjögurra meðlima, sem um er fjölgað, kosnir til eins árs. Fráfarandi meðlim má eigi endurkjósa til næsta kjörtímabils.
3) Hver meðlimur öryggisráðsins hefur einn fulltrúa.

 

Störf og völd

24. gr.

1) Til þess að tryggja skjótar og haldgóðar aðgerðir af hálfu hinna sameinuðu þjóða, fela meðlimir þeirra öryggisráðinu aðalábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis og eru ásáttir um, að öryggisráðið starfi fyrir þeirra hönd, þegar það framkvæmir skyldustörf sín í samræmi við þessa ábyrgð.
2) Öryggisráðið skal við framkvæmd skyldustarfa sinna starfa í samræmi við markmið og grundvallarreglur hinna sameinuðu þjóða. Hin ákveðnu völd, sem öryggisráðinu eru veitt til framkvæmdar þessum skyldustörfum, eru skilgreind í VI., VII., VIII. og XII. kafla.
3) Öryggisráðið skal leggja fyrir allsherjarþingið til athugunar ársskýrslu og, þegar nauðsynlegt þykir, sérstakar skýrslur.

25. gr.

Meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru ásáttir um að fallast á og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við ákvæði þessa sáttmála.

26. gr.

Í þeim tilgangi að stuðla að því að koma á fót og varðveita heimsfrið og öryggi, þannig að sem minnst af mannafla og fjárhaglsegri orku heimsins fari í framleiðslu hergagna, skal öryggisráðið, með aðstoð herforingjanefndarinnar, sem getið er í 47. gr., bera ábyrgð á samningu áætlana um stofnun kerfis fyrir skipan herbúnaðar, og skulu þær lagðar fyrir meðlimi hinna sameinuðu þjóða.

 

Atkvæðagreiðsla

27. gr.

1) Hver meðlimur öryggisráðsins hefur eitt atkvæði.
2) Til ákvarðana öryggisráðsins í málum um fundarsköp þarf jákvæði níu meðlima ráðsins.
3) Til ákvarðana í öllum öðrum málum þarf jákvæði níu meðlima, að meðtöldum atkvæðum hinna föstu meðlima þó með því skilyrði, að í ákvörðunum mála, sem nefnd eru í VI. kafla og í 3. lið 52. gr., skuli deiluaðili sitja hjá við atkvæðagreiðslu.

 

Fundarsköp

 28. gr.

1) Öryggisráðið skal þannig skipulagt, að það sé ætíð starfhæft. Hver meðlimur öryggisráðsins skal í þessu skyni ætíð hafa fulltrúa á aðsetursstað bandalagsins.
2) Öryggisráðið heldur við og við fundi, þar sem hverjum meðlim ráðsins er heimilt, ef hann óskar þess, að láta stjórnarmeðlim eða annan sérstaklega tilnefndan mann mæta sem fulltrúa sinn.
3) Öryggisráðinu er heimilt að halda fundi á þeim stöðum, öðrum en aðsetursstað bandalagsins, sem eftir dómi ráðsins munu á bestan hátt auðvelda störf þess.

29. gr.

Öryggisráðinu er heimilt að setja á fót undirstofnanir sér til aðstoðar í starfi sínu, eftir því sem það álítur nauðsynlegt.

30. gr.

Öryggisráðið setur sér fundarsköp, þar með fyrirkomulag um val forseta þess.

31. gr.

Sérhverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem ekki er meðlimur öryggisráðsins, er heimilt, án atkvæðagreiðslu, að taka þátt í umræðum um sérhvert mál, sem lagt er fyrir öryggisráðið, þegar hið síðarnefnda álítur, að slíkt snerti hagsmuni þess meðlims sérstaklega.

32. gr.

Sérhverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem á ekki sæti í öryggisráðinu, eða sérhverju ríki, sem er ekki meðlimur í hinum sameinuðu þjóðum, skal boðið, ef það er aðili að deilumáli, sem er til athugunar hjá öryggisráði, að taka þátt í umræðum um það deilumál, án atkvæðisréttar. Öryggisráðið getur sett þau skilyrði, sem það telur réttmæt, fyrir þátttöku ríkis, sem ekki er meðlimur í hinum sameinuðu þjóðum.

 

VI. kafli

FRIÐSAMLEG LAUSN DEILUMÁLA

 33. gr.

1) Aðilar að sérhverju deilumáli, sem með áframhaldi gæti stofnað í hættu heimsfriði og öryggi, skulu fyrst leita lausnar á deilumálinu með samningaumleitunum, rannsókn, miðlun, sættargerð, gerðardómi, dómsúrskurði, afnotum svæðisstofnana eða samninga, eða með öðrum friðsamlegum aðferðum skv. eigin vali.
2) Ef öryggisráðinu þykir nauðsyn krefja, skal það kveðja deiluaðila til að leita lausnar á deilumáli sínu á slíkan hátt.

34. gr.

Öryggisráðinu er heimilt að rannsaka sérhvert deilumál eða sérhvert vandamál, sem gæti leitt til milliríkja áreksturs eða valdið deilu, til þess að ganga úr skugga um, hvort áframhald deilunnar eða vandamálsins sé líklegt til þess að stofna heimsfriði og öryggi í hættu.

35. gr.

1) Hverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða er heimilt að vekja athygli öryggisráðsins eða allsherjarþingsins á hverju slíku deilumáli eða vandamáli, sem um getur í 34. grein.
2) Nú er ríki ekki meðlimur hinna sameinuðu þjóða, og er því þá heimilt að vekja athygli öryggisráðsins eða allsherjarþingsins á hverri þeirri deilu, sem það er aðili að, ef það fyrirfram skuldbindur sig til að fylgja reglum þeim um friðsamlega lausn deilumála, sem settar eru í þessum sáttmála.
3) Þingstörfum allsherjarþingsins við meðferð mála, sem athygli þess hefur verið vakin á, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal hagað í samræmi við ákvæði 11. og 12. gr.

36. gr.

1) Heimilt er öryggisráði, á hvaða stigi máls sem er, að mæla með hæfilegum aðgerðum eða aðferðum til leiðréttingar á deilumáli eða vandamáli þess eðlis, sem um ræðir í 33. gr.
2) Öryggisráðinu ber að taka til greina allar þær aðferðir til lausnar deilumálsins, sem deiluaðilar hafa þegar tekið upp.
3) Er öryggisráðið gerir tillögur sínar samkvæmt grein þessari, skal það einnig taka til greina, að fylgja skal þeirri venju, að deiluaðilar leggi lagadeilur fyrir alþjóðadómstólinn, í samræmi við ákvæði samþykktar dómstólsins.

37. gr.

1) Ef aðilum að deilu þess eðlis, sem um ræðir í 33. grein, tekst ekki að leysa deiluna á einhvern þann hátt, sem um getur í þeirri grein, skulu þeir vísa deilumálinu til öryggisráðsins.
2) Nú álítur öryggisráðið, að framhald deilunnar muni að líkindum stofna heimsfriði og öryggi í hættu, og skal það þá ákveða, hvort það skuli hefja aðgerðir skv. 36. gr. eða gera þær tillögur um lausn málsins, sem það álítur heppilegar.

38. gr.

Ef báðir eða allir deiluaðilar óska þess, er öryggisráðinu heimilt að gera tillögur með friðsamlega lausn deilumálsins fyrir augum, án þess að það komi í bága við 33.-37. gr.

 

VII. kafli

AÐGERÐIR VEGNA ÓFRIÐARHÆTTU, FRIÐROFA OG ÁRÁSA

 39. gr.

Öryggisráðið skal úrskurða, hvort fyrir hendi sé ófriðarhætta, friðrof eða árás, og skal gera tillögur um, eða ákveða, hvaða ráðstafanir skuli gerðar í samræmi við 41. og 42. grein, til þess að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.

40. gr.

Til þess að koma í veg fyrir, að ástandið verði alvarlegra, er öryggisráðinu heimilt, áður en það gerir tillögur þær eða ráðstafanir, sem tilgreindar eru í 39. gr., að fara þess á leit við deiluaðila, að þeir hegði sér í samræmi við bráðabirgðaráðstafanir, sem ráðið telur nauðsynlegar eða æskilegar. Slíkar ráðstafanir skulu ekki skerða réttindi, kröfur eða aðstöðu hlutaðeigandi aðila. Öryggisráðið skal taka tillit til þess, ef misbrestur verður á að framfylgja slíkum bráðabirgðaráðstöfunum.

41. gr.

Öryggisráðinu er heimilt að ákveða, hvaða aðgerðir, aðrar en hernaðaraðgerðir, skuli viðhafðar til þess að framfylgja ákvörðunum þess, og getur það kvatt félaga hinna sameinuðu þjóða til þess að beita slíkum aðgerðum. Aðgerðir þessar mega vera fólgnar í því að slíta viðskiptasambandi að nokkru eða öllu leyti og rjúfa samgöngur með járnbrautum, á sjó, í lofti, einnig póst-, síma- og loftskeytasamband, og slíta stjórnmálasambandi.

42. gr.

Nú álítur öryggisráðið, að ráðstafanir þær, sem um getur í 41. gr., mundu verða ónógar eða hafi reynst ófullnægjandi, og getur ráðið þá gripið til hernaðaraðgerða með lofther, flota eða landher, eftir því sem nauðsyn krefur, til að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi. Slíkar aðgerðir mega vera fólgnar í ögrun, hafnbanni og öðrum aðgerðum lofthers, flota eða landhers meðlima hinna sameinuðu þjóða.

43. gr.

1) Í því skyni að stuðla að varðveislu heimsfriðar og öryggis, takast allir meðlimir hinna sameinuðu þjóða á hendur að láta öryggisráðinu í té, þegar það krefst þess, samkvæmt sérstökum samningi eða samningum, herlið, aðstoð og fríðindi, þar með talinn réttur til yfirferðar, eins og nauðsynlegt er til varðveislu heimsfriði og öryggi.
2) Slíkur samningur eða samningar skulu ákveða tölu og tegundir liðsveita, viðbúnað þeirra og almennt aðsetur, og eðli fríðinda þeirra og aðstoðar, sem láta skal í té.
3) Gera skal samninginn eða samningana eins fljótt og hægt er, og skal öryggisráðið hafa frumkvæðið. Þeir skulu gerðir milli öryggisráðsins og einstakra meðlima eða milli öryggisráðsins og meðlimahópa og skulu síðan staðfestir af samningsríkjum samkv. stjórnskipunarvenjum í hverju landi.

44. gr.

Nú hefur öryggisráðið ákveðið að beita valdi, og skal það þá, áður en það krefst þess, að meðlimur, sem ekki á sæti í ráðinu, leggi fram herlið í samræmi við þær skuldbindingar, sem hann hefur tekist á hendur skv. 43. gr., bjóða þeim meðlim, ef hann óskar þess, að eiga þátt í ákvörðunum öryggisráðsins um beitingu þess herliðs, sem hann leggur fram.

45. gr.

Til þess að gera hinum sameinuðu þjóðum kleift að hefja aðkallandi hernaðaraðgerðir, skulu meðlimir ætíð hafa reiðubúnar eigin lofthersveitir til sameiginlegra alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Öryggisráðið skal, með aðstoð herforingjanefndarinnar, ákvarða, innan takmarka þeirra sérstöku samninga, sem um getur í 43. gr., styrk og viðbúnað þessara sveita og áætlanir um sameiginlegar aðgerðir þeirra.

46. gr.

Öryggisráðið skal, með aðstoð herforingjanefndarinnar, gera áætlanir um notkun herafla.

47. gr.

1) Setja skal á stofn herforingjanefnd til þess að veita öryggisráðinu aðstoð og ráðleggingar um öll þau mál, sem varða hernaðarþarfir öryggisráðsins til varðveislu heimsfriðar og öryggis, notkun og stjórn herja þeirra, sem það fær til umráða, ákvæði um skipan herbúnaðar og hugsanlega afvopnun.
2) Herforingjanefndina skipa foringjar herforingjaráða hinna föstu meðlima öryggisráðsins, eða fulltrúar þeirra. Hverjum meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem ekki á fast sæti í herforingjanefndinni, skal af nefndinni boðið að vinna með henni, þegar samstarf þess meðlims er nauðsynlegt til að tryggja góðan árangur af skyldustörfum nefndarinnar.
3) Herforingjanefndin skal bera ábyrgð gagnvart öryggisráðinu á hernaðarlegri stjórn þeirra herja, sem fengnir eru öryggisráðinu til umráða. Síðan skulu teknar ákvarðanir um forustu slíkra hersveita.
4) Samkv. heimild frá öryggisráðinu og í samráði við hlutaðeigandi svæðisstofnanir getur herforingjanefndin sett á stofn undirnefndir fyrir einstök svæði.

48. gr.

1) Eftir því sem öryggisráðið ákveður, skulu allir meðlimir hinna sameinuðu þjóða, eða aðeins sumir þeirra, taka þátt í aðgerðum þeim, sem nauðsynlegar eru til að framfylgja ákvörðunum ráðsins til varðveislu heimsfriðar og öryggis.
2) Slíkum ákvörðunum skal framfylgt af meðlimum hinna sameinuðu þjóða beint, svo og með aðgerðum þeirra í hlutaðeigandi alþjóðstofnunum, þar sem þeir eru meðlimir.

49. gr.

Meðlimir hinna sameinuðu þjóða skulu taka höndum saman og veita hver öðrum gagnkvæma hjálp í framkvæmd þeirra aðgerða, sem öryggisráðið hefur ákveðið.

50. gr.

Nú hefur öryggisráðið hindrunar- eða þvingunarráðstafanir gegn einhverju ríki, og skal þá hvaða annað ríki sem er, hvort sem það er meðlimur hinna sameinuðu þjóða eða ekki, sem telur sig hafa mætt sérstökum fjárhagslegum vandamálum vegna framkvæmda þessara ráðstafana, hafa rétt til að leita ráða öryggisráðsins um lausn á vandamálum þessum.

51. gr.

Engin ákvæði þessa sáttmála skulu takmarka hinn órjúfanlega rétt ríkis til sjálfsvarnar, eitt sér eða með öðrum ríkjum, ef ráðist er með hervaldi á meðlim hinna sameinuðu þjóða, þangað til öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis. Ráðstafanir, gerðar af meðlimum við framkvæmd þessa sjálfsvarnarréttar, skulu undireins tilkynntar öryggisráðinu, og skulu þær á engan hátt skerða vald og ábyrgð öryggisráðsins samkv. þessum sáttmála til að hefja, hvenær sem er, þær aðgerðir, sem það álítur nauðsynlegar til að varðveita eða koma á aftur heimsfriði og öryggi.

 

VIII. kafli

SVÆÐISSAMNINGAR

 52. gr.

1) Í þessum sáttmála eru engin þau ákvæði, sem útiloka, að gera megi svæðissamninga eða stofna svæðisstofnanir til meðferðar á málum til varðveislu heimsfriði og öryggi, sem hæfileg þykja til svæðisframkvæmda, svo fremi sem slíkir samningar eða stofnanir og störf þeirra að öðru leyti séu í fullu samræmi við markmið og reglur hinna sameinuðu þjóða.
2) Þeir meðlimir hina sameinuðu þjóða, sem gera slíka samninga eða setja á fót stofnanir, skulu gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að friðsamleg lausn deilumála á staðnum fáist fyrir atbeina þessara svæðissamninga eða stofnana, áður en sú leið er farin að vísa þeim til aðgerða öryggisráðsins.
3) Öryggisráðið skal vinna að því, að friðsamleg lausn deilumála á staðnum fáist, fyrir atbeina svæðissamninga eða stofnana, annaðhvort að frumkvæði þeirra ríkja, sem hlut eiga að máli, eða samkvæmt tilvísun öryggisráðsins.
4) Þessi grein takmarkar á engan hátt 34. og 35. gr.

53. gr.

1) Þar sem það á við, skal öryggisráðið hagnýta sér slíka svæðissamninga eða svæðisstofnanir til þvingunarráðstafana, að svo miklu leyti sem vald þess nær til, en engar þvingunaraðgerðir má framkvæma í skjóli slíkra svæðissamninga eða fyrir atbeina slíkra svæðisstofnana með heimild öryggisráðsins, að undanteknum ráðstöfunum gegn óvinaríki, sbr. skýringu í 2. lið þessarar gr., eins og ráð er fyrir gert samkv. 107. gr. eða í svæðissamningum, sem beinast gegn endurnýjaðri árásarstefnu af hendi slíks ríkis, þar til bandalaginu kann, samkv. beiðni þeirra ríkisstjórna, er hlut eiga að máli, að vera fengið það hlutverk að koma í veg fyrir frekari árásaraðgerðir af hendi slíks ríkis.
2) Orðið óvinaríki í 1. lið þessarar gr. á við sérhvert það ríki, sem í síðari heimsstyrjöldinni hefur verið óvinur einhvers þess ríkis, sem er aðili að undirskrift þessa sáttmála.

54. gr.

Ætíð skal gera öryggisráðinu fulla grein fyrir framkvæmdum til varðveislu heimsfriðar og öryggis, sem gerðar eru eða áformaðar samkvæmt svæðissamningum eða af svæðisstofnunum.

 

IX. kafli

ALÞJÓÐASAMVINNA Í EFNAHAGS- OG FÉLAGSMÁLUM

 55. gr.

Í þeim tilgangi að skapa það jafnvægis- og velmegunarástand, sem er skilyrði fyrir friðsamlegri og vinsamlegir sambúð á milli þjóðanna og grundvallast á virðingu fyrir jafnréttishugsjóninni og sjálfsákvörðunarrétti þjóða, skulu sameinuðu þjóðirnar vinna að:
a. bættum lífskjörum, fullri atvinnu og aðstæðum til efnahagslegra og félagslegra framfara og þróunar,
b. lausn alþjóðaefnahagsmála, félagsmála, heilbrigðismála og mála, sem þeim eru skyld, alþjóðasamvinnu í menningar- og menntamálum og
   c. að efla og halda í heiðri mannréttindum og grundvallarfrelsishugsjónum, án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða.

56. gr.

Allir meðlimir skulu skuldbinda sig sameiginlega og hver í sínu lagi til að starfa í samvinnu við stofnunina að því að ná því marki, sem um ræðir í 55. gr.

57. gr.

1) Hinar ýmsu sérstofnanir, sem settar hafa verið á fót með samkomulagi ríkisstjórna og hafa á hendi víðtækar alþjóðaskyldur, svo sem ráð er fyrir gert í starfsreglum, sem þeim eru settar, í enfahagsmálum, félagsmálum, menningarmálum, menntamálum, heilbrigðismálum og málum, sem þeim eru skyld, skulu ná til hinna sameinuðu þjóða samkv. því, sem segir í 63. gr.
2) Stofnanir, sem þannig eru komnar í samband við hinar sameinuðu þjóðir, skulu hér eftir kallaðar sérstofnanir.

58. gr.

Bandalagið skal gera tillögur um samræmingu starfsaðferða og framkvæmda sérstofnananna.

59. gr.

Nú þykir æskilegt, að settar séu á fót sérstofnanir til viðbótar til þess að ná því marki, sem um ræðir í 55. gr., og skal bandalagið í því skyni hefja samninga við þau ríki, sem hlut eiga að máli.

60. gr.

Allsherjarþingið svo og efnahags- og félagsmálaráðið, sem starfar undir stjórn þess og nýtur í því skyni réttinda samkv. X. kafla, ber ábyrgð á, að þau störf bandalagsins, sem um ræðir í þessum kafla, séu unnin.

 

 X. kafli

EFNAHAGS- OG FÉLAGSMÁLARÁÐIÐ

Skipan
61. gr.

1) Efnahags- og félagsmálaráðið skipa 54 meðlimir hinna sameinuðu þjóða, kjörnir af allsherjarþinginu.
2) Með þeim undantekningum sem leiðir af 3. tölulið skulu 18 meðlimir í efnahags- og félagsmálaráðinu kjörnir ár hvert til þriggja ára. Nú víkur meðlimur úr ráðinu, og er þá heimilt að endurkjósa hann þá þegar.
3) Við fyrstu kosningu eftir fjölgun meðlima í efnahags- og félagsmálaráðinu úr 27 í 54 meðlimi skal, auk þeirra, sem kosnir eru í stað hinna 9 meðlima, er sæti eiga að víkja í lok þess árs, kjósa 27 meðlimi til viðbótar. Kjörtímabili 9 þessara 27 viðbótarmeðlima þannig kjörinna lýkur að ári liðnu og 9 annarra meðlima að tveimur árum liðnum samkvæmt reglum, er allsherjarþingið setur.
4) Sérhver meðlimur efnahags- og félagsmálaráðsins skal hafa einn fulltrúa.

 

Störf og völd
  62. gr.

1) Efnahags- og félagsmálaráð getur gert rannsóknir og gefið skýrslur eða átt frumkvæði að rannsóknum og skýrslugerð varðandi alþjóðleg efnahags- og félagsmál, menningar-, mennta- og heilbrigðismál og mál, sem þeim eru skyld, og gert tillögur um slík mál til allsherjarþingsins, til meðlima hinna sameinuðu þjóða og til þeirra sérstofnana, sem hlut eiga að máli.
2) Það getur gert tillögur, sem miða að því að efla og halda í heiðri virðingunni fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsishugsjónum öllum til handa.
3) Það getur gert uppkast að samningum, sem leggja skal fyrir allsherjarþingið varðandi málefni, sem undir það heyra.
4) Það getur kvatt saman alþjóðafundi í samræmi við þær reglur, sem hinar sameinuðu þjóðir hafa sett, til að fjalla um málefni, sem undir það heyra.

63. gr.

1) Efnahags- og félagsmálaráðið getur gert samning við hverja þá stofnun, sem um getur í 57. gr., um þá skilmála, sem uppfylla þarf, þegar koma á þeirri stofnun, sem um er að ræða, í samband við hinar sameinuðu þjóðir. Slíkir samningar skulu háðir samþykki allsherjarþingsins.
2) Það getur samræmt störf sérstofnananna með því að ráðgast við og gera tillögur til slíkra stofnana og með því að ráðgast við og gera tillögur til allsherjarþingsins og meðlima hinna sameinuðu þjóða.

64. gr.

1) Efnahags- og félagsmálaráðið getur gert þær ráðstafanir, sem við eiga, til þess að fá skýrslur reglulega frá sérstofnununum. Það getur gert samkomulag við meðlimi hinna sameinuðu þjóða og sérstofnanirnar um að fá skýrslur um þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til framkvæmda á þess eigin tillögum og tillögum allsherjarþingsins um mál, sem undir það heyra.
2) Það getur tilkynnt allsherjarþinginu athugasemdir sínar um skýrslur þessar.

65. gr.

Efnahags- og félagsmálaráðið getur útvegað öryggisráðinu upplýsingar og skal vera öryggisráðinu til aðstoðar, ef það óskar þess.

66. gr.

1) Við framkvæmd tillagna allsherjarþings skal efnahags- og félagsmálaráðið vinna þau störf, sem undir þess svið heyra.
2) Það getur með samþykki allsherjarþings framkvæmt störf samkvæmt beiðni meðlima hinna sameinuðu þjóða og sérstofnana.
3) Að öðru leyti skal það vinna störf samkvæmt því, sem annars staðar er tilgreint í sáttmála þessum eða því kunna að verða falin af allsherjarþinginu.

 

Atkvæðagreiðsla

 67. gr.

1) Hver meðlimur efnahags- og félagsmálaráðsins hefur eitt atkvæði.
2) Ákvarðanir efnahags- og félagsmálaráðsins skulu samþykktar af meiri hluta þeirra, sem viðstaddir eru og atkvæði greiða.

 

Fundarsköp

 68. gr.

Efnahags- og félagsmálaráðið skal skipa nefndir, er fjalla um efnahags- og félagsmál og eflingu mannréttinda, auk þeirra annarra nefnda, sem þurfa þykir til að framkvæma þau störf, sem ráðinu hafa verið falin.

69. gr.

Nú er mál þannig vaxið, að það skiptir miklu einhvern meðlim hinna sameinuðu þjóða, og skal þá efnahags- og félagsmálaráðið bjóða þeim meðlim þátttöku án atkvæðisréttar í fundum sínum um það mál.

70. gr.

Efnahags - og félagsmálaráðið getur séð svo um, að fulltrúar sérstofnananna geti án atkvæðisréttar tekið þátt í fundarhöldum þess og í fundarhöldum þeirra nefnda, sem skipaðir eru af ráðinu. Einnig skal fulltrúum ráðsins heimil þátttaka í fundarhöldum sérstofnananna.

71. gr.

Efnahags- og félagsmálaráðið getur gert þær ráðstafanir, sem við eiga, til þess að ráðgast við stofnanir, sem ekki eru ríkisstofnanir, en fjalla um mál, sem undir það heyra. Slíkt má koma sér saman um við alþjóðastofnanir og, þegar það á við, við stofnanir í tilteknu landi, eftir að hafa ráðgast við þann meðlim hinna sameinuðu þjóða, sem hluta á að máli.

72. gr.

1) Efnahags- og félagsmálaráðið setur sér sjálft þingsköp, þar með talið, hvernig skuli kjósa forseta þess.
2) Efnahags- og félagsmálaráðið skal koma saman eftir því sem krafist er samkvæmt reglum þess, en í þeim skulu vera ákvæði um fundarboð samkvæmt beiðni meiri hluta meðlima þess.

 

 XI. kafli

YFIRLÝSING VARÐANDI LENDUR, SEM EKKI RÁÐA SÉR SJÁLFAR

  73. gr.

Meðlimir hinna sameinuðu þjóða, sem hafa á hendi eða taka að sér forræði lendna, þar sem íbúarnir hafa ekki enn öðlast fulla sjálfsstjórn, viðurkenna þá grundvallarreglu, að hagsmunir íbúa þessara lendna séu fyrir öllu, og telja sér það heilaga skyldu að stuðla af fremsta megni að vellíðan íbúa þessara lendna, innan þess kerfis til varðveislu heimsfriðar og öryggis, sem stofnað er til með sáttmála þessum, og í því skyni:
     a. að tryggja með fullu tilliti til menningar þeirra þjóða, sem hlut eiga að máli, stjórnmála-, efnahags-, félagsmála- og menntunarframfarir þeirra, réttláta meðferð á þeim og vernd gegn misnotkun;
     b. að þroska þær til sjálfsstjórnar, að taka réttmætt tillit til stjórnmálalegra óska þjóðanna og aðstoða þær að því er snertir framþróun hinna frjálsu stjórnmálalegu stofnana þeirra í samræmi við hina sérstöku staðhætti hverrar lendu, aðstæður íbúa hennar og hið mismunandi þroskastig þeirra;
     c. að stuðla að varðveislu heimsfriðar og öryggis;
     d. að gera ráðstafanir til eflingar framfara og þróunar, stuðla að vísindastarfsemi og hafa með sér samvinnu, og hvar og hvenær sem við á að hafa samvinnu við sérstakar alþjóðastofnanir í því skyni að framkvæma á sem haganlegastan hátt félagslegt, efnahagslegt og vísindalegt markmið, sem um getur í þessari grein, og
     e. að senda aðalframkvæmdastjóranum reglulega til leiðbeininga, að því leyti sem öryggisástæður og stjórnarfarsleg ákvæði leyfa, upplýsingar hagfræðilegar og tæknilegar varðandi efnahags-, félagsmála- og menntunarástand lendnanna, sem þeir hver um sig hafa forræði yfir, en nær þó ekki til þeirra lendna, sem XII. og XIII. kafla taka til.

74. gr.

Meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru einnig á einu máli um það, að starfsaðferðir þeirra að því er þær lendur varðar, sem þessi kafli tekur til, skuli ekki síður en í þeirra eigin löndum grundvallast á hinni almennu meginreglu um vinsamlega sambúð, að tillit skuli tekið til hagsmuna og vellíðanar annarra þjóða í félagslegum, efnahagslegum og viðskiptalegum efnum.

 

XII. kafli

ALÞJÓÐA GÆSLUVERNDARKERFI

  75. gr.

Hinar sameinuðu þjóðir setja á stofn samkvæmt valdi sínu alþjóða gæsluverndarkerfi til stjórnar og eftirlits með slíkum lendum, sem þær kunna að fá forræði yfir samkvæmt síðari sérstaklega gerðum samningum. Hér á eftir verða þessar lendur nefndar gæsluverndarlendur.

76. gr.

Megintilgangur gæsluverndarkerfisins samkvæmt aðaltilgangi hinna sameinuðu þjóða, eins og hann er skilgreindur í 1. gr. þessa sáttmála, skal vera:
     a. að efla heimsfrið og öryggi;
     b. að stuðla að framförum íbúa gæsluverndarlendnanna á sviði stjórnmála, fjármála, félagsmála og menntamála, og að vaxandi þróun þeirra til sjálfsstjórnar eða sjálfstæðis eins og hæfilegt kann að þykja með tilliti til hinna sérstöku kringumstæðna í sérhverri lendu og þeirra þjóða, sem þar eru, og eigin óska hlutaðeigandi þjóða, sem þeim er frjálst að láta í ljós, svo og samkvæmt þeim skilmálum, sem settir verða í sérhverjum gæsluverndarsamningi;
    c. að auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsisréttindum fyrir alla án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða, og til að auka viðurkenningu á gagnkvæmri samheldni milli þjóða heimsins, og
    d. að tryggja sömu meðferð til handa öllum meðlimum hinna sameinuðu þjóða og ríkisborgara þeirra í félags-, efnahags- og viðskiptamálum, og einnig sömu meðferð fyrir hina síðarnefndu í réttarfarsmálum, án þess þó að spilla fyrir því, að framangreindur tilgangur náist, svo og með tilliti til ákvæða 80. gr.

77. gr.

1) Gæsluverndarkerfið skal ná til þeirra lendna í eftirfarandi flokkaskipun, sem verða lagðar undir það samkvæmt gæsluverndarsamningum:
     a. lendna, sem nú eru umboðssvæði;
     b. lendna, sem verða aðskildar frá óvinaríkjum vegna síðari heimsstyrjaldarinnar, og
     c. lendna, sem af frjálsum vilja eru settar undir kerfið af ríkjum, sem bera ábyrgð á stjórn þeirra.
2) Það fer eftir samningi síðar, hvaða lendur í framangreindri flokkaskipun skulu heimfærðar undir gæsluverndarkerfið og samkvæmt hvað skilmálum.

78. gr.

Gæsluverndarkerfið nær ekki til lendna, sem hafa orðið meðlimir hinna sameinuðu þjóða, en sambandið milli hinna síðarnefndu skal byggt á virðingu fyrir þeirri grundvallarreglu, sem felst í jafnræði fullvalda ríkja.

79. gr.

Ákvæðin um gæsluvernd fyrir sérhverja lendu, sem setja skal undir gæsluverndarkerfið, þar á meðal sérhver breyting eða leiðrétting, skulu samþykkt af þeim ríkjum, sem málið skiptir beint, þar á meðal umboðsríkinu, þegar um lendu er að ræða, sem meðlimur hinna sameinuðu þjóða hefur sem umboðssvæði, og skulu þau samþykkt eins og fyrir er mælt í 83. og 85. gr.

80. gr.

1) Að undanteknu því, sem samið kann að verða um í einstökum gæsluverndarsamningum, gerðum samkvæmt ákvæðum 77., 79. og 81. gr., sem setja sérhverja lendu undir gæsluverndarkerfið, og þar til slíkir samningar hafa verið gerðir, skal ekkert í þessum kafla beint eða óbeint skýrt þannig, að það á nokkurn hátt breyti þeim réttindum, hvers kyns sem þau eru, nokkurra ríkja eða nokkurra þjóða eða ákvæðum gildandi alþjóðasamninga, sem meðlimir hinna sameinuðu þjóða kunna að vera aðilar að.
2) 1. liður þessarar greinar skal ekki skýrður þannig, að í honum felist ástæða til tafar eða frestunar samningaumleitunar og samningagerðar viðvíkjandi heimfærslu umboðssvæðis eða annarra lendna undir gæsluverndarkerfið samkvæmt fyrirmælum 77. gr.

81. gr.

Í gæsluverndarsamningum skulu í sérhverju tilfelli vera ákvæði, sem gæsluverndarlendunni skal stjórnað eftir, og þar skal mælt fyrir um þau stjórnarvöld, sem hafa skulu framkvæmdastjórn í gæsluverndarlendunni á hendi. Þessi stjórnarvöld, sem hér á eftir verða nefnd framkvæmdastjórnin, geta verið eitt eða fleiri ríki eða bandalagið sjálft.

82. gr.

Heimilt er að ákveða eitt eða fleiri hernaðarleg svæði í sérhverjum gæsluverndarsamningi, sem geta náð yfir hluta af eða alla gæsluverndarlenduna, sem samningurinn gildir um, en slíkt skal þó eigi brjóta í bága við neinn sérsamning eða sérsamninga, sem gerðir eru samkvæmt 43. gr.

83. gr.

1) Öll störf hinna sameinuðu þjóða viðvíkjandi hernaðarlegum svæðum, þar á meðal samþykki á ákvæðum gæsluverndarsamninganna og breytingum eða leiðréttingum á þeim, skulu framkvæmd af öryggisráðinu.
2) Sá megintilgangur, sem nefndur er í 76. gr., skal ná til íbúanna á sérhverju hernaðarlegu svæði.
3) Öryggisráðið skal samkvæmt ákvæðum gæsluverndarsamninganna og án þess að slíkt komi í bága við það tillit, sem taka þarf til öryggis, færa sér í nyt aðstoð gæsluverndarráðsins við framkvæmd þeirra starfa hinna sameinuðu þjóða samkvæmt gæsluverndarkerfinu, sem snerta stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál og menntamál á hernaðarlegu svæðunum.

84. gr.

Framkvæmdastjórninni ber skylda til að tryggja, að gæsluverndarlendan taki sinn þátt í að varðveita heimsfrið og öryggi. Í þeim tilgangi heimilast framkvæmdastjórninni að færa sér í nyt sjálfboðalið, fríðindi og aðstoð frá gæsluverndarlendunni við framkvæmd þeirra skuldbindinga gagnvart öryggisráðinu, sem framkvæmdastjórnin hefur tekist á hendur í þessu tilliti, svo og til varnar ákveðnum tilteknum stöðum og viðhalds lögum og rétti innan gæsluverndarlendunnar.

85. gr.

1) Allsherjarþingið hefur með höndum störf hinna sameinuðu þjóða samkvæmt gæsluverndarsamningum fyrir öll svæði, sem ekki hefur verið ákveðið, að séu hernaðarleg svæði, þar á meðal samþykkt ákvæða gæsluverndarsamninganna og breytingar eða leiðréttingar á þeim.
2) Gæsluverndarráðinu, sem starfar í umboði allsherjarþingsins, ber að aðstoða allsherjarþingið við framkvæmd þessara starfa.

 

XIII. kafli

GÆSLUVERNDARRÁÐIÐ

Skipan

 86. gr.

1) Gæsluverndarráðið skal skipa þessum meðlimum hinna sameinuðu þjóða:
      a. þeim meðlimum, sem fara með stjórn gæsluverndarlendna;
      b. þeim meðlimum þeirra, sem nefndir eru með nafni í 23. gr. og ekki fara með stjórn gæsluverndarlendna, og
     c. svo mörgum öðrum meðlimum, kjörnum til þriggja ára af allsherjarþinginu, sem nauðsynlegt kann að vera til að tryggja það, að heildartala meðlima gæsluverndarráðsins skiptist að jöfnu milli þeirra hinna sameinuðu þjóða, sem fara með stjórn gæsluverndarlendna, og hinna, sem ekki gera það.
2) Hver meðlimur gæsluverndarráðsins skal tilnefna einn mann, sérstaklega til þess hæfan, að vera fulltrúa sinn í ráðinu.

 

Störf og völd

87. gr.

Til að framkvæma störf sín er allsherjarþinginu og gæsluverndarráðinu í umboði þess heimilt:
     a. að athuga skýrslur lagðar fram af framkvæmdastjórninni;
     b. að taka við bænaskrám og rannsaka þær í samráði við framkvæmdastjórnina;
     c. að sjá öðru hverju um heimsóknir til hinna ýmsu gæsluverndarlendna, og hafi verið samið um heimsóknartímann við framkvæmdastjórnina; og
     d. að haga þessum og öðrum framkvæmdum í samræmi við ákvæði gæsluverndarsaminganna.

88. gr.

Gæsluverndarráðið skal semja spurningaskrá um stjórnmála-, efnahags-, félagsmála- og menntunarframfarir íbúanna í hverri gæsluverndarlendu, og framkvæmdastjórnin í hverri gæsluverndarlendu, sem undir allsherjarþingið fellur, skal gefa allsherjarþinginu árlega skýrslu á grundvelli þessarar spurningaskrár.

 

Atkvæðagreiðsla

 89. gr.

1) Hver meðlimur gæsluverndarráðsins hefur eitt atkvæði.
2) Ákvarðanir gæsluverndarráðsins skulu teknar af meiri hluta meðlima, sem viðstaddir eru og atkvæði greiða.

 

Fundarsköp

 90. gr.

1) Gæsluverndarráðið skal sjálft ákveða fundarsköp sín og starfsreglur, þar með talið, hvernig forseta ráðsins skuli kjósa.
2) Gæsluverndarráðið skal koma saman eftir þörfum samkvæmt því, er starfsreglur þess ákveða, en í þeim skulu vera ákvæði um kvaðningu til funda að ósk meiri hluta meðlima þess.

91. gr.

Gæsluverndarráðið skal, þegar henta þykir, færa sér í nyt aðstoð efnahags- og félagsmálaráðsins og sérstofnananna um þau mál, sem þessa aðila varða sérstaklega.

 

 XIV. kafli

ALÞJÓÐADÓMSTÓLLINN

  92. gr.

Alþjóðadómstóllinn skal vera aðaldómstóll hinna sameinuðu þjóða. Hann skal starfa samkvæmt hjálagðri samþykkt, sem byggð er á samþykktinni fyrir milliríkjadómstólinn og er óaðskiljanlegur hluti þessa sáttmála.

93. gr.

1) Allir meðlimir hinna sameinuðu þjóða eru ipso facto aðilar að samþykkt alþjóðadómstólsins.
2) Ríki, sem ekki telst til hinna sameinuðu þjóða, getur orðið aðili að samþykkt alþjóðadómstólsins með skilyrðum, sem ákveða skal í hverju sérstöku tilfelli af allsherjarþinginu að tillögu öryggisráðsins.

94. gr.

1) Sérhver meðlimur hinna sameinuðu þjóða skuldbindur sig til þess að hlíta úrskurði alþjóðdómstólsins í hverju því máli, sem hann er aðili að.
2) Láti nokkur aðili að máli bregðast að framkvæma þær skuldbindingar, sem honum ber samkvæmt dómsúrskurði alþjóðadómstólsins, getur hinn aðilinn skotið máli sínu til öryggisráðsins, sem getur, ef því þykir nauðsynlegt, gert tillögur eða ákveðið aðgerðir til þess að dóminum verði fullnægt.

95. gr.

Ekkert í þessum sáttmála getur hindrað meðlim hinna sameinuðu þjóða í því að fela öðrum dómstólum að útkljá deilumál sín samkvæmt samningum, er áður hafa verið gerðir eða gerðir kunna að verða.

96. gr.

1) Allsherjarþinginu eða öryggisráðinu er heimilt að æskja þess af alþjóðadómstólnum, að hann láti í té til leiðbeiningar álit sitt um sérhvert lagalegt atriði.
2) Aðrar stofnanir hinna sameinuðu þjóða og sérstofnanir, sem allsherjarþingið getur á hverjum tíma veitt slíka heimild, mega einnig æskja álitsgerða af dómstólnum til leiðbeiningar varðandi lagaleg atriði, er fram kunna að koma á verksviði þeirra.

 

XV. kafli

SKRIFSTOFAN

  97. gr.

Skrifstofan skal skipuð aðalfamkvæmdastjóra og því starfsliði, sem bandalagið þarfnast. Aðalframkvæmdastjórinn skal skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu öryggisráðsins. Hann hefur aðalframkvæmdastjórn bandalagsins með höndum.

98. gr.

Aðalframkvæmdastjórinn skal sem slíkur sitja alla fundi allsherjarþingsins, öryggisráðsins, efnahags- og félagsmálaráðsins og gæsluverndarráðsins og annast önnur þau störf, sem honum eru falin af þessum stofnunum. Aðalframkvæmdastjórinn skal gefa allsherjarþinginu árlega skýrslu um starf bandalagsins.

99. gr.

Aðalframkvæmdastjórinn getur vakið athygli öryggisráðsins á hverju því máli, sem að hans dómi kann að stofna í hættu varðveislu heimsfriðar og öryggis.

100. gr.

1) Við skyldustörf sín skal aðalframkvæmdastjórinn og starfsliðið hvorki leita fyrirmæla né taka við fyrirmælum frá nokkurri stjórn né nokkru öðru yfirvaldi utan bandalagsins. Þeir skulu varast hverja þá athöfn, sem er ósamrýmanleg stöðu þeirra sem alþjóðaembættismenn, er ábyrgir eru einvörðungu fyrir bandalaginu.
2) Sérhver meðlimur hinna sameinuðu þjóða skuldbindur sig til þess að virða hið algera alþjóðlega eðli þeirrar ábyrgðar, sem á aðalframkvæmdastjóranum og starfsmönnum hans hvílir, og reyna ekki að hafa áhrif á þá við framkvæmd skyldustarfa þeirra.

101. gr.

1) Aðalframkvæmdastjórinn skal skipa starfsmenn samkvæmt reglugerðum, er allsherjarþingið setur.
2) Hæfilegt fast starfslið skal ráðið til efnahags- og félagsmálaráðsins, gæsluverndarráðsins og eftir þörfum annarra stofnana hinna sameinuðu þjóða. Þessi starfslið teljast hluti skrifstofunnar.
3) Höfuðatriðið við ráðningu starfsmanna og ákvörðun um starfskjör skal vera að tryggja, að fullnægt sé ýtrustu kröfum um dugnað, hæfni og heiðarleik. Gæta skal tilhlýðilega mikilvægis þess, að starfsmenn séu ráðnir á eins breiðum grundvelli landfræðilega og unnt er.

 

 XVI. kafli

ÝMIS ÁKVÆÐI

  102. gr.

1) Allir sáttmálar og allir alþjóðasamningar, sem einhver meðlimur hinna sameinuðu þjóða kann að gerast aðili að, eftir að þessi sáttmáli tekur gildi, skulu skrásettir hjá skrifstofunni eins fljótt og unnt er og birtir af henni.
2) Enginn aðili að slíkum sáttmála eða alþjóðasamningi, sem ekki hefur verið skrásettur samkvæmt ákvæðum 1. liðs þessarar greinar, getur áskilið sér not af þeim sáttmála eða samningi fyrir nokkurri stofnun hinna sameinuðu þjóða.

103. gr.

Ef svo ber til, að árekstur verði milli kvaða meðlima hinna sameinuðu þjóða samkvæmt þessum sáttmála og kvaða þeirra samkvæmt einhverjum öðrum alþjóðasamningi, skulu kvaðir þeirra samkvæmt þessum sáttmála sitja í fyrirrúmi.

104. gr.

Bandalagið skal njóta á umráðasvæði sérhvers meðlimanna þeirrar réttarstöðu, sem nauðsynleg kann að vera til framkvæmdar starfsemi þess og tilgangi.

105. gr.

1) Bandalagið skal njóta á umráðasvæði sérhvers meðlima þess þeirra sérréttinda og friðhelgi, sem nauðsyn er til þess að það nái tilgangi sínum.
2) Fulltrúar meðlima hinna sameinuðu þjóða og embættismenn bandalagsins skulu sömuleiðis njóta þeirra sérréttinda og friðhelgi, sem nauðsynleg er, til þess að þeir geti óháðir unnið störf sín í sambandi við bandalagið.
3) Allsherjarþingið getur gert tillögur í því skyni að ákveða í hverju atriði, hvernig framkvæma skuli ákvæði 1. og 2. liðs þessarar greinar, eða lagt tillögur um samþykktir í þessu skyni fyrir meðlimi hinna sameinuðu þjóða.

 

 XVII. kafli

MILLIBILS-ÖRYGGISSVÆÐI

  106. gr.

Þar til gildi taka þeir sérstöku samningar, sem vikið er að í 43. gr. og að dómi öryggisráðsins heimila því að hefja störf sín samkvæmt 42. gr., skulu aðilarnir að fjögurra þjóða yfirlýsingunni, sem undirrituð var í Moskvu 30. október 1943, svo og Frakkland, ráðgast hver við annan samkvæmt ákvæðum 5. gr. þeirrar yfirlýsingar, og eftir því sem ástæða er til við aðra meðlimi hinna sameinðu þjóða, í því skyni að framkvæma sameiginlega fyrir hönd bandalagsins þær aðgerðir, sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að varðveita heimsfrið og öryggi.

107. gr.

Ekkert í þessum sáttmála skal ógilda eða koma í veg fyrir aðgerð, sem varðar eitthvert ríki, er í síðari heimsstyrjöldinni hefur verið óvinur einhvers þess aðila, er undirritað hefur þennan sáttmála, enda hafi hún verið framkvæmd eða heimiluð sökum þeirrar styrjaldar af ríkisstjórnum, sem ábyrgar eru fyrir slíkri aðgerð.

 

 XVIII. kafli

BREYTINGAR

  108. gr.

Tillögur til breytinga á þessum sáttmála skulu ganga í gildi fyrir alla meðlimi hinna sameinuðu þjóða, þegar þær hafa verið samþykktar með atkvæðum tveggja þriðju hluta af meðlimum allsherjarþingsins og staðfestar samkvæmt stjórnskipunarvenjum hvers um sig af tveim þriðju hlutum meðlima hinna sameinuðu þjóða, þar í taldir allir fastir meðlimir öryggisráðsins.

109. gr.

1) Halda má allsherjarráðstefnu meðlima hinna sameinuðu þjóða í því skyni, að endurskoða sáttmála þennan á þeim stað og stundu, sem ákveðið er með tveimur þriðju hlutum atkvæða fulltrúa á allsherjarþinginu og með atkvæðum 9 fulltrúa í öryggisráðinu. Sérhver meðlimur hina sameinuðu þjóða hefur eitt atkvæði á ráðstefnunni.
2) Hver sú breyting á sáttmála þessum, sem tveir þriðju hlutar atkvæða á ráðstefnunni mæla með, tekur gildi, er hún hefur verið staðfest samkvæmt stjórnskipunarvenjum hvers um sig af tveimur þriðju hlutum meðlima hinna sameinuðu þjóða, þar með taldir allir hinir föstu meðlimir öryggisráðsins.
3) Hafi slík ráðstefna eigi verið haldin áður en tíunda árlega allsherjarþingið kemur saman til fundar, eftir að sáttmáli þessi gengur í gildi, skal tillaga um að boða til slíkrar ráðstefnu sett á dagskrá þess allsherjarþings, og ráðstefnan haldin, ef meiri hluti fulltrúa allsherjarþingsins greiðir því atkvæði og sjö meðlimir öryggisráðsins.

 

 XIX. kafli

STAÐFESTING OG UNDIRSKRIFTIR

  110. gr.

1) Sáttmáli þessi skal staðfestur af samningsaðilum samkvæmt stjórnskipunarvenjum hvers um sig.
2) Staðfestingar skulu fengnar til varðveislu ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku, sem tilkynna skal öllum samningsaðilum hverja staðfestingu, svo og aðalframkvæmdastjóra bandalagsins, þegar hann hefur verið skipaður.
3) Sáttmáli þessi skal ganga í gildi, er lagðar hafa verið fram staðfestingar lýðveldisins Kína, Frakklands, Sovétríkjanna, hins Sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands, Bandaríkja Ameríku og meiri hluta annarra samningsaðila. Ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku skal því næst láta skrá í gerðabók þær staðfestingar, sem fram hafa verið lagðar, og senda afrit af henni til allra samningsaðila.
4) Aðilar að sáttmála þessum, sem staðfesta hann, eftir að hann hefur gengið í gildi, verða stofnmeðlimir hinna sameinuðu þjóða á þeim degi, er þeir leggja fram staðfestingu sína.

111. gr.

Sáttmáli þessi, sem gerður er á kínversku, frönsku, rússnesku, ensku og spönsku, og allir textarnir jafngildir, skal varðveittur í skjalasafni ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku. Sú ríkisstjórn skal senda ríkisstjórnum annarra samningsaðila staðfest afrit af sáttmálanum.

Til staðfestu því hafa fulltrúar ríkisstjórna hinna sameinuðu þjóða* undirritað þennan sáttmála.

Gert í borginni San Francisco, hinn tuttugasta og sjötta dag júnímánaðar árið eitt þúsund níu hundruð fjörtíu og fimm.


*Aths. Fulltrúar þessara ríkisstjórna undirrituðu sáttmálann: Kína, Sovétríkin, Hið Sameinaða konungsríki Stóra-Bretland og Norður-Írland, Frakkland, Argentína, Ástralía, Belgía, Bólivía, Brasilía, Hvíta Rússland, Kanada, Chile, Columbía, Costa Rica, Kúba, Tékkóslóvakía, Danmörk, Dóminíska lýðveldið, Ecuador, Egyptaland, Salvador, Abessinía, Grikkland, Guatemala, Haití, Honduras, Indland, Íran, Írak, Líbanon, Líbería, Luxemburg, Mexíkó, Holland, Nýja-Sjáland, Nicaragua, Noregur, Panama, Paraguay, Perú, Filippseyjar, Saudi-Arabía, Sýrland, Tyrkland, Úkraína, Suður-Afríka, Uruguay, Venesuela, Júgóslavía, Bandaríki Ameríku.

 


 

SAMÞYKKTIR MILLIRÍKJADÓMSINS

1.gr.

Milliríkjadómurinn, sem stofnaður er samkvæmt stofnskrá sameinuðu þjóðanna og er aðaldómstóll þeirra, skal vera skipaður og starfa samkvæmt samþykktum þessum.


I. kafli

SKIPUN DÓMSTÓLSINS

  2. gr.

Dómstóllinn skal vera skipaður óháðum dómendum. Eigi skiptir þjóðerni þeirra máli, enda skulu þeir vera vammlausir menn og búnir þeim kostum, sem heimtaðir eru í landi hvers þeirra um sig til skipunar í æðstu lögfræðiembætti, eða vera viðurkenndir sérfræðingar í þjóðarétti.

3. gr.

1) Dómstóllinn skal vera skipaður fimmtán dómendum, enda mega engir tveir þeirra vera þegnar sama ríkis.
2) Nú kann að mega telja einhvern þeirra, er til greina má koma til kjörs í dómstólinn, þegn tveggja eða fleiri ríkja, og skal þá meta hann þegn þess ríkis, þar sem hann neytir að jafnaði borgaralega og þjóðlegra réttinda.

4. gr.

1) Þing (General Assembly) hinna sameinuðu þjóða og öryggisráð (Secrurity Council) velur dómendur úr mönnum, sem dómaranefndir hvers ríkis í fasta gerðardóminum í Haag hafa tilnefnt, samkvæmt fyrirmælum þeim, sem hér fara á eftir.
2) Nú er félagi í bandalagi sameinuðu þjóðanna ekki aðili um fasta gerðardóminn, og skulu dómaraefni þá tilnefnd af dómaranefndum, er hlutaðeigandi ríkisstjórnir nefna með þeim hætti, sem mælt er um dómendur fasta gerðardómsins í 44. gr. samþykktarinnar í Haag frá 1907, um friðsamlega lausn milliríkjadeilna.
3) Nú er ríki aðili um milliríkjadóminn, en ekki félagi í bandalagi hinna sameinuð þjóða, og skal þá þing þeirra ákveða eftir tillögum öryggisráðsins, með hverjum hætti ríkið megi taka þátt í kjöri dómara í milliríkjadóminn, enda hafi ekki verið samið um það sérstaklega.

5. gr.

1) Aðalframkvæmdastjóri hinna sameinuðu þjóða skal að minnsta kosti þremur mánuðum fyrir dómarakjörið senda aðilum fasta gerðardómsins, sem eru einnig aðilar um milliríkjadóminn, og dómaranefndum, skipuðum svo sem í 4. gr. 2. tölul. greinir, skrifleg tilmæli um það, að þeir tilnefni innan tiltekins tíma, hver nefnd fyrir sig, hæfa menn til setu í dómstólnum.
2) Engin dómaranefnd má tilnefna fleiri en fjóra, enda mega ekki fleiri en tveir vera samþegnar hennar. Og aldrei mega tilnefndir dómendur vera meira en tvöfalt fleiri en þau dómarasæti, er í skal skipa.

6. gr.

Mælst er til þess, að sérhver dómaranefnd ráðfæri sig við æðsta dómstól sinn, lagadeildir sínar og lagaskóla og háskóla sína og deildir alþjóða háskóla, þar sem laganám er stundað, áður en hún tilnefni dómaraefni.

7. gr.

1) Aðalframkvæmdastjóri (General Secretary) sameinuðu þjóðanna skal gera skrá í stafrófsröð um öll tilnefnd dómaraefni, enda skulu þau ein vera kjörgeng, sbr. þó atkvæði 12. gr. 2. tölul.
2) Aðalframkvæmdastjóri skal leggja skrána fyrir þing sameinuðu þjóðanna og öryggisráðið.

8. gr.

Þing hinna sameinuðu þjóða og öryggisráð skulu hvort öðru óháð vinna að kjöri dómenda.

9. gr.

Þegar velja skal dómendur, þá skulu kjósendur jafnan bæði gæta þess, að dómaraefni séu hvert um sig búin þeim kostum, sem krafist er, og einnig að tryggt sé, að í dóminum í heild sinni verði málsvarar höfuðmenningartegunda og höfuðlögskipan heimsins.

10. gr.

1) Dómaraefni, sem algeran meiri hluta atkvæða hafa hlotið á þingi sameinuðu þjóðanna og í öryggisráði, skal telja kjörna.
2) Um atkvæðagreiðslu í öryggisráði er svo mælt, að engan mun skal gera á atkvæðum fastra eða lausra félaga þess, hvort sem um er að tefla kjör dómenda eða tilnefningu til samkomu þeirrar, er í 12. gr. segir.
3) Nú fá fleiri en einn þegn sama ríkis algeran meiri hluta atkvæða bæði þings og öryggisráðs, og skal þá einungis hinn eldri eða elsti þeirra teljast kjörinn.

11. gr.

Nú verða eitt eða fleiri sæti laus, eftir að fyrsti kjörfundur hefur verið haldinn, og skal þá halda annan fund eða hinn þriðja, ef nauðsyn ber til.

12. gr.

1) Nú verða eitt eða fleiri sæti auð eftir þriðja fundarhaldið, og má þá eftir kröfu þings eða öryggisráðs hvenær sem er efna til sameiginlegrar samkomu, er skipuð sé 6 mönnum, enda nefni þing og öryggisráð sína þrjá hvort. Á samkoma þessi að tilnefna með algerum meiri hluta atkvæða einn mann í hvert autt sæti, enda skal kjörið langt fyrir þing og ráð til samþykkis þeirra hvors um sig.
2) Nú tilnefnir sameiginlega samkoman með öllum atkvæðum dómara, sem er öllum lögmætum kostum búinn, og getur hún þá sett hann á dómaraskrá, enda þótt hann sé ekki á skrá dómaraefna, þeirri er í 7. gr. getur.
3) Nú hefur sameiginlega samkoman gengið úr skugga um það, að henni muni ekki heppnast að leiða kjörið til lykta, og skulu þá þeir dómendur milliríkjadómsins, sem þegar hafa verið kjörnir, gera gangskör að því að skipa í auðu sætin innan þess tíma, er öryggisráð ákveður, enda skal velja dómendur úr dómaraefnum þeim, sem annaðhvort hafa fengið atkvæði á þingi eða í öryggisráði.
4) Nú verða atkvæði dómenda jafnmörg hvorum megin, og ræður þá atkvæði elsta dómarans.

13. gr.

1) Dómara milliríkjadóms skal velja til 9 ára, enda má endurkjósa þá. Þó er svo mælt, að fimm þeirra dómenda, sem fyrsta sinni voru kjörnir, skuli fara frá að þremur árum liðnum, og að aðrir fimm dómendur skuli fara frá eftir sex ár.
2) Dómendur þeir, er fara skulu frá að liðnum áðurnefndum þremur og sex ára upphafstímabilum, skulu dregnir út með hlutkesti af aðalframkvæmdastjóra þegar eftir lok fyrstu kosningar.
3) Dómendur skulu gegna störfum sínum, þar til er sæti þeirra hafa verið skipuð að nýju. Ljúka skulu þeir þó hverju því máli, er þeir hafa byrjað á, enda þótt annar komi í sæti þeirra.
4) Nú beiðist dómari lausnar, og skal hann þá stíla lausnarbeiðni sína til forseta dómsins, enda sé hún send áfram til aðalframkvæmdastjóra. Verður sætið autt, er hún er þangað komin.

14. gr.

Skipa skal í sæti, er laust verður, með sama hætti og mælt var um kosningu fyrsta sinni, svo sem hér segir: Aðalframkvæmdastjóri skal innan mánaðar, eftir að sæti varð laust, senda tilmæli samkvæmt 5. gr., enda skal öryggisráð ákveða kjördag.

15. gr.

Dómandi, sem kjörinn hefur verið í stað dómara, sem ekki hefur endað kjörtíma sinn, skal gegna stöðunni, þar til er kjörtími fyrirrennara hans er liðinn.

16. gr.

1) Enginn dómari má gegna nokkru starfi í þágu framkvæmdavalds eða stjórnmála, né heldur taka þátt í nokkurri atvinnusýslan.
2) Dómurinn sker úr sérhverjum vafa í þessu efni.

17. gr.

1) Enginn dómari má vera umboðsmaður, ráðunautur eða talsmaður í nokkru máli.
2) Enginn dómari má taka þátt í meðferð máls, þar sem hann hefur áður verið umboðsmaður, ráðunautur eða talsmaður annars hvors aðila eða dómari í dómi einhvers ríkis eða í milliríkjadómi, í rannsóknarnefnd eða starfað að því með nokkrum öðrum hætti.
3) Dómur sker sjálfur úr sérhverjum vafa í þessum efnum.

18. gr.

1) Eigi verður dómanda vikið úr stöðu sinni, nema hann hafi samkvæmt einróma áliti samdómenda sinna misst lögmæt skilyrði til setu í dómi.
2) Þetta skal tilkynnt aðalframkvæmdastjóra í embættisnafni.
3) Sæti dómarans verður autt, er tilkynning hefur farið fram.

19. gr.

Dómendur skulu, er þeir gegna störfum í þarfir dómsins, njóta sérréttinda og friðhelgi stjórnmálaerindreka ríkja.

20. gr.

Sérhver dómandi skal gefa hátíðlega yfirlýsingu um það fyrir dómi í heyranda hljóði, áður en hann tekur til starfa, að hann skuli gegna stöðu sinni óhlutdrægt og samviskusamlega.

21. gr.

1) Dómurinn velur forseta sinn og varaforseta til þriggja ára. Þá má endurkjósa.
2) Dómurinn skipar ritara sinn og sér um skipun annarra starfsmanna eftir þörfum.

22. gr.

1) Dómurinn skal hafa aðsetur í Haag. Þetta skal þó ekki vera því til fyrirstöðu, að dómurinn heyi dómþing og gegni störfum hvar sem vera skal, hvenær sem hann telur það æskilegt.
2) Forseti dómsins og ritari skulu sitja á aðsetursstað hans.

23. gr.

1) Dómurinn skal stöðugt vera starfskyldur, nema í dómleyfum, enda kveður dómurinn á um það, hvenær leyfi skuli vera og hversu löng.
2) Dómendum eru heimil leyfi um stundarsakir, enda lætur dómur mælt um það, hvenær og hversu löng leyfi skuli vera, og skal þá hafa hliðsjón af fjarlægðinni milli Haag og heimilis dómanda.
3) Dómendum skal skylt að vera stöðugt viðbúnir störfum í dómsins þágu, nema þeir eigi leyfi eða sjúkdómur eða aðrar alvarlegar nauðsynjar banni, enda sé forseta gerð viðeigandi grein fyrir þeim.

24. gr.

1) Nú telur dómandi sérstaka ástæðu til þess, að hann taki ekki þátt í meðferð tiltekins máls, og skal hann þá tjá forseta það.
2) Nú telur forseti sérstaka ástæðu til þess, að dómandi taki ekki þátt í meðferð tiltekins máls, og skal hann þá tjá dómanda hana.
3) Nú kemur hlutaðeigandi dómara og forseta ekki saman, og skal dómurinn þá skera úr.

25. gr.

1) Dómendur skulu allir taka þátt í meðferð máls, nema berum orðum sé öðruvísi mælt í samþykktum þessum.
2) Í reglugerð dómstólsins má kveða svo á, að leysa megi dómanda, einn eða fleiri, undan þátttöku í málsmeðferð eftir kringumstæðum og til skiptis, enda verði þeir dómendur, er dómþing heyja, aldrei færri en ellefu.
3) Rétt er að setja dómþing með níu dómendum.

26. gr.

1) Dómstólnum er rétt að skipa sér við og við í deildir, eina eða fleiri, skipaðar þremur dómendum eða fleiri eftir ákvörðun sinni, til þess að fara með sérstök mál, svo sem verkamál og samgöngumál.
2) Dómstólnum er rétt hvenær sem er að skipa sér í deildir til meðferðar einstakra mála. Dómurinn ákveður dómendafjölda í slíkri deild með samþykki málsaðila.
3) Deild samkvæmt þessari grein rannsakar og úrskurðar mál, ef aðilar krefjast þess.

27. gr.

Dóm, kveðinn upp af deild samkvæmt 26. og 29. grein, skal meta svo sem dómstóllinn hefði kveðið hann upp.

28. gr.

Deildir samkvæmt 26. og 29. gr. mega, ef aðilar samþykkja, heyja dómþing og fara með störf sín hvar sem er utan Haagborgar.

29. gr.

Dómstóllinn skal árlega skipa deild fimm dómenda, er rannsaka skuli og úrskurða, samkvæmt kröfu aðila, mál með skjótri meðferð, til þess að flýta fyrir afgreiðslu dómstarfanna. Til viðbótar skal velja tvo dómendur til þess að koma í stað dómenda, sem telja sér ómögulegt að taka þátt í meðferð máls.

30. gr.

1) Dómstóllinn skal setja reglugerð um framkvæmd starfa sinna. Sérstaklega skal þar kveða á um meðferð mála.
2) Í reglugerð dómstólsins má setja ákvæði um atkvæðislausa aukamenn, er taki sæti í dómstólnum eða deildum hans.

31. gr.

1) Dómandi sama þjóðernis sem annar hvor málsaðila skal halda rétti sínum til þátttöku í meðferð máls fyrir dómi.
2) Nú situr dómandi sama þjóðernis sem annar aðila í dómi, og má þá hinn aðilinn kjósa sér mann til meðferðar dómstarfa í því máli. Slíkan dómanda skal einkum velja úr þeim, sem hafa verið tilnefndir dómaraefni samkvæmt 4. og 5. gr.
3) Nú situr enginn maður í dómi sama þjóðernis sem aðilar, og er þá hvorum þeirra rétt að velja dómara svo sem mælt er í 2. tölul. þessarar greinar.
4) Ákvæði þessarar greinar skulu og taka til tilvika þeirra, er í 26. og 29. gr. segir. Og skal þá forseti biðja einn eða, ef þörf krefur, tvo þeirra dómenda, er deild skipa, að víkja fyrir dómendum sama þjóðernis sem aðilar, og ef enginn er slíkur eða hann getur ekki tekið sæti, þá fyrir dómendum, er aðilar hafa sérstaklega kjörið.
5) Nú eru aðilar fleiri en einn að sama hagsmunamáli, og skal þá um framangreind ákvæði telja þá einn og sama aðila. Dómurinn sker úr sérhverju slíku vafaatriði.
6) Dómendur, kjörnir samkvæmt 2., 3. og 4. tölulið þessarar greinar, skulu fullnægja skilyrðum þeim, sem krafist er í 2. gr., 17. gr. (2. tölul.), 20. og 24. gr. samþykkta þessara. Þeir skulu taka þátt í dómsúrlausn með öllum sömu réttindum sem starfsbræður þeirra.

32. gr.

1) Dómari hver skal fá árleg laun.
2) Forseti skal fá sérstaka árlega viðbót.
3) Varaforseti skal fá sérstaka viðbót fyrir hvern dag, er hann gegnir forsetastörfum.
4) Dómendur kjörnir samkvæmt 31. gr., aðrir en reglulegir dómendur, skulu fá þóknun fyrir hvern dag, er þeir gegna dómstörfum.
5) Laun þessi, launabætur og þóknun skal þingið ákveða.
6) Laun dómritara skal þingið ákveða eftir tillögum dómstólsins.
7) Þingið skal setja ákvæði um skilyrði til greiðslu eftirlauna til dómenda og dómritara og skilyrði til endurgreiðslu ferðakostnaðar til dómenda og dómritara.
8) Framangreind laun, launaviðbætur og þóknun skulu vera undan öllum sköttum þegin.

33. gr.

Hinar sameinuðu þjóðir greiða allan kostnað af dóminum með þeim hætti, er þingið ákveður.

 

 II. kafli

VALDASVIÐ DÓMSTÓLSINS

  34. gr.

1) Ríki ein mega vera aðilar mála fyrir dómstólum.
2) Dómstóllinn getur, eftir fyrirmælum í reglugerð sinni og samkvæmt þeim, krafist upplýsinga af opinberum alþjóðastofnunum varðandi mál, sem fyrir honum eru, enda skulu slíkar stofnanir veita dómstólnum þess konar upplýsingar ótilkvaddar.
3) Hvenær sem túlkun á stofnskrá opinberrar alþjóðastofnunar eða á milliríkjasamningi, gerðum í sambandi við hana, ber undir dóminn, þá skal dómritari tilkynna það hlutaðeigandi opinberri alþjóðastofnun og fá henni í hendur eftirrit af öllum málsskjölum.

35. gr.

1) Dómurinn skal heimill öllum ríkjum, sem aðilar eru að samþykktum þessum.
2) Öryggisráðið ákveður skilyrði þess, að dómurinn megi heimill verða öðrum ríkjum, enda sé gætt sérákvæða í gildandi milliríkjasamningum, en aldrei má setja skilyrði, er raski jafnrétti aðila fyrir dómi.
3) Nú er ríki, sem ekki er félagi í bandalagi hinna sameinuðu þjóða, aðili sakar, og skal þá dómstóllinn ákveða fjárhæð, er aðili greiði upp í dómskostnaðinn. Ákvæði þetta á þó ekki við, ef slíkur aðili greiðir sinn ákveðna hluta af kostnaði vegna dómstólsins.

36. gr.

1) Dómurinn hefur lögsögu í öllum málum, sem aðilar að samþykktum þessum leggja til hans, og í málum þeim öllum, sem sérstaklega greinir í stofnskrá hinna sameinuðu þjóða eða í gildandi milliríkjasamningum.
2) Ríki, sem aðilar eru að samþykktum þessum, geta hvenær sem er lýst yfir því, að þau skuldbindi sig ipso facto og án sérstaks samkomulags gagnvart hverju öðru ríki, er gengst undir sömu skuldbindingu, til þess að hlíta lögsögu dómstólsins um allan lagalegan ágreining varðandi:
     a. túlkun samninga;
     b. hvert vafamál um milliríkjarétt;
     c. hvort staðreynd hafi gerst, sem, ef sönnuð væri, mundi fela í sér brot á skyldu í skiptum ríkja;
     d. hvers konar og hve miklar bætur gjalda skuli fyrir brot á skyldu í skiptum ríkja.
3) Yfirlýsingar þær, er hér að ofan greinir, má gefa skilorðslaust eða gegn því, að nokkur ríki eða tiltekin ríki gangist undir sömu skuldbindingar, eða um tiltekinn tíma.
4) Yfirlýsingar þessar skal leggja til geymslu hjá aðalframkvæmdastjóra hinna sameinuðu þjóða, sem skal senda aðilum að samþykktum þessum og ritara dómstólsins eftirrit af þeim.
5) Yfirlýsingar, gefnar samkvæmt 36. gr. samþykkta fasta milliríkjadómsins og enn þá í gildi, skal í skiptum aðila að samþykktum þessum meta samþykki á lögskyldu til að hlíta lögsögu milliríkjadómsins þann tíma, sem þeim var ætlað að gilda í samræmi við ákvæði þeirra.
6) Dómstóllinn sker úr ágreiningi um það, hvort hann hafi lögsögu í máli.

37. gr.

Nú er svo mælt í gildandi milliríkjasamningi, að mál skuli leggja til dómstóls, er þjóðabandalagið skyldi hafa sett á stofn, eða fasta milliríkjadómsins, og skal þá, ef aðilar að samþykktum þessum eiga hlut að máli, leggja það til milliríkjadómsins.

38. gr.

1) Þá er leysa skal úr ágreiningsmálum, er til dómstólsins eru lögð, skal hann fara eftir:
    a. milliríkjasamningum, hvort sem þeir eru almenns eða sérstaks eðlis, enda geymi þeir fyrirmæli berum orðum viðurkennd af sakaraðilum;
     b. milliríkjavenjum, sem vegna almennrar og sannaðrar notkunar eru viðurkenndar eins og lög;
     c. almennum grundvallarreglum laga, viðurkenndum af siðuðum þjóðum;
     d. dómsúrlausnum, enda sé gætt fyriræla 59. gr., og kennisetningum bestu sérfræðinga ýmissa þjóða, er veita mega, er annað þrýtur, leiðbeiningar um tilvist og efni réttarreglna.
2) Þessi ákvæði skulu ekki skerða heimild dómstólsins til þess að úrskurða mál ex aequo et bono, ef aðilar eru því samþykkir.

 

 III. kafli

MEÐFERÐ MÁLA

  39. gr.

1) Franska og enska eru þingmál dómsins. Ef aðilar koma sér saman um það, að málsmeðferð skuli fara fram á frönsku, þá skal kveða dóm upp á frönsku. Ef aðilar koma sér saman um það, að málsmeðferð skuli fara fram á ensku, skal kveða dóm upp á ensku.
2) Nú er ekki samið um það, hvaða tungu nota skuli, og má þá hvor aðila flytja málið á þeirri tungunni, er hann vill heldur, en dómsúrlausn skal vera á ensku og frönsku, enda skal dómstóllinn þá samtímis ákveða, hvorn textanna tveggja skuli telja frumtexta.
3) Dómstóllinn skal, ef aðili krefst þess, löggilda tungu aðra en ensku eða frönsku, er aðili megi nota.

40. gr.

1) Mál er þingfest eftir atvikum annaðhvort með því að tilkynna sérsamning um það eða með skriflegri umsókn stílaðri til dómsritara. Greina skal deiluefni og aðila, hvor leiðin sem farin er.
2) Dómritari skal þegar í stað skýra öllum hlutaðeigendum frá umsókninni.
3) Hann skal og tilkynna þetta félögum bandalags hinna sameinuðu þjóða fyrir milligöngu framkvæmdastjóra þess, og einnig öðrum ríkjum, sem heimilt er að koma fyrir dómstólinn.

41. gr.

1) Dómstóllinn hefur vald til þess að ákveða, ef hann telur atvik heimta það, hverja þá bráðabirgðaráðstöfun, er hann telur þurfa að gera til hagsmunagæslu hvors aðila.
2) Meðan á fullnaðarákvörðun stendur, skal þegar í stað skýra aðilum og öryggisráði frá þessum ráðstöfunum.

42. gr.

1) Aðilar láta umboðsmenn gæta hagsmuna sinna.
2) Rétt er þeim að hafa sér til aðstoðar ráðunauta eða málflutningsmenn fyrir dómi.
3) Umboðsmenn, ráðunautar og málflutningsmenn aðila fyrir dómi njóta þeirra sérréttinda og friðhelgi, sem nauðsynleg er til óháðrar rækslu skyldna sinna.

43. gr.

1) Málsmeðferð er bæði skrifleg og munnleg.
2) Skriflega málsmeðferðin felur í sér framlagning sóknar fyrir dómstól og aðila, framlagning varnar og andsvör við þeim, er þörf þykir, svo og framlagning allra skjala og skilríkja þeim til stuðnings.
3) Dómritari er meðalgangari aðila og dómstólsins um skjöl þessi, enda skal leggja þau fram í þeirri röð og innan þess tíma, er dómstóllinn mælir.
4) Fá skal aðila staðfest eftirrit af hverju skjali, sem gagnaðili leggur fram.
5) Munnlega málsmeðferðin er fólgin í munnlegum greinargerðum vitna, sérfræðinga, umboðsmanna, ráðunauta og málflutningsmanna.

44. gr.

1) Nú þarf dómur að koma boðum til annarra manna en umboðsmanna, ráðunauta og málflutningsmanna, og snýr hann sér þá beint til stjórnar þess ríkis, er boð skal berast á landsvæði þess.
2) Sama skal gilda, hvenær sem afla skal sönnunargagna á staðnum.

45. gr.

Forseti stjórnar munnlegu málsmeðferðinni eða varaforseti, ef hann getur ekki stýrt dómi. Ef hvorugur þeirra getur stýrt dómi, skal elsti dómarinn gera það.

46. gr.

Munnlega málsmeðferðin skal fara fram í heyranda hljóði fyrir dómstólnum, nema hann mæli öðruvísi eða aðilar krefjist þess, að almenningi sé bannaður aðgangur.

47. gr.

1) Skrá skal skýrslu í þingbók um hvert dómþing, og skulu dómritari og forseti undirrita hana.
2) Dómskýrslur þessar einar skulu hafa opinbert sönnunargildi.

48. gr.

Dómstóllinn setur reglur um málsmeðferð, ákveður ræðuform og innan hvers tíma hvor aðili skuli ljúka ræðum sínum, og gerir allar ráðstafanir í sambandi við öflun sönnunargagna.

49. gr.

Dómstóllinn getur, jafnvel áður en munnleg málsmeðferð hefst, skorað á umboðsmenn að leggja fram skjöl eða láta í té skýringar. Nú er þessu ekki sinnt, og skal þess þá getið í þingbók.

50. gr.

Dómstóllinn getur, hvenær sem er, falið einstökum manni, félagi, skrifstofu, nefnd eða annarri stofnun, er hann kann að kjósa þar til, að framkvæma rannsókn eða gefa sérfræðiálit.

51. gr.

Í munnlegu málsmeðferðinni á að leggja fyrir vitni og sérfræðinga hverja þá spurningu, er máli skiptir, með þeim hætti, er dómstóllinn ákveður í reglum þeim um málsmeðferð, er í 30. gr. getur.

52. gr.

Eftir að dómstóllinn hefur tekið við sönnunargögnum og vitnaskýrslum innan þess tíma, er þar til var mæltur, getur hann neitað að taka við nokkrum frekari gögnum, munnlegum eða skriflegum, sem aðili kann að óska að koma að, nema gagnaðili samþykki.

53. gr.

1) Nú sækir annar aðila ekki dómþing eða lætur farast fyrir að flytja mál sitt, og getur gagnaðili þá krafist þess, að dómur dæmi málið honum í vil eftir kröfu hans.
2) Áður en dómur gerir þetta, ber honum að ganga úr skugga eigi aðeins um það, að hann eigi lögsögu í málinum samkvæmt 36. og 37. gr., heldur og um það, að krafan sé vel rökum studd bæði um staðreyndir og réttarreglur.

54. gr.

1) Eftir að umboðsmenn, ráðunautar og málflutningsmenn hafa með eftirliti dómsins lokið flutningi máls, þá skal forseti lýsa málflutningi lokið.
2) Dómendur ganga þá afsíðis til ráðagerða um dómsúrlausn.
3) Ráðagerðir dómenda fara fram í kyrrþey, enda skal halda þeim leyndum.

55. gr.

1) Öllum atriðum skal ráða til lykta með meiri hluta atkvæða viðstaddra dómenda.
2) Nú verða atkvæði jafnmörg báðum megin, og ræður þá atkvæði forseta, eða þess dómara, er sæti hans skipar.

56. gr.

1) Í dómi skal greina ástæður þær, sem hann er byggður á.
2) Greina skal í dómi nöfn dómenda þeirra, sem tekið hafa þátt í dómsúrlausn.

57. gr.

Nú greinir dómsúrlausn að öllu eða einhverju leyti ekki einróma álit dómenda, og er þá hverjum dómanda sem er rétt að gera ágreiningsatkvæði.

58. gr.

Forseti og dómritari skulu undirrita dóm. Kveða skal hann upp á dómþingi í heyranda hljóði, enda hafi umboðsmönnum verið gert tilhlýðilega viðvart.

59. gr.

Dómsúrlausn bindur einungis aðila og einungis um það mál.

60. gr.

Úrlausn dómstólsins er úrslitadómur og verður ekki áfrýjað. Nú verður ágreiningur um efni dóms eða yfirgrip, og er dómstólnum þá rétt að skýra hann, ef aðili krefst þess.

61. gr.

1) Beiðni um endurskoðun dóms má einungis bera upp, þegar hún helgast af því, að komið hefur í ljós staðreynd þess eðlis, að hún hafi úrslitaþýðingu, enda hafi hún verið dómstólnum ókunnug, er dómur var upp kveðinn, og einnig þeim aðila, er endurskoðunar beiddist, og megi þó ekki telja honum ókunnugleika hans til vanrækslu.
2) Meðferð máls til endurskoðunar skal hefjast á úrskurði dómstólsins þar um, enda skal þar greinilega getið þess, að ný staðreynd hafi komið í ljós, það viðurkennt, að henni sé svo háttað, að taka beri málið upp af nýju, og því lýst yfir, að beiðnina verði að taka til greina af þessum ástæðum.
3) Dómstóllinn getur krafist fyrir fram framkvæmdar aðila á ákvæðum úrskurðarins, áður en hann leyfir flutning endurupptökumálsins.
4) Beiðni um endurskoðun verður að bera upp eigi síðar en sex mánuðum eftir að hin nýja staðreynd varð kunn.
5) Aldrei má beiðni um endurskoðun bera upp, eftir að 10 ár eru liðin frá dómsuppsögudegi.

62. gr.

1) Nú telur ríki sig eiga lögmæta hagsmuni, sem raskað kunni að verða fyrir úrlausn sakar, og getur það þá leitað leyfis dómstólsins til þess að ganga inn í mál.
2) Dómurinn úrskurðar beiðnina.

63. gr.

1) Hvenær sem skýra skal milliríkjasamning, þar sem önnur ríki en þau, er að dómsmáli standa, eru aðilar, þá skal dómritari þegar í stað tilkynna það slíkum ríkjum.
2) Hverju því ríki, er slíka tilkynningu hefur fengið, er rétt að ganga inn í mál, en skýring sú, er dómstóll gefur, bindur það þá eins og hina aðilana, ef það neytir þessa réttar.

64. gr.

Hvor aðili skal bera sinn kostnað af máli, nema dómur mæli öðruvísi.

 

 IV. kafli

ÁLITSGERÐIR

  65.gr.

1) Dómurinn getur látið í té álit sitt um sérhvert réttaratriði eftir beiðni hvaða samfélags sem vera skal, er hefur verið heimilað af sameinuðu þjóðunum eða samkvæmt stofnskrá þeirra að bera fram slíka beiðni.
2) Málefni, sem álits dómstólsins er leitað um, skal leggja fyrir hann í skriflegri beiðni, þar sem sakarefni sé nákvæmlega lýst, enda fylgi öll þau skjöl, sem líkleg eru til þess að varpa ljósi á málið.

66. gr.

1) Dómritari skal þegar í stað senda öllum þeim ríkjum, sem heimild hafa til þess að koma fyrir dómstólinn, tilkynningu um beiðni um álitsgerð.
2) Þar að auki skal dómritari sérstaklega og beinleiðis tilkynna hverju því ríki, sem heimilt er að koma fyrir dómstólinn, og hverri þeirri alþjóðastofnun, sem dómstóllinn eða, ef hann er þá ekki starfandi, forseti telur líklega til þess að geta veitt upplýsingar varðandi málefnið, það, að dómstóllinn sé við því búinn að taka við innan tímamarka, er forseti setur, skriflegri greinargerð eða munnlegri um málið á opinberu dómþingi, er háð verði í því skyni.
3) Ef eitthvert ríki, sem heimilt er að koma fyrir dómsstólinn og ekki skyldi hafa fengið hina sérstöku vitneskju, sem í 2. tölul. greinar þessarar segir, lætur uppi ósk um að gefa skriflega greinargerð eða munnlega fyrir dómi, þá tekur dómstóllinn ákvörðun þar um.
4) Ríki og stofnanir, sem látið hafa af hendi skriflegar eða munnlegar greinargerðir eða hvort tveggja, skulu fá leyfi til þess að láta uppi álit sitt um greinargerðir, sem önnur ríki eða stofnanir hafa sent, í því formi og með því yfirgripi og innan þeirra tímamarka, sem dómstóllinn eða, ef hann er ekki starfandi, forseti ákveður hverju sinni. Samkvæmt þessu skal dómritari láta þeim ríkjum og stofnunum, sem sent hafa greinargerð, í té innan hæfilegs tíma vitneskju um slíkar greinargerðir.

67. gr.

Dómstóllinn skal birta álitsgerðir sínar á opinberu dómþingi, enda hafi aðalframkvæmdastjóra og umboðsmönnum félaga bandalags hinna sameinuðu þjóða, annarra ríkja og alþjóðastofnana, sem málið beinlínis varðar, verið gert viðvart.

68. gr.

Þegar dómstóllinn starfar að álitsgerðum, skal hann einnig hafa til leiðbeiningar þau ákvæði í samþykktum þessum, sem varða dómsmál, að því leyti sem hann telur þau nothæf.

 

 V. kafli

BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM ÞESSUM

 69. gr.

Breytingar á samþykktum þessum skal gera með sama hætti sem mælt er í stofnskrá hinna sameinuðu þjóða um breytingar á henni, enda sé gætt sérhverra þeirra ákvæða, sem þingið kann að gera eftir tillögum öryggisráðsins varðandi þátttöku ríkja, sem eru aðilar að samþykktum þessum, en ekki eru félagar í bandalagi hinna sameinuðu þjóða.

70. gr.

Dómstóllinn hefur vald til þess að stinga upp á breytingum á samþykktum þessum, er hann telur nauðsynlegar, enda láti hann aðalframkvæmdastjóra í té skriflegar tillögur þar um, er athugaðar verði samkvæmt ákvæðum 69. gr.

Síðast uppfært: 25.7.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum