Hoppa yfir valmynd
21. október 2022 Brussel-vaktin

Starfsáætlun framkvæmdastjórnar ESB og orkukreppan

Að þessu sinni er fjallað um:

  • starfsáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) fyrir árið 2023
  • fund leiðtogaráðs ESB
  • orkukreppuna
  • fund utanríkisráðherra ESB
  • nýjar reglur um neyðar- og viðbragðsstjórnun ESB á sviði heilbrigðismála og lærdóminn af Covid-19 heimsfaraldrinum
  • tillögu framkvæmdastjórnar ESB um að Bosnía og Hersegóvína fái stöðu umsóknarríkis
  • fund atvinnu- og félagsmálaráðherra ESB
  • fund sameiginlegu þingmannanefndar EES í Strassborg
  • heimsókn varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, Maroš Šefčovič, til Íslands

Starfsáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir árið 2023

Framkvæmdastjórn ESB birti þann 18. nóvember sl. starfsáætlun sína fyrir árið 2023. Áætlunin ber þess merki að vera sett fram við þær óvenjulegar aðstæður sem árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur skapað. Er þar að finna áætlanir um frekari viðbrögð við þeim krísuaðstæðum sem skapast hafa um leið og gert er ráð fyrir að settur verði stóraukinn kraftur í framkvæmd meginstefnumiða stjórnar Ursulu von der Leyen með áherslu græna og stafræna umbreytingu (e. The European Green Deal and A Europe fit for the digital age). Áhersla á auknar hagvarnir er jafnframt áberandi en á þær lagði von der Leyen sérstaka áherslu m.a. í stefnuræðu sinni í september eins og greint var frá í Vaktinni 23. september sl.

Áætlunin er sett fram á grundvelli þriggja megin sjónarmiða:

  • Að þegar fengin reynsla sýni svo ekki verði um villst að ESB sé fært um að takast á við krísu af þeirri stærðargráðu sem nú blasir við.
  • Að krísan undirstriki mikilvægi fyrirliggjandi stefnumiða ESB m.a. um græna og stafræna umbreytingu.
  • Að krísan sé þess eðlis að henni verði ekki eingöngu mætt með hefðbundnum markaðsúrlausnum.

Áætlunin inniheldur m.a. 43 nýjar stefnumótandi ákvarðanir er snerta öll sex meginstefnumið stjórnarinnar sem flokkast eins og hér segir:

Grænt samkomulag (e. The European Green Deal)

  • Gagngerar endurbætur verði gerðar á raforkumarkaði ESB.
  • Samspil raforkuverðs annars vegar og gasverðs hins vegar verði aftengt.
  • Stofnaður verði nýr evrópskur vetnisbanki (e. European Hydrogen Bank).
  • Gripið verði til aðgerða til að minnka úrgang og draga úr umhverfisáhrifum úrgangs.
  • Löggjöf um dýravernd og dýravelferð verði tekin til endurskoðunar.

Stafræn geta og færni (e. Europe fit for digital age)

  • Gripið verði til aðgerða til að tryggja nægjanlegan aðgang að mikilvægum hráefnum sem þarf til að tryggja stafrænt- og efnahagslegt viðnámsþol sambandins.
  • Lögð verði áhersla á kynningu á ábatanum af innri markaði ESB og evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem 30 ára reynsla endurspeglar, um leið og unnið verður að því að draga úr göllum og innleiðingarhalla á upptöku reglna í aðildarríkjunum. Í því samhengi verði m.a. lögð áhersla á stafræna stjórnsýslu.
  • Búið verði til samevrópskt stafrænt upplýsingakerfi um samgöngur og fjölbreytta samgöngumöguleika.

Hagkerfi sem virkar (e. An economy that works for people)

  • Metið verði hvort stjórn efnahagsmála standi undir væntingum, samkvæmt niðurstöðum ráðstefnu um framtíð Evrópu.
  • Fjármálaáætlun ESB 2021 - 2027 verði endurskoðuð í ljósi áskorana.
  • Lagðar verði fram nýjar tillögur um samræmdar reglur um skattlagningu atvinnustarfsemi og verða þær unnar á grunni fyrri tillagna um slíkar breytingar er kynntar hafa verið undir yfirskriftinni BEFIT (e. Business in Europe: Framework for Income Taxation). Ursula von der Leyen kom inn á þetta verkefni í stefnuræðu sinni um nauðsyn þess að skapa smáum og meðalstórum fyrirtækjum samkeppnishæft rekstrarumhverfi til framtíðar, sbr. umfjöllun í Vaktinni 23. september sl.
  • Ýmsar breytingar sem lúta að fjármálamarkaði eru fyrirhugaðar. Ein af þeim gerðum sem þegar er í ferli er um evrópsk græn skuldabréf sem er hluti af verkefninu sjálfbær fjármögnun og af græna sáttmálanum. Sömuleiðis eru á listanum þrjár gerðir um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þar er líka að finna gerðir um áhættustjórnun fjármálafyrirtækja og aðgang að upplýsingum þeirra. Þá leynist gerðin um sameiginlegt evrópskt innstæðutryggingakerfi einnig á listanum, en sú gerð hefur legið í láginni undanfarna mánuði.
  • Lagðar verði fram tillögur um lagalegan grundvöll fyrir hugsanlega útgáfu stafrænnar evru (e. digital euro) af hendi Seðlabanka Evrópu.
  • Unnið verði að atvinnutengdum félagsmálum, aukinni starfsþjálfun, sanngjörnum launum og félagslegri vernd til að styðja við félagslegan viðnámsþrótt ESB í erfiðum aðstæðum.

Efling ESB á sviði heimsmála (e. A stronger Europe in the world)

  • Kynnt verði stefna ESB á sviði geimmála með frið og öryggi að leiðarljósi.
  • Kynnt verði stefna ESB í öryggismálum hafsins.
  • Efnahagsþvingunarúrræði ESB verði uppfærð þannig að þeim megi einnig beita til að bregðast við og berjast gegn spillingu.
  • Aukin áhersla verði lögð á samskipti við ríki Suður-Ameríku og í Karíbahafinu.
  • Haldið verði áfram að efla samstarf við ríki sem sótt hafa um aðild að ESB, þ.e. ríki Vestur-Balkanskaga, Úkraínu, Moldóvu og Georgíu.

Efling samevrópskra lífshátta (e. Promoting our European way of life)

  • Leitað verði leiða til auðvelda ungu fólki innan sambandsins til að sækja sér menntun utan síns heimalands, innan sambandsins.
  • Átak verði gert til að laða að sérhæft starfsfólk til starfa innan sambandsins, þar sem skortur er, meðal annars með aukinni viðurkenningu á hæfni og starfsréttindum fólks utan ESB.
  • Innleidd verði stafræn ferðaskilríki innan Schengen-svæðisins til að auðvelda för fólks innan svæðisins.
  • Samstarf aðildarríkja á sviði heilbrigðismála verði eflt.

Efling og vernd lýðræðis (e. A new push for European democracy)

  • Lagður verði fram aðgerðarpakki til verndar lýðræðis innan ESB, m.a. fyrir utanaðkomandi áhrifum.
  • Haldið verði áfram að byggja upp einingu jafnræðis innan ESB með tillögum um evrópsk öryrkjaskilríki sem tryggi gagnkvæma viðurkenningu á stöðu fötlunar í aðildarríkjunum.
  • Áfram verði unnið að einföldun regluverks með það að markmiði að minnka reglubyrði fólks og fyrirtækja.

Framkvæmdastjórnin mun nú hefja samræður við Evrópuþingið og ráðherraráð ESB í því skyni að ná samstöðu um sameiginlegan forgangslista löggjafartillagna sem leggja þarf fram til að hrinda áætluninni í framkvæmd.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogar aðildarríkja ESB komu saman til fundar í Brussel í gær, 20. október, og var fundinum framhaldið í dag, 21. október. Umræðuefni fundarins voru árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu, orku- og efnahagsmál, fæðuöryggi, vernd mikilvægra innviða og samskipti ESB við þriðju ríki.

Orku- og efnahagsmál voru til umræðu á fyrri degi fundarins og sendi ráðið frá sér ályktun um þau málefni í kjölfar fundarins sem birt var liðna nótt. Í ályktuninni skorðar leiðtogaráðið á ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórnina að komast sem fyrst að niðurstöðu um tilteknar aðgerðir sem raktar eru í ályktun ráðsins sem og um fyrirliggjandi tillögur framkvæmdastjórnarinnar, en þó eftir að áhrif þeirra hafi verið metin með fullnægjandi hætti. Þær aðgerðir sem leiðtogaráðið kallar eftir eiga að mörgu leyti samhljóm í fyrirliggjandi tillögum framkvæmdastjórnar ESB en nánar er fjallað um þær tillögur hér að neðan í sérstakri umfjöllun um orkumálin. Ljóst er þó að tillögur framkvæmdastjórnarinnar þarf nú að yfirfara vandlega og uppfæra með hliðsjón af áherslum leiðtoganna. Í lok fundarlotunnar í gær hélt forseti leiðtogaráðsins, Charles Michel, ræðu um afrakstur fundardagsins.

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og margþættar afleiðingar þess var meginumræðuefni fundarins í dag. Í niðurstöðuskjali fundarins m.a. kemur fram að stöðug stigmögnun átakanna af hálfu Rússlands stofni friði í Evrópu og í heiminum í hættu. Ráðið lýsir því yfir að það sé staðráðið í að vinna gegn upplýsingaóreiðu sem ætlað sé að grafa undan sameiginlegri viðleitni til að verja fullveldi Úkraínu og alþjóðalög. Þá ítrekar ráðið að Rússland beri eitt ábyrgð á þeirri orku- og efnahagskreppu sem stríðið hafi leitt af sér.

Þá fordæmir leiðtogaráðið m.a. eldflauga- og drónaárásir á almenna borgara og innviði í Úkraínu.

Ráðið krefst þess að Rússland dragi herlið sitt til baka frá öllu yfirráðasvæði Úkraínu og ítrekar að það muni standa með Úkraínu eins lengi og þarf og muni halda áfram að veita landinu öflugan stuðning, pólitískan, hernaðarlegan og fjárhagslegan. Þá lagði leiðtogaráðið blessun sína yfir ákvörðun ráðherraráðs ESB, er fjallað er um hér að neðan í tengslum við fund utanríkisráðherra ESB, um að stofna til hernaðaraðstoðarnefndar ESB gagnvart Úkraínu sem mun styðja við þjálfun og uppbyggingu úkraínskra hersins.

Ráðið kallar eftir því að afgreiðslu almennrar fjárhagsaðstoðar til Úkraínu verði hraðað og leitað verði allra leiða til að styðja við landið með fríverslun og aðgangi að innri markaði ESB og félagslegri aðstoð.

Ráðið skorðar á stjórnvöld í Hvíta Rússlandi að láta af stuðningi sínum við Rússlandi í tengslum við stríðið.

Loks fagnar leiðtogaráðið nýjum refsiaðgerðum gegn Rússlandi sem innleiddar hafa verið.

Þá fjallaði ráðið um fæðuöryggi og mikilvæga innviði og vernd þeirra, meðal annars í ljósi skemmdarverka sem unnin voru á Nord stream gasleiðslunni, og samskipti ESB við þriðju ríki, loftlagsmál, mannréttindabrot í Íran o.fl.

Orkukreppan

Viðbrögð við orkuskorti og háu orkuverði, sem er ein afleiðing árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu, eru meðal allra brýnustu úrlausnarefna stjórnmálanna á meginlandi Evrópu um þessar mundir svo sem umræður og ályktanir leiðtogaráðs ESB sem vísað er til að framan bera með sér. Þegar hefur verið gripið til ýmissa neyðarráðstafana eins og gert hefur verið í Vaktinni að undanförnu.

Orkumálaráðherrar ESB hittust á óformlegum fundi í Prag 11. og 12. október til umræðu um þessi mál og var þar kallað eftir frekari aðgerðartillögum frá framkvæmdastjórninni um aðgerðir.

Framkvæmdastjórnin brást hratt við því kalli og voru nýjar tillögur um neyðarviðbrögð til að bregðast við háu gasverði innan sambandsins og til að tryggja gasframboð í vetur kynntar 18. október. Í þeim tillögum er eftirfarandi lagt til:

  • Að sameiginleg gasinnkaup verði tekin upp með það að markmiði að ná fram hagstæðara innkaupaverði, auka afhendingaröryggi og sporna gegn því að aðildarríki yfirbjóði hvert annað á heimsmarkaði.
  • Að nýjar verðleiðréttingarferðir verði innleiddar til skamms tíma með það að markmiði að koma á virkum markaði fyrir viðskipti með gas og til að sporna gegn verðhækkunum á afleiðumörkuðum. Í millitíðinni hyggst framkvæmdastjórnin þróa nýtt verðviðmið fyrir gas sem stutt getur við stöðuga og fyrirsjáanlega verðmyndun á markaði.
  • Að samstaða aðildarríkja verði styrkt með auknu gagnsæi varðandi innviði og birgðastöðu og stöðugt verði unnið að því að draga úr eftirspurn.

Er þessum aðgerðum, ásamt öðrum sem þegar hafa verið ákveðnar, ætlað að koma stöðugleika á gasmarkaðinn í vetur og til lengri tíma og draga þannig úr álagi á heimili og atvinnulíf af þessum sökum. Framangreindar tillögur þarf nú eins og áður segir að yfirfara vandlega og uppfæra með hliðsjón af áherslum leiðtogaráðs ESB.

Framkvæmdastjórnin boðar einnig áframhaldandi vinnu í tengdum málum og er í því sambandi sérstaklega tiltekið að til standi að kynna tillögur um endurskoðun á bráðabirgðaregluverki ESB um ríkisaðstoð (e. State aid Temporary Crisis Framework) síðar í þessum mánuði, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 7. október sl. Þá hyggst framkvæmdastjórnin framkvæma þarfamat á REPowerEU verkefninu í því skyni að flýta fyrir orkuskiptum og til að minnka líkur á því að óstöðugleiki skapist á innri markaðnum.

Framkvæmdastjórnin leggur einnig til að samheldnissjóðir sambandsins verði nýttir markvisst til að takast á við áhrif orkukreppunnar á íbúa og atvinnulíf í aðildarríkjunum.

Til að létta á lausafjárvanda sem mörg orkufyrirtæki standa frammi fyrir hefur framkvæmdastjórnin jafnframt sett nýjar reglur fyrir markaðsaðila er varða tryggingar, veð og ríkisábyrgð og hækkun á greiðsluþröskuldi. Þessum aðgerðum er ætlað að létta undir með fyrirtækjum og styðja við fjármálastöðugleika.

Þá hafa Orkumálastofnun ESB (ACER) og Evrópska verðbréfa- og markaðseftirlitið (ESMA) eflt samvinnu sín á milli til að til að fylgjast með og greina hugsanlega markaðsmisnotkun og misnotkun á orkumörkuðum Evrópu.

Á fundi orkumálaráðherranna var einnig fjallað um þörfina á því að ráðast í meiriháttar endurskoðun á raforkukerfinu. Í máli Kadri Simson orkumálastjóra ESB kom m.a. fram að skilja þyrfti á milli neyðarráðstafana til skamms tíma og langtímaumbóta á raforkumarkaðinum en á því sviði hyggst framkvæmdastjórn ESB leggja fram tillögu snemma árs 2023, sbr. starfsáætlun framkvæmdastjórnarinnar sem fjallað er um hér að framan. Í máli orkumálastjórans kom jafnframt fram að fyrirhuguð verðleiðrétting á gasi mætti ekki leiða til meiri gasnotkunar en ella væri. Vandinn væri ekki bundinn við komandi vetur, heldur næstu vetra þar á eftir jafnframt.

Fulltrúar Íslands tóku þátt í framangreindum fundi orkumálaráðherra og gafst þar tækifæri til að greina frá stöðu orkumála á Íslandi sem er eins og kunnugt er allt önnur og vænlegri en í flestum öðrum Evrópuríkjum, þar sem framleiðsla á endurnýjanlegri orku, með virkjun jarðhita og vatnsafls, uppfyllir orkuþörf til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Þó kom fram að eftir sem áður væri þörf á að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á Íslandi til að mæta þörfum fyrir hrein orkuskipti í samgöngum og fiskveiðum. Ísland deildi áhyggjum af hinu erfiða ástandi í orkumálum í Evrópu og er kæmi að viðbrögðum til lengri tíma byggi Ísland yfir þekkingu á sviði orkumála, m.a. á sviði jarðhita, sem er vannýtt auðlind í Evrópu og á heimsvísu, sem gagnast gæti öðrum ríkjum og líta mætti til.

Orkumálaráðherrar ESB koma saman á ný til fundar í næstu viku, 25. október. Á þeim fundi verður leitast við að ná niðurstöðu um tilskipun um orkunýtingu bygginga og halda áfram stefnumótandi umræðu um gaspakkann svonefnda, sem felur í sér tillögur að sameiginlegum reglum innri markaðarins fyrir endurnýjanlega orku, jarðgas og vetni. Þessar tillögur eru hluti af aðgerðapakkanum „Fit for 55“ sem miðar að því að gera ESB kleift að ná fram loftslagshlutleysi árið 2050. Þá er stefnt að enn öðrum fundi orkumálaráðherra ESB um í nóvember m.a. til að ræða og samþykkja, eftir atvikum, framangreindar tillögur framkvæmdastjórnarinnar að teknu tilliti til áherslna leiðtogaráðs ESB.

Loks má geta þess að þann 18. október kom út skýrsla framkvæmdastjórnarinnar til Evrópuþingsins, ráðsins, efnahags- og félagsmálanefndar Evrópu og svæðisnefndar um stöðu orkumála 2022 (State of the Energy Union 2022).

Fundur utanríkisráðherra ESB

Utanríkisráðherrar ESB komu saman til fundar 17. október á vettvangi ráðherraráðs ESB. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu var megin umræðuefnið eins og við mátti búast og var einarður stuðningur ESB við Úkraínu staðfestur og undirstrikaður með ákvörðun ráðsins um stofnun hernaðaraðstoðarnefndar ESB til að styðja við úkraínska herinn (e. EU Military Assistance Mission to support the Ukrainian Armed Forces) og er nefndinni ætlað að standa að þjálfun 15.000 úkraínskra hermanna innan landamæra ESB. Þá var jafnframt ákveðið að auka fjárstuðning ESB við úkraínska varnarliðið um 500 milljónir evra en með þeirri aukningu er fjárhagsleg hernaðaraðstoð ESB komin í 3,1 milljarð evra.

Þá samþykkti ráðið nýjar refsiaðgerðir gegn tilgreindum aðilum í Íran vegna aðkomu þeirra að dauða Mahsa Amini og harkalegum viðbrögðum þeirra gagnvart mótmælendum í landinu.

Flókið samband ESB við Kína var til umræðu.

Nýafstaðnar kosningar í Bosníu og Hersegóvínu voru ræddar en kosningarnar þykja hafa heppnast vel að mati eftirlitsaðila. Þá hefur framkvæmdastjórn ESB, meðal annars með vísan til framangreinds, lagt til að ríkið fáið stöðu umsóknarríkis að ESB eins og nánar er fjallað um hér að neðan.

Auk þessa var staða mála í Líbanon og Eþíópíu rædd sem og staða ágreinings Armeníu og Aserbaísjan ásamt fleiru.

Nýjar reglur um neyðar- og viðbragðsstjórnun ESB á sviði heilbrigðismála – lærdómurinn af Covid-19 heimsfaraldrinum

Fyrr í mánuðinum samþykkti Evrópuþingið, með miklum meirihluta atkvæða nýjar reglur sem styrkja eiga getu ESB og aðildarríkja þess til að takast á við heilsufarsógnir á borð við Covid-19 heimsfaraldurinn. Hér eru á ferðinni tvær endurskoðaðar gerðir, önnur um alvarlegar heilsufarsógnir þvert á landamæri (e. serious cross-border threats to health, SCHBT) og hin um rýmkað umboð Sóttvarnarstofnunar Evrópu (European Centre for Disease Prevention and Control, ECDC). Gerðirnar tengjast efnislega og því var talið eðlilegt að afgreiða þær saman. Gerðirnar bíða nú formlegrar samþykktar ráðherraráðsins áður en þær verða birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Gerðirnar endurspegla lærdóminn af faraldrinum og eru hluti af fjölþættum aðgerðapakka framkvæmdastjórnarinnar um öflugra samstarf á sviði heilbrigðismála (e. European Health Union). Pakkinn var lagður fram í nóvember 2020 og miðar að því að efla og samþætta neyðar- og viðbragðsstjórnun sambandsins þegar lýðheilsu er ógnað þvert á landamæri. Með afgreiðslu þingsins nú tókst að ljúka aðgerðapakkanum sem lagt var upp með í nóvember 2020.  Auk fyrrgreindra tveggja gerða samanstóð aðgerðapakkinn af því að styrkja og breikka hlutverk Evrópsku lyfjastofnunarinnar (European Medicines Agency, EMA) og stofnsetja neyðar- og viðbragðsskrifstofu (Health Emergency Response Authority, HERA) til að stýra undirbúningi og stjórnun neyðaraðgerða.

Í september 2021 voru tillögurnar um Evrópuskrifstofu neyðarviðbúnaðar og viðbragða vegna heilsuvár (HERA) birtar. Þær voru settar fram í tvennu lagi, í formi tilkynningar framkvæmdastjórnarinnar þar sem lýst er hlutverki, verkefnum og stjórnun skrifstofunnar og í tillögum um regluverk til að tryggja lagastoð fyrir aðgerðir á neyðartímum þegar heilsu er ógnað þvert á landamæri og þingið var að ljúka við að afgreiða. Skrifstofan tók til starfa í upphafi þessa árs og er rekin sem ein af skrifstofum framkvæmdastjórnarinnar. Með nýrri reglugerð nú er lagður nauðsynlegur lagagrundvöllur undir starf skrifstofunnar. Á grundvelli reglugerðarinnar verður ESB og aðildarríkjum gert betur kleift að sjá fyrir og bregðast við heilsuvám m.a. með því að samhæfa viðbúnaðar- og viðbragðsáætlanir bæði meðal einstakra ríkja og á vettvangi ESB, setja reglur um bætt, sveiganlegt og samþætt eftirlitskerfi og skýra verklag um sameiginleg innkaup á lyfjum, bóluefnum, lækningatækjum og öðrum nauðsynlegum björgum sem þörf er fyrir á neyðartímum. Auk þessa er gert ráð fyrir að svokölluð heilbrigðisöryggisnefnd (e. Health Security Committee) fái aukið hlutverk við stjórnun neyðar- og viðbragðsaðgerða þegar heilbrigði þjóða er ógnað. Íslendingar eiga sæti áheyrnafulltrúa í nefndinni.

Endurskoðað hlutverk  Sóttvarnastofnunar Evrópu miðar að því að sjá fyrir og stjórna útbreiðslu smitsjúkdóma. Um er að ræða fyrstu endurskoðun á lögbundnum verkefnum stofnunarinnar frá því að hún var sett á fót árið 2004. Breytingunum er ætlað að styrkja ráðgjafarhlutverk stofnunarinnar gagnvart framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum með söfnun upplýsinga og úrvinnslu gagna og birtingu þeirra svo betur megi undirbúa, stýra og samhæfa viðbrögð á neyðartímum.

Fyrr á árinu, 1. mars sl., tóku gildi nýjar reglur um aukið hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu til að undirbúa og bregðast við aðstæðum á neyðartímum, sem einkum miða að því að draga úr áhrifum lyfjaskorts og styrkja stoðir undir klínískar rannsóknir og gagnsæi við útgáfu markaðsleyfa.  

Möguleg þátttaka Íslands

Íslendingar hafa lýst áhuga á virkri þátttöku í neyðar – og viðbragðsstjórnun Evrópusambandsins enda reyndist samstarfið við ESB mikilvægt er kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst einkum varðandi sameiginleg innkaup á bóluefnum og öðrum nauðsynlegum aðföngum. Óformlegum viðræðum í þessu skyni var ýtt úr vör í haust.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB um að Bosnía og Hersegóvína fái stöðu umsóknarríkis

Framkvæmdastjórn ESB birti 12. október sl. skýrslu um stöðu stækkunarmála í sambandinu og hvernig ríki með stöðu umsóknarríkis standa í aðildarferlinu. Megin tíðindin sem fram koma í skýrslunni er að lagt er til að Bosnía og Hersegóvína fái stöðu umsóknarríkis hjá ESB. Í tillögunni eru útlistuð 14 forgangssvið sem stjórnvöld Bosníu og Hersegóvínu eru hvött til þess að vinna að og liðkað gætu fyrir aðild að sambandinu. Þau fela m.a. í sér að stjórnvöld ráðist í lýðræðisumbætur, berjist gegn spillingu, tryggi virkni opinberra stofnana og stuðli að fjölmiðlafrelsi.

Aðildarríki ESB eru 27 talsins eftir útgöngu Bretlands. Ríki með stöðu umsóknarríkis eru Albanía, Moldóva, Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía, Tyrkland og Úkraína. Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar fer yfir stöðu þessara ríkja í aðildarferlinu og útlistar hvað sé ábótavant.

Í kaflanum um Svartfjallaland er bent á að stjórnvöld þurfi að gera betur í að tryggja tjáningarfrelsi íbúa landsins og fjölmiðlafrelsi, að berjast þurfi gegn spillingu og glæpastarfsemi. Til þess þurfi pólitískan stöðugleika, uppbyggilega samvinnu og samhljóm allra hlutaðeigandi aðila. Serbía fær þau tilmæli að reyna eftir fremsta megni að koma á fót stöðugri ríkisstjórn sem raunverulega geti tekist á við þessi atriði og kröfur sem almennt eru gerðar til umsóknarríkja. Má þar t.a.m. nefna að staða dómstóla verði styrkt, að barist verði gegn spillingu, glæpastarfsemi og upplýsingaóreiðu, fjölmiðlafrelsi verði eflt og tekið verði á stríðsglæpum í dómstólum innanlands. Albanía og Norður-Makedónía eru sögð þurfa að ráðast í átak í baráttunni gegn spillingu og glæpastarfsemi og að tryggja þurfi tjáningarfrelsi borgaranna og stöðu réttarríkisins.

Tyrkland, sem haft hefur stöðu umsóknarríkis frá 1999, er sagt þurfa að bregðast við þeirri pólitísku þróun sem skert hefur lýðræði í landinu og veikt réttarríkið. Þá er vísað til eldfimrar deilu Tyrklands og Grikklands, sem er aðildarríki að ESB, við Austur-Miðjarðarhaf sem flæki stöðuna. Í því sambandi ítrekar ESB kröfu sína um að tyrknesk stjórnvöld virði sjálfstæði og landhelgi aðildarríkja sambandsins. Ennfremur veiki stefna tyrkneskra stjórnvalda um að taka ekki þátt í þvingunum gagnvart Rússum, í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu, stöðu þess í aðildarferlinu. Tyrkjum er þó talið til tekna að hafa auðveldað viðræður við Rússa vegna stríðsins og fyrir að hafa gegnt lykilhlutverki í að tryggja að útflutningur á korni hafi getað haldið áfram í kjölfar innrásarinnar.

Fundur atvinnu- og félagsmálaráðherra ESB

Óformlegur fundur atvinnu- og félagsmálaráðherra fór fram í Prag á fimmtudag og föstudag í síðustu viku. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Umræðuefni fundarins voru annars vegar afleiðingar innrásar Rússa í Úkraínu og aðlögun úkraínsks flóttafólks að vinnumarkaði í móttökulöndum og hins vegar áhrif orkukreppunnar á stöðu heimila og fyrirtækja.

Málefni flóttafólks

Skýr vilji kom fram hjá ríkjunum til þess að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu og hafa þau leitast við að veita flóttafólki alla mögulega aðstoð. Þá hafa nokkur ríki veitt úkraínskum flóttafólki betri réttarstöðu en almennt gildir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, vék m.a. að þessu atriði í innleggi sínu á fundinum.

Samhljómur var um mikilvægi þess að flóttafólk komist sem fyrst á vinnumarkað í móttökuríki til að það nái að aðlagast nýju samfélagi fljót og vel. Þá þurfi einnig að leitast við að fólk fái störf við hæfi. Mikill hluti flóttafólks eru konur með börn og því er nauðsynlegt að tryggja aðgang að barnagæslu til að sá þáttur hindri þær ekki á vinnumarkaði.

Fram kom að helstu áskoranir sem ríki glími við séu sameiginlegar milli landa, þ.e. skortur á húsnæði og öðrum innviðum eftir atvikum. Þá er tungumálakunnátta jafnan áskorun þar sem gerð er krafa um þekkingu í tungumáli búseturíkis í mörgum störfum. Því væri mikilvægt að tryggja að flóttamönnum stæði til boða kennsla í tungumáli móttökuríkis. Loks þurfi að gæta sérstaklega að því að flóttafólk væri almennt í viðkvæmari stöðu en annað fólk og útsettara fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði, ofbeldi og mansali.

Hækkandi orkuverð og fátækt

Í umræðu um orkumál kom fram að orkukostnaður væri orðinn mjög íþyngjandi fyrir stóran hluta íbúa Evrópu auk þess sem annar framfærslukostnaður hefði einnig hækkað. Hafa þyrfti í huga að þetta ætti ekki eingöngu við um þá sem verst eru settir heldur hefði millistéttin einnig orðið fyrir verulegum áhrifum auk þess sem hækkun orkukostnaðar hafi gífurleg áhrif á fyrirtækin. Því væri nauðsynlegt að beina aðgerðum ekki eingöngu að þeim sem verst eru settir heldur þurfi einnig að mæta millistéttinni með aðgerðum auk þess sem nauðsynlegt sé að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll fyrirtækja til að verja störf.

Eins og kunnugt er hefur Evrópusambandið sett fram tillögur í þessu efni en flest Evrópuríkin hafa einnig sett fram úrræði til að minnka höggið af hækkuðum orkukostnaði, einkum með niðurgreiðslu á orku en einnig með niðurgreiðslu orkusparandi breytinga og orkuskipta. Athygli vakti að samkvæmt nýrri samantekt Eurofund sem kynnt var á fundinum hefur meirihluti aðgerðanna verið almenns eðlis og beinst að því að niðurgreiða orku og hækka bætur og lífeyri. Eingöngu lítill hluti úrræðanna hefur hingað til beinst að stuðningi við orkusparandi aðgerðir, en fundarfólk var sammála því að stuðningur ríkjanna þyrfti í auknum mæli að stuðla að orkusparnaði og orkuskiptum.

Nicholas Schmidt, sem fer með atvinnu- og félagsmál í framkvæmdastjórn ESB, lagði áherslu á að lykilatriðið væri að tryggja að fátækt aukist ekki. Þær stefnur og tilskipanir sem lagðar hafa verið fram stuðli að því að bæta lífskjör Evrópubúa og draga úr fátækt, m.a. tilskipun um lágmarkslaun sem nýlega var samþykkt, auk tilmæla Evrópusambandsins um lágmarksframfærslu (minimum income reccommentation). Á hinn bóginn þurfi að gæta að því að láta ekki launahækkanir leiða verðbólgu. Samheldni og samræming ríkjanna sé nauðsynleg og e.t.v. sé þörf á frekari aðgerðum á vettvangi ESB og framkvæmdastjórnin muni hlusta á allar tillögur í því efni.

Fundur sameiginlegu þingmannanefndar EES í Strassborg

Sameiginleg þingmannanefnd EES kom saman til fundar 19. – 20. október. Nefndin samanstendur af þingmönnum þjóðþinga EES-EFTA ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein og þingmönnum Evrópuþingsins auk þess sem Sviss á áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu var til umræðu og orkukreppan sem af henni hefur leitt. Einnig var m.a. rætt um netöryggissamstarf á grundvelli EES-samningsins og samstarf á sviði öryggismála almennt. Megin umræðuefnið var þó framkvæmd og þróun EES-samningsins og staða upptöku á gerðum ESB í samninginn og innleiðingu þeirra í landsrétt aðildarríkjanna. Ísland fer nú með formennsku í EES-ráðinu og flutti sendiherra Íslands í Brussel og núverandi formaður EES-EFTA hliðar sameiginlegu EES-nefndarinnar, Kristján Andri Stefánsson, yfirlit um það sem er efst á baugi við rekstur samningins frá sjónarhóli EES/EFTA-ríkjanna. Á fundinum töluðu einnig formaður ESB hliðar sameiginlegu EES-nefndarinnar, Nicolas von Lingen, og formaður EFTA-vinnuhóps ráðherraráðs ESB, Petr Havlík. Að loknum erindum þeirra tóku þeir þátt í umræðu og svöruðu spurningum um stöðu samningsins.

Heimsókn varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, Maroš Šefčovič, til Íslands

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Maroš Šefčovič, heimsækir nú Ísland í boði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra. Heimsóknin hófst 19. Október og stendur fram á laugardag 22. Október. Í umboði forseta framkvæmdastjórnarinnar hefur Šefčovič farið með ábyrgð á rekstri EES-samningsins gagnvart EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að honum. Hann fer einnig með samskipti við Bretland, Sviss og örríkin (Andorra, Mónakó og San Marínó) auk þess að fara með fjölbreytt málefni innan framkvæmdastjórnarinnar á sviði samhæfingar á milli stofnana bandalagsins, stefnumótunar og einföldunar regluverks og umbætur lagasetningu.

Auk fundar með utanríkisráðherra átti Šefčovič fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, og utanríkismálanefnd. Þá sótti hann forseta Íslands, herra Guðna Th. Jóhannesson, heim að Bessastöðum og heimsótti alþingishúsið í boði forseta Alþingis Birgis Ármannssonar.

Šefčovič tók m.a. þátt í opnu málþingi um EES-samninginn og áskoranir 21. aldar sem fram fór í Hátíðarsal Háskóla Íslands 20. október sl. Málþingið var haldið í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi og viðskiptaráð Íslands og Evrópusambandsins. Málþingið var vel heppnað og umræður líflegar en horfa má á upptöku af málþinginu á vef RÚV.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum