Hoppa yfir valmynd
15. september 2023 Brussel-vaktin

Fimmta stefnuræða von der Leyen

Að þessu sinni er fjallað um:

 • stefnuræðu forseta framkvæmdastjórnar ESB
 • aðgerðapakka fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki
 • skilgreiningu á tekjuskattsstofni evrópskra fyrirtækja
 • samevrópsk öryrkjaskírteini
 • stafræna samræmingu almannatryggingakerfa í Evrópu
 • öryggisstaðla fyrir leikföng
 • breytt bóluefni gegn Covid-19 sjúkdómnum
 • heimsókn stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
 • ritstjórnarstefnu Brussel-vaktarinnar og bætt aðgengi

Stefnuræða forseta framkvæmdastjórnar ESB

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, flutti stefnuræðu (e. State of the Union Address) á Evrópuþinginu á miðvikudaginn var, 13. september sl. Var þetta fimmta og jafnframt síðasta stefnuræða Ursulu á þinginu á yfirstandandi fimm ára skipunartímabili stjórnar hennar sem hófst árið 2019. Evrópuþingskosningar fara fram á næsta ári, dagana 6. – 9. júní nk., og í framhaldi af þeim verður ný framkvæmdastjórn ESB skipuð. Enda þótt töluverðar líkur séu taldar á því að von der Leyen muni gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem forseti hefur hún sjálf ekkert gefið upp um það og ekki gerði hún það heldur í ræðunni á miðvikudag eins og margir voru þó að vonast eftir. Þess má geta að von der Leyen hefur einnig verið orðuð við stöðu framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, en nú liggur fyrir að Jens Stoltenberg, núverandi framkvæmdastjóri, muni láta af því starfi 1. október á næsta ári. 

Óhætt er að segja að stjórn hennar hafi skilað árangri. Samkvæmt tölfræði framkvæmdastjórnarinnar sjálfrar hefur náðst að uppfylla 90% af þeim pólitísku stefnumálum sem stjórn von der Leyen lagði upp með í stefnuáætlun sinni árið 2019 og er þó enn ár eftir af skipunartímanum. Það gerir árangurinn enn markverðari að á sama tíma hefur framkvæmdastjórnin þurft að glíma við heimsfaraldur og afleiðingar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu. Þakkaði hún þinginu, aðildarríkjunum og framkvæmdastjórn sinni og góðu samstarfi þessara aðila árangurinn.

Það var því keikur forseti sem stóð í ræðupúlti Evrópuþingsins á miðvikudaginn.

Hugur von der Leyen var við kosningarnar framundan, unga fólkið, grunngildi ESB og þá sýn um betri framtíð sem sambandið var reist á í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar, sýn sem verður á ný ljóslifandi nú þegar stríð geisar á evrópskri grundu.

Hún fagnaði sérstaklega árangri sem náðst hefur í grænu og stafrænu umskiptunum, að tekist hafi að byggja grunnstoðir heilbrigðissambands ESB (e. European Health Union) og síðast en ekki síst þeim áföngum sem náðst hafa í jafnréttismálum og vísaði hún þar m.a. til aðildar ESB að Istanbúlsamningnum, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl., tilskipunar um launagagnsæi, sbr. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl., auk þess sem hún hvatti til þess að sú grundvallarregla, að nei, þýði nei, verði fest í lög ESB.

Græni sáttmáli ESB

Græni sáttmáli ESB (e. European Grean Deal) var von der Leyen ofarlega í huga enda eitt af flaggskipum stefnumörkunar framkvæmdastjórnarinnar. Sagði hún sáttmálann vera orðinn að miðpunkti hagkerfis ESB og er kemur að fjárfestingum og nýsköpun. Hún sagði sáttmálann metnaðarfullan enda væri metnaður nauðsynlegur á þessu sviði með hliðsjón af loftslagsvánni sem birtist okkur æ skýrar með öfgum í veðurfari, hækkandi hitastigi og skógareldum.

Sagði hún aðgerðir þegar farnar að skila árangri og nefndi hún m.a. að á síðustu fimm árum hefði umhverfisvænum stálverksmiðjum í ESB fjölgað frá því að vera engin í 38. Þá sagði hún að fjárfesting í vetnisframleiðslu væri nú meiri innan ESB en í Bandaríkjunum og Kína til samans.

Hét hún evrópskum iðnaði áframhaldandi stuðningi við þau grænu umskipti sem nú standa yfir og vísaði hún þar til iðnaðaráætlunar ESB og sérstaklega til fyrirliggjandi löggjafartillagna um kolefnislausan iðnað (e. Net Zero Industry Act) annars vegar og um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) hins vegar. Sjá nánari umfjöllun um þessar tillögur í Vaktinni 24. mars sl. þar sem fjallað er um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans. Boðaði hún að farið yrði í sérstakt samráðsferli við aðila iðnaðarins til að tryggja framgang umskiptanna.

Boðaði hún jafnframt áframhaldandi sókn á sviði umhverfis- og loftlagsmála, m.a. nýjan vindorkuaðgerðapakka þar sem lögð verður áhersla á finna leiðir til að flýta og einfalda leyfisveitingar og liðka fyrir fjármögnun. Með þessari yfirlýsingu er von der Leyen að bregðast við vaxandi vandamálum sem vindorkugeirinn þykir hafa staðið frammi fyrir að undanförnu.

Loks boðaði hún að þess yrði gætt eins og framast væri unnt að grænu umskiptin yrðu réttlát bæði fyrir fólk og fyrirtæki.

Von der Leyen lagði áherslu á mikilvægi þess að vernda líffræðilegan fjölbreytileika skóga og vistkerfa en lagði að sama skapi áherslu á mikilvægi landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Er ljóst að í umfjöllun um þessi mál reyndi von der Leyen að leita jafnvægis milli andstæðra sjónarmiða á þessu sviði, sjónarmiða sem brutust út með látum í aðdraganda lokaafgreiðslu Evrópuþingsins á nýrri reglugerð um endurheimt vistkerfa í júní sl., sbr. umfjöllun um það mál í Vaktinni 21. júlí sl. Til að samræma sjónarmið í þessum efnum boðaði hún að teknar yrðu upp stefnumótandi umræður um framtíð landbúnaðar í ESB.

Samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs

Evrópskt atvinnulíf kann að meta virka og sanngjarna samkeppni. Samkeppni er góð fyrir viðskipti sagði von der Leyen, en bara ef hún er sanngjörn. Kvað hún ESB ekki hafa gleymt þeirri ósanngjörnu samkeppni sem Kína hefði viðhaft á sólarsellumarkaði fyrir margt löngu og þeim afdrifaríku afleiðingum sem það hefði haft á evrópska sólarselluframleiðslu. Sagði hún að álíka blikur væru nú á lofti á rafbílamarkaði þar sem ódýrir kínverskir bílar streymdu nú inn á einkabílamarkað um heim allan.

Boðaði von der Leyen að framkvæmdastjórnin myndi hefja rannsókn á því hvort Kína sé að niðurgreiða rafbílaframleiðslu með ósanngjörnum hætti í því skyni að öðlast markaðshlutdeild. Yfirlýsing von der Leyen um þessa rannsókn er líklega sá hluti ræðu hennar sem hlotið hefur mesta athygli enda er hún djörf og ljóst að með henni er tekin pólitísk og efnahagsleg áhætta vegna mögulegra mótaðgerða Kínverja. Viðbrögð við yfirlýsingunni í aðildaríkjunum og í þinginu hafa þó verið fremur jákvæð enn sem komið er.

Framkvæmdastjórn ESB hefur heimildir til að hefja rannsóknir af því tagi sem von der Leyen boðar þegar erlent ríki er grunað um að niðurgreiða vörur með þeim hætti að skaðað geti evrópskan iðnað. Ljóst er af ræðu von der Leyen að hún telur að sú kunni að vera raunin er kemur að rafbílaframleiðslu í Kína. Við væntanlega rannsókn, sem þó er enn ekki hafin opinberlega, mun framkvæmdastjórnin þurfa að leita viðbragða frá kínverskum stjórnvöldum og hlutaðeigandi fyrirtækjum í Kína og er ljóst að það getur reynst örðugt. Það er síðan framkvæmdastjórnarinnar að sýna fram á að um niðurgreiðslur sé að ræða sem skaðað geta evrópskan bílaiðnað. Verði það niðurstaðan getur framkvæmdastjórnin í framhaldinu lagt á innflutningstolla eða jöfnunartolla eins og þeir eru kallaðir, þ.e. aukatolla til að jafna samkeppnisstöðu.

Þrátt fyrir framangreint lagði von der Leyen áherslu á mikilvægi þess að halda samskiptum og viðræðum við Kína opnum og vísaði hún þar m.a. til fyrirhugaðs leiðtogafundar ESB og Kína (e. EU-China Summit) sem fyrirhugaður er síðar á þessu ári.

Þrjár stórar áskoranir í efnahagslífinu

Í máli von der Leyen kom fram að við stæðum frammi fyrir efnahagslegum mótvindi, og að þar sæi hún þrjár stórar áskoranir, þ.e. skort á hæfu vinnuafli, neikvæðar verðbólguhorfur og hvernig greiða megi fyrir og auðvelda viðskipti og starfsemi fyrirtækja.

Huga þurfi að stöðu mála á vinnumarkaði. Tekist hafi, þvert á allar spár, að varðveita störf í gegnum heimsfaraldurinn og að þar hafi hugmyndafræði félagslegs markaðshagkerfis sannað sig í verki með þeim árangri sem við sjáum í dag, þar sem atvinnuleysi er lítið. Hins vegar þurfi að huga að færni vinnuafls og að stutt sé við færniuppbyggingu á þeim sviðum þar sem þörfin er til staðar.

Gæta þurfi að jafnvægi á milli heimilis og einkalífs og að þar þurfi sérstaklega huga að stöðu kvenna, m.a. með því efla barnagæslu og leikskólastarfsemi, þannig að báðir foreldrar geti tekið þátt í vinnumarkaðnum. Tilkynnti von der Leyen að framkvæmdastjórnin, í samvinnu við Belga sem fara munu með formennsku í ráðherraráðinu á fyrri hluta næsta árs, ætli að skipuleggja og boða til sérstaks leiðtogafundar með aðilum vinnumarkaðarins til að ræða stöðuna á vinnumarkaði og þær áskoranir sem þar eru uppi.

Viðvarandi há verðbólga þessi misserin er mikil áskorun að mati von der Leyen. Tekist hefur með samhentum hætti að lækka orkuverð verulega þvert á spár og er það mikilsvert. Leitast þurfi við að beita líkum aðferðum og þar voru notaðar til að ná niður verði á öðrum sviðum svo sem verði á ýmsum mikilvægum hráefnum.

Hvernig greiða megi fyrir og auðvelda starfsemi fyrirtækja til að gera þau samkeppnishæfari er þriðja stóra áskorunin sem von der Leyen sér fyrir sér. Boðaði hún að lagðar yrðu fram löggjafartillögur í næsta mánuði þar sem stefnt væri að því að draga úr stjórnsýslubyrði fyrirtækja umtalsvert. Sjá einnig í þessu samhengi umfjöllun hér að neðan um nýjan aðgerðarpakka framkvæmdastjórnarinnar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Til að greina nánar þessar áskoranir tilkynnti von der Leyen að hún hefði beðið hinn virta hagfræðing Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, að taka saman skýrs,lu um framtíðarsamkeppnishæfni ESB.

Áhersla á nýsköpun og þróun og hagvarnir

Von der Leyen lagði ríka áherslu á mikilvægi nýsköpunar og þróunar auk mikilvægi þess að stutt sé við slíka starfsemi og vísaði hún þar meðal annars til fyrirliggjandi löggjafartillagna um nýjan tækniþróunarvettvang ESB (STEP), sbr. nánari umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 23. júní sl.

Von der Leyen kom einnig skýrlega inn á mikivægi hagvarna eins og nýlegar útflutningstakmarkanir Kína á gallíum og germaníum sanna. Sjá nánar hér umfjöllun um nýja efnahagsöryggisstefnu ESB í Vaktinni 23. júní sl.

Stafræn umskipti og gervigreind

Von der Leyen gerði mikilvægi stafrænna umskipta að umtalsefni. Vísaði hún m.a. til þess að ESB væri alþjóðlegur brautryðjandi þegar kæmi að því að tryggja borgaraleg réttindi í stafrænum heimi og vísaði hún þar m.a. til reglugerðar á sviði rafrænnar þjónustu (e. Digital Services Act – DSA) og reglugerðar á sviði rafrænna markaða (Digital Markets Act – DMA), sbr. m.a. umfjöllun um þessi mál í Vaktinni 18. nóvember sl. 

Einnig gerði hún framþróun í gervigreind að umtalsefni þar sem tækifærin væru gríðarleg en hætturnar sömuleiðis. Vísaði hún í þessu sambandi til fyrirliggjandi tillögu að reglugerð um gervigreind (e. Artificial Intelligence Act) þar sem ESB væri einnig brautryðjandi, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl. um það mál.

Flóttamannamál

Von der Leyen gerði stöðu flóttamannamála að umtalsefni. Mikilvægt væri að gera umbætur á flóttamannakerfi ESB og vísaði hún þar til fyrirliggjandi tillögupakka ESB í hælismálum, svokallaðs hælispakka ESB (e. The Pact on migration and asylum) sem lengi hefur verið til umræðu innan ESB en ekki enn fengið afgreiðslu, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 2. desember sl. um málefni flótta- og farandsfólks. Þá væri brýnt að uppræta starfsemi glæpagengja sem hagnast á neyð flóttafólks um leið og þau setja líf þess í bráða hættu.

Þá kallaði hún eftir því að aðildarumsóknir Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen-samstarfinu yrðu samþykktar.

Utanríkismál - Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu.

Umræða um stöðu heimsmála og árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu var einnig fyrirferðarmikil í ræðu von der Leyen þá ekki síst þau áhrif sem stríðið hefur haft á heimsmálin með beinum og óbeinum hætti. Lýsti von der Leyen enn og aftur yfir óhagganlegum stuðningi við Úkraínu.

Stækkunarmál

Von der Leyen tók sterkt til orða um mögulega stækkun ESB, sagði framtíð Úkraínu vera í ESB sem og ríkja vestur-Balkanskagans og Moldóvu og að henni væri jafnframt vel kunnugt um mikinn vilja Georgíu til að ganga í bandalagið. Kom skýrt fram í ræðunni sú afstaða von der Leyen að stækkun sambandsins síðustu 20 ár hefði ætíð verið til velfarnaðar.

Aðgerðapakki fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Þann 12. september sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram aðgerðapakka sem ætlað er að efla samkeppnisfærni og viðnámsþrótt lítilla og meðalstórra fyrirtækja í núverandi efnahagsumhverfi.

Framkvæmdastjórnin hefur frá árinu 2020 lagt mikla áherslu á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru um 99% evrópskra fyrirtækja. Að mati framkvæmdastjórnarinnar eru þau mikilvægur hlekkur í grænu og stafrænu umskiptunum sem nú standa yfir. Lítil og meðalstór fyrirtæki standa hins vegar frammi fyrir miklum efnahagslegum áskorunum, hömlum á aðföngum, skorti á vinnuafli og ósanngjarnri samkeppni.

Aðgerðapakkanum er ætlað að styðja við þessi fyrirtæki til skemmri tíma en einnig að auka samkeppnishæfni þeirra, vöxt og viðnám til lengri tíma litið.

Aðgerðirnar samanstanda af tveimur löggjafartillögum, annars vegar tillögu að reglugerð um greiðsludrátt og hins vegar af tillögu að tilskipun um einföldun á skattumhverfi. Auk þessa eru settar fram margvíslegar úrbótatillögur í sérstakri orðsendingu sem fylgir pakkanum.

Reglugerð um greiðsludrátt

Með tillögunni er lagt til að sett verði ný reglugerð um greiðsludrætti í verslunarviðskiptum. Tillagan tekur einkum til ósanngjarnra tafa á greiðslum sem hafa áhrif á sjóðsstreymi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og hamla samkeppnishæfni og viðnámi í aðfangakeðjum.  

Nýrri reglugerð er ætlað að koma í stað eldri tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/7/ESB um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum nr. 8/2015. 

Tillagan felur í sér að tekið verði upp strangara hámarksgreiðslumark sem yrði 30 dagar. Með tillögunni er einnig lagt til að uppfæra og skýra betur texta núgildandi tilskipunar um sama efni. Með tillögunni er einnig gert ráð fyrir sjálfvirkri greiðslu áfallinna vaxta og bóta auk þess sem kynnt eru til sögunnar ný réttarúrræði vegna vanefnda.

Tilskipun um einföldun á skattaumhverfi

Með tillögunni er lagt til að komið verði á fót miðlægu skattkerfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki (e. Head Office Tax system).

Fyrirtæki sem stunda viðskipti yfir landamæri standa oft frammi fyrir háum kostnaði og flækjustigi þegar þau eiga við mismunandi skattkerfi aðildarríkjanna. Með tillögunni er m.a. gert ráð fyrir að lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa skattskylda starfsemi og höfuðstöðvar með staðfestu í einu aðildarríki geti reiknað skattstofn sinn samkvæmt reglum heimaríkisins vegna útibúa sinna í öðrum aðildarríkjum. Gert er ráð fyrir að tillagan geti sparað allt að 32% kostnaðar vegna reglufylgni eða allt að 3,4 milljarða evra á ársgrundvelli. Sjá í samhengi við þetta sérstaka umfjöllun hér að neðan um nýja tillögu um samræmda skilgreiningu á tekjuskattstofni evrópskra fyrirtækja.

Ýmsar fleiri aðgerðir eru í pakkanum sem ætlað er að leysa úr læðingi efnahagslega möguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja og má þar helst nefna:

Umbætur á regluverki fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Framkvæmdastjórnin stefnir að því gera starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja viðskiptavænna. Þessu hyggst framkvæmdastjórnin ná með einföldun regluverks, m.a. með þeim hætti að leggja meiri áherslu á að ein regla fari út fyrir hverja nýja reglu sem er sett inn (e. One in, one out). Þá er lagt til að við mat á áhrifum löggjafar Evrópusambandsins verði sérstökum mælikvörðum beitt sem tryggi hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þá verður tilnefndur sérstakur sendifulltrúi sem hefur það verkefni að gæta hagsmuna lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sendifulltrúinn mun heyra beint undir forseta framkvæmdastjórnarinnar og er henni til leiðbeiningar og ráðgjafar. Framkvæmdastjórnin mun einnig stuðla að notkun svokallaðra verkfærakista til að efla tilraunir og nýsköpun lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Einfaldari stjórnsýsla

Stefnt er að því að einfalda litlum og meðalstórum fyrirtækjum stjórnsýslu, m.a. með útfærslu sérstakrar stafrænnar gáttar (e. Single Digital Gateway) sem auðveldar alla gagnaframlagningu. Kröfur til gagnaframlagningar og skýrslugjafar lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða einnig einfaldaðar með stafrænum lausnum.

Örvun fjárfestinga

Stefnt er að því að örva enn frekar fjármögnunarmöguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja og er gert ráð fyrir að það verði til viðbótar þeim 200 milljarða evra sem standa litlum og meðalstórum fyrirtækjum til boða í gegnum ýmsar fjármögnunaráætlanir Evrópusambandsins nú þegar til ársins 2027. Þá verður séð til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki geti auðveldlega nýtt sér hinn nýja tækniþróunarvettvang (e. Strategic Technologies for Europe Platform - STEP) sem nú er í farvatninu þar sem gert er ráð fyrir að 7,5 milljarðar evra í heild sinni verði til skiptanna, sbr. umfjöllun um þann vettvang í Vaktinni 23. júní sl.

Þjálfun vinnuafls

Haldið verður áfram að styðja við þjálfun hæfs vinnuafls í gegnum ýmis evrópsk stuðningsverkefni og mæta þannig þörfum lítilla og meðalstórra fyrirtækja á evrópskum vinnumarkaði, sbr. m.a. umfjöllun um evrópska færniárið 2023 í Vaktinni 10. febrúar sl.

Endurskilgreining lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Loks er boðað að fyrir árslok 2023 verði skilgreining lítilla og meðalstórra fyrirtækja endurskoðuð.

Framangreindar tillögur ganga nú til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB til umfjöllunar.

Skilgreining á tekjuskattsstofni evrópskra fyrirtækja

Þann 12. september sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri tilskipun ráðherraráðs ESB um samevrópska skilgreiningu á tekjuskattsstofni fyrirtækja. Tillagan byggir á byggir á samkomulagi OECD og G20-ríkjanna um lágmarksskatt á heimsvísu. Tillagan ber heitið „Viðskipti í Evrópu: Tekjuskattsrammi“ (e. Business in Europe: Framework for Income Taxation, BEFIT).

Stór fyrirtæki sem starfa víða innan ESB bera mikinn kostnað af því að þurfa að gera upp skatta í aðildarríkjunum í samræmi við allt að 27 mismunandi skattareglur. Mat framkvæmdastjórnarinnar er að ef tillagan nái fram að ganga geti hún sparað stórum fyrirtækjum allt að 65% kostnaði. Samkvæmt tillögunni verður stærri fyrirtækjum gert skylt að styðjast við þessar skilgreiningar við skattuppgjör en minni fyrirtæki geta valið að gera það.

Framkvæmdastjórnin lagði samhliða fram tillögu til ráðherraráðsins um nýja tilskipun um milliverðlagningu (e. transfer pricing). Henni er ætlað að draga úr óvissu við skattlagningu og þar með hættunni á málaferlum og tvísköttun.

Enda þótt tillögurnar teljist ekki EES-tækar er fullt tilefni fyrir Ísland að fylgjast vel með þróun samræmingar á sviði skattamála innan ESB enda kann hún að varða samkeppnishæfni fyrirtækja hér á landi.

Samevrópsk öryrkjaskírteini

Þann 6. september sl. lagði framkvæmdarstjón ESB fram tillögu að tilskipun um samevrópsk öryrkjaskírteini og bílastæðakort  (e. European Disability Card and the European Parking Card for persons with disabilities). Skírteininu er ætlað að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á stöðu einstaklinga með fötlun í öllum aðildarríkjum ESB og er þannig ætlað að auðvelda frjálsa för fatlaðs fólks innan ESB.

Skilríkjunum er þannig ætlað að tryggja einstaklingum með fötlun jafnan aðgang að tiltekinni þjónustu sem fötluðum stendur til boða í einstökum aðildarríkjum ESB, hvort heldur er hjá einkafyrirtækjum eða opinberum aðilum. Rétt er að taka fram að tillagan nær ekki til lífeyrisgreiðslna eða félagslegrar aðstoðar sem fatlaðir kunna að eiga rétt á í sínu heimalandi.

Í tillögunni, sem er merkt EES tæk af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, er gert ráð fyrir því að yfirvöld í hverju og einu ríki gefi út örorkuskírteini til sinna íbúa en kortunum er þó ekki ætlað að koma í stað þeirra innlendu örorkuskírteina sem ríkin, hvert fyrir sig, kunna nú þegar að gefa út. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að samevrópsku bílastæðakortin leysi af hólmi þau bílastæðakort sem nú eru í gildi í einstökum aðildarríkjum. Einkabíllinn er í mörgum tilvikum sá samgöngukostur sem helst veitir fötluðu fólki möguleika á því að komast leiðar sinnar á eigin spýtur. Með samræmdum kortum á fatlað fólk því að geta nýtt forgangsrétt sinn til bílastæða sem fötluðum er tryggður í öllum aðildarríkjum ESB óháð því hvor það er statt í sínu heimaríki eða annar staðar innan sambandsins. Kortin verða gefin út bæði í föstu og stafrænu formi. 

Samkvæmt tillögunni verður aðildarríkjunum gert skylt að tryggja að fatlað fólk og aðildarfélög þeirra hafi möguleika á að leita réttar síns ef réttur til aðgangs að þjónustu sem tilskipunin mælir fyrir um er ekki virtur og einnig að til staðar séu lagaleg úrræði til að krefjast úrbóta og/eða leggja sektir á þá sem ekki virða efni tilskipunarinnar. 

Tillagan er hluti af aðgerðaráætlun Evrópusambandsins fyrir árin 2021-2030 um réttindi fólks með fötlun sem á að tryggja framfylgd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í Evrópu og á einnig að styðja við markmið Evrópsku réttindastoðarinnar

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Eins og greint var frá í Vaktinni 21. október sl. er tillagan hluti af starfsáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir árið 2023 og er málið á meðal áherslumála Spánverja í ráðherraráðinu, sbr. umfjöllun um formennskuáætlun Spánverja í Vaktinni 7. júlí sl.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að aðildarríkin fái tvö ár til þess að innleiða gerðina, eftir að hún hefur verið samþykkt á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Þess má geta að tillagan byggir á fenginni reynslu af tilraunaverkefni sem átta aðildarríki ESB tóku þátt í og voru niðurstöður þess verkefnis jákvæðar.

Stafræn samræming almannatryggingakerfa í Evrópu

Þann 7. júní sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar um stafræna samræmingu almannatryggingakerfa í ESB. Markmiðið með orðsendingunni og þeim tillögum sem þar eru settar fram er að leita leiða til að styðja við frjálsa för fólks á innri markaði ESB og greiða fyrir því að fólk geti búið, unnið og stundað nám hvarvetna innan svæðisins. Tillögunum sem settar eru fram í orðsendingunni er þannig ætlað að bæta aðgengi fólks að almannatryggingum aðildaríkjanna með bættri notkun upplýsingatækni og minnka flækjustig og skriffinnsku bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og hlutaðeigandi stjórnvöld. Þrátt fyrir að talsvert hafi áunnist á þessu sviði á undanförnum árum getur enn reynst vandkvæðum bundið fyrir einstaklinga að sýna fram á rétt sinn til almannatrygginga utan heimalands síns og sömuleiðis getur reynst torvelt fyrir stofnanir og fyrirtæki að skiptast á upplýsingum með greiðum hætti um réttindastöðu fólks sem nýtir sér frjálsa för. 

Tillögur framkvæmdastjórnarinnar eru eftirfarandi:

 • Að aðildarríkin flýti innleiðingu EESSI sem er rafrænt upplýsingaskiptakerfi.
 • Að aðildarríkin geri fleiri umsóknir á þessu sviði að fullu rafrænar.
 • Að aðildarríkin taki fullan þátt í innleiðingu ESSPASS, sem er rafrænt almannatryggingaskilríki.
 • Að unnið verði að upptöku rafrænnar auðkenningar (e. EU Digital Identity - EUDI) þannig að stofnanir geti staðreynt réttindi milli landa. Sjá umfjöllun um EUDI í Vaktinni 21. júlí sl.

Orðsendingin er liður í framkvæmd heildarstefnumótunar ESB um stafræn umskipti (e. A Europe fit for the digital age) og er henni ætlað að tryggja að þjónusta á þessu sviði sé aðgengileg öllum í traustu og öruggu netumhverfi. Framkvæmdastjórnin býður aðildarríkjunum tæknilega aðstoð og mögulega styrki úr sjóðum sambandsins til að vinna að framgangi þessara tillagna. 

Orðsendingin er ekki bindandi fyrir EES/EFTA-ríkin nema sérstök ákvörðun verði tekin um að taka hana upp í EES-samninginn og er nú unnið að því af hálfu EFTA-skrifstofunnar í Brussel að kanna afstöðu ríkjanna til þess. 

Öryggisstaðlar fyrir leikföng

Framkvæmdastjórn ESB kynnti hinn 28. júlí sl. tillögu að reglugerð um öryggisstaðla fyrir leikföng. Um er að ræða tillögu um breytingu á gildandi reglum sem ætlað er að vernda börn gegn hættum sem kunna að vera til staðar í leikföngum.

Leikföng á markaði ESB eru nú þegar á meðal þeirra hættuminnstu á heimsvísu en með tillögunni er hugað að aukinni vernd barna gegn skaðlegum efnum í leikföngum, t.a.m. efnum sem hafa skaðleg áhrif á innkirtlakerfi, öndunarfæri og tiltekin líffæri. Þá er fyrirhuguðum breytingum einnig ætlað að styrkja framfylgd laganna þannig að einungis leikföng sem talist geta örugg séu seld í aðildarríkjum sambandsins.

Þannig verður notkun svokallaðs stafræns vöruvegabréfs (e. Digital Product Passport) tekin upp, en með því fæst staðfest að framangreindum reglum sé framfylgt, og sérstöku upplýsingatæknikerfi komið á fót þar sem fylgst verður með innflutningi á leikföngum á landamærum aðildarríkjanna og í netverslun.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráðinu.

Breytt bóluefni gegn Covid-19 sjúkdómnum

Framkvæmdastjórn ESB hefur heimilað nýja útgáfu af COVID-19 bóluefni, sem þróað er af BioNTech-Pfizer til að bregðast við nýjum afbrigðum kórónuveirunnar. Lyfið er talið marka enn einn mikilvægan áfanga í baráttunni gegn sjúkdómnum. Er hér á ferðinni þriðja útgáfa bóluefnisins sem talið er að muni styrkja ónæmi einstaklinga enn betur, bæði gegn ríkjandi afbrigðum veirunnar sem og nýjum. Sjá nánar um málið í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB.

Bóluefnið er ætlað bæði fullorðnum og börnum eldri en 6 mánaða. Samkvæmt ráðleggingum Lyfjastofnunar Evrópu og Sóttvarnastofnunar Evrópu eiga fullorðnir og börn frá 5 ára aldri sem þurfa bólusetningu að fá einn skammt, óháð sögu þeirra um fyrri COVID-19 bólusetningar.

Leyfi fyrir bóluefninu fór í gegn um strangt hraðmatskerfi Lyfjastofnunar Evrópu. Í kjölfar matsins heimilaði framkvæmdastjórnin bóluefnið samkvæmt svokallaðri flýtimeðferð til að gera aðildarríkjum sambandsins kleift að undirbúa sig í tæka tíð fyrir bólusetningarherferð í haust og á komandi vetri.

Samingur við BioTech-Pfizer um kaup á bóluefni gegn kórónaveirunni var endurskoðaður og samþykktur í maí sl. Samkvæmt honum er aðildarríkjum tryggður aðgangur að bóluefnum sem aðlöguð hafa verið nýjum afbrigðum á næstu árum.

Þess má geta að Ísland nýtur góðs af samningnum og hefur nú þegar samið um kaup á bóluefninu í gegnum Svíþjóð og er von á sendingu til landsins á næstu dögum.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í heimsókn

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga heimsótti sendiráð Íslands í Brussels ásamt nokkrum starfsmönnum skrifstofu sambandsins. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar sambandsins, leiddi hópinn.  Sendiherra Íslands í Brussel, Kristján Andri Stefánsson, tók á móti hópnum og kynnti starfsemi sendiráðsins auk þess sem hópurinn fékk kynningu á margvíslegum EES-tengdum málefnum er varða verkefni sveitarfélaga, m.a.:

 • Samgöngu- og innviðamálum, almennt.
 • Mengunarvörnum, fráveitu- og úrgangsmálum og loftgæðismálum, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 4. nóvember sl. og 10. mars sl. þar sem sérstaklega var fjallað um afstöðu Íslands til tillögu að nýrri fráveitutilskipun ESB sem nú er til meðferðar.
 • Samstarfsáætlun sem Ísland tekur þátt í, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni um nýjan tækniþróunarvettvang ESB, 23. júní sl.
 • Fjármálareglum ESB og stöðu vinnu við endurskoðun þeirra, sbr. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
 • Félags- og vinnumarkaðsmálefnum, almennt.

Sjá nánar um heimsóknina á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ritstjórnarstefna Brussel-vaktarinnar og bætt aðgengi

Brussel-vaktin hefur sett sér ritstjórnarstefnu. Með henni er leitast við að upplýsa og útskýra, inn á við og út á við, um efnistök og markmið með útgáfu Vaktarinnar. Sjá nánar hér.

Þá hefur aðgengi að efni Vaktarinnar verið bætt með nýrri leitarvél, sbr. hér á forsíðu Vaktarinnar.

Vaktin vekur jafnframt athygli á því að hægt er að hlusta á talgervilsupplestur á fréttabréfunum á Vaktarsíðunni, hægt er að smella á hnappinn ,,Hlutsa" efst í hægra horninu.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum