Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2023 Brussel-vaktin

Stækkunarstefna ESB og marglaga Evrópusamstarf

Að þessu sinni er fjallað um:

 • stækkunarstefnu Evrópusambandsins (ESB) og marglaga Evrópusamstarf
 • samningsafstöðu ESB á COP 28
 • gagnsæi pólitískra auglýsinga
 • græna vöruflutninga og eflingu samþættra flutninga
 • samkomulag um heildar aflamark fyrir makríl, kolmuna og síld í Norður- Atlantshafi
 • vinnufund forsætisráðherra EES/EFTA-ríkjanna
 • heimsókn fjármála- og efnahagsráðherra til Brussel

Stækkunarstefna ESB og marglaga Evrópusamstarf

Efnisyfirlit umfjöllunar:

 • Inngangur
 • Formlegur ferill við meðferð umsókna um aðild að ESB
 • Umsóknarríkin og staða þeirra í ferlinu
 • Áskoranir sem fylgja stækkun og hugmyndir um marglaga Evrópusamstarf

Inngangur

Framkvæmdastjórn ESB birti í vikunni árlega skýrslu um stækkunarstefnu ESB (e. EU Enlargement Policy). Skýrslan er birt í formi orðsendingar til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar. Orðsendingunni fylgja sérstakar framvinduskýrslur um stöðu mála gagnvart hverju ríki sem sótt hefur um aðild að sambandinu en þau eru nú 10 talsins, þ.e. Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Kósovó, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía, Tyrkland, Úkraína, Moldóva og Georgía.

Síðasta ríkið til að ganga í ESB var Króatía árið 2013. Síðan þá hefur ekkert ríki í raun komist nálægt því að ganga í ESB, þrátt fyrir umtalsverða vinnu af hálfu framkvæmdastjórnar ESB, aðildarríkja ESB og umsóknarríkja.

Skýrslu framkvæmdastjórnarinnar hefur hins vegar verið beðið með nokkurri óþreyju að þessu sinni enda hefur áhugi innan stofnana ESB sem og innan aðildarríkjanna á stækkunarmálum aukist mjög í kjölfar árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og þeirrar þróunar sem orðið hefur í alþjóðamálum í kjölfarið, þar sem virkt lýðræði og réttarríkið á í auknum mæli undir högg að sækja.

Saga stækkunar ESB er farsældarsaga sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í stefnuræðu sinni í haust, sbr. umfjöllun um ræðuna í Vaktinni 15. september sl. Enda þótt mat á þeirri fullyrðingu kunni að vera mismunandi þá liggur a.m.k. fyrir að frá „stofnun“ sambandsins, hafa ekki brotist út hernaðarátök á milli þeirra ríkja sem sambandið hafa myndað á hverjum tíma eða í 70 ár rúmlega. Ef litið er til sögu Evrópu þá er það vafalaust einhvers konar met og það má til sanns vegar færa að friði fylgir farsæld sem er ómetanleg. Í ræðunni hvatti von der Leyen til þess að áfram yrði unnið að stækkun ESB, og nefndi hún Úkraínu, ríki Vestur-Balkanskagans og Moldóvu sérstaklega í því sambandi.

Von der Leyen var á sömu nótum í yfirlýsingu sem hún flutti á blaðamannafundi sem haldinn var í tengslum við birtingu orðsendingarinnar þar sem hún talaði m.a. um metnað sinn til þess að fullgera bandalagið:

„Completing our Union is the call of history, it is the natural horizon of the European Union. The citizens of countries that want to join are Europeans – just like those of today's Union. Because we all know that geography, history and common values bind us. So, completing our Union also has a strong economic and geopolitical logic. If you look at the history of the last enlargement rounds, you see that they have shown that there are enormous benefits both for those countries which access the European Union and the European Union itself. Basically, we all win.“

Forseti leiðtogaráðs ESB, Charles Michel, hefur einnig hvatt til þess að unnið sé markvisst að stækkunarmálum og að tímalínu viðræðna við umsóknarríki verði hraðað. Hefur verið haft eftir honum að ESB þurfi að vera tilbúið til stækkunar fyrir árið 2030. Undir þetta hefur stækkunarstjóri framkvæmdastjórnar ESB, Ungverjinn Olivér Várhelyi, tekið. Vegna umræðu um tiltekin tímamörk af þessu tagi hefur yfirstjórn framkvæmdastjórnar ESB þó séð ástæðu til að árétta að engar ákveðnar tímasetningar liggi til grundvallar í viðræðum við einstök ríki heldur ráði efnislegur framgangur mála innan umsóknarríkis mestu um tímalínu ferlisins í hverju tilviki fyrir sig, og er sú grundvallarafstaða raunar áréttuð orðsendingunni nú. Hvað sem líður ágreiningi eða áherslumun um einstök atriði af þessu tagi er ljóst að stuðningur innan stofnana sambandsins og sömuleiðis meðal flestra aðildarríkja við stækkun, og hraðari málsmeðferð eftir því sem efni standa til, er mikill þessi misserin, sbr. meðal annars Granada-yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB sem fjallað var um í Vaktinni 13. október sl., og er jafnframt ljóst, eins og áður segir, að árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og aðildarumsókn Úkraínu í kjölfarið hefur fært stóraukinn kraft í umræðuna.

En áður en vikið er að efni orðsendingarinnar og stöðu einstakra umsóknarríkja er hér að neðan fjallað stuttlega um lögformlegan feril við meðferð umsókna um aðild að ESB.

Formlegur ferill við meðferð umsókna um aðild að ESB

Kveðið er á um grunnreglur við meðferð umsókna um aðild að ESB í 49. gr. sáttmála um Evrópusambandið(The Treaty on European Union – TEU). Eins og fram kemur í ákvæðinu þá er sérhverju Evrópuríki sem virðir grundvallargildi ESB, sbr. 2. gr. TEU, og einsetur sér að stuðla að þeim, heimilt að sækja um aðild. Gildin eru eftirfarandi:

 • virðing fyrir mannlegri reisn
 • frelsi
 • lýðræði
 • jafnrétti
 • réttarríkið
 • virðing fyrir mannréttindum, þ.m.t. réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum.

Við frummat á umsóknum er framangreint metið en auk þess ber við mat á umsóknum, sbr. lokamálslið 1. mgr. 49. gr. sáttmála um ESB, að taka tillit til skilyrða sem leiðtogaráð ESB hefur samþykkt að umsóknarríki verði að uppfylla. Slík skilyrði voru samþykkt af leiðtogaráðinu á fundi þess í Kaupmannahöfn árið 1993 og eru þau nefnd Kaupmannahafnarskilyrðin (e. Copenhagen criteria). Kaupmannahafnarskilyrðin eru þríþætt og fela í sér pólitísk skilyrði, efnahagsleg skilyrði og lagaleg skilyrði, nánar tiltekið:

 • um stöðugt stjórnarfar og stofnanir sem tryggja lýðræði, réttarríki og mannréttindi,
 • um virkt markaðshagkerfi, sem hefur burði til að takast á við þá samkeppni sem fylgir þátttöku á innri markaði ESB,
 • að ríkið geti og vilji samþykkja og innleiða regluverk ESB og grundvallarmarkmið sambandsins í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Umsóknarferlið og samningaviðræður fara fram í mörgum þrepum og er afar ítarlegt eins og Íslendingar þekkja frá þeim tíma er Ísland sótti um aðild að sambandinu árið 2009, sbr. skýrslu um framvinnu og stöðu viðræðanna sem utanríkisráðuneytið gaf út í apríl árið 2013, en umsókn Íslands var eins og kunnugt er dregin til baka í kjölfar alþingiskosninga síðar það ár.

Lögformlegt ákvörðunarvald í ferlinu liggur hjá aðildarríkjunum á vettvangi ráðherraráðs ESB og er gerð krafa um einróma samþykki innan ráðsins í allri ákvörðunartöku. Efnisleg meðferð umsókna og undirbúningur samningaviðræðna og viðræðurnar sjálfar eru hins vegar að mestu á herðum framkvæmdastjórnar ESB. Endanlegt ákvörðunarvald, þ.e. um hvort aðildarsamningur við umsóknarríki er samþykktur, liggur hins vegar hjá Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB og þurfa báðar þessar stofnanir ESB að samþykkja aðildarsamning áður en lokafasi samþykktarferlisins hefst en það felst í því að aðildarsamningurinn er borinn upp til fullgildingar í öllum aðildaríkjum ESB, og í viðkomandi umsóknarríki jafnframt að sjálfsögðu, í samræmi við stjórnskipunarreglur í hverju ríki.

Í grófum dráttum er aðildarferlið eftirfarandi:

 1. Ríki beinir umsókn um aðild til ráðherraráðs ESB.
 2. Evrópuþinginu og þjóðþingum aðildarríkja er tilkynnt um umsókn.
 3. Ráðherraráð ESB biður framkvæmdastjórn ESB um álit á umsókninni.
 4. Að fengu jákvæðu áliti getur ráðherraráðið ákveðið að veita viðkomandi ríki formlega stöðu umsóknarríkis (e. Candidate status).
 5. Enda þótt ríki hafi fengið formlega stöðu umsóknarríkis þýðir það ekki að aðildarviðræður hefjist heldur er slíkt háð sérstakri ákvörðun ráðherraráðs ESB og er ákvörðun þar að lútandi tekin á grundvelli mats framkvæmdastjórnar ESB á því hvort skilyrðum hafi verið fullnægt af hálfu umsóknarríkis.
 6. Þegar ákvörðun um að hefja aðildarviðræður hefur verið tekin, tekur framkvæmdastjórn ESB í samvinnu við umsóknarríki saman yfirlitsskýrslur um efni löggjafar í umsóknarríki á mismunandi málefnasviðum (efniskaflar) samanborið við löggjöf ESB og leggur til viðræðuáætlun. Sú áætlun þarf síðan enn á ný að fá einróma samþykki af hálfu aðildarríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB.
 7. Samið er um hvern efniskafla sérstaklega og tekur ráðherraráð ESB jafnframt ákvarðanir um það hvenær og hvort samningaviðræður um einstaka kafla skuli hafnar á grundvelli tillagna frá framkvæmdastjórninni.
 8. Ráðherraráð ESB tekur jafnframt ákvarðanir um það hvort og þá hvenær loka megi, til bráðabirgða, samningaviðræðum um einstaka efniskafla.
 9. Þegar samningaviðræðum um alla efniskaflana hefur verið lokað er aðildarsamningur í heild sinni borin undir Evrópuþingið og ráðherraráð ESB til samþykktar.
 10. Að fengnu samþykki Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB þarf loks að leggja samninginn fram til fullgildingar í öllum aðildarríkjum ESB og í umsóknarríkinu í samræmi við stjórnskipunarreglur í hverju ríki, þ.e. með þinglegri meðferð og  þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir atvikum.
 11. Öll ríkin þurfa að fullgilda aðildarsamning til að hann geti öðlast gildi.

Umsóknarríkin og staða þeirra í ferlinu

Eins og áður segir hafa eftirtalin ríki sótt um aðild að ESB: Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Kósovó, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Serbía, Tyrkland, Úkraína, Moldóva og Georgía.

Skipta má ríkjunum í eftirfarandi þrjá flokka eftir núverandi stöðu þeirra í umsóknarferlinu:

 1. Ríki sem ákveðið hefur verið að hefja aðildarviðræður við, þ.e. Albanía, Norður-Makedónía, Serbía, Svartfjallaland og Tyrkland.
 2. Ríki sem fengið hafa formlega stöðu umsóknarríkis, en formlegar aðildarviðræður ekki hafnað, þ.e. Bosnía og Hersegóvína, Úkraína og Moldóva
 3. Ríki sem sótt hafa um aðild en ekki enn fengið stöðu umsóknarríkis, þ.e. Kósovó og Georgía.

Leggur framkvæmdastjórn ESB til að stöðu þriggja þessara ríkja í hinu formlega ferli verði breytt, þ.e. Úkraínu, Moldóvu og Georgíu, auk þess sem boðað er að lítið kunni að vanta upp á að mat á framgangi Bosníu og Hersegóvínu breytist.

Nánar um stöðuna í einstökum ríkjum:

Úkraína

Framkvæmdastjórnin leggur til að formlegar aðildarviðræður við Úkraínu verði hafnar.

Úkraína sótti um aðild að ESB strax í kjölfar innrásar Rússlands í landið, eða í lok febrúar 2022, og fékk með skjótum hætti stöðu umsóknarríkis, í júní 2022. Eins og vikið er að hér að framan þá hefur árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu sett stóraukinn kraft í viðleitni stofnana ESB og aðildarríkja þess til þess að unnið verði markvisst, ekki einungis að framgangi aðildarumsóknar Úkraínu, heldur einnig að umsóknum annarra ríkja.

Þrátt fyrir stríðsátökin, þá er það mat framkvæmdastjórnarinnar, að Úkraína hafi náð að gera umbætur, sbr. framangreind skilyrði um aðild að sambandinu, er dugi til þess að unnt sé að hefja formlegar aðildarviðræður. Þetta er ítarlega rökstutt í stækkunarstefnunni og í framvinduskýrslu um Úkraínu. Eftir sem áður er ekki ástæða til að efast um að mat framkvæmdastjórnarinnar í tilviki Úkraínu litist af þeirri stöðu sem árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur skapað og er heilt yfir drifkrafturinn í þeirri stækkunarumræðu sem nú á sér stað.

Moldóva

Framkvæmdastjórnin leggur til að formlegar aðildarviðræður við Moldóvu verði hafnar. Moldóva sótti, rétt eins og Úkraína, um aðild að ESB fljótlega í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, eða í byrjun mars 2022 og fékk ríkið formlega stöðu umsóknarríkis sama dag og Úkraína, þann 23. júní 2022. Moldóva þykir hafa staðið sig einkar vel er kemur að undirbúningi og umbótum sem krafist er, sbr. nánar framvinduskýrslu um Moldóvu.

Georgía

Framkvæmdastjórnin leggur til að Georgía fái formlega stöðu umsóknarríkis.  Georgía sótti um aðild, rétt eins og Úkraína og Moldóva, í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, eða í byrjun mars 2022. Á hinn bóginn fékk ríkið ekki þann sama skjóta framgang og framangreind ríki enda þótt umsókn þess hafi verið vel tekið. Nú hins vegar er það mat framkvæmdastjórnar ESB að efni standi til þess að veita ríkinu framgang, sbr. nánar í framvinduskýrslu um Georgíu.

Bosnía og Hersegóvína

Framkvæmdastjórnin boðar að lítið kunni að vanta upp á að mat á framgangi Bosníu og Hersegóvínu breytist þannig að unnt verði mæla með því að formlegar aðildarviðræður við ríkið verði hafnar. Bosnía og Hersegóvína sótti um aðild árið 2016 og fékk ríkið formlega stöðu umsóknarríkis árið 2022. Óljóst eða loðið orðalag stækkunaráætlunarinnar um stöðu ríkisins gefur til kynna að mat af hálfu framkvæmdastjórnarinnar um stöðu landsins hafi á endanum verið háð málamiðlun. Hvað sem því líður þá verður ekki önnur ályktun dregin en að stutt kunni að vera í að umsókn ríkisins fái framgang, sbr. nánar í framvinduskýrslu um Bosníu og Hersegóvínu.

Albanía

Ekki er mælt með breytingum á stöðu Albaníu. Albanía fékk stöðu umsóknaríkis árið 2014 og í mars 2020 voru formlegar aðildarviðræður hafnar. Enda þótt framgangur hafi orðið í viðræðunum þykir enn skorta á umbætur svo sem á sviði tjáningarfrelsis, vernd minni hluta hópa og vernd eignaréttar, spillingarmála o.fl., sbr. nánar í framvinduskýrslu um Albaníu.

Norður-Makedónía

Ekki er mælt með breytingum á stöðu Norður-Makedóníu. Norður-Makedónía sótti um aðild árið 2004 og fékk stöðu umsóknaríkis árið 2005. Ný drög að rýniskýrslu vegna aðildarumsóknarinnar voru kynnt ráðherraráði ESB síðasliðið sumar en enn virðist þó töluvert vanta upp á til að unnt sé talið að veita ríkinu frekari framgang, m.a. umbætur er snúa að dómskerfi, spillingarmálum, vörnum gegn skipulagðri glæpastarfsemi, umbótum í stjórnsýslu og opinberum fjármálum o.fl., sbr. nánar í framvinduskýrslu um Norður-Makedóníu.

Serbía

Ekki er mælt með breytingum á stöðu Serbíu. Vegferð Serbíu í átt til aðildar hófst, líkt og flestra annarra ríkja Vestur-Balkansskagans, árið 2003 á leiðtogafundi ESB og Vestur-Balkanríkjanna sem var haldinn var í Þessalóníku á Grikklandi það ár. Serbía sótti þó ekki formlega um aðild fyrr en árið 2009 og fékk landið formlega stöðu umsóknarríkis árið 2012 og árið 2014 voru formlegar aðildarviðræður hafnar. Enda þótt framgangur hafi orðið þykir enn skorta á ýmislegt, svo sem á sviði utanríkis- og öryggismála en Serbía hefur til að mynda ekki viljað fylgja línu ESB varðandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi. Þá skortir á að unnið sé að bættum samskiptum við Kósovó en sú gagnrýni á einnig við um síðarnefnda landið, sbr. nánar í framvinduskýrslu um Serbíu.

Kósovó

Ekki er mælt með breytingum á stöðu Kósovó. Vegferð Kósovó í átt til aðildar hófst, líkt og Serbíu árið 2003 á leiðtogafundi ESB og Vestur-Balkanríkjanna sem haldinn var í Þessalóníku á Grikklandi það ár. Aðildarumsókn Kósovó er í þeirri undarlegu stöðu að fimm af aðildarríkjum ESB viðurkenna ekki sjálfstæði Kósovó. Meðal annars af þeirri ástæðu hefur landið ekki ennþá formlega fengið stöðu umsóknarríkis. Enda þótt framgangur hafi orðið þykir enn skorta á umbætur á ýmsum sviðum svo sem á dómskerfinu. Þá skortir m.a. á, eins áður segir, að unnið sé að bættum samskiptum við Serbíu, sbr. nánar í framvinduskýrslu um Kósovó.

Svartfjallaland

Ekki er mælt með breytingum á stöðu Svartfjallalands. Vegferð Svartfjallalands í átt til aðildar hófst, líkt og Serbíu og Kósovó, árið 2003 á leiðtogafundi ESB og Vestur-Balkanríkjanna sem haldinn var í Þessalóníku á Grikklandi það ár. Svartfjallaland fékk stöðu umsóknarríkis árið 2010 og voru formlegar aðildarviðræður hafnar árið 2012. Framgangur mála hefur verið lítill að undanförnu að mati ESB. Vonir standa þó til að nýlegar breytingar á stjórnskipan landsins verði ríkinu til framdráttar en einnig er kallað eftir frekari umbótum á sviði réttarríkismála. Utanríkis- og öryggisstefna ríkisins er hins vegar að fullu í línu við stefnu ESB. Sjá nánar í framvinduskýrslu um Svartfjallaland.

Tyrkland

Ekki er mælt með breytingum á stöðu Tyrklands. Vegferð Tyrklands í átt til aðildar á sér langa sögu sem verður rakin allt aftur til ársins 1959. Tyrkland sótti þó ekki formlega um aðild fyrr en árið 1987 og fékk ríkið formlega stöðu umsóknaríkis árið 1999. Árið 2004 var síðan samþykkt að hefja formlegar aðildarviðræður við ríkið.  Síðastliðin ár, eða frá árinu 2018, hefur lítill sem engin framgangur orðið og viðræður að mestu legið niðri. Raunar er staðan sú að landið hefur fremur fjarlægst það að uppfylla skilyrði aðilar, einkum á sviði mannréttindamála. Sjá nánar í framvinduskýrslu um Tyrkland.

Framangreind stækkunarstefna og tillögur framkvæmdastjórnarinnar ganga nú til umfjöllunar í ráðherraráði ESB og jafnframt í leiðtogaráði ESB, en gert er ráð fyrir að stefnan verði til umræðu á fundi leiðtogaráðsins sem áformaður er um miðjan desember nk. Þegar afstaða leiðtogaráðsins liggur fyrir gengur málið til formlegrar ákvörðunartöku á vettvangi ráðherraráðs ESB.

Áskoranir sem fylgja stækkun og hugmyndir um marglaga Evrópusamstarf

Auk umræðu um stækkunarstefnu ESB er viðbúið að umræða skapist á væntanlegum fundi leiðtogaráðs ESB í desember um það hvort sambandið sé tilbúið að taka á móti nýjum aðildarríkjum, stofnanalega séð, þ.e. hvaða áhrif það geti haft á skilvirkni sambandsins ef aðildarríkjum er fjölgað án þess að samhliða sé ráðist í umbætur á stjórnskipan þess, m.a. með endurskoðun á því hvernig ákvarðanir eru teknar, þ.e. hvar krafist sé einróma samþykkis og hvar aukinn meirihluti skuli ráða niðurstöðu. Þá hafa hugmyndir um marghliða Evrópusamstarf einnig verið fyrirferðamiklar í álfunni að undanförnu, sbr. skýrslu vinnuhóps sem stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi settu saman í því skyni að fjalla um framtíð Evrópusamstarfs og áhrif stækkunar ESB á stofnanir og stjórnkerfi þess. Í skýrslunni sem hefur verið lögð fram á vettvangi ráðherraráðs ESB, bæði á fundi Evrópuráðherra og fundi utanríkisráðherra ESB, eru viðraðar ýmsar hugmyndir og tillögur sem m.a. ná til breytinga á sáttmálum ESB (e. Treaty on European Union). Í skýrslunni er lögð áhersla á að styrkja þurfi réttarríkið og veita sambandinu betri verkfæri til þess að standa vörð um það. Þá eru reifaðar hugmyndir um hvernig megi einfalda starfsemi sambandsins, sérstaklega í ljósi fyrirhugaðrar stækkunar þess, m.a. með því að styrkja tekjugrundvöll þess, fækka þingmönnum á Evrópuþinginu og framkvæmdastjórum í framkvæmdastjórn ESB, auka heimildir ráðherraráðs ESB til að taka ákvarðanir með auknum meirihluta og draga umtalsvert úr kröfu til fullrar samstöðu um tilteknar ákvarðanir, þ.e. að draga verulega úr neitunarvaldi aðildarríkja. Þá er loks í skýrslunni fleytt hugmyndum um lagskipt Evrópusamstarf þar sem innsta hlutann skipi ríki sem tækju þátt í öllum þáttum samstarfsins, þar með talið t.d. evru-samstarfinu og Schengen-samstarfinu, í næsta lagi væri ESB eins og það er nú í grófum dráttum, þriðja lagið innifeli ríki sem eigi aðild að innri markaðinum (sbr. t.d. EES) og þau sem aðhyllast sömu grunngildi og ESB almennt, og fjórða og ysta lagið yrði svo vettvangur á borð við European Political Community (EPC), sbr. meðfylgjandi skýringarmynd:

Skýrslan er sögð hugsuð sem innlegg inn í umræðuna en ekki sem opinbert stefnumótunarskjal af hálfu ESB eða ríkjanna sem stóðu að henni.

Samningsafstaða ESB á COP 28

Hinn 30. nóvember nk. hefst tveggja vikna loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (SÞ), COP 28, í Dúbaí í Sameinuðu arabísku fustadæmunum. Ríki heims koma þar saman til að leggja á ráðin um stöðu loftslagsmála og stilla saman strengi í baráttunni við loftslagsvána.

Samningsafstaða ESB fyrir komandi ráðstefnu var samþykkt á fundi umhverfisráðherra ESB þann 16. október sl. Samkvæmt henni hyggst ESB leggja áherslu á þau miklu tækifæri sem felast í því fyrir jörðina og íbúa hennar og hagkerfi heimisins að ráðast í metnaðarfullar loftlagsaðgerðir. Jafnframt verður lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja réttlát umskipti fyrir alla í ferlinu.

ESB hyggst vera í fararbroddi í viðræðunum um auknar aðgerðir og hvetja aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi þess. Áherslur ESB felast í auknum metnaði á heimsvísu í átt að loftslagshlutleysi, að notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt í áföngum samhliða aukinni virkjun og notkun endurnýjanlegrar orku ásamt nauðsynlegum mótvægisaðgerðum til að tryggja réttlát umskipti. Auknar aðgerðir séu nauðsynlegar til að unnt sé að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Að mati ESB munu núverandi landsframlög og uppfærslur á þeim sem kynntar hafa verið ekki duga til að ná settu markmiði og því mikilvægt að helstu hagkerfi heims auki metnað sinn og uppfæri langtímaþróunaráætlanir sínar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þannig að markmið um kolefnishlutleysi verði náð fyrir árið 2050. Þannig mun ESB fyrir sitt leyti leggja fyrir ráðstefnuna uppfært framlag ESB-ríkja sem endurspeglar grundvallarþætti stefnumörkunar ESB samkvæmt „Fit for 55“ pakkanum, sem fjallað hefur verið um hér í Vaktinni við ýmis tilefni, sem áætlað er að muni gera ESB kleift að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 55% fyrir 2030 miðað við árið 1990 og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Í gegnum uppfært landsframlag ítrekar ESB, og aðildarríki þess, skuldbindingu sína við þetta markmið, sem er nú lagalega bindandi innan ESB, og sendir um leið sterk skilaboð til annarra ríkja um að fylkja liði í átt að kolefnishlutlausri framtíð.

Ráðstefnan í ár markar þau tímamót að þar verður í fyrsta sinn frá gildistöku Parísarsáttmálans árið 2020 framkvæmt heildstætt stöðumat (e. Global Stocktake) á framkvæmd hans og hvar við, heimurinn, stöndum með hliðsjón af þeim markmiðum sem þar eru sett. Framkvæmd stöðumats af þessu tagi er áskilið í sáttmálanum og er matinu ætlað að þjóna sem grundvöllur fyrir umræður um nauðsyn aukinna aðgerða.

Ísland er aðili að loftslagssamningi SÞ og mun sendinefnd Íslands sækja ráðstefnuna.

Gagnsæi pólitískra auglýsinga

Samkomulag náðist 7. nóvember sl. í þríhliðaviðræðum milli Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni löggjafartillagna sem miða að því að bæta regluverk í tengslum við kosningar og lýðræðislega umræðu með því að auka gagnsæi við birtingu pólitískra auglýsinga. Fjallað var um tillöguna í Vaktinni 26. nóvember 2021 er hún var lögð fram af framkvæmdastjórninni.

Samkvæmt tillögunni og því samkomulagi sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir að pólitískar auglýsingar þurfi að vera auðkenndar sérstaklega og geyma upplýsingar um hver standi á bak við þær, hver kosti þær og hversu mikið hafi verið greitt fyrir þær.

Eins og vikið er að í umfjöllun Vaktarinnar 26. nóvember 2021 var með lögum frá Alþingi nr. 109/2021, um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, sbr. einnig lög nr. 139/2018, um breytingu á sömu lögum, hert á kröfum um aukið gagnsæi við birtingu á pólitískum auglýsingum á Íslandi og áþekkum hætti en löggjafarþróun á Íslandi á þessu sviði hefur verið nokkuð á undan þróuninni hjá ESB.

Reglugerðin gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við framangreint samkomulag.

Grænir vöruflutningar - efling samþættra flutninga

Framkvæmdastjórnin birti þann 7. nóvember sl. tillögu að breytingu á tilskipun um samþætta flutninga (e. combined transport). Tillagan er sú síðasta í röð tillagna um græna vöruflutninga sem framkvæmdastjórnin hefur lagt fram en aðrar tillögur um efnið voru birtar síðastliðið sumar, sbr. umfjöllun í Vaktinni 21. júlí sl. Markmiðið er að stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í vöruflutningum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirra.

Með tillögunni er stefnt að því að draga úr vöruflutningum á vegum á lengri leiðum en stuðla þess í stað að auknum vöruflutningum með lestum og skipum, sem er almennt vistvænni flutningsmáti, þar sem staðlaðar flutningseiningar eru notaðar, svo sem gámar, en nýta sveigjanleika í vöruflutningum á akvegum einungis fyrir fyrsta og síðasta hluta flutningsleiðar, þ.e. frá dyrum sendanda að lestarstöð eða höfn og loks að dyrum móttakanda.

Tillögunni, verði hún samþykkt, er ætlað að leiða til aukinnar samkeppnishæfni og skilvirkni samþættra flutninga samanborið við flutninga með vöruflutningabifreiðum á vegum og verður ýmsum stuðningsaðgerðum beitt til að ná þeim markmiðum.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Tillaga hefur jafnframt verið birt í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur til 3. janúar 2024.

Samkomulag um heildar aflamark fyrir makríl, kolmunna og síld í Norður Atlantshafi

Sendinefndir ESB, Íslands, Færeyja, Grænlands, Noregs og Bretlands náðu samkomulagi í síðasta mánuði um heildarveiði á makríl, kolmunna og síld í Norðaustur-Atlantshafi fyrir árið 2024. Samkomulagið byggir á vísindalegum ráðleggingum frá Alþjóðahafrannsóknarráðinu (ICES).

Hvað makríl varðar þá samþykktu strandríkin 739.386 tonna aflamark. Aflamarkið er í samræmi við ráðgjöf ICES, samkvæmt nálguninni um sjálfbæra hámarksnýtingu og er 5% lægra en aflamarkið sem samþykkt var fyrir árið 2023.

Að auki ræddu sendinefndirnar nýja langtímastefnu um stjórn veiða úr makrílstofninum og viðurkenndu mikilvægi þess að skipta heildarkvótanum þannig að heildarveiði verði ekki umfram ráðgjöf. Undanfarin ár hefur heildarveiði úr stofninum verið umtalsvert yfir settu aflamarki eða um 40% og stafar það að því að löndin hafa ekki komið sér saman um innbyrðis skiptingu kvótans.

Þess má geta að Bretland og Noregur gerðu með sér tvíhliða samkomulag um veiðar úr markílstofninum fyrir árið 2023 í sumar eins og fjallað var um í Vaktinni 23. júní sl.

Fyrir kolmunna samþykktu ESB, Noregur, Færeyjar, Ísland og Bretland að miða aflamark fyrir árið 2024 við 1.529.754 tonn. Þetta aflamark er í samræmi við ráðgjöf ICES. Það samsvarar 12,5% aukningu miðað við aflamark sem sett var fyrir árið 2023.

Fyrir síldina var samið um að aflamark fyrir árið 2024 yrði 390.010 tonn, sem er 24% samdráttur miðað við aflamark ársins í ár. Er samþykkt aflamark hér einnig í samræmi við ráðgjöf ICES. Hefur ESB í viðræðum nú gert kröfu um að vera viðurkennt sem strandríki er kemur að síldveiðum og er sú krafa byggð á vísindalegum vísbendingum um að síld hafist við að einhverju marki á ESB-hafsvæðum.

Sendinefndirnar sammæltust einnig um að taka innbyrðis skiptingu kvótans í öllum þremur tegundunum til umfjöllunar eins fljótt og auðið er og eigi síðar en snemma árs 2024.

Vinnufundur forsætisráðherra EES/EFTA-ríkjanna

Forsætisráðherrar EES/EFTA-ríkjanna, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Danil Risch, forsætisráðherra Liechtenstein og forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, hittust á vinnufundi í Ósló þann 30. október sl. Var fundurinn haldinn í tengslum við leiðtogafund norrænna forsætisráðherra þar í borg en Ísland fer nú eins og kunnugt er með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Ýmis málefni voru til umræðu á fundinum þ. á  m. staða mála í Mið-Austurlöndum, grænu umskiptin, helstu málefni á vettvangi ESB og þróun EES-samstarfsins en í byrjun næsta árs verða þrjátíu ár liðin frá því að samningurinn um Evrópska efnahagsvæðið tók gildi, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 13. janúar sl., þar sem staðfestingu laga um Evrópska efnahagssvæðisins var minnst. Skiptust ráðherrarnir m.a. á skoðunum um viðburði sem til stendur að efna til á næsta ári af því tilefni.

Heimsókn fjármála- og efnahagsráðherra til Brussel

Fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, heimsótti Brussel í vikunni. Á miðvikudag stýrði hún fundi í norrænu ráðherranefndinni um efnahags- og fjármál þar sem hið háa verðbólgustig, sem verið hefur viðvarandi síðastliðin misseri, og þær áskoranir sem verðbólgan hefur haft í för með sér við stjórn efnahagsmála var megin umræðuefnið. Sjá nánar um fundinn í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Á fimmtudag sat ráðherrann árlegan sameiginlegan fund fjármála- og efnahagsráðherra ESB- og EFTA-ríkjanna sem haldinn er á vettvangi ráðherraráðs ESB (ECOFIN). Fyrir fundinum lá m.a. skjal sem EFTA ríkin höfðu tekið saman um breytt umhverfi iðnaðarframleiðslu innan ESB, m.a. fyrir tilstilli aukinna ríkisstyrkja sem eiga að styðja við samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar og grænar áherslur ESB. Í tengslum við efni skjalsins gerðu fjármála- og efnahagsráðherrar EFTA-ríkjanna grein fyrir því hvaða áhrif auknir styrkir ESB og aðildarríkja þess til iðnaðarframleiðslu hafi haft á framleiðslu í löndum sínum. Auk þess gerðu ráðherrarnir grein fyrir stöðu efnahagsmála almennt í löndum sínum. Í máli Þórdísar Kolbrúnar kom m.a. fram að opinberar stuðningsaðgerðir til nýsköpunar á Ísland væru almennt útfærðar á breiðum grundvelli fremur en með styrkjum til ákveðinna fyrirtækja eða geira atvinnulífsins. Þá kynnti framkvæmdastjórn ESB á fundinum drög að nýrri efnahagsspá fyrir ESB sem áætlað er að birt verði í næstu viku. Sjá nánar um fundinn og þátttöku ráðherra í honum í fréttatilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum