Hoppa yfir valmynd

Neyðar- og mannúðaraðstoð

Almennt

Neyðar- og mannúðaraðstoð Íslands miðar að því að bjarga mannslífum og draga úr þjáningu þar sem neyðarástand hefur skapast. Líkt og verkefni sem stuðla að langvarandi uppbyggingu og þróun er mikilvægt að neyðar- og mannúðaraðstoð sé veitt með ábyrgum og samhæfðum aðgerðum þar sem skilvirkni er höfð að leiðarljósi.

Aðstoð Íslands á þessum vettvangi tekur ávallt mið af þeirri þörf sem skapast hverju sinni. Aðstoðin rennur annars vegar um hendur stofnana og sjóða SÞ og hins vegar til félagasamtaka. Þrír aðilar gegna stærstu hlutverki á þessum vettvangi innan SÞ, Matvælaáætlun SÞ (WFP) sem starfar á öllum helstu neyðarsvæðum í heimi, Neyðarsjóður SÞ (CERF) sem gerir samtökunum kleift að bregðast við þegar skyndilegar hamfarir dynja á og Samræmingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) sem samræmir aðgerðir.

Félagasamtök gegna einnig lykilhlutverki á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar. Utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til félagasamtaka tvisvar á ári skv. sérstökum verklagsreglum. Sjá nánar hér Samstarf við félagasamtök (umsóknir)

Efst á baugi

Á árinu 2018 var sérstök áhersla lögð á stuðning við aðgerðir í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess sem miða að því að veita sýrlensku flóttafólki nauðsynlega aðstoð. Það er í samræmi við viljayfirlýsingu utanríkis-ráðherra frá 2018 um að Íslandi verji að lágmarki 200 millj. kr. árið 2018, 225 millj. kr. árið 2019 og 250 millj. kr. árið 2020 til málefnisins.

Í október 2018 var rúmlega 12 millj. kr. ráðstafað til OCHA til að takast á við afleiðingar náttúruhamfara í Indónesíu þar sem hrina jarðskjálfta reið yfir með flóðbylgju í kjölfarið. Þá var 100 millj. kr. varið til neyðaraðstoðar í Jemen seint á árinu 2018. Framlagið skiptist milli tveggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem sinna neyðaraðstoð þar, 50 millj. kr. fóru til WFP til að sporna gegn yfirvofandi hungursneyð og 50 millj. kr. til UNICEF til að vinna að úrbótum í vatnsmálum. Einnig fór 61 millj. kr. til Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) til að fjölga heilsugæslustöðvum í Jemen, sem veita mæðrum, verðandi mæðrum og ungbörnum neyðarþjónustu og bregðast við bágborinni stöðu kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Jafnframt var brugðist við versnandi ástandi í Venesúela með 30 millj. kr. framlagi til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) til að aðstoða flóttafólk þaðan í nágrannalöndunum Colombiu, Perú og Ekvador. Þá var brugðist við neyð vegna afleiðinga fellibylsins Idai í Malaví og Mósambík með 25 millj. kr. framlagi til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP).

Frjáls félagasamtök gegna einnig mikilvægu hlutverki á sviði mannúðaraðstoðar og utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til frjálsra félagasamtaka tvisvar á ári, sjá nánar í næsta kafla. Utanríkisráðuneytið hefur gert samning við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu um Íslensku alþjóðabjörgunar-sveitina. Enn fremur hafa verið gerðir samningar við tvö palestínsk borgarasamtök en það eru kvennasamtökin WCLAC (Women‘s Centre for Legal Aid and Counselling) og heilsugæslusamtökin PMRS (Palestinian Medical Relief Society).

Sérstakt samkomulag hefur verið gert við nokkrar mannúðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna um að senda sérfræðinga til starfa hjá þeim tímabundið. Á árinu 2018 starfaði sérfræðingur á sviði jafnréttismála hjá WFP í Mósambík. Tveir útsendir sérfræðingar störfuðu fyrir UNRWA, annars vegar í Jórdaníu og hins vegar í Jerúsalem. Þá starfaði sérfræðingur á sviði jafnréttis- og flóttamannamála hjá UN Women í Tyrklandi, sérfræðingur á sviði mannréttinda starfaði á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) í Líbanon og fulltrúi á sviði barnaverndar hjá UNICEF í Eþíópíu. Þá var árið 2018 einnig gerður samningur við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) um útsenda sérfræðinga.

Matvælaáætlun SÞ (WFP) sinnir neyðaraðstoð við flóttafólk og aðra sem eru í nauðum staddir, t.d. af völdum náttúruhamfara eða átaka. Helstu markmið WFP er að bjarga mannslífum og lina þjáningar, koma í veg fyrir hörmungar og vinna að endurreisn eftir að þær hafa dunið yfir, draga úr langvinnu hungri og vannæringu.

Samræmingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) sér um að virkja og samhæfa skjót viðbrögð við hvers konar mannúðaraðstoð í samstarfi við alþjóðastofnanir, alþjóðasamtök og innlendar stofnanir og samtök. Markmiðið er að lina þjáningar þegar hörmungar hafa dunið yfir eða neyðarástand skapast. Auk þess er OCHA málsvari þeirra sem búa við neyð og styður hvers konar aðgerðir sem koma í veg fyrir að neyðarástand skapist.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira