Hoppa yfir valmynd

Neyðar- og mannúðaraðstoð

Almennt

Neyðar- og mannúðaraðstoð Íslands miðar að því að bjarga mannslífum og draga úr þjáningu þar sem neyðarástand hefur skapast. Líkt og verkefni sem stuðla að langvarandi uppbyggingu og þróun er mikilvægt að neyðar- og mannúðaraðstoð sé veitt með ábyrgum og samhæfðum aðgerðum þar sem skilvirkni er höfð að leiðarljósi.

Aðstoð Íslands á þessum vettvangi tekur ávallt mið af þeirri þörf sem skapast hverju sinni. Aðstoðin rennur annars vegar um hendur stofnana og sjóða SÞ og hins vegar til félagasamtaka. Þrír aðilar gegna stærstu hlutverki á þessum vettvangi innan SÞ, Matvælaáætlun SÞ (WFP) sem starfar á öllum helstu neyðarsvæðum í heimi, Neyðarsjóður SÞ (CERF) sem gerir samtökunum kleift að bregðast við þegar skyndilegar hamfarir dynja á og Samræmingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) sem samræmir aðgerðir.

Félagasamtök gegna einnig lykilhlutverki á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar. Utanríkisráðuneytið tekur á móti umsóknum um styrki til félagasamtaka tvisvar á ári skv. sérstökum verklagsreglum. Sjá nánar hér Samstarf við félagasamtök (umsóknir)

Efst á baugi

Langvarandi stríðsátök, ofbeldi og ofsóknir, sem og margvísleg neikvæð áhrif náttúruhamfara og loftslagsbreytinga í heiminum hafa enn frekar aukið þörfina fyrir mannúðaraðstoð og skipulögð viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Fjöldi fólks á flótta í heiminum heldur áfram að aukast og Flóttamannastofnun SÞ (e. UN High Commissioner for Refugees, UNHCR) áætlar að fjöldi fólks á flótta sé tæpar 65 milljónir, þar af 22 milljónir á flótta utan landamæra heimalandsins. Rúmlega helmingur þessara flóttamanna kemur frá þremur löndum, Afganistan, Sýrlandi og Suður-Súdan. Þótt straumur flóttamanna til Evrópu yfir Miðjarðarhafið hafi verið mikill undanfarin ár er þó yfirgnæfandi fjölda flóttamanna að finna í ríkjum Afríku og Mið-Austurlanda. Í Tyrklandi eru nú tæpar þrjár milljónir flóttamanna, og í Líbanon, Íran, Úganda og Eþíópíu eru um og yfir ein milljón flóttamanna. Stríð, hungursneyð og almenn fátækt eru áfram stærstu drifkraftarnir á bak við flótta fólks og almenna neyð. Til þess að stemma stigu við áframhaldandi fjölgun flóttafólks í heiminum er nú lögð áhersla á að styrkja tengslin milli mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar. Heimsmarkmiðin byggja á þeirri forsendu að órjúfanleg tengsl séu á milli friðar og sjálfbærrar þróunar, enda er 16. markmiðið helgað friðarmálum og réttarríkinu. Ísland á samstarf við ýmsar stofnanir SÞ sem vinna að mannúðarmálum, s.s. WFP, UNHCR, UNICEF, Neyðarsjóð SÞ (e. Central Emergency Response Fund, CERF), Samræmingaskrifstofu aðgerða SÞ (e. UN Office for the Coordination of Humanitarian Affairs, OCHA) og Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ (e. UN Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East, UNRWA).

Meginskilaboð leiðtogafundar um mannúðarmál í Istanbúl 2016 voru um þörfina fyrir breytta nálgun við framkvæmd mannúðaraðstoðar og betri tengsl milli mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Áhersla var lögð á betri samræmingu og tengsl mannúðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og friðaruppbyggingar; að auka framlög og fyrirsjáanleika framlaga til mannúðarstofnana og að auka árangur og áreiðanleika veittrar aðstoðar til nauðstaddra, þ.m.t. aukin framlög til sameiginlegra neyðarsjóða og minni eyrnamerkingu framlaga. Íslensk stjórnvöld hafa lýst sig reiðubúin til þess að leggja sitt af mörkum í þessum málum og hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að mæta vaxandi þörf fyrir mannúðaraðstoð, sem og stuðla að lausn mála sem snúa að rótum þess margvíslega vanda sem veldur auknum fólksflutningum og fólksflótta í heiminum.

Heildarframlög til mannúðaraðstoðar námu rúmum 530 milljónum króna á árinu 2017. Þá námu styrkir til mannúðarverkefna íslenskra borgarasamtaka 202 milljónum. Ísland veitti áframhaldandi stuðning við palestínsk borgarasamtök sem veita konum lagalega ráðgjöf og stuðning (e. Women's Centre for Legal Aid and Counselling, WCLAC). Á leiðtogafundi um málefni Sýrlands í apríl 2017 tilkynnti utanríkisráðherra að á árunum 2017-2020 muni íslensk stjórnvöld gera ráð fyrir að verja árlega að lágmarki 200 milljónum króna til mannúðarverkefna stofnana SÞ og borgarasamtaka í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess. Sjö íslenskir sérfræðingar starfa hjá ýmsum mannúðarstofnunum SÞ. Tveir sérfræðingar starfa hjá WFP í Mózambík, sérfræðingur á sviði jafnréttismála og verkfræðingur. Tveir útsendir sérfræðingar starfa fyrir UNRWA, annars vegar í Jórdaníu og hins vegar í Jerúsalem. Þá fór sérfræðingur á sviði jafnréttis- og flóttamannamála til starfa hjá UN Women í Tyrklandi, sérfræðingur á sviði mannréttinda til skrifstofu UNHCR í Líbanon og fulltrúi á sviði barnaverndar hjá UNICEF í Eþíópíu.

Neyðar- og mannúðaraðstoð

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira