Hoppa yfir valmynd
23. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á Þorláksmessu

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur á Þorláksmessu og förum yfir það helsta sem hefur drifið á daga utanríkisþjónustunnar síðustu tvær vikurnar.

Við hefjum leik á ákaflega góðu og mikilvægu verkefni en á dögunum voru níu tonn af hlýju frá Íslandi um borð í kanadískri herflutningavél sem flaug frá Keflavíkurflugvelli áleiðis til Úkraínu. Um var að ræða annars vegar afrakstur íslensks hannyrðafólks sem hefur prjónað margvíslegar ullarvörur og hins vegar innkaup utanríkisráðuneytisins á vörum hérlendis. Ísland hefur þar að auki lagt 1,6 milljónir evra í sjóð á vegum Atlantshafsbandalagsins sem kaupir m.a. vetrarfatnað.

Í fyrradag fékk ráðuneytið sent myndband frá úkraínska hernum sem sýnir þegar farmurinn er tekinn í notkun á vígstöðvunum með dramatískum tónum úkraínska tónlistarmannsins AShamaluevMusic.

Það er skammt stórra högga á milli en á miðvikudag var tilkynnt um að áfrýjunarnefnd EUIPO hafi hafnað öllum kröfum bresku verslanakeðjunnar Iceland Foods Ltd. varðandi notkun á orðmerkinu Iceland. Fyrirtækið getur þar með ekki lengur hindrað að íslensk fyrirtæki auðkenni sig með upprunalandinu við markaðssetningu á EES-svæðinu á vörum sínum og þjónustu.

Við sögðum svo frá fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Kanada á dögunum en þar var innrás Rússlands og áframhaldandi stuðningur ríkjanna við Úkraínu efst á baugi ásamt samstarfi á norðurslóðum og málefnum Atlantshafsbandalagsins.

Þá var samstarf utanríkisráðuneytisins og Fulbright stofnunarinnar um norðurslóðir endurnýjað í gær.

Í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum 10. desember vakti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, í hlutverki sínu sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins, sérstaka athygli á mikilvægi aðgerða gegn refsileysi fyrir þau mannréttindabrot og aðra glæpi sem Rússar hafa framið í Úkraínu. Fastafulltrúi Úkraínu hjá Evrópuráðinu ræddi stöðuna í Úkraínu og ábyrgðarskyldu vegna glæpa í tengslum við innrásina á opnum fundi í Reykjavík daginn áður.

Þá tjáði Þórdís Kolbrún sig um ákvörðun talíbana um að banna konum að stunda háskólanám í Afganistan.

Það er raunverulega sársaukafullt að horfa upp á þessa hrikalegu þróun,“ sagði Þórdís Kolbrún jafnframt við mbl.is.

Að vanda hafa sendiskrifstofur okkar haft frá mörgu að segja.

Við byrjum í Vín en í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum sendi fastanefnd Íslands í Vín póstkort til samviskufanga í Belarús. Í Belarús eru rúmlega 1.400 manns sem teljast til samviskufanga sem hafa verið ranglega dæmd til fangelsisvistar, oft við ómannúðlegar aðstæður. Kristín A. Árnadóttir fastafulltrúi skrifaði undir bréfin.

Á vettvangi fastaráðs ÖSE í Vín var jafnframt fundað um málefni Úkraínu.

Bryndís Kjartansdóttir sendiherra afhenti Karli Gústafi Svíakonungi trúnaðarbréf sitt sem nýr sendiherra Íslands í Svíþjóð við hátíðlega athöfn í konungshöllinni þar í borg.

Í Kaupmannahöfn afhenti sendiherra danska utanríkisráðuneytinu nótu um að Ísland hafi lokið staðfestingu á tvíhliða samningi Íslands og Danmerkur fyrir hönd Færeyja um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen (Síldarsmugan).

Í Þórshöfn var haldið upp á litlu jólin.

Í London kvaddi sendiráðið Eyrúnu Hafsteinsdóttur sem starfaði í sendiráðinu í 22 ár.

Þá fékk sendiráðið einnig gesti frá utanríkisráðuneytinu, matvælaráðuneytinu, Hafró, og SFS. Tilefnið var að ræða reynslu Íslands sem sjálfstæðs strandríkis við breska embættismenn, fræðimenn, fulltrúa heimastjórnanna og sjávarútvegsgeirans.

Í Berlín var þétt aðdventudagskrá. Upplestur á Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson fór fram í húsnæði norrænu sendiráðanna í tíunda sinn og fulltrúar frá menningarsetrinu við Skriðuklaustur og Visit Austurland kynntu starfsemi sína fyrir gestum.

Daginn eftir fóru fram tónleikar með Svavari Knúti á sama stað en sama dag fóru fram umræður um loftslagsmál í Felleshus og tók Benedikt Höskuldsson, sérlegur erindreki Íslands fyrir loftslagsmál, þátt fyrir Íslands hönd ásamt fulltrúum norðurlandanna og Þýskalands.

Í Póllandi kynnti Friðrik Sigurðsson, matreiðslumeistarinn okkar, Pólverjum fyrir þjóðlegum íslenskum réttum.

Þá hlaut Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Póllandi boð utanríkisráðuneytis Pólverja til Poznań þar sem ýmsir menningarlegar viðburðir voru á dagskrá.

Í París hitti Unnur Orradóttir sendiherra, Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, á framlagsríkjaráðstefnu á vettvangi OECD.

Okkar fólk sem starfar við málefni Evrópuráðsins var jólalegt á fjarfundi.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra í Washington hlýddi á Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í ræðustól bandaríska þingsins þar sem hann var í sögulegri heimsókn og í fyrstu ferð sinn út fyrir Úkraínu eftir að stríðið brast á.

Þá minntist Bergdís einnig góðrar hátíðarmóttöku Atony Blinkens utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Fulltrúi sendiráðs Íslands í Washington, sem er einnig sendiráð Íslands gagnvart Mexíkó, sótti ráðstefnu Planet Youth í León í Guanajuato í Mexíkó.

Í Washington átti sér jafnframt stað fundur EFTA-ríkjanna með viðskiptafulltrúa Bandaríkjastjórnar.

Í New York var haldið jólaball með öllu tilheyrandi.

Og dansað í kringum jólatréð að sjálfsögðu.

Á vettvangi fastanefndarinnar í New York kynnti okkar fólk ásamt Írlandi drög að ályktun um samstarf Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna.

Í Kanada fór fram fjáröflunarviðburður sem okkar fólk tók þátt í.

Í Kína heimsótti Þórir Ibsen sendiherra Hong Kong.

Í Japan var forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson í heimsókn.

Þar var einnig haldið jólaball á dögunum.

Jólafrokost var á dagskrá hjá okkar fólki í Kampala.

Okkar fólk í Malaví birti myndskeið af krökkunum í Koche grunnskólanum í Mangochi héraði sem tóku skemmtilega á móti Þórdísi Kolbrúnu sem heimsótti landið nýlega.

Við minnum svo að sjálfsögðu að endingu á Heimsljós.

Gleðileg jól!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum