Hoppa yfir valmynd
07. júní 2017 Utanríkisráðuneytið

Hryðjuverk eru raunveruleg ógn

Grein í Morgunblaðinu. - mynd

Hryðjuverk eru raunveruleg ógn

Eftir Guðlaug Þór Þórðarson

Í tvígang með skömmu millibili hefur hryðjuverkaógnin höggvið nærri okkur í tíma og rúmi. Hugur okkar Íslendinga er hjá bresku þjóðinni og ég hef komið á framfæri fordæmingu stjórnvalda gagnvart hryðjuverkunum í Manchester og Lundúnum, sem beindust ekki síst að ungu fólki í blóma lífsins. Það hefur sömuleiðis verið aðdáunarvert að fylgjast með viðbrögðum bresku þjóðarinnar, hversu sameinuð hún stendur og staðráðin í því að láta ekki huglausa morðingja og hryðjuverkamenn hafa áhrif á líf sitt og gildi, sem byggja meðal annars á frelsi, mannúð og umburðarlyndi.
Árásirnar í Manchester og Lundúnum, og aðrar í Stokkhólmi, Brussel og París, svo einungis kunnuglegir áfangastaðir fjölmargra Íslendinga séu nefndir, eru hins vegar atlaga að okkur öllum sem aðhyllast þessa sömu lífsskoðun - þessi sömu gildi sem okkur er svo annt um og viljum í engu breyta.
Við getum hins vegar ekki horft framhjá þessum atburðum og þeirri breyttu mynd sem okkur birtist í öryggis- og varnarmálum. Baráttan gegn hryðjuverkum er háð á mörgum stigum. Það þarf að ráðast að rótum vandans og Ísland leggur þar sitt að mörkum í þróunar- og mannúðarstarfi, meðal annars í stríðshrjáðum ríkjum eins og Sýrlandi. Við tökum ennfremur þátt í alþjóðasamstarfi, meðal annars á vegum Atlantshafsbandalagsins og löggæslustofnana, í því augnamiði að stemma stigu við hryðjuverkum. Baráttan gegn hryðjuverkum er barátta gegn illvirkjum.
Þá verðum við að gæta þess að hér heima sé til staðar sá viðbúnaður sem með þarf ef á reynir. Embætti ríkislögreglustjóra gefur reglubundið út mat á hættu af hryðjuverkum – hið síðasta frá upphafi þessa árs. Samkvæmt mati embættisins er hættustig í meðallagi, sem þýðir að hætta af hryðjuverkum hér á landi er ekki útilokuð. Hættumatið að baki nýsamþykktrar þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er á sömu lund hvað hryðjuverkaógnina varðar.
Á vegum Atlantshafsbandalagsins er nú unnið að endurskoðun viðbragðs- og varnaráætlana sem lúta að hinu breytta umhverfi öryggis- og varnarmála í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi, og taka sérfræðingar okkar fullan þátt í þeirri vinnu. Samhliða þessari vinnu er unnið að sérstakri viðbragðs- og varnaráætlun fyrir Ísland sem tekur mið af slíkum áætlunum og heimfærir upp á íslenskar aðstæður, þ.m.t. hugsanlegri ógn af hermdar- og hryðjuverkamönnum. Áætlunin er unnin í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir og geri ég ráð fyrir að vinnu við gerð hennar ljúki á haustdögum. Ennfremur verður fyllsta samráðs við þjóðaröryggisráð og utanríkismálanefnd Alþingis gætt.
Við Íslendingar erum lánsöm þjóð og sem betur fer steðjar ekki bráð hætta af hryðjuverkum hér á landi. Slík hætta er hins vegar ekki útilokuð og nýlegir atburðir í Bretlandi eru okkur áminning um að sýna fyllstu árvekni og huga að okkar eigin viðbúnaði – um leið og við höldum áfram að styðja við baráttuna gegn hryðjuverkum á alþjóðavísu.
Við þurfum að standa vörð um gildin okkar.

Höfundur er utanríkisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum