Hoppa yfir valmynd
01. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Nálægð og traust í tvíhliða þróunarsamvinnu

Þær áskoranir sem jarðarbúar standa frammi fyrir eru risavaxnar. Heimurinn er enn í sárum eftir kórónuveirufaraldurinn og verð á matvælum og öðrum nauðþurftum hefur hvarvetna hækkað, meðal annars vegna röskunar á aðfangakeðjum og afleiðinga innrásar Rússlands í Úkraínu. Yfir öllu hvílir einnig skuggi loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á allt líf á plánetunni okkar. Það er sorgleg staðreynd að eins og oft áður þurfa þau sem búa í fátækustu heimshlutunum að bera þyngstu byrðarnar. Meðan afleiðingar ástands birtast í hærra verðlagi og hugsanlega torfengnari munaðarvöru fyrir flest á Vesturlöndum, glímir fátækari hluti heimsins við raunverulegan, vaxandi og nístandi skort á nauðþurftum.

Ég velkist ekki í vafa um að það sé hrein og bein skylda okkar að leggja fram hjálparhönd þar sem við getum. Fyrir utan að það sé hin rétta siðferðislega afstaða þá er það einnig hagsmunamál allrar heimsbyggðarinnar að draga úr fátækt og hungri, því fylgifiskar örbigðar er getur verið vonleysi og pólitísk upplausn. Liður í viðbragði okkar Íslendinga er virk þátttaka í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og hefur Ísland jafnt og þétt lagt meira af mörkum í þeim efnum á undanförnum árum.
 
Í lok nýliðins árs heimsótti ég Malaví sem er eitt þriggja Afríkuríkja sem Ísland á í tvíhliða þróunarsamvinnu við. Í Malaví, rétt eins og í Úganda, vinnum við á grundvelli svonefndrar héraðsnálgunar. Þessi nálgun hefur þann kost að unnið er náið með héraðsstjórnum að brýnum umbótum í grunnþjónustu við íbúa og geta þeirra styrkt til að framkvæma áætlanir með fjármagni og tæknilegum stuðningi. Þessi aðferð krefst náinnar samvinnu við þá sem njóta góðs af samstarfinu og hún byggir á gagnkvæmu trausti. 
 
Ísland hefur stutt við ákveðna málaflokka og má þá helst nefna heilbrigðismál, vatns- og hreinlætismál auk menntamála. Árangur samstarfsins er áþreifanlegur og sem dæmi má nefna að á síðustu tíu árum hafa 390 þúsund íbúar Mangochi héraðs– rétt rúmlega mannfjöldi Íslands – fengið aðgang að hreinu vatni. Þá hafa  43 þúsund konur aðgang að viðeigandi fæðingarþjónustu í heimabyggð. Jafnrétti kynjanna hefur verið lykilatriði í þróunarstarfi í Malaví og Ísland hefur lagt sig fram um að innleiða kynjajafnrétti þvert á öll verkefni auk þess að líta á það sem sértækt markmið að valdefla konur og stúlkur. Ég fékk það ánægjulega tækifæri í Mangochi að opna fyrir hönd okkar Íslendinga nýja miðstöð við héraðssjúkrahúsið þar sem konur og stúlkur fá alhliða aðstoð og meðferð vegna fæðingarfistils, hörmulegs örkumls sem bitnar sérstaklega á ungum mæðrum sem skaðast við fæðingu og er í kjölfarið útskúfað úr samfélaginu. Það er góð tilfinning að sjá beina tengingu milli framlags Íslands og stórbættra lífsgæða ungra kvenna.
 
Á næstu árum ætlum við að leggja meiri áherslu á loftslags-og umhverfismál í Malaví eins og kveðið er á um í nýjum samstarfssamningi þjóðanna sem við Nancy Tembo utanríkisráðherra Malaví undirrituðum. Ástæðan er sú mikla ógn sem af loftslagsbreytingum stafar í Malaví. Náttúruhamfarir höfðu á síðasta ári alvarlegar afleiðingar fyrir malavísku þjóðina auk þess sem efnahagskreppa, óðaverðbólga og gjaldeyrisskortur leiddu til þess að sárafátækum fjölgaði hratt. Ísland brást skjótt við og var fyrsta framlagsríkið til að þess að veita fjárframlög í nýjan sjóð Alþjóðabankans sem veitir þeim allra fátækustu fjárhagsaðstoð.
 
Því hefur oft verið haldið fram að til þess að ná árangri í þróunarsamvinnu til lengri tíma litið verði heimamenn að geta litið á verkefni fjármögnuð af utanaðkomandi ríkjum eða stofnunum sem sín eigin. Með héraðsnálgun er eignarhald heimamanna sett í öndvegi, tryggt að þeir hafi vissu fyrir því að verkefnin séu þeirra enda séu þau unnin á öllum stigum í nánu samstarfi og samtali, allt frá áætlanagerð, framkvæmd og til úttekta á árangri. Í samtölum mínum við stjórnvöld í Malaví fann ég sterkt fyrir því að þetta eignarhald er til staðar. 

Mikilvægt er að fjármagn og orka sem Ísland veitir í þróunarsamvinnu nýtist vel. Í þeim efnum vinnum við annars vegar beint með ríkjum, en við treystum einnig alþjóðlegum samtökum, einkum á vegum Sameinuðu þjóðanna og leggjum fjármagn í verkefni á þeirra vegum. Sagan sýnir að ólíkar leiðir hafa kosti og galla. Héraðsnálgunin sem við fylgjum í Malaví krefst mikillar vandvirkni og djúprar þekkingar á samfélaginu sem unnið er í. Þegar þessi nálgun lukkast vel þá getur hún gert ákaflega mikið gagn. Árangur af starfi Ísland hefur vakið athygli og er haldið uppi sem fyrirmynd. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá er fátt sem gefur meiri gleði en að vita að maður eigi þátt í því að gera gagn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. janúar 2023

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum