Hoppa yfir valmynd

Starfsreglur fyrir fjármálastöðugleikaráð

Hlutverk fjármálastöðugleikaráðs

Kveðið er á um  fjármálastöðugleikaráð í lögum nr. 66/2014. Ráðið er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Hlutverk þess er að efla og varðveita fjármálastöðugleika, auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og sporna við uppsöfnun kerfisáhættu.

Skipan fjármálastöðugleikaráðs

Í ráðinu sitja:

  1. Fjármála- og efnahagsráðherra,
  2. Seðlabankastjóri,
  3. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Fjármála- og efnahagsráðherra er formaður ráðsins.

Starfsemi ráðsins

Formaður kallar ráðið saman þrisvar sinnum á ári og oftar ef ráðsmenn telja þörf á. Skrifstofa ráðsins er í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ráðherra skal tilgreina ritara ráðsins. Ritari ber ábyrgð á undirbúningi funda og eftirfylgni.

Undirbúningur funda ráðsins

Umsýsla fjármálastöðugleikaráðs er í höndum skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þ.m.t.  boðun funda, skráning gagna og skjölun.

Ráðið ákveður dagsetningar funda næsta árs eigi síðar en 30. nóvember ár hvert. Fundir skulu að jafnaði haldnir innan tveggja vikna frá fundi kerfisáhættunefndar. Óski ráðsmaður eftir breytingum á fundartíma skal hann tilkynna það ritara ráðsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir fyrirhugaðan fund. Formaður ráðsins skal í kjölfarið ákveða fundartíma í samráði við aðra ráðsmenn.

Ritari lætur ráðsmönnum í té dagskrá og fundargögn, þ.m.t. drög að ákvörðunum sbr. 4.-6. gr. laga um fjármálastöðugleikaráð nr. 66/2014, með a.m.k. fjögurra daga fyrirvara, enda hafi gögn frá kerfisáhættunefnd borist a.m.k. viku fyrir fund ráðsins, sbr. starfsreglur kerfisáhættunefndar.

Fundir ráðsins

Fundir fjármálastöðugleikaráðs skulu að jafnaði fara fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.  

Formaður stýrir fundum fjármálastöðugleikaráðs. Fundina sitja ráðsmenn og ritari. Auk þess getur hver ráðsmaður tilgreint einn sérfræðing til setu á fundum án tillöguréttar. Slíkum sérfræðingum skal heimilt að tjá sig um mál sem eru á dagskrá. Einstakir starfsmenn aðildarstofnana og ráðuneytis sitja fundinn í tengslum við kynningar. Heimilt er að fleiri sitji fundina ef slíkt er samþykkt af ráðsmönnum.

Á fundum ráðsins skal að jafnaði taka eftirfarandi atriði til umfjöllunar: i) Eftirfylgni ákvarðana ráðsins samkvæmt 4.-6. gr. laga 66/2014; ii) kynning á greiningu og tillögum kerfisáhættunefndar; iii) umræður og ákvarðanir sem lúta að tillögum að aðgerðum; og iv) umræður og ákvarðanir um birtingu mats ráðsins á fjármálastöðugleika og tillögum að aðgerðum.

Ef fjármálakreppa telst yfirvofandi eða skollin á og ráðið kemur saman sem formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda, sbr. 6. gr. laga 66/2014, skal skipulag funda taka mið af þeim sérstöku aðstæðum.

Ráðið tekur við greiningum og tillögum frá kerfisáhættunefnd. Ráðið getur ákveðið að óska eftir að fyrirtæki, samtök, sérfræðingar eða aðrir samsvarandi veiti skriflegt framlag, fái áheyrn ráðsins eða taki þátt í fundi, að hluta eða í heild, þegar slíkt gagnast ráðinu og brýtur ekki gegn þagnarskyldu.

Geti ráðsmaður ekki komið á fundarstað er honum heimilt að taka þátt í fundum í gegnum fjarfundarbúnað.

Tilmæli

Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs sbr. 5. gr. laga 66/2014 skulu send þar til bærum stjórnvöldum bréfleiðis. Fjármálastöðugleikaráð tekur ákvörðun um hvort birta skuli tilmæli ráðsins, rökstuðning þeirra og skrifleg svör viðkomandi stjórnvalds opinberlega, í heild eða að hluta. Við mat á því skal meðal annars horft til þess hvort birting geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika.

Ákvarðanir

Fjármálastöðugleikaráð skal leitast við að taka einróma ákvarðanir á fundum. Sé ekki unnt að afgreiða mál einróma skal afstaða meirihluta ráðsins lögð til grundvallar við ákvörðun.

Gagnsæi

Fjármálastöðugleikaráð heldur fundargerð, þar sem skrá skal viðveru ráðsmanna og gesta á fundum ráðsins, þau mál sem eru til umfjöllunar, umræður og ákvarðanir.

Fundargerð sendist ráðsmönnum til yfirlestrar og samþykktar eigi síðar en viku eftir fundinn. Ráðsmenn skulu koma athugasemdum við fundargerð til ritara ráðsins innan viku frá móttöku. Eftir samþykkt nefndarmanna undirritar formaður fundargerðina.

Fundargerð skal gerð opinber innan eins mánaðar frá fundi ráðsins, sbr. 10. gr. laganna. Fjármálastöðugleikaráð getur fellt úr birtri fundargerð atriði sem geta haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika.

Fjármálastöðugleikaráð sendir Alþingi árlega skýrslu þar sem greint er frá meginþáttum í störfum þess.

Þagnarskylda

Ráðsmenn og gestir funda ráðsins eru bundnir þagnarskyldu um störf nefndarinnar.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. 

Endurskoðun starfsreglna

Óski ráðsmaður eftir breytingum á reglum þessum skulu tillögur teknar fyrir á fundi ráðsins, enda hafi þær borist ritara með a.m.k. viku fyrirvara.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira