Hoppa yfir valmynd

Starfsreglur fyrir kerfisáhættunefnd

Starfshættir kerfisáhættunefndar

Samkvæmt lögum nr. 66/2014  starfar kerfisáhættunefnd fyrir fjármálastöðugleikaráð. Nefndin leggur mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika og skilar í kjölfarið tillögum til fjármálastöðugleikaráðs. Nefndin setur sér starfsreglur sem ráðið samþykkir í samræmi við 3. mgr. 7 gr. laga um fjármálastöðugleikráð.

Skipan kerfisáhættunefndar

Í kerfisáhættunefnd sitja fimm einstaklingar með atkvæðisrétt:

 1. Seðlabankastjóri.
 2. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
 3. Aðstoðarseðlabankastjóri.
 4. Aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins.
 5. Einn sérfræðingur í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði.

Seðlabankastjóri er formaður nefndarinnar en forstjóri Fjármálaeftirlitsins varaformaður.

Sérfræðingur er skipaður af fjármála- og efnahagsráðherra, án tilnefningar, til fimm ára í senn.

Auk ofangreindra nefndarmanna situr ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis, eða annar tilnefndur embættismaður ráðuneytisins, fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins velja auk þess einn sérfræðing hvor sem sitja fundi með málfrelsi:

 1. Framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands
 2. Framkvæmdastjóra greiningasviðs Fjármálaeftirlitsins

Auk þess situr ritari fundinn.

Einstakir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins  og Seðlabanka Íslands sitja fundinn í tengslum við kynningar.

Undirbúningur funda kerfisáhættunefndar

Umsýsla fyrir vinnu kerfisáhættunefndar er á hendi fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, þ.m.t. undirbúningur funda, skráning gagna og skjölun.

Við undirbúning funda er stuðst við niðurstöður áhættumatshópa Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Dagskrá fundar og önnur nauðsynleg fundargögn skulu alla jafna vera aðgengileg þremur virkum dögum fyrir fund.

Fyrir hvern fund skulu nefndarmenn fá gögn og upplýsingar um ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika.

Fundir kerfisáhættunefndar

Nefndin kemur saman til fundar að minnsta kosti fjórum sinnum á ári en oftar telji einhver nefndarmanna þörf á.

Á tveimur fundum er gert heildarmat á kerfisáhættu en á hinum tveimur er hugað að breytingum milli funda til að leggja mat á kerfisáhættu.

Fundir skiptast jafnan í þrjá hluta, þ.e. yfirferð varðandi kerfisáhættu, umræður um kerfisáhættu og viðbrögð og tillögur til fjármálastöðugleikaráðs.

Nefndarmenn eru boðaðir á fund nefndarinnar með að minnsta kosti fjögurra vikna fyrirvara.

Fundir eru haldnir í Seðlabanka Íslands nema nefndin ákveði annað.

Geti nefndarmaður ekki komið á fundarstað er honum heimilt að taka þátt í fundum í gegnum fjarfundarbúnað.

Formaður stýrir fundum nefndarinnar. Hann leggur til drög að dagskrá fundar sem meðlimir samþykkja í upphafi fundar.

Nefndin getur ákveðið að óska eftir að fyrirtæki, samtök, sérfræðingar eða aðrir samsvarandi veiti skriflegt framlag, fái áheyrn nefndarinnar eða taki þátt í nefndarfundi, að hluta eða í heild, þegar slíkt gagnast nefndinni og brýtur ekki gegn þagnarskyldu.

Atkvæðagreiðslur

Kerfisáhættunefnd skal leitast við að ljúka málum í sátt. Ella eru ákvarðanir teknar með atkvæðagreiðslu meðal nefndarmanna. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns eða atkvæði varaformanns í hans fjarveru .

Atkvæðagreiðsla fer fram samkvæmt ákvörðun formanns. Formaður skal auk þess efna til atkvæðagreiðslu óski einhver nefndarmanna eftir því.

Vanhæfisástæður

Nefndarmaður tekur ekki þátt í afgreiðslu máls sé hann vanhæfur.  

Nefndarmaður skal tilkynna formanni áður en afgreiðsla máls hefst ef hann telur sig vanhæfan og svarar eftir atvikum spurningum nefndarmanna þar að lútandi.

Nefndin ákveður, án aðkomu viðkomandi nefndarmanns, hvort hann tekur þátt í afgreiðslu málsins. Nefndin getur falið formanni þetta hlutverk.

Sé nefndarmaður talinn vanhæfur getur formaður ákveðið að hann fái ekki aðgang að málsgögnum, varanlega eða ekki fyrr en að ákveðnum tíma liðnum.

Ummæli kerfisáhættunefndar

Fulltrúum kerfisáhættunefndar er frjálst að tjá skoðanir sínar á ástandi og horfum í fjármálakerfinu en skulu hafa eftirfarandi í huga:

 1. Þeir skulu taka skýrt fram að þeir tjái eigin skoðanir en ekki skoðanir kerfisáhættunefndar.
 2. Þeir skulu forðast að tjá sig um viðhorf annarra nefndarmanna.
 3. Nefndarmenn skulu ekki tjá sig opinberlega um ástand og horfur í fjármálakerfinu á tímabilinu frá fundi KÁN og þar til FSR gefur út tilkynningu nema að því marki sem slíkt er óhjákvæmilegur þáttur í starfsemi Seðlabankans eða Fjármálaeftirlitsins, t.d. vegna reglubundinnar útgáfu.

Tillögur kerfisáhættunefndar

Að loknum fundi kerfisáhættunefndar sendir nefndin tillögur sínar til fjármálastöðugleikaráðs.

Tillögur kerfisáhættunefndar skulu meðal annars byggja á millimarkmiðum sem fjármálastöðugleikaráð hefur skilgreint í opinberri stefnu um fjármálastöðugleika. Millimarkmiðin eiga að stuðla að því meginmarkmiði að halda fjármálastöðugleika. Hverju millimarkmiði skal fylgja að minnsta kosti einn þjóðhagsvarúðarvísir sem gefur til kynna þegar millimarkmiðinu, og þar með fjármálastöðugleika, er ógnað.

Tillögur kerfisáhættunefndar skulu innihalda:

 1. Mat á ástandi og horfum í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika, þar með talið stöðu millimarkmiða.
 2. Mat á því, m.a. með hliðsjón af vísum, hvort tilefni sé til aðgerða sem ætlað væri að efla og varðveita fjármálastöðugleika.
 3. Fyrir hverja aðgerð sem nefndin leggur til skal fylgja ítarleg greinargerð á þeirri kerfisáhættu sem aðgerðin á að vinna gegn og mat á því hvernig aðgerðinni er ætlað  að vinna gegn þeirri áhættu.

Tillögur kerfisáhættunefndar skal skrá í fundargerð.

Tillögur kerfisáhættunefndar skulu sendar ritara fjármálastöðugleikaráðs eigi síðar en viku fyrir fund fjármálastöðugleikaráðs.

Eftirfylgni tillagna

Í upphafi fundar kerfisáhættunefndar skal farið yfir tillögur nefndarinnar frá síðasta fundi.

Í fundargerð skal skrá hvort og þá með hvaða hætti hverri tillögu hefur verið fylgt. Auk þess skal fylgja eftir fyrri tillögum þar til brugðist hefur verið við þeim á fullnægjandi hátt.

Fundargerð

Kerfisáhættunefnd heldur fundargerð, þar sem skrá skal umræður og ákvarðanir nefndarinnar um tillögur til fjármálastöðugleikaráðs. 

Í fundargerð skal skrá fundarsókn nefndarmanna og gesta á fundum kerfisáhættunefndar.

Sé nefndarmaður ósammála ákvörðun nefndarinnar getur hann óskað eftir að álit hans sé bókað sérstaklega í fundargerðina.

Fundargerð sendist til nefndarmanna til yfirlestrar og samþykktar eigi síðar en viku eftir hvern fund. Eftir samþykkt nefndarmanna undirritar formaður fundargerðina.

Þagnarskylda

Nefndarmenn og aðrir gestir nefndarfunda eru bundnir þagnarskyldu um störf nefndarinnar.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Umsýsla kerfisáhættunefndar

Fjármálastöðugleikasvið Seðlabanka Íslands fer með umsýslu nefndarinnar fyrir hönd Seðlabanka Íslands. Í því felst að vista nefndina og sjá um skráningu og skjölun.

Endurskoðun starfsreglna

Óski einhver nefndarmaður eftir breytingu á starfsreglum þessum setur hann fram skriflega tillögu til nefndarinnar.

Þá er tillagan sett á dagskrá næsta fundar kerfisáhættunefndar.

Ákvörðun um breytingu á starfsreglum nefndarinnar er tekin með meirihlutakosningu meðal nefndarmanna með atkvæðisrétt.

Nýjar starfsreglur eru þá sendar til fjármálastöðugleikaráðs til samþykkis.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira