Hoppa yfir valmynd

Skipulagsskrá fyrir sjóðinn Þjóðhátíðargjöf Norðmanna

Skipulagsskrá fyrir sjóðinn Þjóðhátíðargjöf Norðmannaþ (nr. 279 frá 30. maí 1975, sbr. auglýsingu nr. 199 frá 25. mars 1998 og auglýsingu nr. 295 frá 26. apríl 1999 um breytingu á skipulagsskrá fyrir sjóðinn Þjóðhátíðargjöf Norðmanna)

Stofnfé sjóðsins er gjöf frá norsku þjóðinni í tilefni 1100 ára búsetu á Íslandi.

Forsætisráðuneytið hefur í samráði við ríkisstjórnina sett sjóðnum eftirfarandi skipulagsskrá:

1. gr.
Stofnfé sjóðsins 1 000 000.00 - ein milljón norskra króna - sem norska stórþingið samþykkti að gefa Íslendingum, skal mynda höfuðstól sjóðsins. Höfuðstólinn má auka með fjárupphæðum, sem síðar kunna að berast sjóðnum.

2. gr.
Höfuðstóll sjóðsins skal varðveittur á Íslandi eða í Noregi eftir ákvörðun sjóðstjórnar, sem ber ábyrgð á ávöxtun hans.

3. gr.
Tilgangur sjóðsins er að auðvelda Íslendingum að ferðast til Noregs. Í þessu skyni skal veita viðurkenndum félögum, samtökum, og skipulögðum hópum ferðastyrki til Noregs í því skyni að efla samskipti þjóðanna t.d. með þáttöku í mótum, ráðstefnum, eða kynnisferðum, sem efnt er til á tvíhliða grundvelli. Ekki skal úthlutað ferðastyrkjum til einstaklinga, eða þeirra sem eru styrkhæfir af öðrum aðilum.

4. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skal ársskýrsla sjóðstjórnar afhent forsætisráðuneytinu fyrir 1. febrúar hvert ár.

5. gr.
Höfuðstóll sjóðsins skal standa óskertur, en vaxtatekjum hans skal ráðstafað árlega til að stuðla að tilgangi sjóðsins.

6. gr.
Styrkir úr sjóðnum skulu auglýstir til umsóknar í fjölmiðlum samkvæmt nánari ákvæðum er sjóðstjórn ákveður. Lögð skal áhersla á að veita styrki sem renna til beins ferðakostnaðar, en umsækjendur beri sjálfir dvalarkostnað í Noregi.

7. gr.
Í stjórn sjóðsins skulu vera þrír menn; sendiherra Noregs á Íslandi skal sjálfskipaður, en tveir stjórnarmanna skulu skipaðir af forsætisráðuneytinu til fjögurra ára í senn. Láti stjórnarmaður af störfum fyrir lok starfstímabils skal strax skipa annan mann í hans stað er sitji út skipunartímann. Stjórnin kýs formann og varaformann úr sínum hóp.

8. gr.
Forsætisráðuneytið sér um ritara- og skrifstofustörf sjóðsins samkvæmt nánara samkomulagi milli ráðuneytisins og sjóðstjórnar.

9. gr.
Kostnaður vegna starfa stjórnar er greiddur úr sjóðnum.

10. gr.
Ef nauðsyn krefur setur stjórnin sér starfsreglur er hafa að geyma nánari fyrirmæli um starfsemi sjóðsins.

11. gr.
Skipulagsskrá þessari má breyta í samráði við forsætisráðuneytið.

12. gr.
Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari.

Síðast uppfært: 17.1.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum