Hoppa yfir valmynd

Styrkur til náms í alþjóðlegum menntaskóla

Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir árlega einn íslenskan nemanda til náms við Alþjóðlega menntaskólann (e. Red Cross Nordic United World College) í Flekke í Noregi.

Skólinn er hluti af alþjóðlegu skólasamtökunum United World Colleges (UWC), sem reka 18 skóla í 15 löndum. UWC er í fararbroddi alþjóðlegrar menntunar til stúdentsprófs, með það að markmiði að menntun ungmenna með ólíkan menningarbakgrunn auki skilning og samstarf milli þjóða og menningarheima.

Nám við skólann í Noregi tekur tvö ár og lýkur því með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi (e. International Baccalaureat Diploma – IB). Kennsla fer fram á ensku.

Í skólastarfinu er lögð sérstök áhersla á umhverfis-, samfélags- og mannréttindamál og önnur mikilvæg viðfangsefni samtímans. Skólinn á í samstarfi við Rauða krossinn og Norðurlöndin, sem eiga aðild að stofnun hans.

Auglýst er eftir umsækjendum um skólavist á hverju ári. Þeir skulu hafa lokið sem svarar einu ári í framhaldsskóla, hafa gott vald á ensku og vera á aldrinum 16-18 ára. Styrkþegi þarf sjálfur að greiða fargjöld sín.

Fylla þarf út tvö umsóknareyðublöð, eitt á íslensku og annað á ensku og einnig skila inn afritum af prófskírteinum og meðmælum.

  • Umsóknir berist til mennta- og barnamálaráðuneytisins gegnum netfangið [email protected]
  • Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Bolladóttir, ragnhildur.bolladottir hjá mrn.is.
  • Hér má nálgast umsóknareyðublöðin sem fylla þarf út, það íslenska og það enska
  • Upplýsingar um skólann má nálgast á heimasíðunni uwcrcn.no

Spurt og svarað um skólann og námið

Hvaða nám er í boði við skólann?
Nám við skólann í Noregi tekur tvö ár og lýkur með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi, International Baccalaureat Diploma (IB). 

Þarf ég að læra norsku í skólanum?
Öll kennsla fer fram á ensku og í skólanum eru um 200 nemendur frá 100 þjóðlöndum. Þú munt því ekki læra mikla norsku nema þú kjósir slíkt sjálf/ur. Kennsla í tungumálum fer fram í skólanum og þú getur valið á milli nokkurra tungumála.

Hvernig staður er Flekke? 
Skólinn er staðsettur á vesturströnd Noregs, nálægt bænum Flekke og Dale in Sunnfjord og um 150 km norður af Bergen.  Skólinn er staðsettur frekar afskekkt í dásamlega fallegum firði og kannski vegna fjarlægðar frá stærri bæum myndast mikil dýnamik og samkennd í skólanum sem íslensku nemendurnir hafa upplifað svo sterkt í gegnum árin. Þarna koma saman nemendur 16-19 ára og ævilöng vinátta myndast milli fólks frá mismunandi menningarheimum.  

Mun þetta kosta mig eitthvað?

Mennta- og barnamálaráðuneytið greiðir skólagjöld og allt uppihald fyrir nemandann í tvö ár. Skólinn útvegar nemandanum námsgögn gjaldfrjálst. Nemendur greiða sjálfir fyrir fargjöld milli Íslands og Noregs og eins er gott að hafa vasapening með sér.  

Hvað er mikilvægt að ég skrifi í umsóknina?

Mikilvægt er að fylla út alla reiti og t.d. er kaflinn um félagsstörf og áhugamál mikilvægur. Þá er nauðsynlegt að fá umsagnir/meðmæli frá tveimur aðilum og það geta verið kennarar, skólastjórnendur, þjálfarar eða aðrir sem þekkja vel til þín.

Hvernig eru fríin?  Er hægt að heimsækja nemendur, t.d. foreldrar?

Jólafrí er langt eða um mánuður og allir nemendur fara heim til sín þá. Páskafrí er nokkuð hefðbundið og svipað og hér heima og margir eyða fríinu í skólanum. Ekki er mikið um að foreldrar komi i heimsókn því fáir gistimöguleikar eru á staðnum.

Get ég haft samband við nemanda sem er í skólanum núna og fengið nánari upplýsingar?
Það er alveg sjálfsagt mál að hafa milligöngu um slíkt. Það eru alltaf tveir Íslendingar í skólanum í einu, einn á fyrsta ári og annar á öðru ári og hefur það verið mikill stuðningur fyrir þann sem kemur nýr í skólann. 
Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Bolladóttir, ragnhildur.bolladottir hjá mrn.is.


 

 

 

 

Síðast uppfært: 18.4.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum