Hoppa yfir valmynd

Handtaka, fangelsun og opinber mál erlendis

Ef íslenskur ríkisborgari er handtekinn eða settur í fangelsi erlendis getur borgaraþjónustan veitt aðstoð. Rétt er að benda á að samkvæmt alþjóðasamningi um ræðissamband er það er réttur hvers manns í samskiptum við erlend yfirvöld að fá að hafa samband við fulltrúa lands síns (sjá lög nr. 4/1978 um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband).

Hvað getur borgaraþjónustan gert?

  • Haft samskipti við hinn handtekna eða fangelsaða. Oftast væri því þannig farið að reynt yrði að ná símasambandi við hann, ef slíkt er talið mögulegt og aðstæður krefjast ekki heimsóknar. Einnig er hægt að fela erlendum ræðismanni Íslands í viðkomandi landi að heimsækja viðkomandi í fangelsi eða hafa símasamband við hann.
  • Veitt aðstoð við að finna lögmenn sem hafa sérþekkingu á viðkomandi réttarsviði. Einnig er hægt að upplýsa hinn handtekna/fangelsaða um grundvallaratriði í réttarkerfi viðkomandi lands.

Borgaraþjónustan getur haft milligöngu um samskipti við ættingja hins handtekna á Íslandi og í öðrum löndum, tilkynnt þeim um stöðu hins handtekna og jafnvel komið bréfum og öðrum fregnum áleiðis sé þess óskað.

Ef aðstæður hins handtekna/fangelsaða eru ekki í samræmi við almennt viðurkenndar réttarreglur, lög eru brotin á honum, hann beittur illri meðferð, persónulegu öryggi hans ógnað eða honum mismunað getur borgaraþjónustan haft samband við viðkomandi yfirvöld og krafist úrbóta.

Í sérstökum tilvikum getur borgaraþjónustan haft milligöngu um millifærslu fjármuna frá Íslandi. Yrðu í þeim tilvikum fjármunir millifærðir inn á reikning ríkisféhirðis og þeim síðan komið áleiðis til fanga fyrir milligöngu fulltrúa Íslands erlendis.

Í samráði við dómsmálaráðuneytið getur utanríkisráðuneytið farið fram á það við erlend stjórnvöld að þau leyfi að fullnusta refsingar fari fram á Íslandi hafi hinn fangelsaði óskað þess sérstaklega við þarlend stjórnvöld.

Hvað getur borgarþjónustan ekki gert?

  • Fengið íslenska ríkisborgara látna lausa úr haldi eða borgað fyrir þá sektir.
  • Að öllu jöfnu er ekki hægt að fá betri meðferð fyrir íslenskan ríkisborgara en aðrir njóta í því landi sem um ræðir.
  • Greitt fyrir lögfræðiaðstoð, kært ákvarðanir stjórnvalda fyrir hönd íslensks ríkisborgara eða haft að öðru leyti afskipti af lögmætri meðferð mála frammi fyrir viðeigandi stjórnvöldum.
  • Rannsakað glæpi.
  • Komið í veg fyrir að fanga verði vísað úr landi að lokinni handtöku eða fangelsisvistun.
  • Séð fanga fyrir snyrtivörum, fötum, afþreyingarefni eða öðru þess háttar.
Síðast uppfært: 12.2.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum