Hoppa yfir valmynd

Slys eða veikindi erlendis

Aðstandendur meðferðis

Hinn slasaði/veiki, aðstandendur hans, fulltrúar ferðaskrifstofu og aðrir sem vitneskju hafa um atburð geta tilkynnt slys eða veikindi til borgara­þjón­ustu á Íslandi, næsta sendiráðs eða ræðismanns Íslands í því ríki sem um ræðir. Aðstoð og leiðbeiningar verða veittar í samræmi við aðstæður hverju sinni. Senda má tilkynningar á netfangið [email protected] eða hringja í neyðarsíma utanríkisráðuneytisins: 545-0-112

Æskilegt er að eftirfarandi upplýsingar fylgi tilkynningu:

 • Fullt nafn hins slasaða / veika og kennitala.
 • Staðsetning og aðdragandi slyss / aðstæður í grófum dráttum.
 • Upplýsingar um tengilið á Íslandi eða erlendis.

Þjáist hinn slasaði/veiki af smitsjúkdómi á borð við lifrarbólgu eða alnæmi þarf að tilkynna slíkt yfirvöldum á staðnum svo unnt sé að grípa til varúðarráðstafana.

Aðstandendur á Íslandi

Aðstandendum kunnugt um slys eða veikindi

Í þeim tilvikum þegar aðstandendur á Íslandi fá upplýsingar um slys eða veikindi frá þriðja aðila, t.d. ferða­skrifstofu eða í fjölmiðlum, þá getur viðkomandi haft samband við borgaraþjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins sem aðstoðar og leiðbeinir í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Aðstandendum ekki kunnugt um slys eða veikindi

Þegar sendiráð eða ræðismaður Íslands móttekur tilkynningu um slys/veikindi íslensks ríkis­borg­ara erlendis er það tilkynnt nánustu aðstandendum, óski hinn slasaði/veiki þess. Sé viðkomandi ófær um að tjá sig um slíkt metur borgaraþjónustan hvort tilkynna beri aðstandendum um slys/veikindi viðkomandi. Eftir atvikum er það gert í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra og prest. 

Ef aðstandendur eru ekki staðsettir á Íslandi er óskað eftir aðstoð sendiráðs eða ræðismanns Íslands þar sem vitað er að aðstandandi dveljist. Hlutverk sendiráðs eða ræðismanns er að hlutast til um að aðstandendum verði tilkynnt um slys/veikindi.

Hvað getur borgaraþjónustan gert?

 • Borgaraþjónustan getur leiðbeint og aðstoðað hinn slasaða/veika og/eða nánustu aðstandendur hans við val á spítala og læknum. Almennt er reynt að mæla með stofnunum þar sem aðbúnaður uppfyllir kröfur sem samræmast vestrænum viðmiðum. Rétt er þó að taka fram að sú aðstaða er ekki alltaf til staðar. Aðstaðan getur jafnvel verið verulega frábrugðin því sem tíðkast á Íslandi.
 • Borgaraþjónustan getur, í einhverjum tilvikum, verið í sambandi við hinn slasaða og eftir atvikum heimsótt hann þegar borgaraþjónustan telur þörf á því eða því verður við komið.
 • Borgaraþjónustan getur tilkynnt aðstandendum um atvik óski hinn slasaði/veiki þess. 
 • Borgaraþjónustan getur haft milligöngu við að kanna hvort sjúkratryggingar almannatrygginga taki til greiðslu sjúkrakostnaðar. Eftir atvikum er einnig hægt að hafa milligöngu um útvegun staðfestingar frá Tryggingastofnun ríkisins um sjúkratryggingu á Íslandi.
 • Borgaraþjónustan getur leiðbeint og aðstoðað aðstandendur ef til þess kemur að sjúkraflutningur til Íslands er nauðsynlegur.
 • Borgaraþjónustan getur haft milligöngu um millifærslu fjármuna frá vinum eða ættingjum á Íslandi til aðstandenda eða annarra erlendis.

Hvað getur borgaraþjónustan ekki gert?

 • Borgaraþjónustan getur ekki veitt þá læknisaðstoð sem þörf er á vegna slyss eða veikinda.
 • Borgaraþjónustan getur ekki tekið þátt í að greiða sjúkrakostnað né kostnað við sjúkraflutning til Íslands. Af þeim sökum mælir borgaraþjónustan eindregið með því að einstaklingar hugi vel að tryggingum sínum áður en haldið er af landi brott. Mikilvægt er að trygging taki til tilvika á borð við sjúkrahúslegu og annars tilfallandi lækniskostnaðar erlendis.

Ýmsar gagnlegar upplýsingar um réttindi í íslenska sjúkratryggingakerfinu er að finna á vef Sjúkratrygginga Íslands: www.sjukra.is. Einnig veita einstök tryggingafélög upplýsingar um þau réttindi sem viðskiptavinir þeirra njóta í tengslum við slys og veikindi erlendis.

Ágætt er að hafa í huga að íslenskir ríkisborgarar sem sjúkratryggðir eru á Íslandi eiga rétt á að fá útgefið evrópska sjúkratryggingakortið. Það staðfestir rétt korthafa til heilbrigðisþjónustu sem verður nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur í EES-landi. Þeir sem ætla að ferðast til EES-lands geta snúið sér til Sjúkratrygginga Íslands áður en lagt er af stað og sótt um evrópska sjúkratryggingakortið. Framvísun kortsins tryggir framangreinda aðstoð. Staðfesting þessi er óþörf sé ferðast innan Norðurlanda og til Bretlands.

Rétt er að benda sérstaklega á að einstaklingar sem dveljast langdvölum erlendis njóta ekki fullra réttinda í íslenska sjúkratryggingakerfinu. Sjúkratryggðir einstaklingar eru þeir sem búsettir hafa verið á Íslandi síðustu sex mánuði áður en aðstoðar er óskað. Hafi einstaklingur verið búsettur erlendis lengur en sex mánuði og njóti hann ekki sambærilegra réttinda í erlendu sjúkratryggingakerfi, er hugsanlegt að kostnaður vegna slyss og veikinda erlendis falli að öllu leyti á hann sjálfan. Mikilvægt er því að tryggja sérstaklega rétt sinn að þessu leyti. Sjúkratryggingar Íslands getur veitt allar nánari upplýsingar um réttindi íslenskra ríkisborgara. 

Læknismeðferð erlendis

Ýmislegt þarf að hafa í huga áður en haldið er af stað utan í þeim tilgangi að leita sér læknismeðferðar. Borgaraþjónustan mælir með að sjúklingar ráðfæri sig við innlenda lækna áður en haldið er af stað.

Síðast uppfært: 17.12.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum