Hoppa yfir valmynd
07. júlí 2023 Brussel-vaktin

Formennskuáætlun Spánverja

Að þessu sinni er fjallað um:

  • formennskuáætlun Spánverja
  • fund leiðtogaráðs ESB
  • rafrænar Schengen vegabréfsáritanir
  • erfðatækni í landbúnaði
  • fræ og græðlinga
  • nýja jarðvegstilskipun
  • textíl og hringrásarhagkerfið
  • markmið um minni matarsóun
  • notkun á reiðufé og regluverk um stafræna evru
  • markaði með sýndareignir
  • nútíma greiðsluþjónustu og opinn aðgang að gögnum
  • reglugerð um gögn
  • samvinnu evrópskra persónuverndarstofnana

Formennskuáætlun Spánverja

Spánverjar tóku við formennsku í ráðherraráði ESB 1. júlí sl. en þann sama dag var formennskuáætlun þeirra birt. Áður höfðu Spánverjar kynnt fjögur helstu áherslumál sín fyrir komandi formennskutíð eins og fjallað var um í Vaktinni 23. júní sl. og eru umrædd áherslumál leiðarstef formennskuáætlunarinnar sem nú hefur verið birt, en þau eru:

  • Ný iðnvæðing á vettvangi ESB og varðveisla á sjálfræði og sjálfstæði ESB til aðgerða (e. Reindustrialise the EU and guarantee ist open strategic autonomy).
  • Græn umskipti og aðlögun að breyttum umhverfisaðstæðum (e. Make progress in the green transition and in enviromental adaptaion).
  • Aukið félagslegt og efnahagslegt réttlæti (e. Promote greater social and economic justice).
  • Aukin evrópsk samheldni (e. Strengthen European unity).

Í formennskuáætluninni er gerð nánari grein fyrir þeim einstöku málefnum og löggjafartillögum sem Spánverjar hyggjast beita sér fyrir. Hér að neðan eru nokkur af þessum málum tilgreind með sérstakri áherslu á löggjafartillögur og stefnumótun sem varðað geta EES-samninginn. Til nánari glöggvunar á einstökum málum er vísað til umfjöllunar í áður útkomnum fréttabréfum Brussel-vaktarinnar, þar sem við á. Auk þeirra málefnasviða sem tilgreind eru hér að neðan er í formennskuáætlunni fjallað um áherslur Spánverja í utanríkis- og varnarmálum, stækkunarmálum og innri lýðræðis- og samheldnismálum o.fl. en um þau mál er hér látið nægja að vísa til þess sem fram kemur í áætluninni.

Á meðal helstu mála, flokkað eftir málefnasviðum og verkaskiptingu innan deilda ráðherraráðs ESB, sem Spánverjar hyggjast beita sér fyrir eru:

Á sviði efnahags- og fjármála:

  • Framgangur tillagna um endurskoðun á fjármálareglum ESB (e. Fiscal rules of Growth and Stability Pact). Sjá umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
  • Framgangur tillagna um endurskoðun á lagaumhverfi evrópskra viðskiptabanka og löggjöf um innstæðutryggingar. Sjá umfjöllun í Vaktinni 21. apríl sl.
  • Framþróun regluverks um sjálfbæra fjármögnun og grænar fjárfestingar (e. Sustainable Finandce). Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl.
  • Framgangur tillagna um stafræna evru. Sjá sérstaka umfjöllun í Vaktinni í hér að neðan.
  • Framgangur tillagna um heildarendurskoðun á tollkerfi ESB. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
  • Samkeppnishæfni og samheldni. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ráðist verið endurskoðun reglna á sviði samkeppnis- og ríkisaðstoðarmála og samheldnismála (e. cohesion). Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl. um tímabundna útvíkkun ríkisaðstoðarreglna.

Á sviði dóms- og innanríkismála:

  • Margvísleg mál á sviði réttarvörslukerfisins eru nefnd.
  • Framgangur viðræðna um mögulega aðild ESB að Evrópuráðinu. Sjá umfjöllun í Vaktinni 10. febrúar sl.
  • Framgangur tillagna um málefni flótta- og farandsfólks (e. The Pact on migration and asylum). Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
  • Málefni Schengen-svæðisins, m.a. framgangur umsókna Rúmeníu og Búlgaríu um aðild að samstarfinu. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 18. nóvember sl.

Á sviði samkeppnismála og samkeppnishæfni:

  • Varðveisla á sjálfræði og sjálfstæði ESB til aðgerða (e. Open Strategic Autonomy). Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl. um nýja efnahagsöryggisáætlun ESB.
  • Uppbygging mikilvægs iðnaðar til að styðja við græn og stafræn umskipti, sbr. fyrirliggjandi stefnumótun og tillögugerð á því sviði, sbr. m.a. umfjöllun um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans í Vaktinni 24. mars sl.
  • Innri markaðsmálefni, m.a. framgangur tillagna um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum (e. Single Market Emergency Instrument - SMEI). Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. september sl.
  • Framfylgd orðsendinga framkvæmdastjórnar ESB um samkeppnishæfni ESB til lengri tíma. Sjá umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl.
  • Endurskoðun reglna um skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis. Sjá umfjöllun í Vaktinni 26. maí sl.
  • Endurskoðun reglna á sviði hugverka- og einkaleyfisréttar. Sjá umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
  • Endurskoðun regluverks um samstarfsáætlanir og samkeppnissjóðakerfi ESB. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl. um nýjan tækniþróunarvettvang ESB.

Á sviði umhverfismála:

  • Undirbúningur fyrir næstu loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP-28) sem haldin verður í Dubai 30. nóvember – 12. desember nk. Sjá til hliðsjónar umfjöllun í Vaktinni 4. nóvember sl. um samningsafstöðu ESB fyrir COP-27.
  • Framgangur óafgreiddra tillagna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 55% fyrir árið 2030 (e. Fit for 55).
  • Framgangur tillaga um strangari reglur um mengunarvarnir, um loftgæði, hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli með núll-mengun að markmiði (e. Zero Pollution goal). Sjá umfjöllun í Vaktinni 4. nóvember sl.
  • Framgangur tillagna um endurreisn vistkerfa. Sjá umfjöllun í Vaktinni 24. júní 2022.

Á sviði samgöngu-, fjarskipta- og orkumála:

  • Endurskoðun reglna um samevrópskt samgöngukerfi (e. Trans-European Transport Network).
  • Framgangur óafgreiddra „Fit for 55“ tillagna á sviði samgöngumála.
  • Framgangur væntanlegra tillagna á sviði umhverfisvænni flutninga (e. Greening Transport Package)
  • Framgangur tillagna um sameinað loftrými og flugumferðarstjórn (e. Single European Sky 11).
  • Framgangur tillagna á sviði siglingaöryggis. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
  • Framgangur tillagna um bætt umferðaröryggi. Sjá umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl.
  • Framgangur ýmissa tillagna í stafrænu starfskrá ESB.
  • Framgangur tillagna um gervigreind. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
  • Framgangur tillaga um evrópsk stafræn skilríki (e. European Digital Identity).
  • Framgangur tillagna um auka samstöðu innan ESB á sviði netöryggismála (e. Cyber Solidarity Act). Sjá umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.
  • Áframhaldandi framfylgd „REPowerEU“ áætlunar ESB, með sérstakri áherslu á framfylgd áætlunar um að koma á fót virkum evrópskum vetnismarkaði. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl. um vistvænt flugvélaeldsneyti

Á sviði atvinnu-, félags- og heilbrigðismála og neytendaverndar:

  • Framfylgd aðgerðaráætlunar félagslegu réttindastoðar ESB sem samþykkt var í ráðherraráðinu í mars 2021. Sjá umfjöllun í Vaktinni 18. nóvember sl.
  • Framfylgd stefnumörkunar um geðheilbrigðismál, m.a. með mögulegri ályktun ráðherraráðsins um málið. Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl.
  • Framfylgd aðgerða til eflingar félagslega hagkerfisins. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. júní 2023.
  • Sérstök áhersla er lögð á framgang tillagna um samevrópsk öryrkjaskilríki (e. EU Disability Card) sem tryggi gagnkvæma viðurkenningu á stöðu fötlunar hjá einstaklingum í aðildarríkjunum.
  • Framgangur tillagna um forvarnir og baráttuna gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Sjá umfjöllun í Vaktinni 18. mars 2022.
  • Framfylgd áætlunar um evrópska umönnunarstefnu (e. European Care Strategy). Sjá umfjöllun í Vaktinni 9. september 2022.
  • Framfylgd áætlunar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2020 – 2025.
  • Framfylgd áætlunar gegn kynþáttafordómum og kynþáttahyggju fyrir árin 2020 – 2025.
  • Framgangur tillagna um stjórnsýslu jafnréttismála. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl.
  • Framhald viðræðna um fyrirliggjandi tillögu um samræmingu almannatryggingakerfa í aðildarríkjunum.
  • Vinna að ályktun ráðsins um vernd einyrkja í almannatryggingakerfinu.
  • Framgangur áætlana um uppbyggingu samstarfs á sviði heilbrigðismála til að geta betur brugðist við framtíðarógnum á borð við kórónaveirufaraldurinn með samræmdum hætti (e. European Health Union). Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 21. október sl.
  • Framgangur tillagna um samevrópskan gagnagrunn fyrir heilbrigðisupplýsingar. Sjá umfjöllun í Vaktinni 8. júlí 2022.
  • Framgangur tillagna um breytingar á gjöldum og þóknunum sem Lyfjastofnun Evrópu innheimtir. Sjá umfjöllun í Vaktinni 10 mars sl.
  • Framgangur tillagna á sviði hringrásarhagkerfisins er í forgrunni er kemur að neytendavernd, svo sem tillaga um rétt neytenda til aðgangs að viðgerðarþjónustu á vörum. Sjá umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl.

Á sviði menntunar, æskulýðsmála, menningar og íþrótta:

  • Framfylgd aðgerðaáætlunar um evrópska færniárið sem nú stendur yfir. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl.
  • Stuðningur við þróun regluverks um samræmd stafræn vottorð um viðurkenningu starfsréttinda innan ESB.
  • Framfylgd æskulýðsstefnu ESB fyrir árin 2019 - 2027 með áherslu á geðheilbrigðisvanda ungs fólks.
  • Framgangur tillagna að nýrri löggjöf um frelsi fjölmiðla. Sjá umfjöllun í Vaktinni 23. september sl.
  • Er kemur að íþróttamálum er lögð áhersla á stöðu kvenna og jafnrétti í íþróttum.

Á sviði landbúnaðar- og sjávarútvegsmála:

  • Framgangur tillagna um erfðabreytt matvæli og vernd náttúrulegra jarðargæða. Sjá nánari umfjöllun um þær tillögur hér að neðan í Vaktinni.
  • Framgangur tillagna til að draga úr notkun skordýraeiturs. Sjá m.a. umfjöllun í Vaktinni 21. apríl sl. um býflugnavænan landbúnað.
  • Framgangur nýrrar landbúnaðarstefnu ESB. Sjá umfjöllun í Vaktinni 16. desember sl.
  • Á sviði sjávarútvegsmála er lögð áhersla græn og stafræn umskipti og sjálfbærni í veiðum en einnig að leitað verði leiða til að styrkja sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB og jafnræði ESB er kemur að hlutdeild í veiðum og veiðimöguleikum úr stofnum sem deilt er með öðrum.

Auk framangreindar formennskuáætlunar Spánverja hefur nú verið birt ný þriggja ríkja áætlun (e. Trio Programme) sem tekur til næstu 18 mánaða. Auk Spánverja, standa Belgar, sem fara munu með formennsku í ráðinu á fyrri hluta næsta árs, 2024, og Ungverjar, sem fara munu með formennsku á seinni hluta árs 2024, að áætluninni. Leysir áætlunin af hólmi þriggja ríkja áætlun sem þrjú síðustu formennskuríki stóðu að, þ.e. Svíar, Tékkar og Frakkar.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogaráð ESB kom saman til fundar dagana 29. og 30. júní sl. Eins og á undanförnum fundum ráðsins var staða mála vegna ársarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu megin umfjöllunarefni leiðtoganna og áframhaldandi stuðningur ESB og aðildarríkja þess við Úkraínu. Meðal annarra umræðuefna á fundinum var staða efnahags- og samkeppnismála, öryggis- og varnarmál, stækkunarmál ESB. Jafnframt voru samskipti og tengsl ESB við önnur ríki og ríkjasambönd voru til umræðu en sérstaklega var þó rætt um samband ESB og Kína, sbr. ályktanir leiðtogaráðsins þar að lútandi, sbr. einnig nýja efnahagsöryggisstefnu ESB sem fjallað var um í Vaktinni 23. júní sl., en hún var undirliggjandi í umræðum leiðtoganna um alþjóðamálin.

Málefni flótta- og farandsfólks voru einnig til umræðu á fundinum, sbr. umfjöllun í Vaktinni 9. júní sl. um nýlegt meirihluta samkomulag sem náðist í ráðherraráði ESB í málaflokkunum. Ekki náðist hins vegar samstaða í leiðtogaráðinu um sameiginlega ályktun ráðsins um málið, vegna andstöðu frá forsætisráðherrum Ungverjalands og Póllands, og fór svo að lokum að forseti leiðtogaráðsins sendi frá sér einhliða ályktun.

Eins og áður segir voru málefni Úkraínu megin umfjöllunarefni fundarins og ávarpaði framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, fundinn undir þeim dagskrárlið sem og forseti Úkraínu, Volodymyr Selenskí, í gegnum fjarfundabúnað. Í ályktunum sem samþykktar voru á fundinum er fordæming á árásarstríði Rússlands gagnvart Úkraínu ítrekuð sem og loforð um að stuðningi, m.a. hernaðarlegum, verði framhaldið eins lengi og þörf krefur. Ráðið áréttaði einnig þá afstöðu sína að Rússland bæri fulla ábyrgð á þeim skaða sem stríðið hefði valdið, og fagnaði ráðið m.a. samkomulagi um tjónaskrá sem náðist á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í apríl. Staða aðildarumsóknar Úkraínu að ESB var einnig rædd en Úkraína hefur einarðlega unnið að því að uppfylla skilyrði aðildar að undanförnu. Var áframhaldandi stuðningi við Úkraínu heitið á vegferð þeirra til að uppfylla skilyrði ESB-aðildar.

Í tengslum við umræður um efnahagsmál og samkeppnishæfni innri markaðar ESB, bæði inn á við og út á við, til lengri tíma litið og með hliðsjón af grænu og stafrænu umskiptunum og utanaðkomandi áskorunum, ályktaði ráðið m.a. eftirfarandi:

  • Að löggjafarstofnanir ESB, þ.e. Evrópuþingið og ráðherraráð ESB ásamt framkvæmdastjórn ESB, flýti vinnu við afgreiðslu löggjafartillagna um kolefnishlutlausan iðnað (e. Net Zero Industry Act) og mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) þannig að unnt verði að ljúka málunum á kjörtímabili Evrópuþingsins sem nú situr. Sjá umfjöllun um framangreindar löggjafartillögur í Vaktinni 24. mars sl.
  • Að tryggt verði að ESB verði kjörlendi fyrir áframhaldandi þróun og nýsköpun á sviði gervigreindartækni um leið og leitast verði við að skapa traust á tækninni. Í þessu skyni hvatti leiðtogaráðið löggjafarstofnanir ESB, þingið og ráðið, til að klára vinnu við fyrirliggjandi löggjafartillögur um gervigreind, sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 9. júní sl.
  • Að framkvæmdastjórn ESB hefði frumkvæði að ráðstöfunum til að tryggja næga framleiðslu og framboð mikilvægra lyfja. Í þessu skyni hvatti leiðtogaráðið löggjafarstofnanir ESB til að flýta meðferð tillagna um endurskoðun lyfjalaga. Sjá umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 26. maí sl.
  • Ráðið fagnaði sérstaklega gildistöku hins nýja evrópska einkaleyfakerfis (e. Unitary Patent System) þann 1. júní sl. sem talið er að geti eflt nýsköpun og samkeppni til muna, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 5. maí sl.

Þá gerði framkvæmdastjórn ESB leiðtogaráðinu grein fyrir stöðu viðræðna ESB og Bandaríkjanna um áhrif bandarísku IRA-löggjafarinnar svonefndu. Sjá nánar m.a. um málið í Vaktinni 23. janúar sl.

Rafrænar Schengen vegabréfsáritanir

Þriðjudaginn 13. júní sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum ráðherraráðs ESB, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB um nýja reglugerð um rafræna útgáfu Schengen vegabréfsáritana. Umrædd reglugerð er partur af Schengen stefnu framkvæmdastjórnar ESB sem var lögð fram í júní 2021, sbr. umfjöllun í Vaktinni 4. júní 2021

Með nýrri reglugerð verður hægt að sækja rafrænt um vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið í gegnum þar til gert vefsvæði (e. Visa Platform) og eins verða áritanamiðarnir sjálfir gefnir út á rafrænu formi. Í gegnum vefsvæðið verður hægt að leggja fram umsókn um vegabréfsáritun, nauðsynleg fylgigögn og greiða áritunargjaldið. Núverandi fyrirkomulag getur verið íþyngjandi og kostnaðarsamt fyrir hinn almenna umsækjenda sem og fyrir aðildarríkin sjálf. Eins hefur misræmis gætt í framkvæmd á milli aðildarríkja en sum þeirra bjóða þegar upp á rafrænt ferli að hluta en önnur ekki. Núverandi áritanamiðar eru einnig viðkvæmir fyrir fölsunum, svikum og þjófnaði, en það er eitthvað sem vonir standa til samræmdir rafrænir áritanamiðar muni bæta verulega.

Markmið reglugerðarinnar er því annars vegar að gera umsóknarferlið skilvirkara og hins vegar að bæta öryggi innan Schengen-svæðisins.

Reglugerðin felur nánar tiltekið í sér eftirfarandi:

  • Eitt sameiginlegt evrópsk umsóknarsvæði fyrir vegabréfsáritun á netinu, þar sem umsækjendur um vegabréfsáritun geta sótt um áritun óháð því hvaða Schengen ríki þeir vilja heimsækja
  • Hægt verður að leggja fram umsókn um áritun í gegnum hið sameiginlega vefsvæði og eins getur umsækjandi fylgst með stöðu umsóknarinnar og hvort upplýsingar eða gögn vanti.
  • Netspjall er mögulegt þar sem umsækjandi getur fengið svör við helstu spurningum.
  • Núverandi áritunarmiðum verður skipt út fyrir rafræn 2D strikamerki.

Reglugerðin kveður á um 7 ára aðlögunartímabil svo aðildarríkin eiga að hafa nægan tíma til að tengjast hinu nýja rafræna kerfi.

Ný erfðatæki í landbúnaði

Framkvæmdastjórn ESB lagði í vikunni fram tillögu að reglugerð sem heimilar notkun á nýrri erfðatækni við ræktun plantna (e. New Genomic Techniques). Nýja erfðatæknin styður við markmið sambandsins um sjálfbæran landbúnað með því að heimila þróun plöntuafbrigða sem þola betur veðurbreytingar, eru ónæm fyrir meindýrum, krefjast minni áburðar og skordýraeiturs og geta tryggt meiri uppskeru. Þar að auki er talið að hin nýja erfðatækni geti hjálpað til við að draga úr notkun á óumhverfisvænu skordýraeitri í ræktun, en stefna sambandsins er að minnka notkun skordýraeiturs um helming fyrir árið 2030, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 21. apríl sl. um býflugnavænan landbúnað. Loks er áætlað að ný erfðatækni muni draga úr þörf sambandsins fyrir innflutning á landbúnaðarvörum.

Tillagan er hluti af nýjum aðgerðapakka ESB um aukna sjálfbærni við nýtingu náttúrulegra jarðargæða.

Almenn reglugerð ESB um erfðabreytt matvæli og fóður er frá árinu 2003 og hafa verið gerðar nokkrar breytingar og viðbætur á regluverkinu síðan. Notkun á hefðbundinni erfðatækni við ræktun matvæla sætir miklum takmörkunum í ESB samkvæmt gildandi reglum og hefur ESB hingað til farið mjög varlega í að hagnýta slíka tækni í varúðarskyni til að vernda heilsu manna og umhverfið. Hafa sum ríki ESB alfarið bannað notkun á erfðatækni við framleiðslu matvæla og fóðurs.

Hin nýja erfðatækni sem framangreind reglugerðartillaga vísar til byggir á nýjum aðferðum sem taldar eru náttúrulegri og áhættuminni en eldri erfðatækni. Eftir sem áður gerir tillagan aðeins ráð fyrir að hin nýja erfðatækni verði leyfð á þröngu sviði til að byrja með, þ.e. á sviði plönturæktunar. Hyggst framkvæmdastjórn ESB byggja upp frekari þekkingu á erfðatækni í dýrum og örverum áður en tillögur um mögulegar tilslakanir þar verða kynntar.

Grunnreglugerð ESB um erfðabreytt matvæli og fóður er eins og áður segir frá árinu 2003. Enda þótt litið sé svo á að reglugerðin falli undir EES-samninginn þá hefur hún enn sem komið er ekki verið tekin upp í samninginn. Dráttur á upptöku þessarar gerðar hefur verið til umræðu á vettvangi EES-samningsins að undanförnu og er nú leitað leiða til að finna lausn á málinu.   

Framangreind tillaga um nýja erfðatækni í landbúnaði gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Fræ og græðlingar

Þann 5. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram löggjafartillögur um framleiðslu og markaðssetningu á plöntufræjum og græðlingum trjáa (e. plant and forest reproductive material)

Tillagan er hluti af nýjum aðgerðapakka ESB um aukna sjálfbærni við nýtingu náttúrulegra jarðargæða.

Núverandi löggjöf ESB um fræ og græðlinga þykir hafa sannað gildi sitt við að tryggja frammistöðu og gæði fræa og græðlinga auk þess sem hún hefur stuðlað að því að byggja upp alþjóðlegan og samkeppnishæfan iðnaði í ESB á þessu sviði. Markmið þeirrar endurskoðunar á löggjöfinni er að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði fyrir slíka rekstraraðila á þessu sviði innan ESB, styðja við nýsköpun og samkeppnishæfni iðnaðarins og stuðla að sjálfbærni, líffræðilegum fjölbreytileika um leið og tekist er á við áskoranir vegna loftlagsbreytinga.

Sjá nánar um tillögurnar hér og hér.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Tillaga að nýrri jarðvegstilskipun

Þann 5. júlí 2023 lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri jarðvegstilskipun sem hefur það að markmiði að tryggja samræmt eftirlit með jarðvegi, vernd og endurheimt jarðvegs og sjálfbæra notkun hans til framtíðar.

Tillagan er hluti af nýjum aðgerðapakka ESB um aukna sjálfbærni við nýtingu náttúrulegra jarðargæða.

Talið er að yfir 60% af evrópskum jarðvegi sé óheilbrigður og vísindaleg gögn benda til þess að ástand jarðvegs fari versnandi, m.a. vegna ósjálfbærrar landnýtingar, mengunar, jarðvegsrofs og áhrifa loftslagsbreytinga m.a. með auknum öfgum í veðurfari.

Skaddaður jarðvegur dregur úr gæðum þeirra afurða sem eiga rót sína að rekja þangað, s.s. matvæla, fóðurs, trefja, timburs og svo mætti lengi telja. Skaddaður jarðvegur dregur úr náttúrulegri hringrás næringarefna, takmarkar kolefnisbindingu og vatnsstjórnun. Fjárhagslegt tap vegna þessa innan ESB er talið nema að minnsta kosti 50 milljörðum evra á ári.

Heilbrigður jarðvegur er mikilvæg forsenda þess að unnt sé að ná markmiðum um kolefnishlutleysi, hreint hringrásarhagkerfi, stöðvun eyðimerkurmyndunar og landhnignunar, verndun líffræðilegrar fjölbreytni, hollustu matvæla og um heilsusamlegt umhverfi fólks.

Framlagning tillögunnar er hluti af framfylgd jarðvegsáætlunar ESB sem birt var í nóvember 2021 og er um að ræða lykilþátt í stefnu ESB um verndun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir árið 2030 samkvæmt Græna sáttmálanum.

Með tillögunni er lagður til lagarammi sem ætlað er að styðja við markmið um heilbrigðan jarðveg fyrir árið 2050, m.a. með því að:

  • mæla fyrir um samræmt eftirlit í aðildarríkjunum með ástandi jarðvegs þannig að þau geti með skilvirkum hætti gert ráðstafanir til að endurnýja skaddaðan jarðveg,
  • tryggja að sjálfbær stjórnun lands og jarðvegsnýting verði meginregla hvarvetna innan ESB,
  • einstök ríki beri kennsl á hugsanlega mengaða staði, rannsaki þá og geri viðeigandi ráðstafanir ef hætta er talin steðja að umhverfi eða heilsu manna og stuðli þannig að eiturefnalausu umhverfi fyrir árið 2050.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Textíll og hringrásahagkerfið

Þann 5. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að breytingu á rammatilskipun ESB um úrgang sem miðar að því að styðja við sjálfbæra meðhöndlun textílúrgangs í samræmi við markmið hringrásarhagkerfisins með aukinni flokkun, endurnotkun og endurvinnslu. Gert er ráð fyrir að aukið framboð á notaðri textílvöru sé til þess fallið að skapa staðbundin störf og spara fjármuni fyrir neytendur um leið og endurnotkun og endurvinnsla dregur úr áhrifum textílframleiðslu á umhverfið og náttú,ruauðlindir.

Tillagan er hluti af nýjum aðgerðapakka ESB um aukna sjálfbærni við nýtingu náttúrulegra jarðargæða.

Framleiðsla og notkun á fatnaði í Evrópu er að miklu leyti ósjálfbær eins og staðan er í dag. Í ESB er fimm milljón tonnum af fatnaði og skóm fleygt árlega sem gera um 11 til 12 kíló á hvert mannsbarn. Heildarmagn textílúrgangs í ESB er um 12,6 milljón tonn á ári. Aðeins um 22% af textílúrgangi er safnað sérstaklega til endurnotkunar eða endurvinnslu en afgangnum er fargað með brennslu eða urðun. Þessi mikla sóun á textíl skaðar náttúruna og veldur losun gróðurhúsalofttegunda langt umfram það sem nauðsynlegt er.

Með tillögunni er lagt til að tekið verði upp samræmt kerfi fyrir aukna ábyrgð framleiðenda á sviði textílframleiðslu (e. Extended Producer Responsibility - EPR).  Aukin framleiðendaábyrgð felur í að framleiðendur vara eru látnir bera ábyrgð á öllum lífsferli vöru, frá því að hún er framleidd og þar til notkunartímabili hennar líkur með endurnýtingu, endurvinnslu eða förgun. Hefur framleiðendaábyrgð af þessu tagi skilað árangri í að bæta úrgangsstjórnun nokkurra vöruflokka, svo sem umbúða, rafhlaðna og raf- og rafeindatækja. Tillagan gengur þannig út á að framleiðendur standi straum af kostnaði sem hlýst af meðhöndlun textílúrgangs. Slík framleiðendaábyrgð þykir til þess fallin að hvetja framleiðendur til að draga úr sóun og auka gæði og endingu þeirra vara sem þeir framleiða.

Umrædd framleiðendaábyrgð á einnig að auðvelda aðildarríkjunum að innleiða kröfur um söfnun og flokkun á textíl frá og með árinu 2025, eins og núverandi rammatilskipun mælir fyrir um.

Í tillögunni er einnig fjallað um ólöglegan útflutning á textílúrgangi til landa sem eru illa í stakk búin til að meðhöndla slíkan úrgang á umhverfisvænan hátt og spilar tillagan að því leyti saman við fyrirliggjandi tillögu um endurskoðun reglugerðar á flutningi á úrgangi á milli landa, sbr. umfjöllun um þær tillögur í Vaktinni 26. maí sl.

Tillaga gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Markmið um minni matarsóun

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu að breytingum á rammatilskipun ESB um úrgang þar sem lagt er til að aðildarríkin grípi til aðgerða með það að markmiði að draga úr matarsóun við matvælaframleiðslu og -vinnslu um 10% og um 30% á hvern einstakling í smásölu og neyslu (veitingahús, matvælaþjónusta og heimili) fyrir árið 2030 miðað við stöðuna eins og hún var árið 2020.

Tillagan er hluti af nýjum aðgerðapakka ESB um aukna sjálfbærni við nýtingu náttúrulegra jarðargæða.

Tæplega 59 milljónir tonna af matvælum fara til spillis innan ESB á hverju ári sem gerir rúmlega 130 kg á hvern einstakling. Áætlað virði matarsóunar er 132 milljarðar evra á ári. Yfir helmingur matarsóunar (53%) er frá heimilum, þar á eftir kemur matvælavinnsla og framleiðslugeirinn, en talið er að um 20% sóunarinnar stafi þaðan. Að minnka matarsóun hefur margþættan ávinning í för með sér: 1) það sparar matvæli til manneldis og stuðlar þar með að auknu fæðuöryggi, 2) það eykur hagræði í rekstri fyrirtækja og heimila og 3) það dregur úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu og -neyslu.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Notkun á reiðufé og regluverk um stafræna evru

Í lok júní sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tvær tillögur sem ætlað er að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki í evruríkjunum geti haldið áfram að nýta sér reiðufé, en einnig að komið verði upp regluverki sem geri Seðlabanka Evrópu mögulegt að gefa út stafræna evru (e. digital euro) sem unnt verði að nota samhliða seðlum og mynt í framtíðinni.

Við undirbúning tillagnanna var áhugi almennings á áframhaldandi notkun reiðufjár kannaður. Niðurstaðan var sú að 60% svarenda vildu eiga þann kost að nota áfram seðla og mynt, en fylgi með upptöku rafrænnar evru óx hins vegar umtalsvert frá síðustu könnun. Sú þróun er meðal annars talin ein afleiðing af kórónuveirufaraldrinum. Í ljósi þessa eru tillögurnar tvær lagðar fram saman og marka þær þannig þá framtíðarsýn að almenningur eigi val um að nota reiðufé eða rafræna evru. Verði þessar tillögur samþykktar óbreyttar verður það á hendi evrópska Seðlabankans að ákveða hvort og hvenær stafrænar evrur verði í boði. Jafnframt verða einstök aðildarríki á evrusvæðinu að sjá til þess að nægt framboð sé af seðlum og mynt á hverjum tíma. Með því er verið að tryggja að hópar sem minna mega sín og treysta meira á reiðufé, eins og t.d. fatlaðir og eldra fólk, eigi greiðan aðgang að því. 

Komi til útgáfu stafrænnar evru, þá verður hún jafngild reiðufé, og í raun viðbótarkostur fyrir neytendur og aðra aðila í alþjóðlegu samhengi. Notkun hennar verður í formi rafræns veskis (e. Digital Wallet) sem bæði einstaklingar og fyrirtæki geta nýtt á evrusvæðinu. Viðskiptabankar og greiðslumiðlanir munu sjá um dreifingu stafrænna evra án tilkostnaðar fyrir einstaklinga. Einstaklingar sem ekki eru með bankareikning munu geta nýtt sér pósthús eða aðra opinbera aðila til að opna stafræna evrureikninga. Rekstraraðilar, nema þeir allra smæstu, verða skyldugir til að taka á móti stafrænum evrum, en sú aðgerð kallar á að settur verði upp hjá þeim sérstakur móttökubúnaður. Upptaka stafrænnar evru er talin mikilvæg fyrir stöðu hennar sem sjálfstæðrar myntar, ekki síst ef seðlabankar vítt og breitt um heiminn fara að feta þá slóð að gefa út rafmyntir, sbr. m.a. athugun Seðlabanka Íslands á málinu, sbr. sérrit Seðlabanka Íslands, Seðlabankarafeyri, sem kom út fyrr á árinu. Jafnframt verður stafræn evra ákveðið mótvægi við sívaxandi markað með sýndarfé (e. crypto currency), sbr. sérstaka umfjöllun hér að neðan um nýja reglugerð ESB um slíka markaði.

Í tilefni af framkomnum tillögum sagði Mairead McGuinness, framkvæmdastjóri fjármálaþjónustu, fjármálastöðuleika og sameiningu fjármálamarkaða í framkvæmdastjórn ESB eftirfarandi „We are at the beginning of a long democratic process, one which will be done hand-in-hand with the European Parliament, Council – and of course, the European Central Bank, who will decide if and when to introduce the digital euro“.

Framangreindar tillögur ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Reglugerð um markaði með sýndareignir

Ráðherraráð ESB samþykkti hinn 16. maí sl. reglugerð um markaði með sýndareignir (e. markets in crypto-assets, MiCA) á grundvelli fyrirliggjandi samkomulags í þríhliða viðræðum um efni málsins. Evrópuþingið hefur jafnframt samþykkt reglugerðina á þeim grundvelli. Er þetta í fyrsta skiptið sem ESB setur sérstakan lagaramma um markaði með sýndareignir og rafmyntir. Markmið reglugerðarinnar er að samræma reglur um viðskipti með sýndareignir því sem gildir um verðbréfaviðskipti, þ. m. t. reglur um markaðsmisnotkun.

Reglugerðin nær til útgefenda og þeirra sem veita þjónustu með rafmyntir, s.s. nytjarafmyntir (e. utility tokens or user tokens), eignatengdar rafmyntir (e. asset-referenced tokens) og stöðugleikamyntir (e. stablecoins) og er henni ætlað að vernda neytendur og fjárfesta en um leið að tryggja fjármálastöðugleika og stuðla að fjárfestingu og nýsköpun á þessu sviði.

Í reglugerðinni er að finna ákvæði um skilyrði sem uppfylla þarf til að hafa heimild til útgáfu sýndareigna, s.s. að einungis lögaðilar megi gefa þær út. Þá skilgreinir reglugerðin þjónustuveitendur sýndareigna, t.d. útgefendur sýndareigna, og viðskiptavettvanga þar sem viðskipti með þær fara fram. Þjónustuveitendur verða starfsleyfisskyldir og munu þurfa að lúta eftirliti. Þeim verður gert að uppfylla ýmis skilyrði, sambærileg við aðra þjónustuveitendur á fjármálamörkuðum, að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem þeir veita.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB að reglugerðinni var lögð fram sumarið 2021 og er hún hluti af hinum stafræna fjármálapakka ESB (e. digital finance package), en markmiðið með honum er að samræma nálgun ESB-ríkja á þessu sviði og örva tækniþróun, tryggja fjármálastöðugleika og neytendavernd.

Bent er á ítarlegri umfjöllun um MiCA-reglugerð ESB og sýndareignir í skýrslu starfshóps um tækifæri og áhættur á sviði stafrænnar fjármálaþjónustu sem forsætisráðherra skipaði og í sérriti Seðlabanka Íslands, Seðlabankarafeyri, sem kom út fyrr á árinu.

Nútíma greiðsluþjónusta og opinn aðgangur að gögnum

Framkvæmdastjórn ESB lagði í lok júní sl. fram tillögur sem lúta annars vegar að regluverki um greiðsluþjónustu og hins vegar að opnum aðgangi að fjármálaþjónustugögnum.

Markmið reglugerðanna er að auka neytendavernd á fjármálamörkuðum enn frekar og efla samkeppni milli aðila sem bjóða stafræna greiðsluþjónustu. Þetta er gert í því augnamiði að neytendur geti deilt upplýsingum með einföldum og öruggum hætti í leit sinni að betri og ódýrari fjármálaþjónustu og sparnaðarleiðum.

Markaður fyrir greiðsluþjónustu hefur breyst verulega á undanförnum árum með vaxandi notkun stafrænna lausna. Þannig hafa nýir aðilar sprottið upp sem bjóða upp á ýmsar nýjungar á þessu sviði, sem m.a. kallar á samnýtingu gagna milli banka og tæknifyrirtækja (e. fintech). Dökka hliðin á þeirri annars jákvæðu þróun er sú að ýmsar sviksamlegar og jafnframt flóknari aðferðir hafa komið fram á sjónarsviðið sem skapa áhættu fyrir neytendur og geta dregið úr trausti þeirra á fjármálakerfið. Áður nefndar tillögur eiga að bæta úr þeim hnökrum án þess að hindra þá stafrænu þróun sem er að eiga sér stað til hagsbóta fyrir neytendur.

Tillögurnar eru tvíþættar eins og áður segir og snúa annars vegar að neytendaverndinni og greiðsluþjónustunni sjálfri og hins vegar að upplýsingagjöf milli aðila. Varðandi fyrri þáttinn er um að ræða breytingar á gildandi tilskipun um greiðsluþjónustu (e. Payment Services Directive; PSD2) sem verður PSD3. Auk þess er tillaga að nýrri reglugerð um greiðslumiðlun (e. Payment Services Regulation; PSR). Samanlagt er umræddum breytingum m.a. ætlað að vera vörn gegn sviksamlegum millifærslum, bæta neytendavernd, jafna samkeppnisstöðu milli banka og annarra greiðslumiðlara, bæta aðgengi viðskiptavina að eigin upplýsingum, bæta aðgengi að seðlum og mynt, bæði í verslunum og hraðbönkum og samræma þær reglur sem gilda um greiðslumiðlun, bæði varðandi framkvæmd og viðurlög. Nái þessar tillögur fram að ganga ættu neytendur að vera nokkuð öruggir þegar um er að ræða stafrænar greiðslur og millifærslur bæði innanlands og á milli landa, hvort heldur er í evrum eða annarri mynt. Jafnframt ættu þær að leiða til aukins framboðs fjármálamarkaðarins á hvers konar greiðsluþjónustu. Tengsl eru á milli þessara tillagna og fyrirliggjandi tillögu um tafalausar millifærslur í evrum, sbr. umfjöllun um þá tillögu í Vaktinni 9. júní sl.

Seinni þátturinn snýr að aðgengi að upplýsingum viðskiptavina og samnýtingu þeirra, Þar er um ræða tillögu að nýrri reglugerð um aðgang að fjármálagögnum (e. Framework for Financial Data Access). Þar má nefna aukna möguleika fyrir viðskiptavini (þó ekki skyldu) til að deila upplýsingum á öruggan hátt í leit sinni að nýrri, ódýrari og gagnsærri þjónustu eða verkfærum til að nýta við ákvörðunartöku, og skyldu þeirra sem geyma gögnin, t.d. banka, til að afhenda þau gögn og til að hafa fullkomið vald yfir því hvaða aðilar fái aðgang að gögnunum og í hvaða tilgangi. Jafnframt er að finna í reglugerðinni tillögu að staðlaðri framsetningu á upplýsingum viðskiptavina og tæknilegri útfærslu hennar (e. technical interfaces) sem og ákvæði um ábyrgð þegar um er að ræða brot á reglum um gögn og í hvaða ferli slík brot fara (e. dispute resolution mechanisms). Markmiðið er að hvetja til framboðs á nýstárlegum fjármálaafurðum og þjónustu fyrir notendur og um leið að efla samkeppni á fjármálamarkaði. Með því ætti persónuleg þjónusta við neytendur að batna, bæði þegar kemur að fjármálaumsýslu og ráðgjöf. Í því samhengi er m.a. bent á sjálfvirka afgreiðslu á umsóknum um veðlán. Smærri fyrirtæki ættu sérstaklega að njóta góðs af þessum breytingum.

Tillagan um aðgang að fjármálaupplýsingum er liður í stefnumótun ESB um stafvæðingu fjármálamarkaðarins (e. Digital Finance Strategy) frá árinu 2020 og í raun óaðskiljanlegur hluti af stefnumótun ESB á sviði gagna (e. European data strategy), en undir þá stefnu fellur meðal annars tillaga að reglugerð um gögn (e. Data Act) sem sérstaklega er fjallað hér að neðan í Vaktinni.

Tillögurnar ganga nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Reglugerð um gögn

Framkvæmdastjórn ESB, Evrópuþingið og ráðherraráð ESB komust hinn 28. júní sl. að samkomulagi um efni nýrrar reglugerðar um notkun stafrænna gagna og aðgang að þeim (e. Data Act). Með reglugerðinni er komið á fót lagaramma um stafræn gögn og miðlun þeirra innan ESB.

Reglurnar fela m.a. í sér að notendur nettengdra tækja geti fengið aðgang að gögnum sem verða til við notkun þeirra. Þá verður notendum heimilt að stýra hvaða þriðju aðilar fái aðgang að umræddum gögnum. Þá er í reglunum tryggður réttur notenda til að ákveða sjálfir hvar þeir geyma gögn sín og til að skipta um hýsingaraðila ef þeir svo kjósa.

Reglugerðin gerir ráð fyrir að réttmæt stjórnvöld og opinberir aðilar geti átt rétt til aðgangs að gögnum hjá einkaaðilum í undantekningar- eða neyðartilvikum, til dæmis þegar neyðar- eða almannavarnaástand skapast og ekki er hægt að nálgast nauðsynleg gögn með öðrum hætti.

Tillaga að reglugerðinni var lögð fram í febrúar 2022, sbr. umfjöllun um málið í Vaktinni 4. mars sl. Reglugerðin er viðbót við aðra reglugerð ESB um gagnastjórnun (e. Data Governance Act) sem kynnt var 2020 og tók gildi 2022. Eru þær báðar hluti af stafrænni áætlun ESB er lýtur að stafrænum gögnum og vinnslu þeirra.

Reglugerðin bíður nú formlegs samþykkis á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við samkomulagið og er gert ráð fyrir að hún komi til framkvæmda rúmum 20 mánuðum eftir að hún he,fur verið birt í Stjórnartíðindum ESB.

Málsmeðferðarreglur um samvinnu evrópskra persónuverndarstofnana

Þann 4. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri reglugerð sem hefur það markmið að straumlínulaga samvinnu persónuverndarstofnana (DPAs) er kemur að beitingu persónuverndarreglugerðarinnar (GDPR) þvert á landamæri aðildarríkjanna.

Með tillögunni eru lagðar til málsmeðferðarreglur fyrir persónuverndarstofnanir er kemur að beitingu GDPR vegna vinnslu upplýsinga um einstaklinga þvert á landamæri. Reglugerðin kveður m.a. á um skyldu þeirrar stofnunar sem ber meginábyrgð á málsmeðferð að senda viðkomandi stofnun í öðru ríki yfirlit yfir helstu álitaefni sem uppi eru í tengslum við yfirstandandi rannsókn og veita þeim þar með tækifæri til að koma að athugasemdum á rannsóknarstigi máls. Markmiðið er þannig að draga úr líkum á ágreiningi og tryggja ríkari samstöðu á meðal persónuverndarstofnana. Er kemur að einstaklingnum sjálfum er reglunum ætlað að skýra nánar hvaða gögn þeim er nauðsynlegt að leggja fram með kvörtun og að tryggja að viðkomandi sé vel upplýstur um gang máls á öllum stigum þess. Er kemur að fyrirtækjum munu nýju reglurnar jafnframt skýra stöðu þeirra og aðkomu að málum þegar yfirvöld rannsaka meint brot þeirra á persónuverndarreglum. Um leið og það er markmið reglugerðarinnar að auka réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja hafa tillögurnar einnig það markmið að hraða úrlausn mála.

Tillagan gengur nú til meðferðar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

 

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum