Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2023 Brussel-vaktin

Strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins

Að þessu sinni er fjallað um:

  • strategískt sjálfræði Evrópusambandsins (ESB) og þróun innri markaðarins
  • samkomulag um löggjafartillögu um mikilvæg hráefni
  • haustspá um stöðu efnahagsmála
  • siðareglur fyrir þróunaraðila gervigreindar
  • endurheimt og varðveislu vistkerfa
  • vöktun skóga
  • flutning á úrgangi milli landa (Basel-reglugerðin)
  • samdrátt í losun metans
  • skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna
  • aukna vernd starfsmanna fyrir efnamengun
  • aðgerðapakka um aukna færni vinnuafls
  • EES/EFTA álit um löggjafartillögur um siglingaöryggi
  • fund fjármála- og efnahagsráðherra með Paolo Gentiloni
  • fund EES-ráðsins

 

Strategískt sjálfræði ESB og þróun innri markaðarins

Strategískt sjálfræði ESB

Á síðustu árum hefur efnahagsstefna ESB og aðildarríkja þess í auknum mæli einkennst af beinum efnahagslegum afskiptum og verndarráðstöfunum sem miða að því  tryggja samkeppnishæfni evrópsks iðnaðar og atvinnustarfsemi á innri markaði ESB, í alþjóðlegu samhengi, og um leið efnahagslegt öryggi ESB. Breytt heimsmynd í kjölfar kórónuveirufaraldursins og árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu og sú aukna spenna í samskiptum ríkja og ríkjabandalaga sem fylgt hefur í kjölfarið, er megin aflvaki þessara breytinga.

Hefur það verið í brennidepli ESB á umliðnum misserum að tryggja aðfangakeðjur hvort sem það er að tryggja bóluefni vegna heimsfaraldurs, tryggja gas í orkukreppu, örgjörva vegna stafvæðingar eða nauðsynleg hráefni til orkuskipta.

ESB hefur í samræmi við framangreint lagt áherslu á að móta sína eigin stefnu á alþjóðavettvangi bæði að því er varðar öryggis- og varnarmál en einnig á sviði efnahagsmála og milliríkjaviðskipta með það að markmiði að vernda samkeppnishæfni innri markaðarins og frelsi og sjálfræði ESB til aðgerða til lengri tíma. Áherslan er þannig á að tryggja efnahagslegt öryggi ESB svo það sé á hverjum tíma nægilega sjálfstætt og óháð öðrum ríkjum til að geta brugðist við með fullnægjandi hætti ef aðstæður breytast.  

Þessar áherslur er jafnan kenndar við strategískt sjálfræði ESB (e.  Strategic Autonomy) eða eftir atvikum opið strategískt sjálfræði ESB (e. EU open Strategic Autonomy) en með hugtakinu er vísað til stefnu og vilja ESB til að vinna með öðrum, ef unnt er, um leið og því er lýst yfir að það muni tryggja sjálfræði sitt og frelsi til athafna ef þörf krefur og ef á reynir. Þessar áherslur hafa verið áréttaðar af leiðtogaráði ESB í Versalayfirlýsingunni, þann 10. og 11. mars 2022, en ef til vill hvað skýrast í  Granadayfirlýsingunni sem gefin var út í framhaldi af fundi ráðsins 6. október sl., sbr. nánari umfjöllun um fund ráðsins og yfirlýsinguna í Vaktinni 13. október sl.

Stefnumótun um strategískt sjálfræði tengist jafnframt áherslu ESB á stafvæðingu, græn umskipti, iðnaðarstefnu ESB og framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans, sbr. m.a. umfjallanir í Vaktinni 10. febrúar sl. um þá áætlun og í Vaktinni 24. mars sl. um framfylgd hennar, sbr. einnig umfjöllun í Vaktinni um 27. janúar sl. um viðbrögð ESB við nýjum stuðningsaðgerðum við grænan iðnað í Bandaríkjunum, eða svonefndri IRA löggjöf Bandaríkjanna (e. US Inflation Reduction Act). IRA-löggjöf BNA og viðbrögð ESB við henni endurspeglar skýrlega þá stöðu að breytt heimsmynd hefur einnig leitt til aukinnar spennu á milli náinna samstarfsaðila eins og ESB og BNA, þ.e. er kemur að efnahags- og samskeppnismálum. Ný efnahagsöryggisáætlun ESB sem fjallað var um í Vaktinni 23. júní sl. endurspeglar þessar áherslur ESB einnig skýrlega.

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram fjölmargar löggjafartillögur til að bregðast við framangreindri stöðu, þ.e. til þess að verja stragetískt fulllveldi ESB, og má þar nefna tillögu að reglugerð um kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net Zero Industry Act) sem hefur það markmið að hraða umtalsvert uppbyggingu tækniiðnaðar á sviði grænnar orku og orkuskipta og tillögu að reglugerð um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) sem ætlað er að tryggja sjálfbærni og öruggt framboð mikilvægra hráefna í iðnaði, sbr. nánari umfjöllun um það mál hér að neðan í Vaktinni. Tillaga að reglugerð um hálfleiðara (e. Chips Act) sem ætlað er að styðja við öruggt framboð og aðgengi að hálfleiðurum (e. Semiconductor) innan ESB, sbr. nánari umfjöllun um það mál í Vaktinni 21. apríl sl., fellur einnig í þennan flokk.

Auk ofangreinds má nefna löggjafartillögur sem hafa þegar verið samþykktar og er ætlað er að vernda innri markaðinn og vinna gegn ósanngjörnum viðskiptaháttum af hálfu þriðju ríkja eins og t.d. reglugerð um erlenda styrki (e. Foreign Subsidies Act), sbr. umfjöllun um það mál í Vaktinni 10. febrúar sl., eða eftir atvikum að jafna samkeppnisskilyrði vegna kostnaðar af reglubyrði innan ESB, vegna umhverfisráðstafana einkum, sem ekki er til staðar utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. t.d. reglugerð um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. Carbon Border Adjustment Mechanism - CBAM), sbr. nánari umfjöllun og greiningu á málinu í Vaktinni 23. júní 2023.

Þverlægar löggjafartillögur

Segja má að innri markaðurinn, afl hans og styrkur, sé helsta verkfærið í framangreindri stefnumótun og aðgerðum ESB til að að tryggja opið strategískt sjálfræði ESB. Birtingarmynd þess er m.a. að löggjafartillögur framkvæmdastjórnarinnar eru nú oft á tíðum mun þverlægari og margbrotnari en áður tíðkaðist og tengjast jafnan utanríkisstefnu ESB sem og málefnum innri markaðarins. Þannig innfela löggjafartillögur á tíðum ákvæði sem tengjast samskiptum, samstarfsverkefnum eða viðskiptum ESB við þriðju ríki eða ákvæði sem snúa að sameiginlegum innkaupum aðildarríkjanna. Auk þess tengjast tillögurnar oftar en ekki auknum fjárframlögum í gegnum ýmis fjármögnunarverkefni og samstarfsáætlanir sem standa ríkjum utan ESB ekki til boða. Þá geta tillögurnar haft áhrif á ýmis samstarfsverkefni við þriðju ríki um þróun og rannsóknir í iðnaði.

Tillögur þessu marki brenndar fela jafnan í sér áskoranir er kemur að upptöku þeirra í EES-samninginn, enda þótt meginefni þeirra kunni að falla skýrlega undir gildissvið EES-samningsins.

EES-samningurinn felur hvorki í sér tollabandalag né sameiginlega viðskiptastefnu EES/EFTA-ríkjanna gagnvart þriðju ríkjum. Samningurinn bindur því ekki hendur EES/EFTA-ríkjanna til að gera viðskiptasamninga við þriðju ríki. Hæfi ESB til að gera samninga við þriðju ríki bindur að sama skapi ekki heldur EES-ríkin. Í sumum tilfellum kann það t.d. að hafa áhrif á samkeppnisstöðu EES/EFTA-ríkjanna að vera flokkuð sem þriðja ríki í löggjöf ESB. Ákvæði gerðanna um milliríkjaviðskipti geta því skapað hættu á því að tveggja þrepa innri markaður verði til þar sem EES/EFTA-ríkin gætu átt það á hættu að vera utanveltu í einhverju tilliti með tilheyrandi afleiðingum fyrir samkeppnishæfni atvinnulífs í löndum þeirra.

Hagsmunamat

Ofangreindar tillögur eru mislangt komnar í löggjafarferli ESB. Sumar hafa verið samþykktar, en bíða ákvörðunar um upptöku í EES-samninginn, en aðrar bíða niðurstöðu í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnarinnar. Meta þarf hagsmuni EES/EFTA-ríkjanna, að virtri samkeppnisstöðu og þróunar á alþjóðavettvangi, af því hvort og þá að hvaða marki eigi að taka gerðirnar upp í EES-samninginn og hvaða áhrif það kunni að hafa ef niðurstaðan verður að taka þær ekki upp í EES-samninginn, eða einungis að hluta með efnislegum aðlögunum.

Á vegum EFTA-skrifstofunnar og af hálfu stjórnvalda í EES/EFTA-ríkjunum er nú unnið að greiningu tillagnanna. Í þessu skyni hafa EES/EFTA-ríkin m.a. komið á framfæri EES/EFTA áliti um tillögu að reglugerð um mikilvæg hráefni. Í álitinu var m.a. lagt til að ál yrði fellt undir lista tillögunnar yfir mikilvæg hráefni. Þann 13. október sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum um málið á milli ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins um afgreiðslu tillögunnar, sbr. nánari umfjöllun um samkomulagið hér að neðan í Vaktinni.

Þá hefur á vettvangi EFTA-skrifstofunnar verið komið á fót þverlægum stýrihópi EES/EFTA-ríkjanna sem mun skoða heildarmyndina, meta áhrif gerðanna og hvaða áhrif þær hafi fyrir EES/EFTA-ríkin og á þróun EES-samstarfsins sem og mögulegar leiðir við upptöku þeirra í EES-samninginn. Fyrsti fundur stýrihópsins fór fram í Brussel þann 7. nóvember sl.

Samkomulag um löggjafartillögu um mikilvæg hráefni

Í mars á þessu ári lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að reglugerð um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) en henni er ætlað að auka framleiðslu og endurvinnslu mikilvægra hráefna innan ESB og þannig auka fjölbreytni í aðfangakeðjum og draga úr áhættu í alþjóðaviðskiptum, sbr. nánari umfjöllun um efni tillögunar í Vaktinni 24. mars sl. þar sem fjallað er um framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans.

Þróun í alþjóðamálum að undanförnu hefur leitt til aukinnar áherslu ESB á eigið sjálfstæði á þessu sviði sem og öðrum (e. Strategic autonomy), sbr. umfjöllun hér að framan í Vaktinni um innri markað EES. 

Þann 13. nóvember síðastliðinn náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni tillögunnar. Framkvæmdastjórn ESB fagnar samkomulaginu en ekki er algengt að samkomulag náist á svo skömmum tíma en einungis átta mánuðir eru liðnir frá því tillagan var lögð fram.

Með samkomulaginu haldast markmið tillögunnar að öllu jöfnu óbreytt en lagðar eru til nokkrar breytingar til að styrkja tillöguna enn frekar. Þannig er m.a. lagt til að áli verði bætt við lista tillögunnar yfir strategísk hráefni og er sú niðurstaða í samræmi við tillögu sem EES/EFTA-ríkin komu á framfæri í EES/EFTA áliti um málið sem send var viðeigandi aðilum innan ESB þann 20. september sl. Í tillögunni eru því nú skilgreind 34 mikilvæg hráefni og 17 strategísk hráefni sem skipta verulegu máli fyrir grænan iðnað, stafrænu umskiptin og m.t.t. varnarmála og geimáætlunar ESB.

Í tillögunni er nú jafnframt lagt til að endurvinnsluviðmið verði hækkuð úr 15% yfir í 25%. Einnig eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra betur leyfisveitingaferli vegna strategískra verkefna. Þá er lagt til að stórfyrirtæki í mikilvægum geirum á borð við rafhlöðuframleiðendur, vetnisframleiðendur, aðilar í endurvinnslugeiranum, gagnaver og flugvélaframleiðendur, þurfi að framkvæma áhættumat m.t.t. aðfangakeðja strategískra hráefna sem þau nota. 

Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Haustspá um stöðu efnahagsmála

Hinn 15. nóvember sl. kom út haustspá framkvæmdastjórnar ESB um stöðu efnahagsmála.

Fram kemur að hagvöxtur í ESB á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2023 hafi verið nánast enginn og spár um hagvöxt fyrir árið allt hafa verið lækkaðar frá síðustu spá, úr 0,8% í 0,6%. Hins vegar er búist við að hagvöxtur aukist næstu tvö ár vegna aukinnar einkaneyslu. Þær væntingar má m.a. rekja til þess að þrátt fyrir lítinn vöxt í hagkerfinu er enn töluverð spenna á vinnumarkaði. Atvinnuleysi í ESB mælist nú 6% og hefur sjaldan verið lægra. Þá er búist við að kaupmáttur fari vaxandi sökum lækkandi verðbólgu en hún er talin hafa verið 2,9% í október sem er það lægsta sem sést hefur síðastliðin tvö ár. Þó lægra orkuverð eigi vissulega sinn þátt í lækkun verðbólgu þá hefur lækkunin þó verið á allbreiðum grundvelli undanfarið.

Talið er að halli á opinberum fjármálum í ESB fari minnkandi og skuldahlutfall lækki vegna minnkandi umfangs stuðningsaðgerða í tengslum við heimsfaraldurinn, samdrátt í stuðningi við niðurgreiðslu orkuverðs og umfangsminni stuðningsaðgerða vegna fjárfestinga einkaaðila. Síðastnefnda ástæðan sem tilgreind er, er áhugaverð þar sem ESB hefur um þessar mundir miklar áhyggjur af samkeppnisstöðu ýmissa atvinnugreina innan ESB gagnvart t.d. Bandaríkjunum og Kína sem beita slíkum stuðningi í miklum mæli nú um stundir til að efla ákveðnar atvinnugreinar. En það hefur ESB og aðildarríki þess einnig gert á undanförnum misserum hvað sem síðar verður.

Helstu áhættuþættir í efnahagsspánni til framtíðar er áframhaldandi árasarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og átök fyrir botni Miðjarðarhafs en átökin þar hafa þó enn sem komið er ekki haft mikil áhrif á olíuverð en það er talið geta breyst. Loks veldur þróun mála í helstu viðskiptaríkjum ESB, einkum í Kína, áhyggjum.

Leiðbeinandi meginreglur og siðareglur fyrir þróunaraðila gervigreindar

Eins og fjallað var um í Vaktinni 9. júní sl. eru tillögur framkvæmdastjórnar ESB að nýrri löggjöf um gervigreind nú til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB og standa nú yfir þríhliða viðræður framangreindra aðila um endanlegt efni tillagnanna, sbr. nánar annars vegar afstöðu þingsins til málsins og hins vegar afstöðu ráðsins. Megin markmið fyrirliggjandi tillagna er að annars vegar að búa þróun gervigreindar framúrskarandi vaxtarumhverfi (e. ecosystem of excellence) og hins vegar að sett verði regluverk um gervigreind er skapi traust á tækninni (e. ecosystem of trust).

Svo sem kunnugt er á sér nú stað umfangsmikil umræða um allan heim um gervigreind og áframhaldandi þróun hennar og hefur sú umræða ótal birtingarmyndir. Sú sem vegur þyngst er þó án efa umræðan um það hvernig unnt sé að tryggja að þróun gervigreindar verði með þeim hætti að hún nýtist með jákvæðum hætti fyrir fólk og samfélög og að hún valdi ekki samfélagslegum skaða. Umræðan er alþjóðleg, eðli málsins samkvæmt, og fer nú fram á vettvangi allra helstu alþjóðastofnana heimsins eins og Sameinuðu þjóðanna, Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), „Global Partnership on Artificial Intelligence (GPAI)“, Evrópuráðsins og svo mætti áfram telja en einnig á vettvangi ríkjabandalaga og að frumkvæði einstakra ríkja.

Þróun gervigreindar hefur meðal annars verið til umræðu vettvangi G7 sem er pólitískur samráðsvettvangur Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japans, Kanada og Þýskalands, auk þess sem ESB á þar sæti. Á leiðtogafundi G7-ríkjanna sem fram fór í Hiroshima í Japan 19. – 21. maí sl. var ákveðið að setja af stað stefnumótunarvinnu (e. Hiroshima Artificial Intelligence Process) til að móta umgjörð um þróun gervigreindar sem geti orðið innlegg í alþjóðlega umræðu um þróun gervigreindar.

Í lok október sl. voru afurðir framangreindrar vinnu kynntar. Er þar annars vegar um að ræða leiðbeinandi meginreglur og hins vegar siðareglur sem æskilegt er talið að þróunaraðilar gervigreindar hafi til hliðsjónar í störfum sínum.

Hinar leiðbeinandi meginreglur (e. Hiroshima Process International Guiding Principles for Organizations Developing Advanced AI system), sem í grunninn eru byggðar á meginreglum OECD (e. OECD AI Principles) um sama efni, er ætlað að vera stuðningur við aðila sem vinna að þróun framsækinna gervigreindarkerfa. Skýrt er tekið fram að meginreglurnar 11 sem tilgreindar eru séu ekki hoggnar í stein heldur geti þær tekið breytingum eftir því umræðan og skilningur á tækninni þróast. Markmið þeirra er að styðja við þann samfélagslega ávinning sem gervigreindartæknin getur haft í för með sér og um leið að draga úr áhættu sem tækninni getur fylgt.

Siðareglur fyrir þróunaraðila gervigreindar (e. Hiroshima Process International Code of Conduct for Organizations Developing Advanced AI Systems), byggjast á framangreindum meginreglum og miða að því m.a. og að efla traust og tiltrú almennings á þróunaraðilum gervigreindarkerfa með mannréttindi og grundvallarfrelsi almennings að leiðarljósi.

Í sérstakri yfirlýsingu sem leiðtogar G7-ríkjanna sendu frá sér við birtingu framangreindra reglna er þeim fagnað.

Það gerði framkvæmdastjórn ESB einnig í fréttatilkynningu sem hún sendi frá sér samhliða birtingu reglnanna og þar er því jafnframt lýst yfir að reglurnar verði hafðar til hliðsjónar við lokafrágang í þríhliða viðræðum á framgangreindum löggjafartillögum um gervigreind.  

Markvert er einnig að sama dag og framangreindar reglur voru kynntar, 30. október sl., gaf forseti Bandaríkjanna út tilskipun um örugga og áreiðanlega þróun og notkun gervigreindar og endurspeglar tilskipunin áherslur úr framangreindri vinnu G7-ríkjanna.

Eins og vikið er að framan á sér nú stað víðtæk alþjóðleg umræða um þróun gervigreindar. Forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak efndi m.a. til alþjóðlegrar ráðstefnu um málefnið, „AI Security Summit“, í London 1. og 2. nóvember sl. Afrakstur þeirrar ráðstefnu var svokölluð Bletchley-yfirlýsing, sem undirrituð var af stórum hópi ríkja heims, m.a. Kína. Þar kemur fram vilji til að stofnað verði til alþjóðlegrar gervigreindarrannsóknarstofnunar. Þá tilkynnti Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, á ráðstefnunni um áform sín um að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu með áherslu á gervigreind og áhrif hennar á vinnumarkað á næsta ári.

Er það til marks um aukinn þunga í málefnum er varða gervigreind á vettvangi ESB að ákveðið var nýverið að setja upp sérstaka skrifstofueiningu innan framkvæmdastjórnarinnar til að halda utan um málefni gervigreindar og stefnumótunar á því sviði.   

Endurheimt og varðveisla vistkerfa

Evrópuþingið, ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB komust hinn 9. nóvember sl. samkomulagi í þríhliða viðræðum um efni nýrra löggjafartillagna um varðveislu búsvæða og endurheimt skemmdra búsvæða í ESB. Allhart hefur verið tekist á um málið á vettvangi ESB og í aðildarríkjunum á umliðnum misserum og stóð það tæpt í atkvæðagreiðslu á Evrópuþinginu þegar greidd voru atkvæði um afstöðu þingsins í júní og júlí sl. Hefur andstaða við málið aðallega sprottið af áhyggjum af áhrifum tillagnanna á hagsmuni og stöðu bænda, sbr. nánari umfjöllun um málið í Vaktinni 21. júlí sl.

Málið gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við samkomulagið. Verði samkomulagið staðfest, svo sem vænta má, verður um að ræða fyrstu almennu náttúruverndarlöggjöf sem sett hefur verið á vettvangi ESB.

Nýja reglugerðin er m.a. hluti af áætlun og markmiðum ESB um aukinn líffræðilegan fjölbreytileika fyrir árið 2030 og mun stuðla að því að ESB nái sértækum markmiðum sem samþykkt voru í Kunming-Montreal árið 2022 á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika (COP15).

Náttúruvernd almennt fellur ekki undir EES-samninginn. Framangreind löggjöf hefur þó snertifleti við ýmis málefnasvið sem felld hafa verið undir samninginn, s.s. loftslagsmál, vatnsvernd o.fl. auk þess sem væntanleg löggjöf er í samræmi við ýmsar áherslur og verkefni á sviði náttúruverndar sem unnið hefur verið að á Íslandi, s.s. framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár o.fl.

Vöktun skóga

Framkvæmdastjórnin lagði í vikunni fram tillögu að nýrri reglugerð um vöktun skóga. Markmið hennar er að auka og samræma upplýsingasöfnun um evrópska skóga og byggja upp alhliða þekkingargagnagrunn sem nýst geti aðildarríkjunum, skógareigendum og skógarstjórnendum til að bæta viðbrögð sín við vaxandi hættum sem steðja að skógum og styrkja viðnámsþol þeirra.

Skógar gegna lykilhlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sem og til að viðhalda og efla líffræðilegan fjölbreytileika. Skógar í Evrópu hafa átt undir högg að sækja af margvíslegum ástæðum, svo sem loftslagsbreytingum og ósjálfbærum athöfnum manna.

Standa vonir til þess að með betri vöktun og þekkingu ástandi skóga verði hagaðilar betur í stakk búnir til að bregðast við ýmsum ógnum sem steðjað geta að skógum svo sem vegna þurrka og skógarelda. Þá er meðal annars talið að með betri vöktun og þekkingaröflun geti skapast aukin tækifæri á sviði kolefnisbindingar með skógrækt (e. carbon farming) um leið vöktunin styður við að farið sé að lögum sambandsins um þau efni.

Tillagan gengur nú til umræðu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Flutningur á úrgangi milli landa

Evrópuþingið, ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB komust hinn 16. nóvember sl. að samkomulagi í þríhliða viðræðum um efni tillagna um breytingu á reglugerð um flutning á úrgangi milli landa. Fjallað var um efni tillagnanna í Vaktinni 26. maí sl.

Reglugerð ESB um flutning á úrgangi milli landa innleiðir í löggjöf ESB ákvæði Basel-samningsins um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa og förgun þeirra. Ísland er aðili að þessum samningi.

Markmiðið með breytingum á reglugerðinni nú er að stuðla að því að ESB-ríkin taki aukna ábyrgð á förgun eigin úrgangs, sem er vandasamt er að meðhöndla, í stað þess að flytja hann til þriðju ríkja og jafnframt að ef slíkt er gert að herða reglur um athugunarskyldu af hálfu aðildarríkjanna áður en til útflutnings kemur.

Í samkomulaginu felst m.a. að gildissvið reglugerðarinnar er útvíkkað þannig að það nái yfir þær lykilskuldbindingar er felast í Græna sáttmálanum hvað kolefnishlutleysi varðar, aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið og aðgerðaáætlun um núllmengun (e. Zero pollution action plan).

Tillagan gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Samkomulag um samdrátt í losun metans

Evrópuþingið, ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB, komust hinn 15. nóvember sl. að samkomulagi í þríhliða viðræðum um efni reglugerðartillögu um samdrátt í losun metans í orkugeiranum. Fjallað var um reglugerðartillögurnar í Vaktinni 13. janúar sl. í tengslum við umfjöllun um orkumál.

Tillagan fellur undir löggjafarpakkann „Fær í 55“ sem miðar að því að samræma loftslags- og orkulöggjöf ESB að markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Metan er mjög öflug gróðurhúsaloftslagstegund og sú lofttegund sem veldur næst mestum gróðurhúsaáhrifum á eftir koldíoxíði, en talið er að rekja megi um 30% af gróðurhúsaáhrifunum til metanlosunar.

Samdráttur í losun metans er því mikilvægur þáttur í því að ná loftslagsmarkmiðum. Markmið reglugerðarinnar er að gera ESB kleift að standa við skuldbindingar sínar um samdrátt í losun metans um 30% fyrir árið 2030 sem ESB setti sér á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2021 (COP 26) (Global Methane Pledge) þar sem yfir 100 ríki, þar á meðal Bandaríkin, skuldbundu sig til að draga úr losun metans. Nú eru um 150 ríki aðilar að þessu samstarfi, m.a. Ísland.

Samkomulagið nú felur m.a. í sér að sett verði ákvæði um sérstaka fresti og tíðni fyrir vöktun, skýrslugjöf og skoðanir á hugsanlegum upptökum metanlosunar. Innan tiltekinna tímafresta (ýmist innan 18, 24, 36 eða 48 mánaða) frá gildistöku reglugerðarinnar verða rekstraraðilar að skila skýrslum til stjórnvalda með upplýsingum um greiningu á magni losunar og um niðurstöður beinna mælinga á metanlosun á upprunastað.

Samkomulag varð um að skipta innleiðingu reglugerðarinnar í þrjá áfanga er kemur að innflutningi á metani. Fyrsti áfanginn snýr að gagnasöfnun og alþjóðlegri vöktun. Annar og þriðji áfanginn varðar ráðstafanir sem snúa að eftirliti, skýrslugjöf og sannprófunum vegna innflutnings á metani. Þá fá aðildarríki ESB heimild til að beita viðurlögum verði þessi ákvæði reglugerðarinnar ekki uppfyllt.

Samkomulagið kveður jafnframt á um að aðildarríkin skuli viðhalda og uppfæra reglulega skrá yfir allar borholur. Færa skal sönnur á að engin metanlosun sé frá holum sem ekki eru í rekstri (varanlega lokaðar/stíflaðar) eða hafa verið yfirgefnar á síðustu 30 árum. Uppfæra skal reglulega og viðhalda upplýsingum um mótvægisaðgerðir, lagfæringar, endurheimt og enduropnum borhola.

Loks felur samkomulagið í sér ákvæði um að kolanámur sem hafa verið lokaðar eða yfirgefnar fyrir minna en 70 árum skuli falla undir ákvæði reglugerðarinnar um vöktun, skýrslugjöf og mótvægisaðgerðir, með tilteknum undanþágum.

Málið gengur nú til formlegar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við fyrirliggjandi samkomulag.

Skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna

Þann 16. nóvember sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB um efni fyrirliggjandi tillögu að reglugerðu um skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, sbr. nánari umfjöllun um tillöguna í Vaktinni 26. maí sl.

Helstu breytingar sem felast í samkomulaginu snúa að því að sníða tillögurnar betur að viðeigandi ákvæðum þjónustutilskipunar ESB og að nýrri reglugerð á sviði rafrænnar þjónustu (e. Digital Services Act – DSA) tók gildi í aðildarríkjum ESB hinn 16. nóvember 2022 sl., sbr. umfjöllun um þá löggjöf í Vaktinni 18. nóvember 2022

Málið gengur nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Samkomulag um tillögur um aukna vernd starfsmanna fyrir efnamengun

Hinn 15. nóvember sl. náðist samkomulag í þríhliðaviðræðum ráðherraráðs ESB, Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB um efni breytingartillagana á tveimur tilskipunum á sviði vinnuverndar sem snúa að viðmiðunarmörkum vegna hættulegra efna á vinnustað.

Tillögurnar eru byggar á stefnumörkun ESB um heilsu og öryggi á vinnustöðum fyrir árin 2021 – 2027 og er afrakstur samstarfs og samráðs við aðila vinnumarkaðarins, vísindamanna og fulltrúa aðildarríkjanna og eru þær álitnar mikilvægt skref í átt að innleiðingu Evrópsku réttindastoðarinnar um öruggt vinnuumhverfi.

Um er að ræða breytingar á tveimur tilskipunum, annars vegar tilskipun um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna krabbameinsvaldandi efna á vinnustað, og hins vegar tilskipun ráðsins um að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna gegn áhættu vegna mengunar frá efnum á vinnustað.

Reglur um viðmiðunarmörk fyrir útsetningu starfsmanna fyrir blýmengun hafa verið í gildi frá árinu 1982. Þekkt er að slík mengun getur haft alvarleg áhrif á æxlunarfæri og fósturþroska hjá barnshafandi einstaklingum, auk þess sem hún getur valdið skemmdum á taugakerfi, nýrum, hjarta og blóði og eru viðmiðunarmörkin nú endurskoðun með hliðsjón af nýjustu þekkingu.

Á vettvangi Evrópusambandsins hafa hingað til ekki verið viðmiðunarmörk í gildi fyrir útsetningu fyrir díosínötum (e. diisocyanates) sem eru efnasambönd sem eru notuð í ýmsum iðnaði. Talið er að yfir fjórar milljónir verkamanna í ESB séu útsettar fyrir þessum efnasamböndum við vinnu sína. Þekkt er að þessi efnasambönd geti valdið astma og öðrum öndunarfærasjúkdómum og er því lagt til að kveðið verði á um viðmiðunarmörk vegna þeirra,

Þess má geta að nýlega var jafnframt samþykkt breyting á tilskipun um varnir gegn útsetningu starfsmanna fyrir asbesti.

Tillögurnar ganga nú til formlegrar afgreiðslu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB í samræmi við samkomulagið.

Aðgerðapakki um aukna færni vinnuafls

Hinn 15. nóvember sl. kynnti framkvæmdastjórn ESB aðgerðapakka sem er ætlað að bæta samkeppnishæfni Evrópu með því að mæta áskorunum sem uppi eru á vinnumarkaði í Evrópu vegna skorts á hæfu vinnuafli á ýmsum sviðum.

Með aðgerðapakkanum er stefnumiðum sem sett voru fram í tengslum við Evrópska færniárið 2023 fylgt eftir, sbr. nánari umfjöllun um Evrópska færniárið í Vaktinni 10. febrúar sl.

Skortur á hæfu vinnuafli hefur verið talinn standa samkeppnishæfni Evrópu fyrir þrifum. Lýðfræðilegar breytingar leiða til þess að sífellt færri eru á vinnumarkaði um leið og þeim fjölgar sem þarfnast stuðnings og umönnunar. Atvinnuleysi hefur verið í sögulegu lágmarki í Evrópu að undanförnu og talsverður skortur er á starfsfólki í ýmsum starfssviðum, á það bæði við um hátæknigreinar og atvinnugreinar þar sem lægri menntunarkröfur eru gerðar og má þar nefna umönnunargeirann. Leitað hefur verið leiða til þess að virkja vinnuafl innan Evrópu með aukinni áherslu og fjárfestingu í sí- og endurmenntun og aukinni þátttöku kvenna og hópa í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði. Ljóst þykir hins vegar að ef mæta á skorti á vinnuafli þarf einnig að leita fanga utan Evrópu og laða að hæfa starfsmenn hvaðanæva að úr heiminum.  Horft er til þess að samvinna um menntun og innflutning vinnuafls frá þriðju ríkjum til Evrópu geti verið sameiginlegur ávinningur beggja landa.

Lögð er fram tillaga að reglugerð um Evrópskan hæfileikabrunn (e. EU Talent Pool) sem felur í sér að settur verði upp nýr vinnumiðlunarvettvangur sem er ætlað að liðka fyrir ráðningum starfsmanna frá ríkjum utan Evrópusambandsins til Evrópu. Núverandi ferli á þessu sviði þykir þungt í vöfum og kostnaðarsamt, einkum fyrir minni fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að þátttaka aðildarríkjanna í verkefninu verði valfrjáls. Í fjölmiðlum hér úti hefur hinum nýja vinnumiðlunarvettvangi verði líkt við stefnumótavettvanginn Tinder, sem einhverjir lesendur Vaktarinnar kunna að kannast við, þar sem áhugasamir atvinnuleitendur og atvinnurekendur geta sett inn upplýsingar um hæfni sína og starfsáhuga annars vegar og um laus störf hins vegar og athugað hvort þeir fái samsvörun.

Í aðgerðapakkanum er leitað leiða og lagðar fram tillögur að aðgerðum til að einfalda og flýta fyrir viðurkenningu á kunnáttu og færni ríkisborgara þriðja lands og samræma það því kerfi sem komið hefur verið á fyrir gagnkvæma viðurkenningu réttinda milli ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Er þessum tillögum ætlað að auðvelda borgurum frá þriðju ríkjum til fá viðurkenningu opinberra aðila á sinni menntun og/eða færni þegar þeir sækja um atvinnu- og búsetuleyfi í löndum ESB til þess að stunda þar vinnu eða frekara nám.

Þá er í aðgerðapakkanum að finna tillögu að tilmælum ráðsins um fjölbreytta námsmöguleika fyrir alla undir yfirskriftinni „Europe on the Move“. Miðar tillagan að því að auka hreyfanleika námsmanna og námsmöguleika á öllum sviðum menntunar og þjálfunar en skiptinám og annað nám fjarri heimahögum er talið fela í sér dýrmæta reynslu fyrir fólk og auka víðsýni og skilning á sameiginlegum gildum ESB.  Þessi tillaga er merkt EES-tæk og varðar m.a. samstarfsáætlunina Erasmus+ á sviði mennta-, æskulýðs- og íþróttamála sem Ísland er aðili að.  

Tillögurnar ganga nú umfjöllunar í ráðherraráði ESB og á Evrópuþinginu.

EES/EFTA álit um löggjafartillögur um siglingaöryggi

Framkvæmdastjórn ESB birti þann 1. júní sl. fimm löggjafartillögur á sviði siglingaöryggis og var fjallað um tillögurnar í Vaktinni 9. júní sl. Löggjafartillögurnar hafa síðan þá verið til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB en reiknað er með að ráðið samþykki afstöðu sína til málsins fyrir komandi þríhliða viðræður á fundi samgönguráðherra ESB 4. desember nk. Samhliða umfjöllun í stofnunum ESB hafa EES/EFTA-ríkin unnið að greiningu og mati á tillögunum með hliðsjón af skuldbindingum og hagsmunum ríkjanna samkvæmt EES-samningnum.

Fjallað hefur verið um tillögurnar á vettvangi vinnuhóps EFTA um samgöngumál og hefur sérstakt álit (EEA EFTA Comment) nú verið sent til stofnana ESB sem hafa tillögurnar til umfjöllunar, þ.e. til Evrópuþingsins, ráðherraherraráðs ESB, framkvæmdastjórnar ESB og fleiri aðila. 

Í álitinu er fjallað um fjórar af fimm framangreindum löggjafartillögum. Enda þótt þar komi almennt fram jákvæð afstaða til efnis tillagnanna þá eru engu að síður gerðar athugasemdir við nokkur atriði, svo sem að verið sé að draga úr sveigjanleika fyrir siglingayfirvöld í ríkjunum til að forgangsraða verkefnum í samræmi við áhættumat hverju sinni. Í því sambandi er varað við því að settar séu strangari reglur fyrir fánaríki EES en almennt gilda samkvæmt samþykktum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Leggja EES/EFTA-ríkin almennt áherslu á að EES-löggjöfin á þessu sviði sé í sem mestu samræmi við samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og að ekki séu gerðar viðbótarkröfur nema að vel athuguðu máli. Í þessu samhengi eru gerðar athugasemdir við tillögu um að lágmarki tveir skipaskoðunarmenn skuli sinna hafnaríkiseftirliti í hverju tilviki. Einnig er gerð athugasemd við þá mælikvarða sem lagt er til að notaðir verði við mat á mengunarhættu frá skipum með þeim rökum að mælikvarðanir séu ekki nægilega þróaðir til þess að byggja slíkt áhættumat á. Loks er gerð athugasemd við kröfu um vottað gæðakerfi fyrir sjóslysarannsóknir.

Álitið var kynnt sérstaklega fyrir fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB á fundi vinnuhóps EFTA um samgöngumál samhliða útgáfu þess.

Fundur fjármála- og efnahagsráðherra með Paolo Gentiloni

Fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, átti fund með Paolo Gentiloni, sem fer með efnahagsmál og fjármál hjá framkvæmdastjórn ESB, 14. nóvember sl.

Á fundinum gerði Gentiloni ráðherra grein fyrir helstu atriðum haustspár framkvæmdastjórnar ESB um stöðu efnahagsmála sem þá var rétt óútkomin, en meginatriði hennar eru rakin hér að framan í Vaktinni.

Meðal annarra umræðuefna voru viðbrögð ESB við stuðningi þriðju ríkja við ákveðnar atvinnugreinar, s.s. stuðning Bandaríkjanna við grænan iðnað fyrir tilstilli nýrra laga þar í landi, svonefndrar IRA-löggjafar (e. US Inflation Reduction Act), sbr. ítarlega umfjöllun um efni þeirra laga í Vaktinni 27. janúar sl. Þá voru hugmyndir ESB um að nýta frystar eignir Rússa til uppbyggingar í Úkraínu einnig ræddar en ljóst er að þar er að ýmsu að huga m.a. út frá lagalegu sjónarhorni auk þess sem ná þarf breiðri samstöðu meðal ríkja heims um aðgerðirnar. Gentiloni sagðist bjartsýnn á að slík samstaða gæti náðst áður en langt um liði. 

Framkvæmd EES-samningsins almennt kom einnig til umræðu og lagði Þórdís Kolbrún áherslu mikilvægi þess að hugað væri að áhrifum gerða á samninginn og á EES/EFTA-ríkin þegar nýjar tilskipanir eða reglugerðir væru í smíðum. Gentiloni þakkaði gott samstarf við rekstur samningsins. Hann sagði framkvæmdastjórnina gjarnan vilja heyra sjónarmið EES/EFTA-ríkjanna og nefndi sérstaklega í því samhengi nýjar reglur um kolefnisjöfnunargjald við landamæri (e. carbon border adjustment mechanism, CBAM) sem þegar hafa tekið gildi að hluta í ESB en koma þó ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2026. Er gerðin nú til skoðunar hjá EES/EFTA-ríkjunum en ákvörðun um hvort og þá hvernig gerðin verði tekin upp í EES-samninginn liggur enn sem komið er ekki fyrir. Sjá nánari umfjöllun um CBAM í Vaktinni 23. júní sl.

Fundur EES-ráðsins

EES-ráðið kom saman til fundar í EFTA-húsinu Brussel 20. nóvember sl. Ráðið er æðsta stofnunin í sameiginlegu stofnanakerfi EES/EFTA-ríkjanna og ESB sem sett var á fót með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ráðið er skipað utanríkisráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein og fulltrúum ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB og hefur það meginhlutverk að vera formlegur pólitískur samráðsvettvangur um rekstur EES-samningsins. Pascual Ignacio Navarro Ríos, aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Spánar, en Spánn fer nú með formennsku í ráðherraráði ESB, stýrði fundinum að þessu sinni ásamt Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, en Liechtenstein fer nú með formennsku í fastanefnd EFTA. Auk þeirra sátu fundinn Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra Íslands, Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Maroš Šefčovič, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB auk Marko Makovec frá utanríkisþjónustu ESB.

Auk almennrar umræðu um stöðu og framkvæmd EES-samningsins voru málefni sem lúta að efnahagslegu öryggi á Evrópska efnahagssvæðinu tekin til sérstakrar umræðu.

Í tengslum við ráðsfundinn átti Bjarni Benediktsson tvíhliða fund með Maroš Šefčovič. Jafnframt áttu utanríkisráðherrar EES/EFTA-ríkjanna fund með ráðgjafanefnd EFTA og þingmannanefnd EFTA. Sjá nánar í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um fundi ráðherra.

Í tilefni fundarins gáfu EES/EFTA-ríkin frá sér yfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á mikilvægi EES-samningsins, ekki hvað síst á þeim óvissutímum sem nú eru þar sem mestu skiptir að tryggja samkeppnishæfni og efnahagslegt öryggi. Þá er í yfirlýsingunni vikið að því að á næsta ári verða 30 ár liðin frá því að EES-samningurinn tók gildi en ráðgert er að minnast þeirra tímamóta með ýmsum hætti á komandi ári.

Fyrir fund ráðsins fóru fram óformlegar pólitískar viðræður milli ráðherranna, og fulltrúa ESB þar sem samstaða með Úkraínu, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og staðan í viðræðum um næsta tímabil Uppbyggingarsjóðs EES voru í brennidepli. Hér má nálgast myndir frá fundinum.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins, í samræmi við samþykkta ritstjórnarstefnu.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum