Hoppa yfir valmynd

Úttektir

Úttektir skipa mikilvægan sess í verklagi þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og þess sem betur mætti fara. Unnið er eftir úttektarstefnu Íslands fyrir 2020-2023 þar sem markmið og framkvæmd úttekta eru skilgreind í samræmi við alþjóðlegt verklag og kröfur OECD/DAC um úttektir. Umsýsla með úttektum á sviði þróunarsamvinnu er á hendi deildar árangurs og eftirlits sem starfar óháð framkvæmd þróunarsamvinnu og heyrir úttektarstarf undir ráðuneytisstjóra.

Miðað er við að úttektir séu unnar af óháðum aðilum í kjölfar útboðs ef þess er kostur, og leitast við að nýta innlenda sérfræðiþekkingu í úttektum á staðbundum verkefnum í samstarfslöndum. Jafnframt skal gæta ráðdeildar við eftirlit til að hámarka nýtingu þróunarsamvinnufjár. Leitast er við að nýta niðurstöður úttekta til að bæta hagkvæmni, skilvirkni, markvirkni og sjálfbærni í öllu starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu, og kynna niðurstöður úttekta fyrir haghöfum, m.a. íslenskum almenningi. Úttektir af hálfu Íslands meta einnig framlag á sviði þverlægra málefna, umhverfisþátta, jafnréttismála og mannréttinda eftir því sem við á.

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og málefnastarfi um eftirlit og úttektir er mikilvægur þáttur í starfi á þessu sviði. Þetta felur m.a. í sér þátttöku í málefnastarfi norræns hóps um eftirlit og úttektir og þátttöku í alþjóðabandalagi um úttektir á COVID-19. Jafnframt er Ísland virkt á vettvangi OECD/DAC og eru úttektir Íslands birtar í gagnabanka DAC. Alþjóðlegt samstarf felur m.a. í sér samstarf við nágrannaríkin hvað varðar eftirlit og úttektir með fjölþjóðlegum stofnunum og þeirra starfi.

Úttektir árið 2020

Miðannarúttekt á byggðaþróunarverkefni í Mangochi héraði í Malaví lauk í júní 2020. Unnið er með héraðsyfirvöldum til að bæta lífsafkomu íbúa til sveita með starfi á sviði heilbrigðis-, mennta-, vatns- og hreinlætis-, og jafnréttismála, auk stuðnings við ungmenni. Merkja má jákvæð heildræn áhrif vegna verkefnisins en mæðradauði hefur dvínað í héraðinu, færri börn hætta nú námi á grunnskólaaldri, og vatnsbornum sjúkdómum hefur verið útrýmt vegna umbóta í vatns- og hreinlætismálum. Með tryggu eignarhaldi heimamanna á verkefni er markvisst stuðlað að sjálfbærni og benda niðurstöður úttektarinnar jafnframt til þess að stjórnun verkefnisins sé vönduð. Með tilliti til tafa sem orðið hafa á framkvæmd er lagt til að verkefnið sé framlengt um eitt ár. Enn fremur er lagt til að utanríkisráðuneytið íhugi lengingu á verkefnaspönn fyrir byggðaþróunarverkefni í tíu ár í stað fjögurra í ljósi þess að unnið er að langtímaumbótum á lífsafkomu fólks innan héraða.

Miðannarrýni þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) lauk í október 2020. Rýninni var ætlað að taka stöðuna á þróunarsamvinnu Íslands með tilliti til niðurstaðna úr jafningjarýni DAC frá 2017. Heildarniðurstöður voru mjög jákvæðar þar sem DAC komst að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði nú þegar komið á móts við 9 af þeim 13 tillögum DAC sem settar voru fram í jafningjarýninni. Sérstaklega var tekið fram að jákvætt væri að Ísland legði áherslu á að vinna á málefnasviðum þar sem landið hefði meira fram að færa umfram önnur gjafaríki og héldi þeirri grundvallaráherslu sinni að styðja við þá fátækustu í veröldinni. Jafnframt hefur Ísland sett fram skuldbindingar um að auka framlög til þróunarsamvinnu á allra næstu árum en auk þess þótti jákvætt að utanríkisráðuneytið hefur bætt í sínar raðir nýju starfsfólki með sérþekkingu á þróunarsamvinnu. Næsta jafningarýni DAC mun fara fram árið 2023. Þar gefst rými fyrir DAC að meta hvernig til hefur tekist með innleiðingu á nýrri stefnu og stefnumiðum í ólíkum málaflokkum, árangursstjórnun og tengingu starfsins við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem nýtt samstarf við aðila atvinnulífsins og samstarfslönd verður tekið út.

COVID-19 faraldurinn hefur haft áhrif á úttektarstarf Íslands, enda er erfitt um vik að sinna vinnu á vettvangi. Úttektaráætlun fyrir árið 2020 var því uppfærð vegna COVID-19 og þremur úttektum frestað til næsta árs. Þær eru lokaúttekt á byggðaþróunarverkefni í Buikwe héraði í Úganda, áhrifamat á fiskiverkefnum Íslands í Sri Lanka 2005-2009, auk úttektar á mannúðar- og neyðaraðstoð Íslands 2010-2020.

Á síðari hluta árs 2020 eru þrjár úttektir á dagskrá ráðuneytisins. Mótandi úttekt á samstarfi við háskólasamfélagið, og úttekt á framkvæmd stefnumiða í samvinnu við frjáls félagasamtök hefur verið hleypt af stokkunum. Lokaúttekt á sameiginlegum sjóði fyrir sjávarútveg  í Mósambík, sem verður framkvæmd í samvinnu við Norðmenn sem fjármögnuðu sjóðinn ásamt Íslandi, er í biðstöðu vegna COVID-19 en verður sett í gang þegar aðstæður leyfa.

Úttektar- og rýniskýrslur

UNFPA – Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna

IDA (International Development Association)

Úttekt MOPAN á Alþjóðabankanum

ESMAP (Energy Sector Management Assistance Program)

PROFISH (The Global Program on Fisheries)

Jafnréttissjóður Alþjóðabankans

Ísland tók árið 2019 þátt í samnorrænni úttekt á Norræna þróunarsjóðnum (Nordic Development Fund). Úttektin gaf sjóðnum góða einkunn en bent var á að meira fjármagn þyrfti til að sjóðurinn hefði burði til að vaxa og dafna. Sjóðurinn starfar jafnframt vel með öðrum fjölþjóðlegum stofnunum en má gjarnan leggja aukna áherslu á vöktun, eftirlit og lærdóm.

Lokaúttekt á svæðaverkefni Íslands á sviði jarðhita í Austur-Afríku (Geothermal Exploration Project/ GOPA) var framkvæmd 2019. Verkefnið náði til þrettán ríkja í Sigdalnum í Austur-Afríku á árunum 2013 til 2018  og fólst einkum í að styðja ríkin við frumjarðhitarannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita væri að finna. Verkefnið náði til Djibútí, Eritreu, Eþíópíu, Kenya, Malaví, Rúanda og Tansaníu. Þá var einnig stutt við annað verkefni, undirbúning að stofnun öndvegisseturs í jarðhitamálum fyrir Afríku í Kenya og tæknileg aðstoð var veitt til Afríkusambandsins. Samkvæmt úttektinni leiddi verkefnið með skýrum hætti til framfara viðtökuríkjanna á sviði jarðhitaþróunar og getu þeirra til að taka ákvörðun um næstu skref. Ábending er sett fram um að þörf sé á frekari stuðningi í jarðhitamálum á þessu svæði og birtar fjölmargar ábendingar um með hvaða hætti sá stuðningur geti verið.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira