Hoppa yfir valmynd

Úttektir

Úttektir skipa mikilvægan sess í verklagi þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og þess sem betur mætti fara. Unnið er eftir úttektarstefnu Íslands fyrir 2020-2023 þar sem markmið og framkvæmd úttekta eru skilgreind í samræmi við alþjóðlegt verklag og kröfur OECD/DAC um úttektir. Umsýsla með úttektum á sviði þróunarsamvinnu er á hendi deildar árangurs og eftirlits sem starfar óháð framkvæmd þróunarsamvinnu og heyrir úttektarstarf undir ráðuneytisstjóra.

Miðað er við að úttektir séu unnar af óháðum aðilum í kjölfar útboðs ef þess er kostur, og leitast við að nýta innlenda sérfræðiþekkingu í úttektum á staðbundum verkefnum í samstarfslöndum. Jafnframt skal gæta ráðdeildar við eftirlit til að hámarka nýtingu þróunarsamvinnufjár. Leitast er við að nýta niðurstöður úttekta til að bæta hagkvæmni, skilvirkni, markvirkni og sjálfbærni í öllu starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu, og kynna niðurstöður úttekta fyrir haghöfum, m.a. íslenskum almenningi. Úttektir af hálfu Íslands meta einnig framlag á sviði þverlægra málefna, umhverfisþátta, jafnréttismála og mannréttinda eftir því sem við á.

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og málefnastarfi um eftirlit og úttektir er mikilvægur þáttur í starfi á þessu sviði. Þetta felur m.a. í sér þátttöku í málefnastarfi norræns hóps um eftirlit og úttektir og þátttöku í alþjóðabandalagi um úttektir á COVID-19. Jafnframt er Ísland virkt á vettvangi OECD/DAC og eru úttektir Íslands birtar í gagnabanka DAC. Alþjóðlegt samstarf felur m.a. í sér samstarf við nágrannaríkin hvað varðar eftirlit og úttektir með fjölþjóðlegum stofnunum og þeirra starfi.

Úttektir árið 2021

Eftirfarandi úttektarstarf er unnið árið 2021 á vegum utanríkisráðuneytisins, auk þess sem samantekt um stuðning Íslands vegna COVID-19 faraldursins 2020-2021 verður sett fram við lok ársins.

Úttekt á stefnumiðum fyrir samstarf við frjáls félagasamtök og rammasamning við Rauða kross Íslands (RKÍ) vegna mannúðaraðstoðar lauk í febrúar 2021. Úttektin var unnin af óháðum, erlendum aðilum en samantekt um niðurstöður var gefin út á íslensku. Samstarf við frjáls félagasamtök hefur verið mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnu Íslands um langt árabil. Alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofa (AÞS) utanríkisráðuneytisins (UTN) ber ábyrgð á umsýslu með styrkjum og samstarfi við frjáls félagasamtök. Frá árinu 2015 hafa framlög numið tæplega 1,9 milljörðum króna og 18 íslensk frjáls félagasamtök hafa notið stuðnings til verkefna í 32 löndum. Hartnær 100 verkefni hafa verið fjármögnuð, auk 19 mannúðar­verkefna í gegnum rammasamning við RKÍ. Niðurstöður sýna fram á að margt er vel gert, en að tækifæri eru til staðar til umbóta í starfi. Ramma­samningur utanríkisráðuneytisins við RKÍ fyrir mannúðaraðstoð hefur gefist vel og ástæða til að skoða frekari nýtingu ramma­samninga í samstarfi UTN við frjáls félagasamtök, bæði í mannúðar­aðstoð og í þróunar­­samvinnu. Gerðar eru tillögur um skýrari stefnumið og samráði um mótun þeirra, einföldun á vinnuferlum, samvinnu og samtali milli aðila á breiðari grunni, auk aukinnar samhæfingar og samfellu í starfi.

Í framhaldi af úttektinni var áreiðanleikakönnun á þeim frjálsu félagasamtökum sem lýstu yfir áhuga á að gera rammasamning við ráðuneytið, hleypt af stokkunum um mitt ár í kjölfar örútboðs. Niðurstöður munu liggja fyrir í byrjun október 2021.

Innri rýni á þátttöku Íslands í Ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna 2005-2015 sem lauk í maí 2021 var ætlað að afla lærdóms til að nýta fyrir þátttöku Íslands á nýjan leik. Leitast var við að varpa ljósi á og draga lærdóm af þeim árangri sem hlaust af stuðningi Íslands, virðisauka þátttöku fyrir íslenska ungliða sem og stofnanir Sþ. Einnig var unnin samantekt úr rýninni.

Tíu ungir sérfræðingar voru á sínum tíma ráðnir til starfa hjá þremur stofnunum SÞ. Tveir fyrrum ungliðar starfa enn innan kerfis SÞ, tveir starfa hjá utanríkisráðuneytinu og þrír innan akademíu með áherslu á alþjóðleg málefni. Loks starfa þrír fyrrverandi ungliðar að alþjóðlegum verkefnum fyrir frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu.

Niðurstöður benda til að þátttaka Íslands í Ungliðaáætlun Sþ hafi skilað margvíslegum árangri og það vekur athygli að allir þessir fyrrum ungliðar starfa enn á vettvangi alþjóðamála og þróunarsamvinnu. Meginniðurstöður rýninnar eru þær að þátttaka í Ungliðaáætlun Sþ sé fýsilegur kostur fyrir Ísland, svo fremi sem fjármagn sé til staðar og þátttakan fari ekki umfram skynsamleg mörk, að verkefnið byggi á heildrænni sýn á uppbyggingu mannauðs innan alþjóða- og þróunarsamvinnu, og að vinnulag og útfærsla verkefnisins sé með faglegum hætti. 11 tillögur eru settar fram í rýninni og er þar lögð áhersla á að hámarka þann ábata sem af hlýst vegna þátttöku í verkefninu og mikilvægi þess að utanríkisráðuneytið skapi vandaða og faglega umgjörð um starfið. Það felur m.a. í sér að ráðuneytið setji sér skýr markmið og leitist við að læra af þátttöku nágrannalandanna í ungliðaáætluninni, auk þess að meta árangurinn af þátttöku þegar fram líða stundir.

Skyndiskoðuninni er ætlað að leggja mat á samstarfssamning milli utanríkisráðuneytisins og Landsbjargar um rekstur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á íslenskri alþjóðabjörgunarsveit (ICE-SAR), þátttöku í Alþjóðasamtökum björgunarsveita (INSARAG) og viðbragðstreymi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Disaster Assessment and Coordination, UNDAC). Samningnum, sem rann sitt skeið á enda um mitt ár 2021, var ætlað að efla samstarf við Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, bæði hvað varðar samstarf vegna INSARAG sem eru alþjóðasamtök rústabjörgunarsveita sem Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er stofnaðili að og UNDAC, sem er viðbragðsteymi sérfræðinga vegna neyðarástands á vegum skrifstofu Sþ fyrir samræmingu neyðaraðstoðar (OCHA). Einnig var samningnum ætlað að styrkja aðkomu ráðuneytisins að alþjóðlegu samstarfi Landsbjargar.

Ætlunin er að skyndiskoðun geti veitt innlegg fyrir mótun nýs samstarfssamnings milli utanríkisráðuneytisins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, auk þess að draga fram möguleika og annmarka á samstarfi og fyrirkomulagi því sem nú er til staðar. Miðað er við að ljúka skoðuninni fyrir lok ágúst 2021.

Á fimm ára tímabili, frá 2016 til 2020 nam sá kostnaður sem viðkom kvótaflóttafólki og umsækjendum um vernd sem talinn var til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu rúmlega sjö milljörðum íslenskra króna. Framkvæmd verkefna er á höndum ólíkra ráðuneyta og stofnana og hefur á undanförnum árum farið fram umfangsmikið starf til að bæta vinnulag og verkferla sem varða framtal þessa kostnaðar til þróunarsamvinnu.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði til á fyrri hluta árs 2021 að óháð úttekt á þróunarsamvinnukostnaði og tengdri þjónustu sem varðar kvótaflóttafólk og umsækjendur um vernd yrði framkvæmd í samvinnu við þau ráðuneyti og stofnanir sem bera ábyrgð á framkvæmd. Samráðshópur um úttektina sem samanstendur af fulltrúum frá þeim ráðuneytum og stofnunum sem að úttektinni koma hefur hafið störf. Miðað er að því að ljúka úttektinni í lok október 2021.

Verkefni Íslands hafa miðað að margháttuðum stuðningi við 28 barnaskóla og fjóra grunnskóla, og að veita fulla vatns- og hreinlætisþjónustu í 14 þorpum við Viktoríuvatn, sem þjónusta rúmlega 20.000 manns. Úttektin snýr að fullu mati á öllum þáttum framkvæmdar og mun nýtast fyrir áframhaldandi starf Íslands í héraðinu. Úttektin hefur frestast vegna COVID-19 faraldursins og erfiðra aðstæðna á vettvangi, en miðað er við að úttektinni ljúki á fyrri hluta árs 2022.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands sameinaðist utanríkisráðueytinu (UTN) í byrjun árs 2016 og tók þá þróunarsamvinnuskrifstofa UTN við tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands. Þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC) hefur ítrekað mikilvægi þess að Ísland meti árangur af sameiningunni. Úttekt hófst um mitt ár, en útfærsla hennar byggir m.a. á reynslu annara framlagslanda. Úttektin skiptist í þrjár megináherslur:

  1. Skilvirkni og árangur þróunarsamvinnu
  2. Skipulag og áætlanir
  3. Mannauður og starfsmannahald

Tveir fyrrnefndu hlutarnir byggja á þeim markmiðum/viðmiðum sem sett voru með sameiningu, tilmælum stjórnarráðsins um sameiningu stofnana, og tölulegum viðmiðum fyrir skilvirkni þróunarsamvinnu. Þessi hluti úttektarinnar er unninn innan ráðuneytisins og byggir að miklu leyti á greiningu tölulegra gagna og annarra raungagna. M.a. er byggt á alþjóðlegum stöðlum um heilindi (e. integrity) og skilvirkni þróunarsamvinnu.

Þriðji þátturinn viðkemur mannauðstengdum þáttum og starfsmannahaldi, en einnig verða viðhorf starfsfólks til ólíkra þátta sem viðkoma sameiningunni, könnuð. Óháður, utanaðkomandi matsaðili framkvæmir þann hluta úttektarinnar. Miðað er við að öllum verkhlutum verði lokið í byrjun nóvember 2021.

Fyrir alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands geta margvísleg tækifæri falist í auknu samstarfi við fræðasamfélagið. Þar má nefna þekkingarmótun og -miðlun, nýsköpun, þjálfun, kynning og vitundarvakning, auk þess að hámarka samlegð af starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu. Íslenskt fræðasamfélag býr að ríkri sérþekkingu sem getur nýst til að vinna að heimsmarkmiðum SÞ og þróunarmarkmiðum Íslands, auk þess sem mikilvægt er að huga að því að veita ungu fræðafólki tækifæri til rannsókna og starfa á sviðum sem beint tengjast þróunarsamvinnu. Brýnt er að slíkt samstarf sé vel skilgreint, bæði hvað varðar markmið og þær leiðir sem Ísland hyggst nýta til loka gildistíma núverandi þróunarsamvinnustefnu.

Úttektinni er ætlað að kortleggja aðkomu fræða- og háskólasamfélagsins að þróunarsamvinnu, bæði á Íslandi og nágrannalöndum með það að markmiði að skilgreina bestu starfshætti og leiðir fyrir ráðuneytið til að starfa með og hvetja til aukinnar þátttöku fræða- og háskólasamfélagsins í þróunarsamvinnu,  og auka þannig virði þess framlags sem Ísland leggur af mörkum til að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð.

Mótandi úttekt felur í sér skoðun og lærdóm frá þeim verkefnum sem hafa verið í gangi ásamt kortlagningu á þeim möguleikum sem til staðar eru, m.a. með tilvísun í bestu starfshætti og þess sem vel hefur gengið í nágrannalöndum. Úttektin hófst seinni hluta árs 2020 og er miðað við að henni ljúki fyrir árskok 2021.

Ísland tekur þátt í samráðshópum fyrir úttektir á fjölþjóðlegum verkefnum sem Ísland styður. Tveimur slíkum úttektum lýkur síðari hluta árs 2021. Annars vegar er um að ræða miðannarúttekt á verkefni UN Women um konur, frið og öryggi í Mósambík og hins vegar sameiginlega úttekt Mannfjöldasjóðs Sþ (UNFPA) og Barnahjálp Sþ (UNICEF) á fjölþjóðlegu verkefni um afnám kynfæralimlestinga kvenna og stúlkna 2018-2021.

Úttektir árið 2020

Miðannarúttekt á byggðaþróunarverkefni í Mangochi héraði í Malaví lauk í júní 2020. Unnið er með héraðsyfirvöldum til að bæta lífsafkomu íbúa til sveita með starfi á sviði heilbrigðis-, mennta-, vatns- og hreinlætis-, og jafnréttismála, auk stuðnings við ungmenni. Merkja má jákvæð heildræn áhrif vegna verkefnisins en mæðradauði hefur dvínað í héraðinu, færri börn hætta nú námi á grunnskólaaldri, og vatnsbornum sjúkdómum hefur verið útrýmt vegna umbóta í vatns- og hreinlætismálum. Með tryggu eignarhaldi heimamanna á verkefni er markvisst stuðlað að sjálfbærni og benda niðurstöður úttektarinnar jafnframt til þess að stjórnun verkefnisins sé vönduð. Með tilliti til tafa sem orðið hafa á framkvæmd er lagt til að verkefnið sé framlengt um eitt ár. Enn fremur er lagt til að utanríkisráðuneytið íhugi lengingu á verkefnaspönn fyrir byggðaþróunarverkefni í tíu ár í stað fjögurra í ljósi þess að unnið er að langtímaumbótum á lífsafkomu fólks innan héraða.

Miðannarrýni þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) lauk í október 2020. Rýninni var ætlað að taka stöðuna á þróunarsamvinnu Íslands með tilliti til niðurstaðna úr jafningjarýni DAC frá 2017. Heildarniðurstöður voru mjög jákvæðar þar sem DAC komst að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði nú þegar komið á móts við 9 af þeim 13 tillögum DAC sem settar voru fram í jafningjarýninni. Sérstaklega var tekið fram að jákvætt væri að Ísland legði áherslu á að vinna á málefnasviðum þar sem landið hefði meira fram að færa umfram önnur gjafaríki og héldi þeirri grundvallaráherslu sinni að styðja við þá fátækustu í veröldinni. Jafnframt hefur Ísland sett fram skuldbindingar um að auka framlög til þróunarsamvinnu á allra næstu árum en auk þess þótti jákvætt að utanríkisráðuneytið hefur bætt í sínar raðir nýju starfsfólki með sérþekkingu á þróunarsamvinnu.

Næsta jafningarýni DAC mun fara fram árið 2023. Þar gefst rými fyrir DAC að meta hvernig til hefur tekist með innleiðingu á nýrri stefnu og stefnumiðum í ólíkum málaflokkum, árangursstjórnun og tengingu starfsins við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auk þess sem nýtt samstarf við aðila atvinnulífsins og samstarfslönd verður tekið út.

Úttektar- og rýniskýrslur

UNFPA – Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna

IDA (International Development Association)

Úttekt MOPAN á Alþjóðabankanum

ESMAP (Energy Sector Management Assistance Program)

PROFISH (The Global Program on Fisheries)

Jafnréttissjóður Alþjóðabankans

Ísland tók árið 2019 þátt í samnorrænni úttekt á Norræna þróunarsjóðnum (Nordic Development Fund). Úttektin gaf sjóðnum góða einkunn en bent var á að meira fjármagn þyrfti til að sjóðurinn hefði burði til að vaxa og dafna. Sjóðurinn starfar jafnframt vel með öðrum fjölþjóðlegum stofnunum en má gjarnan leggja aukna áherslu á vöktun, eftirlit og lærdóm.

Árið 2019 létust 18 nýburar fyrir hverjar 1.000 fæðingar í veröldinni. Dreifingin er ójöfn þar sem nýburadauði var hæstur í suðurhluta Afríku, þar sem hann fór allt upp í 28 dauða af hverjum 1.000 fæðingum. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að lækka nýburadauða í 12 dauðsföll af hverjum 1.000 fæðingum fyrir árið 2030 hið minnsta. Rannsóknir hafa sýnt fram á þörfina til að grípa inn í til að bæta vinnulag og árangur við að lækka nýburadauða. Í Malaví lækkaði nýburadauði frá 41 árið 2000 í 23 árið 2016, en ljóst er að það þarf að hraða umbótum. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa langtímaáhrifum og árangri af umbótum á nýburaþjónustu á héraðssjúkrahúsinu í Mangochi héraði í Malaví sem Ísland hefur stutt í gegnum sína þróunarsamvinnu. Ingunn Haraldsdóttir, Bob Milanzi Faque, Þórður Þorkelsson og Geir Gunnlaugsson birtu niðurstöður rannsóknar sinnar í fræðaritinu Journal of Global Health Reports.

Lokaúttekt á svæðaverkefni Íslands á sviði jarðhita í Austur-Afríku (Geothermal Exploration Project/ GOPA) var framkvæmd 2019. Verkefnið náði til þrettán ríkja í Sigdalnum í Austur-Afríku á árunum 2013 til 2018  og fólst einkum í að styðja ríkin við frumjarðhitarannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita væri að finna. Verkefnið náði til Djibútí, Eritreu, Eþíópíu, Kenya, Malaví, Rúanda og Tansaníu. Þá var einnig stutt við annað verkefni, undirbúning að stofnun öndvegisseturs í jarðhitamálum fyrir Afríku í Kenya og tæknileg aðstoð var veitt til Afríkusambandsins. Samkvæmt úttektinni leiddi verkefnið með skýrum hætti til framfara viðtökuríkjanna á sviði jarðhitaþróunar og getu þeirra til að taka ákvörðun um næstu skref. Ábending er sett fram um að þörf sé á frekari stuðningi í jarðhitamálum á þessu svæði og birtar fjölmargar ábendingar um með hvaða hætti sá stuðningur geti verið.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira