Hoppa yfir valmynd

Úttektir

Úttektir skipa mikilvægan sess í verklagi þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna og þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og þess sem betur mætti fara. Unnið er eftir úttektarstefnu Íslands fyrir 2024-2028 þar sem markmið og framkvæmd úttekta eru skilgreind í samræmi við alþjóðlegt verklag og kröfur OECD/DAC um úttektir. Umsýsla með úttektum á sviði þróunarsamvinnu er á hendi skrifstofu innri málefna sem starfar óháð framkvæmd þróunarsamvinnu og heyrir undir ráðuneytisstjóra.

Miðað er við að úttektir séu unnar af óháðum aðilum í kjölfar útboðs ef þess er kostur, og leitast við að nýta innlenda sérfræðiþekkingu í úttektum á staðbundum verkefnum í samstarfslöndum. Jafnframt skal gæta ráðdeildar við eftirlit til að hámarka nýtingu þróunarsamvinnufjár. Leitast er við að nýta niðurstöður úttekta til að bæta hagkvæmni, skilvirkni, markvirkni og sjálfbærni í öllu starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu, og kynna niðurstöður úttekta fyrir haghöfum, m.a. íslenskum almenningi. Úttektir af hálfu Íslands meta einnig framlag á sviði þverlægra málefna, umhverfisþátta, jafnréttismála og mannréttinda eftir því sem við á.

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og málefnastarfi um eftirlit og úttektir er mikilvægur þáttur í starfi á þessu sviði. Þetta felur m.a. í sér þátttöku í málefnastarfi norræns hóps um eftirlit og úttektir og þátttöku í alþjóðabandalagi um úttektir á COVID-19. Jafnframt er Ísland virkt á vettvangi OECD/DAC og eru úttektir Íslands birtar í gagnabanka DAC. Alþjóðlegt samstarf felur m.a. í sér samstarf við nágrannaríkin hvað varðar eftirlit og úttektir með fjölþjóðlegum stofnunum og þeirra starfi.

Úttektir árið 2024

Eftirfarandi úttektarstarf verður unnið árið 2023 á vegum utanríkisráðuneytisins. Listinn er þó ekki tæmandi, enda eru forkannanir framkvæmdar áður en ákvörðun er tekin um framkvæmd úttekta. Nokkrar úttektir hófust á fyrra ári og mun þeim ljúka á fyrstu mánuðum ársins.

Úttektin er fyrir verkefni sem felur í sér valdeflingu ungmenna í Kampala (The Urban Youth Empowerment Project, YEP) og var hún gerð við lok annars verkefnafasa. Úttektin var framkvæmd af óháðum úttektaraðilum og lauk í mars 2024. Framkvæmd verkefnisins á höndum félagasamtaka sem nefnast Uganda Youth Development Link (UYDEL) og Lúterska heimssambandsins (Lutheran World Foundation), í samvinnu við Hjálparstarf kirkjunnar. Verkefnið miðar að því að minnka atvinnuleysi og tengda fátækt í fátækrahverfum höfuðborgarinnar Kampala. 

Niðurstöður þessarar lokaúttektar eru jákvæðar, verkefnið fellur vel að hlutverki samstarfsaðila og mætir sárri þörf í kefjandi verkefnaaðstæðum. Þrátt fyrir áskoranir í starfi, m.a. þær sem tengdust COVID-19 faraldrinum, þá náði verkefnið settum markmiðum innan tímarammans. Er þar meðtalin aukin samfélagsvitund, nýliðun meðal ungmenna, starfsþjálfun þeirra og tímanleg námslok. 66% þátttakenda fengu störf í kjölfar þjálfunar, en þó eru hindranir til staðar sem enn má vinna að því að yfirstíga. Verulegur árangur hefur náðst hvað varðar að auka aðgengi ungmennanna að kynfræðslu og getnaðarvörnum, en úttektin sýnir fram á minnkaða áhættuhegðun meðal 82% þátttakenda og að 92% þátttakenda hafa nú grunnþekkingu á sviði kynheilbrigðis.

Hlutaðeigandi aðilar í framkvæmd verkefnis eru hvattir til að leita utanaðkomandi fjármögnunar til að tryggja sjálfbærni verkefnisins en í úttektinni eru 18 tillögur settar fram. Þeim má skipta í tillögur sem varða (1) þjálfun og endurgjöf, (2) atvinnu og lífsskilyrði, (3) valdeflingu ungmenna, (4) kynjasamþættingu og varnir gegn misnotkun, auk (5) tillagna sem varða stjórnsýslu verkefnisins.

Hjálparstarf kirkjunnar - verkefni um valdeflingu ungmenna í Kampala, Úganda

 

Úttektin er miðannarúttekt á verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar um stuðning við barnafjölskyldur og heimili þeirra sem búa við sárafátækt vegna HIV/alnæmis í Rakai og Lyantonde í Úganda. Úttektin var framkvæmd af óháðum úttektaraðilum og lauk í mars 2024. Framkvæmdaraðilar verkefnis eru félagasamtökin Rural Action Community-Based Organisation (RACOBAO).

Niðurstöður úttektar sýna að verkefnið náði þeim afurðum sem stefnt var að á tímabilinu, og tryggði aðgengi m.a. að heilsugæslu, menntun, húsnæði og moskítónetum, ræktun grænmetis í görðum, geitum, vatnstönkum, samvinnufélögum til atvinnusköpunar og sálfræðilegum stuðningi. Staða heimilanna sem verkefnið náði til hefur batnað innan samfélaga og merki eru um að efnahagsleg valdefling sé að skila sér. Áhersla á kynjajafnrétti er augljós og hefur verið innleidd í verkefni. Áhrif COVID-19 faraldursins á verkefnaframkvæmd voru hamlandi hvað varðar byggingarhraða, aukin útgjöld og ferðatakmarkanir. Verkefnið hefur verið aðlagað til að koma á móts við umhverfistengdar áskoranir þó þar sé rými til að gera enn betur. Áframhaldandi áskoranir verða í verkefninu þar sem enn þarf að hlúa að þeim heimilum sem þegar hafa notið stuðnings, auk þess að styðja við ný heimili á verkefnatímanum. 14 tillögur eru lagðar fram í úttektinni sem m.a. fela í sér aðlögun innan verkefnis til að mæta efnahagslegum og umhverfislegum áskorunum.

Miðannarúttekt á verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar um stuðning við barnafjölskyldur sem búa við sárafátækt vegna HIV/alnæmis í Rakai og Lyantonde í Úganda.

 
Sem hluti af svæðaverkefni í Vestur-Afríku, hóf Ísland samstarf við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) frá febrúar 2019. Verkefnin snúa að bættu aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu til að bæta velferð og lífsgæði barna og fjölskyldna þeirra. Verkefnið beinist að samfélögum við sjávarsíðuna og er framkvæmt í nánu samstarfi við stjórnvöld í Síerra Leóne og sjávarútvegsráðuneytið þar í landi. Verkefnin hófust í byrjun febrúar 2019 og lýkur í lok árs 2022. Úttektin metur árangur verkefna með það fyrir augum að nýta lærdóm til áframhaldandi starfs. Umsýsla úttektar er sameiginlega á hendi UNICEF og utanríkisráðuneytisins. Úttekt er framkvæmd af óháðum aðilum og lýkur henni í byrjun árs 2024. 
Úttekt hófst seinni hluta árs 2023. Hún var ekki á árlegri úttektaáætlun utanríkisráðuneytisins en talið var hagkvæmt að framkvæma hana í tengslum við úttektir á verkefnum annarra frjálsra félagasamtaka sem starfa í Kenía. Ráðuneytið studdi verkefni Haven Rescue Home með nýliðastyrk sem nam 4 milljónum króna árið 2021. Vettvangsvinna vegna úttektar fór fram í október 2023 og mun úttekt ljúka fyrri hluta árs 2024.
Úttekt hófst seinni hluta árs 2023 í samræmi við árlega úttektaáætlun utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið hefur stutt verkefni Broskalla síðan 2019, og starfa samtökin í Kenía. Ráðuneytið hefur ekki gert úttekt á verkefnum samtakanna áður. Vettvangsvinna vegna úttektar fór fram í október 2023 og mun úttekt ljúka fyrri hluta árs 2024.
Úttekt hófst seinni hluta árs 2023 í samræmi við árlega úttektaáætlun utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið hefur stutt verkefni SÍK um langt árabil (um 100 milljónir króna), en þó með hléum, en verkefnin hafa verið fjölbreytileg í gegnum tíðina. Ráðuneytið hefur ekki gert úttekt á verkefnum SÍK á undanförnum árum. Vettvangsvinna vegna úttektar fór fram í október 2023 og mun úttekt ljúka fyrri hluta árs 2024.
Úttekt hófst seinni hluta árs 2023 í samræmi við árlega úttektaáætlun utanríkisráðuneytisins og lýkur fyrri hluta árs 2024. Úttektin er svokölluð innri úttekt þar sem framkvæmd er í höndum teymis innan ráðuneytisins. Héraðsverkefni Íslands í Namayingo héraði hófst árið 2021 og lauk og er úttekt hluti af stöðluðu verklagi í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands.

Skólar GRÓ eru ein af meginstoðum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Síðasta þróunarsamvinnuúttekt á starfi skóla GRÓ var framkvæmd seinni hluta árs 2017 og er úttekt á árlegri úttektaáætlun ráðuneytisins. Óháðir ráðgjafar voru fengnir til að framkvæma úttekt í kjölfar opins útboðs og ráðgjafasamningur gerður í lok árs 2023. Úttektinni lýkur í september 2024.

Úttektin metur m.a. þróunaráhrif af starfi skólanna en einnig hvernig tókst til með breytingar á stofnanafyrirkomulagi með stofnun GRÓ og tilfærslu skólanna undan hatti UNU til UNESCO í byrjun árs 2020.

 
Danir eru í forsvari fyrir samnorræna úttekt á þátttöku Norðurlandanna í fjárumsýslusjóðum (e. Trust Funds), sem Ísland tekur þátt í. Þeir sjóðir sem Ísland hefur tekið þátt í eru innan Alþjóðabankans og stofnana Sameinuðu þjóðanna. Markmið úttektar er m.a. að draga lærdóm af því hvernig Norðurlöndin geta sem best náð sameiginlegum slagkrafti með sínu starfi á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Opnu útboði vegna úttektar lauk 2023 og eru áætluð verklok að hausti 2024.
Rammasamningar við fjögur frjáls félagasamtök gengu í gildi í byrjun árs 2022 og renna þau skeið sitt á enda í árslok 2024. Mikilvægt er að meta hvernig til hefur tekist með breytt samstarfsform, s.s. hvað varðar umsýslu, skilvirkni og sóknarfæri. Úttektir á verkefnum þeirra frjálsu félagasamtaka sem falla undir rammasamninga, sem farið hafa fram 2023-2024 nýtast sem innlegg í þetta innra mat. Miðað er að því að mat liggi fyrir, fyrir árslok 2024.
Utanríkisráðuneytið hefur stutt verkefni ABC um langt árabil, en þó með hléum. Verkefni sem UTN hefur stutt eru í Úganda, Pakistan og í Búrkína Fasó. Ekki hefur verið gerð úttekt á verkefnum samtakanna áður.

Úttektir árið 2023

Eftirfarandi úttektarstarf var unnið árið 2023 á vegum utanríkisráðuneytisins.

Innri rýni var framkvæmd á fyrirkomulagi samstarfs utanríkisráðuneytisins (UTN) við landsnefndir Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), sem og samstarf við Félag Sameinuðu þjóðanna (SÞ) á Íslandi. 

Rýninni lauk í febrúar 2023 og var í henni lagt mat á fyrirkomulag og umgjörð samstarfs milli UTN og aðilanna þriggja á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Umgjörð samstarfs hefur tekið breytingum á undanförnum árum þar sem horfið hefur verið frá rammasamningum við landsnefndirnar tvær. Rammasamningi við Félag SÞ var haldið áfram og veittur var styrkur fyrir rekstur Miðstöðvar SÞ fram til ársins 2021, auk þess sem aðilarnir þrír gátu sótt um styrki til kynningar- og fræðslustarfs úr samkeppnissjóði ráðuneytisins.

Gildi samstarfsins hefur sannað sig á undanförnum árum, ekki síst þegar litið er til þeirra tveggja meginþátta sem eru virðisaukandi fyrir alþjóðlega þróunarsamvinnu sem málaflokk, sem utanríkisráðuneytið er ábyrgt fyrir. Annars vegar er vitundarvakning, fræðsla og kynning meðal almennings um þróunarsamvinnu og stöðu fólks í þróunarríkjum. Hins vegar er það að virkja íslenskan almenning til að leggja sitt af mörkum til að bæta stöðu fólks í þróunarlöndum, en landsnefndirnar tvær safna umtalsverðum upphæðum frá almenningi á ári hverju sem renna til þróunarsamvinnustarfs viðkomandi stofnana SÞ. Hvað þetta varðar má segja að árangur landsnefndanna hefur verið ótvíræður á undanförnum árum en þær eru hvor um sig „heimsmeistarar“ landsnefnda og önnur ríki telja þær sýna gott fordæmi. Þá ber að líta til þess að allir þrír aðilarnir hafa verið samstarfsaðilar utanríkisráðuneytisins lengi og samstarfið hefur verið farsælt.

Samstarf Íslands við stofnanir SÞ á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hefur fengið aukið vægi á undanförnum árum, m.a. þar sem kjarnaframlög hafa verið hækkuð til UNICEF og UN Women sem í stefnu Íslands eru skilgreindar sem áherslustofnanir í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Aukið umfang þróunarsamvinnu kallar einnig á virka þátttöku og málefnastarf af Íslands hálfu, og mikilvægt að virkja hæfa samstarfsaðila innanlands til að styðja við þá viðleitni ráðuneytisins.

Meginniðurstöður eru á þann veg að áhugi á samstarfi er mikill af hálfu allra samningsaðila og gildi þess er verulegt. Hagkvæmni og skilvirkni hefur þó verið ábótavant á síðustu árum enda hefur umsýsla aukist og fyrirsjáanleiki jafnframt minnkað. Í rýninni eru átta tillögur til úrbóta lagðar fram. Meðal annars er lagt til að UTN skoði þann möguleika að taka aftur upp rammasamninga við landsnefndirnar og Félag Sþ, en að ráðuneytið geti sem fyrr sótt stuðning til aðilanna þriggja fyrir sérverkefni. Ráðuneytið skuli jafnframt viðhafa samráð við önnur ráðuneyti sem eiga í samstarfi við aðilana þrjá við útfærslu samstarfs og leiti leiða til að hámarka samlegð við annað starf UTN á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þá sé nauðsynlegt að tryggja að fjármunir séu nýttir í þróunarsamvinnutengd verkefni og að UTN geti sinnt sinni eftirlitsskyldu með virkum hætti. Enn fremur er lagt til að ólíkar útfærslur á stuðningi séu skoðaðar í náinni framtíð og að upplýsingar um samstarfið sé birt á heimasíðu ráðuneytisins. Loks er lögð áhersla á að utanríkisráðuneytið vandi stjórnsýslu við umsýslu styrkja og leitist við að hámarka skilvirkni í starfi því tengdu.

Innri rýni á samstarfi við landsnefndir UN Women, UNICEF og Félag SÞ á Íslandi

 

Ísland tók þátt í samráðshópi árið 2022 fyrir lokaúttekt á verkefni UN Women sem Ísland studdi í Mósambík. Verkefnið ber yfirskriftina Skilvirk þátttaka af hálfu kvenna og stúlkna á sviði friðar, öryggis og enduruppbyggingar í Mósambík (Promoting women and girl‘s effective participation in peace, security and recovery in Mozambique). Meginmarkmið verkefnisins eru þríþætt: (1) mótun landsáætlunar um konur frið og öryggi (NAP 1325), (2) stuðla að getu stjórnvalda til að fylgja eftir og framkvæma áætlunina í öllum landshlutum, og (3) að veita samþætta þjónustu fyrir konur og stúlkur sem eru fórnarlömb ofbeldis, og jafnaframt stuðla að sjálfstæði þeirra og efnahagslegum framgangi.

Verkefnið sem hófst í desember 2017 var framlengt án frekari fjárveitinga til mars 2022 og var framkvæmt í 14 umdæmum innan sjö héraða landsins. Umfang þess nam um 4,5 milljón bandaríkjadollurum. Verkefnið fær góða umsögn í öllum úttektaþáttum, þó framkvæmd hafi tafist af ýmsum ástæðum, m.a. vegna COVID-19 faraldursins, fellibylja og vopnaðra átaka í norðurhluta landsins. Ein meginniðurstaða úttektarinnar er að verkefnið hafi haft verulegt framlag til að koma málefnum sem varða konur, frið og öryggi á dagskrá í Mósambík og að konur fái nú aukið rými til pólitískrar þátttöku og viðurkenningu á sínu hlutverki í friðargæslu. 

Lokaúttekt á verkefni UN Women um þátttöku kvenna og stúlkna á sviði friðar, öryggis og enduruppbyggingar í Mósambík

Þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC) framkvæmir jafningarýni á öllum þátttökuríkjum DAC. Jafningjarýni felur í sér ítarlega skoðun á kerfum og stefnum ríkjanna á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og setur fram tillögur til umbóta. Ísland og Grikkland tóku þátt í jafningjarýni á þróunarsamvinnustarfi Ungverjalands árið 2022. Samráð og vettvangsvinna fór fram í júní, niðurstöður voru kynntar 30 nóvember 2022 og var lokaskýrsla gefin út í febrúar 2023.

Úttekt á fyrirkomulagi styrkveitinga fyrir meistara- og doktorsnema í gegnum þjálfunaráætlanir GRÓ, sem eru Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn, og Sjávarútvegsskólinn,  lauk í ágúst 2023. Úttektin er óháð og byggir á spurningakönnun meðal nemenda, rýnihópum, viðtölum við helstu haghafa og skoðun á fyrirliggjandi gögnum, þ.m.t. fyrirkomulagi erlendis á sambærilegum verkefnum. 

Í úttektinni kemur fram að styrkveitingar eru í takt við hlutverk GRÓ og styðja við stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Þó nemendur snúi í einhverjum tilfellum ekki aftur til heimalanda sinna, er hlutfallið lægra en hjá sambærilegum stofnunum erlendis og vinna þeir nemendur einnig að framgangi þróunarmarkmiða. Ráðgjafar leggja til sveigjanlega nálgun sem leggur áherslu á uppbyggingu þekkingar samhliða stuðningi við samstarfsstofnanir í efnaminni ríkjum. 

 Í úttektinni eru 10 megintillögur lagðar fram:

  1. GRÓ ætti að leggja styrkveitingar á framhaldsstigi upp sem stefnumiðað áframhald af 5-6 mánaða þjálfun/diplómanámi sem endurspeglar hvernig vönduð menntun getur hámarkað áhrif þróunarsamvinnu til að ná markmiðum alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og heimsmarkmiðanna.

  2. Skólarnir fjórir, í samvinnu við GRÓ, eru hvattir til að skoða ólíka kosti til að þróa samræmda klasanálgun við styrkveitingar með það fyrir augum að auka hagkvæmni og skilvirkni.

  3. Skólarnir fjórir ættu að leita leiða til að auka þátttöku ólíkra samstarfsstofnana í styrkjaprógramminu, sem leið til að auka skuldbindingu þeirra og efla getu einstaklinga og stofnana.
     
  4. GRÓ er ráðlagt að setja upp sérstaka fjárhagsáætlun til fimm ára sem byggir á spá og mati á þörfum núverandi nemenda til að auðvelda áætlangerð til lengri tíma sem spannar alla skólana.

  5. GRÓ og skólarnir fjórir ættu að þróa áætlun um kynningu og öflun fjármuna til viðbótar við grunnfjármögnun utanríkisráðuneytisins.

  6. GRÓ og skólarnir fjórir eru hvattir til að leita tækifæra til þverfaglegrar framkvæmdar í gegnum breytingakenningu 2022-2027 og vöktunar hennar, og tryggja að betur sé fjallað um þverlæg málefni líkt og kynjajafnrétti.

  7. Utanríkisráðuneytið ætti að tryggja að staða forstöðumanns GRÓ sé til þriggja ára hið minnsta til að tryggja samfellu í stjórnun og stofnanaminni.

  8. Skólarnir fjórir ættu að halda áfram að taka forystu í ákvarðanatöku sem varðar menntun og rannsóknir í ljósi þess að akademískt frelsi skólanna hefur sýnt fram á góðan árangur til þessa.

  9. GRÓ og skólarnir fjórir ættu að þróa sameiginlegan ramma fyrir styrkveitingar sem byggir á bestu starfsháttum og setja tengil á heimasíðu GRÓ fyrir allar upplýsingar sem tengjast styrkjaprógramminu.

  10. GRÓ, í samvinnu við skólana, er hvatt til að skoða fýsileika þess að gera formlegt samkomulag við samstarfsháskóla á Íslandi og alþjóðlega til að auka akademíska og félagslega velferð styrkhafa, og til að styrkja tengslin milli akademíu og þróunarsamvinnu.

Helstu niðurstöður eru þær að styrkjaprógrammið sé skynsamlegt framhald 5-6 mánaða þjálfunar á Íslandi og eitt af meginhlutverkum GRÓ. Nemendur hafa haft veruleg áhrif heima fyrir og vísbendingar eru um að framlag þeirra hafi haft jákvæð áhrif á samstarfsstofnanir í efnaminni ríkjum. Þó er spurningum velt upp hvað varðar að tryggja betur velferð nemenda, þ.m.t. fjárhagslega á meðan á námi stendur, sér í lagi doktorsnema. Niðurstöður benda einnig til þess að tækifæri séu til staðar til að auka mennta- og þróunaráhrif GRÓ með því að auka stefnumiðað samstarf milli skólanna fjögurra og GRÓ.

Skýrsla (á ensku)

 

Lokaúttekt á héraðsverkefni í Mangochi-héraði í Malaví lauk í nóvember 2023 og nær hún til áranna 2017-2023. Þróunarsamvinna Íslands og Malaví er langvinn en hana er hægt að rekja allt til ársins 1989, fyrst á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) fram til 2016, er utanríkisráðuneytið tók við þróunarsamvinnu Íslands. Allt frá árinu 2012 hefur verið lögð áhersla á héraðsnálgun í Malaví, þegar undirritaður var samstarfssamningur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og héraðsstjórnvöld í Mangochi héraði um eflingu grunnþjónustu í héraðinu. 

Úttektin er óháð og byggir á skoðun á fyrirliggjandi gögnum, viðtölum við helstu haghafa, spurningakönnun og rýnihópum.

Niðurstöður úttektar eru á þann veg að verkefnið fellur vel að stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Megininntak héraðsþróunarverkefnisins snýr að mæðra- og ungbarnaheilsu, menntamálum, og vatns- og hreinlætismálum. Unnið er í nánu samstarfi við héraðsstjórn að uppbyggingu innviða og getu til að bæta grunnþjónustu við íbúa. Þessi nálgun hefur marga kosti fyrir smáan samstarfsaðila líkt og Ísland, þar sem framlag Íslands nær samlegðaráhrifum í gegnum ólíka geira og fámennt landateymi nær að vinna samstíga með starfsfólki héraðsstjórnar til að hámarka árangur af okkar framlagi. Héraðsnálgun Íslands hefur reynst árangursrík í að efla getu héraðsstjórnvalda og hefur skilað sýnilegum árangri líkt og úttektin sýnir fram á. 

Bent er á að innleiðing verkefna í héraðinu hafi verið takmörkunum háð árin 2020-2021, sér í lagi vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Vegna þessa var samstarfssamningur við héraðið framlengdur til ársins 2025. Í úttektinni eru 17 megintillögur lagðar fram og tengjast þær ólíkum þáttum í framkvæmd: (1) Tillögur sem snúa að farsælum verkefnalokum Íslands í héraðsverkefnum í Mangochi, (2) tillögur sem tengjast umbótum í héraðsnálgun Íslands í þróunarsamvinnu, og (3) tillögur um mögulegan áframhaldandi stuðning Íslands við Mangochi hérað.

Nokkrar af helstu tillögum eru eftirfarandi:

  • Héraðsstjórnin ætti að tryggja áframhaldandi þjálfun einstklinga og hópa til að styrkja samfélagslega innviði sem tengjast verkefnum. 
  • Sendiráð Íslands ætti að fylgja betur eftir skýrslugjöf af hálfu héraðsins, bæði hvað varðar tímanlega endurgjöf og nákvæmni í fjárhags- og tæknilegum skýrslum. 
  • Sendiráðið, í samstarfi við héraðsyfirvöld, ætti að setja á laggirnar skýra ferla til að að styðja við sjálfbærni. Sjálfbærniáætlanir ættu að útlista haldbærar aðgerðir sem grípa þarf til yfir verkefnatímann til að tryggja langtímaárangur af hverjum verkhluta fyrir sig.  

Skýrsla: Lokaúttekt á héraðsverkefni í Mangochi-héraði 2017-2023 (á ensku)

Samantekt: Lokaúttekt á héraðsverkefni í Mangochi-héraði 2017-2023 (á ensku)

 

Úttektinni var ætlað að kortleggja aðkomu fræða- og háskólasamfélagsins að þróunarsamvinnu, bæði á Íslandi og nágrannalöndum með það að markmiði að skilgreina bestu starfshætti og leiðir fyrir ráðuneytið til að starfa með og hvetja til aukinnar þátttöku fræða- og háskólasamfélagsins í þróunarsamvinnu,  og auka þannig virði þess framlags sem Ísland leggur af mörkum til að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð.

Úttektin sýnir fram á að mörg tækifæri felast í auknu samstarfi utanríkisráðuneytisins (UTN) við háskóla og fræðasamfélagið í þágu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og að áhugi er fyrir auknu samstarfi. 

Helstu tillögur snúa að stefnumótun og markmiðasetningu fyrir málaflokkinn og að kynning á þróunarsamvinnu og styrkja- og námskeiðsmöguleikum innan Norrænu Afríkustofnunarinnar verði efld innan háskólanna. Jafnframt er lagt til að ráðgjafalisti UTN verði útfærður til að fræðafólk og stofnanir háskólanna geti komið sinni sérþekkingu á framfæri og lagt þróunarsamvinnu lið. Sem leið til samstarfs er einnig lagt til að ráðuneytið kanni fýsileika þess að gera rammasamninga við háskólastofnanir á Íslandi sem geti þjónað þeim tilgangi að skapa grundvöll fyrir samstarf af margvíslegu tagi.

Samstarf utanríkisráðuneytisins við háskóla og fræðasamfélagið – mótandi úttekt.

 

Úttektir árið 2022

Eftirfarandi úttektarstarf var unnið árið 2022 á vegum utanríkisráðuneytisins.

Úttekt á landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi 2018-2022 lauk í febrúar 2022. Úttektin var framkvæmd af Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Markmið úttektarinnar er að meta árangur landsáætlunar Íslands um konur, frið og öryggi 2018-2022 og leggja fram tillögur um hvað betur megi fara í starfi Íslands í málaflokknum. Í landsáætlun eru settar fram aðgerðir af Íslands hálfu til að styðja við málefni sem varða ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og aðrar tengdar ályktanir. Áætlunin byggir á fjórum meginþáttum: (1) fræðslu og málsvarastarfi, (2) þátttöku, (3) fyrirbyggjandi starfi, vernd aðstoð og endurhæfingu, og (4) samstarfi og samráði. Samkvæmt meginniðurstöðum er enn verk að vinna þegar kemur að fræðslu- og málsvarastarfi. Þátttaka hefur verið efld, m.a. með aðkomu Jafnréttisskólans að þjálfun kvenna frá átakasvæðum og þátttöku skólans í samstarfsverkefni ráðuneytisins við UN Women í Mósambík. Þá tekur Ísland virkan þátt í tengslaneti Nordic Women Mediators, en bent er á að þörf sé fyrir að slík þátttaka sé betur skilgreind til að hún skili haldbærum árangri.

Hvað varðar þætti sem tengjast fyrirbyggjandi starfi, vernd aðstoð og endurhæfingu, þá hefur Ísland unnið að fjölmörgum verkefnum sem tengjast málefnasviðinu, þ.m.t. eru tvö verkefni sem hafa verið framkvæmd undir merkjum 1325 í Mósambík og Malaví. Nokkrir framkvæmdaþættir eru á hendi annarra aðila en utanríkisráðuneytisins, s.s. vinna gegn mansali, sem hefur tekist vel, og fræðsla fyrir konur sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Því verkefni er sinnt, en eru þó lagðar fram tillögur umbóta. Loks er talið að eftirfylgni með áætluninni sé ábótavant, auk samstarfs og samráði innanlands vegna framkvæmdar.

Alls eru 26 tillögur settar fram í úttektinni. Þær verða nýttar til að fylgja eftir framkvæmd núverandi áætlunar til loka árs 2022 og einnig verða ábendingar lagðar til grundvallar í mótun nýrrar áætlunar sem stefnt er að taki gildi í upphafi árs 2023.

Utanríkisráðuneytið styður verkefni SOS Barnaþorpa um forvarnir og aðgerðir gegn kynferðislegri misneytingu á börnum í Ogou héraði í Tógó. Aðgerðir innan verkefnis fela í sér fyrirbyggjandi aðgerðir, stuðning og umönnun við börn og stúlkur sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misneytingu og ofbeldi með áherslu á að halda ungum stúlkum í skóla. Heildarkostnaður verkefnis er 45.121.404 kr., markhópur er 40.000 íbúar og verkefnatíminn spannar þrjú ár, frá 2019 til 2022.

Miðannarúttekt lauk í mars 2022 og var hún framkvæmd í samvinnu við SOS Barnaþorp á Íslandi og SOS Barnaþorp í Tógó, af staðbundnum óháðum úttektaraðila. Úttektin spannaði aðgerðir sem inntar voru af hendi frá janúar 2020 til júní 2021.

Niðurstöður er á þann veg að vitundarvakning hefur gengið vel og samfélög eru nú betur meðvituð um afleiðingar af kynferðislegri misneytingu á börnum og þörfina á að tilkynna mál og draga gerendur til ábyrgðar. Stuðningur af ólíkum toga stóð fórnarlömbum til boða: sálfræði-, læknisfræði-, lögfræðilegur, auk stuðnings fyrir fórnarlömb til að snúa aftur til náms. Slíkur stuðningur minnkaði skaðann af ofbeldi fyrir fórnarlömb og fjölskyldur þeirra, auk samfélagsins. Alls nutu 77 stúlkubörn sem voru fórnarlömb ofbeldis slíks stuðnings en vitundarvakning hefur einnig orðið til þess að mál eru nú frekar tilkynnt. Á fyrri hluta árs 2021 bárust 73 tilkynningar til yfirvalda en 49 allt fyrra ár auk þess sem börn eru nú fremur líkleg til að segja foreldrum frá ofbeldi sem þau kunna að verða fyrir. Vandamálið er umfangsmikið og ólíkar hindranir sem bygga á félags- og menningarlegum þáttum eru í veginum í þessum viðkvæma málaflokki.

Þættir sem hafa gengið sérstaklega vel er efnahagsleg valdefling heimila og að gefa mæðrum í þorpum umsýsluhlutverk (Super Nagan). Sex tillögur eru settar fram sem varða stefnu innan verkefnisins, auk 11 tillagna sem varða framkvæmd, sem hægt er að byggja á í síðari hluta verkefnisins. Sumir verkefnaþættir eru á eftir áætlun og aðrir hafa ekki komist til framkvæmda vegna COVID-19 faraldursins. Ráðdeildar hefur þó verið gætt í fjárumsýslu og framkvæmd, og hefur 51% af verkefnafé fyrir tímann verið nýtt ef miðað er við upprunalegar áætlanir. Líkur eru til að verkefnið komist á góðan skrið og því ljúki á réttum tíma þó mögulega þurfi að framlengja verkefnatíma sem nemur einum ársfjórðungi. Auk þess telja úttektaraðilar líkur standa til að verkefnið muni skila áætluðum árangri og ná framúrskarandi árangri hvað varðar tiltekna þætti.

Meginþungi í þróunarsamvinnu Íslands í Úganda byggir á svokallaðri héraðsnálgun þar sem unnið er í náinni samvinnu við héraðsyfirvöld. Öðrum áfanga í byggðaþróunarverkefni Íslands í Buikwe héraði lýkur á árinu 2022. Verkefnastoðir eru tvær, annars vegar er samvinna á sviði menntamála og hins vegar er samvinna á sviði vatns- og hreinlætismála. Markmið byggðaþróunarverkefnisins er að bæta lífsskilyrði og velferð almennings í 20 samfélögum við sjávarsíðuna. Stuðningur beindist til fjögurra hreppa innan Buikwe héraðs, Najja, Ngogwe, Nyenga and Ssi Bukunja á tímabilinu 2018 til 2022.

Lokaúttekt á öðrum áfanga byggðaþróunarverkefnis í Úganda: mennta- og vatnsverkefni í Buikwe héraði er nú lokið. Á verkefnatímanum nam umfang verkefnastoðar fyrir vatn alls 2.407.542 bandaríkjadollurum, eða um 320 milljónum íslenskra króna og umfang menntastoðar nam 6.541.716 USD, eða um 870 milljónum íslenskra króna.

Úttektin metur þann árangur sem náðst hefur í verkefnum, setur fram tillögur til úrbóta og dregur fram lærdóm sem draga má af byggðaþróunarverkefni Íslands í héraðinu.  Blandaðar matsaðferðir voru nýttar í úttektinni og voru spurningalistar settir fyrir 388 heimilismeðlimi úr samfélögum, rýnihópar meðal nemenda samanstóðu af 64 nemendum úr átta grunnskólum og 32 framhaldsskólanemendum úr fjórum framhaldsskólum. Þá tóku 128 manns þátt í öðrum rýnihópum vegna úttektarinnar, s.s. foreldrar, fulltrúar samfélaga og nemendur. Djúpviðtöl voru tekin við 24 lykilaðila verkefnisins.  Úttektin byggðist einnig á þátttökuathugunum, greiningu tölulegra gagna og skoðun á fyrirliggjandi skriflegum gögnum. Loks voru gerðar prufur á vatnsgæðum. 14 þættir voru prófaðir á rannsóknarstofu ráðuneytis vatns- og umhverfismála, fyrir mengun og efnasamsetningu. 182 prufur voru gerðar úr vatnsbólum, tönkum, kranavatni og á heimilum.

Um 26.000 manns nutu góðs af vatns- og hreinlætisverkefninu með aðgengi að heilnæmu vanti. Í menntastoðinni voru 87 skólastofur og 19 skrifstofur byggðar í 19 skólum. Auk þess voru 92 skólastofur endurnýjaðar, 21 íbúðir fyrir starfsfólk skóla byggðar, fjórar rannsóknarstofur en þær voru einnig útbúnar með tækjum, salernisaðstöðu var komið upp í níu skóum og 21 skólaeldhús byggð. Nemendum voru veittar tæplega 24.000 skólabækur í grunnfögum.

Úttektaraðilar benda m.a. á að umbætur í verkefnasniði og nálgun hafi skilað sér frá fyrsta áfanga byggðaþróunarverkefnisins, að eignarhald staðarfólks hafi verið mjög skýrt og að verkefnið hafi notið mikils stuðnings yfirvalda. Útboðsferlar hins opinbera séu þó tímafrekir, sem hefur hamlað framgangi.

Niðurstöður gefa til kynna að hlutfall heimila á verkefnasvæðinu sem hafa aðgang að heilnæmu vatni innan 1 km. frá heimili hefur aukist í 83% úr 32% árið 2015. Gæði vatns úr uppsprettum er gott, en þó finnst mengun í neysluvatni inni á heimilum sem gefur til kynna að auka þurfi fræðslu á meðferð vatns. Dæmi eru um að menguð ílát sem hafa verið nýtt til að bera vatn úr Viktóríuvatni séu einnig nýtt sem drykkjarílát fyrir neysluvatn úr hreinum lindum. Þetta valdi sjúkdómum og niðurgangspestum. Jafnframt er í úttektinni lagt til að unnið sé að því að nægjanlegu viðhaldi á sinnt á vatnsveitum til að tryggja að þær virki til framtíðar. Að sama skapi er áskorun fyrir héraðið að reka almenningssalerni þegar til lengri tíma er litið, og jafnframt kemur fram að mikilvægt er að sinna áframhaldandi fræðslu um hreinlætismál með það fyrir augum að viðhalda þeim árangri sem þegar hefur náðst.

COVID-19 faraldurinn setti strik í reikninginn hvað varðar menntaverkefnið, enda lokuðu skólar í hartnær tvö ár yfir verkefnatímann. Þetta kom niður á fjórum verkþáttum af fjórum og fól í sér fyrirhugaðan stuðning við að bæta gæði kennslu og faglega leiðtogahæfni innan skólanna, aukna samfélagsþátttöku og beinan stuðning við nemendur til að efla námsáhuga. Því komust lykilþættir eins og framkvæmd samræmdra könnunarprófa og þjálfun kennara, ekki til framkvæmda. Framkvæmdir vegna innviðauppbyggingar, líkt og bygging skóla gengu þó að mestu samkvæmt áætlunum, líkt og áður hefur verið útlistað.

Stuðningur Íslands hefur stuðlað að umbyltingu hvað varðar aðgengi að vatni, hreinlætismálum og menntun barna í samfélögum Buikwe héraðs við strendur Viktoríuvants en rík áhersla er lögð á mikilvægi þess að hlúa að verkefnaþáttum sem tryggja sjálfbærni til framtíðar í áframhaldandi starfi Íslands á svæðinu.

Úttekt á umsýslu skóla GRÓ með þróunarsamvinnufé var hleypt af stokkunum í byrjun apríl 2022. Markmið úttektarinnar er að meta vinnulag og verkferla sem varða fjárumsýslu og meðferð þróunarsamvinnufjár af hálfu GRÓ, hýsistofnana, skólanna fjögurra og utanríkisráðuneytisins, auk þess að fylgja eftir ábendingum úr fyrri fjárhagsúttektum. 

Úttekt lauk í október og var niðurstöðum deilt með haghöfum. Samkvæmt verklagi utanríkisráðuneytisins eru niðurstöður úr fjárhagsúttektum ekki gerðar opinberar. Niðurstöður verða nýttar til áframhaldandi umbótastarfs af hálfu utanríkisráðuneytisins, GRÓ og skólanna fjögurra.

Úttektin beinist að þeim fjórum þáttum sem viðkoma samstarfi utanríkisráðuneytisins við aðila atvinnulífsins: Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu, kostun ráðgjafa í sérhæfð verkefni alþjóðastofnana (svokallaða ráðgjafalista), samstarf við Íslandsstofu og styrkveitingar í gegnum Rannís, sjóð sem nefnist Þróunarfræ.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu var settur á laggirnar 2019 til þriggja ára. Hefðbundnum prufutíma sjóðsins lauk við árslok 2021, en var sá prufutími framlengdur um eitt ár vegna áhrifa COVID-19 faraldursins, enda að mörgu leyti erfitt um vik að sinna starfi á vettvangi. 24 fyrirtæki hafa hlotið styrk úr sjóðnum (af 54 umsóknum) og nema styrkupphæðir alls um 324 m.kr. Á tímabilinu 2017-2021 veitti ráðuneytið enn fremur 178.532.732 kr. til ráðgjafaverkefna alþjóðastofnana í gegnum ráðgjafalista. Þróunarfræ sem er sjóður á vegum Rannís hefur veitt tveimur verkefnum styrki síðan sjóðurinn var settur á laggirnar árið 2021. Samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og Íslandsstofu um þjónustuborð atvinnulífsins hefur verið í gildi frá 1. nóvember 2020. Markmið þjónustuborðs er að vera brú milli atvinnulífs og stjórnvalda þangað sem atvinnulífið getur leitað til að afla upplýsinga um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar, og sótt sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um hvert annað hægt sé að leita til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Ráðgjafar nýttu margvíslegar aðferðir við framkvæmd úttektar, byggt var á tölulegum og skriflegum gögnum frá utanríkisráðuneytinu og útgefnu efni um samstarf við aðila atvinnulífs á sviði þróunarsamvinnu, viðtöl voru tekin við starfsfólk og samstarfsaðila, spurningakannanir lagðar fyrir ráðgjafa og fyrirtæki, og jafnframt héldu úttektaraðilar vinnustofu á Íslandi. Þá voru verkefni fyrirtækja skoðuð, og vettvangsferð farin til Indlands til að skoða afrakstur verkefna þar. Samráð var haft við fulltrúa utanríkisráðuneyta nágrannalandanna og alþjóðlegar fjármálastofnanir.

Í úttektinni kemur fram það mat að Heimsmarkmiðasjóðurinn hafi náð þeim meginmarkmiðum sínum um að byggja upp samstarf við fyrirtæki. Sjóðurinn hafi náð til fyrirtækja sem hefðu að líkindum ekki annars tekið þátt í þróunarsamvinnuverkefnum. Úttektin finnur einnig þess merki að fyrirtæki hafi aðlagað lausnir að þróunarmörkuðum og að nýjar lausnir hafi nýst samstarfsaðilum og haghöfum. Sjóðurinn hefur einnig náð árangri hvað varðar að veita fyrirtækjum ný tækifæri, þróun nýrra lausna og hefur virkjað íslenskt hugvit og fjármagn þróunarríkjum til góða. Í úttektinni kemur fram að umsýsla af hálfu utanríkisráðuneytisins hafi verið skilvirk, en þó gerður sá fyrirvari að sjóðurinn hafi verið að slíta barnsskónum. Fyrirsjáanlegt sé að umsýsla muni aukast í náinni framtíð.

Hvað ráðgjafalistana varðar, er rými fyrir utanríkisráðuneytið að vinna nánar með viðkomandi alþjóðastofnunum til að listarnir nýtist betur. Þeir sérfræðingar sem hafa tekið þátt í verkefnum, sem og fulltrúar viðkomandi alþjóðastofnana, lýstu mikilli ánægju með samstarfið. Meirihluti sérfræðinganna töldu ráðgjafastörf sín hafa nýst fyrir þá til að fá innsýn inn í verkefni í þróunarríkjum.

Norðurlöndin hafa öll eigin þróunarbanka eða -fjármálastofnanir sem eru tilbúnar til samstarfs við Ísland til að fjármagna verkefni á vegum íslenskra fyrirtækja í gegnum þær ólíku leiðir sem þar bjóðast. Aukið samstarf og kynning á þeim kostum sem bjóðast fyrirtækjum í gegnum þessar leiðir, auk þeirra fjármálastofnana sem Ísland er meðlimur í, væri fyrir fyrirtæki eðlilegt framhald af styrkveitingum úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu.

Í úttektinni eru 35 tillögur settar fram. M.a. er lagt til að stuðningur fyrir samstarf við atvinnulíf á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu verði áfram á Íslandi og í höndum utanríkisráðuneytisins. Lögð er áhersla á að byggja upp tengslanet, bæði við alþjóðlegar fjármálastofnanir og við að ná til fyrirtækja sem samstarfsaðila, m.a. með sér vefsíðu, viðburðum og þátttöku í norrænu samstarfi. Þá þykir vera rými til að nýta betur þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á vegum þeirra alþjóðlegu fjármálastofnana sem Ísland er aðili að.

Lagt er til að Heimsmarkmiðasjóður starfi áfram með líku sniði og áður, með ólíkum gluggum fyrir forkönnunarstyrki og fyrir verkefnastyrki. Í ljósi þess að einkageirinn á Íslandi er tiltölulega lítill, þá er lagt til að þematískt og landfræðilegt umfang sjóðsins verði áfram víðtækt, en möguleiki sé til staðar fyrir sérstakar áherslur til að styðja við stefnu stjórnvalda. Einnig er lagt að skoðaðar verði leiðir til að styðja betur við fyrirtæki við mótun og framkvæmd verkefna með sérfræðiráðgjöf.

Hvað ráðgjafalista varðar er lagt til að sérstök flokkun verði gerð fyrir sérfræðinga með minni reynslu (undir 10 ára reynslu) og að samstarf verið hafið við fleiri alþjóðastofnanir, auk þess sem norrænt samstarf verði nýtt til samvinnu innan þeirra alþjóðlegu bankastofnana sem Ísland er ekki aðili að.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands sameinaðist utanríkisráðueytinu (UTN) í byrjun árs 2016 og tók þá þróunarsamvinnuskrifstofa UTN við tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands. Þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC) hefur ítrekað mikilvægi þess að Ísland meti árangur af sameiningunni. Úttekt hófst um mitt ár, en útfærsla hennar byggir m.a. á reynslu annara framlagslanda. Úttektin skiptist í þrjár megináherslur:

  1. Skilvirkni og árangur þróunarsamvinnu
  2. Skipulag og áætlanir
  3. Mannauður og starfsmannahald

Tveir fyrrnefndu hlutarnir byggja á þeim markmiðum/viðmiðum sem sett voru með sameiningu, tilmælum stjórnarráðsins um sameiningu stofnana, og tölulegum viðmiðum fyrir skilvirkni þróunarsamvinnu. Þessi hluti úttektarinnar er unninn innan ráðuneytisins og byggir að miklu leyti á greiningu tölulegra gagna og annarra raungagna. M.a. er byggt á alþjóðlegum stöðlum um heilindi (e. integrity) og skilvirkni þróunarsamvinnu.
Þriðji þátturinn viðkemur mannauðstengdum þáttum og starfsmannahaldi, en einnig verða viðhorf starfsfólks til ólíkra þátta sem viðkoma sameiningunni, könnuð. Óháður, utanaðkomandi matsaðili framkvæmir þann hluta úttektarinnar. Miðað er við að öllum verkhlutum verði lokið í byrjun árs 2022.

 

Úttektir árið 2021

Eftirfarandi úttektarstarf var unnið árið 2021 á vegum utanríkisráðuneytisins.

Úttekt á stefnumiðum fyrir samstarf við frjáls félagasamtök og rammasamning við Rauða kross Íslands (RKÍ) vegna mannúðaraðstoðar lauk í febrúar 2021. Úttektin var unnin af óháðum, erlendum aðilum en samantekt um niðurstöður var gefin út á íslensku. Samstarf við frjáls félagasamtök hefur verið mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnu Íslands um langt árabil. Alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofa (AÞS) utanríkisráðuneytisins (UTN) ber ábyrgð á umsýslu með styrkjum og samstarfi við frjáls félagasamtök. Frá árinu 2015 hafa framlög numið tæplega 1,9 milljörðum króna og 18 íslensk frjáls félagasamtök hafa notið stuðnings til verkefna í 32 löndum. Hartnær 100 verkefni hafa verið fjármögnuð, auk 19 mannúðar­verkefna í gegnum rammasamning við RKÍ. Niðurstöður sýna fram á að margt er vel gert, en að tækifæri eru til staðar til umbóta í starfi. Ramma­samningur utanríkisráðuneytisins við RKÍ fyrir mannúðaraðstoð hefur gefist vel og ástæða til að skoða frekari nýtingu ramma­samninga í samstarfi UTN við frjáls félagasamtök, bæði í mannúðar­aðstoð og í þróunar­­samvinnu. Gerðar eru tillögur um skýrari stefnumið og samráði um mótun þeirra, einföldun á vinnuferlum, samvinnu og samtali milli aðila á breiðari grunni, auk aukinnar samhæfingar og samfellu í starfi.

Í framhaldi af úttekt Íslands á stefnumiðum vegna samstarfs við frjáls félagasamtök var áreiðanleikakönnun á fjárreiðum þeirra frjálsu félagasamtaka sem lýstu yfir áhuga á að gera rammasamning við ráðuneytið, hleypt af stokkunum um mitt ár 2021 í kjölfar örútboðs. Könnunin var framkvæmd af ytri, óháðum ráðgjöfum og lágu niðurstöður fyrir í byrjun október 2021. Þar sem könnunin fjallar um fjármál og umsýslu frjálsra félagasamtaka, eru skýrslur ekki gerðar opinberar. Niðurstöður verða nýttar fyrir fýsileikamat ráðuneytisins fyrir mótun rammasamninga við samstarfsaðila úr röðum frjálsra félagasamtaka.

Innri rýni á þátttöku Íslands í Ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna 2005-2015 sem lauk í maí 2021 var ætlað að afla lærdóms til að nýta fyrir þátttöku Íslands á nýjan leik. Leitast var við að varpa ljósi á og draga lærdóm af þeim árangri sem hlaust af stuðningi Íslands, virðisauka þátttöku fyrir íslenska ungliða sem og stofnanir Sþ. Einnig var unnin samantekt úr rýninni.

Tíu ungir sérfræðingar voru á sínum tíma ráðnir til starfa hjá þremur stofnunum SÞ. Tveir fyrrum ungliðar starfa enn innan kerfis SÞ, tveir starfa hjá utanríkisráðuneytinu og þrír innan akademíu með áherslu á alþjóðleg málefni. Loks starfa þrír fyrrverandi ungliðar að alþjóðlegum verkefnum fyrir frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu.

Niðurstöður benda til að þátttaka Íslands í Ungliðaáætlun Sþ hafi skilað margvíslegum árangri og það vekur athygli að allir þessir fyrrum ungliðar starfa enn á vettvangi alþjóðamála og þróunarsamvinnu. Meginniðurstöður rýninnar eru þær að þátttaka í Ungliðaáætlun Sþ sé fýsilegur kostur fyrir Ísland, svo fremi sem fjármagn sé til staðar og þátttakan fari ekki umfram skynsamleg mörk, að verkefnið byggi á heildrænni sýn á uppbyggingu mannauðs innan alþjóða- og þróunarsamvinnu, og að vinnulag og útfærsla verkefnisins sé með faglegum hætti. 11 tillögur eru settar fram í rýninni og er þar lögð áhersla á að hámarka þann ábata sem af hlýst vegna þátttöku í verkefninu og mikilvægi þess að utanríkisráðuneytið skapi vandaða og faglega umgjörð um starfið. Það felur m.a. í sér að ráðuneytið setji sér skýr markmið og leitist við að læra af þátttöku nágrannalandanna í ungliðaáætluninni, auk þess að meta árangurinn af þátttöku þegar fram líða stundir.

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins tóku þátt í samráðshópi fyrir miðannarúttekt á verkefni UN Women sem Ísland styður í Mósambík. Verkefnið ber yfirskriftina „Skilvirk þátttaka af hálfu kvenna og stúlkna á sviði friðar, öryggis og enduruppbyggingar í Mósambík“ (e. Promoting women and girl‘s effective participation in peace, security and recovery in Mozambique).

Árangur af verkefninu hefur verið margvíslegur og hefur markmiðum fyrir ólíka verkþætti verið náð. Ný landsstefna hefur verið mótuð og innleidd til að bæta þjónustu við fórnarlömb heimilisofbeldis í Mósambík og 822 einstaklingar hafa fengið þjálfun í heildrænni nálgun fyrir umsýslu og umönnun fórnarlamba þar í landi. Yfir 1500 konur frá frjálsum félagasamtökum hafa fengið þjálfun í friðar- og öryggismálum, auk þess sem samráðsvettvangur hefur verið settur á laggirnar. Því til viðbótar hafa yfir 200 karlmenn fengið þjálfun í hvernig virkja megi konur til þátttöku í friðarferlum. Alls er talið að almenn kynning og fræðsla vegna verkefnisins hafi náð til 21 milljón einstaklinga.

Framlag Íslands fól m.a. í sér að sex nemendur hlutu þjálfun hjá Alþjóðlegum jafnréttisskóla GRÓ á Íslandi og luku diplómagráðu í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Háskóla Íslands. Þessir nemendur komu úr lykilstofnunum í Mósambík sem stuðla að friði og öryggi, s.s. frá lögreglu, her og fræðastofnunum og munu nemendurnir hafa hlutverki að gegna í áframhaldandi innleiðingu verkefnisins.

Verkefnið hófst í desember 2017 og var framlengt án frekari fjárveitingar til 2022. Verkefnið hefur verið innleitt í 17 sveitarfélögum (e. Districts) í sjö héruðum (e. Provinces) landsins og nemur heildarumfang þess 4,5 milljónum bandaríkjadollara. Meginmarkmið verkefnisins eru þríþætt: (1) mótun landsáætlunar um konur frið og öryggi (NAP 1325), (2) stuðla að getu stjórnvalda til að fylgja eftir og framkvæma áætlunina í öllum landshlutum, og (3) að veita samþætta þjónustu fyrir konur og stúlkur sem eru fórnarlömb ofbeldis, og jafnframt stuðla að sjálfstæði þeirra og efnahagslegum framgangi.
Þrátt fyrir góðan árangur verkefnisins á ýmsum sviðum, telja skýrsluhöfundar að úrbóta sé enn þörf til að auka heildarárangur verkefnisins.

Miðannarúttekt (skýrsla á ensku)
Miðannarúttekt (skýrsla á portúgölsku)

Skyndiskoðuninni er ætlað að leggja mat á samstarfssamning milli utanríkisráðuneytisins og Landsbjargar um rekstur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á íslenskri alþjóðabjörgunarsveit (ICE-SAR), þátttöku í Alþjóðasamtökum björgunarsveita (INSARAG) og viðbragðstreymi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Disaster Assessment and Coordination, UNDAC). Samningnum, sem rann sitt skeið á enda um mitt ár 2021, var ætlað að efla samstarf við Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, bæði hvað varðar samstarf vegna INSARAG sem eru alþjóðasamtök rústabjörgunarsveita sem Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er stofnaðili að og UNDAC, sem er viðbragðsteymi sérfræðinga vegna neyðarástands á vegum skrifstofu Sþ fyrir samræmingu neyðaraðstoðar (OCHA). Einnig var samningnum ætlað að styrkja aðkomu ráðuneytisins að alþjóðlegu samstarfi Landsbjargar.

Ætlunin er að skyndiskoðun geti veitt innlegg fyrir mótun nýs samstarfssamnings milli utanríkisráðuneytisins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, auk þess að draga fram möguleika og annmarka á samstarfi og fyrirkomulagi því sem nú er til staðar. Skoðun tafðist vegna gagnasöfnunar og lýkur henni í nóvember 2021.


Á fimm ára tímabili, frá 2016 til 2020 nam sá kostnaður sem viðkom kvótaflóttafólki og umsækjendum um vernd sem talinn var til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu rúmlega sjö milljörðum íslenskra króna. Framkvæmd verkefna er á höndum ólíkra ráðuneyta og stofnana og hefur á undanförnum árum farið fram umfangsmikið starf til að bæta vinnulag og verkferla sem varða framtal þessa kostnaðar til þróunarsamvinnu.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði til á fyrri hluta árs 2021 að óháð úttekt á þróunarsamvinnukostnaði og tengdri þjónustu sem varðar kvótaflóttafólk og umsækjendur um vernd yrði framkvæmd í samvinnu við þau ráðuneyti og stofnanir sem bera ábyrgð á framkvæmd. Samráðshópur um úttektina var skipaður frá þeim ráðuneytum og stofnunum sem koma að framkvæmd verkefna og óháðir ráðgjafar valdir í kjölfar örútboðs.

Úttektin var gefin út í desember 2021. Niðurstöður gefa til kynna að umbótastarf hefur farið fram sem tengist málaflokknum. M.a. er aðferðafræði Íslands útfærð og samþykkt af þróunarsamvinnunefnd OECD (DAC), móttaka flóttafólks er í auknum mæli samræmd, og vinna við að veita fólki í leit að vernd eina kennitölu sem fylgir þeim í gegnum allt ferlið er langt á veg komin af hálfu Útlendingastofnunar og Þjóðskrár. Hið síðastnefnda auðveldar yfirsýn, eykur öryggi og skapar möguleika á að draga fram viðeigandi upplýsingar úr kerfum.

Enn þykir þó rými til umbóta. Þrjár leiðir fyrir þróun til framtíðar eru lagðar til. Æskilegasta leiðin felur í sér nánari flokkun kostnaðar þar sem Útlendingastofnun og sveitarfélög sundurgreina tækan og ótækan kostnað strax við bókun. Með breytingu á verklagi megi minnka hlutfall kostnaðar sem er áætlaður og fremur byggt á raunkostnaði, auk þess sem áætlanagerð batnar til muna. Skortur á tímanlegum upplýsingum um útgjöld hefur veruleg áhrif á yfirsýn utanríkisráðuneytisins yfir stöðuna gagnvart markmiðum fjármálaáætlunar og markmiðum íslenskra stjórnvalda um það hlutfall af vergum þjóðartekjum sem verja skal til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu ár hvert.

Ísland hefur lagt áherslu á baráttuna gegn limlestingu á kynfærum kvenna og stúlkna í sinni alþjóðlegu þróunarsamvinnu.

Limlestingar á kynfærum kvenna ná til allra aðgerða sem fela í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð að hluta til eða algerlega, og þeirra áverka sem koma til sökum slíkra aðgerða. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á að slíkar limlestingar hafi enga heilsufarslegan ábata í för með sér, en felur margvíslega áhættu, m.a. hættu á alvarlegum blæðingum, sýkingum, vandkvæðum við fæðingar og aukingu á nýburadauða. Menningarlegar ástæður og siðir liggja til grundvallar og styðja við þá hugmynd að limlestingar á kynfærum kvenna séu öllum stúlkum nauðsynlegar sem hluti af undirbúningi þeirra fyrir hjónaband og fullorðinsár. Limlestingar á kynfærum kvenna er heilbrigðisvandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu misrétti og ofbeldi. Þá helst þessi siður oft í hendur við barnahjónabönd og veldur því að stúlkur hætta fyrr í skóla en kynfæralimlestingar eru jafnan framkvæmdar á stúlkubörnum, allt frá ungabörnum til 15 ára stúlkna. Yfir 200 milljónir stúlkna og kvenna í heiminum hafa undirgengist kynfæralimslestingar.

Frá árinu 2011 hefur Ísland stutt samstarfsverkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) til að uppræta limlestingar á kynfærum kvenna fyrir 2030. Verkefnið nær til 17 ríkja. Úttekt á þriðja framkvæmdaáfanga verkefnisins (2018-2021) lauk nýlega og sat fulltrúi Íslands í samráðshópi framlagsríkja fyrir úttektina, ásamt fulltrúum Noregs og Austurríkis.

Meginniðurstöður benda til þess að samstarfsverkefnið sé vel til þess fallið að bregðast við því vandamáli sem kynfæralimlestingar stúlkna og kvenna eru á heimsvísu. Verkefnið hefur stuðlað að aukinni þjónustu við fórnarlömb limlestinga auk þess að bæta forvarnir og umönnun þeirra sem þurfa á heilbrigðisaðstoð að halda. Þá er bent á mikilvægi þess að setja málefnið í forgang hjá stjórnvöldum og svæðisbundnum stofnunum. Aðgengi að tengdri þjónustu er ábótavant í mannúðaraðstoð, og enn sem komið er, eru fáar alhliða stefnur sem taka mið af bæði menntun, heilsu og kyni.

Í COVID-19 faraldrinum hefur komið í ljós að viðvarandi vandamál aukast, og gjarnan er vísað til „krísu innan krísu“, og má segja að sú sé raunin með kynfæralimlestingar stúlkna. Minna aðgengi er að heilbrigðisþjónustu og færri leiðir til að veita fræðslu og stuðning við stúlkur og fjölskyldur þeirra, m.a. vegna þess að skólahald er skert.

Úttektarskýrsla (á ensku)
Samantekt (á ensku)
Kynning á niðurstöðum (á ensku)

Úttektar- og rýniskýrslur

Innri rýni var framkvæmd á fyrirkomulagi samstarfs utanríkisráðuneytisins (UTN) við landsnefndir Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women), sem og samstarf við Félag Sameinuðu þjóðanna (SÞ) á Íslandi. 

Rýninni lauk í febrúar 2023 og var í henni lagt mat á fyrirkomulag og umgjörð samstarfs milli UTN og aðilanna þriggja á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Umgjörð samstarfs hefur tekið breytingum á undanförnum árum þar sem horfið hefur verið frá rammasamningum við landsnefndirnar tvær. Rammasamningi við Félag SÞ var haldið áfram og veittur var styrkur fyrir rekstur Miðstöðvar SÞ fram til ársins 2021, auk þess sem aðilarnir þrír gátu sótt um styrki til kynningar- og fræðslustarfs úr samkeppnissjóði ráðuneytisins.

Gildi samstarfsins hefur sannað sig á undanförnum árum, ekki síst þegar litið er til þeirra tveggja meginþátta sem eru virðisaukandi fyrir alþjóðlega þróunarsamvinnu sem málaflokk, sem utanríkisráðuneytið er ábyrgt fyrir. Annars vegar er vitundarvakning, fræðsla og kynning meðal almennings um þróunarsamvinnu og stöðu fólks í þróunarríkjum. Hins vegar er það að virkja íslenskan almenning til að leggja sitt af mörkum til að bæta stöðu fólks í þróunarlöndum, en landsnefndirnar tvær safna umtalsverðum upphæðum frá almenningi á ári hverju sem renna til þróunarsamvinnustarfs viðkomandi stofnana SÞ. Hvað þetta varðar má segja að árangur landsnefndanna hefur verið ótvíræður á undanförnum árum en þær eru hvor um sig „heimsmeistarar“ landsnefnda og önnur ríki telja þær sýna gott fordæmi. Þá ber að líta til þess að allir þrír aðilarnir hafa verið samstarfsaðilar utanríkisráðuneytisins lengi og samstarfið hefur verið farsælt.

Samstarf Íslands við stofnanir SÞ á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hefur fengið aukið vægi á undanförnum árum, m.a. þar sem kjarnaframlög hafa verið hækkuð til UNICEF og UN Women sem í stefnu Íslands eru skilgreindar sem áherslustofnanir í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Aukið umfang þróunarsamvinnu kallar einnig á virka þátttöku og málefnastarf af Íslands hálfu, og mikilvægt að virkja hæfa samstarfsaðila innanlands til að styðja við þá viðleitni ráðuneytisins.

Meginniðurstöður eru á þann veg að áhugi á samstarfi er mikill af hálfu allra samningsaðila og gildi þess er verulegt. Hagkvæmni og skilvirkni hefur þó verið ábótavant á síðustu árum enda hefur umsýsla aukist og fyrirsjáanleiki jafnframt minnkað. Í rýninni eru átta tillögur til úrbóta lagðar fram. Meðal annars er lagt til að UTN skoði þann möguleika að taka aftur upp rammasamninga við landsnefndirnar og Félag Sþ, en að ráðuneytið geti sem fyrr sótt stuðning til aðilanna þriggja fyrir sérverkefni. Ráðuneytið skuli jafnframt viðhafa samráð við önnur ráðuneyti sem eiga í samstarfi við aðilana þrjá við útfærslu samstarfs og leiti leiða til að hámarka samlegð við annað starf UTN á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þá sé nauðsynlegt að tryggja að fjármunir séu nýttir í þróunarsamvinnutengd verkefni og að UTN geti sinnt sinni eftirlitsskyldu með virkum hætti. Enn fremur er lagt til að ólíkar útfærslur á stuðningi séu skoðaðar í náinni framtíð og að upplýsingar um samstarfið sé birt á heimasíðu ráðuneytisins. Loks er lögð áhersla á að utanríkisráðuneytið vandi stjórnsýslu við umsýslu styrkja og leitist við að hámarka skilvirkni í starfi því tengdu.

Innri rýni á samstarfi við landsnefndir UN Women, UNICEF og Félag SÞ á Íslandi

 

Ísland hefur stutt verkefnið frá árinu 2011 og sat í samráðshópi gjafaríkja fyrir úttekt á þriðja verkefnahluta (2018-2021) ásamt fulltrúum Noregs og Austurríkis.
Meginniðurstöður benda til þess að samstarfsverkefnið sé vel til þess fallið að bregðast við því vandamáli sem kynfæralimlestingar stúlkna og kvenna eru á heimsvísu. Verkefnið hefur stuðlað að aukinni þjónustu við fórnarlömb limlestinga auk þess að bæta forvarnir og umönnun þeirra sem þurfa á heilbrigðisaðstoð að halda. Þá er bent á mikilvægi þess að setja málefnið í forgang hjá stjórnvöldum og svæðisbundnum stofnunum. Aðgengi að tengdri þjónustu er ábótavant í mannúðaraðstoð, og enn sem komið er, eru fáar alhliða stefnur sem taka mið af bæði menntun, heilsu og kyni.

 

  • Ísland tók þátt í samráðshóp 2020-2021 fyrir miðannarúttekt á verkefni UN Women sem Ísland studdi í Mósambík. Verkefnið ber yfirskriftina Skilvirk þátttaka af hálfu kvenna og stúlkna á sviði friðar, öryggis og enduruppbyggingar í Mósambík (Promoting women and girl‘s effective participation in peace, security and recovery in Mozambique).
    Verkefnið hófst í desember 2017 og var framlengt án frekari fjárveitingar í desember 2021. Verkefnið hefur verið innleitt í 17 sveitarfélögum (districts) í sjö héruðum (provinces) landsins og er heildarumfang þess 4,5 milljónir bandaríkjadollara.
    Meginmarkmið verkefnisins eru þríþætt: (1) mótun landsáætlunar um konur frið og öryggi (NAP 1325), (2) stuðla að getu stjórnvalda til að fylgja eftir og framkvæma áætlunina í öllum landshlutum, og (3) að veita samþætta þjónustu fyrir konur og stúlkur sem eru fórnarlömb ofbeldis, og jafnaframt stuðla að sjálfstæði þeirra og efnahagslegum framgangi.
    Niðurstöður miðannarúttektarinnar eru þær að allar afurðir úr ólíkum verkþáttum hafa verið framkvæmdar en margvíslegar tillögur eru gerðar til úrbóta fyrir síðari hluta verkefnisins.

UNFPA – Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna

Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO)

IDA (International Development Association)

Úttekt MOPAN á Alþjóðabankanum

ESMAP (Energy Sector Management Assistance Program)

PROBLUE (sjóður um bláa lífhagkerfið)

Jafnréttissjóður Alþjóðabankans

Mannréttindasjóður Alþjóðabankans

Ísland tók árið 2019 þátt í samnorrænni úttekt á Norræna þróunarsjóðnum (Nordic Development Fund). Úttektin gaf sjóðnum góða einkunn en bent var á að meira fjármagn þyrfti til að sjóðurinn hefði burði til að vaxa og dafna. Sjóðurinn starfar jafnframt vel með öðrum fjölþjóðlegum stofnunum en má gjarnan leggja aukna áherslu á vöktun, eftirlit og lærdóm.

UNRWA - Palestínuflóttamannaaðstoðin

UNDP - Þróunaráætlun SÞ

ÖSE - Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu

Ungliðaáætlun Sameinuðu þjóðanna (JPO)

Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR)

DPPA

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO)

Alþjóðlega fólksflutningastofnunin (IOM)

Lokaúttekt á héraðsverkefni í Mangochi-héraði í Malaví lauk í nóvember 2023 og nær hún til áranna 2017-2023. Þróunarsamvinna Íslands og Malaví er langvinn en hana er hægt að rekja allt til ársins 1989, fyrst á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) fram til 2016, er utanríkisráðuneytið tók við þróunarsamvinnu Íslands. Allt frá árinu 2012 hefur verið lögð áhersla á héraðsnálgun í Malaví, þegar undirritaður var samstarfssamningur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála og héraðsstjórnvöld í Mangochi héraði um eflingu grunnþjónustu í héraðinu. 

Úttektin er óháð og byggir á skoðun á fyrirliggjandi gögnum, viðtölum við helstu haghafa, spurningakönnun og rýnihópum.

Niðurstöður úttektar eru á þann veg að verkefnið fellur vel að stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Megininntak héraðsþróunarverkefnisins snýr að mæðra- og ungbarnaheilsu, menntamálum, og vatns- og hreinlætismálum. Unnið er í nánu samstarfi við héraðsstjórn að uppbyggingu innviða og getu til að bæta grunnþjónustu við íbúa. Þessi nálgun hefur marga kosti fyrir smáan samstarfsaðila líkt og Ísland, þar sem framlag Íslands nær samlegðaráhrifum í gegnum ólíka geira og fámennt landateymi nær að vinna samstíga með starfsfólki héraðsstjórnar til að hámarka árangur af okkar framlagi. Héraðsnálgun Íslands hefur reynst árangursrík í að efla getu héraðsstjórnvalda og hefur skilað sýnilegum árangri líkt og úttektin sýnir fram á. 

Bent er á að innleiðing verkefna í héraðinu hafi verið takmörkunum háð árin 2020-2021, sér í lagi vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Vegna þessa var samstarfssamningur við héraðið framlengdur til ársins 2025. Í úttektinni eru 17 megintillögur lagðar fram og tengjast þær ólíkum þáttum í framkvæmd: (1) Tillögur sem snúa að farsælum verkefnalokum Íslands í héraðsverkefnum í Mangochi, (2) tillögur sem tengjast umbótum í héraðsnálgun Íslands í þróunarsamvinnu, og (3) tillögur um mögulegan áframhaldandi stuðning Íslands við Mangochi hérað.

Nokkrar af helstu tillögum eru eftirfarandi:

  • Héraðsstjórnin ætti að tryggja áframhaldandi þjálfun einstklinga og hópa til að styrkja samfélagslega innviði sem tengjast verkefnum. 
  • Sendiráð Íslands ætti að fylgja betur eftir skýrslugjöf af hálfu héraðsins, bæði hvað varðar tímanlega endurgjöf og nákvæmni í fjárhags- og tæknilegum skýrslum. 
  • Sendiráðið, í samstarfi við héraðsyfirvöld, ætti að setja á laggirnar skýra ferla til að að styðja við sjálfbærni. Sjálfbærniáætlanir ættu að útlista haldbærar aðgerðir sem grípa þarf til yfir verkefnatímann til að tryggja langtímaárangur af hverjum verkhluta fyrir sig.  

Skýrsla: Lokaúttekt á héraðsverkefni í Mangochi-héraði 2017-2023 (á ensku)

Samantekt: Lokaúttekt á héraðsverkefni í Mangochi-héraði 2017-2023 (á ensku)

 

Meginþungi í þróunarsamvinnu Íslands í Úganda byggir á svokallaðri héraðsnálgun þar sem unnið er í náinni samvinnu við héraðsyfirvöld. Öðrum áfanga í byggðaþróunarverkefni Íslands í Buikwe héraði lýkur á árinu 2022. Verkefnastoðir eru tvær, annars vegar er samvinna á sviði menntamála og hins vegar er samvinna á sviði vatns- og hreinlætismála. Markmið byggðaþróunarverkefnisins er að bæta lífsskilyrði og velferð almennings í 20 samfélögum við sjávarsíðuna. Stuðningur beindist til fjögurra hreppa innan Buikwe héraðs, Najja, Ngogwe, Nyenga and Ssi Bukunja á tímabilinu 2018 til 2022.

Lokaúttekt á öðrum áfanga byggðaþróunarverkefnis í Úganda: mennta- og vatnsverkefni í Buikwe héraði er nú lokið. Á verkefnatímanum nam umfang verkefnastoðar fyrir vatn alls 2.407.542 bandaríkjadollurum, eða um 320 milljónum íslenskra króna og umfang menntastoðar nam 6.541.716 USD, eða um 870 milljónum íslenskra króna.

Úttektin metur þann árangur sem náðst hefur í verkefnum, setur fram tillögur til úrbóta og dregur fram lærdóm sem draga má af byggðaþróunarverkefni Íslands í héraðinu.  Blandaðar matsaðferðir voru nýttar í úttektinni og voru spurningalistar settir fyrir 388 heimilismeðlimi úr samfélögum, rýnihópar meðal nemenda samanstóðu af 64 nemendum úr átta grunnskólum og 32 framhaldsskólanemendum úr fjórum framhaldsskólum. Þá tóku 128 manns þátt í öðrum rýnihópum vegna úttektarinnar, s.s. foreldrar, fulltrúar samfélaga og nemendur. Djúpviðtöl voru tekin við 24 lykilaðila verkefnisins.  Úttektin byggðist einnig á þátttökuathugunum, greiningu tölulegra gagna og skoðun á fyrirliggjandi skriflegum gögnum. Loks voru gerðar prufur á vatnsgæðum. 14 þættir voru prófaðir á rannsóknarstofu ráðuneytis vatns- og umhverfismála, fyrir mengun og efnasamsetningu. 182 prufur voru gerðar úr vatnsbólum, tönkum, kranavatni og á heimilum.

Um 26.000 manns nutu góðs af vatns- og hreinlætisverkefninu með aðgengi að heilnæmu vanti. Í menntastoðinni voru 87 skólastofur og 19 skrifstofur byggðar í 19 skólum. Auk þess voru 92 skólastofur endurnýjaðar, 21 íbúðir fyrir starfsfólk skóla byggðar, fjórar rannsóknarstofur en þær voru einnig útbúnar með tækjum, salernisaðstöðu var komið upp í níu skóum og 21 skólaeldhús byggð. Nemendum voru veittar tæplega 24.000 skólabækur í grunnfögum.

Úttektaraðilar benda m.a. á að umbætur í verkefnasniði og nálgun hafi skilað sér frá fyrsta áfanga byggðaþróunarverkefnisins, að eignarhald staðarfólks hafi verið mjög skýrt og að verkefnið hafi notið mikils stuðnings yfirvalda. Útboðsferlar hins opinbera séu þó tímafrekir, sem hefur hamlað framgangi.

Niðurstöður gefa til kynna að hlutfall heimila á verkefnasvæðinu sem hafa aðgang að heilnæmu vatni innan 1 km. frá heimili hefur aukist í 83% úr 32% árið 2015. Gæði vatns úr uppsprettum er gott, en þó finnst mengun í neysluvatni inni á heimilum sem gefur til kynna að auka þurfi fræðslu á meðferð vatns. Dæmi eru um að menguð ílát sem hafa verið nýtt til að bera vatn úr Viktóríuvatni séu einnig nýtt sem drykkjarílát fyrir neysluvatn úr hreinum lindum. Þetta valdi sjúkdómum og niðurgangspestum. Jafnframt er í úttektinni lagt til að unnið sé að því að nægjanlegu viðhaldi á sinnt á vatnsveitum til að tryggja að þær virki til framtíðar. Að sama skapi er áskorun fyrir héraðið að reka almenningssalerni þegar til lengri tíma er litið, og jafnframt kemur fram að mikilvægt er að sinna áframhaldandi fræðslu um hreinlætismál með það fyrir augum að viðhalda þeim árangri sem þegar hefur náðst.

COVID-19 faraldurinn setti strik í reikninginn hvað varðar menntaverkefnið, enda lokuðu skólar í hartnær tvö ár yfir verkefnatímann. Þetta kom niður á fjórum verkþáttum af fjórum og fól í sér fyrirhugaðan stuðning við að bæta gæði kennslu og faglega leiðtogahæfni innan skólanna, aukna samfélagsþátttöku og beinan stuðning við nemendur til að efla námsáhuga. Því komust lykilþættir eins og framkvæmd samræmdra könnunarprófa og þjálfun kennara, ekki til framkvæmda. Framkvæmdir vegna innviðauppbyggingar, líkt og bygging skóla gengu þó að mestu samkvæmt áætlunum, líkt og áður hefur verið útlistað.

Stuðningur Íslands hefur stuðlað að umbyltingu hvað varðar aðgengi að vatni, hreinlætismálum og menntun barna í samfélögum Buikwe héraðs við strendur Viktoríuvants en rík áhersla er lögð á mikilvægi þess að hlúa að verkefnaþáttum sem tryggja sjálfbærni til framtíðar í áframhaldandi starfi Íslands á svæðinu.

Árið 2019 létust 18 nýburar fyrir hverjar 1.000 fæðingar í veröldinni. Dreifingin er ójöfn þar sem nýburadauði var hæstur í suðurhluta Afríku, þar sem hann fór allt upp í 28 dauða af hverjum 1.000 fæðingum. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að lækka nýburadauða í 12 dauðsföll af hverjum 1.000 fæðingum fyrir árið 2030 hið minnsta. Rannsóknir hafa sýnt fram á þörfina til að grípa inn í til að bæta vinnulag og árangur við að lækka nýburadauða. Í Malaví lækkaði nýburadauði frá 41 árið 2000 í 23 árið 2016, en ljóst er að það þarf að hraða umbótum. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa langtímaáhrifum og árangri af umbótum á nýburaþjónustu á héraðssjúkrahúsinu í Mangochi héraði í Malaví sem Ísland hefur stutt í gegnum sína þróunarsamvinnu. Ingunn Haraldsdóttir, Bob Milanzi Faque, Þórður Þorkelsson og Geir Gunnlaugsson birtu niðurstöður rannsóknar sinnar í fræðaritinu Journal of Global Health Reports.

Lokaúttekt á svæðaverkefni Íslands á sviði jarðhita í Austur-Afríku (Geothermal Exploration Project/ GOPA) var framkvæmd 2019. Verkefnið náði til þrettán ríkja í Sigdalnum í Austur-Afríku á árunum 2013 til 2018  og fólst einkum í að styðja ríkin við frumjarðhitarannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita væri að finna. Verkefnið náði til Djibútí, Eritreu, Eþíópíu, Kenya, Malaví, Rúanda og Tansaníu. Þá var einnig stutt við annað verkefni, undirbúning að stofnun öndvegisseturs í jarðhitamálum fyrir Afríku í Kenya og tæknileg aðstoð var veitt til Afríkusambandsins. Samkvæmt úttektinni leiddi verkefnið með skýrum hætti til framfara viðtökuríkjanna á sviði jarðhitaþróunar og getu þeirra til að taka ákvörðun um næstu skref. Ábending er sett fram um að þörf sé á frekari stuðningi í jarðhitamálum á þessu svæði og birtar fjölmargar ábendingar um með hvaða hætti sá stuðningur geti verið.

Síðast uppfært: 27.3.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum