Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

03. desember 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Málþing Norræna stjórnsýslusambandsins. Setningarávarp fjármálaráðherra Geirs H. Haarde, 3.12.1998.

Góðir málþingsgestir.

Eins og flestum hér er áreiðanlega kunnugt, hefur vinnuumhverfi stjórnenda opinberra stofnana, bæði ríkis og sveitarfélaga, tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum. Það sem sérstaklega snýr að stjórnendum ríkisstofnana eru nýleg lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ný fjárreiðulög, rammafjárlagagerð, nýtt launakerfi, árangursstjórnun og fleira má eflaust telja. Þá hafa allir orðið þess varir að sveitarfélögin hugsa sér mjög til hreifings ekki síst vegna þess að sveitarfélagaskipunin er að breytast og á þeim hvíla skyldur opinberrar starfsemi.

Margar þeirra breytinga í opinberri sem einkenna þennan áratug eiga rætur að rekja í stefnu núverandi og fyrrvareandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur einkum unnið að umbótastarfi í ríkisrekstrinum með tvö meginmarkmið að leiðarljósi. Hið fyrra er að skipulag og starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að ríkið sinni skyldum sínum við borgarana á eins hagkvæman og árangursríkan hátt og kostur er. Síðara markmiðið er að opinber þjónusta sé skilvirk og gefi íslenskum fyrirtækjum forskot í vaxandi alþjóðlegri samkeppni og greiði jafnframt götu erlenda aðila sem hingað leita. Einkennisorð þessa umbótastarfs eru: einföldum, ábyrgð og árangur.

Unnið hefur verið að einföldum á ríkisrekstrinum m.a. með einkavæðingu, með fækka stofnunum og endurskipulagningu á opinberu stasrfi. Rekstrarleg ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana hefur verið aukin ásamt því að þeim hefur verið gefin aukið svigrúm til stjórnunar. Ekki er lengur nægjanlegt fyrir forstöðumenn að hafa faglega þekkingu á verkefnum stofnunarinnar sinnar heldur þurfa þeir einnig að hafa haldgóða almenna þekkingu á rekstri og næma vitund um mikilvægi árangurs í starfi.

Í ráðherratíð forvera míns voru haldnar ráðstefnur um þetta viðfangsefni þar sem m.a. var rætt um hvert bæri að stefna í starfsmannamálum ríkisins og almennt í ríkisrekstri. Mikilvægt er að á tímum örra breytinga í stjórnun opinberra stofnana að viðhaldið sé frjórri og gagnrýnni umræðu um viðfangsefnið. Það er einkum þrennt sem kemur mér í hug í þessu samhengi.

Í fyrsta lagi tel ég tímabært að lögin um gerð kjarasamninga verði tekin til endurskoðunar. Atburðir síðustu missera þar sem fjölmennir og stundum fámennir starfshópar hafa beitt óhefðbundnum aðgerðum til þess að krefjast launabóta þrátt fyrir að með kjarasamningum hafi slíkt ekki verið ætlað. Við þetta er illt að una og í því felast gagnkvæmir hugsmunir, vinnuveitenda og launþega að hér verði fundnar skýrar og viðurkenndar reglur í samskiptum.

Í annan stað nefni ég að hinn evrópski stíll, þ.e. vinnutímatilskipun Evrópubandalagsins er nokkuð sem við þurfum að gaumgæfa. Mér finnst að þar eigi sumt vel við en annað síður.

Loks nefni ég að ekki alls fyrir löngu stóð fjármálaráðuneytið að viðamikilli viðhorfskönnun meðal starfsmanna ríkisstofnana. Þátttaka var ágæt og vænti ég þess að niðurstöðurnar geti gefið fjármálaráðherra og ráðuneyti góða vísbendingu um mat starfsmanna á vinnuaðstæðum sínum.

Ég fagna frumkvæði Íslandsdeildar norræna stjórnsýslusambandsins að efna til þessa málþings um stjórnun opinberra stofnana við upphaf 21. aldar. Það gefur tækifæri til að líta yfir farinn veg og meta hvernig til hefur tekist t.d. með breytt vinnuumhverfi stjórnenda ríkisins bæði hérlendis og erlendis. Brýnt er að ræða það hversu vel stjórnendur ríkisins eru í stakk búnir til að takast á við breytt vinnumhverfi um leið og litið er til framtíðar og skoðaðar nýjar áherslur í stjórnun og starfsmannahaldi ríkis.

Ég vona að málþingið verði hvati til frekari umræðna um stjórnun ríkisstofnana því viðfangsefnið er brýnt fyrir ríkisreksturinn í heild sinni og einstakar stofnanir.

Að svo mæltu set ég málþingin og vonast eftir líflegum skoðunaskiptum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum