Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

12. febrúar 1999 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða : ávöxtun og áhættudreifing. Morgunverðarfundur VÍB

Ávarp fjármálaráðherra
á morgunverðarfundi VÍB
12. febrúar 1999.

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða

- Ávöxtun og áhættudreifing -



Sá áratugur sem nú er senn á enda markar líklega dýpri spor í framþróun efnahagsmála hér á landi en nokkurt annað tímabil í íslenskri hagsögu. Á þessum árum hefur íslenskt hagkerfi tekið stakkaskiptum, sem má ekki síst rekja til gjörbreyttra áherslna í hagstjórn í upphafi þessa áratugar. Í kjölfarið hefur verulega dregið úr opinberri íhlutun og afskiptum af gangi efnahagslífsins. Jafnframt hefur frelsi verið aukið á flestum ef ekki öllum sviðum efnahagslífsins.

Afleiðingin er sú að við búum nú við meiri efnahagslegan stöðugleika en nokkru sinni fyrr. Hagvöxtur er meiri en í flestum nálægum ríkjum. Atvinna hefur aukist og atvinnuleysi að sama skapi minnkað og er nú minna en í nær öllum aðildarríkjum OECD. Verðbólga hefur einnig verið með minnsta móti, eða á bilinu 1S-2S% síðustu fimm ár. Kaupmáttur heimilanna hefur jafnframt aukist verulega undanfarin ár, eða um nálægt 20% frá árinu 1995, og hefur aldrei verið meiri. Hér gætir meðal annars áhrifa lækkunar tekjuskatts. Þá hafa vextir farið lækkandi.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum í því skyni að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði með lækkun og niðurfellingu skatta og öðrum aðgerðum til að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu, eiga hér ekki síst hlut að máli. Breyttra áherslna í hagstjórn hefur ekki síst gætt á sviði peningamála og ríkisfjármála. Algjör umskipti hafa orðið í ríkisfjármálum. Í stað langvarandi halla og skuldasöfnunar hjá ríkissjóði eru nú horfur á að unnt verði að greiða niður skuldir um meira en 30 milljarða króna á árunum 1998 og 1999. Stórstígar breytingar hafa einnig átt sér stað á fjármagnsmarkaðnum á undanförnum árum með eflingu verðbréfa- og hlutabréfamarkaða, auknu frjálsræði á peninga- og gjaldeyrismarkaði og einkavæðingu og sölu á hlut ríkisins í viðskiptabönkum og öðrum fjármálastofnunum svo nokkur dæmi séu nefnd.

Lífeyrissjóðirnir hafa ekki farið varhluta af þessari þróun enda hefur starfsumhverfi þeirra breyst verulega á undanförnum árum. Jafnframt hefur uppbygging þeirra verið ör sem meðal annars má marka af því að eignir þeirra, mældar í hlutfalli við landsframleiðslu, hafa meira en þrefaldast á síðasta áratug eða svo. Það er reyndar til marks um hversu ör þróunin á fjármagnsmarkaði hefur orðið að nú, rúmlega einu ári eftir samþykkt Alþingis á heildstæðri löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða, og liðlega hálfu ári eftir að lögin tóku gildi, er talin ástæða til þess að ræða frekari breytingar á þessari löggjöf. Nánar tiltekið hvort ákvæði laganna um hámark á fjárfestingu lífeyrissjóðanna í hlutabréfum sé farið að hamla gegn eðlilegri uppbyggingu og ávöxtun þeirra.

Eitt veigamesta ákvæði lífeyrissjóðslaganna fjallar um nauðsyn þess að sjóðirnir móti og fylgi ákveðinni fjárfestingarstefnu með tilliti til mats á arðsemi og áhættu þeirra fjárfestingarkosta sem í boði eru. Markmiðið með þessu er að tryggja fjárhagslega stöðu sjóðanna og stuðla í senn að traustri og eðlilegri ávöxtun á inneign sjóðfélaga. Ákvæði laganna sem takmarkar möguleika lífeyrissjóðanna á að fjárfesta í hlutabréfum má rekja til sjónarmiða um eðlilega áhættudreifingu fjárfestingar.

Við undirbúning lagasetningar varð samkomulag um að miða við 35% hlutfallið, að minnsta kosti sem fyrsta skref. Á þeim tíma var hlutfall íslenskra hlutabréfa í eigu lífeyrissjóðanna tiltölulega lágt og fjárfesting í erlendum hlutabréfum nánast á byrjunarstigi. Þess vegna þótti 35% hlutfallið alls ekki lágt og ekki líklegt til að hamla gegn eðlilegri framþróun í eignauppbyggingu lífeyrissjóðanna.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því þessi stefna var mótuð hefur þróunin hins vegar verið hröð og vægi hlutabréfa í eignum sjóðanna farið ört vaxandi. Það er mjög eðlilegt að breytt starfsumhverfi hafi áhrif á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sem og annarra fjármálastofnana. Þannig er athyglisvert að lán með veði í íbúðarhúsnæði landsmanna vega nú minna en 50% af eignum lífeyrissjóðanna enda hefur eignamyndun sjóðanna undanfarin ár fyrst og fremst verið í verðbréfum og nú allra síðustu misserin í hlutabréfum, ekki síst erlendum.

Þessi þróun mun vafalaust halda áfram. Íbúðarhúsnæði landsmanna er takmarkaður veðsetningarstofn auk þess sem aðrir hagstæðari fjárfestingarkostir eru fyrir hendi. Gjörbreytt staða ríkisfjármála gerir nú kleift að greiða niður skuldir og því er ekki lengur fyrir hendi sú lántökuþörf hjá ríkissjóði sem áður var. Hvort tveggja kallar á breyttar áherslur í mótun fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Aukin fjárfesting í hlutabréfum, innanlands og erlendis, og frekari kaup á erlendum verðbréfum en verið hefur eru eðlilegir kostir. Auk þess má gera ráð fyrir að lífeyrissjóðir og aðrar fjármálastofnanir eigi eftir að koma í auknum mæli inn í fjármögnun ýmissa mannvirkja sem hingað til hafa verið fjármögnuð af ríkissjóði, svo sem samgöngu- og orkumannvirkja. Þetta er eðlileg þróun.
Þá er rétt að nefna þá athyglisverðu þróun sem nú er í gangi þar sem lífeyrissjóðirnir eru að hasla sér völl í fjármögnun íbúðalána í samstarfi við lánastofnanir án milligöngu ríkis og sveitarfélaga eða sjóða á þeirra vegum. Þetta framtak er bæði þarft og tímabært og eðlilegt framhald á þeim breytingum í frjálsræðisátt sem orðið hafa hér á landi síðustu ár þar sem dregið hefur úr afskiptum opinberra aðila á fjármagnsmarkaðnum.

Öll þessi atriði hníga í átt til þess að brátt þurfi að huga að endurskoðun á því ákvæði lífeyrissjóðslaganna sem takmarkar hlutabréfaeign þeirra. Þetta er fullkomlega eðlilegt og breytir í engu þeim meginmarkmiðum laganna að efla og treysta fjárhagslegan grundvöll lífeyrissjóðanna.

Það er mikilvægt að starfsumhverfi lífeyrissjóðanna þróist eðlilega og í takt við framvindu mála á almennum fjármagnsmarkaði, hér á landi sem erlendis. Jafnframt er nauðsynlegt að víðtæk sátt ríki milli allra aðila um þær breytingar sem kunna að verða gerðar á lögunum. Mikilvægast er þó að lífeyrissjóðirnir framfylgi ábyrgri fjárfestingarstefnu sem miðar að því að hámarka ávöxtun eigna með tilliti til áhættu. Það hlýtur að vera sameiginlegt áhugamál allra aðila að lífeyrissjóðum verði sköpuð skilyrði til þess að ná því markmiði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum