Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. apríl 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra, Geirs H. Haarde á SBV deginum sem haldinn var á Hótel Nordica, 7. apríl 2005.

FJÁRMÁLARÁÐHERRA

GEIR H. HAARDE

- Hið talaða orð gildir -

SBV dagurinn

Hótel Nordica, 7. apríl 2005

Ávarp fjármálaráðherra

Ágætu fundargestir,

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með SBV daginn. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð. Þó svo að málefni ykkar aðildarfyrirtækja heyri ekki með beinum hætti undir mitt ráðuneyti er óhjákvæmilegt að leiðir liggi saman af ýmsu tilefni. Hið almenna skattumhverfi fyrir atvinnureksturinn í landinu, sem er eitt meginviðfangsefni míns ráðuneytis, skiptir til dæmis gríðarmiklu fyrir ykkar starfsemi. Það er mikilvægt að á milli fjármálaráðuneytisins og stofnana þess og fjármálafyrirtækja landsins sé sem best samstarf og heiti ég á alla aðila að stuðla að því.

Breytingar á fjármálamarkaði

Það er ekki ofsagt að mikil breyting hefur orðið á fjármálamarkaði á Íslandi undanfarin ár. Þegar hugsað er til baka er í raun með ólíkindum hversu mikil umbylting hefur orðið á skömmum tíma. Ég man sem gamall starfsmaður Seðlabankans eftir því hvernig gengi krónunnar var handstýrt frá degi til dags samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar sem ákvað jafnframt alla vexti í landinu. "Gjaldeyrisdeild bankanna", "langlánanefnd", "gjaldeyriseftirlitið" o.m.fl. af skyldum toga tilheyra liðinni tíð og svo er um fjölmargt fleira sem hamlaði eðlilegri framþróun bankakerfisins.

Mestu breytingarnar hafa orðið nú á allra síðustu árum, en það er aðeins rúmur áratugur síðan segja má að fjármálakerfið hafi í raun verið markaðsvætt.

Það gerðist í fyrsta lagi með því að frjáls verðmyndun á fjármagni, vaxtafrelsi, var innleitt og vöxtunum látið eftir að stýra framboði og eftirspurn á lánsfé. Þetta knúði á um aukna skilvirkni sem ýtti m.a. undir sameiningar fjármálastofnana, þannig að nú eru hér þrír sterkir viðskiptabankar í stað sjö áður, auk þess sem sparisjóðum hefur fækkað, fjárfestingarlánasjóðir hafa að mestu runnið inn í bankana, og lífeyrissjóðir hafa orðið sterkari og öðruvísi þátttakendur á þessum markaði.

Í öðru lagi hefur afnám hafta af fjármagnsflæði milli landa orðið til þess að bankarnir hafa getað sótt á erlenda markaði bæði eftir lánsfé en einnig fjárfestingum og útlánatækifærum. Hin margrómaða útrás hefur þannig ekki farið fram hjá neinum. Erlend viðskipti viðskiptabankanna eru nú meiri en innlend í heildarumsvifum þeirra og þannig hafa þeir gjörbreytt starfi sínu og mörkuðum á örfáum árum.

Stærsta breytingin á síðustu árum var svo án efa einkavæðing bankanna, Landsbankans og Búnaðarbankans. Hygg ég að flestir séu nú sammála um að það hafi verið stórt skref í þróun heilbrigðs fjármálamarkaðar, þó svo að hugmyndafræðin sem slík hafi á sínum tíma ekki átt upp á pallborðið hjá ýmsum stjórnmálamönnum – og eigi svo sem ekki enn. Hins vegar er fátt jafn ánægjulegt í stjórnmálum og að fylgjast með því þegar góð hugmynd nær fótfestu og sigrar í hugmyndabaráttunni. Þannig er því farið með hugmyndina að baki einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Ég tel víst að enginn vildi nú snúa aftur til þess tíma þegar fjármálastarfsemin laut pólitískum yfirráðum. Sá tími er sem betur fer liðinn. En um leið og bankarnir hafa fengið aukið frelsi og lúta nú lögmálum markaðarins og kröfum hluthafa en ekki boðum stjórnvalda, fylgir því frelsi einnig mikil samfélagsleg ábyrgð.

Athygli vekur að efnahagsreikningur innlánsstofnana sem nam rúmum 70% af vergri landsframleiðslu 1998 er komin í nær 240% á árinu 2004. Þetta eitt lýsir umbyltingu fjármagnsmarkaðsins betur en flest annað. Sömuleiðis hefur samsetning skuldahliðarinnar breyst mikið. Árið 1998 námu innlán um 55% af heildarniðurstöðu efnahagsreikningsins, en voru komin niður í 26% árið 2004. Á móti hefur fjármögnun í gegnum lántökur og verðbréfaútgáfu undið upp á sig, úr 41% í 63% á sama tímabili.

Bankarnir hafa þannig þanist út á mjög skömmum tíma og í nær hverri viku berast fréttir af nýjum, krefjandi verkefnum sem óhugsandi hefði verið að þeir hefðu getað tekið að sér fyrir ekki svo löngu síðan. Þarf ég ekki að nefna dæmi um slíkt á þessum vettvangi, en afl bankanna til stórræða hefur vaxið svo um munar og kemur það öllu atvinnulífi í landinu til góða. Það er afar mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að bankarnir séu orðnir svo sterkir og ástæða til að óska þeim til hamingju með hversu öflugir þeir eru orðnir á erlendri grund. Ég sé fyrir mér að þeir geti í framtíðinni gegnt lykilhlutverki við að laða erlenda fjárfesta til landsins og veita þeim þjónustu. Ég teldi fara vel á því að næsta stórverkefni í því efni tengdist sölunni á hlut ríkisins í Landssímanum hf. sem kynnt var í vikunni.

Íbúðalánasjóður og bankarnir

Bankarnir komu á síðasta ári með myndarlegum hætti í fyrsta sinn inn á markaðinn fyrir fasteignaveðlán í beinni samkeppni við Íbúðalánasjóð. Lánsviðskipti á þessum markaði eru að mínum dómi eðlileg framþróun fyrir bankana og breikka grunn útlána þeirra á sviði, þar sem áhætta er tiltölulega lítil. Jafnframt er þessi þróun mjög í takt við það sem tíðkast hefur í nálægum löndum. Ekki er vafi á því að einkavæðing bankanna, aukin stærð þeirra og styrkur í kölfarið, á stóran þátt í því að þeir töldu sér óhætt að leggja út á þessa nýju braut. Með þeirri vaxtalækkun á langtímalánum til fasteignaviðskipta, sem þessari þróun fylgdi, má segja að einkavæðingin hafi með beinum hætti bætt lífskjörin í landinu. Það sjáum við einnig fyrir okkur varðandi sölu Símans þótt í öðru formi verði. Þess vegna er erfitt að koma auga á rökin gegn slíkum breytingum.

Framvindan á íbúðalánamarkaðnum vekur upp spurningar um eðlilega verkaskiptingu milli hins ríkisrekna Íbúðalánasjóðs og bankanna. Sjóðurinn mun vissulega áfram hafa mikilvægu hlutverki að gegna en ég tel eðlilegt að hlutur hans beinist í framtíðinni í meira mæli að félagslegum þáttum og þeim landshlutum sem markaðurinn sýnir minni áhuga. Slík breyting er úrlausnarefni á hinum pólitíska vettvangi og fara þarf vandlega yfir alla þætti þess máls, m.a. með hliðsjón af þeim gríðarlegu ábyrgðum sem hvíla á ríkissjóði vegna Íbúðalánasjóðs. Að mínu mati er rétt að gaumgæfa þessi mál á næstunni í ljósi þeirra miklu og ófyrirséðu breytinga sem hafa orðið á þessu sviði undanfarna mánuði. Athyglisvert verður einnig að fylgjast með næstu skrefum bankanna og hvernig þeir vinna áfram úr stöðu sinni á þessum markaði.

Ég vil segja um þessi mál að endingu að það verður að ætlast til þess af bönkunum – og vísa ég þá til þess sem ég áður sagði um samfélagslega ábyrgð - að þeir leggi sitt af mörkum með skynsamlegri ráðgjöf til sinna viðskiptavina, til að koma í veg fyrir að heimilin í landinu steypi sér í stórum stíl út í óviðráðanlegar skuldir til að fjármagna neyslu líðandi stundar.

Góðir fundarmenn,

Rafræn skilríki

Ég vil hér í lokin greina frá ágætu verkefni um rafræn skilríki sem unnið hefur verið í góðri samvinnu fjármálaráðuneytisins og SBV. Á vegum ríkisins hefur verið rekið tilraunaverkefni með rafræn skilríki í á þriðja ár, þar sem safnast hefur verðmæt reynsla ásamt því að byggð hefur verið upp vottunar- og skráningarstöð rafrænna skilríkja. Í tengslum við þetta verkefni hefur verið unnið að samningu vottunarstefnu fyrir íslenskt dreifilyklakerfi að erlendri fyrirmynd. Íslenska bankakerfið hefur að sama skapi lagt í mikinn kostnað við útfærslu ýmissa tilraunaverkefna sem tengjast útgáfu og notkun rafrænna skilríkja. Í október á síðasta ári, þegar fyrir lá að bankarnir hyggðust taka í notkun greiðslukort búin örgjörvum sem gætu borið rafræn skilríki, óskaði ráðuneytið eftir samstarfi við fjármálastofnanir um útbreiðslu rafrænna skilríkja. Samtök ykkar tóku þeirri málaleitan afar vel og í kjölfarið var sett á laggirnar samstarfsnefnd ráðuneytisins og SBV. Nú hefur nefndin lokið störfum og leggur til að aðilar undirriti viljayfirlýsingu um samstarf um rafræn skilríki í tengslum við greiðslukort viðskiptabankanna og um vinnu að undirbúningi dreifilyklakerfis. Stefnt er að undirritun þessari á næstunni. Ég lýsi ánægju minni með að þetta mikilvæga mál sé komið í svo góðan farveg. Ég bind miklar vonir við að þetta muni verða til þess að auka aðgengi borgaranna að upplýsingum og þjónustu ríkisins og einnig til þess að auka skilvirkni og hagræði í opinberum rekstri, ásamt því að leggja grundvöll að auknum rafrænum viðskiptum. Ég vil þakka samtökum ykkar gott samstarf í þessu máli.

Ég vil að lokum óska ykkur góðs gengis í störfum ykkar hér í dag og fyrirtækjum ykkar óska ég áframhaldandi velgengni í þeirra mikilvægu störfum í þágu íslensks þjóðfélags.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum