Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

21. apríl 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp ráðherra á samstarfsnefndarfundi á Hótel Sögu 23. mars 2009

Ágætu skólameistarar!

Ég býð ykkur velkomna til þessa árlega vorfundar í samstarfsnefnd framhaldsskóla og ráðuneytis. Þetta er í fyrsta skipti sem ég ávarpa ykkur sem menntamálaráðherra og ég legg mikla áherslu á að eiga mikil og góð samskipti við ykkur. Í lögum um framhaldsskóla frá því í fyrra er að vísu ekki minnst á tilveru þessarar nefndar eins og gert var í fyrri lögum um framhaldsskóla. Hins vegar telur ráðuneytið mjög æskilegt að eiga þessa fundi með forsvarsmönnum framhaldsskólanna.

Frá síðasta fundi hafa ekki orðið miklar breytingar í röðum skólameistara. Þetta mun þó vera síðasti fundurinn sem Kristín Arnalds, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti, situr en hún lætur af störfum í lok þessa skólaárs.  Kristín hefur gegnt störfum sem skólameistari við skólann í mörg ár og flytur ráðuneytið henni bestu þakkir fyrir farsælan feril og óskar henni velfarnaðar nú þegar hún lætur af starfi.  Þá hefur verið stofnaður nýr framhaldsskóli í Mosfellsbæ og mun hann hefja störf næsta haust.  Skólameistari skólans hefur verið ráðinn Guðbjörg Aðalbergsdóttir og hefur hún þegar hafið störf og látið af störfum við Fjölbrautaskóla Snæfellinga.  Ég býð Guðbjörgu velkomna til starfa við nýjan skóla og þakka henni jafnframt fyrir vel unnin störf við Fjölbrautaskóla Snæfellinga en þar innti hún af hendi mikið frumkvöðlastarf við að byggja upp nýjan skóla sem hefur farið ótroðnar slóðir í starfi sínu.  Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, er nú í sex mánaða leyfi til að undirbúa stofnun fisktækniskóla  og gegnir Kristján Ásmundsson, aðstoðarskólameistari stöðu hans á meðan.  Ég býð hann velkominn til þessa fundar. 

Í ráðuneytinu verða þær breytingar á næstunni að Sigurður Sigursveinsson lætur af störfum og mun Ólafur Sigurðsson skólameistari Borgarholtsskóla koma í hans stað og vinna að gerð skólasamninga og málum þeim tengdum.  Ég þakka Sigurði góð störf í ráðuneytinu og óska honum velfarnaðar á öðrum starfsvettvangi og býð Ólaf velkominn til starfa.  Þá mun Jón Eggert Bragason sem hefur unnið hefur að undirbúningi stofnunar nýs skóla við utanverðar Eyjafjörð láta af störfum í ráðuneytinu á næstunni en hann hefur verið ráðinn aðstoðarskólameistari við nýjan framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Ég óska honum góðs gengis í nýju starfi en  Jón Eggert hefur unnið gott starf í ráðuneytinu og var í síðustu viku skrifað undir samkomulag um að stefna að því að bjóða upp á nám við utanverðan Eyjafjörð næsta haust í nánu samstarfi við skólana á Akureyri. Þá vil ég nefna að Leifur Eysteinsson hefur hafið störf sem sérfræðingur á mats- og greiningarsviði ráðuneytisins og mun hann vinna náið með skrifstofu menntamála m.a. að gerð nýrra skólasamninga við framhaldsskólana.  Leifur vann áður í fjármálaráðuneytinu og er hann boðinn velkominn til starfa.

Innleiðinga nýrra framhaldsskólalaga

Frá því að ný lög um framhaldsskóla voru samþykkt hefur verið unnið ötullega að innleiðingu þeirra með ritun reglugerða og gerð námskráa. Má segja að í þeirri vinnu felist mótun þeirra stefnu sem mörkuð var með lögunum. Lög um framhaldsskóla setja ramma um starfsemi framhaldsskóla en þau veita skólunum jafnframt mikið svigrúm til að móta sitt starf. Við innleiðingu nýrra laga  er mikilvægt að skapa skólum möguleika til að sýna frumkvæði og þróa nýtt námsframboð og kennsluhætti . Einnig þarf að tryggja rétt nemenda og að nám við framhaldsskóla standist kröfur um gæði. Við smíði reglugerða og námskrárgerð þarf því að gæta jafnvægis milli nauðsynlegrar samræmingar náms og fjárhagslegs ramma annars vegar og nauðsynlegs svigrúms skóla til að móta starf sitt. Menntamálaráðuneytið getur ekki eitt ákveðið þetta jafnvægi og því er mikilvægt að virkt samráð sé haft við forsvarsmenn framhaldsskóla og hagsmunaaðila við þetta starf.

Í lögum um framhaldsskóla eru heimildir fyrir tuttugu-og-eina reglugerð. Sumar þeirra munu vera felldar inn í námskrá og í öðrum tilvikum verða heimildir ekki nýttar. Ein reglugerð hefur verið  gefin út, um innritun í framhaldsskóla, en aðrar munu sjá dagsins ljós á næstu vikum.

Vinna við ritun almennra kafla námskráa fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er nú í fullum gangi og er leitast við samræma það starf til þess að móta heildstæða stefnu í menntakerfinu. Eru starfandi þrjár ritnefndir, ein fyrir hvert skólastig, undir sameiginlegri ritstjórn. Er Ágúst  Þór Árnason við Háskólann á Akureyri fulltrúi minn í ritstjórninni. Er stefnt að því að drög að almennum köflum námskránna liggi fyrir til samráðs og kynningar nú í vor.

Breytingar á námskrá á framhaldsskólastigi eru viðamiklar og endurspegla nýtt hlutverk skóla í gerð námsbrautalýsinga og áherslu á þá þekkingu,  leikni og hæfni sem ætlast er til að nemendur tileinki sér.  Hefur ráðuneytið leitast við að hafa ferlið við gerð námskráa sem opnast og birt á vefnum viðmið og leiðbeiningar fyrir skóla í námskrárgerð. Samkvæmt lögum á ný námskrá að taka gildi eigi síðar en árið 2011 og er mikilvægt að hún liggi fyrir þá.

Innleiðing  nýrra laga hefur margar fleiri hliðar. Má þar nefna uppbyggingu upplýsingakerfa, endurmenntun kennara, þróunarverkefni í skólum og gæðastarf. Hafa margir stjórnendur og framhaldsskólakennarar sýnt því  starfi mikinn áhuga. Kennarar úr nær öllum skólum hafa sótt endurmenntunarnámskeið í námskrárgerð og margir framhaldsskólar vinna nú að spennandi þróunarverkefnum við útfærslu nýrra laga og nýrrar námskrár.

Margir hafa spurt sig hvort forsendur séu fyrir innleiðingu nú í ljósi erfiðleika í efnahagsmálum og samninga við kennara.  Á móti má spyrja hvort stöðva eigi allt þróunarstarf þegar við þurfum á nýbreytni og styrkri menntun að halda til að takast á við breyttar forsendur í atvinnu- og þjóðlífi? Eitt að því sem nú er mikið rætt, m.a. á norrænum vettvangi, er áhersla á sköpunarkraft, nýsköpun og listir í menntun til að byggja grunn að nýju atvinnulífi. Sama má segja um nýjar áherslur í starfsmenntun. Einnig er mikil umræða um skil framhaldsskóla og háskóla og möguleika framhaldsskóla til að bjóða nám að loknu stúdentsprófi. Innleiðing nýrra laga og nýrrar námskrár skapa nauðsynlegt svigrúm til framþróunar á þessum sviðum. 

Segja má að framhaldsskólar hafi þegar svarað spurningunni um forsendur innleiðingar þar sem þeir hafa sótt um styrki til fjölda þróunarverkefna til menntamálaráðuneytisins. Verður leitast við að styðja við sem flest þróunarverkefni nú í ár. Einhverjir skólar hyggjast stíga skrefið til fulls og hefja kennslu í samræmi við ný lög á þriggja ára námsbrautum til stúdentsprófs strax í haust. Hafa kennarasamtökin ljáð máls á slíkum tilraunaverkefnum sem munu skipta miklu í innleiðingu nýrra laga og auðvelda þeim skólum sem á eftir koma sitt þróunarstarf.  Vil ég þakka skólameisturum fyrir þann áhuga og stuðning sem þeir hafa sýnt við þróunarstarf í sínum skólum.

Skólasamningar og innritun í framhaldsskóla

Skólasamningar eru það samskiptatæki sem ráðuneytið og framhaldsskólar hafa til þess að halda utanum verkefni í skólum og sammælast um áherslur og mælikvarða á árangur.  Samningarnir eru einnig mikilvægur rammi um fjárveitingar til skóla og námsframboð. Munu þeir fá auki vægi í framtíðinni við innleiðingu framhaldsskólalaga.  Lögin setja auknar skyldur bæði á ráðuneyti og skóla. Má þar nefna fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og aukna áherslu á velferð nemenda.  Áhrifa laganna mun gæta þegar við innritun í framhaldsskóla nú í vor. Þá ber ráðuneytinu skylda til þess að sjá öllum nemendum yngri en 18 ára fyrir skólavist.  Við endurnýjun skólasamninga fyrir skemmstu var leitað eftir reglum framhaldsskóla um inntöku nemenda og mun reyna á það ferli eftir afnám samræmdra prófa nú í vor.

Velferðarmál

Nýverið sendi ég skólameisturum erindi þar sem óskað var eftir hugmyndum þeirra um hvernig þeirra skólar geta brugðist við því ástandi sem nú hefur skapast í efnahagsmálum. Vil ég þakka þeim skólameisturum sem brugðust við erindi mínu fyrir upplýsandi svör. Fjallað verður nánar um þau mál síðar á þessum fundi en ég vil hér nefna tvö atriði. Ljóst er að framhaldsskólar gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við ungt fólk í þeim erfiðleikum sem uppi eru hér á landi. Á það við bæði um að sýna sveigjanleika gagnvart þeim sem leita eftir inngöngu í nám og einnig að styðja við nemendur á meðan á námi stendur.  Er mikilvægt að skólameistarar komi að þessum málum með opnum hug en hlutverk framhaldsskóla hvað þennan þátt varðar hefur aukist mikið undanfarin ár.

Fjármál framhaldsskóla

Það velkist enginn í vafa um að við eigum við mikinn efnahagsvanda að etja. Hver áhrif slæm fjárhagsstaða ríkisins mun hafa á starfsemi framhaldsskóla á enn eftir að koma í ljós en víst er að þau verða töluverð. Á þessum fundi verða kynntar niðurstöður vinnuhóps, sem skólameistarar áttu aðild að, um mögulegar sparnaðarráðstafanir vegna fjárlagagerðar næsta árs. Hefur sá hópur farið gagnrýnið yfir hina ýmsu þætti í starfsemi framhaldsskóla með tilliti til sparnaðar.  Mikilvægt er að hafa í huga að mikil hagræðing hefur átt sér stað í framhaldsskólum undanfarin ár. Einnig hefur aukin aðsókn þeirra sem missa atvinnu í framhaldsskóla þrengt möguleika skólanna til sparnaðar. Ekki bætir úr skák að framhaldsskólar hafa nú þegar þurft að taka á sig 3% skerðingu á þessu ári miðað við upphaflegt fjárlagafrumvarp.

Í þessari stöðu eru engar leiðir auðveldar og ljóst er að ekki er hægt að varpa því verkefni á skólana þannig að þeir sjái sjálfir um að skera niður kostnað við starfsemi sína.  Til þessa þarf að koma ákveðin forgangsröðun og þarf menntamálaráðuneytið að gera skólum kleift að fást við lækkun fjárheimilda.  Við leggjum áherslu á að tryggja öllum aðgengi að framhaldsskólum ekki síst á þeim erfiðu tímum sem nú eru í atvinnumálum. Einnig geri ég ráð fyrir að flestir vilji standa vörð um störf á þessum erfiðu tímum.  Við viljum líka tryggja  gæði framhaldsskólastarfs. Ef þetta á að takast þurfa allir að leggjast á eitt.

Endanlega er það ríkisstjórn og menntamálaráðherra sem bera ábyrgð á útfærslu þeirra en mikilvægt að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra sem best til þekkja um starf í framhaldsskólum. Þar skiptir aðkoma skólameistara miklu máli. 
Nú fyrir helgina átti ég fund með forsvarsmönnum Kennarasambandsins og Félags framhaldsskólakennara. Þar fór ég yfir horfur í fjármálum framhaldsskóla og nefndi að hugsanlega verður ekki  hjá því komist að skerða laun kennara eða fækka störfum þeirra til að  endar að náist saman á næsta ári.  Mun ráðuneytið halda þessum viðræðum áfram eftir því sem kostur er. Einnig mun menntamálaráðuneytið skoða öll þau úrræði sem til greina koma og hvort nauðsynlegt kann að verða að  breyta námskrám eða lögum til að takast á við þann fjárhagsvanda sem framundan er.  Umfram allt mun ráðuneytið leitast við að eiga gott samstarf við ykkur skólameistara og hagsmunaaðila almennt um lausnir við þeim vanda sem framundan er.  Á það líka við um rekstur framhaldsskóla á þessu ári sem mikilvægt er að halda í horfi því verði halli nú í ár er líklegt að hann muni íþyngja skólum næstu árin.

Ágætu skólameistarar

Það er auðvitað óþolandi aðstaða sem við erum í. Nú er það okkar að taka til eftir veisluna. Okkar skylda er að taka á ábyrgan hátt til við að byggja upp að nýju. Framhaldsskólum hefur á síðustu árum verið þröngt skorinn stakkur. Því miður er ekki útlit fyrir að ríkið hafi bolmagn til að komast hjá því að skerða framlög til mikilvægra málaflokka eins og framhaldsskólans, hvað þá að auka framlög. Nú reynir á okkur, reynir á útsjónarsemi, hugmyndaauðgi og þol. Þetta verða erfiðir tímar. Þess vegna er mikilvægt að samskiptin séu góð, samskiptin séu mikil, samskiptin séu hreinskiptin. Við höfum góðan grunn til að standa á. Við höfum þekkinguna, metnaðinn og reynsluna sem býr í framhaldsskólunum.

Ég vona að þessi fundur í dag verði hreinskiptinn og veiti okkur öllum gott veganesti fyrir leiðina framundan.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum