Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra - Evrópski tungumáladagurinn 25. september 2009

25. september 2009, Safnaðarheimili Neskirkju
Evrópski tungumáladagurinn

Góðir gestir.
Mér er það sönn ánægja að ávarpa ykkur í tilefni af Evrópska tungumáladeginum. Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn!

Dagurinn sjálfur er reyndar á morgun 26. september þannig að segja má að við séum að taka út smáforskot á sæluna. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur býður til þessarar dagskrár og mér er það ánægja að eiga hlutdeild í undirbúningi hennar og veita stuðning.

Evrópski tungumáladagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur um árabil. Hér  á eftir mun ég  veita Evrópumerkið sem eru verðlaun fyrir besta verkefnið á sviði tungumálakennslu en það er nú veitt í 7. sinn og kem ég nánar að því á síðar.

Um þessar mundir fagnar Félag enskukennara 40 ára afmæli sínu og óska ég þeim sérstaklega til hamingju með þann áfanga og allt það góða starf sem félagið hefur innt af hendi og enskukennarar í skólum landsins.

Dagskránni verður svo fram haldið  á morgun með ráðstefnu um aðferðir og nýbreytni í tungumálakennslu undir heitinu Bringing us Closer eða Þjöppum okkur saman.

Ég þarf ekki að fjölyrða um gildi tungumálanáms og mikilvægi þess. Sú þörf eykst frekar en hitt í síbreytilegum heimi þar sem fáu er að treysta. Það höfum við Íslendingar ekki síst fengið að reyna á síðustu mánuðum.

Á þessu ári fer Ísland með formennsku í norrænu samstarfi og þar er mennta- og menningarsamstarf mest að vöxtum. Í fyrradag ávarpaði ég ráðstefnu um Heildstæða menntun á Grand Hóteli og þar voru um 150 þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum. Þar var rætt um hvaða hæfni ungt fólk þyrfti að öðlast með menntun til þess að efla sig sem einstaklinga, takast á við lífið og undirbúa sig fyrir störf. Ráðstefnan fór fram á norrænum málum. Engum datt í hug að tala ensku, með fullri virðingu fyrir því tungumáli, og reyndi hver sem betur gat að gera sig skiljanlegan í virku hópastarfi. Þetta voru því mörgum erfiðir tveir dagar en jafnframt gefandi.

Það sem kom í ljós í umræðuhópum á ráðstefnunni var að fólk frá Norðurlöndunum leggur nokkuð ólíkan skilning í hugtök sem snúa að menntun en sameiginlegur skilningur jókst þegar Finnar, Danir, Norðmenn, Svíar, Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar ræddu um þau á ,,skandinavísku“. Jafnframt opnaðist sýn í menningu og hefðir hvers lands sem ekki hefði náðst ef ráðstefnan hefði farið fram á ensku. Þetta er eitt lítið dæmi um mikilvægi tungumálakunnáttu og þess geta tjáð sig við einstaklinga á ólíkum tungumálum.

Norðurlöndin hafa sammælst um að vinna að því að auka sameiginlegan skilning á tungumálum hvers annars og stuðla að því að Norðurlandabúar geti tjáð sig sín á milli. Því er ekki að neita að þar hafa skandínavísku löndin þrjú forskot en ávinningurinn í menningarlegu tilliti og í því að auka fjölbreytni málnotkunar vegur þar upp á móti fyrir Íslendinga.  Verður sérstöku átaki um norræn tungumál, Språkkampanje,  hleypt af stokkunum í lok þessa árs.

En þar eru fleiri erlend tungumál en norræn og þátttaka í Evrópusamstarfi kallar á víðari  tungumálaþekkingu. Kem ég þá að Evrópumerkinu.

Eins og ég sagði áðan er Evrópumerkið nú veitt hér í 7. sinn. Evrópumerkinu er ætlað að beina athygli að árangursríkum verkefnum í kennslu og námi í erlendum tungumálum og hvetja til þess þau nýtist sem flestum.  Að þessu sinni voru forgangssviðin tungumál og fjölmenning og tungumál og viðskipti.

Dómnefndin hefur komist þeirri niðurstöðu að verkefnið Íslenskuspilið skuli hljóta Evrópumerkið að þessu sinni. Dómnefndina skipa: Jórunn Tómasdóttir sem er formaður nefndarinnar og fulltrúi menntamálaráðherra, Þórhildur Oddsdóttir, tilnefnd af Samtökum tungumálakennara á Íslandi, Eyjólfur Sigurðsson og Michael Dal frá Háskóla Íslands.

Verkefnið Islenskuspilið sem hlýtur Evrópumerkið 2009 er unnið af Selmu Kristjánsdóttur kennara á vegum Þekkingarseturs Þingeyinga. Markmið verkefnisins er að auðvelda og þjálfa fullorðna útlendinga í alhliða tjáningu á íslensku. Notkun spilsins á að auðvelda þátttakendum að kynnast og þar með aðlagast íslensku samfélagi. Spilið er einkum þróað með fullorðna, útlenda nemendur í huga en það nýtist líka ágætlega við kennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. Íslenskuspilið er margnota námsefni, notkunarmöguleikar þess eru fjölbreyttir. Með því má æfa marga þætti málsins svo sem tjáningu, munnlega og skriflega, hlustun og lestur. Málfræði og setningarfræði er samofin efninu og lögð áhersla á að nemendur geti beitt málinu rétt. Spilið reynir því á marga færniþætti.

Nýbreytni Íslenskuspilsins felst einkum í spilinu sjálfu. Búið er að hanna námsefni sem svarar afar brýnni þörf í kennslu íslensku fyrir útlendinga. Kannanir hafa sýnt að mikil þörf er á fjölbreyttu ítarefni í þeim ranni, ítarefni sem kemur til móts við ólíkar þarfir nemenda. Það bætir því úr brýnni þörf. Helsti kostur spilsins er að hægt er að grípa til þess í skamman tíma í senn án mikils undirbúnings. Það felur í sér leik, skemmtun og lærdóm.

Ávinningur verkefnisins er augljós og áþreifanlegur. Nemendur kynnast flestum nauðsynlegustu þáttum íslenskunnar gegnum leik og auka félagslega færni sína  og þekkingu á landi og þjóð með skemmtilegum samskiptum við aðra.

Höfundur spilsins er hér á meðal okkar og ég hvet ykkur til að taka hana tali og spyrja hana nánar út í verkið.

Sjálf lýsi ég yfir ánægju minni með þetta val og þakka dómnefndinni vel unnin störf. Ég er sannfærð um að Íslenskuspilið á eftir að koma að góðum notum við kennslu útlendinga og aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

Ég bið verðlaunaþegann, Selmu Kristjánsdóttur, um að koma hérna til mín og taka við Evrópumerkinu og bókagjöf frá ráðuneytinu.

Megir þú vel njóta.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum