Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra opnar safn Miðstöðvar munnlegrar sögu 1. desember 2009

Opnun safns Miðstöðvar munnlegrar sögu

Í þeim góða hópi fræðimanna og áhugafólks um sagnfræði sem hér er saman kominn á þessum margfalda hátíðisdegi 1. desember kann að hljóma undarlega að byrja á að minna á þann eilífa sannleik sem felst í þeirri kenningu, að áður en við kynnum okkur söguna sé rétt að kynna sér sagnfræðingana, sem skrifa hana. Í reynd má halda því fram að sagan eins og hún birtist okkur samkvæmt hefðinni hafi ekki gerst; hún sé sköpuð úr þeim vísbendingum, hlutum og heimildum sem tíminn hefur skilið eftir sig. Það eru sagnfræðingar, sem hver um sig vinnur út frá eigin viðhorfum, skoðunum og kenningum sem búa söguna til. Það er því eðlilegt að sagan sé sífellt í endurskoðun. Hver kynslóð sagnfræðinga kemur fram með ný viðhorf, og áður óþekktar heimildir, eða vitneskja sem ekki hefur áður verið litið á sem heimild sem hafi sögulegt gildi, er stöðug að koma fram; sagnfræðingar líta því sífellt til nýrra vísbendinga í tilraunum sínum til að gefa sem gleggsta mynd af þeirri sögu, sem heimildir hafa að geyma.

Munnleg saga er einn flokkur slíkra vísbendinga, sem hefur notið aukinnar athygli síðustu ár. Í eina tíð var litið niður á viðlíka heimildir, og skilgreindar sem þjóðsögur, munnmælasögur og orðrómur – óæðri heimildir sem væru ekki nothæfar í vinnu sagnfræðinga. Þetta viðhorf hefur breyst, og Miðstöð munnlegrar sögu er góður vitnisburður um nýja tíma hvað þetta varðar. Fyrir tilstuðlan Miðstöðvarinnar hefur verið unnið ötult starf við söfnun munnlegra sagna síðustu ár, meðal annars með þátttöku almennings á menningarnóttum og Vetrarhátíð í Reykjavík. Auk þess hafa ýmsir aðilar afhent Miðstöðinni hljóðritanir sem tengjast sögu þeirra, eins og viðskipta- og iðnaðarráðuneytið gerði árið 2007.

Gildi munnlegra sagna er ótvírætt; slíkar heimildir geta bæði orðið til að staðfesta önnur gögn og véfengja, og eða gefið tilefni til að endurskoða ýmislegt sem hingað til hefur verið viðurkennt sem gild sagnfræði. Það er ljóst að stjórnmálamenn eru ekki lengur í þeirri stöðu sem Winston Churchill var þegar hann sagði, að sagan yrði sér hagstæð – því hann ætlaði sér að skrifa hana sjálfur.

En munnlegar sögur líkt og önnur gögn koma að litlu gagni ef aðgangur að þeim er takmarkaður. Því er fagnaðarefni að í dag erum við meðal annars hér saman komin til að opna safn Miðstöðvar munnlegrar sögu, sem þar með verður aðgengilegt öllum þeim sem vilja kynna sér þær heimildir, sem þegar eru fyrir hendi hjá henni. Það er mikill fengur, og aldrei að vita nema í ljósi þeirra breyti sagnfræðingar sýn okkar á söguna enn á ný – enda er sagan sífellt ný fyrir hverja kynslóð.

Þó að Hegel hafi haldið því fram að mannkynið hafi ekkert lært af sögunni annað en að mannkynið hafi ekkert lært af sögunni þá leyfi ég mér að telja að almenn söguþekking sé mikilvæg til að skilja samtímann og okkur sjálf til þess að vita hvert við stefnum í framtíðinni. Aukin virðing fyrir munnlegum frásögnum kann að hjálpa okkur á þeirri leið.

Um leið og ég opna safn Miðstöðvar munnlegrar sögu formlega vil ég óska Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni til hamingju með 15 ára afmælið hér í Þjóðarbókhlöðunni, og landsmönnum öllum til hamingju með 91 árs afmæli fullveldis landsins.

Takk fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum