Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

22. desember 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherrra flytur ávarp á 60 ára afmæli Landssambands hestamannafélaga í Iðnó 18. desember 2009

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum innilega til hamingju nú þegar þið fagnið þessum tímamótum í sögu Landssambands hestamanna.

Kjörorð Landssambands hestamanna lýsa best um hvað hestamennska snýst. Hún er íþrótt en er um leið lífsstíll og stór hluti af menningu okkar Íslendinga.

Hesturinn hefur fylgt Íslendingum allt frá því land var numið og hefur hann allar götur síðan skipað afar mikilvægt hlutverk í lífi okkar landsmanna og menningu, svo mikið að ef til vill má segja að án hans hefði íslensk þjóð ekki lifað af hér á landi.

Fyrr á öldum gerði hann okkur kleift að ferðast og flytja varning landshorna á milli og gegndi þannig lykilhlutverki í atvinnumálum okkar. En samt sem áður hafa menn notið hestaíþróttarinnar, um það vitna Íslendingasögurnar og bækur á borð við Horfna góðhesta. Þar má lesa um hoppdans hesta, vekringa og góðhesta. Í þessum bókum er að finna gömlu hestanöfnin á borð við Kengálu og Flugu og Glæsi og Sörla. Þessum góðu nöfnum eigum við að halda í heiðri.

En þjóðfélagið breyttist og íslenska hestinum var með tímanum skákað úr aðalhlutverki ferðafélagans og vinnuþjarksins. Um skeið var óljóst hvort hann hefði nokkru hlutverki að gegna á nýrri vélaöld sem einkenndist af ríkri áherslu á framkvæmdir og þróun verkmenningar, sem fleygði fram, jafnvel á kostað þeirrar mannræktar sem fylgja verður allri þróun svo unnt verði að tala um framfarir.

Um miðja síðustu öld var svo komið að íslenski hesturinn átti verulega undir högg að sækja; hann var orðinn gamaldags og ekki laust við að þeir sem stunduðu hestamennsku væru litnir hornauga og jafnvel taldir sérvitringar. Sem betur fer voru til menn sem skildu að aldrei mætti glatast sá merkilegi menningararfur sem íslenski hesturinn sannarlega er.

Þess vegna er það merkilegur viðburður sem við minnumst hér með hátíðlegum hætti í dag, þegar Landssamband hestamannafélaga var stofnað í Baðstofu iðnaðarmanna 18. desember 1949 af 12 hestamannafélögum.

Við eigum mikið að þakka mönnum á borð við Gunnar Bjarnason sem leiddi undirbúningsvinnu að stofnun samtakanna og H.J. Hólmjárn, fyrsta formanni samtakanna.

Á þessum 60 árum sem liðin eru hefur margt breyst á öllum sviðum hestamennskunnar. Landssambandið hefur staðið í fararbroddi og hefur haft afgerandi áhrif á þá þróun sem orðið hefur og ber að þakka það.

Aðstaða fyrir hestamenn hefur batnað til muna með betri húskosti og hagabeit, sem og tilkomu reiðvega víðs vegar um landið. Hestamannafélög hafa eignast reiðhallir fyrir starfsemi sína og bætt þannig umgjörð hestamannafélaga sem haft hefur þau áhrif að fólk tekur þátt í uppbyggingu hestamennskunnar, starfs sem leitt er af landssambandinu.

Öflug atvinnugrein hefur einnig sprottið upp í kringum íslenska hestinn með ferðaþjónustu, hrossarækt, hestasölu, tamningum og þjálfun. En hestamennskan er ekki síst fjölskylduíþrótt sem höfðar í dag til þúsunda Íslendinga.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, ráðuneyti íþrótta vinnur með íþróttahreyfingunni að því að efla íþróttastarf í landinu og hefur lengi átt ágætt samstarf við Landssamband hestamanna sem er meðal þeirra fjölmennustu innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambandsins en hestamannafélögin er nú 47 talsins.  Ráðuneytið stuðlar einnig að menntun þeirra sem að vinna á einhvern hátt við hestamennsku með rekstri Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ég er ekki í vafa um að umsvif hestamanna eigi eftir að aukast enn frekar og koma okkur að góðu liði við endurreisn samfélagsins. Það er vissulega fagnaðarefni en mestu máli skiptir samt að íþróttin, menningin og lífstíllinn geri okkur að betri manneskjum til að takast á við lífið í meðbyr og þegar á móti blæs. 

Ég vil ítreka mínar hamingjuóskir til ykkar og ég veit að Landssamband hestamanna mun áfram rækta það forystuhlutverk sem það hefur haft frá stofnun.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum