Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. mars 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á málþingi um UNESCO og menningararfinn í Þjóðminjasafni Íslands 25. mars 2010

Fyrirlesarar, góðir málþingsgestir

Í þau 65 ár sem UNESCO – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna – hefur starfað, hefur stofnunin komið ýmsu góðu til leiðar, til heilla fyrir þjóðir heims.

Meginhlutverk stofnana Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að friði í heiminum, auka velferð jarðarbúa og efla jöfnuð. Í starfi UNESCO gegna mennta- og vísindamálin lykilhlutverki, en ekki síður er mikilvægt starf stofnunarinnar á sviði menningar, upplýsinga og fjölmiðlunar og ekki má gleyma jafnrétti kynjanna.

Víða um heim liggja merkar menningarminjar undir skemmdum eða hafa þegar orðið tortímingunni að bráð m.a. í eilífum stríðsátökum þjóða. Heimsstyrjaldirnar tvær og nær okkur í tíma Balkanstríðið og Írakstríðið, svo að fáein átakanleg stríð séu nefnd, eyðilögðu fjölda menningar- og náttúruminja sem aldrei verður hægt að endurheimta að fullu.

Til að sporna við fótum sameinuðust aðildarríki UNESCO um að gera með sér alþjóðlegan sáttmála til verndar heimsminjum. Var hinn svokallaði heimsminjasamningur samþykktur á árinu 1972. Það liðu um 20 ár áður en Íslendingar staðfestu hann.

Töfralykill samningsins hefur reynst vera heimsminjaskráin. Ísland hefur fengið tvo staði viðurkennda: Þingvelli og Surtsey. Íslenska heimsminjanefndin vinnur að gerð nýrrar yfirlitsskrár sem byggir á ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 10. ágúst 2007. Þið heyrið meira um þetta á málþinginu.

En það eru fleiri minjar en þær sem mölur og ryð, vindur og vatn eða stríðtól mannanna fá grandað. Margs konar þekking, kunnátta og færni varðveitast ef hinir yngri nema af þeim eldri. Á árinu 2003 samþykktu aðildarlönd UNESCO samning um varðveislu óáþreifanlegra minja – menningarerfða eins og við höfum kallað þær á íslensku. Það voru ekki síst þróunarríkin sem þrýstu á þar sem þeirra menningarminjar liggja meira hér en í glæstum byggingum.

Eitt áhugavert varðveisluverkefni UNESCO ber heitið „Minni heimsins“. Það sameinar að varðveita í stafrænu formi mikilvæg skjöl – skjöl sem í mörgum löndum liggja undir skemmdum – og að veita fólki aðgang að þeim í gegnum netið. Safn Árna Magnússonar var samþykkt inn á þessa varðveisluskrá í fyrra. Mörg fleiri áhugaverð íslensk skjöl og handrit eiga fullt erindi inn á varðveisluskrána og vonum við að stofnanir okkar geti í náinni framtíð unnið góðar umsóknir til UNESCO.

Tungumálið – tæki mannsins til að tjá hugsanir og miðla þekkingu og færni á milli kynslóða – á víða undir högg að sækja. Af um 6.500 tungumálum í heiminum eru um 2.500 í hættu að hverfa. Þegar hafa um 200 tungumál horfið alveg. Vigdís Finnbogadóttir hefur lagt UNESCO liðsinni sitt í baráttunni sem velgjörðarsendiherra UNESCO á sviði tungumála. Henni er ekki síður hugleikið hlutverk tungumálsins sem miðils í samskiptum manna og þjóða á milli.

Góðir gestir

Í máli mínu hef ég einkum beint sjónum að hlutverki UNESCO á sviði menningarvarðveislu enda fjallar málþingið um það. En starfssvið UNESCO er svo miklu víðara. Hér á landi hefur íslenska UNESCO-nefndin umsjón með að miðla málefnum UNESCO. Vonandi getur hún síðar meir gert öðrum verkefnum UNESCO samsvarandi skil.

Ég vil að lokum geta þess að aðalframkvæmdastjóri UNESCO, Irina Bukova, er væntanleg í heimsókn til Íslands um miðjan apríl. Þá gefst gott tækifæri til að styrkja frekar tengsl Íslands við stofnunina.

Ég óska ykkur ánægjulegs málþings.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum