Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

28. apríl 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra afhendir garðyrkjuverðlaun Landbúnaðarháskóla Íslands 22. apríl 2010

22. apríl 2010, Reykjum, Ölfusi

Við afhendingu garðyrkjuverðlauna Landbúnaðarháskóla Íslands

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og afhenda Garðyrkjuverðlaunin. Mig langar að segja nokkur orð um mikilvægi garðyrkjumenntunar á þessum sérstöku tímum. Það er svo sannarlega í skugga eldgossins undir Eyjafjöllum þar sem við stöndum hér í dag og við hugsum til bænda og búaliðs hér fyrir austan. Þegar slík náttúruöfl láta á sér kræla er ekki óeðlilegt að við lítum til landsins og náttúrunnar og til þeirra afurða sem verða til með ræktun lands, hvort heldur til ræktunar túna, akuryrkju, beitar eða garðyrkju hverskonar.

Þrátt fyrir allt er þó vor í lofti og gróðurinn að vakna af vetrardvala. Í skrúðgörðum sjást nú stinga sér upp litskrúðug vorblóm og gras fer fljótlega að grænka. Í gróðurhúsum landsins er hinsvegar sól og hiti allan veturinn, þökk sé þeim ómetanlegu auðlindum sem felast í orku fallvatna og jarðhita og gera okkur kleift að rækta matjurtir og blóm árið um kring.

Garðyrkjan er að mínu mati atvinnugrein sem hlýtur að fá aukið vægi á tímum sem þessum þegar þjóðin endurskoðar grunngildi sín og nálgun í atvinnumálum til framtíðar. Garðyrkja byggir á nýtingu innlendrar sjálfbærrar orku til framleiðslu á vistvænum og heilnæmum mat – það finnast varla betri dæmi um atvinnugrein framtíðarinnar. Ég tel það borðleggjandi að við tökum öll höndum saman um að beita okkur fyrir framgangi og eflingu garðyrkjumenntunar á Íslandi.

Ég óska verðlaunahöfum til hamingju með viðurkenningarnar og afhendi þau hér með.


Verknámsstaður ársins 2010

Skrúðgarðar Laugardal, verknámskennarinn Guðný Arndís Olgeirsdóttir, skrúðgarðyrkjumeistari.

Guðný er fædd og uppalin í Reykjavík en áhugi hennar á garðyrkju og náttúrunni vaknaði þegar hún var í sveit sem krakki. Sem unglingur vann hún í ylræktarstöð við Laufskóga í Hveragerði og svo almenn garðyrkjustörf á sumrin þegar hún var í framhaldsskóla.  Bróðir Guðnýjar, Gunnsteinn Olgeirsson, hefur unnið lengi í garðyrkju og hóf Guðný störf á hans vinnustað árið 1986.  Fljótlega ákvað Guðný að drífa sig í nám í skrúðgarðyrkju.  Hún var á samningi hjá Jóhanni Diego skrúðgarðyrkjumeistara og útskrifaðist úr Garðyrkjuskólanum vorið 1990. Árið eftir lá leiðin í  meistaraskólann og fékk hún meistarabréfið 29. júní 1993.  Guðný hefur unnið alla tíð síðan hjá Garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar sem yfirverkstjóri hjá Skrúðgörðum Reykjavíkur. Hún hefur á þessum tíma tekið fjöldann allan af skrúðgarðyrkjunemum á samning og hafa nemendur fengið fjölbreytt og innihaldsríkt verknám hjá Guðnýju.  Guðný vill veg skrúðgarðyrkjunnar sem mestan og lítur svo á að með því að taka nema í faginu á samning sé hún að leggja sín lóð á vogarskálarnar.   

Hvatningaverðlaun garðyrkjunnar 2010

Garðyrkjustöðin Engi, Laugarási, Biskupstungum,  Ingólfur Guðnason og Sigrún Reynisdóttir.

Árið 1985 stofnuðu hjónin Ingólfur Guðnason og Sigrún Reynisdóttir garðyrkjustöðina Engi í Laugarási í Biskupstungum.  Þau eru bæði menntaðir garðyrkjufræðingar frá Garðyrkjuskóla ríkisins, útskrifuðust árið 1980.  Auk þess er Sigrún búfræðingur frá Hvanneyri og leikskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands.  Þeim er garðyrkjan í blóð borin enda hafa bæði starfað við fjölbreytt garðyrkjustörf frá unglingsárum. 

Í upphafi ræktuðu þau hjónin tómata og útimatjurtir, svo bættust garðplöntur við og jafnvel skógarplöntuframleiðsla um tíma.  Kryddjurtaræktun kom svo til sögunnar árið 1989 og voru þau hjónin brautryðjendur í ræktun og nýtingu ferskra kryddjurta hérlendis.  Eftir heilmikið og tímafrekt kynningarstarf tókst að koma veitingamönnum og verslunarfólki á bragðið og nú eru þau með að jafnaði um 15 tegundir kryddjurta til sölu og gera stöðugt tilraunir með nýjar tegundir.  Frá árinu 1994 hefur ræktun á Engi verið lífræn.  Sama ár hófst tilraunaræktun á íslensku lækningajurtinni ætihvönn og tóku eigendur Engis þátt í stofnun fyrirtækisins SagaMedica sem framleiðir úrval náttúrulyfja úr íslenskri ætihvönn.

Ingólfur er sérfræðingur í grasnytjafræði og hefur fjöldi aðila notið ráðgjafar hans á því sviði, svo sem Norræna húsið,  Ólafsdalsfélagið og Lækningaminjasafnið í Nesstofu á Seltjarnarnesi.  Árið 2004 sá hann um standsetningu jurtagarðs í Skálholti.  Hann er núverandi formaður félagsins Matur-Saga-Menning sem hefur það að markmiði að halda á lofti íslenskri matarmenningu og matarhefð, þar með talið garðyrkjuafurðum og sögu þeirra.  Ingólfur situr í nefnd Norræna genabankans um íslenskar nytjajurtir og er í stjórn Græna geirans, regnhlífarsamtaka allra félaga sem tengjast garðyrkju.  Garðyrkustöðin Engi tekur þátt í verkefnunum ,,Beint frá býli“, ,,Opnum landbúnaði“ og ,,Matarklasa Suðurlands“ auk þess sem samvinna er í gangi við hóp nemenda við Listaháskóla Íslands um vöruþróun á framleiðsluvörum býlisins undir merkinu ,,Stefnumót hönnuða og bænda“.

Sigrún og Ingólfur láta ekki þar við sitja að fá góðar hugmyndir, þau hrinda þeim í framkvæmd.  Þannig má sjá á Engi ávaxtatré í óupphituðum gróðurhúsum þar sem frá og með síðasta sumri var hægt að kaupa íslensk epli og kirsuber,  tilraunaræktun með austurlenskar og framandi grænmetistegundir lofar góðu og þau opnuðu gríðarlega vinsælan bændamarkað með lífrænt ræktaðar garðyrkjuafurðir.  Voru móttökur framar björtustu vonum og er óhætt að fullyrða að völundarhúsið þeirra, úr klipptu gulvíðilimgerði, hefur slegið í gegn. 

Framkvæmdagleði þeirra er öðrum hvatning til góðra verka. 

Heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2010

Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt FÍLA (Félag íslenskra landslagsarkitekta).

Reynir Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík árið 1934.  Hann lærði til garðyrkjufræðings við Garðyrkjuskóla ríkisins og útskrifaðist þaðan árið 1953.  Þar kynntist hann Jóni H. Björnssyni landslagsarkitekt sem þá var kennari við skólann.  Jón var fyrsti íslenski landslagsarkitektinn og hafði numið í Bandaríkjunum. 

Reynir fékk vinnu hjá Jóni eftir garðyrkjunámið en sá fljótlega að hann hefði áhuga á frekari menntun.  Hann hélt því til Danmerkur í framhaldsnám í skrúðgarðyrkju og svo áfram í landslagsarkitektúr en hann útskrifaðist sem landslagsarkitekt frá arkitektadeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn árið 1961.  Samhliða námi starfaði hann með þekktum dönskum landslagsarkitektum og allt til ársins 1963 þegar hann flutti heim til Íslands og stofnaði sína eigin teiknistofu.  Í gegnum tíðina hefur Reynir starfað að margs konar skipulagsmálum, svo sem hönnun Árbæjarhverfis, Seláshverfis og Neðra-Breiðholts, heildarskipulagi Elliðaárdals og Laugardals í Reykjavík, skipulagt skrúðgarða eins og Klambratún og Húsdýragarðinn auk þess sem hann hefur hannað íþrótta- og útivistarsvæði, umferðarmannvirki og snjóflóðavarnarmannvirki.   Reynir hefur tekið þátt í fjölda hugmyndasamkeppna og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín í gegnum tíðina.  Árið 2001 var hann gerður að heiðursfélaga í FÍLA. 

Reynir var stundakennari við Garðyrkjuskóla ríkisins á upphafsárum skrúðgarðyrkjunnar og hefur skrifað fjölda faglegra greina í ýmis tímarit og bækur.  Með verkum sínum hefur Reynir sett mark sitt á umhverfi okkar og gert garðyrkju sýnilega almenningi og þar með haft umtalsverð áhrif á þróun garðyrkju og ásýnd þéttbýlis.  Hann er því vel að heiðursverðlaunum garðyrkjunnar kominn.  


 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum