Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

14. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp við undirritun samnings við Keili á þriggja ára afmæli skólans 7. maí 2010

Undirritun samnings við Keili á þriggja ára afmæli skólans
Undirritun samnings við Keili á þriggja ára afmæli skólans

7. maí 2010, Keilir Reykjanesbæ

Undirritun samnings við Keili á þriggja ára afmæli skólans

Keilir á sér rætur í viðleitni til endurreisnar á Suðurnesjum. Með brottför bandaríska hersins, samdrætti í sjávarútvegi og vaxandi atvinnuleysi í kjölfar bankahruns sköpuðust aðstæður á þessu svæði sem kölluðu á ný úrræði og nýsköpun í atvinnumálum. Bætt menntun er grunnur bæði fyrir uppbyggingu samfélags og nýsköpun í atvinnulífi. Þar hafa Keilir og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar mótað nýjar leiðir og leitast við að tengja saman menntun og atvinnuþróun.

Þörfin er mikil fyrir nám og stoðir fyrir ungt fólk til að fóta sig á menntabrautinni hvort sem er til að undirbúa sig fyrir háskólanám eða beint til þátttöku í atvinnulífi. Á tímum efnahagssamdráttar og atvinnuleysis er nauðsynlegt að missa ekki trú á framtíðina heldur skapa sýn og lausnir sem leitt geta okkur út úr vandanum. Með því að sækja menntun er einstaklingurinn að skapa sér slíka sýn og þroska sig til betri verka. En menntastofnanir þurfa líka að hafa slíka sýn sem og stjórnvöld í sinni forgangsröðun og áherslum.

Keilir hefur lagt fram sínar áherslur og býður nú nám tengt flugi, orkutækni, heilsu og undirbúningi fyrir háskóla. Alþingi hefur veitt fjármagn til reksturs Keilis á fjárlögum og er því ætlað að styðja við frumgreinanám og vinnumarkaðsúrræði. Keilir hefur sett upp nám í samstarfi við Háskóla Íslands og menntamálaráðuneyti hefur viðurkennt námsbrautir á framhaldsskólastigi. Keili hafa því verið skapaðar ákveðnar forsendur til þess að taka þátt í endurreisn á Suðurnesjum. Mikilvægt er að það nám sem hér er í boði komi til móts við þarfir nemenda og atvinnulífs og standist gæðakröfur.

Í dag verður undirritaður samningur um ráðstöfun 108 milljóna króna framlags sem Alþingi hefur veitt til starfsemi Keilis á þessu ári. Þegar niðurstöður úttektar sem nú fer fram liggja fyrir mun ráðuneytið meta stöðuna. Það er ljóst að við núverandi aðstæður í efnahagsmálum þarf að gæta verulegs aðhalds, líka í menntamálum. Við verðum að skoða námsframboð í hverjum landshluta í heild sinni, forðast tvíverknað og tryggja skýra verkaskiptingu milli þeirra menntastofnana sem starfa á hverjum stað. Þannig tryggjum við líka gagnsæi og skynsemi í meðferð þess takmarkaða fjár sem nú er til ráðstöfunar.

Það vakti athygli mína þegar niðurstöður þjóðfunda sem haldnir hafa verið á vegum Sóknaráætlunar 20/20 voru kynntar að Suðurnesjamönnum er umhugað um framtíð Keilis og líta á hann sem eitt af sínum helstu sóknarfærum.

Ég óska Keili til hamingju með afmælið og ykkur öllum með það starf sem hér fer fram.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum