Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

14. maí 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ræðu við undirritun menningarsamnings og úthlutun menningarstyrkja fyrir Suðurland í Ráðhúsinu Þorlákshöfn 3. maí 2010

Undirritun Menningarsamnings og uthlutun menningarstyrkja 2010
Undirritun Menningarsamnings og uthlutun menningarstyrkja 2010

3. maí 2010, Ráðhúsið í Þorlákshöfn

Undirritun menningarsamnings við Suðurland og úthlutun styrkja

Góðir Sunnlendingar
Suðurland er tvímælalaust orkumesta svæði landsins með virkar eldstöðvar, jarðhita og vatnsföll og megnið af raforku þjóðarinnar kemur héðan. Ég held að krafturinn í jörðinni streymi upp um fætur Sunnlendinga því þeir eru svo ótrúlega kraftmiklir, útsjónarsamir og æðrulausir eins og við sjáum núna þegar eldgos stendur yfir í Eyjafjallajökli.

Fyrir skömmu var greint frá niðurstöðum rannsókna á þátttöku okkar í listum og menningu, bæði sem virkir þátttakendur og áhorfendur, áheyrendur og svo framvegis. Ef við berum okkur saman við nágranna okkar í Skandinavíu og víðar í Evrópu er ljóst að þátttaka okkar er meiri en gerist og gengur. Það er einnig athyglisvert að munurinn er minni milli þéttbýlis og dreifbýlis en vænta mátti og einnig milli mismunandi þjóðfélagshópa miðað við menntun. Það virðist sem ennþá eimi eftir af einsleitni samfélagsins og lítilli stéttaskiptingu, í það minnsta hvað þetta varðar. Það má ef til vill leita skýringanna í sögu okkar því hér var hvorki hirð né aðall og þrátt fyrir misskiptingu auðs þá festist aðgreining þjóðfélagshópa ekki eins í sessi og víðast annars staðar í heiminum. Það er líka merkilegt að frá alda öðli virðist bókaeign hafa vera nánast eins eftirsóknarverð og fjöldi fjár eða nautgripa og það segir okkur talsvert um hugarfarið. Þessi þáttur samfélagsins hefur hins vegar verið afar lítið rannsakaður og reyndar eru menningarrannsóknir mjög fátíðar hjá okkur, nema á afmörkuðum sviðum.

En það eru blikur á lofti og þróunin er í sömu átt og annars staðar í Evrópu, sem er að sá hópur stækkar sem aldrei les bókmenntir, fer í leikhús, tónleika, sýningar og svo framvegis. Hér verðum við að spyrna við fótum og áhrifamest í þeim efnum er að ala börn upp í því að þátttaka í skapandi starfi og að njóta lista og menningar sé sjálfsagður og nauðsynlegur hluti dagslegs lífs. Við þurfum aðstoð skólans í þessu efni og efla skapandi starf og listgreinar.
Ágætu Sunnlendingar. Það er mér heiður og ánægja að fá tækifæri til að taka þátt í þessari athöfn. Ég hef að undanförnu verið viðstödd undirritun menningarsamninga og úthlutun úr menningarsjóðum víða um land og er alltaf jafn hissa og nánast hrærð yfir því hve krafturinn og fjölbreytnin er mikil. Ég óska ykkur öllum til hamingju og velfarnaðar.

Undirritun menningarsamnings og úthlutun menningarstyrkja fyrir Suðurland
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytur ræðu við undirritun menningarsamnings og úthlutun menningarstyrkja fyrir Suðurland í Ráðhúsinu Þorlákshöfn kl. 15:00.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum